Hæstiréttur íslands
Mál nr. 227/2003
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Einkahlutafélag
- Uppgjör
- Galli
- Afsláttur
|
|
Fimmtudaginn 29. janúar 2004. |
|
Nr. 227/2003. |
Nathan & Olsen ehf. (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) gegn Þórdísi Sigurðsson Skorra A. Aikman Inger Önnu Aikman og Haraldi Á. Aikman (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Kaupsamningur. Einkahlutafélög. Uppgjör. Galli. Afsláttur.
N keypti af Þ, J, S, I og H alla hluti í einkahlutafélaginu Á og átti kaupverðið að greiðast með fjórum afborgunum. Afhending hins selda fór fram við fyrstu greiðslu. Í samningnum voru raktar forsendur N og þess getið að önnur greiðsla ætti að fara fram að lokinni athugasemdalausri áreiðanleikakönnun sem gerð yrði af trúnaðarmönnum N og skyldi henni vera lokið innan ákveðins tíma. N taldi að lokinni könnuninni að forsendur kaupsamningsins hefðu ekki staðist í tilteknum atriðum og krafðist afsláttar. Var í kjölfarið gert samkomulag um afslátt og var afborgun innt af hendi í samræmi við það. Þegar kom að þriðju afborgun taldi N að enn hefðu komið fram atriði varðandi rekstur félagsins sem leiða ættu til lækkunar kaupverðs og dró frá afborguninni fjárhæð sem því nam. Mótmæltu seljendur þessu og kröfðust í málinu eftirstöðva umræddrar kaupsamningsgreiðslu. N krafðist hins vegar skuldajafnaðar, sem hann reisti á því að hann ætti rétt á afslætti sem næmi því sem hann hefði haldið eftir af fyrrnefndri kaupsamningsgreiðslu, auk þess sem hann krafðist sjálfstæðs dóms fyrir tiltekinni fjárhæð, sem hann taldi sig hafa ofgreitt. Talið var að N gæti ekki borið fyrir sig galla á hinu selda sem hann hefði mátt sjá við áreiðanleikakönnun þá sem kaupsamningur gat um og framkvæmd var af trúnaðarmönnum hans. Þóttu kröfur hans ýmist ekki studdar fullnægjandi gögnum eða ekki nægilega rökstutt af hans hálfu hvers vegna trúnaðarmenn hans hefðu ekki mátt verða varir við þá annmarka á hinu selda sem um ræddi. Talið var að sú forsenda N að viðskiptakröfur Á skyldu teljast gildar og innheimtanlegar fæli ekki í sér að þær þyrftu að fást í raun innheimtar á síðari stigum heldur bæri að miða við stöðu þeirra á afhendingardegi. Talið var að svo hafi háttað til um tilgreindar viðskiptakröfur og var fallist á að fjárhæð þeirra kæmi til lækkunar kröfu seljanda. Um kröfur vegna víxils, sem ekki hafi verið færður í viðskiptabókhald og vegna endurálagningar opinberra gjalda var fallist á að ekki yrði talið að þær hefðu mátt uppgötvast við fyrrnefnda áreiðanleikakönnun. N taldist hins vegar ekki hafa lagt fram fullnægjandi gögn varðandi þessar kröfur sínar og varð því ekki felldur efnisdómur um réttmæti þeirra. Var N dæmdur til að greiða eftirstöðvar kaupsamningsgreiðslunnar að frádreginni fjárhæð fyrrnefndra viðskiptakrafna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og að þau verði dæmd óskipt til að greiða sér 733.195 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júní 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst áfrýjandi þess að krafa stefndu verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Eftir uppkvaðningu héraðsdóms fékk stefnda Þórdís Sigurðsson leyfi 20. ágúst 2003 til setu í óskiptu búi sínu og eiginmanns síns, John Aikman, sem lést 3. mars 2002. Samkvæmt 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962 með áorðnum breytingum hefur hún því tekið í eigin nafni við aðild að málinu af dánarbúi hans.
I.
Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að áfrýjandi gerði kaupsamning 10. ágúst 2000 við hluthafa í Heildverslun Ásgeirs Sigurðssonar ehf. um kaup á öllum hlutum í félaginu. Hluthafar þessir voru stefndu ásamt John Aikman, en í samningnum var einskis getið um hlut hvers þeirra í félaginu. Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá efnisatriðum þessa samnings í heild, en samkvæmt honum skyldi áfrýjandi greiða samtals 200.000.000 krónur fyrir hlutina. Af þeirri fjárhæð átti í fyrsta lagi að greiða 65.000.000 krónur um leið og fyrir lægju „skriflegar staðfestingar stærstu birgja“ um að viðskiptasamband við félagið yrði óbreytt, en þó ekki síðar en í lok ágúst 2000. Þá bar áfrýjanda í öðru lagi að greiða 50.000.000 krónur að lokinni „athugasemdalausri áreiðanleikakönnun“, sem yrði gerð af trúnaðarmönnum hans og lokið ekki síðar en 1. október sama ár. Í þriðja lagi skyldi hann greiða 65.000.000 krónur 1. ágúst 2001 og loks 20.000.000 krónur 1. mars 2002, en fjárhæðir þessar yrðu bundnar vísitölu neysluverðs. Síðastnefnda afborgunin var háð nánar tilteknum skilyrðum um veltu félagsins, sem ekki er ástæða til að greina nánar frá, enda kemur hún ekki frekar við sögu í málinu. Samkvæmt 4. lið samningsins átti áfrýjandi þá þegar að taka við öllum réttindum og skyldum vegna hinna seldu hluta, en þeir yrðu þó ekki framseldir honum fyrr en fyrsta afborgunin af kaupverði hefði verið innt af hendi. Fram til þess tíma skyldu seljendur bera ábyrgð á rekstri félagsins, en allar meiri háttar ákvarðanir háðar samþykki áfrýjanda. Í 5. og 6. lið samningsins voru tilgreindar í ellefu atriðum forsendur áfrýjanda fyrir kaupunum. Kom þar meðal annars fram að þau væru gerð á grundvelli ársreiknings félagsins fyrir árið 1999 og skyldu engar meiri háttar breytingar hafa orðið á rekstri þess eða fjárhag frá lokum þess árs umfram það, sem talið yrði leiða af venjubundinni starfsemi. Þá var áskilið að viðskiptakröfur félagsins væru gildar og innheimtanlegar, en svo skyldi ekki talið ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta, svo og ef árangurslaust fjárnám hefði verið gert hjá honum og krafan væri lægri en 250.000 krónur. Einnig var tekið fram að kaupin væri háð þeirri forsendu að ekki væru „í gangi eða yfirvofandi málaferli“ gegn félaginu svo að seljendunum væri kunnugt.
Áfrýjandi kveður fyrstu afborgun kaupverðs hafa verið greidda 28. ágúst 2000 og hann tekið við hinu selda í samræmi við það, sem mælt var fyrir um í 4. lið samningsins. Þá fól hann KPMG Endurskoðun hf. að annast áreiðanleikakönnunina, sem um ræddi í samningnum, auk þess sem sá sami var fenginn til að gera árshlutareikning 31. ágúst 2000 fyrir Heildverslun Ásgeirs Sigurðssonar ehf. Þau reikningsskil lágu fyrir 27. september 2000, en áreiðanleikakönnunin 3. október sama ár. Niðurstöður hennar urðu þær að ekki stæðist sú forsenda áfrýjanda fyrir kaupunum að engar meiri háttar breytingar hafi orðið á rekstri og fjárhag félagsins frá 31. desember 1999. Kæmi þar einkum til verulegt rekstrartap fyrstu átta mánuði ársins 2000 í stað nokkurs hagnaðar á árinu áður, eigið fé félagsins hafi lækkað mjög og væri orðið neikvætt og skuldir þess aukist mikið frá byrjun síðastnefnds árs. Nánari fjárhæðir voru tilgreindar varðandi öll þessi atriði, en á þeim grundvelli var talið að eigið fé félagsins væri að minnsta kosti 33.400.000 krónum lægra en ætlað var í forsendum kaupsamningsins. Var látið uppi það álit að kaupverð úr hendi áfrýjanda ætti að lækka um þá fjárhæð. Að fram kominni þessari skýrslu gerðu áfrýjandi og seljendurnir samkomulag 5. október 2000, þar sem vísað var til niðurstaðna hennar. Sagði í samkomulaginu að sammæli hafi orðið um að ljúka uppgjöri við aðra afborgun kaupverðsins á þann hátt að heildarverð hins selda myndi lækka um samtals 28.000.000 krónur. Af þeirri fjárhæð kæmu 18.000.000 krónur til lækkunar á þessari afborgun af kaupverðinu, sem yrði þannig 32.000.000 krónur, en þriðja afborgunin, sem greiða skyldi 1. ágúst 2001, yrði lækkuð um 10.000.000 krónur, sem bundnar yrðu breytingum á vísitölu neysluverðs á sama hátt og afborgunin. Þá var tekið fram í samkomulaginu að uppgjör viðskiptakrafna félagsins samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins skyldi „fara fram hinn 1. ágúst 2001 eða 1. mars 2002 eftir því hvernig tilefni kann að vera orðið til á hvorum tíma.“ Þess var jafnframt getið að kaupsamningurinn frá 10. ágúst 2000 skyldi að öðru leyti standa óbreyttur. Óumdeilt er að áfrýjandi stóð skil á annarri afborgun kaupverðsins að gerðu þessu samkomulagi.
Áfrýjandi kveður það hafa komið fram nokkru eftir gerð þessa samkomulags að til innheimtu væri í Landsbanka Íslands hf. víxill, sem samþykktur hafði verið til greiðslu 20. október 2000 af John Aikman sem prókúruhafa fyrir Heildverslun Ásgeirs Sigurðssonar ehf. en útgefinn af þeim sama persónulega 15. ágúst sama ár. Félagið hafi greitt þennan víxil, en síðan hafi orðið ljóst að hann hafi aldrei verið færður til skuldar í bókhaldi þess, svo og að andvirði hans hafi runnið til útgefandans. Við samþykki víxilsins hafi John enn haft prókúruumboð fyrir félagið, en þessi ráðstöfun ekki verið borin undir áfrýjanda og því heimildarlaus. Segir áfrýjandi að rætt hafi verið við John eftir þetta og hann strax staðfest að skuld þessi hafi ekki hvílt á félaginu, heldur honum sjálfum. Hafi hann heitið að leiðrétta þetta, en af því hafi ekki orðið.
Með bréfi 11. janúar 2001 tilkynnti KPMG Endurskoðun hf. áfrýjanda að komið hafi fram eftir að lokið var vinnu við áreiðanleikakönnunina að upplýsingar frá félaginu, sem þar hafi verið stuðst við, hafi ekki staðist að öllu leyti. Nánar tiltekið hafi birgðir af ákveðnum vörum verið færðar til eignar í árshlutareikningi 31. ágúst 2000 á grundvelli söluverðs en ekki kostnaðarverðs og þær því verið ofmetnar. Þá hafi fundist reikningar vegna vörukaupa og annars rekstrarkostnaðar, sem ekki hafi verið bókfærðir hjá félaginu. Loks hafi borist upplýsingar um að ekki hafi verið greidd iðgjöld til lífeyrissjóðs á árinu 1999 vegna launa stjórnenda félagsins. Varðandi alla þessi liði voru tilgreindar fjárhæðir og nam samtala þeirra 11.066.611 krónum. Var greint frá því áliti að kaupverð hlutanna í félaginu ætti að lækka sem þessu svaraði. Áfrýjandi hefur lagt fram í málinu gögn til stuðnings því að hann hafi síðari hluta janúar 2001 kynnt þetta bréf nafngreindum lögfræðingi, sem hafði milligöngu um að koma á kaupunum og áfrýjandi kveður hafa á þeim tíma gætt hagsmuna stefndu. Að öðru leyti liggur ekkert fyrir um samskipti aðilanna um þetta efni á því tímaskeiði.
Sem fyrr segir bar áfrýjanda að greiða þriðju afborgun kaupverðs 1. ágúst 2001, sem ákveðið var með samkomulaginu 5. október 2000 að lækka í 55.000.000 krónur auk verðtryggingar. Í málinu virðist vera óumdeilt að áfrýjandi hafi á gjalddaga greitt seljendunum 42.867.168 krónur. Samkvæmt samantekt frá 23. júlí 2001, sem virðist stafa frá áfrýjanda, var fjárhæð þessi fundin þannig að frá umsaminni greiðslu, 55.000.000 krónum, voru dregnar 11.066.611 krónur samkvæmt bréfi KPMG Endurskoðunar hf. frá 11. janúar sama ár, 3.802.942 krónur vegna afskrifta á viðskiptakröfum og 705.000 krónur vegna áðurnefnds víxils, en seljendum var talin í hag inneign á viðskiptareikningi að fjárhæð 619.933 krónur. Niðurstaða þessarar samantektar, 40.045.380 krónur, samsvaraði 42.867.168 krónum með áföllnum verðbótum samkvæmt kaupsamningi. Samkvæmt bréfi fjármálastjóra áfrýjanda 15. ágúst 2001 til félagsstjórnar átti hann daginn áður fund með nafngreindum fulltrúum seljendanna til að fara yfir uppgjör vegna þriðju afborgunar af kaupverðinu. Á grundvelli þeirrar yfirferðar lagði fjármálastjórinn til að horfið yrði frá því að telja meðal ófærðra skulda félagsins reikninga að fjárhæð 563.382 krónur, því yrðu færðar til tekna 973.744 krónur vegna áunninna umboðslauna, frekari viðskiptakröfur yrðu afskrifaðar að fjárhæð 118.290 krónur, afskriftir yrði lækkaðar um 771.648 krónur vegna virðisaukaskatts af töpuðum kröfum, sem fengist endurgreiddur, og bókfærð inneign hjá Lyfjadreifingu sf. yrði lækkuð um 347.707 krónur vegna ófærðra innborgana og fleira. Samkvæmt þessu taldi fjármálastjórinn að þriðja afborgun kaupverðsins ætti að hækka um 1.842.777 krónur eða sem svaraði 1.965.260 krónum með áföllnum verðbótum. Óumdeilt er að þessi viðbótargreiðsla var innt af hendi til seljenda að fram kominni tillögu fjármálastjórans.
Stefndu ásamt John Aikman kröfðu áfrýjanda með bréfi 7. september 2001 um greiðslu á 14.043.134 krónum auk vaxta og innheimtukostnaðar. Var því borið við að áfrýjanda hafi ekki verið heimilt að lækka þriðju afborgunina af kaupverðinu um meira en þær 10.000.000 krónur, sem um ræddi í samkomulaginu frá 5. október 2000. Hafi honum því borið að standa skil á umsaminni fjárhæð, sem hafi numið 58.875.562 krónum með áföllnum verðbótum. Af henni hafi áfrýjandi greitt samtals 44.832.428 krónur og skuldaði því enn fyrstnefndu fjárhæðina. Áfrýjandi hafnaði þessari kröfu með bréfi 2. október 2001.
Skattstjórinn í Reykjavík kvað upp úrskurð 25. september 2001, þar sem opinber gjöld Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. vegna gjaldáranna 1997, 1998 og 1999 voru tekin til endurákvörðunar. Í úrskurði þessum, sem varðaði einkum stofn til tryggingagjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda, kom meðal annars fram að skattstjóri hafi krafið félagið um greinargerð varðandi nánar tiltekin atriði með bréfi 24. febrúar 2000. Áfrýjandi kveður þennan úrskurð hafa leitt til hækkunar á opinberum gjöldum félagsins vegna umræddra ára um samtals 1.039.722 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum og álagi. Á móti þessu komi að hluta endurgreiðsla á 224.434 krónum, sem fengist hafi á gjöldum félagsins fyrir atbeina seljendanna.
Stefndu ásamt dánarbúi John Aikman höfðuðu mál þetta á hendur áfrýjanda 24. maí 2002 til heimtu fyrrnefndum 14.043.134 krónum, sem þau töldu ógreiddar af þriðju afborgun kaupverðs. Í greinargerð fyrir héraðsdómi hreyfði áfrýjandi ekki mótmælum gegn þeirri kröfu, en krafðist á hinn bóginn sýknu vegna skuldajafnaðar á gagnkröfu, sem hann taldi sig eiga vegna framangreindra atvika. Þá höfðaði hann gagnsök til sjálfstæðs dóms fyrir eftirstöðvum gagnkröfu sinnar, sem hann taldi nema 807.920 krónum. Í hinum áfrýjaða dómi var gagnkröfu áfrýjanda með öllu hafnað, en krafa stefnenda í héraði tekin að fullu til greina. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi gert nokkrar breytingar á einstökum liðum gagnkröfunnar. Samkvæmt kröfugerð hans hér fyrir dómi telur hann mismun í uppgjöri þriðju afborgunarinnar nema 733.195 krónum sér í vil, sem hann hafi þannig ofgreitt í ágúst 2001.
II.
Sem fyrr segir lýsti KPMG Endurskoðun hf. því áliti í bréfi til áfrýjanda 11. janúar 2001 að komið hafi fram eftir að áreiðanleikakönnun var lokið að rekstrartap Heildarverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. samkvæmt árshlutareikningi 31. ágúst 2000 hafi verið vantalið um 11.066.611 krónur vegna rangra eða ófullnægjandi upplýsinga frá seljendum. Ætti þetta að leiða til samsvarandi lækkunar á kaupverði hlutanna í félaginu. Var þetta rakið til þess að vörubirgðir hafi verið ofmetnar um 6.156.947 krónur, fundist hafi óbókfærðir reikningar að fjárhæð alls 3.442.119 krónur og láðst hafi að bóka gjaldfallin iðgjöld til lífeyrissjóðs árið 1999 að fjárhæð 1.467.545 krónur. Í framhaldi af athugun, sem greint var frá í áðurnefndu bréfi 15. ágúst 2001, féllst áfrýjandi á að hverfa frá athugasemdum vegna óbókfærðra reikninga að fjárhæð 563.382 krónur, svo og að viðurkenna 973.744 krónur í tekjur vegna umboðslauna, sem ekki var gert ráð fyrir í árshlutareikningnum. Með þessum breytingum telur áfrýjandi framangreint álit KPMG Endurskoðunar hf. standa óhaggað og eigi hann því kröfu á stefndu að fjárhæð 9.529.485 krónur, sem hækka beri vegna verðlagsbreytinga á sama hátt og þriðju afborgun kaupverðs. Nemur þannig fyrsti liðurinn í gagnkröfu hans, sem reistur er á þessum grunni, 10.200.978 krónum.
Samkvæmt meginreglu 51. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem giltu við gerð kaupsamningsins 10. ágúst 2000, sbr. nú 99. gr. laga nr. 50/2000 um sama efni, bar kaupanda, þegar um verslunarkaup var að ræða, að rannsaka söluhlut eftir afhendingu hans eins og góð verslunartíska heimti. Kæmi í ljós að söluhlut væri ábótavant og kaupandi vildi bera það fyrir sig bar honum í slíkum kaupum að skýra seljanda frá því þegar í stað, sbr. 52. gr. laga nr. 39/1922. Rannsókn var gerð á hinum seldu hlutum í samræmi við meginreglu fyrstnefnda lagaákvæðisins með þeirri áreiðanleikakönnun, sem áfrýjandi fól KPMG Endurskoðun hf. að annast. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi þegar í stað eftir að könnuninni var lokið 3. október 2000 komið því á framfæri við seljendur að hann teldi hinum seldu hlutum áfátt og var endanlega leyst úr aðfinnslum hans með samkomulagi þeirra 5. sama mánaðar. Samkvæmt hljóðan kaupsamnings átti áfrýjandi að velja hverjum yrði falin þessi könnun og væri sá trúnaðarmaður hans. Hlaut áfrýjandi því jafnframt að ráða hversu ítarleg könnunin yrði og til hverra atriða hún tæki. Að þessu virtu verður ekki fallist á að hann geti nú borið fyrir sig annmarka á hinu selda, sem leiða hefði mátt í ljós við þá könnun en ekki varð uppvíst um.
Í skýrslu KPMG Endurskoðunar hf. um áreiðanleikakönnunina var meðal annars fjallað um verðmat á vörubirgðum Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf., matsverðið sundurliðað eftir vöruflokkum og fundið að því að það hefði ekki verið fært nægilega niður í reikningsskilum vegna ýmissa óvissuþátta. Sérstaklega var tekið fram að þeir, sem unnu að könnuninni, hafi verið viðstaddir birgðatalningu á þeim vöruflokki, sem hermt var síðar í bréfi 11. janúar 2001 að metinn hefði verið á röngum verðgrunni. Áfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir því að trúnaðarmenn hans, sem gerðu þessa könnun, hafi ekki mátt verða varir við þessi mistök þá.
Um aðra framangreinda þætti í þessum lið gagnkröfu áfrýjanda hafa ekki verið lögð fram viðhlítandi gögn. Er meðal annars af þeim sökum óljóst hvort eða hvernig upplýsa hefði mátt við könnunina um þá gjaldaliði, sem hér um ræðir og ekki höfðu verið bókfærðir, svo sem með athugun á stöðu viðskiptareikninga félagsins hjá viðsemjendum þess og öðrum lánardrottnum. Óhjákvæmilegt er að áfrýjandi beri hallann af þessu. Verður að öllu þessu athuguðu að hafna í heild þessum fyrsta lið í gagnkröfu hans.
Í bréfi fjármálastjóra áfrýjanda 15. ágúst 2001 til félagsstjórnar var sem fyrr segir vikið að skekkju, sem komið hafi fram á stöðu viðskiptareiknings Lyfjadreifingar sf. í bókhaldi Heildarverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. Var þar greint frá því að fyrrnefnda félagið hafi upplýst að fimm nánar tilgreindar færslur hafi vantað á þeim reikningi til lækkunar á skuld þess, sem væri þannig oftalin um 347.707 krónur. Í þriðja lið gagnkröfu áfrýjanda, eins og hún er fram sett fyrir Hæstarétti, telur hann stefndu standa í skuld við sig af þessari ástæðu og sé fjárhæð hennar 372.208 krónur þegar beitt sé sama framreikningi með vísitölu og gilti um verðtryggingu þriðju afborgunar hans af kaupverði. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram viðhlítandi gögn um þennan lið í gagnkröfu sinni. Með vísan til þeirra röksemda, sem greinir hér að framan varðandi óbókfærða reikninga, hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að ekki hefði mátt komast að raun um þessa skekkju við gerð áreiðanleikakönnunar. Verður þriðja lið gagnkröfu hans því jafnframt hafnað af þessum sökum.
III.
Í kaupsamningnum 10. ágúst 2000 var sem fyrr segir meðal annars greint frá þeirri forsendu áfrýjanda fyrir kaupunum að viðskiptakröfur Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. væru gildar og innheimtanlegar. Samkvæmt málatilbúnaði hans fyrir Hæstarétti telur hann fram komið að þessum áskilnaði hafi ekki verið fullnægt að því er varðar sextán nánar tilgreindar kröfur félagsins, sem nemi samtals 3.079.779 krónum að höfuðstól. Áfrýjandi telur þessa fjárhæð eiga að hækka eftir verðtryggingarákvæði kaupsamningsins, sem gilti um þriðju afborgun kaupverðs. Samkvæmt því telur hann í öðrum lið gagnkröfu sinnar stefndu skulda sér 3.296.794 krónur vegna viðskiptakrafna, sem fáist ekki innheimtar.
Ákvæðið í kaupsamningnum, sem að þessu snýr, var orðað þannig að áfrýjandi áskildi að „viðskiptakröfur félagsins séu gildar og innheimtanlegar“. Eftir orðanna hljóðan fólst ekki í þessu ákvæði að viðskiptakröfurnar þyrftu á síðari stigum að fást í raun innheimtar, heldur að talið væri að svo myndi reynast eins og atvikum var háttað við samningsgerðina. Til þess verður að líta að ákvæðið var í þeim liðum samningsins, þar sem forsendur áfrýjanda fyrir kaupunum voru tilgreindar. Áreiðanleikakönnunin, sem í hönd fór í beinu framhaldi af gerð samningsins, átti eftir hljóðan hans að beinast að „forsendum kaupsamningsins“. Að þessu virtu er ekki unnt að skilja kaupsamninginn á þann veg að ætlast hafi verið til að seljendur bæru áhættuna af því hvort einstakar viðskiptakröfur myndu fást innheimtar, heldur verður að líta svo á að við það hafi átt að miða hvort skilyrði voru til að afskrifa þær þegar áhættan af hinu selda færðist í hendur áfrýjanda.
Ekki verður ráðið af skýrslu KPMG Endurskoðunar hf. frá 3. október 2000 að hugað hafi verið að því við gerð áreiðanleikakönnunar hvort efni væru til að afskrifa einstakar viðskiptakröfur samkvæmt þeirri viðmiðun, sem ákveðin var í kaupsamningi. Sem fyrr segir var í samkomulagi áfrýjanda við seljendurna 5. október 2000 mælt fyrir um að uppgjör viðskiptakrafna eftir ákvæðum kaupsamningsins skyldi fara fram við uppgjör á þriðju eða fjórðu afborgun kaupverðs, 1. ágúst 2001 eða 1. mars 2002, „eftir því hvernig tilefni kann að vera orðið til á hvorum tíma.“ Ekki verður litið svo á að þetta orðalag í samkomulaginu hafi breytt kaupsamningnum á þann veg að seljendurnir tækju á sig alla áhættu af greiðslugetu skuldunauta félagsins svo lengi sem kaupverð væri ekki að fullu greitt. Verður því að leggja til grundvallar að eftir sem áður hafi átt að meta hvort einstakar viðskiptakröfur máttu teljast innheimtanlegar þegar hið selda var afhent, en seljendur hafi á hinn bóginn skuldbundið sig til að hlíta við greiðslu síðari afborgana lækkun á kaupverði, sem svaraði til fullrar fjárhæðar viðskiptakrafna, sem telja hafi átt óinnheimtanlegar á afhendingardegi.
Eins og áður kom fram var ákveðið í kaupsamningi að viðskiptakröfur teldust ekki innheimtanlegar ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta eða ef árangurslaust fjárnám hefði verið gert hjá honum og krafan væri lægri en 250.000 krónur. Miða verður við að áhættan af hinu selda hafi færst í hendur áfrýjanda 28. ágúst 2000. Samkvæmt gögnum, sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt, hafði bú eins skuldunautar Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta fyrir þann tíma og hjá tveimur öðrum, sem stóðu í skuld með lægri fjárhæð en 250.000 krónur, hafði verið gert árangurslaust fjárnám. Fjárhæð höfuðstóls þessara þriggja skulda án virðisaukaskatts var samtals 212.991 króna. Stefndu hafa ekki sérstaklega mótmælt því að áfrýjanda sé heimilt að framreikna fjárhæð gagnkröfu sinnar á sama hátt og fjárhæð þriðju afborgunar kaupverðs var verðtryggð eftir ákvæðum kaupsamningsins. Verður því fallist á gagnkröfu áfrýjanda samkvæmt þessum lið með 227.999 krónum.
IV.
Í fjórða lið gagnkröfu áfrýjanda fyrir Hæstarétti telur hann til inneignar hjá stefndu greiðslu á fyrrnefndum víxli, sem John Aikman hafði samþykkt fyrir hönd Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. með gjalddaga 20. október 2000. Frá fjárhæð víxilsins, 705.000 krónum, dregur áfrýjandi inneign seljenda á viðskiptareikningi hjá félaginu, 619.933 krónur. Mismuninn, 85.067 krónur, framreiknar hann síðan samkvæmt ákvæði kaupsamnings um verðtryggingu þriðju afborgunar kaupverðs og krefst samkvæmt því 91.061 krónu í þessum lið.
Áfrýjandi reisir loks fimmta lið gagnkröfu sinnar á því að úrskurður skattstjórans í Reykjavík 25. september 2001 hafi sem áður greinir leitt til hækkunar á opinberum gjöldum Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. vegna gjaldáranna 1997, 1998 og 1999 um samtals 1.039.722 krónur. Hann dregur frá þessu 224.434 krónur, sem fengist hafi endurgreiddar af gjöldum félagsins, og krefst hér mismunarins, 815.288 króna.
Ekki verður litið svo á að atvik að baki þessum tveimur liðum í gagnkröfu áfrýjanda séu slík að uppvíst hafi mátt verða um þá við áreiðanleikakönnunina, sem lokið var 3. október 2000. Um síðastnefnda liðinn verður jafnframt að líta til þess að í kaupsamningi lýsti áfrýjandi meðal annars þeirri forsendu fyrir kaupunum að ekki væru yfirvofandi málaferli gegn Heildverslun Ásgeirs Sigurðssonar ehf., en fyrirhugaðri endurákvörðun opinberra gjalda, sem seljendum mátti hafa verið kunnugt um frá því í febrúar 2000, verður fyllilega að jafna til þess. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn ekki lagt fram viðhlítandi gögn um greiðslu víxilsins, sem um ræðir í fjórða lið gagnkröfu hans, eða hvernig kunni að hafa verið farið með þá greiðslu í bókum félagsins. Hann hefur heldur ekki lagt fram fullnaðargögn um álagningu þeirra opinberu gjalda, sem fimmti liður gagnkröfunnar varðar, og engin haldbær gögn um greiðslu þeirra. Er því ekki fært að leggja efnisdóm á þessa tvo liði í gagnkröfu áfrýjanda.
V.
Samkvæmt öllu framangreindu telst áfrýjandi standa í skuld við stefndu vegna ógreiddra eftirstöðva þriðju afborgunar af kaupverði hluta í Heildverslun Ásgeirs Sigurðssonar ehf., að fjárhæð 14.043.134 krónur að frádregnum 227.999 krónum samkvæmt öðrum lið gagnkröfu hans eða 13.815.135 krónur. Að gættum yfirlýsingum í málflutningi stefndu fyrir Hæstarétti verður að skilja málatilbúnað þeirra svo að þau telji þessa kröfu vera í óskiptri sameign þeirra. Með því að áfrýjandi hefur ekki mótmælt því sérstaklega verður hann dæmdur til að greiða stefndu í einu lagi síðastnefnda fjárhæð með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Nathan & Olsen ehf., greiði stefndu, Þórdísi Sigurðsson, Skorra A. Aikman, Inger Önnu Aikman og Haraldi Á. Aikman, 13.815.135 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2001 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefndu samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2003.
I
Mál þetta var höfðað 24. maí 2002 og dómtekið 5. maí 2003. Gagnstefna var birt gagnstefndu 24. júní 2002.
Aðalstefnendur eru Þórdís Sigurðsson kt. 030841-3019, dánarbú John Aikman kt. 130139-4699, Skorri Andrew Aikman kt. 160571-3069, Haraldur Ásgeir Aikman kt. 230267-5539 og Inger Anna Aikman kt. 240164-3029 en aðalstefndi er Nathan & Olsen ehf. kt. 430999-2229, Vatnagörðum 20 Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda í aðalsök eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim sameiginlega 14.043.134 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum frá 1. ágúst 2001 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda í aðalsök eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda en til vara að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann þess að stefnendur verði dæmdir in solidum til að greiða honum málskostnað.
Dómkröfur stefnanda í gagnsök eru þær að gagnstefndu verði in solidum dæmd til að greiða honum 807.920 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum frá 25. júní 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Dómkröfur stefndu í gagnsök eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök auk málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir að með kaupsamningi 10. ágúst 2000 seldu aðalstefnendur aðalstefnda öll hlutabréf í Heildverslun Ásgeirs Sigurðssonar ehf., skammstafað ÁS og verður nú rakið meginefni hans:
1. Hið selda
Nánar tiltekið er hið selda allir hlutir í ÁS en þeir eru að nafnverði 8.794.007 krónur.
2. Kaupverð
Kaupverð hins selda er 200.000.000 krónur sem kaupandi skuldbindur sig til að greiða með eftirfarandi hætti.
a) 65.000.000 krónur um leið og fyrir liggja skriflegar staðfestingar stærstu birgja um að viðskiptasamband við ÁS verði óbreytt, í síðasta lagi fyrir lok ágúst.
b) 50.000.000 krónur að lokinni athugasemdalausri áreiðanleikakönnun á forsendum kaupsamningsins, sem framkvæmd verður af trúnaðarmönnum kaupanda og lokið verður við eigi síðar en 1. október 2000.
c) 65.000.000 krónur þann 1. ágúst 2001.
d) 20.000.000 krónur þann 1. mars 2002. Þessi greiðsla er með þeim fyrirvara að kaupandi þarf þó ekki að greiða nema 30,77% af þeirri árssölu sem kann að nást á árinu 2001 umfram 200.000.000 króna og upp að 265.000.000 krónum, báðar fjárhæðir án virðisaukaskatts. Það er þó tilskilið af hálfu ÁS að sá sem yrði ábyrgur fyrir stjórn þeirra sölu- og markaðsmála fái tækifæri til að vinna að framgangi þeirra vöruflokka eftir því sem hann sjálfur hafi ráðgert. Sú vinna verði þó öll innan viðurkenndra vinnubragða og tilkostnaðar. Nái árssalan 2001 ekki 200.000.000 krónum skerðist kaupverðið því um 20.000.000 krónur og um 10.000.000 krónur verði árssalan 232.500.000 krónur. Greiðslur samkvæmt lið c) og d) hækka eða lækka í samræmi við breytingu á neysluverðvísitölu á greiðsludegi frá grunngildinu 200,1.
3. Hið keypta
Með í kaupum á hlutabréfum samkvæmt 1. gr. skal fylgja:
a) Allir viðskiptasamningar og viðskiptavild ÁS og hluthafa ÁS þar með talið öll umboð fyrir söluvörur erlendra og innlendra framleiðenda og önnur sambönd sem eru eða hafa verið hluti af starfsemi ÁS.
b) Fasteignin Síðumúli 35, Reykjavík ásamt öllum réttindum er eigninni fylgir og fylgja ber, þar með talin lóðarréttindi.
c) Allar aðrar eignir ÁS, hvort sem um fasteignir og eða lausafé er að ræða sem skráðar eru sem eign ÁS og eða hluthafa félagsins og nýst hafa að verulegu leyti í rekstri þess.
d) Skuldir félagsins sem fram koma í ársreikningi þess og síðar hefur verið stofnað til með venjubundinni starfsemi.
e) Réttur til að skrifa sig fyrir nýju hlutafé og veita viðtöku jöfnunarhlutum sem ekki hafa þegar verið gefnir út og eða afhentir miðað við 31. desember 1999.
f) Önnur réttindi sem hinir seldu hlutir kunna síðar að veita.
g) Skuld hluthafa við ÁS að fjárhæð 18.000.000 krónur verði greidd og afmáð úr reikningum félagsins með því að hluthafarnir fái þá fjárhæð reiknaða sem arðgreiðslu frá ÁS. Annar arður af hlutunum verður ekki greiddur.
4. Afhending hins selda
Kaupandi skal taka við öllum réttindum og skyldum samkvæmt hinum seldu hlutum þar með töldum atkvæðisrétti frá og með undirskrift kaupsamnings en framsal hlutanna fer fram við fyrstu greiðslu samkvæmt a lið 2. greinar. Félagið skal rekið á sama hátt og hingað til, til framsalsdags. Allar meiriháttar aðgerðir fram að framsalsdegi skulu háðar samþykki kaupanda. Seljendur bera ábyrgð á rekstri félagsins til framsalsdags. Hinir seldu hlutir skulu vera að handveði í vörslu þriðja aðila sem samningsaðilar koma sér saman um til tryggingar greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs.
Hinir seldu hlutir skulu vera kvaðalausir
5. Forsendur af hálfu kaupanda
Kaupin eru gerð á grundvelli ársreiknings fyrir árið 1999, sem dagsettur er 10. júní 2000 og öðrum forsendum sem fram koma í öðrum greinum kaupsamnings þessa.
6. Aðrar forsendur af hálfu kaupanda
a) Að engar meiriháttar breytingar hafi orðið á rekstri og fjárhag félagsins frá 31 desember 1999, eða óvenjulegar ákvarðanir teknar er varða hagsmuni félagsins og eða leitt hafa til rýrnunar verðmæta þess, umfram það sem telja verður hluta af venjubundinni starfsemi.
b) Að viðskiptakröfur félagsins séu gildar og innheimtanlegar og vörubirgðir séu seljanlegar og að veltufjármunir félagsins standi undir þeim peningalegu verðmætum sem fram koma í ársreikningi þess. Allar viðskiptakröfur félagsins skulu teljast innheimtanlegar meðan bú viðkomandi skuldara hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Sé um viðskiptakröfu að ræða sem er að fjárhæð innan við 250.000 krónur er þó nóg að get hafi verið árangurslaust fjárnám hjá skuldara til að krafan teljist ekki lengur innheimtanleg.
c) Að ÁS hafi ekki gert neina óvenjulega launasamninga, eftirlaunasamninga eða aðra starfstengda samninga sem veita starfsmönnum starfskjör eða réttindi sem eru verulega frábrugðin því sem almennt gerist og ekki er getið í ársreikningi síðasta árs.
d) Að ekki sé krafa af hálfu viðskiptabanka ÁS eða annarra stórra lánadrottna félagsins að þeir þurfi að samþykkja fyrir sitt leyti eigendaskipti á félaginu.
e) Að hjónin Þórdís Sigurðsson og John Aikman verði kaupanda innan handar og til aðstoðar að minnsta kosti 3 mánuði eftir undirritun samnings um kaup hlutafjárins og tryggi sem best viðskipasambönd ÁS gagnvart nýjum eigendum, en laun samkvæmt núgildandi ráðningarsamningum við þau falla niður frá 1. ágúst 2000.
f) Að engar skuldir eða skuldbindingar hvíli á félaginu umfram það sem fram kemur í ársreikningi nema eftirlaunaskuldbinding 70.000 krónur á mánuði við Grethe Hjaltested og starfslokasamningur 70.000 krónur á mánuði við Walter Hjaltested.
g) Að ekki séu í gangi yfirvofandi málaferli gagnvart ÁS samkvæmt vitneskju stjórnenda og eða eigenda ÁS.
h) Að ÁS uppfylli og hafi öll tilskilin fyrirvaralaus leyfi til núverandi starfsemi samkvæmt gildandi lögum og reglum og fyrir liggi vottorð eða skrifleg staðfesting þar um frá viðkomandi yfirvöldum
i) Við það er miðað að félagið njóti áfram starfa núverandi lykilstarfsmanna félagsins samkvæmt nánara samkomulagi kaupanda við þá.
j) Gengið er út frá því að seljandi muni ekki taka þátt í eða stunda viðskipti sem eru í beinni samkeppni við starfsemi ÁG næstu 3 ár. Hvað Harald Aikman varðar sem gegnir stöðu fjármálastjóra hjá félaginu skulu ofangreindar takmarkanir á starfsvettvangi miðast við tvö ár frá kaupsamningsdegi.
KPMG Endurskoðun ehf. framkvæmdi áreiðanleikakönnun þá sem gert er ráð fyrir í c lið 2. grein kaupsamningsins og er niðurstaða hennar sú að lækka beri kaupverð um 33.400.000 krónur. Eftir að niðurstaða áreiðanleikakönnunar lá fyrir gerðu aðilar með sér samkomulag þann 5. október 2000 um uppgjör samkvæmt b lið 2. gr. kaupsamningsins. Þar segir að áreiðanleikakönnun á forsendum kaupsamningsins hafi verið gerð af KPMG endurskoðun hf. 3. október 2000. Samkvæmt athugasemdum í henni telji endurskoðendurnir að greiðsla samkvæmt þessum lið og þar með kaupverðið í heild ætti að lækka um 33.4 milljónir. Aðilar kaupsamningsins hafi í framhaldi af móttöku könnunarinnar rætt saman um efni hennar og orðið sammála um að ljúka uppgjöri b liðar 2. greinar samningsins með eftirfarandi hætti:
“1. Kaupverð hlutabréfanna samkvæmt samningnum skal lækka um kr. 28 milljónir sem dragast frá útborgun samkvæmt b lið kr. 18 milljónir og samkvæmt c lið kr. 10 milljónir hinn 1. ágúst 2001. Frádráttarupphæðin kr 10 milljónir skal hækka eða lækka í samræmi við breytingu á neysluverðsvísitölu frá grunngildinu 200,1 eða með sömu verðtryggingarskilmálum og fram koma í kaupsamningnum um c lið í niðurlagi d liðar. Samkvæmt þessu greiðir kaupandi við undirskrift samkomulags þessa kr. 32 milljónir og kr. 55 milljónir hinn 1. ágúst 2001.
2. Aðilar eru sammála um að uppgjör viðskiptakrafna félagsins samkvæmt b lið 6. gr. kaupsamningsins frá 10. ágúst 2000 skuli fara fram hinn 1. ágúst 2001 eða 1. mars 2002 eftir því hvernig tilefni kann að vera orðið til á hvorum tíma.
Að öðru leyti skal samningur aðila um kaupin gilda óbreyttur.
Viðauki:
Áréttað er munnlegt samkomulag um að seljendur fái ókomnar endurgreiðslur vegna gjaldfærðs auglýsingakostnaðar fyrstu 8 mánuði ársins 2000.”
Samkvæmt framanskráðum kaupsamningi aðila átti aðalstefndi að greiða þann 1. ágúst 2001, 55.000.000 krónur, sem er 65.000.000 krónur að frádregnum 10.000.000 krónum samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi, allt að viðbættri hækkun vegna hækkunar grunnvísitölu úr 200,1 í 214,2 eða samtals 58.875.562 krónur. Aðalstefndi greiddi hins vegar aðeins 44.832.428 krónur þar sem hann dró frá greiðslunni gagnkröfur sem hann taldi sig eiga til skuldajafnaðar á móti kröfum aðalstefnenda samtals að fjárhæð 14.043.134 krónur sem er stefnufjárhæðin í aðalsök.
Ágreiningur aðila í aðalsök snýst því um það hvort aðalstefndi eigi gagnkröfur á hendur aðalstefnendum sem hann geti nýtt til skuldajafnaðar á móti stefnukröfum.
Í gagnsök er ágreiningur um hvort aðalstefndi, gagnstefnandi, eigi gagnkröfu umfram þær kröfur sem hann hefur lýst yfir skuldajöfnuði við aðalkröfu aðalstefnanda, á hendur aðalstefnanda, gagnstefnda.
Fyrir dóminum gáfu skýrslur af aðalstefnendurnir Snorri Andrew Aikman og Haraldur Ásgeir Aikman, vitnin Anna Heiða Gunnlaugsdóttir, Eymundur Einarsson, Ólafur Tryggvason og Geir Valur Ágústsson.
III
Málsástæður stefnenda í aðalsök
Af hálfu aðalstefnenda er því haldið fram að áreiðanleikakönnun KPMG, ráðgjafa aðalstefnda sé haldin margvíslegum ágöllum og forsendur kaupsamnings túlkaðar einhliða í vil aðalstefnda. Hafi endurskoðendum KPMG verið kunnugt að af reglulegri starfsemi Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. hafi verið verulegt tap árið 1999, en vegna hagnaðar af óreglulegum liðum, um það bil 25.000.000 krónur, hafi afkoma ársins verið hagstæð. Fulltrúum aðalstefnda og KPMG hafi einnig verið kunnugt að tiltekin deild Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. hafði verið seld á árinu 1999 sem leitt hafi til minnkandi sölutekna og aukins tapreksturs af reglulegri starfsemi. Hafi aðalstefnda verið ljósar þessar forsendur kaupanna. Þrátt fyrir þetta staðhæfi endurskoðendur KPMG að meðal forsendna hafi verið að fyrirtækið yrði ekki rekið með tapi fyrstu átta mánuði ársins 2000. Á það sé ekki fallist og því haldið fram að tapið af reglulegri starfsemi á greindu átta mánaða tímabili teljist ekki til meiri háttar breytinga á rekstrinum samkvæmt forsendum kaupanna.
Eftir að niðurstöður könnunar KPMG hafi legið fyrir hafi aðilar gert með sér samkomulag hinn 5. október 2000 þess efnis að lækka kaupverðið um 28.000.000 krónur. Í því hafi falist að aðalstefnendur hafi fallist á að taka til greina 28.000.000 krónur af þeim 33.400.000 krónum sem ráðgjafi aðalstefndu hafi lagt til að kaupverðið lækkaði um, sem jafngildi 14% afslætti á kaupverði. Hafi aðalstefnendur með þessu augljóslega gengið lengra en sanngirni og réttarstaða þeirra hafi gefið tilefni til. Aðalstefnendum hafi hins vegar af ýmsum ástæðum verið í mun að samningurinn yrði framkvæmdur í góðu samkomulagi aðilanna, enda var hér um að ræða lokasamkomulag um endanlega fjárhæð kaupverðs með þeirri undantekningu einni, að kveðið hafi verið á um að uppgjör samkvæmt b lið 6. gr. kaupsamningsins skyldi fara fram annað hvort 1. ágúst 2001 eða 1. mars 2002
Greiðsluna með gjalddaga 1. ágúst 2001 hafi aðalstefndi innt af hendi með frádrætti án þess að hafa samráð um þann frádrátt við aðalstefnendur. Þeirri greiðslu hafi aðalstefnendur tekið á móti sem áfangagreiðslu upp í umsamda greiðslu með gjalddaga 1. ágúst 2001.
Í kaupsamningi aðila segi meðal annars í b lið 2. gr., að aðra afborgun kaupverðsins, 50.000.000 krónur, skuldbindi aðalstefndi sig til að greiða eigi síðar en 1. október 2000 að lokinni athugasemdalausri áreiðanleikakönnun á forsendum kaupsamningsins, sem framkvæmd verði af trúnaðarmönnum kaupanda og lokið verði við eigi síðar en l. október 2000.
Niðurstaða þeirrar könnunar sé sögð sú, að skerðing á eigin fé umfram kaupsamning nemi 33.400.000 krónum og jafnframt túlki KPMG niðurstöðuna með eftirfarandi hætti:
Samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi séu forsendur kaupanda þær að engar meiriháttar breytingar hafi orðið á rekstri og fjárhag félagsins frá 31. desember 1999. Tap að fjárhæð 44.400.000 krónur á fyrstu 8 mánuðum ársins 2000 hljóti að teljast meiri háttar breyting á rekstri félagsins en hagnaður hafi verið á rekstri félagsins á árinu 1999. Í þessari tölu, 44.400.000 krónum, sé að finna meinta tapliði, 6.800.000 krónur vegna gjaldfærðrar eftirlaunaskuldbindingar og 6.200.000 krónur vegna niðurfærslu viðskiptakrafna.
Kveður aðalstefnandi að báðar þessar tölur séu þó dregnar frá í niðurstöðum könnunarinnar og á þeim grundvelli hafi aðilar gert með sér áðurgreint samkomulag 5. október 2000, sem hafi byggst á könnuninni, enda aðalstefnda kunnugt um þessa liði frá upphafi. Hafi aðalstefnendur fallist á að lækka söluverðið um 28.000.000 krónur til að ljúka málinu með samkomulagi. Þar með hafi skilyrðinu um áreiðanleikakönnun verið fullnægt og allir fyrirvarar á brott fallnir.
Hafi aðalstefndi engar heimildir að lögum eða samkvæmt samningi aðila til að beita einhliða frádrætti eða lækkun á kaupverðinu. Aðalstefndi hafi ekki efnt fyrrgreint samkomulag heldur hafi hann einhliða lækkað greiðslu með gjalddaga hinn l. ágúst 2001, auk umsaminnar lækkunar um 10.000.000 krónur um 14.043.134 krónur og sé mál þetta höfðað til greiðslu þeirrar fjárhæðar og hafi þá verið reiknaðar verðbætur miðað við gjalddaga.
Aðalstefnendur hafna öllum þeim kröfum sem lögmaður aðalstefnda hafi haft uppi á hendur þeim enda séu þær óviðkomandi máli þessu og þýðingarlausar. Þá telja aðalstefnendur að í áreiðanleikakönnun eigi að felast hlutlæg úttekt af hálfu sérfróðra aðila, oftast lögmanna, en einnig endurskoðenda og annarra sérfræðinga, eftir því sem við eigi. Fulltrúar KPMG virðist hins vegar hafa litið á sig sem hagsmunagæslumenn aðalstefnda og aðeins skýrt frá því sem honum hentaði í því skyni að freista þess að rökstyðja ástæður til að fá afslátt af kaupverði hlutafjárins. Þetta hafi meðal annars birst í því að endurskoðendurnir hafi ekkert tillit tekið til jákvæðra hagsmuna, svo sem skattalegs hagræðis af bókfærðu tapi, óeignfærðra umboðslauna, sem greidd hafi verið eftir afhendingu félagins til kaupanda og afslátta á vöruverði.
Samkvæmt ársreikningi Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. fyrir árið 1999, sem aðalstefndi og KPMG höfðu í höndum áður en kaupin gerðust, hafi tap af reglulegri starfsemi ársins numið 10.634.612 krónum. Hinsvegar hafi lyfjadeild fyrirtækisins verið seld á árinu 1999 og hafi hagnaður af sölunni numið 24.814.000 krónum og því hafi bókfærð afkoma ársins verið jákvæð um 13.496.475 krónur. Tap hafi hinsvegar verið af reglulegri starfsemi. Lyfjadeildin hafi skilað verulegum hagnaði þar til hún var seld og hafi KPMG mátt vera ljóst að með sölu hennar myndi afkoma fyrirtækisins versna sem næmi hagstæðri afkomu deildarinnar.
Í áreiðanleikakönnun KPMG frá 3. október 2000 segi að tap að fjárhæð 44.400.000 króna á fyrstu 8 mánuðum ársins hljóti að teljast meiri háttar breyting á rekstri félagsins, en hagnaður hafi verið á rekstri félagsins á árinu 1999. Tap það sem hér sé vísað til stafi meðal annars af breytingum á reikningsskilum, svo sem því að KPMG hafi gjaldfært í einu lagi eftirlaunaskuldbindingar félagsins að fjárhæð 6.800.000 krónur sem kaupanda hafi verið kunnugt um. Ennfremur hafi KPMG fært niður viðskiptakröfur um 6.200.000 krónur og birgðir um 1.600.000 krónur. Samtals geri þetta 14.600.000 krónur. Framsetning KPMG sé að þessu leyti afar villandi. Hafi KPMG borið að segja að tap félagsins af reglulegri starfsemi hefði aukist frá því sem áður var, en það hafi legið fyrir að svo yrði meðal annars vegna sölu á lyfjadeildinni um mitt ár 1999. KPMG hafi borið að bera saman sambærilega hluti, en að öðrum kosti gera grein fyrir mismunandi aðferðum og útskýra þær. KPMG hafi borið að gera grein fyrir að á fyrra tímabilinu hafi verið seld deild úr fyrirtækinu sem leitt hafi til reikningslegs hagnaðar, en tap hefði verið af reglulegri stafsemi félagsins. Þá hafi KPMG borið að gera grein fyrir að ekki hefðu verið notaðar sömu reikningsskilareglur fyrir bæði tímabilin. Á fyrra tímabilinu hafi verið um hagnað að ræða vegna sölu deildar að fjárhæð 24.800.000 krónur. Á síðara tímabilinu séu notaðar aðrar reikningsskilareglur en á hinu fyrra tímabili og muni þar 20.800.000 krónum. Samtals geri þessi munur 45.600.000 krónur.
Þá sé áreiðanleikakönnun KPMG byggð á óendurskoðuðum árshlutareikningi sem endurskoðunarstofan hafi sjálf gert. Hvorki áreiðanleikakönnunin né hinn óendurskoðaði árshlutareikningur pr. 31. ágúst 2000 hafi verið borin undir aðalstefnendur og þeim því ekki gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri.
Í bréfi KPMG til stjórnar aðalstefnda hinn 11. janúar 2001 segi meðal annars að upplýsingar frá stjórnendum, þ.e. aðalstefnendum standist ekki. Þessari staðhæfingu KPMG sé mótmælt sem rangri. Hvorki aðalstefndu né ráðgjafar þeirra munu geta sýnt fram á að aðalstefnendur hafi gefið þeim rangar upplýsingar né neinn á þeirra vegum. Sérstaklega sé því mótmælt að aðalstefnendur hafi gefið aðalstefnda eða ráðgjöfum hans rangar upplýsingar um kostnaðarverðmæti birgða.
Þá geri KPMG enga grein fyrir því í bréfi sínu til aðalstefnda hinn 11. janúar 2001 að aðalstefnendur hafi veitt aðalstefnda afslátt að fjárhæð 28.000.000 krónur og þar með hefði farið fram lokauppgjör sem ekki yrði tekið upp að nýju. KPMG veki heldur ekki athygli á að ekki sé tekið tillit til atriða sem teljist aðalstefnda í hag og ættu samkvæmt aðferðafræði KPMG að leiða til hækkunar kaupverðsins.
Samkvæmt kaupsamningi aðila frá 10 ágúst 2000 skyldi inna lokagreiðslu kaupverðs fyrir hlutabréfin af hendi hinn 1. mars 2002. Sú greiðsla sé háð þeim skilyrðum að kaupandi þurfi ekki að greiða nema 30,77% af árssölu Ásgeirs Sigurðssonar ehf. á árinu 2001 umfram 200.000.000 krónum og upp að 265.000.000 krónum, sem jafngildir því að verði salan minni en 200.000.000 krónur falli greiðslan niður en verði hún 265.000.000 krónur eða meira greiðist 20.000.000 krónur. Aðalstefnda sé þó skylt haga málum þannig, að þeir sem beri ábyrgð á sölustarfinu fái sem besta aðstöðu til að ná þessu marki og skuli vinnan við söluna vera innan viðurkenndra vinnubragða og tilkostnaðar. Aðalstefnendum hafi ekki enn borist skýrsla aðalstefnda um sölutölur á árinu 2001, né heldur upplýsingar um hvað aðalstefndi hafi gert til að markmiðum þessum yrði náð. Þar sem gögn þessi hafi ekki borist frá aðalstefnda, enda þótt tímamarkið 1. mars 2002 sé liðið, séu aðalstefnendur enn ekki í aðstöðu til að ganga til uppgjörs vegna þessa liðar og þar með heldur ekki í aðstöðu til að krefja stefnda um efndir samkvæmt þessum lið í þessu dómsmáli.
Málsástæður stefnda í aðalsök
Aðalstefndi kveðst byggja á því að aðalstefnendur hafi skuldbundið sig til þess með ákvæðum samningsins að hlíta lækkun kaupverðs hins selda ef í ljós kæmi að meiriháttar breytingar hefðu orðið á rekstri og fjárhag Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar ehf. frá 31. desember 1999 til þess tíma er áhætta af rekstrinum fluttist yfir til aðalstefnda þann 28. ágúst 2000, þe. ef eigið fé félagsins hefði skerst umfram eðlilega rekstraráhættu og aðrar tilgreindar forsendur kaupsamnings aðila, samkvæmt niðurstöðu könnunar trúnaðarmanna aðalstefnda.
Hafi könnun á þessu atriði verið athugasemda- og ágreiningslaust falin trúnaðarmönnum aðalstefnda, þeim Aðalsteini Hákonarsyni, Önnu Þórðardóttur og Geir V. Ágústssyni, öllum löggiltum endurskoðendum hjá KPMG Endurskoðun ehf. Hafi þessir trúnaðarmenn réttilega og á grundvelli upplýsinga frá aðalstefnendum sjálfum komist að þeirri niðurstöðu í frumskýrslu sinni að lækka bæri kaupverð hlutabréfanna um 33.400.000 krónur og með viðbótarskýrslu sinni að lækka bæri kaupverðið um 11.100.000 krónur til viðbótar eða samtals um 44.500.000 krónur samkvæmt tilgreindum ákvæðum samningsins um það efni. Könnun trúnaðarmannanna hafi leitt í ljós galla á hinu selda í kröfuréttarlegu tilliti sem leiði til afsláttar/lækkunar kaupverðsins samkvæmt meginreglum kröfuréttarins um galla, þegar greiðsla feli ekki í sér áskilda kosti.
Telur aðalstefndi að aðilar máls þessa hafi endanlega gert upp lækkunarþætti þá sem þekktir hafi verið 5. október 2000 og kveðst aðalstefndi munu virða efni samkomulags aðila dagsett þann dag. Hafi stefndi samþykkt lækkun á fyrrgreindri lækkunarfjárhæð úr 33.400.000 krónum í 28.000.000 krónur. Það samkomulag hafi því ekki þýðingu í þessu máli til annars en að varpa ljósi á heildarumfang hinna stórkostlegu vanefnda aðalstefnenda í máli þessu.
Þannig nemi heildarfjárhæð lækkunar samkvæmt niðurstöðu trúnaðarmannanna samtals um 44.400.000 krónum. Sú fjárhæð sé sem næst 25% kaupverðs, miðað við 180.000.000 krónur og sé þá ótalin sú skerðing sem hafi orðið vegna ábyrgðarskuldbindinga og annarra útgjalda sem félagið hafi orðið að standa straum af til viðbótar eða 807.920 krónur samkvæmt gagnsök til sjálfstæðs dóms. Um þá fjárhæð hafi aðalstefndi ekkert vitað um við samningsgerðina þann 5. október 2000, sem sé skýlaust brot á ákvæðum stafliða f og g liða í 6. gr. kaupsamnings aðila.
Telur aðalstefndi að samkomulag aðila frá 5. október 2000 fjalli aðeins um þá lækkunarþætti sem þá hafi verið fram komnir og verið þekktir á þeim tíma og hafi verið sérstaklega gerðir upp samkvæmt því samkomulagi. Þannig segi í samkomulaginu að það fjalli aðeins um uppgjör b liðar 2. gr. en að öðru leyti skuli samningur aðila standa óbreyttur. Þar með standi að sjálfsögðu óbreytt og óhögguð ákvæði 4. gr. og f og g liða 6. gr. samningsins svo dæmi séu tekin. Komi í ljós frekari skuldbindingar síðar eða eftir 5. október 2000, sem falli undir ákvæði þeirra greina, verði ábyrgð seljanda samkvæmt þeim ákvæðum þegar virk. Sú ábyrgð falli ekki niður við það eitt að greiðsla samkvæmt c lið 2. gr. hafi verið gerð upp með einum eða öðrum hætti.
Tölulega sundurliðist kröfuliðir máls þessa þannig:
Dómkrafa stefnanda kr. 14.043.134
Lækkun kaupverðs skv. könnun trúnaðarmannanna kr. 11.846.417
Frádráttur skv. lið 6 b í kaupsamningi kr. 3.371.519
Oftalin inneign hjá Lyfjadreifingu kr. 372.208
Víxilskuld v/ John Aikman, víxilábyrgð kr. 754.678
Samtals kr. 16.344.822
Bakfærður reikn. Tropicana kr. -603.081
Tekjufærð umboðslaun kr. -1.042.359
Inneign stefndu á viðskiptareikningi kr. -663.616
Munur á viðskiptareikningi kr. 7.368 kr. 14.043.134
Þegar aðalstefndi hafði greitt 44.832.428 krónur inn á greiðslu samkvæmt kaupsamningnum pr. 1. ágúst 2001, skuldajafnað greiðslum samkvæmt framangreindri sundurliðan að fjárhæð 16.344.822 krónur og 2.309.056 krónur aðalstefnendum til tekna hafi inneign þeirra staðið eftir á viðskiptareikningi að fjárhæð 7.368 krónur sem gengið hafi til á kröfugerð þá sem nánar sé gerð grein fyrir í gagnstefnu. Sé á því byggt af hálfu aðalstefnda að hann hafi haft og hafi enn rétt til að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar að fjárhæð 14.035.766 krónur. Öll skilyrði þess skuldajafnaðar séu fyrir hendi og hafi svo verið þegar hann var gerður. Sé sú krafa gerð á grundvelli 1. mgr. 28. gr. eml.
Að þessu virtu beri að sýkna aðalstefnda í málinu. Af hálfu aðalstefnda sé byggt á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um álitaefni máls þessa.
IV
Málsástæður stefnanda í gagnsök
Í bréfi lögmanns gagnstefnanda til lögmanns gagnstefnda 2. október 2001 sé því lýst að félaginu hafi borist bréf Skattstjórans í Reykjavík um fyrirhugaða skattlagningu félagsins vegna meintra brota á skattalögum sbr. bréf skattstjórans í Reykjavík 22. febrúar 2001. Um þetta hafi gagnstefnanda ekki verið kunnugt fyrr en með bréfi skattstjóra. Þegar hafi verið haft samband við gagnstefndu og hafi þeir lýst allri ábyrgð á hendur sér vegna máls þessa. Framhald málsins hafi leitt til úrskurðar Skattstjórans í Reykjavík 25. september 2001. Því hafi gagnstefnandi neyðst til að greiða tryggingagjald. Síðar hafi komið í ljós að fyrrverandi endurskoðandi fyrirtækisins hafði áður kært aðra álagningu á félagið og hafi sú kæra leitt til endurgreiðslu. Sú endurgreiðsla sé færð gegnstefndu til tekna. Síðan sé færð til tekna fjárhæð sem sé til leiðréttingar vísitöluútreiknings sem hafi verið færð á viðskiptareikning gagnstefndu. Samtals nemi þessar fjárhæðir að frádregnum framangreindum tekjufærslum stefnufjárhæðinni í gagnsök eða samtals 807.920 krónur og komi hún til viðbótar gagnkröfum til skuldajafnaðar í aðalsök.
Hvað snertir skattkröfuna vísar gagnstefnandi sérstaklega til ákvæða kaupsamnings aðila g lið 6 gr. sem fjalli um það að ekki séu í gangi eða yfirvofandi málaferli gegn félaginu. Gagnstefndu hafi vitað um þessa yfirvofandi kröfugerð skattstjóra en hafi leynt gagnstefnanda þeirri vitneskju. Ábyrgð þeirra sé þegar af þeirri ástæðu skýr. Komi til þess að ekki verði fallist á skuldajöfnunarkröfuliði í aðalsök í heild myndi krafa gagnstefnanda í þessu gagnsakarmáli verða nýtt til skuldajafnaðar að því marki sem þörf væri á en gagnkröfur í aðalsök sem og kröfur gagnstefnanda í gagnsök uppfylli öll skilyrði til skuldajafnaðar.
Málsástæður gagnstefndu í gagnsök
Um tilefni þessarar kröfu kveða gagnstefndu að vísist einkum til úrskurðar Skattstjórans í Reykjavík dags. 25. september 2001. Samkvæmt honum hafi talist óheimilt í þessu tilviki að greiða einkahlutafélagi fyrir veitta stjórnunarþjónustu gegn fastri þóknun. Virðist skattyfirvöld telja sér óheimilt að viðurkenna slíkar breytingar í viðskiptum og telji sér jafnframt skylt að vinna gegn slíkri þróun og framförum. Samkvæmt úrskurði skattstjóra virðist einkahlutafélög og önnur félög ekki geta veitt stjórnunarþjónustu, heldur verði slík þjónusta að vera veitt af einstaklingi og byggjast á starfssamningi en ekki þjónustu- eða verksamningi. Að öðrum kosti geti skattyfirvöld ekki fallist á að draga stjórnunarkostnað frá tekjum fyrirtækja. Ekki verði beinlínis ráðið af þeim gögnum sem gagnstefnandi leggi fram hvort úrskurðinum hafi verið skotið til æðra stjórnvalds, en að láta það hjá líða teljist á áhættu gagnstefnanda.
Skattyfirvöld hafi flutt einhliða greiðslur til áminnst einkahlutafélags á nafn John heitins Aikman á sömu skattárum. Hann hafi skotið þeirri ákvörðun til yfirskattanefndar sem staðfest hafi niðurstöður varðandi tvö fyrstu árin, en ekki það síðasta.
Þær reikningsskilaaðferðir sem hafi orðið tilefni afskipta skattyfirvalda hafi komið ljóst fram í gögnum félagsins og verið gagnstefnanda sem kaupanda að fullu kunnar. Hann hafi í síðasta lagi við áreiðanleikakönnun 3. október 2000 getað gert athugasemdir, en þær hafi ekki komið fram þá. Áhættan af samningnum við einkahlutafélagið um þjónustu og skattalega meðferð hvíli á gagnstefnanda. Endurskoðun álagðra skatta verði ekki jafnað til yfirvofandi málshöfðana.
Með hliðsjón af öllu ofangreindu sé því haldið fram að gagnstefnandi geti ekki krafist þess að kaupverð hlutabréfa í Heildverslun Ásgeirs Sigurðssonar ehf. verði endurskoðað og gagnstefndu gert að veita frekari afslætti en þegar hafi verið veittir.
Vísa gagnstefndu um þetta til almennra reglna samningaréttarins.
V
Það er óumdeilt í máli þessu að aðalstefnendur eiga kröfu á hendur aðalstefnda að fjárhæð 14.043.134 krónur í samræmi við kaupsamning aðila 10. ágúst 2000 og samkomulag aðila 5. október 2000. Ágreiningur er hins vegar um gagnkröfur þær sem aðalstefndi telur sig eiga á hendur aðalstefnendum.
Samkvæmt kaupsamningi aðila og fyrrgreindu samkomulagi átti aðalstefndi að greiða aðalstefnendum þann 1. ágúst 2001 55.000.000 krónur með verðbótum eða samtals 58.875.562 krónur. Hann greiddi hins vegar aðeins 44.832.428 og stendur þá eftir dómkrafa aðalstefnenda að fjárhæð 14.043.134 krónur.
Aðalstefndi krefst sýknu af dómkröfum aðalstefnenda í aðalsök þar sem hann eigi gagnkröfur til skuldajafnaðar sem nemi hærri fjárhæð en dómkröfur aðalstefnenda hljóði upp á. Í fyrsta lagi dregur aðalstefndi frá kröfu aðalstefnanda 11.066.611 krónur að nafnvirði sem verður 11.846.417 krónur með verðbótum. Þennan frádrátt byggir hann á bréfi KPMG Endurskoðunar 11. janúar 2001. Þar kemur fram að eftir vinnu þeirra við áreiðanleikakönnun á Ásgeiri Sigurðssyni ehf. lauk 3. október 2000 hafi komið í ljós að upplýsingar frá stjórnendum félagsins stæðust ekki að öllu leyti. Þannig sé bæði um að ræða ógjaldfærðan kostnað sem þeir hafi gleymt að segja frá varðandi rekstrartímabilið 1. janúar 2000 til 31. ágúst 2000 auk þess sem komið hafi í ljós að mat á birgðum félagsins hafi verið með öðrum hætti en um hafi verið beðið.
Tap tímabilsins 1.janúar til 31. ágúst 2000 samkvæmt árshlutareikningi hafi verið 44.392.713 krónur og viðbótarkostnaður samkvæmt ofanskráðu 11.066.611 krónur og sé því tap tímabilsins 1. janúar til 31. ágúst 2000 eftir leiðréttingar samtals 55.459.324 krónur.
Hvað snertir leiðréttingu á kostnaðarverðmæti birgða þá segir að birgðir efnavara séu eignfærðar á söluveði en ekki á kostnaðarverði í árshlutareikningi 31. ágúst 2000. Mismunur vegna þessa að teknu tillit til lækkunar á niðurfærslu birgða hafi numið 6,2 milljónum króna. Hafi þeir farið yfir talningu birgðanna með starfsmönnum og hafi sú skoðun ekki leitt í ljós nein umtalsverð frávik í einingafjölda frá birgðakerfinu. Hins vegar hafi fjármálastjóri séð um að útvega þeim kostnaðarverðlista birgðanna. Sá kostnaðarverðlisti, sem síðar hafi komið í ljós að væri yfirlit um heildarverðmæti birgðanna að söluverði, hafi gefið til kynna að kostnaðarverðmæti birgðanna næmi 19,1 milljón króna. Miðað við þær upplýsingar hafi meðalálagning félagsins á rekstrartímabilinu numið 32,4% en hafi verið 28,6 á árinu 1999. Stjórnendur félagsins hafi verið spurðir sérstaklega um þetta og hafi þeir staðhæft að hækkun meðalálagningar væri eðlileg þar sem félagið hafði á árinu 1999 selt frá sér lyfjaumboð á kostnaðarverði og átti það eitt að skýra hækkandi meðalálagningu. Eftir að vinnu KPMG við árshlutareikninginn hafi lokið hafi síðan komið í ljós að umræddur kostnaðarverðlisti hafi í raun verið yfirlit um söluverðmæti birgðanna. Þá telur KPMG að eftir eigi að gjaldfæra ófærð vörukaup að fjárhæð 1,2 milljón krónur. Samtals eigi því eftir að gjaldfæra 7,4 milljón króna vegna ófærðra vörukaupa og birgðaleiðréttingar. Þannig hefði kostnaðarverð seldra vara átt að vera 90,9 milljón krónur í stað 83,5 milljón krónur og meðalálagning tímabilsins verið 21,5% í stað 32,4%
Þá kemur fram í bréfi KPMG að félaginu hafi nýlega borist reikningur frá Söfnunarsjóði Lífeyrisréttinda vegna lífeyrissjóðsiðgjalda stjórnenda þess á árinu 1999. Í texta með reikningnum standi meðal annars að í ljós hafi komið að ekki hafi verið greidd lífeyrissjóðsiðgjöld í samræmi við skattskyldar tekjur árið 1999. Þannig hafi félagið ekki staðið lögboðin skil á lífeyrissjóðsiðgjöldum stjórnenda og nemi gjaldfallin skuld vegna þessa 1,5 milljónir króna. Þessi skuld hafi ekki verið færð í bækur félagsins þann 31. ágúst 2000.
Í niðurstöðu sinni segir KPMG að það sé mat þeirra að eðlilegt sé að kaupverð hlutabréfanna í félaginu verði lækkað um fjárhæð sem nemi framangreindum mismun eða samtals um 11.066.611 krónur.
Fjármálastjóri aðalstefnda, Ólafur Tryggvason átti fund með Skorra A. Aikman, Haraldi Á. Aikman og Eymundi Einarssyni löggiltum endurskoðanda til að fara yfir niðurstöðu KPMG samkvæmt fyrrgreindu bréfi 11. janúar 2001. Í bréfi hans 15. ágúst 2001 kemur fram það mat hans að rétt sé að falla frá kröfu vegna reikninga frá Tropicana samtals að fjárhæð 563.382 krónur. Þá gerir hann einnig tillögu um að reikningar vegna umboðslauna sem ófært var í uppgjöri 31. ágúst 2000 verði dregið frá samtals að fjárhæð 973.744. Standa þá eftir af þessum hluta gagnkröfunnar 9.529.485 krónur eða með verðbótum 10.200.978 krónur.
Þessa fjárhæð hefur aðalstefndi meðal annars dregið af greiðslu þeirri sem hann átti að inna af hendi 1. ágúst 2001 samkvæmt kaupsamningi aðila og kallar þennan frádrátt leiðréttingu á árshlutauppgjöri 31. ágúst 2000. Þau gögn sem gagnstefnandi styður þessa gagnkröfu sína með eru fullyrðingar sem fram koma í bréfi KPMG um ófærða reikninga og ófullnægjandi mat á birgðum efnavara. Af málatilbúnaði aðalstefnda virðist byggt á að birgðalisti sem vitnið Anna Heiða Gunnlaugsdóttir, sendi vitninu Geir V. Ágústssyni á tölvupósti sýni að mat á birgðum hafi verið rangt í árshlutareikningi 31. ágúst 2000 sem legið hafi til grundvallar áreiðanleikakönnun KPMG 3. október 2000. Þá hafi komið fram ýmsir reikningar eftir að árshlutareikningurinn var fullgerður.
Eins og rakið hefur verið að framan er greiðsla sú sem átti að fara fram þann 1. ágúst 2001 ekki háð neinum skilyrðum í kaupsamningi aðila eða samkomulagi því sem gert var 5. október 2000. Þær greiðslur kaupsamningsins sem háðar voru ákveðnum skilyrðum var fyrsta greiðslan að fjárhæð 65.000.000 krónur og sú síðasta sem hvorugar eru til umfjöllunar í þessu máli. Þá var skilyrði varðandi greiðslu nr. 2 að fjárhæð 50.000.000 krónur að hún yrði greidd að lokinni athugasemdalausri áreiðanleikakönnun á forsendum kaupsamningsins sem framkvæmd væri af trúnaðarmönnum kaupanda og lokið verði eigi síðar en 1. október 2000.
Áreiðanleikakönnunin var gerð af KPMG og er hún dagsett 3. október 2000. Kemur fram í henni að í tengslum við hana hafi verið ákveðið að gera árshlutareikning fyrir félagið vegna tímabilsins 1. janúar til 31. ágúst 2000.
Eins og fram hefur komið var það niðurstaða könnunarinnar á forsendum kaupsamnings aðila að kaupverð ætti að lækka um 33.400.000 krónur. Hefur greiðsla nr. 2 samkvæmt samningnum verið innt af hendi samkvæmt samkomulagi aðila sem dagsett er 5. október 2000 um að aðilar hafi í framhaldi móttöku áreiðanleikakönnunar rætt saman um efni hennar og orðið sammála um að ljúka uppgjöri b liðar 2 greinar samningsins með því að kaupverðið lækkaði um 28.000.000 krónur. Framangreint orðalag samkomulags aðila verður ekki skilið á annan veg en að fullnægt hafi verið þessu ákvæði samningsins í b lið 2. gr. að áreiðanleikakönnun hafi farið fram á forsendum kaupsamningsins sem báðir aðilar sættu sig við. Áreiðanleikakönnunin var ekki athugasemdalaus en aðilar komu sér saman um lausn með samkomulaginu 5. október 2000. Verður því ekki fallist á það með aðalstefnda að aðalstefnendur hafi skuldbundið sig samkvæmt 2. gr. b lið að hlíta lækkun kaupverðs að þessu leyti umfram það sem gert er með fyrrgreindu samkomulagi aðila 5. október 2000. Þegar af þeirri ástæðu þykir aðalstefndi ekki hafa lagt fram haldbær gögn til stuðnings gagnkröfu sinni að fjárhæð 10.200.978 krónur. Verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Þá telur aðalstefndi sig eiga gagnkröfu á hendur aðalstefnendum sem nemur 3.497.291 krónum eða 3.743.727 krónur með verðbótum og vísar hann í því sambandi til b liðar 6. gr. samningsins þar sem segir meðal annars að allar viðskiptakröfur félagsins skuli teljast innheimtanlegar meðan bú viðkomandi skuldara hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Sé um viðskiptakröfu að ræða sem er að fjárhæð innan við 250.000 krónur er þó nóg að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá skuldara til að krafan teljist ekki lengur innheimtanleg. Í samræmi við fyrrgreint samkomulag aðila 5. október 2000 skyldi uppgjör viðskiptakrafna samkvæmt þessu ákvæði samningsins fara fram 1. ágúst 2001 eða 1. mars 2002 eftir atvikum.
Í samræmi við þá ákvörðun dró aðalstefndi frá greiðslu þann 1. ágúst 2001 það sem hann kallar afskrifaðar tapaðar kröfur samkvæmt lista samtals að fjárhæð 3.149.584 krónur, 3.371.519 krónur með verðbótum. Samkvæmt yfirliti aðalstefnda yfir afskrifaðar kröfur frá 1. september 2000 til 31. júlí 2001 eru þar sundurliðaðar eftirfarandi færslur viðskiptaskuldar:
Skuldari Kröfufjárhæð Staða
Útgerðarfélagið Steinaberg 55.976 Gjaldþrot
Traustar Veitingar 123.900 Árangurslaust fjárnám
Hótel Tangi 10.000 Gjaldþrot
Holtshraðahreinsun 7.817 Árangurslaust fjárnám
Ventus bátastöð ehf. 124.784 Gjaldþrot
Planet Chicken 6.032 Gjaldþrot
Brunnar hf. 1.534.741 Gjaldþrot
Brontec ehf. 408.723 Gjaldþrot
Björgunarnetið Markús 71.741 Beðið dóms
Guðni B. Guðnason 65.850 Í lögfræðiinnheimtu
Kjörbúð Reykjavikur 21.487 Í lögfræðiinnheimtu
Við lækinn-efnalaug 17.642 Í lögfræðiinnheimtu
Art-X 241.000 Gjaldþrot
Thermp Plus Europe Íslandi hf. 364.880 Gjaldþrot
Sjávarfang Sækerans ehf. 59.150 Í lögfræðiinnheimtu
Skúfur, teppahreinsun 3.591 Í lögfræðiinnheimtu
Tölvuþjónusta Húsavíkur 32.231 Í lögfræðiinnheimtu
Samtals 3.149.584
Eins og rakið er að framan er í b lið 6. gr. kaupsamningsins sett það skilyrði til að kröfur teljist ekki innheimtanlegar að bú skuldarans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta eða ef fjárhæðin er undir 250.000 dugar að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá skuldaranum.
Aðalstefndi hefur ekki lagt fram önnur gögn en framangreindan lista þar sem hluti afskrifaðra krafna er hvorki vegna gjaldþrots né árangurslauss fjárnáms. Þá liggja ekki fyrir í málinu upplýsingar um hvenær til þessara krafna var stofnað eða gögn sem styðja það svo ekki verði um villst að fullyrðingar um stöðu krafnanna séu réttar en aðalstefnda hefði átt að vera í lófa lagið að leggja fram slík gögn.
Þá dregur aðalstefndi frá samkvæmt b lið 6. gr. kaupsamningsins meinta oftalda inneign hjá Lyfjadreifingu sf. að fjárhæð 347.707 krónur eða 372.208 krónur með verðbótum, án þess að gerð sé nánari grein fyrir því í gögnum málsins hvað er hér á ferðinni og hvernig það fær staðist að færa þessa fjárhæð til frádráttar á grundvelli b liðar 6. gr. kaupsamningsins.
Framangreindur frádráttur aðalstefnda á grundvelli b liðar 6. gr. kaupsamningsins er því að mati dómsins ekki studd haldbærum gögnum og hefur aðalstefndi ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að gagnkrafa þessi eigi rétt á sér en eitt af skilyrðum skuldajafnaðar er að gagnkrafan sé lögvarin.
Þá telur aðalstefndi sig eiga gagnkröfu vegna mismunar á víxilskuld John Aikman að fjárhæð 705.000 krónur og inneignar fyrri eigenda samkvæmt viðskiptareikningi samtals að fjárhæð 619.933 krónur eða samtals 85.067 krónur, 91.061 króna með verðbótum. Þessari kröfu fylgja engin gögn til stuðnings annað en fullyrðingar um að samkvæmt bókhaldi hafi félagið greitt þessa skuld. Hefur aðalstefndi því ekki sýnt fram á það svo ekki verði um villst að hann eigi að þessu leyti lögvarða kröfu á hendur aðalstefnendum, eða að þeir hafi skuldbundið sig til að hlíta lækkun kaupverðs vegna hennar.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hefur aðalstefnda ekki tekist að sýna fram á sýkna beri hann af kröfum stefnenda í aðalsök á grundvelli þess að hann eigi gagnkröfur á hendur þeim sem hann geti nýtt til skuldajafnaðar.
Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að gangstefndu verði dæmd in solidum til greiðslu 807.920 króna. Kröfu þessa sundurliðar gagnstefnandi svo:
Endurgreitt tryggingargjald frá 1999 vegna kæru -177.685
Dráttarvextir vegna endurgreidds tryggingargjalds - 46.749
Álagt tryggingargjald John Aikman vegna 1997 94.491
Álagt tryggingargjald John Aikman vegna 1998 231.264
Álagt tryggingargjald John Aikman 1999 250.267
Álag og dráttarvextir vegna tryggingargjalds J.A. 463.700
Mismunur á greiðslu 17.08.2001 -7.368
Samtals 807.920
Um þessa kröfu vísar gagnstefnandi til úrskurðar Skattstjórans í Reykjavík 25. september 2001 um endurákvörðun opinberra gjalda. Byggir gagnstefnandi þessa kröfu sína á hendur gagnstefndu á g lið 6. gr. kaupsamnings aðila þar sem segir að forsendur kaupenda fyrir kaupunum séu að ekki séu í gangi eða yfirvofandi málaferli gagnvart ÁS samkvæmt vitneskju stjórnenda og eða eigenda ÁS. Ekki verður fallist á það með gagnstefnanda að endurskoðun skattayfirvalda að þessu leyti verði jafnað til málaferla sem annaðhvort séu í gangi eða yfirvofandi. Hér eins og áður er gagnstefnandi að krefjast lækkunar á kaupverði umfram það sem samkomulag varð um milli þann 5. október 2000 og með vísan til sömu raka og fram koma í aðalsök hefur gagnstefnandi ekki sýnt fram á það með haldbærum rökum að gagnstefndu þurfi að hlíta frekari lækkun á kaupverði en þegar var samþykkt í fyrrgreindu samkomulagi.
Í gagnstefnu segir að komi til þess að ekki verði fallist á skuldajöfnunarliði í aðalsök í heild myndi krafa gagnstefnanda í gagnsök verða nýtt til skuldajafnaðar að því marki sem þörf væri á í aðalsök. Þar sem ekki hefur verið fallist að skuldajöfnunarliði gagnstefnanda í aðalsök leiðir framangreind niðurstaða varðandi gagnsök til þess að hún verður ekki nýtt skuldajafnaðar í aðalsök.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða máls þessa að krafa aðalstefnenda er tekin til greina eins og hún er fram sett með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði, en dráttarvaxtakröfunni hefur ekki verið mótmælt.
Eftir þessum úrslitum verður aðalstefndi dæmdur til að greiða aðalstefnendum óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 600.000 krónur.
Af hálfu aðalstefnenda og gagnstefndu flutti málið Ragnar Aðalsteinsson hrl. en af hálfu aðalstefndu og gangstefnanda flutti málið Jónas Aðalsteinsson hrl.
Dóm þennan kveður upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Aðalstefndi, Nathan & Olsen ehf. greiði aðalstefnendum, Þórdísi Sigurðsson, dánarbúi John Aikman, Skorra A. Aikman, Haraldi Aikman og Inger Önnu Aikman óskipt 14.043.134 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III kafla laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2001 til greiðsludags.
Aðalstefndi greiði aðalstefnendum óskipt 600.000 krónur í málskostnað.