Hæstiréttur íslands

Mál nr. 13/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Föstudaginn 8. janúar 2016.

Nr. 13/2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Leifur Runólfsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingur. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Eftir að málið barst Hæstarétti var rétturinn upplýstur um að X hefði þegar verið afhentur frönskum yfirvöldum. Var málinu því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nánar tilgreindu gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 4. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa nái fram að ganga.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Hæstarétti hefur borist tölvubréf sóknaraðila þar sem upplýst er að varnaraðili hafi verið afhentur frönskum yfirvöldum fyrr í dag. Samkvæmt því er ljóst að það ástand, sem leitt hefur af hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.  

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, f. [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 8. janúar n.k. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gærdag hafi lögregla handtekið X þar sem hann hafi verið skráður eftirlýstur í kerfum lögreglu.

Forsaga málsins sé sú að þann 5. nóvember 2014 hafi X mætt á lögreglustöðina við Hverfisgötu og óskað eftir alþjóðlegri vernd (hælis). X hafi þá þegar verið með hælisumsókn til meðferðar í Frakklandi.

Þann 20. janúar 2015 hafi Útlendingastofnun tekið þá ákvörðun, í máli nr. UTL 2014-[...], að X yrði að yfirgefa landið á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar nr. 604/2013/EB. Ákvörðunin hafi verið birt fyrir X þann 23. janúar 2015.

X hafi kært ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála og vísað m.a. máli sínu til stuðnings að hann teldi sig ekki óhultan í Frakklandi og hann óttaðist afleiðingar þess að vera endursendur þangað. Aðstæður hælisleitanda í Frakklandi væru slæmar, sérstaklega fyrir samkynhneigða einstaklinga. Kærunefndin hafi kveðið upp úrskurð, þann 24. júní 2015 nr. [...]/2015, þess efnis að ákvörðun útlendingastofnunar væri staðfest.

Þess hafi þá verið óskað f.h. X að réttaráhrifum á úrskurði kærunefndarinnar yrði frestað. Þann 26. ágúst hafi kærunefnd útlendingamála kveðið upp úrskurð um að kröfu X um frestun réttaráhrifa væri hafnað.

Þann 18. september sl. hafi X ekki mætt í boðaða birtingu hjá Ríkislögreglustjóra þar sem fyrirhugað var að birta honum fyrrgreindan úrskurð kærunefndar varðandi beiðni um frestun réttaráhrifa. Lögmaður hans, [...] hdl., hafi hins vegar mætt og sagt að X hafi lýst því yfir að hann væri farinn í felur frá lögreglu og yfirvöldum. Í kjölfarið hafi hann verið skráður eftirlýstur í lögreglukerfi með tilliti til birtingar.

Þann 13. október hafi niðurstöðu kærunefndar varðandi beiðni um frestun réttaráhrifa verið birt formlega fyrir [...] hdl.

Þann 22. október hafi lögreglu borist beiðni Útlendingastofnunar um framkvæmd í samræmi við ákvörðun, það er lögreglufylgd yfir X til Frakklands. Hafi hún verið áætluð seinnipartinn í nóvember en ekki hafi tekist að ná sambandi við X. Hafi því verið haft samband við [...] hdl. sem sagði X ekki munu eiga samstarf lögreglu þar um. Í kjölfarið hafi verið hætt við umrædda framkvæmd og X skráður eftirlýstur í lögreglukerfi til handtöku með tilliti til framkvæmd.

Fyrir liggi heimild Frakklands til endurviðtöku á X föstudaginn 8. janúar. Lögregla ráðgeri að framkvæmd fari fram þann dag.

X hafi farið huldu höfði og ekkert til hans náðst um nokkurn tíma enda full ljóst að hann vilji ekki hafa samstarf við lögreglu um för úr landi. Lögreglu þyki því ljóst að nauðsyn sé til að tryggja framkvæmd með gæsluvarðhaldi og ekki verði hægt að styðjast við aðrar vægari aðferðir í því sambandi enda hafi lögregla ekkert til hans náð um nokkurt skeið uns hann hafi verið handtekinn í gærdag.

Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 4. mgr. 33. gr. a., sbr. 5. mgr. 33. gr., laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða

Eins og að framan er rakið hefur kærunefnd útlendingamála með úrskurði staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að beiðni varnaraðila um að honum verði veitt hæli á Íslandi verði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi heldur skuli hann sendur ásamt beiðni sinni til Frakklands. Þá hefur kærunefndin hafnað kröfu hans um frestun réttaráhrifa úrskurðar ráðuneytisins.

            Heimild til að handtaka útlending og setja í gæsluvarðhald er að finna í 4. mgr. 33. gr. a.  laga um útlendinga nr. 96/2002. Þar er kveðið á um að heimilt sé að beita því úrræði ef nauðsynlegt er til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið. Gögn málsins sýna að reynt var að framfylgja þeirri ákvörðun Útlendingastofnunar eftir að úrskurður kærunefndar útlendingamála lá fyrir sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar og jafnframt ákvörðun þar sem hafnað var beiðni um frestun réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar. Varnaraðili er mótfallinn því að fara úr landi og hefur af þeim sökum farið huldu höfðu um nokkurt skeið. Hefur hann verið eftirlýstur í lögreglukerfi til handtöku. Í gær var hann stöðvaður af lögreglu við umferðareftirlit og gaf hann í fyrstu upp rangt nafn og kennitölu.

            Eins og fram kemur í kröfu sóknaraðila liggur fyrir að flytja varnaraðila úr landi 8. janúar nk. Fyrir liggur að varnaraðili hefur óskað eftir endurupptöku ákvörðunar kærunefndar útlendingamála með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kemur fram í gögnum málsins að kærunefnd stefni á að ljúka málinu 14. janúar nk.

            Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 851/2014 frá 23. desember 2014 er vísað til 6. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002 en þar segir að útlending megi hvorki handtaka né úrskurða í gæsluvarðhald ef það með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti, myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun eða dómarinn telur fullnægjandi að útlendingurinn sæti þess í stað úrræðum samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Í því ákvæði er mælt fyrir um önnur og vægari úrræði svo sem skyldu útlendings til að tilkynna sig til lögreglu og halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði. Í dóminum er því slegið föstu að fyrir þurfi að liggja að önnur og vægari hafi verið reynd áður en gripið verði til þess ráðs að krefjast gæsluvarðhalds samkvæmt 4. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002.

            Gögn málsins bera ekki með sér að slík úrræði hafi verið reynd áður en til handtöku varnaraðila kom. Af þessum ástæðum verður ekki fallist á kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald og verður henni því hafnað.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Hafnað er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X, f. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.