Hæstiréttur íslands
Mál nr. 702/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
|
|
Föstudaginn 15. nóvember 2013. |
|
Nr. 702/2013. |
A B C og D (Björn L. Bergsson hrl.) gegn dánarbúi E (enginn) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var á kröfu A, B, C og D um að dánarbú E yrði tekið til opinberra skipta. E lést í [...] 2013 og lauk sýslumaður skiptum á búi hans 2. september sama ár sem eignalausu samkvæmt 26. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. A, B, C og D byggðu beiðni sína á 3. mgr. 40. gr. laganna og kváðust eiga kröfu á hendur dánarbúinu um laun í uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningum við þann látna vegna umönnunarstarfa. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til þess að ekki hefði verið sýnt fram á að dánarbúi E hafi tilheyrt eignir eða að skort hafi af öðrum sökum skilyrði eftir 26. gr. laga nr. 20/1991 til ljúka skiptum á þann hátt sem gert hafði verið.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú E yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að krafa þeirra um opinber skipti verði tekin til greina. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka, en fyrir héraðsdómi virðist hafa verið farið með mál þetta samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 43. gr. laga nr. 20/1991 og erfingjar E ekki kvaddir til þinghalds vegna kröfu sóknaraðila.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lést E [...] [...] 2013 og lauk sýslumaður skiptum á dánarbúi hans 2. september sama ár samkvæmt 26. gr. laga nr. 20/1991. Sóknaraðilar, sem kveðast eiga kröfur á hendur dánarbúinu um laun í uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningum við þann látna vegna umönnunarstarfa, hafa ekki sýnt fram á að varnaraðila hafi tilheyrt eignir eða að skort hafi af öðrum sökum skilyrði eftir síðastnefndu lagaákvæði til að ljúka skiptum á þann hátt, sem gert var. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2013.
Með beiðni, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 4. september 2013, var þess krafist að dánarbú A, kt. [...], síðast til heimilis að [...], [...], verði tekið til opinberra skipta. Um lagarök fyrir skiptabeiðni er vísað til 3. mgr. 40. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
I
Í skiptabeiðni er málsatvikum lýst svo að Sýslumanninum í [...] hafi verið tilkynnt um andlát A [...] [...] 2013. Sama dag hafi syni hins látna, B, verið veitt heimild til þess að krefjast upplýsinga hjá öðrum um eignir og skuldastöðu dánarbúsins samkvæmt 24. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Þann 2. september 2013 hafi sýslumaður lokið skiptum á dánarbúinu sem eignalausu samkvæmt 26. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Hinn látni hafi verið með samning við [...] um notendastýrða persónulega aðstoð, þ.e. svokallaða NPA þjónustu. Tilhögun þjónustunnar hafi verið með þeim hætti að hinn látni fékk greidda ákveðna fjárhæð til þess að ráða til sín starfsmenn sem unnu við umönnun hans. Þessir starfsmenn hafi síðan fengið laun greidd úr hendi hins látna, sem rak umönnun sína sem einkafirma sitt í eigin nafni. Við andlát A hafi launagreiðslur starfsmanna hans eðli málsins samkvæmt fallið niður. Um kjör starfsmanna hins látna fari samkvæmt sérstökum kjarasamningi sem gerður hafi verið við NPA miðstöðina af hlutaðeigandi stéttarfélögum. Samkvæmt því eigi skiptabeiðendur rétt til launa í samningsbundnum uppsagnarfresti eftir andlát A. Í skiptabeiðni segir að kröfur þessara launamanna nemi því launum í uppsagnarfresti eftir rétti hvers þeirra um sig samkvæmt samningum. Heildarhöfuðstóll þeirra krafna nemi 3.129.410 krónum. Í skiptabeiðni segir að þrátt fyrir að sýslumaður hafi lokið skiptum á dánarbúinu sem eignalausu sé skiptabeiðendum brýnt að búið verði tekið til opinberra skipta þar sem slíkt sé forsenda þess að þeir komi kröfum sínum að við skiptin. Með því móti geti skiptabeiðendur lýst kröfum sínum við Ábyrgðarsjóð launa sem, samkvæmt 1. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðarsjóð launa, tryggi launamönnum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda eða þegar dánarbú hans er til opinberra skipta og erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar. Ekkert liggi fyrir um það hvort dánarbúið hafi látið reyna á samninginn við [...] um greiðslur um efndir á umræddum launagreiðslum í uppsagnarfresti. Þar sem ekki hafi verið leyst úr þessum málefnum dánarbúsins sé skiptabeiðendum nauðugur einn kostur að krefjast opinberra skipta til að fá kröfur sínar greiddar.
II
Í 3. mgr. 40. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. segir að taka megi dánarbú til opinberra skipta eftir kröfu þess sem á kröfu á hendur því þótt skiptum hafi áður verið lokið samkvæmt 25. eða 26. gr. sömu laga, sýni kröfuhafi fram á að ekki hafi verið skilyrði til að ljúka skiptum með þeim hætti sem var gert, enda eigi hann ekki önnur úrræði til að fá kröfu sinni fullnægt. Samkvæmt umræddu lagaákvæði verður kröfuhafi, sem fer fram á opinber skipti, að fullnægja tveimur skilyrðum til að koma fram opinberum skiptum við þessar aðstæður. Annars vegar verður kröfuhafi að sýna fram á, að skilyrði hafi ekki verið til að ljúka skiptum með þeim hætti, sem var gert. Með þessu er þá öðru fremur höfð í huga sú aðstaða, að ekki hafi verið upplýst um allar eignir dánarbús þegar skiptum var lokið fyrir sýslumanni og kröfuhafi geti sýnt fram á tilvist frekari eigna. Hins vegar verður að vera svo ástatt, að kröfuhafinn geti ekki neytt annarra úrræða en þessa til að fá fullnustu kröfu sinni.
Svo sem fyrr hefur verið rakið var samningssambandi hins látna við skiptabeiðendur háttað þannig að hinn látni fékk reglulega greidda ákveðna fjárhæð frá [...] sem hann síðan greiddi skiptabeiðendum fyrir að annast sig. Skiptabeiðendur byggja kröfu sína um opinber skipti meðal annars á því að ekkert liggi fyrir um hvort dánarbúið hafi látið reyna á samninginn við [...]. Engin gögn verið lögð fram í málinu um að [...] hafi viðurkennt réttmæti umræddra krafna skiptabeiðenda til launa í uppsagnarfresti. Að mati dómsins hefur skiptabeiðendum því ekki tekist að sýna fram á tilvist frekari eigna í dánarbúi hins látna þannig að ekki hafi verið skilyrði til að ljúka skiptum hjá sýslumanni með þeim hætti sem gert var samkvæmt 3. mgr. 40. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. er kröfu skiptabeiðenda hafnað svo sem nánar greinir í dómsorði.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu skiptabeiðenda, um að dánarbú A, kt. [...], síðast til heimilis að [...], [...], verði tekið til opinberra skipta, er hafnað.