Hæstiréttur íslands

Mál nr. 528/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


Föstudaginn 21. ágúst 2015.

Nr. 528/2015.

A

(Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)

gegn

B

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. ágúst 2015, sem barst  réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2015, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 2. ágúst 2015 um að sóknaraðili skyldi vistaður á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili var með samþykki innanráðuneytisins 2. ágúst 2015 vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum í allt að 21 sólarhring frá þeim tíma samkvæmt heimild í 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns,  og talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2015.

Með kröfu, sem dagsett er 2. ágúst sl. og barst réttinum 4. ágúst sama ár, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 2. ágúst sl., um að hann skuli vistast á sjúkrahúsi. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Málið var þingfest í dag og tekið samdægurs til úrskurðar.

Varnaraðili, B, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun innanríkisráðuneytisins um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi staðfest og málskostnaður talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði.

Um aðild varnaraðila vísast til 20. gr., sbr. a-lið 2. mgr. 7. gr., laga nr. 71/1997.

Í beiðni varnaraðila 2. ágúst sl. um nauðungarvistun sóknaraðila kemur fram um ástæður hennar að um sé að ræða [...] mann sem lagður hafi verið inn á geðdeild vegna oflætis með geðrofi sem veita þurfi meðferð. Hann hafi lagst sjálfviljugur inn á bráðageðdeild 30. júlí sl. og fengið lyfjameðferð, m.a. geðrofslyf. Hafi hann síðar sama dag orðið mjög órólegur og viljað útskrifast og hótað vakthafandi lækni. Hafi þá verið talin þörf á að nauðungarvista hann í 48 klukkustundir.  Þörf hafi verið talin á áframhaldandi nauðungarvistun svo unnt væri að veita sóknaraðila viðhlítandi meðferð.

Með beiðninni fylgir ítarlegt læknisvottorð C, geðlæknis, dagsett 2. ágúst sl. Þar kemur fram um sjúkdómsferil og félagslegar aðstæður sóknaraðila að um [...] [...] [...] [...] sé að ræða. Hann hafi lengi þjáðst af þunglynd, kvíða og ADHD og verið á þunglyndislyfjameðferð í mörg ár og verið í eftirliti á göngudeild geðdeildar við Hringbraut.  Sóknaraðili sé öryrki vegna veikinda sinna.  Hann hafi verið í [...], en ekki getað unnið í mörg ár.  Sóknaraðili sé nú í fyrsta sinn lagður inn á sjúkrahús vegna geðhvarfa, oflætis með geðrofseinkennum.  Hegðun hans hafi verið mjög undarleg.  Hann hafi sýnt einkenni oflætis og verið með ranghugmyndir, stórtæk og óraunsæ plön, skerta dómgreind, aukinn talþrýsting, töluverða hugsanatruflun, minnkaða svefnþörf og takmarkað innsæi.  Er vottorðið var ritað taldi læknirinn að geðrofseinkenni væru ekki eins áberandi og við innlögn á spítala en hann væri enn með önnur oflætiseinkenni.  Hann hafi ítrekað sagst vilja vera áfram á geðdeildinni, en skipt mjög fljótt um skoðun og virðast gleyma því sem á undan sé gengið.  Þá segir í vottorðinu að meðferð á geðdeild muni verulega draga úr sjúkdómseinkennum og auka líkur hans á að ná bata, en án meðferðar muni líðan hans versna til muna.  Mjög ólíklegt sé að ráðið verði við sjúkdóminn utan deildar.  Allt áreit utan geðdeildar sé líklegt til að sjúkdómseinkenni versni og takmarkað innsæi sóknaraðila í sjúkdóm sinn, hugsanatruflanir og skert dómgreind, leiði til þess að líkur á meðferðarheldni séu litlar.  Meiri tíma vegna oflætisástands vegna geðrofs.  Hegðun hans undanfarið, hugsanatruflanir og skert dómgreind hans geri það að verkum að hætta sé á að hann fari sér að voða.  Mat læknirinn að nauðungarvistun á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 væri því óhjákvæmileg vegna alvarlegs geðsjúkdóms.

D, yfirlæknir á geðdeild, sem hefur sinnt sóknaraðila í innlögn hans á geðdeild, gaf einnig símaskýrslu fyrir dóminum.  Fram kom í máli hennar að sóknaraðila hefði farið fram og innsæi hans færi vaxandi.  Hann væri þó enn metinn veikur.  Hann væri enn ör, tali mikið, þoli illa áreiti og sofi enn illa.  Taldi hún hann ekki geta ráðið við daglegt líf enn þá.  Hann sé enn í maníu og þurfi því að vera eitthvað áfram.   Fram kom í máli hennar að sóknaraðila hefði farið fram og innsæi hans færi vaxandi.  Hann væri þó enn metinn veikur. Þrátt fyrir batnandi innsæi væri það þó ekki nægilegt og því væri enn brýn nauðsyn á að sóknaraðili væri áfram nauðungarvistaður.  Í ljósi þess hve stutt sé síðan að ástand hans hafi verið mjög alvarlegt þurfa að fullvissa sig um að hann hefði náð þeim bata sem nauðsynlegur sé til að nauðungarvistuninni verði aflétt. 

E, deildarlæknir, og sinnt hefur sóknaraðila í innlögn hans á geðdeild, gaf einnig símaskýrslu fyrir dóminum.  Fram kom í máli hennar að hún teldi sóknaraðila alls ekki hafa náð þeim bata að hann gæti útskrifast af geðdeild.  Hætta væri á að ástand hans gæti þá versnað.  Kvað hún sóknaraðila vera enn mjög öran og tala mjög mikið og hann hefði takmarkað innsæi í alvarleika veikindanna. 

Sóknaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann var rólegur og krafðist þess að nauðungarvistuninni yrði aflétt.  Sóknaraðili taldi ástand sitt ekki slíkt að hann þyrfti að vera nauðungarvistaður, áreitið á geðdeildinni væri mikið.  Honum liði miklu betur núna og kvaðst geta tekist á við lífið með góðri hjálp systur sinnar, sem hefði boðist til að vera hjá honum.  Hann kvaðst tilbúinn að taka þau lyf sem læknar ráðlegðu honum.  Kvað hann ástæðu innlagnar sinnar hafa verið stress og það að hann hefði lítið sofið í nokkra sólarhringa, en nú hefði hann náð sér.  Honum liði ekki vel á geðdeildinni, m.a. vegna mikils áreitis þar. 

Talsmaður sóknaraðila vísaði til þess að skilyrði 19. gr. laga nr. 71/1997 um nauðungarvistun sóknaraðila væru ekki fyrir hendi og því bæri að fella ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 2. ágúst sl. úr gildi.  Vísaði hann til þess sem fram hefði komið hjá sóknaraðila að hann hefði náð miklum bata.  Nauðungarvistun væri ekki nauðsynleg til verndar lífi og heilsu sóknaraðila, en eins og fram hefði komið hjá meðferðarlækni hefði heilsa hans batnað frá innlögn og hann tæki þau lyf sem talin væru nauðsynleg.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun sóknaraðila verði staðfest.  Byggir hún á því að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn fyrir hendi í tilviki sóknaraðila og vísar um það til framlagðs vottorðs og símaskýrslu geðlækna fyrir dóminum.  Sóknaraðili sé að mati lækna haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og mikilvægt sé að hann fái viðeigandi meðferð.  Sóknaraðili hafi enn ekki náð þeim bata sem nauðsynlegur sé til að nauðungarvistuninni verði aflétt.

Fram er komið í málinu að sóknaraðili var við komu á bráðamóttöku geðdeildar með geðrofseinkenni.  Þá er einnig komið fram að ástand sóknaraðila var mjög alvarlegt fyrstu daga innlagnar.  Í ljósi þessa og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, sérstaklega vottorði geðlæknisins C og símaskýrslu D geðlæknis og E deildarlæknis, fyrir dóminum, verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. laga nr. 71/1997 hvað varðar ástand sóknaraðila.  Verður að telja í ljós leitt að enn sé brýn nauðsyn á að hann dvelji áfram á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi meðferð.  Verði nauðungarvistuninni aflétt verður að telja hættu á að heilsu hans verði stefnt í voða og möguleikum spillt á bata. Á hinn bóginn er ljóst að með inngripi nú hefur sóknaraðili góða möguleika á að ná bata og takast á við lífið. Verður því að telja nauðungarvistun sóknaraðila óhjákvæmilega.

Framburður sóknaraðila fyrir dóminum bendir til þess að hann hafi ekki enn öðlast innsæi í núverandi ástand sitt og vanda.  Þá eru fyrirliggjandi læknisvottorð og framburður þeirra lækna sem annast hafa sóknaraðila samhljóða um að alls ekki sé tímabært að aflétta nauðungarvistun hans.  Með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997, og með hagsmuni sóknaraðila sjálfs í huga og líkur hans á bata með inngripi nú, verður því að staðfesta ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að hann skuli vistast á sjúkrahúsi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, og skipaðs talsmanns varnaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði og er þóknunin ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, frá 2. ágúst 2015, um að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli vistast á sjúkrahúsi.

Kostnaður af málinu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Jóns Bjarna Kristjánssonar, 150.000 krónur, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 150.000 krónur.