Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2006
Lykilorð
- Samningur
- Brostnar forsendur
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 12. október 2006. |
|
Nr. 285/2006. |
Filtertækni ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Hraðar ehf. (enginn) |
Samningur. Brostnar forsendur. Skriflegur málflutningur.
F gerði samning um leigu á sýningarplássi á bílasýningu sem H hélt. Var tekið fram í samningi að F skyldi á sýningunni hafa aðgang að tiltekinni sjaldgæfri og verðmikilli bifreið, sem H hugðist flytja til landsins vegna sýningarinnar. Hugðist F nota bifreiðina til kynningar á bóntegund, sem hann flutti inn. Þegar til átti að taka reyndist aðgangur F að bifreiðinni takmarkaður og háður samþykki þriðja aðila. Var því talið að verulega forsenda F fyrir samningsgerðinni hafi brostið og honum hafi af þeim sökum verið heimil riftun hans. Fjárkröfu H vegna ætlaðra vanefnda F á samningnum var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2006 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að hann verði sýknaður. Þá krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994, ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Eins og mál þetta liggur fyrir er talið að héraðsdómur hafi með nægilegum hætti fjallað um málsástæður áfrýjanda. Verður því ekki fallist á kröfu hans um heimvísun málsins. Málsatvik eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir nánar gerði áfrýjandi, sem er söluaðili á bílabóni, samning við stefnda um leigu á sýningarsvæði á bílasýningu, sem stefndi hélt. Í samningnum sagði meðal annars sérstaklega þar sem „hið leigða“ var tilgreint, að áfrýjandi skyldi hafa aðgang að tiltekinni sjaldgæfri og verðmikilli bifreið. Hugðist stefndi flytja bifreiðina til landsins í tilefni bílasýningarinnar og skyldi hún vera helsta aðdráttarafl sýningarinnar. Af gögnum málsins má ráða að þegar til átti að taka var aðgangur áfrýjanda að bifreiðinni afar takmarkaður og háður samþykki þriðja aðila, sem samkvæmt samningi við stefnda hafði full umráð umræddrar bifreiðar. Kom bifreiðin áfrýjanda því ekki að notum. Verður þegar af þeirri ástæðu fallist á með áfrýjanda að veruleg forsenda fyrir samningi hans við stefnda hafi með þessu brostið og honum því verið rétt að rifta samningnum. Verður sýknukrafa hans því tekin til greina.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Filtertækni ehf., skal vera sýkn af kröfu stefnda, Hraðar ehf., í máli þessu.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. desember sl., var höfðað 6. desember 2004.
Stefnandi er Hraðar ehf., Nýbýlavegi 66, Kópavogi.
Stefndi er Filtertækni ehf., Vesturvör 30c, Kópavogi.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 633.350 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2004 til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefndi krefst málskostnaðar.
I.
Helstu málsatvik eru þau að stefnandi stóð fyrir sportbílasýningu í Laugardalshöll dagana 20.-23. maí 2004. Með samningi dagsettum 8. mars 2004 leigði stefnandi stefnda afnot af tilteknu svæði á sýningarsvæðinu. Samkvæmt grein 1.2. ii. í samningnum kemur fram að Auto Glym sé bón sýningarinnar og að stefndi muni taka að sér að bóna alla bíla sem Hraðar ehf. muni koma með og kynna. Einnig muni stefndi þjálfa fjóra einstaklinga á vegum stefnanda til að þrífa bílana á sýningunni meðan á sýningu standi. Stefndi muni hafa aðgang að Enzo bifreiðinni á meðan á sýningunni standi. Umsamið leiguverð nam 311.250 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Gjalddagi leigugjalds samkvæmt samningnum var 5. júní 2004.
Stefndi kveður fyrirsvarsmann stefnanda hafa leitað til sín og boðið honum að taka þátt í sýningunni. Hafi hann upplýst að hann myndi flytja inn til landsins bifreið að gerðinni Ferrari Enzo, en sú bifreið yrði aðdráttarafl sýningarinnar. Stefndi hafi séð þarna tækifæri til að kynna bílabónið Auto Glym sem hann flytur inn til landsins. Hafi verið um það samið að stefndi léti bóna alla bíla á sýningunni með Auto Glym bóni, þ.m.t. fyrrgreinda Ferrari Enzo bifreið og að stefndi yrði með sérstakar bónkynningar á þeirri bifreið og að hann auglýsti Auto Glym bón á bifreiðinni.
Umrædd Ferrari Enzo bifreið mun hafa komið til landsins þann 16. maí 2004 og birtust myndir af bifreiðinni í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu daginn eftir. Stefnandi kvað stefnda hafa haft samband daginn eftir og hefði hann verið ósáttur við þær “Meguiars” bílabónauglýsingar sem voru á bílnum. Stefnanda hefði verið ókunnugt um að Meguiars væri bílabón fyrr en stefndi gerði honum grein fyrir því og hefðu þeir komist að samkomulagi um að stefndi mætti taka Meguiars bílabónlímmiðana af bifreiðinni og setja sína Autoglym bílabónlímmiða í staðinn fyrir þá. Stefnandi hefði talið að málinu væri þar með lokið. Svo hafi hins vegar ekki reynst vera því stuttu síðar hefði verið hringt í stefnanda frá Bílabúð Benna og honum tjáð að stefndi væri að fara að merkja umrædda bifreið og að hann ætlaði að taka alla límmiða af henni, ekki aðeins bílabónlímmiðana. Stefnandi kvaðst þá hafa tjáð Bílabúð Benna að það mætti stefndi ekki vegna fyrirmæla frá eiganda bifreiðarinnar. Hins vegar væri stefnda heimilt að skipta út bílabónmiðunum í samræmi við samkomulag aðila.
Stefnandi kvað stefnda hafa haft samband við sig þriðjudaginn 18. maí 2004, þ.e. degi áður en afhending hins leigða átti að fara fram og hefði hann sagt að hann kærði sig ekki um að standa í þessu. Eftir þetta hefði stefnandi ekki heyrt í stefnda og hefði farið svo að stefndi mætti ekki til sýningarinnar og uppfyllti ekki skyldur sínar samkvæmt fyrrnefndum leigusamningi, s.s. að bóna alla þá bíla sem stefnandi kom með og kynnti á sýningunni og þjálfa fjóra einstaklinga á vegum stefnanda til að þrífa bílana á sýningunni. Stefnandi hefði því þurft með mjög skömmum fyrirvara m.a. að skipuleggja sjálfur það svæði sem stefndi hafði til afnota svo að það væri í samræmi við heildarútlit sýningarinnar. Þetta hefði haft í för með sér aukakostnað fyrir stefnanda.
Stefnandi hefði þá sent stefnda reikning þann 5. júní 2004 fyrir leigu á sýningarsvæðinu að viðbættu févíti og þeim kostnaði sem vanefndum fylgdu og síðan innheimtubréf er reikningurinn var ekki greiddur.
Stefndi kveðst strax eftir undirritun samnings aðila hafa farið að undirbúa þátttöku sína í sýningunni og hafi hann af þeim sökum lagt út fjármuni. Hann hafi pantað vörur, m.a. frá Autoglym og látið smíða auglýsingastanda til notkunar á sýningunni. Skömmu áður en sýninginn átti að hefjast hafi birst myndir af Ferrari bifreiðinni í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu og á ljósmyndunum hafi framkvæmdastjóri Bílabúðar Benna verið að afhjúpa bifreiðina og hafi bifreiðin verið þakin auglýsingum, m.a. um Meguiars bílabón, en það bón sé flutt inn til Íslands og sé sá innflutningur í samkeppni við innflutning stefnda á Autoglym bílabóni. Stefnda hafi komið á óvart að bifreiðin skyldi vera þakin auglýsingum og með auglýsingar frá samkeppnisaðila. Sú staðreynd hafi verið í andstöðu við samkomulag aðila um að stefndi fengi einn að auglýsa á bifreiðinni, að Autoglym væri bón sýningarinnar og að stefndi fengi að bóna þá bifreið og auglýsa Autoglym á henni. Þá hafi komið fram í fréttum að bifreiðin væri flutt inn af Bílabúð Benna en ekki stefnanda, líkt og stefnandi hafði fullyrt við stefnda.
Stefndi kvaðst þegar hafa haft samband við stefnanda og kvartað yfir því samningsbroti að samkeppnisaðili auglýsti bón á bifreiðinni. Hefði hann tilkynnt stefnanda að hann hefði í hyggju að rifta samningi aðila. Fyrirsvarsmaður stefnanda hefði þá viðurkennt að hann flytti bifreiðina ekki inn líkt og hann hafði fullyrt. Þá hefði fyrirsvarsmaður stefnanda tilkynnt að hann myndi þegar láta rífa allar auglýsingar af bifreiðinni og að stefnda væri heimilt að líma auglýsingar frá Autoglym á bifreiðina. Þann 18. maí hugðist stefndi líma auglýsingar frá Autoglym á bifreiðina en þá hefði komið í ljós að bifreiðin var þakin auglýsingamiðum og að stefnandi hafði aðeins látið fjarlægja af bifreiðinni auglýsingar um Meguiars bón. Í stað þeirra auglýsinga höfðu þá verið límdar á bifreiðina auglýsingar frá Bílabúð Benna. Bifreiðin hefði því enn verið þakin auglýsingum og ekki pláss fyrir auglýsingar um Autoglym bón, en um það hafði verið samið að aðeins yrðu auglýsingar frá stefnda á bifreiðinni. Stefndi hefði þá óskað eftir því við framkvæmdastjóra Bílabúðar Benna að hann léti fjarlægja auglýsingamiða af bifreiðinni en því hefði verið hafnað, Framkvæmdastjórinn hefði upplýst að fyrirsvarsmaður stefnanda hefði óskað eftir því að auglýsingar yrðu fjarlægðar af bifreiðinni og að hann hefði hafnað þeirri kröfu, enda hefði stefnandi ekki vald til að ákveða auglýsingar á bifreiðina. Þann 18. maí 2004 hefði staðan því verið sú að bifreiðin var þakin auglýsingum frá öðrum en stefnda og hefði þá jafnframt verið ljóst að útilokað var að bóna bifreiðina, enda bifreiðin þakin auglýsingum. Þá hefði jafnframt legið fyrir að framkvæmdastjóri Bílabúðar Benna bannaði stefnda að líma auglýsingar frá Autoglym á bifreiðina. Hefði því verið ljóst að stefnandi hafði vanefnt samninginn við stefnda verulega og ljóst að stefnandi gæti ekki staðið við samninginn um að stefndi auglýsti Autoglym bón á bifreiðinni og að stefndi fengi að kynna það bón með bónsýningu á þeirri bifreið. Af þeim sökum hefði stefndi tilkynnt stefnanda þann 18. maí 2004 að hann rifti samningi við hann.
Við aðalmeðferð málsins gáfu fyrirsvarsmenn aðila, þeir Brynjólfur Smári Þorkelsson og Hinrik Morthens aðilaskýrslur og skýrslur vitna þeir Jón Einar Eyjólfsson, Kristinn Viðar Sveinbjörnsson, Bjarni Knútsson og Vigfús Morthens.
Brynjólfur Smári Hauksson fyrirsvarsmaður stefnanda kvað það ekki hafa falist í samningnum við stefnda að stefndi mætti auglýsa á Ferrari Enzo bílnum og hefði honum ekki verið kunnugt um að það hefði verið samningsforsenda af hálfu stefnda. Hann kvað stefnanda hafa samþykkt að Ferrari bifreiðin yrði flutt inn í nafni Bílabúðar Benna en stefnandi hefði hins vegar greitt flutning, frakt og tryggingar vegna bílsins.
Hann kvað fyrirsvarsmann stefnda hafa komið til sín og spurt hvort hann hefði séð Moggann, en forsíðumynd væri af Benna með Ferrari bílinn. Hann kvað sér hafa fundist þetta flott, en fyrirsvarsmaður stefnda hefði hins vegar ekki verið par hrifinn og sagt að Meguiars bón frá helsta samkeppnisaðila sínum væri auglýst á bílnum. Hann hefði þá sagt stefnda að hann hefði haldið að þetta væri bjórauglýsing. Hann hefði viljað gera það besta úr þessu og sagt stefnda að hann væri búinn að taka Meguiars miðana af bílnum og hefði hann síðan gefið stefnda leyfi til að setja sína límmiða á bílinn. Stuttu seinna hefði hann fengið hringingu frá Bílabúð Benna þar sem honum var tjáð að menn á vegum stefnda væru á staðnum, sem ætluðu þeir að rífa alla miða af Ferrari bílnum og þekja hann með Autoglymauglýsingum. Hann hefði svarað því til að hann hefði aðeins leyft stefnda að setja límmiða á stuðara. Hann hefði síðan talað við fyrirsvarsmann stefnda sem hefði sagt að málið væri búið ef stefndi mætti ekki setja límmiða á allan bílinn.
Er Brynjólfi var bent á samning sem stefnandi hefði gert við Bílabúð Benna 11. maí 2004, þar sem fram kæmi að ekki mættu vera aðrar merkingar á Ferrari bifreiðinni en þær sem Bílabúð Benna samþykkti og að bílnum verði ekki ekið nema með samþykki Bílabúðar Benna og hann spurður hvort Bílabúð Benna hefði því ekki allar heimildir varðandi bílinn svaraði hann því til að Bílabúð Benna hefði flutt bílinn inn samkvæmt samningi. Þetta hefði verið sett í samninginn vegna markaðssóknar Bílabúðar Benna.
Hann kvað ekkert hafa verið rætt um auglýsingar á Ferrari bílnum fyrr en deilan kom upp. Hann hefði þá rætt við Jón Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna sem hefði samþykkt að Autoglym límmiðar mættu vera á bílnum. Hann hefði einnig rætt um að stefndi mætti sýna bón á Ferrari bílnum og þ.h. meðan á sýningu stæði. Hann kvaðst ekki hafa neina skoðun á því hvort það hindraði bónsýningu á bíl að bíll væri þakinn auglýsingum. Hann kvað stefnanda í sjálfu sér ekki hafa haft heimild til að fjarlægja auglýsingar af bílnum og hefði hann því tekið Meguiars límmiðana af bílnum í leyfisleysi. Hann hefði hins vegar haft heimild til að leyfa stefnda að bóna bílinn og setja límmiða á hann. Um það hefði hann samið við Bílabúð Benna og Kevin Stanford. Hann kvað Bílabúð Benna hafa mátt setja sína miða á bílinn. Stefndi hefði hins vegar haft leyfi til að hafa bónauglýsingar á bílnum. Hann kvað stefnda einan hafa átt að hafa aðgang að svæðinu þar sem Ferrari bíllinn var til að bóna hann. Þá hefði stefndi átt að koma upp vinnuhóp og bóna alla bíla er stefnandi kæmi með á sýninguna, ca 23 bíla sem hefðu verið í einkaeign.
Hinrik Morthens fyrirsvarsmaður stefnda kvað Brynjólf fyrirsvarsmann stefnanda hafa haft samband við Viðar starfsmann stefnda og boðið stefnda að taka þátt í sýningunni. Þeir hefðu hist og hefði Brynjólfi verið sýnt myndband frá Autoglym um bónun. Slík sýning sé fólgin í að bóna fyrir framan áhorfendur. Stefndi hefði talið stefnanda hafa gert samning um innflutning á Ferrari bílnum. Samkvæmt myndbandinu hefði verið ljóst að bíllinn þurfti að vera án auglýsinga. Ómögulegt væri að kynna bón á bíl sem væri með álímda auglýsingamiða. Honum hefði fundist sem það kæmi Brynjólfi á óvart að bíllinn var þakinn auglýsingum. Brynjólfur hefði aldrei nefnt að Bílabúð Benna væri með bílinn en sagst hafa leyfi Kevins Stanfords til að heimila stefnda aðgang að bílnum. Kvað hann stefnanda flytja bílinn inn. Hann hefði fyrst heyrt um aðkomu Bílabúðar Benna er hann fór til þeirra til að taka límmiða af bílnum. Hann kvaðst hafa orðið léttsjokkeraður og í hann fokið er hann sá myndina í Mogganum. Brynjólfur hefði gert sér grein fyrir stöðunni og boðist til að taka alla límmiðana af bílnum. Til að bæta skaðann yrðu notaðir Autoglymlímmiðar í sjónvarpsþætti sem ætti að taka upp. Hann kvaðst hafa farið með sérstakar græjur í Bílasölu Benna til að taka límmiðana af Ferrari bílnum. Þar hefði hann hitt þá Benedikt og Jón Eyjólfsson, sem hefðu þeir hlegið að honum og sagt að engir miðar yrðu teknir af bílnum.
Hann kvað skaðann hafa verið skeðan og allar forsendur brostnar er myndin birtist í Mogganum. Þátttaka stefnda í sýningunni hefði eingöngu snúist að kynna Autoglymbón. Þeir í Bílabúð Benna hefðu sagt að stefnandi hefði ekkert með Ferrari bílinn að gera. Er hann kom í Bílabúð Benna hefði verið búið að taka Meguiars límmiða af bílnum en setja auglýsingar frá Bílabúð Benna á bílinn í staðinn. Því hefði ekki verið neitt pláss fyrir límmiða frá Autoglym.
Hann kvað samið hafa verið um bónsýningu á Ferrari. Þá hefði stefndi átt að fá að setja auglýsingu á bílinn. Samið hefði verið um margt sem ekki var skráð í samninginn. Varðandi umræddan þátt sem Brynjólfur bauð sem sárabætur kvað mætti að til hefði staðið að setja Autoglymlímmiða á húddið og á sitt hvora hurðina, alls 3 miða hvern ca 28x28 cm. Ekki hefði átt að nota slíka miða á sýningunni, aðeins í umræddum þætti sem taka átti upp á flugbraut.
Jón Eyjólfsson sölumaður hjá Bílabúð Benna staðfesti samning sem gerður var milli Bílabúðar Benna og stefnanda. Kvað hann Bílabúð Benna hafa séð alfarið um innflutninginn á Ferraribílnum og ráðið auglýsingum á bílinn, en bíllinn hefði verið á þeirra vegum og hefði átt að nota hann sem auglýsingu fyrir Bílabúð Benna. Hann kannaðist ekki við að stefnandi hefði haft samband við þá í mars 2004 varðandi heimild fyrir stefnda til að bóna Ferrari bílinn og hafa aðgang að honum. Búið hefði verið að taka Meguiars auglýsingar af bílnum og setja auglýsingar frá Bílabúð Benna í staðinn. Ef einhver var að auglýsa bón hefði verið sjálfsagt mál að leyfa það. En þeir hefðu alltaf ætlað að auglýsa Bílabúð Benna og tekið bílinn inn í þeim tilgangi. Stefnandi hefði því ekki getað samið um aðgang stefnda að bifreið löngu fyrirfram. Hins vegar hefði það verið minnsta mál í heimi að taka Meguiars auglýsingar af bílnum. Reyndar hefði Bílabúð Benna ekki vitað að um bónauglýsingu Meguiars væri að ræða. Er menn á vegum stefnda hefðu komið í Bílabúð Benna hefðu þeir talið sig geta gert hvað sem var við Ferrari bílinn. Þeir hefðu verið stoppaðir af. Þeir hefðu viljað taka auglýsingar sem voru á bílnum af. Skýrt hefði verið út fyrir þeim að bíllinn væri á vegum Bílabúðar Benna sem réði hvernig bíllinn væri skreyttur. Hann kvað stefnanda hafa átt að kosta innflutninginn á bílnum. Hann kvað Meguiars auglýsingarnar hafa verið teknar af bílnum er þeir sáu að þær voru í konflikt við sýnanda og einnig hefði þurft að losa pláss fyrir auglýsingar og miða frá Bílabúð Benna á bílnum.
Kristinn Viðar Sveinbjörnsson starfsmaður stefnda kvað Brynjólf hafa komið að máli við sig og sagst verða með sportbílasýningu og að Ferrari Enzo bíll yrði á sýningunni. Stefndi hefði sagst hafa áhuga á bónsýningu líkt og Autoglym væri með erlendis. M.a. að bóna alla bíla á sýningunni og að Ferrari bíllinn yrði bónaður á sýningunni með Autoglym. Samningur hefði síðan verið gerður við stefnanda. Stefndi hefði átt að vera við sviðið þar sem Ferrari bíllinn var og sýna bónun á bílnum nokkrum sinnum á dag. Aldrei hefði komið til greina að samþykkja að bíll yrði með límmiðum á við bónunina. Slíkt væri útilokað. Þá hefði stefnandi sagst flytja Ferrari bílinn inn sjálfur og hafa alla umsjón með honum. Stefndi hefði treyst því en fengið sjokk er þeir sáu auglýsinguna í Mogganum þar sem annað bón var auglýst á bílnum. Strax hefði verið haft samband við Brynjólf sem hefði þá viðurkennt að Bílabúð Benna flytti bílinn inn. Hann hefði sagst ætla að taka límmiðana af bílnum. Aðeins Meguiars miðarnir hefðu verið teknir af en límmiðaauglýsingarr frá Bílabúð Benna settar á bíl í staðinn. Stefndi hefði þá viljað hætta við allt saman en þá hefði Brynjólfur boðið stefnda þátttöku í einhverjum sjónvarpsþætti þar sem Autoglym yrði auglýst. Þeir hefðu farið á staðinn en þar hefði Bílabúð Benna komið í veg fyrir þátttöku stefnda.
Hann kvað til hafa staðið að setja upp auglýsingastanda o.fl. Hefði stefndi því látið smíða ýmsa hluti vegna sýningarinnar. Bónsýningin á sjálfri sýningunni hefði átt að vera á öllum framenda bílsins. Brynjólfi hefði verið sýnt hvernig Autoglym kynnir bón á sýningum erlendis.
Vigfús Morthens, sonur Hinriks eiganda stefnda, var starfsmaður stefnda. Hann kvað stefnda hafa átt að fá að vera með Ferraribílinn á sviðinu á sýningunni og kynna bónun eins og á sýningum Autoglym erlendis. Brynjólfi hefði verið sýnt slíkt myndband. Brynjólfur hefði ekki nefnt að auglýsingar væru á bílnum. Á Brynjólfi hefði verið að skilja að stefnandi hefði öll umráð bílsins. Þeir hjá stefnda hefðu orðið svekktir er þeir sáu umfjöllunina í Mogganum og talið sig hafa verið svikna. Það hefði ekki verið í samræmi við samninginn að auglýsingar væru á bílnum. Hann kvaðst hafa farið með Viðari starfsmanni stefnda á fund Brynjólfs með það í huga að hætta við allt. Þá hefði Brynjólfur sagt þeim að Bílabúð Benna hefði flutt bílinn inn. Hann hefði boðið þeim bætur sem fólust í því að stefndi mætti auglýsa Autoglym í sérstökum þætti sem yrði tekinn upp. Er það átti að fara fram hefði verið búið að taka alla Meguiars límmiða af bílnum en setja límmiða frá Bílabúð Benna á bílinn í staðinn. Hafi því verið útilokað að efna þetta loforð fyrir Brynjólf.
Þá kvað hann útilokað að bóna bíl á sýningu með slíka límmiða á.
II.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að aðilar málsins hafi gert með sér gildan samning, sem stefnda hafi borið að efna að fullu, sbr. meginreglur samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga.
Í fyrsta lagi beri stefnda að greiða stefnanda umsamið verð fyrir leigu á sýningarsvæðinu samkvæmt 3. gr. leigusamningsins eða 311.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Í öðru lagi beri stefnda að greiða stefnanda févíti vegna vanefnda, sbr. 6. gr. leigusamningsins. Í nefndu ákvæði komi fram að stefnanda sé heimilt að leggja févíti á stefnda að fjárhæð 100.000 krónur, án virðisaukaskatts, í hvert skipti sem stefndi brýtur gegn skyldum sínum. Til stuðnings þessum kröfulið skuli t. d. bent á að stefndi braut gegn skyldum sínum með því að sinna ekki verkefnum sem hann tók að sér í ii. lið greinar 1.2. í leigusamningnum.
Í þriðja lagi beri stefnda að greiða stefnanda þann kostnað sem af vanefndum hans hlaust, sbr. 4. gr. leigusamningsins. Í nefndu ákvæði sé stefnda sett það skilyrði að skipuleggja svæði sitt í samræmi við óskir stefnanda um heildarútlit sýningarinnar. Stefndi hafi ekki mætt til sýningarinnar og ekki skipulagt svæði sitt samkvæmt framangreindu. Við því hafi stefnandi orðið að bregðast með skömmum fyrirvara og hann sjálfur orðið að skipuleggja umrætt svæði. Hafi stefnandi orðið fyrir kostnaði vegna þessa sem nemi 180.000 krónur án virðisaukaskatts. Samkvæmt grein 4. 3 í leigusamningi sé stefnanda heimilt að endurkrefja stefnda um þennan kostnað.
Endanlega kröfu sína sundurliðar stefnandi svo:
1.Leiga á sýningarsvæði, sbr. gr. 3.1. í samningi250.000 krónur
VSK 61.250 krónur
2.Kostnaður vegna vanefnda stefnda, sbr. dskj. 10180.000 krónur
VSK 42.100 krónur
3.Févíti , sbr. gr. 6. 1. í samningi100.000 krónur
Samtals: 633.350 krónur
Af hálfu stefnanda er því mótmælt að skilyrði hafi verið til að rifta leigusamningnum af hálfu stefnda.
Af hálfu stefnanda er því mótmælt sem ósönnuðu að það hafi verið forsenda (ákvörðunarástæða) stefnda við gerð leigusamningsins að hann fengi einn að auglýsa bón á Ferrari Enzo bifreiðinni. Þessi forsenda verði ekki ráðin af leigusamningnum, en þar segi aðeins að stefndi muni hafa aðgang að bifreið þessari á meðan á sýningunni standi. Í samræmi við samninginn hafi stefndi átt að bóna bifreiðina en ekki hafi verið rætt um annars konar form á bónsýningu.
Þá tekur stefnandi fram að hann hafi hvorki vitað né mátt vita að fyrrnefnd forsenda hafi verið ákvörðunarástæða stefnda við gerð leigusamningsins.
Þá sé áréttað að stefnanda hafi verið ókunnugt um að Meguiars væri bílabón fyrr en stefndi gerði athugasemdir við þær auglýsingar á bifreiðinni. Stefnandi hafi brugðist skjótt við þessum athugasemdum og heimilað stefnda að skipta út Meguiars bílabónlímmiðunum fyrir Auto Glym bílabónlímmiða stefnda. Með því hafi verið tryggt að stefndi auglýsti einn bón á bifreiðinni. Hins vegar hafi aldrei verið samið um að stefndi mætti taka alla aðra límmiða af bifreiðinni og setja sína bílabónlímmiða í staðinn. Að teknu tilliti til þessa sé því mótmælt að stefnandi hafi ekki haft rétt til að ráðstafa auglýsingum á bifreiðina og að stefndi hafi ekki fengið að auglýsa bón sitt á sýningunni með því að bóna bifreiðina.
Samkvæmt framansögðu megi ljóst vera að stefnandi hafi uppfyllt allar skyldur sínar samkvæmt leigusamningnum og hafi engin atvik verið fyrir hendi sem heimiluðu stefnda að rifta honum samkvæmt reglum kröfuréttar um riftun gagnkvæmra samninga.
Um lagarök vísar stefnandi einkum til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og reglna kröfuréttar um skilyrði riftunar gagnkvæmra samninga.
III.
Af hálfu stefnda er byggt á því að stefnandi hafi beitt hann grófum svikum og blekkingum í því skyni að fá hann til að gera við sig umræddan leigusamning. Stefnandi hafi blekkt stefnda þegar hann fullyrti að stefndi fengi aðgang að Ferrari bifreið og fengi einn að auglýsa bón á þeirri bifreið. Staðreynd sé að stefnandi flutti ekki inn þá bifreið og að Bílabúð Benna en ekki stefnandi hafði ákvörðunarvald um hvaða auglýsingar yrðu límdar á bifreiðina. Telur stefndi að ógilda beri samning aðila vegna blekkinga stefnanda, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936.
Þá byggir stefndi m.a. á því að samningurinn sé ógildur með vísan til 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, en stefndi telji óheiðarlegt og ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera fyrir sig samning, enda ljóst að stefnandi hafði ekki vald til að ákveða hvaða auglýsingar yrðu límdar á Ferrari bifreið.
Þá byggir stefndi kröfu sína um ógildingu samningsins á réttarreglum um þýðingu rangra og brostinna forsendna. Forsendur stefnda fyrir gerð samningsins hafi verið þær að hann fengi einn að auglýsa með límmiðum á Ferrari bifreið og jafnframt fengi hann að sýna notkun bóns með því að bóna bifreiðina á sýningunni. Af því hafi ekki getað orðið þar sem stefnandi hafði ekki yfir bifreiðinni að ráða heldur Bílabúð Benna.
Þá er á því byggt af hálfu stefnda að honum hafi verið heimilt að rifta samningi aðila vegna vanefnda stefnanda. Sé krafist sýknu á þeim grunni. Um riftunarheimild vísar stefndi til áðurnefndra sjónarmiða og röksemda og áréttar að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningi aðila gróflega. Stefndi árétti að það hafi verið forsenda af hans hálfu fyrir gerð samningsins við stefnanda um leigu á bás á sýningunni, að stefndi fengi einn að auglýsa á Ferrari Enzo bifreið. Samkvæmt samningi aðila skyldi Autoglym bón vera bón sýningarinnar og skyldi stefndi bóna alla bíla á vegum stefnanda á sýningunni, þ.m.t. Ferrari Enzo bifreið. Hann skyldi hafa aðgang að þeirri bifreið meðan á sýningu stæði. Það sé staðreynd að stefndi fékk ekki að auglýsa á bifreiðinni Autoglym bón og þá hafi honum ekki verið gefinn kostur á að sýna notkun bónsins með því að bóna þá bifreið.
Af hálfu stefnda er þess krafist, verði ekki fallist á sýknukröfu hans, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Sú krafa styðjist við reglur samninga- og kröfuréttar og vísi stefndi til sömu röksemda og fyrir aðalkröfu. Þá mótmæli stefndi kröfum um févíti og kostnað vegna vanefnda að fjárhæð 280.000 krónur sem fráleitum og röngum. Þær kröfur stefnanda séu með öllu vanreifaðar og beri því að sýkna stefnda af þeim þegar af þeim sökum. Stefndi hafi ekki vanefnt samninginn við stefnanda heldur hafi stefnandi brotið þann samning gróflega og beitt stefnda svikum við gerð hans. Krafa um févíti sé því fráleit og röng að mati stefnda og augljóslega ósanngjörn og beri því að víkja þessu samningsákvæði til hliðar verði ekki fallist á sýknu á öðrum grunni. Krafan um meintan kostnað vegna vanefnda sé ekki rökstudd á neinn hátt og beri að vísa þeirri kröfu frá dómi eða sýkna stefnda af henni. Kröfu um virðisaukaskatt á févíti og meintan kostnað sé mótmælt enda styðjist sú krafa ekki við ákvæði laga.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi til reglna samninga- og kröfuréttar. Þá vísar stefndi sérstaklega til ákvæða laga nr. 7/1936, einkum 30. gr., 33. gr. og 36. gr.
IV.
Samkvæmt grein 1.2. ii. í samningi aðila var eins og áður getur kveðið á um að Auto Glym skuli vera bón sýningarinnar og að stefndi taki að sér að bóna alla bíla sem stefnandi muni koma með og kynna. Einnig muni stefndi þjálfa fjóra einstaklinga á vegum stefnanda til að þrífa bílana á sýningunni meðan á sýningunni stendur. Þá muni stefndi hafa aðgang að Enzo bifreiðinni á meðan á sýningunni stendur. Í samningnum er ekki nánar útlistað hvað felist í því fyrir stefnda að hafa aðgang að umræddri bifreið. Ekki sætir ágreiningi að í aðgangi stefnda að bifreiðinni hafi falist að hann mátti halda reglulegar bónkynningar á bifreiðinni á sýningunni þar sem sýnt væri er bifreiðin væri bónuð með Autoglym bóni, umsömdu bóni sýningarinnar. Þá sætir ekki ágreiningi að stefndi mátti vera með auglýsingastanda á sýningarsvæði sínu og við bifreiðina þar sem Autoglym bón var auglýst. Í samningnum er á hinn bóginn ekkert kveðið á um rétt stefnda til að líma bílabónauglýsingar á bifreiðina. Kom reyndar fram í skýrslutökum af fyrirsvarsmanni stefnda og starfsmönnum stefnda að ekki hafi staðið til að hafa slíka límmiða á bifreiðinni á sýningunni enda ógerlegt að kynna bónun með slíka miða á. Verður því að miða við að notkun Autoglym auglýsingamiða á bifreiðinni hafi fyrst komið til tals eftir að myndir birtust af bifreiðinni í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu með Meguiarsbónauglýsingum álímdum og þá í tengslum við gerð sérstaks sjónvarpsþáttar. Í samningnum er ekkert kveðið á um hvort aðrir mættu auglýsa á bifreið þessari með límmiðum
Þótt ekki væri kveðið sérstaklega á um það í samningi aðila mátti stefndi ganga út frá því með hliðsjón af samningnum að öðru leyti að stefnandi hefði umráða- og ráðstöfunarrétt yfir umræddri Ferrari Enzo bifreið burtséð frá því hver flytti bifreiðina inn til landsins. Komið hefur á daginn að stefnandi hafði ekki þann ráðstöfunarrétt yfir bifreiðinni er hann lét í veðri vaka við samningsgerð enda reyndist það vera Bílabúð Benna sem flutti bifreiðina inn og var öll meðferð bifreiðarinnar háð samþykki Bílabúðar Benna eins og kemur fram í samningi stefnanda og Bílabúðar Benna dagsettum 11. maí 2004, en þar segir m.a. að Bílabúð Benna þurfi að samþykkja allar auglýsingar þar sem Enzo bíllinn kemur fram. Þar segir einnig að bifreiðinni verði ekki ekið eða ráðstafað með neinum hætti án samþykkis Bílabúðar Benna. Þessi samningur hafði ekki verið gerður er málsaðilar gerðu sinn samning og samkvæmt dómskýrslu starfsmanns Bílabúðar Benna hafði stefnandi því ekki heimild til að semja um aðgang að Ferrari bifreiðinni á því tímamarki er samningurinn við stefnda var undirritaður. Stefnandi veitti stefnda því ekki réttar upplýsingar að þessu leyti er þeir undirrituðu samninginn og vakti með því rangar hugmyndir hjá stefnda.
Þá verður það að teljast vanefnd af hálfu stefnanda að láta viðgangast að myndir birtust af umræddri bifreið með auglýsingum frá samkeppnisaðila stefnda, en stefnandi mátti vita með hliðsjón af samningi sínum við Bílabúð Benna að myndir yrðu teknar af bifreiðinni við komu hennar til Bílabúðar Benna, eins og raun varð á.
Af hálfu stefnda hefur á hinn bóginn ekki verið sýnt fram á að ekki hefði mátt kynna Autoglymbón á bifreiðinni á sýningunni sjálfri þrátt fyrir framangreindar vanefndir stefnanda og þrátt fyrir að auglýsing frá Bílabúð Benna yrði á bifreiðinni. Með því að koma ekki til sýningarinnar og inna af hendi samningsskyldur sínar vanefndi stefndi samninginn fyrir sitt leyti. Þykja vanefndir stefnanda sem að framan eru raktar ekki hafa verið það verulegar að ógilda beri samninginn eða að stefndi mætti rifta samningnum við stefnanda. Hvorki er fallist á að stefnandi hafi beitt svikum né að víkja megi samningi til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga. Er því ekki fallist á sýknukröfu stefnda. Á hinn bóginn þykir mega slá því föstu að með því að láta viðgangast að myndir birtust af bifreiðinni með auglýsingum frá keppinaut stefnda hafi mjög dregið úr þeim væntingum sem stefndi hafði varðandi bónkynningu sína á sýningunni. Þykja vanefndir stefnanda gagnvart stefnda því hafa verið slíkar að fallast beri á varakröfu stefnda um lækkun á stefnukröfum. Þykir eftir atvikum hæfilegt að stefndi greiði kröfur stefnanda að hálfu leyti og greiði stefnanda því 316.675 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum þykir rétt að ákveða að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Filtertækni ehf., greiði stefnanda, Hraðar ehf., 316.675 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 5. júní 2004 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.