Hæstiréttur íslands
Mál nr. 426/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Faðerni
- Börn
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 13. október 2005. |
|
Nr. 426/2005. |
C(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn A og B (Jón Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Faðerni. Börn. Vitni.
Með dómi 17. maí 2005 hafnaði Hæstiréttur kröfu C um að nýta mætti lífsýni úr E, látinni móður hans, og F, látnum föður þeirra A og B, við mannerfðafræðilega rannsókn til sönnunarfærslu í faðernismáli. Í kjölfarið krafðist C þess að honum yrði heimilað að leiða fimm nafngreind vitni til að leiða að því líkur að náin kynni hefðu verið með E og F á getnaðartíma hans. Talið var að af fullyrðingum C sjálfs um það hvað umrædd vitni gætu borið um í málinu væri ljóst að framburður þeirra fæli ekki í sér sönnun fyrir réttmæti dómkrafna C. Á hinn bóginn væri ekki fyrirfram unnt að útiloka, eins og sönnunarstöðu væri háttað í málinu, að umrædd vitni gætu haft einhverja þá vitneskju, að framburður þeirra nægði til að C teldist hafa fært þær líkur fyrir málsókn sinni, sem myndu heimila honum að krefjast sönnunarfærslu samkvæmt 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þóttu því ekki efni til að fallast á með héraðsdómi að vitnisburðurinn gæti ekki haft þýðingu í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Var því fallist á kröfu C um að honum væri heimilt að leiða umrædd vitni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2005 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leiða fyrir héraðsdóm vitnin H, I, J, K og L. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum heimilað að leiða vitnin fyrir dóminn. Hann krefst og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Þann 8. desember 2004 höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðilum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með dómkröfu um að varnaraðilum verði gert að þola viðurkenningu á að faðir þeirra, sem nú er látinn, teljist faðir sóknaraðila. Varnaraðilar hafa krafist sýknu af dómkröfu sóknaraðila.
Með dómi 17. maí 2005 í málinu nr. 174/2005 hnekkti Hæstiréttur úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. apríl 2005, þar sem tekin hafði verið til greina krafa sóknaraðila um að nýta mætti lífsýni úr látinni móður hans og föður varnaraðila við mannerfðafræðilega rannsókn til sönnunarfærslu í málinu samkvæmt 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Byggðist niðurstaðan á því, að sóknaraðili hefði ekkert fært fram í málinu, hvorki með gögnum frá móður sinni né öðrum, til stuðnings því að uppfyllt gæti verið það meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málsókn sem þessari, að sá maður sem viðurkenningarkrafa um faðerni beindist gegn yrði talinn hafa haft samfarir við móður barns á getnaðartíma þess. Fólst í þessu sú afstaða, að til þess að geta krafist hinnar lögmæltu sönnunarfærslu, sem 15. gr. barnalaga kveður á um, verði sá sem krefst viðurkenningar á faðerni barns fyrir dómi, að færa fram líkur fyrir því að umræddu skilyrði fyrir málsókninni teljist fullnægt.
Með ósk sinni um vitnaleiðslur nú freistar sóknaraðili þess að færa fram í málinu gegn varnaraðilum líkur fyrir því að faðir varnaraðila kunni að hafa haft samfarir við móður hans á getnaðartímanum, sem ekki voru taldar fram komnar, þegar dómur Hæstaréttar 17. maí 2005 gekk. Í kæru til Hæstaréttar hefur sóknaraðili gert grein fyrir hvað hann telur umrædd vitni geta borið um í málinu. Ljóst er að vitnisburður þeirra um þau atriði, sem sóknaraðili nefnir, felur ekki í sér sönnun um réttmæti dómkrafna hans. Á hinn bóginn er ekki fyrirfram unnt að útiloka, eins og sönnunarstöðu er háttað í máli þessu, að umrædd vitni gætu haft einhverja þá vitneskju, að framburður þeirra nægði til að sóknaraðili teldist hafa fært þær líkur fyrir málsókn sinni, sem myndu heimila honum að krefjast sönnunarfærslu samkvæmt 15. gr. barnalaga. Eru af þessum sökum ekki næg efni til að fallast á það með héraðsdómi að vitnisburðurinn geti ekki haft þýðingu í máli aðilanna, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt framansögðu verður krafa sóknaraðila tekin til greina.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Samkvæmt 11. gr. barnalaga skal greiða þóknun lögmanns sóknaraðila og annan málskostnað vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðila, C, skal vera heimilt að leiða fyrir héraðsdóm vitnin H, I, J, K og L.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Kærumálskostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2005.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 7. apríl sl. var tekin til greina sú krafa stefnanda að nota lífsýni úr sjálfum sér svo og frá E, móður hans, f. [...], d. [...] og F, f. [...], d. [...], í þágu mannerfðafræðilegrar rannsóknar til staðfestingar á faðerni stefnanda, C. Úrskurður þessi var kærður til Hæstaréttar Íslands og með dómi réttarins, 17. maí 2005, var þessari kröfu hafnað.
Í dómi Hæstaréttar er vikið að því að móðir stefnanda hafi látist áratugum eftir að stefnandi átti þess fyrst kost að höfða dómsmál um faðerni sitt. Þá segir m.a. í dómi að því sé ekki borið við í málinu að móðir stefnanda hafi fyrir yfirvöldum eða dómi lýst F, þ.e. [...], föður stefnanda. Þá liggi ekkert fyrir í málinu að hún hafi talið svo vera. Stefnandi hafi ekkert fært fram, hvorki með gögnum frá móður sinni né öðrum, til stuðnings því að uppfyllt gæti verið það meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga um að varnaraðili máls skuli vera sá maður eða þeir sem taldir séu hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns en að honum eða þeim látnum megi beina máli að lögerfingjum sem gengju barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Sé reyndar ekki staðhæft berum orðum í málatilbúnaði stefnanda að slík atvik hafi átt sér stað. Mannerfðafræðilegri rannsókn verði ekki beitt, eðli máls samkvæmt, nema fyrir hendi séu þau grundvallarskilyrði fyrir höfðun faðernismáls sem Hæstiréttur telur að skorti í þessu máli.
Í þinghaldi 1. september sl. lagði lögmaður stefnanda fram lista yfir vitni sem hann óskar að kalla fyrir dóm. Kveður lögmaður stefnanda tilgang vitnaleiðslunnar að bera fram sönnur fyrir fullyrðingum stefnanda um að faðir stefndu og móðir hans hafi átt í nánu sambandi á getnaðartíma hans. Í ljósi dóms Hæstaréttar Íslands frá 17. maí 2005, telur lögmaður stefnanda þetta nauðsynlegt vegna þess hvernig tekið var á kröfu stefnanda um erfðafræðilega rannsókn í dóminum.
Lögmaður stefndu mótmælir því á grundvelli 1. mgr. 51. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 að þessi vitnaleiðsla fari fram.
Vitnin sem lögmaður stefnanda óskar að leiða eru þessi: H, I, J, K og L. Telur stefnandi að umrædd vitni geti með framburði sínum fyrir dómi leitt líkur að því að náin kynni hafi verið með móður stefnanda og föður stefndu.
Í 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 er tekið fram að vitni komi fyrir dóm til þess að svara munnlega spurningum um málsatvik. Er litið svo á að sá sem er vitni í skilningi laganna komi fyrir dóm til þess að svara spurningum um atburði eða staðreyndir sem tengjast sakarefninu og vitnið getur borið um af eigin raun.
Stefnandi er fæddur í mars 1932. Er því verið að fjalla um atvik sem kunna að hafa átt sér stað á árinu 1931. Í málflutningi lögmanns stefnanda, vegna framkominnar kröfu hans, kom fram að ekkert vitnanna getur borið um hugsanleg atvik á þessum tíma af eigin raun heldur hyggist þau bera um vitnesku sem þau telja sig hafa frá öðrum aðilum er tengdust atburðum meir í tíma.
Slíkur vitnisburður samrýmist ekki ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 og hefur ekki þýðingu í dómsmáli. Ber því að hafna kröfu stefnanda um að leiða umrædd vitni.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu stefnanda um að leiða fyrir dóminn vitnin H, I, J, K og L.