Hæstiréttur íslands
Mál nr. 380/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Kaupmáli
- Opinber skipti
- Hjón
|
|
Þriðjudaginn 18. júní 2013. |
|
Nr. 380/2013.
|
K (Katrín Theodórsdóttir hdl.) gegn M (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál. Kaupmáli. Opinber skipti. Hjón.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K um að kaupmáli hennar og M yrði metinn ógildur. Deildu aðilar um hvort kaupmálinn uppfyllti skilyrði 1. mgr. 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1991. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skilja yrði umrætt ákvæði svo að ekki væri þörf á að tiltaka sérstaklega í áritun votta að skjal væri kaupmáli. Þá væri fram komið að nafnritun aðila hefði átt sér stað í viðurvist þeirra tveggja votta sem einnig rituðu nafn sitt á skjalið og að K hefði gert sér grein fyrir efni þess. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að kaupmáli aðila 31. ágúst 1999 yrði metinn ógildur. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kaupmálinn verði metinn ógildur en til vara að viðurkennt verði að 50% eignarinnar að [...], sé hjúskapareign og komi til fjárskipta milli aðila. Í báðum tilvikum er krafist kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 7. júní 2013. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varakröfu sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi og kemur sú krafa ekki til úrslausnar hér fyrir dómi.
Í máli þessu er deilt um gildi kaupmála milli aðila sem gerður var 31. ágúst 1999, skömmu áður en þau gengu í hjúskap. Samkvæmt 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal kaupmáli vera skriflegur og undirritun hjóna eða hjónaefna staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í vottorði þeirra skal samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði koma fram að skjalið, sem vottað er, sé kaupmáli. Í athugasemdum við þetta ákvæði í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna kemur meðal annars fram að sú formkrafa gildi ekki að löggerningur sé nefndur kaupmáli eða það orð komi fyrir í meginmáli skjals. Vottar eigi þó að ganga úr skugga um að skjalið geymi kaupmála að efni til og votta um það.
Umrætt skjal ber yfirskriftina kaupmáli. Efni þess er rakið í hinum kærða úrskurði og ber það skýrlega með sér að um sé að ræða kaupmála, en það heiti kemur þrisvar fyrir í meginmáli þess. Í niðurlagsákvæði skjalsins segir svo: „Öllu framanskráðu til staðfestu ritum við nöfn okkar undir kaupmála þennan í viðurvist votta.“ Samkvæmt þessu og svo sem 80. gr. hjúskaparlaga verður skilin í ljósi fyrrgreindra ummæla í greinargerð með frumvarpi til laganna var ekki þörf á að tiltaka sérstaklega í áritun votta að skjalið væri kaupmáli. Þá er fram komið í málinu að nafnritun aðila hafi átt sér stað í viðurvist þeirra tveggja votta sem einnig rita nafn sitt á skjalið og að sóknaraðili hafi gert sér grein fyrir efni þess. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2013.
Mál þetta, sem barst dóminum 24. október 2012, var tekið til úrskurðar 18. apríl sl.
Dómkröfur sóknaraðila, K, eru að kaupmáli, dagsettur 31. ágúst 1999, verði metinn ógildur og að viðurkennt verði að [...] m2 íbúð [...] sé hjúskapareign aðila.
Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að 50% eignarinnar að [...] sé hjúskapareign og komi til fjárskipta milli aðila.
Jafnframt er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að skaðlausu.
Varnaraðili, M, krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að 75% af nettóandvirði fasteignarinnar við [...] komi í hlut varnaraðila við fjárskipti aðila. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu.
I
Í máli þessu er deilt um gildi kaupmála aðila, sem dagsettur er 31. ágúst 1999 og móttekinn til þinglýsingar 1. september 1999. Kaupmálinn var saminn af hæstaréttarlögmanninum A og vottaður af honum og ritara hans.
Í kaupmálanum er mælt er fyrir um það að íbúð á [...], skuli vera séreign varnaraðila. Jafnframt er mælt fyrir um að fólksflutningabifreiðin [...] og [...]bifreiðin [...] skuli vera séreignir varnaraðila.
Málsaðilar gengu í hjúskap þann 18. september 1999. Þau eiga þrjú börn, [...]. Fyrir átti sóknaraðili [...].
Aðilar bjuggu fyrstu búskaparár sín í íbúðinni við [...] og þar fæddust tvö eldri börnin. Þann 11. janúar 2002 seldi varnaraðili íbúðina fyrir 10.000.000 kr. Kaupverðið var greitt með peningum, 1.740.600 kr., með fasteignaveðbréfi, 6.259.400 kr., og með skuldabréfi, 2.000.000 kr.
Sama dag festu aðilar kaup á íbúð á 1. hæð hússins [...] fyrir 12.400.000 kr. Í kaupsamningi segir að sóknaraðili sé kaupandi að 20% íbúðarinnar en varnaraðili 80%. Þann 20. apríl 2004 seldu aðilar íbúðina fyrir 13.800.000 kr. Kaupverðið var greitt með peningum 2.084.000 kr., fasteignaveðbréfi 9.200.000 kr. og veðskuldabréfi 2.516.000 kr.
Þann 28. apríl 2004 festu aðilar kaup á íbúð á [...] fyrir 17.500.000 kr. Kaupverðið var greitt með 13.800.000 kr. sem fengust þegar aðilar seldu íbúðina [...] og með 4.000.000 kr. sem sóknaraðili fékk að láni hjá Lífeyrissjóði Framsýnar. Í kaupsamningi kemur fram að aðilar séu kaupendur hvort að sínum helmingi eignarinnar og á þinglýsingarvottorði kemur fram að sóknaraðili sé eigandi 50% eignarinnar en varnaraðili eigandi 50% eignarinnar. Þann 5. júlí 2011 tók sóknaraðili lán hjá Gildi lífeyrissjóði að fjárhæð 2.000.000 kr. til að kosta endurnýjun á gluggum hússins.
Þann 23. janúar 2012 óskaði sóknaraðili eftir leyfi til skilnaðar skv. 2. mgr. 41. gr. hjúskaparlaga. Þá gerði hún kröfu um forsjá barnanna og meðlag með þeim. Aðilar höfnuðu sáttameðferð og var málinu frestað til framlagningar fjárskiptasamnings og samkomulags um forsjá, lögheimili og meðlag. Lögmaður sóknaraðila óskaði eftir því með bréfi, dags. 6. mars 2012, að aðilar gengju til samningsgerðar. Í bréfinu kom fram að sóknaraðili gerði kröfu um helmingaskipti á eignum aðila, þ.e. fasteigninni að [...] og tveimur bifreiðum sem hvor um sig væri metin á um það bil 500.000 kr. Í svarbréfi lögmanns varnaraðila, dags. 13. mars 2012, kom fram að varnaraðili teldi sig eiga a.m.k. 75% í eigninni. Jafnframt kom þar fram að hann óskaði eftir að kaupa eignarhlut sóknaraðila í eigninni. Þar sem sáttatilraunir reyndust árangurslausar óskaði sóknaraðili eftir opinberum skiptum. Þann 1. júní 2012 var bú aðila tekið til opinberra skipta og var Lára V. Júlíusdóttir hrl. skipuð skiptastjóri. Þann 23. október 2012 fór skiptastjóri fram á að Héraðsdómur Reykjavíkur leysti úr ágreiningi aðila varðandi gildi kaupmálans.
II.
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að kaupmálinn uppfylli ekki þær efnis- og formkröfur sem áskilið er í 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og því beri að meta hann ógildan. Í 80. gr. hjúskaparlaga segi að kaupmáli skuli vera skriflegur. Undirritun hjóna eða hjónaefna skuli staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í vottorði þeirra skuli koma fram að skjalið sé kaupmáli. Vottarnir skuli vera lögráða og staðfestingarhæfir.
Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki komi fram í vottorði vottanna A hrl, [...], og B, [...], að skjalið sem þau vottuðu sé kaupmáli. Í 80. gr. hjúskaparlaga séu talin upp þau formsatriði sem kaupmáli þurfi að uppfylla til að geta talist gildur og þar með hafa þau réttaraáhrif sem kaupmálum er ætlað að hafa. Í 80. gr. hjúskaparlaga séu gerðar kröfur um að vottun kaupmála skuli vera með þeim hætti að koma verði fram í vottorði að skjalið sem vottað er sé kaupmáli. 80. gr. hjúskaparlaga hafi að geyma nýmæli sem snúi að formi kaupmála en engar kröfur um vottun hafi verið í eldri lögunum. Í athugsemdum með 80. gr. frumvarps til hjúskaparlaga segi að nauðsynlegt hafi verið að mæla fyrir um vottfestingu á kaupmála til að hvetja til að menn vandi löggerning sinn enda sé kaupmáli veigamikill löggerningur. Jafnframt sé kveðið á um að formkröfur stuðli að því að sönnun fáist fyrir því að hjón hafi undirritað kaupmála af fúsum vilja og hvenær undirritun hafi farið fram. Sóknaraðili byggi kröfu sína á því að kaupmálinn sé ógildur þar sem ekki hafi verið gætt að þeim kröfum sem í ákvæðinu greini. Í vottun þeirri sem fram komi á kaupmála aðila sé aðeins að finna staðfestingu á dagsetningu skjalsins, réttri undirritun aðila og staðfestingu á fjárræði þeirra. Vottun vottanna beri því ekki með sér að vottarnir hafi vitað hvert var efni þess skjals sem þeir vottuðu. Ekki er loku fyrir það skotið að a.m.k. annar vottanna hefði kannað hvort sóknaraðili væri upplýst um innhald og áhrif kaupmála ef hún hefði þurft að staðfesta með undirritun sinni að hún væri að votta kaupmála. Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að kaupmálinn sé ekki í samræmi við 80. gr. hjúskaparlaga og því beri að meta hann ógildan sbr. Hrd. nr. 668/2007. Þá minnist sóknaraðili þess ekki að votturinn [...] hafi verið í sama herbergi og aðilar þegar hún vottaði skjalið, þvert á móti hafi aðilar verið einir með lögmanni sínum er þau undirrituðu það. Í 80. gr. hjúskaparlaga sé kveðið á um að vottar þurfi að vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur undir skjalið.
Í öðru lagi byggi sóknaraðili á því að hún hafi ekki haft hugmynd um inntak og réttaráhrif kaupmála samkvæmt íslenskum rétti þegar hún skrifaði undir hann. Þegar kaupmálinn var undirritaður hafi sóknaraðili, sem er af [...] uppruna, verið nýflutt til Íslands og ekki skilið orð í íslensku. Vegna stöðu sinnar við samningsgerðina hafi varnaraðila borið að tryggja að sóknaraðili skildi merkingu skjalsins með því að hafa túlk til að þýða fyrir hana texta skjalsins og réttaráhrif þess. Það eigi einkum við þar sem sóknaraðili hafi afsalaði sér með kaupmálanum rétti til hjúskapareigna varnaraðila. Byggt sé á því að vegna hinnar mismundandi stöðu samningsaðila við samningsgerðina, svo og vegna þess ágalla sem felist í vottun skjalsins, verði að leggja það á varnaraðila að sanna með óyggjandi hætti að sóknaraðili hafi vitað hvað fólst í gerð kaupmálans og verið sér meðvituð um réttaráhrif hans á eignamyndun hennar. Þess beri að geta að sóknaraðili hafi unnið úti lengst af þau þrettán ár sem aðilar voru í hjúskap og oftast verið með svipaðar tekjur og varnaraðili. Þegar tekið sé mið af því að umönnun barnanna og heimilishald hafi komið að mestu í hlut sóknaraðila hafi hún lagt a.m.k. jafn mikla fjármuni í bú aðila. Sóknaraðila hafi verið nauðsynlegt að vera upplýst um að hennar peningar væru ekki að bera ávöxt í fasteignum aðila enda hefði henni þá verið unnt að haga fjárfestingum sínum með öðrum hætti. Byggt sé á því að kaupmálinn beri ekki með sér að sóknaraðili hafi undirritað kaupmálann af fúsum vilja eins og segi í athugasemdum með 80. gr. frumvarpsins sem varð að hjúskaparlögum.
Meti dómurinn kaupmálann gildan þrátt fyrir þá efnis- og formannmarka sem á honum eru, sé í þriðja lagi byggt á því að eignir aðila hafi runnið saman á hjúskapartíma þeirra og því eigi ígildisreglan ekki við í þessu tilviki. Sóknaraðili bendir á að gögn málsins beri með sér viðurkenningu á því að hjúskapareign renni saman við hjúskapareignir þeirra enda hafi varnaraðili viðurkennt eignahlutdeild sóknaraðila í eignum búsins og hafi eignahlutfall sóknaraðila hækkað eftir því sem liðið hefur á hjúskapinn. Þannig hafi sóknaraðili fest kaup á 20% fasteignarinnar að [...] og 50% fasteignarinnar að [...]. Þá beri gögn málsins með sér að sóknaraðili hafi tekið lán hjá lífeyrissjóði sínum til að fjármagna kaupin á [...] á móti varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili ein staðið straum af endurnýjun glugga íbúðarinnar á árinu 2011 með láni sem hún fékk hjá lífeyrissjóði sínum að fjárhæð 2.000.000 kr. Þá hafa aðilar talið fasteignina að [...] fram til skatts sem sameign þeirra.
Varakrafa sóknaraðila sé reist á því að hún hafi fjármagnað 50% eignarinnar að [...] á móti varnaraðila. Hún hafi varið 20% af söluandvirði eignarinnar að [...] til kaupanna eða 2.760.000 kr. Þá hafi hún tekið að láni 4.000.000 kr. til að fjármagna kaupin. Með því hafi sóknaraðili greitt 6.760.000 kr. af verði fasteignarinnar að [...] sem sé tæplega helmingur kaupverðsins. Þá verði að horfa til þess að það hefur áhrif á verð íbúðarinnar að sóknaraðili varði 2.000.000 kr. til endurnýjunar á gluggum á árinu 2011.
Vísað sé til meginreglna hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 80. gr. laganna og laga nr. 21/1993 um um skipti á dánarbúum ofl. og dómaframkvæmdar eftir því sem við eigi.
Krafan um málflutningsþóknun sé byggð á ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 91/1991.
III
Varnaraðili byggir á því að kaupmálinn uppfylli öll form- og efnisskilyrði 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1991. Kaupmálinn sé skriflegur og undirritun hans staðfest af lögmanni og votti sem hafi verið viðstaddir undirritun hans. Í skjalinu komi skýrlega fram á þremur stöðum að um kaupmála sé að ræða. Þá hafi vottarnir ritað nöfn sín og kennitölur á kaupmálann og sem vottar að réttri dagsetningu, fjárræði og hæfi aðila við gerð kaupmálans.
Því sé mótmælt að vottarnir, A hæstaréttarlögmaður og B, ritari hans, hafi ekki vitað að skjalið væri kaupmáli. A hafi haft af því atvinnu m.a. að gera kaupmála og honum hafi því verið fullkunnugt um mikilvægi þess að form og efni kaupmálans væri í samræmi við 80. gr. hjskl. Þá hafi B, sem verið hafi ritari lögmannsins um margra ára skeið, margoft vottað kaupmála og önnur skjöl. Báðum vottunum hafi verið fullkunnugt um efni skjalsins og að skjalið væri kaupmáli. Í fyrsta lagi standi skýrum stöfum í fyrirsögn skjalsins að það sé ,,Kaupmáli gerður fyrir hjúskap“. Í öðru lagi komi þar rétt á eftir: Við undirrituð, M, [...] og K [...], s.st. sem höfum ákveðið að ganga í hjúskap og erum bæði fjárráða, gerum með okkur svohljóðandi kaupmála. Í þriðja lagi segi í 5. gr. kaupmálans: Öllu framanskráðu til staðfestu ritum við nöfn okkar undir kaupmála þennan í viðurvist votta. Málsaðilar hafi síðan ritað nöfn sín og vottarnir vottað dagsetningu, sem hafi verið handrituð á kaupmálann þennan dag, fjárræði aðila og hæfi þeirra til að gera viðkomandi kaupmála sem, eins og áður segi, kom þrívegis fyrir í skjalinu. Varnaraðili fullyrði að báðir vottarnir hafi verið í sama herbergi þegar aðilar undirrituðu kaupamálann og því eigi Hrd. nr. 688/2007 ekki við.
Samkvæmt 80. gr. hjskl. nr. 31/1993 nægi að einn vottur staðfesti kaupmála ef votturinn er lögbókandi, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður eða fulltrúi þeirra. Það sé eingöngu í þeim tilvikum þegar aðrir en framangreindir aðilar votta kaupmála sem skylda sé að vottar skuli vera tveir og skulu þeir í því tilfelli vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Eins og fram hafi komið sé annar votturinn lögmaður og því hefði hans vottun ein og sér nægt. Þá hafi vottarnir báðir verið viðstaddir vottunina.
Í 80. gr. hjúskaparlaga segi enn fremur að í vottorði þeirra [vottanna] skuli koma fram að skjalið sé kaupmáli. Ákvæðið hafi aldrei verið skilið öðru vísi en svo að vottun sú sem hér um ræði uppfylli þetta skilyrði. Þessu til staðfestingar sé vísað til bls. 197 í ritinu Samningar og skjöl eftir Þóri Örn Árnason frá árinu 1995. Þar komi m.a. fram að í vottorði þeirra skuli koma fram að skjalið sem þeir undirrita sé kaupmáli. Á bls. 200 sé síðan að finna sýnishorn af kaupmála fyrir hjúskap sem uppfyllir skilyrði 80. gr. hjskl. Verði ekki betur séð en sú ,,vottunaraðferð“ sem þar komi fram sé sú sama og í kaupmála þeim sem hér um ræði og sé talin vera í fullu samræmi við 80. gr. hjskl.
Þá sé því mótmælt að sóknaraðili hafi ekki haft hugmynd um inntak og réttaráhrif kaupmálans samkvæmt íslenskum rétti. Í fyrsta lagi hafi sóknaraðili talað góða ensku og varnaraðili útskýrt það vel fyrir henni, áður en kaupmálinn var gerður, af hverju hann væri að gera kaupmála og hver réttaráhrif hans væru. Varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir því að hann ætti eignirnar og að þær kæmu ekki til skipta við skilnað því þær væru séreign. Þá hafi lögmaðurinn, sem útbjó kaupmálann, einnig farið vel yfir efni hans og réttaráhrif. Loks fullyrði lögmaðurinn sjálfur að það hafi verið venja hjá honum að gera skjólstæðingum grein fyrir innihaldi skjala og réttaráhrifum, sér í lagi ef um erlendan aðila hafi verið að ræða.
Það sé alþekkt, og hafi verið tíðkanlegt um langan aldur, að kaupmálar séu gerðir með þessu hætti og hafi form og efni slíkra kaupmála aldrei valdið ógildingu. Á því sé byggt að öllum öryggissjónarmiðum hafi verið fullnægt.
Kaupmálinn hafi verið gerður sérstaklega í þeim tilgangi að víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, sbr. 74. gr. hjskl., þar sem varnaraðili hafi átt skuldlausar þær eignir sem þar koma fram. Sóknaraðila hafi verið gerð grein fyrir texta, inntaki og réttaráhrifum kaupmálans.
Því sé mótmælt að ígildisreglan eigi ekki við í málinu. Í 2. gr. kaupmálans komi fram að arður og það sem kemur í stað séreignar verður séreign þess sem séreignina á, sbr. einnig 75. gr. hjskl. Það liggi fyrir að fasteignin [...] var séreign varnaraðila skv. kaupmálanum. Þegar sú séreign hafi verið seld árið 2002 fyrir 10.000.000 kr. hafi önnur séreign komið í staðinn, þ.e. [...], kaupverð 12.400.000 kr., og hafi hún orðið ígildi fyrri fasteignar enda að fullu greidd með séreignum varnaraðila, þ.e. með sölu á [...], 10.000.000 kr. og sölu bifreiðarinnar, LK-155, 1.100.000 kr. Þá hafi kaupverðið verið greitt með 1.300.000 kr. í peningum sem varnaraðili hafi átt. Engir fjármunir hafi komið frá sóknaraðila. Það sé rangt að sóknaraðili hafi fest kaup á 20% eignarinnar. Hún hafi eingöngu verið skráð 20% eigandi á þinglýsingarskjali en þinglýsing ein og sér nægi ekki til að sýna fram á hvert sé raunverulegt eignarhald á fasteign eins og augljóst sé í þessu máli.
Þá sé því mótmælt að eignir aðila hafi runnið saman á hjúskapartíma aðila enda hafi sóknaraðili engar eignir átt sem hafi getað runnið saman við eignir varnaraðila. Þegar varnaraðili hafi fest kaup á [...] þann 11.10.2004 fyrir 17.500.000 kr. hafi hann greitt nánast allt kaupverðið, eða 13.800.000 kr., með sölu á séreign sinni að [...], og [...] orðið ígildi fyrri séreignar, sbr. 2. gr. kaupmálans. Aðilar hafi tekið í sameiningu lán að fjárhæð 4.000.000 kr. hjá Gildi lífeyrissjóði sem sé skráð á sóknaraðila. Báðir aðilar hafi hins vegar greitt jafnt af láninu sem sé með fjóra gjalddaga á ári og hafi barnabætur ávallt nægt til að greiða afborganir.
Því hafi verið háttað þannig að sóknaraðili greiddi mars og september gjalddaga en varnaraðili júní og desember gjalddaga. Sóknaraðili hafi hins vegar ekkert greitt af láninu síðan í mars 2012. Þá sé því alfarið mótmælt að sóknaraðili hafi ein staðið straum af endurnýjun íbúðarinnar á árinu 2011 en aðilar máls tóku lán hjá lífeyrissjóði sóknaraðila að fjárhæð 2.000.000 kr. þann 5.7.2011. Lánið hafi upphaflega verið skuldfært mánaðarlega af reikningi sóknaraðila nr. [...], u.þ.b. 40.000 kr. á mánuði, en varnaraðili hafi í nokkur skipti greitt hluta inn á reikning sóknaraðila, samtals 61.553 kr. Sóknaraðili hafi hins vegar hætt að greiða af láninu í júní 2012 og í kjölfarið eða frá 5. júlí 2012 hafi lánið verið skuldfært af reikningi varnaraðila nr. 701-26-000265. Sóknaraðili hafi því eingöngu greitt af láni þessu í um 11 mánuði, samtals 371.783 kr. að frádregnum innborgunum varnaraðila en varnaraðili hafi greitt af láninu í 8 mánuði, samtals 321.394 kr. auk þess sem hann greiddi í nokkur skipti inn á reikning sóknaraðila, 61.553 kr. eða samtals 393.947 kr. Lán þetta sé enn skuldfært af reikningi varnaraðila.
Varakröfu sóknaraðila um að sóknaraðili hafi fjármagnað 50% eignarinnar að [...] sé alfarið mótmælt með vísan til fyrirliggjandi gagna enda hafi sóknaraðili ekki lagt fram nein gögn því til staðfestu. Skráning sóknaraðila sem 50% eiganda í kaupsamningi sé röng og hafi varnaraðila algerlega sést yfir það við þinglýsingu skjalsins og veit ekki hvernig þessi mistök eru til komin. Gögn málsins séu algerlega augljós um það að sóknaraðili átti skuldlausa fasteign og tvær bifreiðar árið 1999 sem hann gerði að séreignum sínum fyrir hjúskap og það sem kom í stað þeirra séreigna urðu áfram hans séreignir, sbr. ákvæði í 2. gr. kaupmálans. Í samræmi við kaupmálann urðu fasteignir sem hann keypti í stað fyrri fasteignar ígildi séreignar hans sbr. 75. gr. hjskl. og úrskurður Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. Q-2/2007 frá 13. ágúst 2007.
Hafi varnaraðili ætlað gefa sóknaraðila hlut í séreign sinni hefði þurft að gera sérstakan kaupmála þar um sbr. 72. gr. hjskl. Er á því byggt að gjafir milli hjóna séu því aðeins gildar að um þær sé gerður kaupmáli, sbr. 72. gr. hjskl. Þar sem yfirfærsla eigna til sóknaraðila hafi aldrei verið gerð á þann hátt eigi varnaraðili í raun réttri alla eignina í séreign, sbr. tilvitnaður úrskurður Héraðsdóms Suðurlands. Aðeins með kaupmála hafi mátt breyta gildandi kaupmála.
Því sé mótmælt að sóknaraðili hafi á 13 ára hjúskapartíma oftast haft svipaðar tekjur og varnaraðili. Hið rétta sé að þegar sóknaraðili hafi hafið störf við [...] í árslok 2000 hafi hún verið í 80% starfi uns hún hóf nám sem [...] á vegum Eflingar á árunum 2005-2008. Í beinu framhaldi af því hafi hún hafið [...] sem hún hafi lokið árið 2011. Sóknaraðili hafi ekki verið í fullu starfi meðan hún var í námi. Hún hafi engin námslán tekið og hafi varnaraðili stuðlað að menntun hennar og betri launum í framtíðinni.
Eins og fram komi á skattframtölum aðila hafi varnaraðili ávallt haft mun hærri tekjur en sóknaraðili. Sem dæmi megi nefna að samkvæmt skattframtali 2012 hafi heildartekjur varnaraðila vegna ársins 2011 verið 3.932.778 kr. en tekjur sóknaraðila 2.546.696 kr., samkvæmt skattframtali 2011 hafi tekjur varnaraðila verið 3.683.797 kr. en sóknaraðila 2.650.578 kr., samkvæmt skattframtali 2010 hafi tekjur varnaraðila verið 5.694.875 kr. en sóknaraðila 3.247.218 kr, samkvæmt skattframtali 2009 hafi tekjur varnaraðila verið 3.649.519 kr. en sóknaraðila 3.099.233 kr., samkvæmt skattframtali 2008 hafi tekjur varnaraðila verið 2.947.136 kr. en sóknaraðila 2.071.713 kr., samkvæmt skattframtali 2007 hafi tekjur varnaraðila verið 2.968.764 kr. en sóknaraðila 1.772.600 kr. og samkvæmt skattframtali 2006 hafi tekjur varnaraðila verið 2.485.250 kr. en sóknaraðila 1.821.651 kr.
Varnaraðili krefjist þess að kaupmálinn verði metinn gildur og að fasteign hans að [...] verði metin séreign hans og henni haldið utan skipta. Miðað við hjúskaparlengd aðila, vinnuframlag sóknaraðila, fæðingu barna þeirra og hennar hlutdeild í umönnun þeirra fallist varnaraðili á að sóknaraðili fái 25% af nettóandvirði fasteignarinnar við [...] við fjárskipti aðila þrátt fyrir skýrt orðalag kaupamálans um að eignin sé séreign hans. Á því sé byggt að hvers konar eignaskráningar og eignatilfæringar til varnaraðila hafi ekkert gildi þar sem ekki hafi verið gerður um þær kaupmáli. Varnaraðili fallist því á framangreinda skiptingu án skyldu.
Ef kaupmálinn verði talinn ógildur sé á því byggt að ósanngjarnt sé að beita helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, sbr. 104. gr. laganna og 36. gr. sml. nr. 7/1936. Í 1. mgr. 104. gr. hjskl. segi m.a. að víkja megi frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna, t.d. ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskarstofnunina, eins og staðan sé í þessu máli. Það sé því ósanngjarnt að kaupmálinn nái ekki fram að ganga á formsatriðum einum þegar ákvörðun aðila hafi í upphafi hjúskapar verið að færa ekki eignir á milli aðila sem þegar voru orðnar til. Það sé, eins og að framan greini, ósanngjarnt í ljósi þess að varnaraðili hafi komið með eignina inn í hjúskapinn og aflaði meiri tekna en sóknaraðili.
Vísað sé til meginreglna hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 72., 74., 75., 80. og 104.gr. laganna, laga nr. 21/1993 um skipti á dánarbúum o.fl., laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerningar nr. 7/1936, einkum 36. gr. laganna o.fl., og Hrd. nr. 321/1997 og úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. Q-2/2007.
Krafan um málflutningsþóknun sé byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Varnaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.
IV.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins er ágreiningur aðila talinn varða það hvort kaupmáli, dags. 31. ágúst 1999, skuli metinn ógildur.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um að kaupmálinn skuli metinn ógildur og að viðurkennt verði að [...] m2 íbúð á [...] sé hjúskapareign aðila á því að ekki komi fram í vottorði vottanna A hæstaréttarlögmans og B, ritara hans, að skjalið sem þau vottuðu sé kaupmáli. Þá byggir sóknaraðili á því að votturinn B hafi ekki verið viðstödd undirritun kaupmálans.
Samkvæmt 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal kaupmáli vera skriflegur. Undirritun hjóna eða hjónaefna skal staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða af fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum, sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í vottorði þeirra skal koma fram að skjalið, sem vottað er, sé kaupmáli.
Í máli þessu liggur fyrir að kaupmálinn er saminn af A hæstaréttarlögmanni og vottaður af honum og ritara hans. Staðfesting lögmannsins eins hefði hins vegar nægt, sbr. 80. gr. hjúskaparlaga
Lögmaðurinn staðhæfði fyrir dóminum að hann hefði verið viðstaddur undirritun kaupmálans ásamt ritara sínum. Ritarinn ber á sama veg og telur víst að hún hafi venju samkvæmt verið viðstödd vottunina.
Vottorð vottanna ber ekki með sér að þeir séu að votta kaupmála. Hins vegar er á það að líta að skjalið, sem samið er af lögmanninum, ber yfirskriftina kaupmáli, auk þess sem orðið kaupmáli kemur þrívegis fyrir í texta skalsins.
Þykir því engum vafa undirorpið að vottunum hafi verið ljóst að skjalið sem þeir vottuðu væri kaupmáli. Þykir því ekki, eins og hér stendur á, unnt að fallast á að vottun kaupmálans uppfylli ekki formskilyrði 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að valdi ógildi hans.
Sóknaraðili, sem er frá [...], byggir einnig á að hún hafi ekki haft hugmynd um inntak og réttaráhrif kaupmála samkvæmt íslenskum rétti.
Varnaraðili kveðst hafa gert sóknaraðila ítarlega grein fyrir því hvað í kaupmálanum fælist.
A hæstaréttarlögmaður bar fyrir dóminum að hann hafi útskýrt skilmerkilega fyrir sóknaraðila réttaráhrif kaupmálans. Hann hafi útskýrð það fyrir sóknaraðila á ensku sem sóknaraðili hafi skilið ágætlega. Í hans huga sé það ekki undirorpið neinum vafa að hún hafi gert sér grein fyrir þýðingu kaupmálans.
Þykir því ekki við annað að miða en að sóknaraðila hafi verið ljóst efni kaupmálans og hver réttaráhrif hans væru.
Loks byggir sóknaraðili á að eignir aðila hafi runnið saman á hjúskapartíma þeirra og því eigi ígildisreglan ekki við.
Með hinum umdeilda kaupmála var íbúð varnaraðila að [...] gerð að séreign hans. Þá liggur fyrir að íbúðin var seld þann 11. janúar 2002 fyrir 10.000.000 kr. og að sama dag var íbúð á [...] keypt fyrir 12.400.000 kr. Í kaupsamningi segir að sóknaraðili sé kaupandi að 20% íbúðarinnar en varnaraðili 80%. Þann 20. apríl 2004 var íbúðin seld fyrir 13.800.000 kr. og þann 28. apríl 2004 var keypt íbúð á [...] hússins [...]fyrir 17.500.000 kr. Í kaupsamningi kemur fram að aðilar séu kaupendur hvort að sínum helmingi eignarinnar og á þinglýsingarvottorði kemur fram að sóknaraðili sé eigandi 50% eignarinnar en varnaraðili eigandi 50% eignarinnar.
Fyrir liggur að í 2. gr. kaupmálans kemur fram að arður og það sem kemur í stað séreignar verði séreign þess sem séreignina á.
Í máli þessu liggur fyrir að íbúðin að [...] er komin í stað íbúðarinnar að [...].
Samkvæmt 2. gr. kaupmálans, sbr. 75. gr. húskaparlaga nr. 31/1993, verður verðmæti sem kemur í stað séreignar einnig séreign, svo og arður af þessum verðmætum, nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda.
Umrædd íbúð er því séreign varnaraðila sakvæmt kaupmála aðila sem að mati dómsins er ekki haldinn neinum þeim anmörkum er ógildingu hans geta valdið.
Í máli þessu verður ekki tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en þeirra sem skiptastjóri vísaði til dómsins með bréfi sínu, dags. 23. október 2012, sbr. 3. tl. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991, þ.e. ágreiningi um gildi kaupmála aðila.
Verður þegar af þeirri ástæðu að vísa frá dómi kröfum aðila er lúta að öðru en gildi kaupmálans. Þá verður í máli þessu ekki leyst úr því hvort sóknaraðili kunni að hafa eignast endurgjaldskröfu á hendur varnaraðila.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu sóknaraðila, K, um að kaupmáli, dagsettur 31. ágúst 1999, verði metinn ógildur.
Málskostnaður fellur niður.