Hæstiréttur íslands

Mál nr. 351/2003


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Kjarasamningur


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. mars 2004.

Nr. 351/2003.

Íslenska ríkið

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

gegn

Sigrúnu Kristínu Jónasdóttur

(Gylfi Thorlacius hrl.)

 

Opinberir starfsmenn. Kjarasamningur.

Í og Landssamband lögreglumanna gerðu með sér samkomulag 13. júlí 2001. Með samkomulaginu og eftirfarandi stofnanasamningi 21. nóvember sama ár var tekin upp ný skipan á hækkunum launa lögreglumanna vegna starfsaldurs. Áður hafði verið litið til allra starfa, sem viðkomandi hafði haft með höndum fyrir ríki eða sveitarfélög, en með hinni nýju skipan var horfið að því að meta aðeins lögreglustörf til starfsaldurs, nema um annað væri sérstaklega samið. Deilt var um það hvort starfsreynsla hjá ríki og sveitarfélögum, við önnur störf en lögreglustörf, ætti að hafa áhrif á röðun lögreglumanna í nýtt launakerfi. Stefndu fimm lögreglumenn Í til greiðslu vangoldinna launa og áttu sömu sjónarmið við í öllum málunum. Talið var að lögreglumenn yrðu ekki sviptir þeim áunnu réttindum, sem þeir höfðu öðlast í samræmi við fyrri aðferð við útreikning starfsaldurs til launa, nema skýrt væri kveðið á um það í samningi. Þar sem orðalag bókunar samningsaðila um þetta efni við stofnanasamninginn var ekki afdráttarlaust voru kröfur lögreglumannanna teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Þrepahækkun launa í eldri kjarasamningi lögreglumanna við áfrýjanda vegna annarra starfa en lögreglustarfa verður að meta til áunninna réttinda þeirra. Þótt ákveðið hafi verið að hverfa frá þeirri tilhögun með nýjum kjarasamningi og sérstökum stofnanasamningi á árinu 2001 verða þessi áunnu réttindi ekki tekin af lögreglumönnum nema með ótvíræðu samningsákvæði. Ekki er skýrt, hvort orðalaginu „viðurkenndur starfsaldur“ í hinni umdeildu bókun með stofnanasamningnum hafi einungis verið ætlað að taka til starfa í lögreglu eða annarra starfa að auki, og greinir aðila á um það. Eins og hér stendur á verður áfrýjandi að bera halla af þeim óskýrleika.

Með þessari athugasemd og annars með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málskostnaðar er litið til þess, að á báðum dómstigum hafa fjögur samkynja mál verið flutt samhliða þessu máli.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Sigrúnu Kristínu Jónasdóttur, samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2003.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí sl., höfðaði Sigrún Kristín Jónasdóttir, kt. 211077-4929, Spóahólum 2, Reykjavík, gegn embætti lögreglustjórans í Reykjavík, kt. 450269-7519, og fjármálaráðherra f.h. fjármálaráðuneytisins vegna íslenska ríkisins, kt. 540269-6459, með stefnu birtri 29. janúar 2003.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkenndur verði með dómi réttur hennar til röðunar í launaflokk A 11 þrep 2 samkvæmt kjarasamningi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða henni málskostnað auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.

II

Stefnandi er lögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Hún hóf þar störf við sumarafleysingar í júní 1998 og vann samfleytt við afleysingar þar til í september 1999 að hún hóf nám á fyrri önn Lögregluskóla ríkisins. Stefnandi starfaði á skrifstofu lögreglustjórans við almenn skrifstofustörf frá júní til september árin 1995-1997 og telur því starfsaldur sinn vera frá október 1997 eins og tilgreint sé á launaseðli. Stefnandi var skipuð lögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík frá og með 4. júlí 2001 til 5 ára.

Stefnandi tekur laun samkvæmt samkomulagi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna sem undirritað var 13. júlí 2001 með gildistíma frá 1. júlí 2001 til 30. apríl 2005. Launakerfi samkomulagsins tók gildi 1. september 2001. Sömuleiðis fer með laun hennar samkvæmt svokölluðum stofnanasamningi sem síðar verður vikið að. Ágreiningslaust er með aðilum að sú skipun í launaflokk sem stefnandi krefst að viðurkennd verði er rétt miðað við þær forsendur sem stefnandi byggir á.

Stefnanda eru nú greidd laun samkvæmt launaflokki A-8-1 en hún telur sig eiga að fá greidd laun samkvæmt launaflokki A-11-2.

Áður en stofnanasamningur, sem fyrr er getið, tók gildi fékk stefnandi síðast greidd laun samkvæmt launaflokki 70, þrepi 4, samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Landssambands lögreglumanna sem var í gildi frá 1. ágúst 1997 til 31. október 2000. Miðaðist sú röðun við að hún hefði lengri starfsaldur en 3 ár.

                Í samkomulagi fjármálaráðherra og Landssambands  lögreglumanna frá 13. júlí 2001 er tekið fram að aðilar séu sammála um að taka upp nýtt launakerfi í þeim tilgangi að auka hlut dagvinnulauna, sem gert verði með því að fækka launaþrepum og minnka vægi sjálfvirkra tilfærslna og einnig með því að fela stofnunum útfærslu og daglega framkvæmd kjarasamninga. Sérstaklega er tekið fram að frá gildistöku falli brott launatafla í eldri kjarasamningi og kaflarnir um starfsaldur og launaþrep og um röðun starfsheita í launaflokka. Ennfremur öll ákvæði  um röðun starfa í launaflokka í viðaukum samningsins. 

                Samkvæmt samkomulaginu frá 13. júlí 2001 bar að gera svokallaðan stofnanasamning og ákveða þar forsendur fyrir röðun lögreglumanna í launaflokka. Stofnanasamningurinn, sem er á milli Ríkislögreglustjórans, Lögregluskóla ríkisins, lögreglustjórans í Reykjavík og allra sýslumanna annars vegar og Landssambands lögreglumanna hins vegar, var undirritaður 21. nóvember 2001 með gildistíma frá 1. september s.á. eins og launasamkomulagið sjálft. Flutningur á milli eldra launakerfis og hins nýja er kölluð vörpun og fór hún fram samhliða gerð stofnanasamningsins. Var gert ráð fyrir að vörpunin hefði í för með sér sem næst 14% launahækkun hvers starfsmanns, að sögn vitnisins, Sveins Ingibergs Magnússonar, sem var einn af fulltrúum lögreglumanna við samningsgerðina og vörpunina, og deila aðilar ekki um það. Vitnið sagði ennfremur að miðað hefði verið við að menn fengju með vörpuninni helst ekki minni hækkun en 10% og ekki meiri en 20%. Til þess að ná þessu markmiði hefðu verið sett ákvæði í stofnanasamning um starfaflokka, sem eru 11 talsins samkvæmt 3. grein, og eins ákvæði um starfsaldurshækkanir sem kveðið er á um í 4. gr. samningsins. Hver starfshópur samkvæmt eldri kjarasamningi hefði verið skoðaður sérstaklega og reynt að finna honum stað í stofnanasamningnum þannig að meðaltalshækkun við vörpunina yrði sem næst 14%. Jaðartilvikin hefðu svo verið skoðuð sérstaklega og reynt að laga þau. Vitnið sagði að sýslumenn hefðu lagt áherslu á það við samningsgerðina að fyrri störf, önnur en lögreglustörf, yrðu ekki metin til launa. Fallist hefði verið á það sjónarmið af hálfu samningamanna lögreglunnar með þeim hætti að svo yrði ekki frá áramótum 2002/2003 en þeir sem ráðnir hefðu verið fyrir þann tíma fengju að halda fyrri starfsaldursviðmiðum. Þetta hefði verið rætt á nokkrum samningafundum og verið grundvallarskilningur lögreglumanna. Bókun 1 í stofnanasamningi hefði verið samin í þessu skyni af samningamönnum lögreglumanna, en tímasetningin áramót 2002/2003 hefði komið frá fulltrúa Lögregluskóla ríkisins.

                Bókunin er svohljóðandi:

„Við vörpun yfir í nýtt launakerfi hefur verið byggt á viðurkenndum starfsaldri í eldri kjarasamningi. Gengið er út frá því að starfsaldurshækkanir samkvæmt 4. lið stofnanasamnings byggi á sömu forsendum. Frá áramótum 2002-2003 telst starfsaldur varðandi nýráðningar frá þeim tíma að starfsþjálfun hefst í lögreglu.“  

Vitnið kvað enga athugasemd hafa verið gerða við þessa bókun enda  hefði hún verið í fullu samræmi við það sem rætt hefði verið á samningafundum. Annar skilningur en þessi hefði fyrst komið fram hjá sýslumönnum þegar deilur hefðu risið um túlkun á bókuninni. Vitnið sagði að starfsaldursviðmiðun samkvæmt gamla kjarasamningnum hefði í sjálfu sér verið vandamál þannig að menn með sama starfsaldur í lögreglu hefðu getað verið á mismunandi launum eftir því hvort þeir hefðu áður unnið hjá ríki við önnur störf eða ekki. Þetta vandamál hefði átt að leysa með kjarasamningunum, þó þannig að ylli ekki skerðingu á kjörum þeirra sem áður hefðu notið alls starfsaldurs síns hjá ríkinu. 

                Vitnið Sólmundur Már Jónsson, framkvæmdastjóri lögreglunnar í Reykjavík, tók þátt í samningsgerðinni með sýslumönnum og lögreglustjórum, aðallega þó útreikningum. Hann sagði að aðaláhersla hefði verið lögð á að búa til nýtt launakerfi þar sem lögreglustjórar gætu komið að launaákvörðunum að vissu marki og að menntun lögreglumanna og starfsreynsla þeirra í lögreglunni vægi þungt í launum. Það var skilningur vitnisins að bókunin hefði átt að tryggja þeim sem starfað hefðu í lögreglunni að tekið yrði tillit til þess starfsaldurs við launaákvarðanir en hann myndi ekki eftir því að í samninganefndinni hefði verið rætt um starfsaldur utan lögreglustarfa. Í eldri kjarasamningi hefði starfsaldur eingöngu verið metinn fyrir almenna lögreglumenn en ekki aðra.

                Þegar vörpunin fór fram var stefnanda varpað í starfaflokk 4 en grunnröðun í þeim flokki er A-8. Stefnandi telur sig eiga að fá greidd laun samkvæmt A-11-2, einn og fyrr segir og miðar þá við að starfsaldur sinn sé lengri en 5 ár.

Í 4. gr. stofnanasamningsins eru svohljóðandi ákvæði um starfsaldur sem hér skipta máli:

„Lögreglumenn í starfaflokki 4 skulu hækka eftir starfsaldri sem hér segir:

Eftir 5 ár í lögreglustarfi um                3 launaflokka.                        Flokksstjóri 3 (A11)            

Eftir 10 ár í lögreglustarfi um              3 launaflokka.                        Flokksstjóri 2 (A14)            

Eftir 15 ár í lögreglustarfi um 2 launaflokka.                     Flokksstjóri 1 (A16)            

III

                Af  hálfu stefnanda er því haldið fram að hina umdeildu bókun verði að skýra samkvæmt orðanna hljóðan og skipti þar ekki máli hver skilningur fulltrúa ríkisvaldsins sé nú á henni. Í bókuninni standi skýrum stöfum að við vörpunina eigi að byggja á viðurkenndum starfsaldri í eldri kjarasamningi og eigi því að miða vörpun stefnanda við starfsaldur frá árinu 1997. Við nýráðningar frá 1. janúar 2003 eigi hins vegar að miða starfsaldur við starfsþjálfun og störf í lögreglu. Þetta hafi verið ótvíræður ásetningur þeirra sem samningsgerð hafi annast fyrir Landssamband lögreglumanna enda hafi þeim markmiðum verið náð með bókuninni að tryggja rétt þeirra sem ráðist höfðu til starfa hjá lögreglunni fyrir gerð stofnanasamningsins og koma síðan á hinn 1.  janúar 2003 þeim breytingum á launamálum lögreglunnar sem stefnt hafi verið að. Það hafi ekki verið ætlun aðila að svipta menn þeim rétti sem þeir hefðu áunnið sér samkvæmt eldri kjarasamningi. Þetta hafi samningamönnum sýslumanna og lögreglustjóra verið ljóst enda margir lögfræðingar komið þar við sögu. Það komi fram í því vinnuskjali sem notað hafi verið við vörpunina að miðað sé við að stefnandi hafi starfsaldur frá 1. október 1997. Stefnandi hafi lengri starfsaldur en 5 ár hjá ríkinu og eigi því að fara um launaflokkahækkanir hennar samkvæmt fyrsta ákvæði 4. greinar stofnanasamningsins, sem að framan er rakið.

Ef sá skilningur væri réttur að eingöngu ætti að miða við störf í lögreglu varðandi alla lögreglumenn hefði tímamarkið 1. janúar 2003 verið óþarft.  

Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnandi hafi ekki átt rétt til launaflokkahækkunar samkvæmt eldri kjarasamningi enda þótt hún hafi átt rétt til þrepahækkunar innan launaflokksins. Þannig hafi ekki verið um neinn rétt að ræða til að flytja frá eldri samningi til hins nýja. Réttur til þrepahækkunar í eldri samningi geti ekki orðið réttur til  launaflokkahækkunar í nýjum samningi.

Hin umdeilda bókun hafi verið gerð á lokaspretti samninganna og varði þá lögreglumenn sem byrjað hafi lögreglustörf áður en þeir hófu starfsþjálfun og eigi því samkvæmt henni að fá allan starfsaldur sinn við lögreglustörf metinn til launa en ekki einungis frá þeim tíma að starfsþjálfun þeirra hófst. Í samningunum sé allur starfsaldur miðaður við störf í lögreglunni en ekki annars staðar. Það sé hins vegar gert ráð fyrir því í stofnanasamningnum að hægt sé að taka tillit til starfsreynslu annars staðar en í lögreglunni samkvæmt 5. gr. um viðbótarforsendur launaákvarðana. Þetta ákvæði samningsins hafi verið sett inn til þess að hægt væri að liðka til með laun þeirra sem hefðu starfsaldur hjá ríkinu við önnur störf en lögreglustörf. Yrði krafa stefnanda tekin til greina og annarra þeirra sem sams konar kröfur hafi gert fyrir dómi leiddi það til ójafnræðis og ósanngirni því að hún fengi hærri laun en margir þeir sem lengri starfsaldur hefðu í lögreglu. Gæti það og leitt til ýmiss konar ýfinga.

Fyrsti liður 4. greinar stofnanasamningsins um starfsaldur sé í beinum tengslum við eldri kjarasamning og varði þau markmið sem sett hafi verið við vörpunina á milli samninganna. Með starfsaldri sem þar sé getið sé einungis átt við starfsaldur í lögreglu og ekki annan starfsaldur.

IV Niðurstaða

                Eins og rakið er að framan skilja aðilar og þeir samningamenn, sem fyrir dóminn hafa komið, hina umdeildu bókun í stofnanasamningnum á mismunandi hátt. Reyndar er ekki deilt um síðustu málsgrein bókunarinnar að við nýráðningar frá 1. janúar  2003 skuli starfsaldur miðaður við það tímamark að starfsþjálfun hefst í lögreglu. Þá er heldur ekki deilt um það að þeir sem störfuðu sem lögreglumenn, þegar stofnanasamningurinn tók gildi, áttu rétt á og fengu starfsaldur sinn við lögreglustörf metinn til launahækkana röðuðust þeir á annað borð í þá starfaflokka þar sem starfsaldur skipti máli samkvæmt 4. grein samningsins. Eftir stendur þá það álitamál við hvað er átt þegar sagt er í bókuninni  „Við vörpun yfir í nýtt launakerfi hefur verið byggt á viðurkenndum starfsaldri í eldri kjarasamningi.“

                Í hinum eldri kjarasamningi nutu lögreglumenn ekki aðeins starfsaldurs síns í lögreglustörfum heldur einnig þess starfsaldurs sem þeir höfðu áunnið sér hjá ríki og sveitarfélögum við önnur störf á þeirra vegum. Það er ljóst að með stofnanasamningnum átti að breyta þessu þannig að einungis yrði miðað við starfsaldur í lögreglu. Það er hins vegar einnig ljóst að í hinni umdeildu bókun er kveðið á um viðurkenndan starfsaldur í eldri kjarasamningi án þess að tekið sé fram að einungis sé átt við starfsaldur í lögreglu sem þó hefði verið hægur vandi væri það ætlunin.

Stefndu þykja hafa nokkuð til síns máls með skýringum sínum á bókuninni sem raktar eru að framan. Þær þykja þó ekki duga gegn þeim skilningi sem leggja verður í bókunina samkvæmt orðalagi hennar en þá er jafnframt haft í huga að yrði skýring stefnda tekin til greina leiddi það til þess að stefnandi yrði sviptur rétti sem hún hafði áunnið sér samkvæmt eldri kjarasamningi. Til þess að svo mætti verða yrðu samningsákvæði þar um að vera nær óumdeilanleg. Verður við það að sitja þótt þessi skýring samningsákvæðisins kunni að leiða til einhvers ójafnræðis og jafnvel ýfinga.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verða kröfur stefnanda teknar til greina.

Málskostnaður sem stefndu greiði stefnanda þykir hæfilega ákveðinn kr. 100.000 auk virðisaukaskatts.

Friðgeir Björnsson dómstjóri kvað upp dóminn.

Dómsorð.

Viðurkenndur er réttur stefnanda, Sigrúnar Kristínar Jónasdóttur, til röðunar í launaflokk A 11-2 samkvæmt kjarasamningi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Stefndu, lögreglustjórinn í Reykjavík og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, greiði stefnanda kr. 100.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.