Hæstiréttur íslands

Mál nr. 368/2011


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Nauðung
  • Fjárkúgun
  • Tilraun
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011.

Nr. 368/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Líkamsárás. Nauðung. Hótanir. Fjárkúgun. Tilraun. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir að hafa dregið A með ofbeldi inn í íbúð sína, haldið henni þar nauðugri og veist að henni með nánar tilgreindum hætti. Þegar A hefði reynt að komast undan X með því að fara fram af svölum íbúðarinnar hefði X rifið í hár A og slegið hana með þeim afleiðingum að hún féll þar fram af. X var einnig gefið að sök að hafa hótað móður A með því að hafa sent eða látið senda smáskilaboð úr tölvu á heimili sínu. Loks var hann ákærður fyrir að hafa sent A skilaboð þar sem henni og bróður hennar var hótað líkamsmeiðingum eða lífláti ef hún greiddi X ekki tiltekna fjárhæð. Með vísan til framburðar A og vitnisins C auk sönnunargagna þótti sannað að X hefði með líkamlegu ofbeldi veist að A í íbúð sinni og haldið henni þar nauðugri. Var hann því fundinn sekur um brot gegn 225. gr. almennra hegningarlaga. Héraðsdómur hafði ekki talið sannað að X hefði rifið í hár A eða slegið hana þegar hún hefði verið komin yfir handrið á svölum íbúðar X, eins og honum var gefið að sök í ákæru. Í dómi Hæstaréttar kom fram að leggja yrði þetta mat til grundvallar og að ekki væri hægt að fallast á að sú háttsemi ákærða að hafa gripið eða þrifið í A gæti talist hafa verið líkamleg valdbeiting, sem rúmaðist innan verknaðarlýsingu ákæru. Var X því sýknaður af þeim þætti ákærunnar sem varðaði ætlað brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Sú viðbára X að kunningi hans hefði notað tölvu X til að senda hótunarskilaboð til móður A án þess að sér hefði verið kunnugt um efni þeirra var talin vera fjarstæð og var hann fundinn sekur um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga. X hafði játað að hafa sent A þau skilaboð sem greint var frá í ákæru og var hann því dæmdur fyrir brot gegn 251. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. X átti nokkurn sakaferil að baki sem hafði áhrif á ákvörðun refsingar. Brot þau sem hann var dæmdur fyrir þóttu alvarleg og tekið var fram að hann ætti sér engar málsbætur. Sú háttsemi hans að hafa yfirgefið vettvang strax í kjölfar þess að hann réðst að A án þess að huga að henni var virt honum til refsiþyngingar. Með vísan til þessa og 1., 2., 5., 6. og 8. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing X ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Ekki var lagður efnisdómur á kröfu A um bætur vegna tjóns sem hún varð fyrir þegar hún féll af svölum íbúðar X. Honum var aftur á móti gert að greiða A 300.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst hann sýknu af sakargiftum um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 samkvæmt ákæru 15. desember 2010 og um brot samkvæmt ákæru 28. janúar 2011 og refsing verði þá milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en fjárhæð hennar lækkuð ella.

A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hún krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína.

I

Í málinu er ákærði borinn sökum með tveimur ákærum ríkissaksóknara, annarri frá 15. desember 2010 en hinni 28. janúar 2011. Í fyrri ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 225. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 31. desember 2009 dregið fyrrum sambúðarkonu sína, A, með ofbeldi inn í íbúð sína að [...], haldið henni þar nauðugri og veist að henni, rifið í hár hennar, slegið hana margsinnis í andlit og líkama, sparkað í fætur hennar og hótað henni lífláti og líkamsmeiðingum. Þegar A hafi reynt að flýja úr íbúð ákærða með því að fara þar fram af svölum hafi hann rifið í hár hennar og slegið hana með þeim afleiðingum að hún hafi fallið fram af þeim og niður um fjóra metra á verönd íbúðar á jarðhæð. Við þetta hafi hún hlotið brot á framhandlegg, úlnlið, spjaldbeini og mjaðmarbeini, skurð á enni og mar víðsvegar um líkamann. Í seinni ákærunni er ákærða annars vegar gefið að sök brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 23. nóvember 2010 hótað B með því að hafa sent eða látið senda nánar tilgreind smáskilaboð úr tölvu á heimili sínu í farsíma hennar, sem hafi verið til þess fallin að vekja með henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og sonar síns. Hins vegar er ákærða gefið að sök brot gegn 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 24. sama mánaðar sent A nánar tilgreind skilaboð með samskiptaforritinu Facebook, þar sem hann hafi hótað henni og bróður hennar líkamsmeiðingum eða lífláti ef hún greiddi ekki 2.000.000 krónur inn á bankareikning hans fyrir tiltekinn tíma. Hafi háttsemi þessi verið til þess fallin að vekja með henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og bróður síns.

II

Kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms styður ákærði í fyrsta lagi við það að hann hafi verið sakfelldur í héraði fyrir aðra háttsemi en honum hafi verið gefin að sök í ákæru 15. desember 2010. Þar hafi hann verið borinn sökum um sérstaklega hættulega líkamsárás þegar A hugðist fara fram af svölum til að flýja úr íbúð hans með því að rífa í hár hennar og slá hana með þeim afleiðingum að hún féll af svölunum og niður á verönd íbúðar á jarðhæð. Í héraðsdómi hafi verið talið ósannað að hann hafi rifið í hár hennar eða slegið hana, en þrátt fyrir það hafi hann verið sakfelldur fyrir að hafa valdið falli hennar af svölunum með því að hafa annaðhvort gripið eða þrifið í hana, sem hafi verið líkamleg valdbeiting af hans hendi. Málið hafi ekki verið flutt um þetta í héraði og hafi vörn að því leyti verið ábótavant. Ómerkingarkrafan sé auk þess meðal annars reist á því að í héraðsdómi hafi ekki verið lagt mat á trúverðugleika skýrslna ákærða, heldur einungis brotaþola.

Það atriði, sem fyrst var nefnt, lýtur að úrlausn um efni málsins og getur eins og hér stendur á ekki varðað ómerkingu hins áfrýjaða dóms. Þá er ljóst af niðurstöðu héraðsdóms að dómendur hafa lagt mat á trúverðugleika skýrslna ákærða, þótt þess sé ekki berum orðum getið. Önnur atriði, sem ákærði hefur hreyft, geta ekki valdið ómerkingu hins áfrýjaða dóms.

III

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er sannað að ákærði hafi með líkamlegu ofbeldi veist að A í íbúð sinni 31. desember 2009 og haldið henni þar nauðugri. Sú háttsemi ákærða varðar við 225. gr. almennra hegningarlaga. Eins og rakið er í forsendum hins áfrýjaða dóms var ekki fullt samræmi í framburði A um hvernig það hafi komið til að hún féll niður af svölum íbúðar ákærða í framhaldi af þessu. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri sannað að ákærði hafi rifið í hár A eða slegið hana þegar hún hafi verið komin yfir handrið á svölunum, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Þetta mat héraðsdóms verður að leggja til grundvallar og verður ekki á það fallist að sú háttsemi ákærða að hafa gripið eða þrifið í A geti talist hafa verið líkamleg valdbeiting, sem hafi rúmast innan verknaðarlýsingar ákæru, eins og byggt var á í hinum áfrýjaða dómi. Verður því að sýkna ákærða af þeim þætti ákærunnar, sem varðar ætlað brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála

Í ákæru 28. janúar 2011 var ákærða í 1. lið gefin að sök hótun með því að hafa sent eða látið senda skilaboð úr tölvu sinni til fyrrnefndrar konu, sem eftir gögnum málsins er móðir A. Í hinum áfrýjaða dómi segir ranglega að ákærði hafi fyrir lögreglu viðurkennt að skilaboðin hafi verið send að undirlagi sínu, en samkvæmt framlögðu endurriti lögregluskýrslu 25. nóvember 2010 játaði hann hvorki þar né neitaði þessum sökum. Þetta fær því þó ekki breytt að sú viðbára ákærða er fjarstæð að kunningi sinn, sem hann hefur ekki nafngreint, hafi sent þessi skilaboð úr tölvu ákærða án þess að sér hafi verið kunnugt um efni þeirra. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt báðum liðum ákærunnar frá 28. janúar 2011.

Samkvæmt framansögðu er ákærði sakfelldur í málinu fyrir brot gegn 225. gr., 233. gr. og 251. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Sakaferill hans er rakinn í hinum áfrýjaða dómi, svo og þau lagaákvæði, sem áhrif geta haft á hæð refsingar. Að teknu tilliti til þess er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð 861.740 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum, en krafa hennar tók til tjóns, sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna háttsemi ákærða í hennar garð, sem um ræðir í ákæru 15. desember 2010. Eins og að framan greinir er ákærði ekki sakfelldur fyrir að hafa valdið A líkamstjóni, sem hún hlaut af falli fram af svölum á íbúð hans, og verður því ekki lagður efnisdómur á kröfu hennar um bætur vegna tjóns, sem rakið verði til þess, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Á hinn bóginn á hún rétt á miskabótum vegna þeirrar háttsemi ákærða, sem að henni beindist og varðar samkvæmt áðursögðu við 225. gr. almennra hegningarlaga. Þær bætur eru hæfilega ákveðnar 300.000 krónur og bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Eftir þessum úrslitum málsins verður ákærða gert að greiða helming sakarkostnaðar vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar verður staðfest. Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara nemur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti 54.140 krónum, en við þá fjárhæð verður að bæta 43.925 krónum vegna útlagðs kostnaðar verjanda ákærða við rekstur málsins hér fyrir dómi, svo og málsvarnarlaun verjandans, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

  Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði A 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2009 til 13. febrúar 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði, sem var samtals 694.900 krónur, og helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem alls nemur 537.315 krónum, en þar eru meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 15. desember 2010 á hendur X kt.[...], [...], [...], fyrir ólögmæta nauðung og sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa fimmtudaginn 31. desember 2009, með ofbeldi dregið fyrrum sambýliskonu sína, A, inn í íbúð sína að [...] í [...], haldið henni þar nauðugri og veist að henni, rifið í hár hennar, slegið hana margsinnis í andlit og líkama, sparkað í fætur hennar og hótað henni lífláti og líkamsmeiðingum. Er A hugðist flýja íbúðina með því að fara fram af svölum reif ákærði í hár hennar og sló hana með þeim afleiðingum að hún féll 4 metra fram af svölunum og niður á verönd íbúðar á jarðhæð. Við þetta hlaut A framhandleggs- og úlnliðsbrot, spjaldbeinsbrot, mjaðmarbeinsbrot, skurð á enni, mar neðan við hægra auga og víðsvegar um líkamann.

Er þetta talið varða við 225. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá hefur verið lögð fram einkaréttarkrafa af hálfu brotaþola á hendur ákærða til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.222.968 krónur ásamt vöxtum af 1.067.740 krónum samkvæmt 8., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. janúar 2009 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafan er kynnt fyrir ákærða en frá þeim degi af 1.222.968 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. laganna allt til greiðsludags.

Í þinghaldi 7. febrúar sl., var sakamál nr. 40/2011 þingfest á hendur ákærða. Er það höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 28. janúar 2011 á hendur ákærða fyrir að hafa árið 2010 framið eftirtalin hegningarlagabrot:

1.

Hótun, með því að hafa miðvikudaginn 23. nóvember sent eða látið senda eftirfarandi skilaboð úr tölvu á ofangreindu heimili sínu, í farsímanúmerið [...] í eigu B: „sonur tinn verdur limlestur fyrir ad fyrirskipa aras a heimilid hans X  og lif ykkar lagt i rust“. Var háttsemin til þess fallin að vekja með B ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og sonar.

Er þetta talið varða við 233. gr. laga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998.

2.

Tilraun til fjárkúgunar, með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 24. nóvember sent A  skilaboð með samskiptaforritinu Facebook þar sem hann hótaði henni og bróður hennar líkamsmeiðingum eða lífláti ef hún greiddi ekki tvær milljónir króna inn á bankareikning hans fyrir lokun banka á föstudag. Í skilaboðunum sagði meðal annars: „ég mun ekki hætta fyrr en ég er búinn að eyðileggja líf þitt gjörsamlega og bróðir þins lika,það munu stelpur ganga frá þér og útlendingar frá bróðir þínum,ef ég væri þú þá myndi ég flytja úr landi þvi ég hætti ekki fyrr en ég fer í fangelsi eða verð drepinn“. Var háttsemin til þess fallin að vekja með A ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og bróður síns.

Er þetta talið varða við 251. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði viðurkennir að hafa gerst sekur um ólögmæta nauðung samkvæmt ákæru 15. desember 2010. Að öðru leyti neitar hann sök. Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar að því leyti er ákærði játar sök. Að öðru leyti krefst hann sýknu, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Ákæra 15. desember 2010.  

Fimmtudaginn 31. desember 2009 kl. 14.54 barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að slys hefði orðið að [...] í[...]. Fram kemur að samkvæmt tilkynningu hafi kona fallið fram af svölum. Væru sjúkraflutningamenn einnig á leið á staðinn. Í frumskýrslu kemur fram að á meðan lögreglumenn hafi verið á leið á staðinn hafi borist tilkynning þess efnis að konunni hafi verið fleygt fram af svölunum. Fram kemur að er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi A, brotaþoli í málinu, ásamt C, verið framan við húsið. Hafi brotaþoli verið með sjáanlega áverka í andliti og á vinstri hendi. Ekki hafi verið hægt að ræða við brotaþola vegna ástands hennar. C hafi tjáð lögreglu að hún hafi komið að [...] ásamt brotaþola en brotaþoli hafi ætlað að sækja hunda sína til fyrrum sambýlismanns síns, X, ákærða í máli þessu. Hafi C beðið í bifreið sinni á meðan brotaþoli hafi farið inn í íbúð til ákærða. Síðar hafi C orðið þess áskynja að brotaþoli hafi fallið fram af svölum íbúðar ákærða. Hafi C komið brotaþola til aðstoðar. Hafi brotaþoli tjáð C að ákærði hafi slegið brotaþola með krepptum hnefa í andlit og fleygt henni fram af svölum íbúðar sinnar.

Í frumskýrslu kemur fram að D hafi gefið sig á tal við lögreglu á vettvangi. Hafi D greint frá því að íbúð hans væri við hlið íbúðar ákærða í húsinu. Hafi D verið inni í íbúðinni þegar hann skyndilega hafi heyrt öskur frá íbúð ákærða. Við það hafi hann gengið út á svalir íbúðar sinnar. Hafi hann þá séð brotaþola liggja slasaða á verönd neðan við íbúð ákærða. Hafi D hugað að brotaþola. Þá kemur fram að E hafi greint lögreglu frá því að ákærði hafi komið til E eftir atvikið og greint frá því að brotaþoli hafi fleygt sér fram af svölum íbúðar ákærða. Hafi E ráðlagt ákærða að koma sér burtu áður en lögregla kæmi á vettvang. Hafi E ráðlagt ákærða þetta þar sem ákærði hafi verið sannfærður um að ákærði yrði handtekinn og látinn gista fangageymslur.

Samkvæmt skýrslu lögreglu var brotaþoli flutt á slysa- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss. Þá kemur fram að knúið hafi verið dyra á íbúð ákærða. Enginn hafi svarað og hafi verið ákveðið að kalla til lásasmið til að komast inn í íbúðina. Á meðan beðið hafi verið eftir lásasmið hafi E upplýst að ákærði væri ekki heima. Þá hafi hann upplýst að E væri með lykla að íbúð ákærða og hafi hann opnað fyrir lögreglu.

Samkvæmt skýrslu rannsóknardeildar lögreglu frá sama degi var vettvangur að [...] rannsakaður af lögreglu. Þá kemur fram að rannsóknarlögreglumaður hafi farið á slysadeild og rætt við brotaþola. Hafi brotaþoli verið þjáð af meiðslum. Að gættum ákvæðum laga nr. 88/2008 um skýrslugjöf vitna hafi brotaþoli greint frá því að hún hafi tveim dögum áður farið að heimili ákærða til að sækja tvo hunda, en brotaþoli og ákærðu áttu saman hunda. Brotaþoli og ákærði hafi verið í sambúð í nokkur ár en þau hafi slitið henni um ári fyrir atburðinn. Hafi ákærði verið farinn að hitta aðra konu og brotaþoli því talið að ákærði væri ,,kominn yfir“ brotaþola. Í upphafi hafi allt verið gott á milli þeirra og þau rætt um margt og nokkuð lengi. Síðan hafi ákærði skyndilega spurt brotaþola út í strák sem brotaþoli hafi verið með úti í Danmörku, en brotaþoli byggi þar. Hafi ákærði viljað fá að vita nafnið á drengnum. Hafi brotaþoli byrjað með umræddum dreng um 2 til 3 mánuðum eftir að brotaþoli og ákærði hafi slitið samvistir. Hafi brotaþoli ekki viljað segja ákærða frá nafni drengsins en ákærði tjáð brotaþola að hún færi ekki út úr íbúðinni fyrr en brotaþoli greindi frá því. Hafi brotaþoli farið í vesti og ætlað út en ákærði þá sagt að hún væri ekki að fara fyrr en brotaþoli segði honum allt. Brotaþoli væri ekki að fara í nýársfagnað, hún yrði með glóðarauga. Hafi ákærði hent brotaþola í sófa í stofunni, sparkað í hana og klipið hana í handlegg þannig að brotaþoli hafi fengið marblett. Hafi brotaþoli orðið mjög hrædd við ákærða og sagt honum allt sem hann hafi viljað vita. Fimmtudaginn 31. desember 2009 hafi brotaþoli á ný farið heim til ákærða. Hafi ákærði sent brotaþola símaskilaboð um að hún gæti sótt hundana. Væri ákærði veikur og gæti hann ekki farið með hundana til brotaþola. Myndi hann ekki gera brotaþola neitt. Hafi brotaþoli verið mjög hrædd og því beðið vinkonu sína, C, að fara með brotaþola til ákærða. Hafi brotaþoli farið upp í íbúð til ákærða á meðan C hafi beðið niðri en hún hafi ætlað að fylgjast með brotaþola. Ákærði hafi opnað dyrnar og sagt brotaþola að koma inn. Hafi brotaþoli synjað því. Um leið hafi ákærði ráðist á brotaþola og dregið brotaþola inn í forstofu íbúðarinnar. Hafi hann hent brotaþola í gólfið og byrjað að slá hana í síðuna. Hafi brotaþoli öskrað á hjálp og gripið í rimlagardínu fyrir glugga í forstofunni. Hafi ákærði sagt brotaþola að ,,steinhalda kjafti“ og að brotaþoli kæmist ekki lifandi út úr íbúðinni. Jafnframt hafi hann tjáð brotaþola að hann ætlaði að klippa og raka af henni hárið og mölva á henni andlitið. Hafi ákærði verið með boxhanska á sér. Ætti lögregla að finna skæri og rafmagnsrakvél í íbúð ákærða, en ákærði hafi verið búinn að taka þessa hluti til. Ákærði hafi því næst dregið brotaþola inn í íbúðina, hent henni í gólfið og slegið brotaþola í andlitið hægra megin. Síðan hafi hann hent brotaþola í sófa í stofunni og sagt brotaþola að vera grafkyrr. Ef brotaþoli stæði upp myndi ákærði ganga frá brotaþola. Hafi ákærði sagt að hann ætlaði að ná sér í glas af vatni og í því skyni farið inn í eldhús íbúðarinnar. Hafi brotaþoli þá reynt að fara út á svalir íbúðarinnar. Hafi brotaþoli kallað margoft á hjálp og reynt að komast fram af svölunum. Ákærði hafi náð brotaþola og dregið hana aftur inn í íbúðina. Hafi hann tjáð brotaþola að brotaþoli kæmist ekki lifandi út úr íbúðinni. Hafi ákærði skipað brotaþola að setjast í sófann en ákærði ætlaði í inn í eldhúsið til að ná sér í vatn. Hafi brotaþoli hugsað með sér að hún þyrfti að komast út á svalir. Hafi hún metið stöðuna þannig að eini möguleiki hennar til að komast út úr íbúðinni væri að fara fram af svölunum. Hafi brotaþoli verið mjög hrædd um líf sitt og að hún kæmist ekki út um hurð íbúðarinnar. Hafi brotaþoli fikrað sig nær svalahurð íbúðarinnar. Hafi hún haldið á öðrum hundinum og verið að klappa honum. Ákærði hafi þá farið inn í eldhús íbúðarinnar. Í því hafi brotaþoli hent frá sér hundinum og hlaupið að svalahurðinni, náð að opna hana, farið út á svalirnar og upp á svalahandriðið. Ákærði hafi náð brotaþola, rifið í hár hennar og kýlt hana í andlitið. Hafi brotaþoli náð að rífa sig lausa en við það misst jafnvægið og dottið fram af svölunum. Þar sem hún hafi ekki verið í jafnvægi hafi hún ekki náð að stýra fallinu. Hafi hún lent á vinstri hliðinni á hellulagðri verönd. Hafi hún verið sárkvalin og átt mjög erfitt með að standa upp. Hafi brotaþoli öskrað á hjálp. Fólk úr íbúð við hlið íbúðar ákærða hafi komið út og hjálpað brotaþola. Kvaðst brotaþoli hafa óttast mjög um líf sitt í íbúðinni. Hafi hún aldrei áður séð ákærða eins heiftúðugan. Þá hafi ákærði aldrei áður lagt hendur á brotaþola með þeim hætti er hann hafi gert.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að rannsóknarlögreglumaður hafi í framhaldi skýrslutöku af brotaþola farið aftur í íbúðina að [...]. Í stofu á borði við hlið eldhússins hafi verið skæri og rakvél. Þá hafi verið glas með vatni í við eldhúsvask. Boxhanskar hafi verið í stofu íbúðarinnar. Lögreglumaður hafi náð símasambandi við ákærða. Hafi honum verið gerð grein fyrir því að hann þyrfti að mæta strax til yfirheyrslu. Hafi ákærði gert grein fyrir því að hann væri í andlegu sjokki og treysti sér ekki til að mæta til skýrslutöku. Hann væri einnig búinn að drekka þrjá bjóra. Á meðal rannsóknargagna málsins eru ljósmyndir er rannsóknardeild lögreglu hefur tekið í íbúðinni að [...] í [...] 31. desember 2009.

F sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 29. janúar 2010 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á slysadeild 31. desember 2009 kl. 14.50. Í vottorðinu kemur m.a. fram að brotaþoli hafi grátið við skoðun og verið í andlegu áfalli. Hafi brotaþoli hlotið brot á framhaldleggsbeinum. Einnig hafi hún hlotið brot á mjöðm og spjaldbeini. Þá hafi hún verið með skurð á enni. G læknir hefur 8. janúar 2010 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á slysadeild Sjúkrahúss Akraness 7. janúar 2010. Fram kemur að brotaþoli hafi komið í fylgd lögreglumanna, en sérstaklega hafi verið óskað eftir að fram kæmi álit læknisins á því hvort áverkar væru á brotaþola sem samræmdust því að vera eftir högg eða barsmíð með krepptum hnefa. Í vottorðinu kemur fram að við skoðun á höfði sé brotaþoli með sár yfir vinstri augabrún með plástur yfir. Einnig sé mar neðan við hægra auga sem samrýmist vel hnefahöggi. Brotaþoli væri aum á fremri hálsvöðvum. Við skoðun á hægri handlegg væri brotaþoli með stóran marblett um 4 x 5 cm yfir upphandleggsvöðva og tvo minni innanvert á upphandlegg sem gæti samrýmst hnefahöggi eða að einhver hafi gripið um handlegginn. Þá væri brotaþoli með mar yfir framhandlegg sem gæti samrýmst hnefahöggi. Við skoðun á baki sjáist bólga rétt ofan við rófubein en ekki mar. Sé hún mjög aum við þreifingu þar. Á hægra hné séu marblettir bæði rétt ofan við hnéskel og á innanverðu hné sem brotaþoli segi vera vegna sparks. Geti marblettir samrýmst því.  

Ákærði gaf skýrslu vegna málsins hjá lögreglu 1. janúar 2010. Þá gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Ákærði kvaðst hafa verið í sambúð með brotaþola. Því sambandi hafi lokið og ákærði verið byrjaður að hitta aðrar konur. Brotaþoli hafi farið að hringja aftur í ákærða og viljað að þau myndu byrja sambandið á nýjan leik. Hafi ákærði beðið brotaþola að hætta að vera að hringja í sig og hætta að vera að rugla í ákærða. Frá sambúðartíma hafi þau átt saman tvo hunda. Skömmu fyrir þann atburð sem málið snúist um hafi brotaþoli komið á heimili ákærða og á ný óskað eftir því að þau myndu byrja saman. Hafi ákærði hafnað þeim óskum hennar. Hafi hún þá viljað að þau myndu borða saman á nýársdag 2010 og ákærði samþykkt það. Brotaþoli hafi komið á heimili ákærða á nýársdaga til að sækja hundana. Þá hafi verið komið annað hljóð í strokkinn og brotaþoli þá ekki viljað fara út að borða með ákærða á nýársdag. Hafi brotaþoli greint ákærða frá því í símtali áður en hún hafi komið til ákærða. Samt sem áður hafi hún viljað að þau tvö myndu byrja saman aftur. Þennan dag hafi brotaþoli verið við dyrnar á heimili ákærða. Hafi ákærði gripið í öxl eða kraga á yfirhöfn brotaþola og dregið hana inn í anddyri íbúðarinnar, en það hafi hann gert þar sem brotaþoli hafi ekki viljað ræða málin. Brotaþoli hafi streist á móti og gripið í hurðakarminn. Hafi hún sennilega einnig gripið í rimlagardínur í forstofu, sem brotnað hafi við atganginn. Ákærði hafi dregið hana inn á gólf í íbúðinni og sagt henni að hún færi ekki út úr íbúðinni fyrr en ákærði fengi einhverjar útskýringar á hegðun brotaþola. Hafi ákærða ekki fundist sanngjarnt að brotaþoli væri að jagast í honum eftir sambandsslitin, sem ákærði hafi tekið nærri sér. Hafi ákærði boðið brotaþola vatnsglas og í því skyni farið inn í eldhús íbúðarinnar. Ekki myndi ákærði hvort brotaþoli hafi setið í sófa í stofunni á meðan, en hún hafi verið grátandi. Hafi hún lýst einhverjum tilfinningum í garð ákærða, sem hann hafi átt erfitt með að skilja. Hafi hún verið með annan hundinn í fanginu. Ákærði hafi ekki beitt brotaþola neinu ofbeldi í íbúðinni. Ekki væri hins vegar útilokað að ákærði hafi að einhverju leyti gripið í hár brotaþola er hann hafi dregið hana inn í íbúðina. Þá kvaðst ákærði ekki hafa slegið brotaþola í andlitið með boxhanska svo sem hún héldi fram. Ákærði hafi ekki hótað brotaþola með neinu móti, hvorki lífláti né beinbrotum. Brotaþoli hafi tekið sig til og farið út á svalir íbúðarinnar. Hafi ákærði farið á eftir henni og ætlað að grípa hana. Hafi hann runnið til í snjó á svölum íbúðarinnar um leið og hann hafi náð að grípa í yfirhöfn hennar. Brotaþoli hafi þá verið komin yfir handriðið, verið í lóðréttri stöðu og haldið í það. Ákærði hafi sjálfur verið beygður yfir handriðið, með handlegginn yfir brotaþola og haldið aftan í yfirhöfn hennar á bakinu. Í því hafi brotaþoli misst tak sem hún hafi haft á svalahandriðinu og fallið niður á jörðina fyrir neðan svalirnar. Hafi tak ákærða á henni ekki verið það gott að hann hafi getað haldið henni fastri. Allt hafi þetta gerst á sekúndubroti. Við fallið hafi brotaþoli öskrað á hjálp. Ákærði hafi ekki séð hvernig hún hafi lent. Engin orð hafi fallið þeirra á milli í aðdraganda fallsins. Ákærði hafi verið í miklu ójafnvægi og farið upp til vinar síns á næstu hæð fyrir ofan.  Að því er varðar áverka brotaþola kvað ákærði ekki útilokað að áverki á öxl hafi komið vegna ákærða þegar hann hafi tekið hana inn í íbúðina. Að öðru leyti væru áverkar á henni ekki af völdum ákærða. Hafi hann ekki slegið hana í búkinn svo sem ákæra miði við. Þá hafi hann ekki sparkað í fætur hennar eða rifið í hár hennar. Í skýrslu hjá lögreglu 1. janúar 2010 greindi ákærði frá því að brotaþoli hafi verið rauð á enninu. Það hafi örugglega komið fyrir brotaþola er ákærði hafi dregið hana inn í anddyri íbúðarinnar.

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 26. október 2010 og við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Umræddan dag kvaðst brotaþoli hafa farið á heimili ákærða til að ná í hunda er þau ættu saman. Hafi brotaþoli óttast ákærða og því beðið vinkonu sína um að koma með heim til hans. Hafi brotaþoli hringt dyrasíma heima hjá ákærða og beðið hann um að koma niður með hundana. Það hafi hann ekki viljað. Hafi hún beðið vinkonuna um að fylgjast með sér er hún færi inn til ákærða. Hafi hún gægst inn um hurð á íbúð ákærða. Ákærði hafi um leið gripið í hana og dregið hana inn í íbúðina. Hafi brotaþoli reynt að grípa í eitthvað til að hún færi ekki inn í íbúðina en það hafi ekki borið árangur. Hafi hún m.a. gripið í gardínu í anddyri, sem brotnað hafi við atganginn. Ákærði hafi umsvifalaust skellt brotaþola utan í skáp í anddyrinu. Brotaþoli hafi lent í gólfinu og ákærði sest yfir hana og sagt henni að hann ætlaði að raka hárið af henni, auk þess sem hann ætli sér að lemja hana. Ákærði hafi slegið hana þrjú högg í andlitið og tekið hans kverkataki með báðum höndum. Inni í íbúðinni hafi hann verið kominn með boxhanska á aðra hendi. Með honum hafi hann slegið í síðu brotaþola. Er brotaþoli hafi setið í sófa í stofunni hafi ákærði sparkað í lappir hennar og sparkið komið á hnjásvæðið. Eftir þetta hafi brotaþola tekist að komast út á svalir íbúðarinnar og hrópa á hjálp. Ákærði hafi dregið hana aftur inn í íbúðina og lokað svalahurðinni. Eftir það hafi hann farið inn í eldhús íbúðarinnar og brotaþoli setið í sófa í stofunni. Hafi hún tekið þá ákvörðun að reyna aftur að komast út á svalir og fara fram af þeim, en ákærði hafi haldið henni nauðugri í íbúðinni. Hafi hann sagt henni að hún fengi ekki að fara. Allt væri henni að kenna. Hafi hún verið að klappa hundinum í stofunni er hún hafi skyndilega stokkið á fætur og að svalahurðinni. Í skýrslutöku hjá lögreglu 26. október 2010 greindi brotaþoli frá því að um 4 metrar væru frá efri brún handriðs og niður á jörð. Hafi hún ætlað að fara yfir handriðið og láta sig síðan síga niður á jörðina fyrir neðan. Við aðalmeðferð málsins bar brotaþoli að ákærði hafi komið á eftir henni. Hafi hún verið komin ofan á svalahandriðið er ákærði hafi náð henni og hún því verið lárétt á handriðinu. Hafi hann slegið til hennar og höggið komið á bak hennar. Einnig hafi hann rifið í hár hennar. Brotaþoli hafi á þeim tíma er hún hafi fengið höggið snúið að ákærða því hún hafi ætlað þannig niður. Sökum þess hvernig atburðarásina hafi borið að hafi hún ekki séð ákærða koma heldur einungis heyrt í honum og skyndilega fundið fyrir högginu er ákærði hafi slegið hana með hnefanum. Í skýrslutöku hjá lögreglu bar brotaþoli að ákærði ,,nær í rassgatið á mér, rífur í hárið á mér og kýlir mig. Ég missi jafnvægið og fer svona niður eins og ég fór.“ Brotaþoli hafi verið ofan á handriðinu og með báða fætur handan við handriðið. Hafi ákærði rifið í hár brotaþola og kýlt hana. Ákærði hafi ekki ætlað sér að forða því að brotaþoli færi fram af svölunum. Kvaðst brotaþoli hafa upplifað það þannig að ákærði hafi ýtt við brotaþola þannig að hún myndi detta fram af svölunum. Brotaþoli greindi frá því við aðalmeðferð málsins að hún hafi í framhaldinu fallið stjórnlaust til jarðar fyrir neðan svalirnar en það næsta er hún myndi eftir að ákærði hafi rifið í hár hennar hafi verið er hún hafi legið á jörðinni neðan svala. Hafi brotaþoli ekki upplifað atburði þannig að ákærði hafi verið að reyna að bjarga brotaþola. Hafi hún lent á hliðinni, en það megi rekja til athafna ákærða. Brotaþoli kvaðst aldrei áður hafa orðið eins hrædd um líf sitt og í íbúðinni umrætt sinn. Þó svo hún hafi búið með ákærða í mörg ár áður en þau hafi slitið samvistum hafi hún aldrei áður séð ákærða eins æstan og þennan dag. Brotaþoli kvaðst hafa verið lengi að jafna sig eftir þá áverka er hún hafi fengið. Væri hún enn með verki í úlnlið. Andlegt ástand hennar hafi verið slæmt eftir atvikið. Brotaþoli kvað um ár hafa liðið  frá sambandsslitunum þar til atvikið að[...] hafi átt sér stað. Hafi hún aldrei gefið ákærða það til kynna eftir sambandsslitin að hún hefði hug á því að þau myndu byrja saman á nýjan leik. 

C  kvaðst hafa farið með brotaþola að heimili ákærða umræddan dag, en brotaþoli hafi ætlað að ná í hunda á heimili ákærða. Hafi brotaþoli óskað eftir því að C kæmi með sér þennan dag en brotaþoli hafi verið hrædd við ákærða. Væru þær tvær vinkonur. C hafi beðið úti í bifreið á meðan brotaþoli hafi farið inn. C kvaðst ekki hafa séð brotaþola fara inn í íbúðina til ákærða. Að ákveðnum tíma liðnum hafi henni fundist of langt um liðið síðan brotaþoli fór inn í íbúðina. Hafi hún því hringt í síma brotaþola. Skellt hafi verið á símtalið en það hafi C fundist skrýtið. Hafi hún því hringt á ný en þá verið slökkt á símanum. Hafi hún þá farið út úr bifreiðinni og að íbúð ákærða. Er hún hafi ætlað að knýja dyra hafi hún séð síma brotaþola og lykla fyrir utan dyr íbúðarinnar. Hafi hún þá knúið dyra en enginn svarað. Eftir að hafa knúið dyra um stund hafi henni verið litið niður og til hliðar og þá séð brotaþola alblóðuga þar sem maður hafi haldið henni uppi. Brotaþoli hafi öll verið lemstruð. Er C hafi spurt brotaþola um hvað hafi komið fyrir hafi brotaþoli öll verið titrandi. Hafi hún tjáð henni að ákærði hafi fleygt henni fram af svölunum. Brotaþoli hafi verið mjög hrædd og í sjokki. Brotaþoli hafi lýst fyrir henni atburðarásinni inni í íbúðinni. Hringt hafi verið á lögreglu og sjúkralið sem komið hafi á vettvang skömmu síðar. C kvaðst ekki getað áttað sig nákvæmlega á því hve lengi brotaþoli hafi verið í íbúðinni með ákærða. Gæti það hafa verið í um 15 til 20 mínútur. C gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 15. júní 2010. Var hún þá sérstaklega spurð út í það hvernig brotaþoli hafi lýst því á hvern hátt hún hafi farið fram af svölunum. Bar C að brotaþoli hafi lýst því þannig að hún hafi ætlað fram af svölunum þar sem hún hafi óttast að ákærði myndi ganga frá henni. Hafi brotaþoli ætlað fram af svölunum þegar ákærði hafi komið að og reynt að draga hana til baka, en þá hefði hún dottið.  

D kvaðst búa í íbúð við hlið íbúðar ákærða í fjöleignarhúsinu að [...] í Reykjavík. Hafi D verið nýkominn heim til sín að [...] fimmtudaginn 31. desember 2009 er hann hafi heyrt einhver læti, öskur og eins og einhver væri að hlaupa um íbúð og síðan hurðaskelli. Erfitt hafi verið að átta sig á hvaðan hljóðin hafi komið, en ekki væri neitt sérstaklega hljóðbært á milli íbúða. Um 20 til 30 mínútum síðar hafi honum fundist eins og hann heyrði einhvern hrópa á hjálp og því hafi hann farið út á svalir íbúðarinnar en ekkert séð. Hafi hann farið inn en þá aftur heyrt hrópað. Hafi hann aftur farið út en þá séð brotaþola alblóðuga fyrir utan húsið. Greinilegt hafi verið að hún hafi fallið niður af svölum og lent á milli tveggja stórra blómapotta á jörðinni fyrir neðan. Hafi D farið til hennar en hún verið í sjokki og sagst vera hrædd. Hafi hún beðið D um að fara ekki frá sér. Hafi D látið eiginkonu sína hringja á sjúkrabifreið og lögreglu á meðan hann hafi hlúð að brotaþola. D kvaðst ekki hafa þekkt brotaþola. Þá kvaðst hann ekki þekkja ákærða neitt sérstaklega.

E kvað ákærða hafa komið upp í íbúð til sín fimmtudaginn 31. desember 2009 og tjáð sér að brotaþoli hafi fleygt sér fram af svölum í íbúð ákærða. Hafi ákærði spurt E að því hvort hann fengi ekki bifreið E lánaða. Hafi E  svarað því játandi. Í framhaldinu hafi ákærði farið á brott. Hafi E farið að gæta að brotaþola en þá séð að einhverjir einstaklingar hafi verið komnir að henni. Hafi hann því ákveðið að blanda sér ekkert í það mál frekar. Er lögregla hafi komið á staðinn hafi E tjáð lögreglumönnum að ákærði væri farinn á brott. Hafi E hleypt lögreglu inn í íbúð ákærða, en E hafi verið með lykla að íbúðinni. E kvaðst hafa þekkt bæði ákærða og brotaþola frá fyrri tíð. E kvað íbúð ákærða vera fyrir neðan sína íbúð. Hafi hann ekki heyrt neinn hávaða frá íbúð ákærða áður en ákærði hafi komið upp til E.

Lögreglumennirnir H, I og J staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Staðfestu lögreglumennirnir allir að brotaþoli hafi verið í mjög miklu uppnámi og mjög hrædd er lögreglumenn hafi komið á staðinn. 

F læknir á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss staðfesti læknisvottorð sitt í rannsóknargögnum málsins og gerði nánari grein fyrir einstökum atriðum í því. F kvað brotaþola að öllum líkindum hafa fallið á vinstri hlið er hún hafi fallið fram af svölunum og með vinstri hendi undir sig. Skurður á enni hennar hafi sennilega komið til vegna fallsins. Brotaþoli ætti að öllum líkindum að jafna sig að fullu eftir meiðslin.

G læknir á slysadeild Sjúkrahúss [...] staðfesti læknisvottorð sitt í rannsóknargögnum málsins og gerði grein fyrir einstökum atriðum í því. Fram kom að áverkar neðan við auga hafi samrýmst því að vera eftir hnefahögg. Brotaþoli hafi verið aum yfir hálsvöðvum og með mar yfir upphandlegg. Það mar hafi samrýmst gripi eða hnefahöggi á þann stað. Þá hafi brotaþoli verið með áverka um hné innan- og framanvert. Ekki væri unnt að útiloka með öllu að þeir áverkar sem greinst hafi á brotaþola hafi komið til vegna fallsins, þó svo áverkarnir hafi komið heim og saman við frásögn brotaþola.  

Niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök ólögmæt nauðung og sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa fimmtudaginn 31. desember 2009, inni í íbúð að[...] í[...], haldið brotaþola nauðugri og veist að henni með því að rífa í hár hennar, að hafa slegið hana margsinnis í andlit og líkama, að hafa sparkað í fætur hennar og hótað henni lífláti og líkamsmeiðingum. Er brotaþoli hugðist flýja íbúðina er ákærða gefið að sök að hafa rifið í hár hennar og að hafa slegið hana með þeim afleiðingum að hún féll 4 metra fram af svölum íbúðarinnar og niður á verönd íbúðar á jarðhæð. Við þetta hlaut brotaþoli framhandleggs- og úlnliðsbrot, spjaldbeinsbrot, mjaðmarbeinsbrot, skurð á enni, mar neðan við hægra auga og víðsvegar um líkamann.

Ákærði hefur játað að hafa beitt brotaþola ólögmætri nauðung umrætt sinn en neitar sök að því er varðar líkamsárás. Hefur hann lýst því að hann hafi beitt brotaþola ofbeldi með því að hafa gripið í brotaþola er brotaþoli var við inngang að íbúð ákærða, að hafa dregið hana inn í íbúðina og að hafa haldið henni þar. Við þessar aðfarir sé ekki loku fyrir það skotið að ákærði hafi gripið í hár brotaþola, þó svo aðgerðir ákærða hafi miðað við að grípa í öxl hennar eða kraga á yfirhöfn. Við atganginn hafi brotnað úr rimlagardínu í forstofu íbúðarinnar. Við yfirheyrslur hjá lögreglu bar ákærði að mar við hægra auga hafi sennilega komið við það er ákærði dró brotaþola inn í íbúðina. Ákærði ber að brotaþoli hafi kastað sér fram af svölum íbúðarinnar. Hafi ákærði reynt að varna því og í því skyni gripið í brotaþola, en ekki náð að halda henni er brotaþoli hafi misst tak á svalahandriði. Hafi ákærði einungis náð taki aftan í yfirhöfn hennar, en takið ekki verið nægjanlegt til að varna því að brotaþoli félli niður af svölunum.

Frásögn brotaþola af atvikum hefur verið með þeim hætti að ákærði hafi umrætt sinn gripið í brotaþola og dregið hana inn í íbúðina. Hafi hann strax beitt hana ofbeldi með því að slá henni utan í skáp í anddyri. Hún hafi fallið í gólfið og ákærði sest yfir hana. Hafi hann slegið hana þrisvar sinnum í andlitið. Þá hafi hann tekið hana kverkataki með báðum höndum. Inni í íbúðinni hafi hann bæði sparkað í fætur hennar auk þess sem hann hafi með boxhanska á hendi slegið hana í líkamann. Einnig hafi hann hótað henni lífláti og líkamsmeiðingum en brotaþoli hefur m.a. borið að ákærði hafi sagst ætla að klippa af henni hárið. Hafi ákærði verið búinn að taka til bæði skæri og rakvél. Brotaþoli hafi komist út á svalir en ákærði náð henni og dregið hana aftur inn í íbúðina. Er ákærði hafi verið í eldhúsi íbúðarinnar að ná sér í vatn hafi brotaþoli séð sér færi á að hlaupa út um svaladyrnar á nýjan leik með það í huga að komast fram af svölunum. Hafi hún metið það sem svo að hún gæti farið yfir handriðið og látið sig síga niður þar sem einungis 4 metrar hafi verið frá handriðinu og niður á jörð. Ekki er fullt samræmi í frásögn brotaþola af því sem gerðist næst, svo sem hér verður gerð grein fyrir. Er brotaþoli lýsti atvikum fyrir rannsóknarlögreglumanni þennan dag bar hún að hún hafi komist upp á svalahandriðið. Ákærði hafi í því náð brotaþola, rifið í hár hennar og kýlt hana í andlitið. Hafi brotaþoli náð að rífa sig lausa en við það misst jafnvægið og dottið fram af svölunum. Þar sem hún hafi ekki verið í jafnvægi hafi hún ekki náð að stýra fallinu. Er brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 26. október 2010 bar hún að ákærði ,,nær í rassgatið á mér, rífur í hárið á mér og kýlir mig. Ég missi jafnvægið og fer svona niður eins og ég fór.“ Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins bar brotaþoli að hún hafi verið ofan á handriðinu og með báða fætur handan við handriðið. Hafi ákærði rifið í hár brotaþola og kýlt hana. Ákærði hafi ekki ætlað sér að forða því að brotaþoli færi fram af svölunum. Kvaðst brotaþoli hafa upplifað það þannig að ákærði hafi ýtt við brotaþola þannig að hún myndi detta fram af svölunum. Loks hefur C borið um á hvern veg brotaþoli hafi greint henni frá þessu atviki, en í framburði C við yfirheyrslur hjá lögreglu kom fram að brotaþoli hafi borið að hún hafi ætlað fram af svölunum þar sem hún hafi óttast að ákærði myndi ganga frá henni. Hafi ákærði komið að og reynt að draga hana til baka, en þá hefði hún dottið. 

Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að atburðarásina í íbúðinni að [...]verður að virða heildstætt. Framburður brotaþola hefur að mati dómsins verið trúverðugur um meginatriði málsins, þó svo tiltekins misræmis gæti varðandi atlögu ákærða að brotaþola á svalahandriðinu. Frásögn brotaþola af atvikum fær stoð í sönnunargögnum málsins. Þannig ber brotaþoli að hún hafi óttast ákærða og því fengið vinkonu sína með í för að [...]. Það atriði hefur C staðfest. Þá liggja fyrir vísbendingar um að átök hafi átt sér stað í íbúðinni en rimlagardína í forstofu íbúðarinnar var brotin. Ákærði hefur viðurkennt að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi, en hann hefur viðurkennt að hafa dregið hana með líkamlegu ofbeldi inn í íbúðina. Þá fær sá framburður brotaþola að ákærði hafi hótað henni því að klippa af henni hárið stoð í því að rannsóknargögn málsins leiða í ljós að skærum og rakvél hafði verið fyrir komið á borði í stofu íbúðarinnar. Einnig bar brotaþoli að ákærði hafi sótt vatn í glas í eldhúsi er brotaþoli hafi lagt á flótta, en vatnsglas var við vask í eldhúsi og var það að hluta til uppi á brún vasksins. Bendir það til þess að viðkomandi hafi lagt glasið frá sér í flýti. Tvö læknisvottorð í rannsóknargögnum málsins greina frá þeim líkamlegu áverkum er brotaþoli hlaut greint sinn. Fyrir liggur að megináverkana hlaut brotaþoli við fallið fram af svölunum. Áverkavottorð G læknis tilfærir hins vegar áverka sem ólíklegt verður að telja að hafi hlotist af fallinu af svölunum, þar sem þeir eru að stofni til á hægri hlið brotaþola, sem við fallið féll á vinstri hlið. Áverkarnir eru samkvæmt læknisvottorði mar neðan við hægra augað sem samkvæmt vottorðinu samrýmist hnefahöggi, mar yfir upphandleggsvöðva hægri handar og tvö minni á upphandlegg sem gætu samrýmst hnefahöggi og mar yfir hægri framhandlegg sem einnig getur samrýmst hnefahöggi. Þá tilgreinir vottorðið mar innanvert á hægra hné sem getur samrýmst fótsparki. Loks var hún með eymsli í hálsvöðvum. Þegar þessi atriði málsins eru virt er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi með líkamlegu ofbeldi veist að brotaþola inni í íbúðinni um leið og hann hélt henni þar nauðugri.

Þegar framhald málsins er virt verður að líta til þeirrar stöðu brotaþola að ákærði hafði haldið henni nauðugri í íbúðinni og beitt hana líkamlegu ofbeldi, auk þess sem hann hafði hótað henni. Verður byggt á þeirri trúverðugu staðhæfingu brotaþola að hún hafi óttast um líf sitt í íbúðinni. Við þessar aðstæður mat brotaþoli það svo að eina flóttaleið hennar væri út um svalahurðina og niður af svölunum. Ákærða og brotaþola ber saman um að brotaþoli hafi rokið skyndilega út úr íbúðinni og út á svalir. Hafi hún verið komin yfir svalahandriðið er ákærði hafi náð henni. Eftir það ber ákærða og brotaþola ekki saman um atvik. Á meðan ákærði heldur því fram að hann hafi ætlað að varna því að brotaþoli færi fram af svölunum með því að grípa eða þrífa í brotaþola ber brotaþoli ýmist að ákærði hafi lamið brotaþola og rifið í hár hennar eða að hann hafi náð í hana og hún fallið er hún hafi náð að rífa sig lausa eða loks að ákærði hafi ýtt brotaþola fram af svölunum. Eins og áður er rakið hefur ákærði synjað fyrir að hafa rifið í hár brotaþola á svölunum eða að hafa slegið hana. Þegar það er virt og hliðsjón höfð af því að framburður brotaþola er ekki skýr um þetta efni verður ákærði sýknaður af því að hafa rifið í hár brotaþola á svölunum eða að hafa slegið hana. Hvað sem þessu misræmi í framburðum líður verður ekki fram hjá því litið að brotaþoli átti þess kost að fara fram af svölunum. Þannig áformaði brotaþoli að lát sig síga niður af svölunum og komast þannig ósködduð niður. Athafnir ákærða, annað hvort að grípa í brotaþola eða þrífa í hana, er líkamleg valdbeiting. Dómurinn telur nægjanlega liggja fyrir með framburði ákærða sjálfs og brotaþola, sem stutt er læknisvottorði F læknis, að líkamlega valdbeiting ákærða hafi valdið því að brotaþoli féll af svölunum án þess að geta stýrt fallinu og hafnaði á veröndina fyrir neðan á vinstri hlið líkamans með vinstri hendi undir líkamanum. Ákærða gat ekki dulist að mikil hætta var á því að brotaþoli yrði fyrir miklu líkamlegu tjóni beitti hann hana líkamlegu valdi við þær sérstaklega hættulegu aðstæður er hún var komin í fyrir utan svalahandriðið. Þetta ofbeldi ákærða var sérstaklega hættuleg líkamsárás og verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 225. gr. og 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.         

Ákæra 28. janúar 2011.

Miðvikudaginn 24. nóvember 2010 mætti brotaþoli á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir hótanir. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að brotaþoli hafi greint frá því að þennan sama morgun hafi hún farið inn á ,,Facebook“ samskiptasíðuna sína en í innhólfi hafi verið póstur frá ,,Hender Ollusoon“, sem hafi verið síða sem ákærði hafi stofnað þar sem brotaþoli hafi verið búin að ,,blokka“ nafn ákærða frá öllum samskiptum við brotaþola á ,,Facebook“. Í póstinum komi fram að gengið verði frá brotaþola og bróður hennar, verði ekki borgaðar tvær milljónir króna inn á reikning í nafni ákærða. Í póstinum hafi komið fram reikningsnúmer og nafn ákærða. Fram kemur að útprentun úr pósthólfi brotaþola fylgi skýrslunni. Á meðal rannsóknargagna málsins á skjali merkt IV-1-1 er útprentun á tölvupósti er brotaþoli gerði grein fyrir og stafar frá ,,Hender Ollusoon“. Þá kom fram hjá brotaþola að móðir hennar, B, hafi fengið sent nafnlaus skilaboð í síma sinn með boðum um að sonur hennar yrði limlestur fyrir að fyrirskipa árás á heimili ákærða. Yrði líf þeirra lagt í rúst. Þá greindi brotaþoli frá því að þennan sama dag hafi ákærði og tveir aðrir menn með honum komið á heimili brotaþola og sambýlismanns hennar, en fyrir á heimilinu hafi verið sonur sambýlismanns brotaþola. Hafi mennirnir gert grein fyrir því að brotaþoli yrði að borga umrædda peninga annars yrði henni nauðgað og hún síðan drepin. Hafi mennirnir verið hátt uppi, æstir og líklegir til alls. Af þeim ástæðum hafi verið togað í árásarhnapp frá Securitas á heimilinu og öryggisverðir komið á vettvang. Við það hafi ákærði og fylgdarmenn hans farið af staðnum. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli hafi óttast mjög um líf sitt og öryggi. Hafi komið fram hjá henni að ,,ástandið“ hafi farið versnandi frá því í desember 2008, er hún hafi slitið sambandi sínu við ákærða. Þyrði hún ekki orðið út úr húsi án verndar.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 25. nóvember 2010. Þá gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Ákærði kvaðst hafa beðið félaga sinn um að aðstoða sig í tilefni af því að brotaþoli og sambýlismaður hennar hafi ráðist inn á heimili ákærða og lagt þar allt í rúst. Hafi ákærði einfaldlega viljað fá þær skemmdir bættar. Hafi félaginn átt að aðstoða ákærða við að innheimta bætur vegna skemmdanna. Ákærði kvaðst ekki sjálfur hafa sent skilaboð samkvæmt 1. tl. ákæru. Félagi ákærða hafi hins vegar fengið símanúmer B frá ákærða. Félaginn hafi sent skilaboðin heiman frá ákærða úr tölvu ákærða. Ekki hafi ákærði vitað nákvæmlega hvernig félaginn hafi orðað skilaboðin. Skilaboðin hafi verið send því ákærði hafi orðið fyrir morðtilraun og hafi hann verið heppinn að komast undan árásarmönnum. Ákærði kvaðst ekki vilja nafngreina þann félaga sinn sem sent hafi skilaboðin, en hann vilji ekki blanda öðrum í þetta mál. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa sent skilaboð samkvæmt 2. tl. ákæru. Ekki hafi verið um fjárkúgun að ræða. Hafi ákærði einfaldlega verið að biðja um að fá greiddar tvær milljónir króna sem greiðslu vegna skemmda, auk þess sem félagi ákærða sem hafi verið að aðstoða ákærða hafi viljað fá einhverja þóknun fyrir sinn hlut. Talan hafi svo sem ekki verið neitt ,,heilög“, ákærði hafi í reynd viljað fá í sinn hlut eina milljón króna, auk þess sem félaginn hafi viljað fá sína þóknun. Ákærða hafi verið greiddar 500 þúsund krónur og hafi sú greiðsla sennilega komið frá sambýlismanni brotaþola. Í skýrslutöku hjá lögreglu 25. nóvember 2010 kvaðst ákærði kannast við að tveir menn á hans vegum hafi farið að heimili brotaþola 24. nóvember 2010. Ekki vildi hann nafngreina mennina. Þá bar hann að skilaboð hafi verið send úr tölvu ákærða, að undirlagi hans, í síma móður brotaþola, um að sonur hennar yrði limlestur fyrir að fyrirskipa árás á heimili ákærða og að líf þeirra yrði lagt í rúst.

Brotaþoli kvaðst hafa fengið skilaboð á ,,Facebook“ samskiptasíðu sína sem um getur í 2. tl. ákæru. Kvaðst hún hafa tekið umræddar hótanir alvarlega. Ekki kvaðst brotaþoli kannast við að hafa greitt ákærða fjármuni í kjölfar hótananna. Ekki hafi henni verið kunnugt um ástæðu þess að ákærði hafi sent henni umrædd skilaboð. Þá kvaðst brotaþoli ekki kannast við einhverja árás á heimili ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa fengið skilaboð frá einhverjum manni daginn fyrir aðalmeðferð málsins. Hafi maðurinn komið þeim skilaboðum áleiðis að allt yrði vitlaust ef mál ákærða fyrir dóminum gengi ákærða í óhag. Tveim vikum fyrir aðalmeðferðina hafi tveir menn komið að máli við brotaþola og sagt að það hefði slæmar afleiðingar fyrir brotaþola ef dómur félli ákærða í óhag.

B, móðir brotaþola, kvaðst hafa fengið sendar hótanir samkvæmt 1. tl. ákæru. Hótunin hafi falið það í sér að sonur hennar yrði limlestur fyrir að fyrirskipa árás á heimili ákærða og að líf þeirra yrði lagt í rúst. Hafi B sýnt lögreglu umrædd skilaboð. Hafi hún talið að ákærði hafi sent boðin, en það hafi hún ályktað í ljósi þess er á undan hafi gengið í samskiptum brotaþola og ákærða. Hafi B liðið skelfilega við að fá boðin og hún nánast lamast af hræðslu. Skilaboðin hafi hún tekið alvarlega, en henni hafi fundist allt eins líklegt að ákærði myndi láta verða af hótununum.

K lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins og gerði grein fyrir einstökum þáttum í henni. Hafi K m.a. tekið skýrslu af ákærða þar sem ákærði hafi kannast við að hafa staðið að baki sendingu hótunar samkvæmt 1. tl. ákæru. Hafi ákærði lýst því að skilaboðin hafi tengst innbroti hjá ákærða. B hafi sýnt K skilaboð í síma sínum [...] en um sé að ræða skilaboðin samkvæmt 1. tl. ákæru. Hafi K skráð skilaboðin niður í lögregluskýrslu.   

Niðurstaða:  

Ákærði hefur viðurkennt að skilaboð samkvæmt 1. tl. ákæru hafi verið send úr tölvu á heimili ákærða 23. nóvember 2010. Hefur hann fyrir dómi ekki viljað nafngreina þann einstakling er sent hafi boðin. Fyrir lögreglu viðurkenndi ákærði að skilaboðin hafi verið send að undirlagi ákærða. Til þess er að líta að skilaboð þessi voru send í tilefni af því að ákærði leit svo á að brotaþoli og aðilar honum tengdir hefðu ráðist inn á heimili ákærða og valdið honum miklu eignatjóni. Hefur hann viðurkennt að hafa krafið brotaþola um bætur vegna atburðarins. Til að aðstoða ákærða við innheimtu fjárins hafi hann fengið til liðs við sig ónafngreinda einstaklinga. Þegar til atvika í aðdraganda sendingarinnar er litið og hliðsjón höfð af játningu ákærða fyrir lögreglu telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi látið senda skilaboð samkvæmt þessum ákærulið. Sá sem veitti skilaboðunum viðtöku hefur lýst því að skilaboðin hafi vakið hjá henni ótta um líf hennar, heilbrigði og velferð, sem og sonar. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt 1. tl. ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 24. nóvember 2010 sent brotaþola skilaboð samkvæmt 2. tl. ákæru með samskiptaforritinu Facebook. Hefur hann synjað fyrir að í skilaboðunum hafi falist tilraun til fjárkúgunar. Þegar efni umræddra skilaboða er virt og hliðsjón höfð af framburði brotaþola í málinu verður ekki við annað miðað en að í þeim hafi falist tilraun til fjárkúgunar. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði er fæddur í apríl 1976. Á árinu 1994 var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi skilorðsbundið fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Þá var hann dæmdur í 3ja ára fangelsi 2001 fyrir brot gegn 173. gr. a laga nr. 19/1940. Loks var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi 2003 fyrir nytjastuld. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir ólögmæta nauðung, sérstaklega hættulega líkamsárás, hótun og tilraun til fjárkúgunar. Brotin voru alvarleg og á hann sér engar málsbætur. Þá verður framferði ákærða eftir atburðinn virt honum til refsiþyngingar, en hann m.a. yfirgaf vettvang strax í kjölfar atburðarins og hugaði ekki að ástandi brotaþola, sbr. 8. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af því, sbr. og 1., 2., 5. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár.

Réttargæslumaður hefur fh. brotaþola krafist skaðabóta úr hendi ákærða vegna atburðarins 31. desember 2009. Er krafist bóta að fjárhæð 1.222.968 krónur, auk vaxta. Bæði er gerð krafa um miska að fjárhæð 1.000.000 krónur og þjáningabætur að fjárhæð 61.740 krónur. Að því er varðar kröfu um miska er vísað til þess að verknaðurinn hafi valdið brotaþola miklum þjáningum, eymslum og vanlíðan í marga daga. Að auki hafi brotaþoli orðið fyrir miklu andlegu áfalli enda óttast mjög um líf sitt. Hafi brotaþoli fengið áfallahjálp og þurfi líklega sálfræðimeðferð í framhaldi af henni. Um lagarök er vísað til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir ólögmæta nauðung og sérstaklega hættulega líkamsárás er það niðurstaða dómsins, að virtum framburði brotaþola og vitna um andlegt ástand brotaþola í kjölfar atburðarins, að framferði ákærða hafi valdið brotaþola miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.

Að því er varðar kröfu um þjáningabætur er gerð krafa um 7 rúmlegudaga og 28 veikindadaga, en brotaþoli hafi verið rúmfastur í viku. Hafi brotaþoli verið í hjólastól í tvær vikur. Þá hafi brotaþoli verið í gipsi á vinstri hendi og þjáðst af miklum verkjum og eymslum. Gerð er krafa um 28 veikindadaga, eða frá því brotaþoli var ekki lengur rúmföst og til þess tíma er skaðabótakrafan var rituð 4. febrúar 2010. Um lagarök er vísað til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga getur tjónþoli krafist bóta fyrir þjáningar vegna líkamstjóns á tímabilinu frá því að tjónið varð og þar til ekki er að vænta frekari bata. Því skilyrði verður jafnframt að vera fullnægt að tjónþoli hafi verið veikur á umræddu tímaskeiði. Um það verður að taka mið af læknisfræðilegu mati á líkamlegu ástandi tjónþola, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1976. Frá þessum áskilnaði má þó víkja eftir 2. málslið 1. mgr. 3. gr. laganna ef sérstaklega stendur á og dæma tjónþola þjáningabætur þótt hann hafi ekki verið veikur í þeim skilningi, sem hér um ræðir.

Í málinu nýtur ekki við læknisfræðilegra gagna um að brotaþoli geti hafa talist veik í skilningi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga í kjölfar árásar áfrýjanda. Hins vegar er nægilega fram komið að brotaþoli hafi mátt þola nokkrar þjáningar af meiðslum sínum, auk þess að hún var á tímabili í gifsi á hendi vegna áverka, sem hún hlaut við árásina. Þá liggur fyrir að hún hlaut spjaldbeinsbrot og mjaðmarbeinsbrot. Verður litið svo á að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til að dæma brotaþola þjáningabætur vegna samtals 7 daga rúmliggjandi og 28 veikindadaga, svo sem hún hefði verið veik án þess að vera rúmliggjandi. Samkvæmt kröfugerð brotaþola, sem hefur ekki sætt andmælum að þessu leyti, nema þjáningabætur í heildina 61.740 krónum. Verður á þær fallist. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir. Skipaður réttargæslumaður kom fyrst að málinu við meðferð þess fyrir dómi, en annar lögmaður ritaði skaðabótakröfu fyrir brotaþola. Af þeim sökum verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 75.300 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra um sakar­kostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dröfn Kærnested aðstoðarsaksóknari.

Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Kristjana Jónsdóttir og Pétur Guðgeirsson kváðu upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði greiði A, 861.740 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. desember 2009 til 13. febrúar 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði A 75.300 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði 694.900 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Katrínar Theódórsdóttur héraðsdóms­lögmanns, 125.500 krónur.