Hæstiréttur íslands
Mál nr. 543/2010
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Sakarkostnaður
|
|
Fimmtudaginn 12. maí 2011. |
|
Nr. 543/2010. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Sigurði Ágústi Þorvaldssyni (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) (Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Sakarkostnaður.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við A gegn vilja hennar, en X notfærði sér að A gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga. Brot X var talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við úrlausn málsins var lagður til grundvallar trúverðugur og staðfastur framburður A sem þótti í samræmi við flest annað sem fram kom í málinu og þá meðal annars framburð vitna um ástand og líðan hennar um það leyti sem brotið var framið og eftir að það átti sér stað. Aftur á móti þótti framburður X hvorki trúverðugur né í samræmi við frásagnir vitna. X hafði ekki sætt refsingum áður og var refsing hans hæfilega ákveðin 2 ára fangelsi. Þá var honum gert að greiða A 800.000 krónur í bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og hann sýknaður af einkaréttarkröfu en fjárhæð hennar lækkuð ella.
A krefst staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu.
Eftir uppsögu héraðsdóms krafðist ákærði þess að skýrslur yrðu teknar fyrir héraðsdómi af vitnum sem stödd hefðu verið í samkvæmi að [...] aðfaranótt 7. nóvember 2009 en komu ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Af því tilefni voru teknar skýrslur af samtals tíu vitnum fyrir Héraðsdómi Vesturlands 18. október og 14. desember 2010. Ekki er ástæða til að rekja framburð þessara vitna, þar sem hann varpar ekki ljósi á atvik málsins svo að einhverju geti skipt fyrir úrslit þess.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Við ákvörðun sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti verður að gæta að því að í yfirliti ríkissaksóknara um hann eru meðal annars taldar til samtals 50.000 krónur vegna kostnaðar af endurritun skýrslna vitna, sem komu samkvæmt áðursögðu fyrir dóm eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Útgjöld sem þessi verða ekki talin til sakarkostnaðar, en að öðru leyti verður ákærða gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sigurður Ágúst Þorvaldsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.072.698 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 9. júní 2010.
Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 23. febrúar 2010 á hendur ákærða, Sigurði Ágústi Þorvaldssyni, kt. [...], [...] í [...]. Málið var dómtekið 25. maí 2010.
Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir nauðgun, með því að hafa að morgni laugardagsins 7. nóvember 2009, að [...], [...], afklætt A, kt. [...], að neðan, sleikt kynfæri hennar og hrækt á þau, kysst og káfað á líkama hennar og brjóstum og haft við hana samræði, allt gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum ölvunar og svefndrunga.“ Er þetta talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einnig er í ákæru tekin upp einkaréttarkrafa ætlaðs brotaþola, en hún krefst miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 8. nóvember 2009 til 13. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og ætlaðs brotaþola. Til vara krefst ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafan verði lækkuð. Jafnframt gerir ákærði þá kröfu að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.
I.
Hinn 7. nóvember 2009, þegar klukkan var að ganga 9 að morgni, kom B á lögreglustöðina í [...] með dóttur sína A, en stúlkan taldi að sér hefði verið nauðgað fyrr um nóttina í samkvæmi að [...] þar í bæ. Nánar lýsti A atvikum þannig að hún hefði vaknað við geranda, sem kallaður væri x, ofan á sér. Við þessu hefði hún brugðist með því að öskra og hlaupa út en þá hefði hann kallað á eftir sér „þú veist að ég á fjölskyldu“. Stúlkan kvaðst í framhaldinu hafa hringt í móður sína, sem hefði komið akandi frá [...] og sótt sig.
Að loknu viðtali á lögreglustöðinni var A ekið á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisafbrota á Landspítalanum í Fossvogi. Á neyðarmóttökunni var tekin niður frásögn A af atvikum og er þeim lýst þannig að A hafi sofnað og allt í einu vaknað ein í rúminu með strák við hliðina á sér. Hún hafi ekki verið í nærbuxum eða leggings heldur aðeins í kjólnum. Einnig segir að A hafi ekki viljað vita hvað gerðist og sofnað aftur. Um framhaldið segir að þegar hún hafi vaknað aftur hafi strákurinn verið ofan á henni í samförum og annað par liggjandi við hliðina á þeim sofandi í rúminu. Fyrst hafi hún ekki getað hreyft sig og legið grafkyrr en skyndilega hafi hún hrint honum af sér og komist fram úr rúminu. Því næst hefði hún klætt sig og farið að gráta. Þegar hún var að fara hefði strákurinn komið á eftir henni og sagt að hann ætti fjölskyldu.
Í skýrslu neyðarmóttöku segir um tilfinningalegt ástand A að hún hafi verið skýr í frásögn en munað lítið. Einnig er ástandi hennar lýst sem óraunveruleikakennd. Um kreppuviðbrögð segir að hún hafi verið með hroll. Við skoðun voru engir áverkar sýnilegir á A og engar sæðisfrumur fundust í leggöngum. Í niðurstöðum C, kvensjúkdómasérfræðings, er lýst frásögn A og hvað komið hafi fram við skoðun á neyðarmóttökunni. Að lokum segir að A hafi verið harðákveðin í að kæra ekki því gerandi sé þekktur íþróttamaður og allir haldi með honum. Auk þess verði mikið um kjaftasögur í svona litlu plássi.
Ákærði var handtekinn á heimili sínu þegar langt var liðið undir hádegi umræddan dag og farið með hann á lögreglustöðina til rannsóknar. Var ákærði skoðaður af lækni sem staðfesti með vottorði sama dag að ekkert athugavert hefði komið fram og að engir áverkar hefðu verið á ákærða.
Húsráðendur að [...] voru D og E. Húsnæðið er á tveimur hæðum og eru tvö svefnherbergi og bað á neðri hæð. Annað svefnherbergið hafði E til umráða en D hitt. Í tvíbreiðu rúmi í herbergi D sváfu saman frá því seint um nóttina og fram á morgun ákærði, A, húsráðandi D og önnur stúlka að nafni F. Í því rúmi urðu þau atvik sem eru tilefni sakargifta á hendur ákærða.
Með bréfi 20. nóvember 2009 fór félagsmálanefnd [...] þess á leit við lögreglustjórann á [...] að ætlað kynferðisbrot yrði rannsakað, en A hafði ekki náð 18 ára aldri. Með bréfinu fylgdi greinargerð um viðtal starfsmanns nefndarinnar við A.
II.
Við upphaf rannsóknar lögreglu kom fram að bæði ákærði og A hefðu verið mjög ölvuð um nóttina. Voru því dregin úr þeim blóðsýni og tekið þvag til rannsóknar á magni alkóhóls. Með bréfi ríkissaksóknara 23. febrúar 2010 var óskað eftir áliti Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði á því hversu mikill vínandi hafi verið í blóði þeirra milli kl. 5 og 8 um morguninn. Álit rannsóknastofunnar barst með bréfi 19. mars sama ár og verða nú raktar helstu niðurstöður þess.
Í álitinu kemur fram að vínandi í þvagsýni sem tekið var úr ákærða kl. 12.30 hafi verið 1,35 en í blóðsýni sem tekið var kl. 13.07 hafi verið 0,64. Eftir að lýst hefur verið hvernig alkóhól fer um meltingarveg líkamans í blóðið og skilst þaðan út í þvag segir svo í álitinu um ölvun ákærða:
Ef litið er á niðurstöður úr etanólmælingunum sést að etanólstyrkur hefur náð hámarki í blóði viðkomandi einstaklings og verið farinn að falla kl. 13. Jafnvægi milli blóðs og þvags hefur náðst talsvert löngu fyrr kl. 12.30, sem sést á hlutfalli milli þvags og blóðs (2,1). Ekki er hægt að reikna út etanólstyrkinn með neinni nákvæmni allt að 5 til 8 klukkustundir aftur í tímann. Brotthvarfshraði etanóls úr blóði viðkomandi er heldur ekki þekktur þar sem ekki var tekið annað blóðsýni. Ef áfengisneyslu hefur verið hætt fyrir kl. 5 og reiknað er með brotthvarfshraða 0,12 til 0,25 á klukkustund getur etanólstyrkur í blóði hans hafa verið frá 0,6 til 2 prómillum hærri kl. 5 og 8 um morguninn. Samkvæmt ofansögðu hefur sakborningur því verið ölvaður á umræddum tíma.
Um mælingu á vínanda í blóði og þvagi A kemur fram að alkóhól í þvagsýni, sem tekið var kl. 14.30, hafi mælst 0,67, en í blóðsýni, sem tekið var kl. 14.40, hafi alkóhól mælst 0,34. Um áfengisáhrif A segir síðan svo:
Ef litið er á niðurstöður úr etanólmælingunum sést að etanólstyrkur hefur náð hámarki í blóði viðkomandi einstaklings og verið farinn að falla kl. 14.30. Jafnvægi milli blóðs og þvags hefur náðst talsvert löngu fyrr kl. 14.30, sem sést á hlutfalli milli þvags og blóðs (2). Ekki er hægt að reikna út etanólstyrkinn með neinni námkvæmni allt að 6½ til 9½ klukkustund aftur í tímann. Brotthvarfshraði etanóls úr blóði viðkomandi er heldur ekki þekktur þar sem ekki var tekið annað blóðsýni. Ef áfengisneyslu hefur verið hætt kl. 5 og reiknað er með brotthvarfshraða 0.12 til 0,25 á klukkustund getur etanólstyrkur í blóði þessa einstaklings getað verið frá 0,8 til 2,4 prómillum hærri milli kl. 5 og 8 um morguninn. Samkvæmt ofansögðu hefur brotaþoli verið ölvuð á umræddum tíma.
III.
1.
Ákærði var yfirheyrður um málsatvik hjá lögreglu 10. desember 2009. Tildrögunum lýsti ákærði þannig að hann hefði verið í samkvæmi að [...] um nóttina eftir að hafa verið á [...] [...] [...]. Ákærði kvaðst hafa verið að spjalla við fólk í samkvæminu, en síðan hefði hann farið inn í herbergi þar sem A var ásamt F. Jafnframt taldi ákærði að húsráðandi, F, hefði um sama leyti komið inn í herbergið. Ákærði sagði að báðar stúlkurnar hefðu setið á tvíbreiðu rúmi inni í herberginu og þau hefðu farið að spjalla saman. Þessu næst kvaðst ákærði hafa lagst upp í rúmið hjá A og þar hefðu þau farið að kyssast, en eitt hefði leitt af öðru. Hún hefði svo verið komin úr að ofan og þau byrjuð að hafa kynferðismök „eða svona vandræðalega tilraun til þess“. Ákærði tók fram að hann hefði verið mjög ölvaður og því hefðu þessir tilburðir runnið út í sandinn og ákærði sofnað eða drepist. Einnig sagði ákærði að þetta hefði allt verið mjög ankannalegt þar sem par var liggjandi í rúminu með þeim. Nánar lýsti ákærði atlotunum þannig að hann hefði reynt að hafa samfarir við A, en hún hefði ekki verið blaut og því kvaðst ákærði hafa brugðið á það ráð að nota munnvatn á lim sinn til að fá einhverja sleipu. Aðspurður sagði ákærði að þau hefðu ekki haft önnur kynferðismök en samræði. Þó kvaðst ákærði hafa leitt hugann að því að fara niður á hana en ekki viljað það. Þá sagði ákærði að hann hefði ekki haft sáðlát. Um klukkan 8 um morguninn kvaðst ákærði hafa vaknað við umgang þegar A var að fara og taldi ákærði að hún hefði verið í uppnámi.
Nánar aðspurður sagðist ákærði ekkert frekar en A sjálf hafa klætt hana úr fötunum og gat ákærði ekki lýst fatnaði hennar. Einnig sagði ákærði að A hefði jafnt og hann tekið þátt í samförum þeirra. Í því sambandi tók ákærði fram að hún hefði hæglega getað óskað eftir aðstoð frá parinu sem lá með þeim í rúminu ef kynmökin voru gegn hennar vilja. Þá hafnaði ákærði því eindregið að A hefði verið sofandi þegar hann hafði samræði við hana.
Ákærði kvaðst ekkert hafa þekkt A og ekki tekið eftir henni fyrr en inni í herberginu. Þó sagði ákærði að einhver hefði sagt sér að hann hefði fyrr um kvöldið verið að ræða við þessa stúlku, en hann myndi ekki eftir því.
2.
Ákærði var á ný yfirheyrður hjá lögreglu 21. desember 2009 og þá sagði hann aðspurður að A hefði verið drukkin í umrætt sinn án þess þó að ákærði gæti lýst því nánar. Einnig þvertók ákærði fyrir að A hefði sofið djúpum ölvunarsvefni þegar hann kom inn í herbergið.
Við yfirheyrsluna var borinn undir ákærða framburður G, sem nánar verður vikið að hér á eftir, þess efnis að ákærði hefði nauðgað eða reynt að nauðga henni inni á baðherbergi áður en hann fór inn í herbergið til A. Neitaði ákærði því eindregið að hafa reynt að þvinga hana til samræðis. Hins vegar kannaðist ákærði við að þau hefðu næstum því verið byrjuð að hafa samfarir eða hafið þær í stutta stund. Einnig kom fram hjá ákærða að hann hefði hætt þegar G spurði hvort hann ætti ekki konu og börn.
3.
Fyrir dómi lýsti ákærði málsatvikum þannig að hann hefði komið í samkvæmið að [...] eftir að [...] lauk þegar klukkan var að ganga fjögur um nóttina. Í fyrstu kvaðst ákærði hafa dvalið inni í svefnherbergi með E, D og tveimur stúlkum að nafni H og I. Einhverju síðar, þegar langt var liðið á nóttina eða um kl. 6, kvaðst ákærði ásamt D hafa farið inn í annað svefnherbergi en þar hefðu verið A og F. Ákærði sagði að þær báðar hefðu verið vakandi og hefðu þau spjallað eitthvað saman. Inni í herberginu hefðu ekki verið önnur húsgögn en rúmið og þar hefðu þau öll komið sér fyrir.
Framhaldinu lýsti ákærði þannig að hann og A hefðu farið að kyssast að hennar frumkvæði. Þau hefðu síðan klætt sig úr fötunum og haft samfarir með vilja þeirra beggja. Ákærði tók fram að þetta hefði ekki staðið yfir lengi og hann hefði ekki fellt sæði. Í því sambandi sagði ákærði að hann hefði ekki verið vel upplagður til athafna af þessu tagi sökum ölvunar. Nánar aðspurður um kynmökin kvaðst ákærði hvorki hafa hrækt í klof A né sleikt hana. Hann hefði hins vegar káfað á brjóstum A og rassi, kysst hana niður líkamann og íhugað að sleikja hana en látið það ógert. Einnig sagði ákærði að limur sinn hefði farið inn í A og þau haft samræði sem hún tók fullan þátt í.
Í kjölfar kynmaka við A kvaðst ákærði hafa sofnað og vaknað um tveimur stundum síðar þegar klukkan var um 8 að morgni. Ákærði sagði að A hefði verið í uppnámi, en hann hefði vaknað við að hún ýtti við honum. Einnig greindi ákærði frá því að honum sjálfum hefði verið brugðið vegna þess sem hann hafði gert sinni fjölskyldu. Aðspurður kannaðist ákærði við að hafa látið falla við A ummæli í þá veru að þetta væri ekki bara honum að kenna og að hann ætti fjölskyldu. Í því sambandi tók ákærði fram að hann hefði aðeins verið að hugsa um eigin fjölskyldu og að sambúðarkona hans frétti ekki af framhjáhaldinu.
Aðspurður sagði ákærði að hann og D hefðu legið í miðju hjónarúmsins en A og F til hliðar við þá. Eftir að ákærði kom inn í herbergið til stúlknanna kvaðst hann ekki hafa vikið úr því fyrr en um morguninn. Hins vegar hefði D farið stutta stund út úr herberginu. Um ölvun sína sagði ákærði að hún hefði verið umtalsverð. Hann hefði hins vegar ekki haft með sér áfengi í samkvæmið og því hefði runnið af honum þegar leið á nóttina. Þótt ákærði hefði verið nokkuð ölvaður taldi hann sig muna eftir atvikum í samkvæminu. Þá sagði ákærði að hann hefði hvorki þekkt A né rætt við hana í samkvæminu áður en hann fór inn í herbergið til hennar og F.
Ákærði kannaðist við að hafa löngu fyrr um nóttina átt kynferðislega samskipti við G inni á baðherbergi. Þau hefðu kysst hvort annað og verið við það að hefja samræði en sennilega hætt þegar G spurði hvort hann ætti ekki fjölskyldu. Tók ákærði fram að G hefði ekki verið minna ágeng en hann í atlotum þeirra.
IV.
1.
A gaf skýrslu hjá lögreglu 9. desember 2009 og lýsti atvikum þannig að hún hefði farið í samkvæmið að [...] eftir að hafa verið á [...]. Þar hefði F, vinkona A, sofnaði í rúminu hjá D, en F hefði eitthvað verið að slá sér upp með honum. Um nóttina kvaðst A hafa farið inn í herbergið til F, sem var þar ein. Þær hefðu eitthvað rætt saman en síðan sagðist A hafa sofnað. Þessu næst kvaðst A hafa vaknað við að einhver var að hlæja og strákur að strjúka sér. Þegar A vaknaði aftur sagði hún að sér hefði verið mjög kalt og þá kveðst hún hafa gert sér grein fyrir að eitthvað var að gerast. Nánar lýsti A þessu þannig að einhver hefði verið að reyna að stunda kynlíf með henni og strjúka og koma við hana alls staðar. Einnig sagði A að gerandinn hefði hrækt í klofið á sér og reynt að fara inn í sig. Aðspurð kvaðst A ekki vita hvort hann hefði haft samfarir við sig í leggöng, en allavega hefði hún vaknað með hann ofan á og inni í sér. Þessu hefði svo lokið með því að A hefði sparkað viðkomandi af sér og komið sér út í framhaldi af því.
Um kvöldið kvaðst A hafa verið klædd í kjól og leggings en þegar hún vaknaði hefði hún aðeins verið í kjólnum og ber að öðru leyti að neðan. Aðspurð sagði A að hún hefði ekki klætt sig úr sjálf en um morguninn hefði hún fundið fötin og farið í þau.
A greindi frá því að hún hefði hvorki þekkt ákærða né tekið eftir honum í samkvæminu. Einnig kvaðst A ekki hafa séð framan í ákærða inni í herberginu um morguninn. Þegar A var komin út úr húsnæðinu sagði hún að ákærði hefði kallað á eftir sér að hann ætti fjölskyldu.
Aðspurð kvaðst A hafa verið ölvuð þegar hún sofnaði inni í herberginu en hún hefði um kvöldið verið búin að drekka um hálfa hvítvínsflösku og fimm til sex bjóra. Einnig lýsti A því að hún svæfi venjulega mjög fast. Þá gat A ekki sagt hvað langur tími leið meðan kynferðismökin stóðu yfir.
2.
Fyrir dómi bar A að hún hefði farið í samkvæmið að [...] eftir að [...] lauk. Fljótlega eftir að A kom í samkvæmið kvaðst hún hafa farið inn í herbergi til F, vinkonu sinnar, sem hafði lagst til svefns. A taldi hugsanlegt að þær hefðu rætt eitthvað saman en mundi ekki eftir að aðrir hefðu komið inn í herbergið. Þessu næst kvaðst A einnig hafa lagst til svefns og sofnað fljótlega.
Um nóttina kvaðst A hafa vaknað við að einhver strákur horfði hlæjandi inn í herbergið. Síðan sagðist hún hafa vaknað aftur og verið mjög kalt. Í fyrstu kvaðst A hafa verið milli svefns og vöku en gert sér grein fyrir því sem gekk á. Einhver hefði verið að reyna að hafa samfarir við hana, snerta brjóst hennar og klof, sleikja kynfæri hennar og hrækja á þau. Viðkomandi hefði einnig kysst hana á munninn og brjóstin. Nánar aðspurð sagði A að limurinn hefði farið inn í hana. Um ástand sitt sagði A að hún hefði verið í móki, dofin og hrædd, auk þess sem hún hefði fundið til vanlíðunar vegna áfengisneyslu. Hún sagðist svo hafa hugsað að hún yrði að gera eitthvað og þá hafi hún opnað augun og hrint þeim sem átti í hlut af sér, en við það hefði hann hætt. Því næst kvaðst A hafa fundið dótið sitt og komið sér út. Aðspurð gat Aekki gert sér grein fyrir hvað langur tími leið frá því hún varð var við eitthvað þar til hún ýtti gerandanum af sér.
A bar að hún hefði fyrr um kvöldið drukkið um hálfa flösku af hvítvíni og slatta af bjór. Í samkvæminu hefði hún síðan drukkið einn bjór. Um ástand sitt sagði A að hún hefði verið frekar ölvuð. Einnig kvaðst hún venjulega sofa mjög fast. Þá sagði A að hún hefði hvorki þekkt til ákærða né átt í neinum samskiptum við hann fyrir þessa atburði.
V.
Vitnið F bar fyrir dómi að hún hefði fljótlega farið inn í herbergi að sofa í samkvæminu að [...]. Fyrst kvaðst F hafa verið ein inni í herberginu en síðan hefði D komið og farið aftur. Einnig hefði ákærði komið og lagst við hlið hennar og reynt að setja höndina undir sængina en F kvaðst hafa ýtt við honum og hann farið. A hefði síðan komið og þær farið að sofa eftir að hafa spjallað eitthvað saman. Aðspurð sagði F að A hefði sofnað nær samstundis og á undan henni. Þegar hér var komið taldi F að D hefði verið kominn inn í herbergið. Ákærði hefði hins vegar komið síðar og efaðist vitnið um að hann og A hefðu rætt eitthvað saman. F kvaðst ekki hafa orðið vör við neitt um nóttina. Um morguninn hefði hún svo vaknað við A sem var reið og grátandi að leita að fötum sínum, en leggings-buxur hennar með nærbuxum hefðu verið milli dýna og kvaðst vitnið hafa rétt A fötin. Þegar A fór sagði vitnið að ákærði hefði sagt að þetta væri ekki bara sér að kenna. Aðspurð um ölvun sagði F að bæði hún og A hefðu verið mjög drukknar. Einnig sagði F að A hefði sagt sér frá atburðum daginn eftir og hún hefði lengi á eftir verið mjög miður sín.
Vitnið D kom fyrir dóm og greindi frá því að hann hefði að loknum kvöldverði á [...] farið heim ásamt gestum til að drekka meira áfengi. Í framhaldi af því kvaðst D hafa sofnað og ekki farið á dansleikinn. Vitnið kvaðst svo hafa vaknað um kl. 4 og þá hefði verið samkvæmi í íbúðinni. Eftir að hafa um stund verið í samkvæminu kvaðst D um kl. 5−6 hafa farið með ákærða inn í svefnherbergi sitt, en þar hefðu verið A og F og hefðu þær báðar verið vakandi. Um framhaldið sagði D að hann og ákærði hefðu sest á rúmið og farið að spjalla við stúlkurnar. D kvaðst svo hafa farið út úr herberginu og þegar hann kom til baka skömmu síðar hefðu þau þrjú legið uppi í rúmi að kúra saman. Vitnið kvaðst þá hafa lagst upp í rúm og farið beint að sofa og ekki vaknað fyrr en um morguninn við það að A var í uppnámi að öskra á ákærða. Aðspurður kvaðst D ekki hafa tekið eftir því þegar hann fór að sofa hvort einhver samskipti hefðu verið milli ákærða og A. Einnig sagði D að dimmt hefði verið í herberginu.
Vitnið G lýsti því fyrir dómi að hún og A hefðu komið í samkvæmið um kl. 3.30−4 um nóttina. Þær hefðu svo verið saman í samkvæminu í um það bil klukkustund en þá hefði A verið orðin of drukkin og ákveðið að leggjast inn í herbergi til F. Vitnið kvaðst tvívegis hafa reynt að vekja A til að fá hana með sér í samkvæmið, en hún ekki vaknað þótt vitnið hefði ýtt við henni. Aðspurð sagði G að F hefði í bæði skiptin verið inni í herberginu hjá A og D í síðara sinnið. G kvaðst hafa farið úr samkvæminu milli kl. 6−7 um morguninn. Skömmu áður hefði hún farið inn á baðherbergi með ákærða en þau hefðu verið ágætlega kunnug. Ákærði hefði talið að eitthvað væri á milli þeirra og rifið hana úr fötunum. Hann hefði síðan byrjað að hafa við hana kynmök gegn hennar vilja en hætt þegar hún spurði hvort hann ætti ekki konu og börn. Þessu næst hefði hún rifið upp um sig og gengið fram og skömmu síðar farið úr samkvæminu. Rétt áður hefði hún reynt í þriðja sinn að vekja A án árangurs. Þegar vitnið fór sagði hún að ákærði hefði verið á efri hæðinni að ræða við einhverja stráka. Aðspurð sagði G að hún hefði aldrei séð hann fara inn í herbergið til A og F. Einnig sagði G að ákærði og A hefðu ekkert verið að draga sig saman og ákærði ekkert verið nærri þeim í samkvæminu. Um ástand sitt sagði G að hún hefði verið undir áhrifum áfengis en samt myndi hún atburði. Loks sagði G að í kjölfar atburða í samkvæminu hefði A átt erfitt.
Vitnið H greindi frá því fyrir dómi að hún hefði komið í samkvæmið ásamt vinkonu sinni I. Í samkvæminu sagði H að hún hefði að mestu haldið til í svefnherbergi E á neðri hæðinni ásamt honum, ákærða og I, auk þess sem D hefði verið að koma og fara. Í næsta herbergi hefðu verið A og F og kvaðst H hafa heyrt þær hlæja og tala saman. Um kl. 6 um morguninn kvaðst H hafa farið út úr herberginu ásamt ákærða og D, en eftir í herberginu hefðu verið E og I. Vitnið kvaðst ekki vita hvað varð um ákærða og D, enda hefði vitnið farið úr samkvæminu og haldið heim á leið.
Vitnið I sagði fyrir dómi að hún hefði haldið sig að mestu í svefnherberginu á neðri hæðinni ásamt E, H, D og ákærða. Þar hefðu þau dvalið þar til ákærði fór út úr herberginu um sama leyti og H fór heim. Taldi vitnið að þetta hefði verið um kl. 6 um morguninn.
Vitnið E lýsti því fyrir dómi að þegar liðið var á samkvæmið hefði hann verið inni í svefnherbergi sínu ásamt I, H, D og ákærða. Að lokum hefði hann og I orðið ein eftir í herberginu. Í kjölfarið kvaðst E ekki hafa orðið var við neitt, hvorki um nóttina né um morguninn.
Vitnið B, móðir A, bar fyrir dómi að dóttir sín hefði hringt um nóttina eða snemma morguns. Í fyrstu kvaðst B ekki hafa gert sér grein fyrir hver var að hringja vegna þess hve sárt stúlkan grét, en hún hefði síðan sagt að sér hefði verið nauðgað. Vitnið kvaðst þegar í stað hafa haldið akandi frá [...] til [...] og sótt dóttur sína þar sem hún hafði falið sig bak við ruslagám. Þær hefðu svo farið á lögreglustöðina og þaðan til Reykjavíkur á neyðarmóttökuna. B sagði að dóttir sín hefði vísað til þess að hún byggi í litlu samfélagi og helst viljað fara beint heim. Einnig hefði henni verið ofarlega í huga að ákærði ætti börn. Eftir atburðinn sagði B að dóttir sín hefði ekki farið úr húsi í rúma viku. Einnig hefði þessi atburður valdið því að hún flosnaði upp úr skóla og fór til ársdvalar í [...].
Vitnið J, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisafbrota, greindi frá því fyrir dómi að A hefði liðið illa andlega þegar hún kom á spítalann. Hún hefði tárast, verið mjög kalt og átt erfitt með að tala um atburði næturinnar. Einnig sagði vitnið að stúlkan hefði ekkert viljað gera vegna þess litla samfélags sem hún byggi í, auk þess sem hún hefði rætt um að ákærði ætti börn.
Vitnið K, starfsmaður [...] [...], bar fyrir dómi að hann hefði hitt A á heimili hennar nokkrum dögum eftir atburðinn. Stúlkunni hefði þá liðið mjög illa og ekki viljað hitta fólk. Þegar frá leið hefði hún hins vegar treyst sér út úr húsi.
VI.
Ákærði hefur fyrir dómi og í yfirheyrslu hjá lögreglu staðfastlega neitað sök. Ákærði hefur kannast við í umrætt sinn að hafa haft samræði við A, en með samþykki hennar. Nánar tiltekið hefur ákærði lýst atvikum þannig að hann og D hafi seint um nóttina eða um kl. 6 að morgni farið inn í svefnherbergi til A og F. Þau fjögur hafi spjallað eitthvað saman en í framhaldi af því hafi ákærði og A farið að kyssast að hennar frumkvæði. Þau hefðu síðan klætt sig úr fötunum og haft samfarir í rúminu þar sem D og F lágu með þeim. Þetta hafi staðið stutt yfir og í kjölfarið hafi ákærði sofnað en vaknað við A um tveimur tímum síðar eða um kl. 8 og hafi hún þá verið í uppnámi.
Þessi frásögn ákærða fer í bága við flest annað sem komið hefur fram í málinu. Þannig hefur A lýst því að hún hafi undir áhrifum áfengis lagst inn í rúm til F og sofnað fljótlega. Um morguninn hafi hún síðan vaknað og ýtt af sér manni sem lá á henni og var að hafa við hana kynmök. Í framhaldi af því hafi hún farið. Einnig hefur F borið að A hafi komið ölvuð inn í herbergið og lagst með henni í rúmið. A hafi síðan sofnað nær samstundis og á undan F. Um morguninn kvaðst F síðan hafa vaknað við A sem var að leita að fötum sínum en leggings-buxur hennar og nærbuxur hefðu verið í rúminu milli dýna. Þá hefur G greint frá því fyrir dómi að A hafi um nóttina farið drukkin inn í herbergi til F og sofnað. Kvaðst G tvívegis um nóttina hafa reynt að fá A með sér fram í samkvæmið en hún ekki vaknað þótt vitnið hafi ýtt við henni. Loks undir morgun, rétt áður en G fór úr samkvæminu, í kjölfar samskipta við ákærða inni á baðherbergi, sagðist hún hafa reynt án árangurs að vekja A. Að virtum þessum aðdraganda og þegar haft er í huga að vitnum ber saman um að Ahafi verið nokkuð ölvuð er óhætt að slá því föstu að hún hafi verið sofandi þegar komið var undir morgun eftir að hún hafði dvalið um hríð í herberginu með F. Breytir þá engu þótt D hafi sagt að A og F hafi verið vakandi undir morgun. Er þá jafnframt haft í huga að D varð þess aðeins var þegar hann lagðist hjá ákærða, A og F að þau væru að kúra saman og var ekki á honum að skilja að hann hefði tekið eftir einhverjum samdrætti með ákærða og A. Fær frásögn ákærða því takmarkaða stoð af vætti D.
Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi hvorki þekkt A né rætt við hana í samkvæminu áður en hann fór seint um nóttina inn í svefnherbergið til hennar og F. Einnig hefur A borið að hún hafi ekkert þekkt ákærða eða tekið eftir honum í samkvæminu. Jafnframt sagði A í skýrslutöku hjá lögreglu að hún hefði ekki séð framan í ákærða um morguninn þegar hún vaknaði. Að þessu gættu er að áliti dómsins mjög ósennilegt að A hafi fyrirvaralaust verið reiðubúin til seint um nótt að hafa kynmök við mann sem hún þekkti engin deili á með annað par liggjandi í sama rúmi. Samkvæmt þessu er frásögn ákærða afar ótrúverðug samhliða því að hún fer í bága við greinargott og samhljóða vætti fyrrgreindra vitna.
Framburður A er á hinn bóginn í góðu samræmi við flest annað sem fram hefur komið í málinu, svo sem hér hefur nánar verið rakið. Einnig er fullt samræmi í öllum meginatriðum í vætti hennar bæði hér fyrir dómi og skýrslu hennar hjá lögreglu. Þá gætir þess með engu móti að hún geri meira úr atvikum en efni eru til þegar framburður hennar er virtur bæði í ljósi þess sem ákærði sjálfur hefur skýrt frá og með hliðsjón af framburði F og D um atvik þegar þau vöknuðu snemma um morguninn í svefnherberginu og urðu vör við viðbrögð A. Að þessu virtu verður ekkert talið draga úr trúverðugleika framburðar A né rýra sönnunargildi hans. Loks er þess að gæta að ákærði og umrædd vitni hafa lýst því að A hafi verið í uppnámi um morguninn, auk þess sem móðir A bar fyrir dómi að dóttir hennar hefði verið miður sín þegar hún hafði samband við hana símleiðis um nóttina eða snemma morguns. Jafnframt bar hjúkrunarfræðingur sem annaðist A á neyðarmóttöku síðar um daginn að henni hefði liðið illa andlega þegar hún kom á spítalann. Þá hafa allir sem um geta borið greint frá því að atburðurinn hafi um lengri tíma sett mark sitt á stúlkuna. Þessi lýsing á líðan A kemur heim og saman við að henni hafi gróflega verið misboðið þá um nóttina.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið er sannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi haft kynferðismök við A með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað gegn verknaðinum vegna svefndrunga sem rakinn verður til þreytu og undanfarandi áfengisdrykkju. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru, en hann hefur sjálfur gengist við því að hafa haft samræði við A, svo sem áður er rakið. Með þessu hefur ákærði gerst brotlegur við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Við ákvörðun refsingar er þess að gæta að ákærði er með hreint sakavottorð. Hann á sér hins vegar engar málsbætur og horfir til refsiþyngingar að hann braut gróflega gegn stúlku sem var aðeins 17 ára að aldri. Að þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja ára fangelsi.
Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærða. Til stuðnings þeirri kröfu er vísað til þess að brotið hafi verið alvarlegt og valdið brotaþola miklum og varanlegum miska. Í því sambandi er sérstaklega bent á að brotaþoli búi í litlu samfélagi en það hafi þau áhrif að miskinn verði meiri en ella. Brotið hafi valdið henni mikilli vanlíðan og megi reikna með að áhrifin séu langvarandi. Krafist er dráttarvaxta að liðnum mánuði frá því krafan var kynnt ákærða. Um lagarök fyrir kröfunni er vísað til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.
Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur hann fellt á sig miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola. Í málinu liggja ekki fyrir sérfræðigögn um líðan brotaþola nú og um varanleg áhrif verknaðarins. Þó er ljóst að brotið gegn henni er til þess fallið að valda henni sálrænum erfiðleikum til lengri tíma. Að þessu virtu þykir miskabótakröfu brotaþola stillt í hóf og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett.
Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, verður ákærða gert að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ákæruvalds. Jafnframt verður ákærða gert eftir ákvörðun dómsins að greiða málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, en þær fjárhæðir eru tilgreindar í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti. Að auki verður ákærða gert að greiða útlagðan kostnað verjanda, réttargæslumanns og vitna.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Benedikt Bogason, dómsformaður, Kristinn Halldórsson og Ragnheiður Harðardóttir.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Sigurður Ágúst Þorvaldsson, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 8. nóvember 2009 til 13. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 1.207.369 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns Péturs Kristinssonar, héraðsdómslögmanns, 564.750 krónur og 114.305 krónur í ferðakostnað, og þóknun réttargæslumanns brotaþola Þórdísar Bjarnadóttur, hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur og 30.033 krónur í ferðakostnað.