Hæstiréttur íslands
Mál nr. 702/2012
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Slysatrygging
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2013. |
|
Nr. 702/2012:
|
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald hrl.) gegn Elísabetu Birgisdóttur (Óðinn Elísson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Slysatrygging. Gjafsókn.
E varð fyrir slysi við klettaklifur. Kvað hún slíkt klifur vera íþróttagrein sem kallist sport klettaklifur en við það sé notast við reipi og annan búnað til að verjast falli. Í málinu krafðist hún viðurkenningar á rétti sínum til bóta úr hendi S hf. á grundvelli slysatryggingar í frítíma Fjölskylduverndar 2 hjá félaginu vegna líkamstjóns af völdum slyssins. S hf. hafnaði bótaskyldu og taldi tiltekið undanþáguákvæði slysatryggingarinnar sem væri hluti skilmála Fjölskylduverndar 2 eiga við um þær aðstæður er slys E orsakaðist af. Þar sagði að S hf. bætti ekki slys sem yrðu „í hnefaleikum, hvers konar glímu, akstursíþróttum, fjallaklifri, bjargsigi, froskköfun, drekaflugi svifflugi og fallhlífarstökki.“ Hæstiréttur taldi að leggja yrði til grundvallar þann skilning á vátryggingarskilmálunum að orðin „hvers konar“ ættu ekki við um fjallaklifur. Ágreiningur aðila ylti þá á því hvort klettaklifur ætti undir hugtakið fjallaklifur í skilningi skilmálanna. Var talinn slíkur vafi á því hvernig skilja bæri orðið fjallaklifur í vátryggingarskilmálunum að S hf. sem skilmálana hefði samið yrði að bera hallann af þeim óskýrleika sem af því leiddi. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um viðurkenningu á rétti E til bóta úr tryggingunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Samkvæmt málatilbúnaði stefndu varð hún fyrir slysi 9. mars 2010 við klettaklifur á stað, sem nefndur sé Norton summit rocks í Adelaide í Ástralíu. Stefnda kveður slíkt klifur vera íþróttagrein, sem kallist sport klettaklifur, en við það sé notast við reipi og annan búnað til að verjast falli. Iðkandinn festi reipið í boltum, sem séu fyrir hendi í kletti, um leið og hann klifri áfram. Fyrir neðan standi annar maður, sem stjórni reipinu og tryggi öryggi þess, sem klifri, meðal annars með því að strekkja á reipinu ef sá síðarnefndi missir takið, þannig að hann hangi í lausu lofti í stað þess að falla. Umrætt sinn hafi stefnda verið uppi í kletti að festa reipi í bolta og misst takið, en vinkonu hennar, sem staðið hafi fyrir neðan, hafi ekki tekist að bregðast við í tæka tíð vegna of mikils slaka á reipinu. Stefnda hafi því fallið til jarðar úr um sex metra hæð og borið fyrir sig hendurnar, en hlotið alvarleg brot á þeim báðum. Af þessu hafi stefnda orðið fyrir líkamstjóni, bæði tímabundnu og varanlegu.
Stefnda kveður maka sinn hafa keypt hjá áfrýjanda vátryggingu, sem nefnist Fjölskylduvernd 2, en undir hana falli meðal annars trygging vegna slysa í frítíma, sem óumdeilt er að nái jafnframt til stefndu. Í skilmálum fyrir vátryggingunni eru ákvæði um undanskildar áhættur í 10. grein þess kafla, sem tekur til slysatrygginga í frítíma, en þar segir meðal annars: „Félagið bætir ekki: a. Slys sem verða í hnefaleikum, hvers konar glímu, akstursíþróttum, fjallaklifri, bjargsigi, froskköfun, drekaflugi, svifflugi og fallhlífarstökki.“ Í málinu deila aðilarnir um hvort stefnda hafi orðið fyrir áðurgreindu slysi við aðstæður, sem falli undir þetta ákvæði.
Við skýringu þessa ákvæðis verður að gæta að því að orðin „hvers konar“ koma ekki fram áður en hafin er upptalning á mismunandi athöfnum, heldur er fyrst getið hnefaleika og orðalaginu síðan hagað þannig að ekki megi telja ljóst að tilvitnuð orð taki til alls þess, sem á eftir kemur, frekar en orðsins „glímu“ eingöngu. Um þetta má á hinn bóginn líta til þess að í skilmálum fyrir svonefnda ferðavernd, sem fellur einnig undir vátrygginguna Fjölskylduvernd 2, segir í 13. grein að áfrýjandi undanþiggi sig bótaskyldu meðal annars vegna tjóns „sem beint eða óbeint leiðir af fjallaklifi“, en orðin hvers konar eru þar ekki notuð. Í framlögðum skilmálum frá áfrýjanda vegna almennrar slysatryggingar segir í grein 12.1 að vátryggingin nái til slysa við almennar íþróttaiðkanir, en undanskilin séu þó slys, sem „verða í hnefaleikum, hvers konar glímu, akstursíþróttum, drekaflugi, svifflugi og fallhlífarstökki.“ Í grein 12.3 kemur á hinn bóginn fram að áfrýjandi bæti ekki „slys sem verða í fjallaklifri, bjargsigi og froskköfun.“ Samhljóða ákvæði koma fram í greinum 7.1 og 7.3 í skilmálum áfrýjanda vegna slysatryggingar launþega og í 1. mgr. og 3. mgr. 6. greinar skilmála hans fyrir slysadagpeningatryggingu. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar þann skilning á vátryggingarskilmálunum, sem deilt er um í máli þessu, að orðin „hvers konar“ eigi ekki við um fjallaklifur. Af þessu leiðir að niðurstaða um ágreining aðilanna veltur á því einu hvort klettaklifur eigi undir hugtakið fjallaklifur í skilningi skilmálanna. Í þessu sambandi ber áfrýjandi fyrir sig að orðið fjallaklifur sé samheiti, sem nái í senn yfir klifur í fjalli, kletti eða ís. Um þessa skýringu áfrýjanda verður að horfa til þess að í skilmálunum segir ekki að slys, sem verði í „klifri“, séu undanþegin vátryggingarvernd. Þá er þess að gæta að í framlögðu eyðublaði fyrir umsókn um líftryggingu hjá dótturfélagi áfrýjanda, Sjóvá-Almennum líftryggingum hf., sem ber fyrirsögnina: „Klifur“, er gert ráð fyrir því að umsækjandi upplýsi hvernig klifur hann stundi og er þar gerður greinarmunur á fjallaklifri, klettaklifri innanhúss, klettaklifri utanhúss og öðru klifri. Að þessu virtu verður að telja slíkan vafa á því hvernig skilja beri orðið fjallaklifur í vátryggingarskilmálunum, sem deilt er um í málinu, að áfrýjandi, sem samdi þessa skilmála, verði að bera halla af þeim óskýrleika, sem af því leiðir. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Eftir þessum úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð, en um þann málskostnað og gjafsóknarkostnað stefndu fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Elísabetar Birgisdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 2. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Elísabetu Birgisdóttur, Blikaási 9, Hafnarfirði á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu birtri 30. apríl 2012.
Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til greiðslu bóta úr hendi stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., á grundvelli slysatryggingar í frítíma Fjölskylduverndar 2 hjá stefnda vegna líkamstjóns af völdum slyss stefnanda hinn 9. mars 2010. Þá er krafist málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati réttarins.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hinn 9. mars 2010 hafi hún verið að stunda íþróttina sport klettaklifur í Norton summit rocks í Adelaide í Suður Ástralíu er hún hafi fallið niður um sex metra og borið fyrir sig báðar hendur og slasast talsvert. Nortan summit rocks sé vinsæll og þekktur staður meðal iðkenda sports klettaklifurs enda búið að koma fyrir þar til gerðum búnaði í klettunum til þess að stunda íþróttina.
Stefnandi kveður sport klettaklifur vera klifur þar sem notast sé við reipi og annan búnað til að verjast falli. Klifrarinn festi reipið í þar til gerðum festingum og boltum (augum) sem eru til staðar í klettunum um leið og hann klifrar áfram. Þá standi annar aðili í klifurbelti með tilheyrandi búnaði fyrir neðan (svokallaður tryggjari) og stjórni reipinu og tryggi öryggi klifrarans. Ef sá sem klifrar missir takið og fellur, þá sé það hlutverk þess sem stendur fyrir neðan að strekkja á reipinu þannig að klifrarinn hangir í lausu lofti í stað þess að falla. Í kjölfarið lætur sá sem fyrir neðan stendur klifrarann fara hægt og rólega niður með því að slaka á reipinu. Með sama hætti kemst klifrarinn niður er hann hefur náð klifurtakmarki sínu.
Stefnandi kveður tildrög slyssins hafa verið þau, að hún hafi verið búin að klifra ákveðna leið og hafi verið að fara að festa reipið í bolta er hún hafi misst takið og fallið til jarðar. Undir venjulegum kringumstæðum hefði hún ekki átt að falla til jarðar þar sem vinkona hennar hafi staðið fyrir neðan og stjórnað reipinu (tryggjari). En í þetta sinn hafi vinkonu hennar ekki tekist að bregðast við í tæka tíð þar sem of mikill slaki hafi verið á reipinu og hafi stefnandi því fallið til jarðar. Stefnandi var strax flutt með þyrlu á almenningssjúkrahús þar ytra og rúmum sólarhring síðar á einkasjúkrahús.
Stefnandi brotnaði á hægri hendi og vinstri úlnlið og fór í skurðaðgerðar hinn 11. mars 2010 þar sem brotin á nærendum annars og þriðja miðhandarbeins hægra megin voru fest með tveimur skrúfum og tveimur pinnum og úlnliðsbrotið vinstra megin með plötu og skrúfum. Eftir að stefnandi kom heim til Íslands hefur hún verið til meðferðar hjá Birni Pétri Sigurðssyni, sérfræðingi í bæklunar- og handarskurðlækningum, og Elís Þóri Rafnssyni sjúkraþjálfara.
Hinn 2. júní 2010 sendi stefnandi tjónstilkynningu til stefnda. Hinn 9. júní 2010 hafnaði stefndi bótaskyldu úr slysatryggingu í frítíma Fjölskylduverndar 2 vegna slyssins. Stefnandi skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum hinn 26. apríl 2011 sem komst að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr slysatryggingunni þar sem að slysið væri undanskilið bótaskyldu samkvæmt skilmálunum stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að stefndi sé greiðsluskyldur vegna slysatryggingar í frítíma Fjölskylduverndar 2 vegna þess líkamstjóns sem hún hafi orðið fyrir í slysi hinn 9. mars 2010. Tjón hennar skuli bætt samkvæmt skilmálum og vátryggingarskírteini slysatryggingarinnar. Mál þetta sé höfðað sem viðurkenningarmál samkvæmt heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnandi byggir rétt sinn á því að maki hennar hafi keypt hjá stefnda slysatryggingu í frítíma í Fjölskylduvernd 2 sem hafi verið í gildi á slysdegi. Óumdeilt sé að vátryggingin nái einnig til stefnanda sem maka vátryggingartaka samkvæmt 1. gr. sameiginlegra skilmála vátryggingarinnar. Telst stefnandi því vera vátryggð samkvæmt skilmála slysatryggingarinnar.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. gr. skilmála slysatryggingarinnar gildi slysatryggingin hvar sem er í heiminum. Samkvæmt 2. gr. greiði stefndi bætur vegna slyss sem vátryggður verði fyrir í frístundum, við heimilisstörf, við skólanám eða almennar íþróttaiðkanir, enda leiði það til dauða, varanlegrar læknisfræðilegrar örorku, tímabundins missis starfsorku, tannbrots eða sjúkrakostnaðar. Stefnandi vísar einnig til þess að stefndi hafi gefið út vátryggingarskírteini nr. 1012916, sem taki til fyrrgreindra atriða sökum tjóns af völdum slysa.
Stefnandi telur ljóst af fyrirliggjandi gögnum málsins að hún hafi öðlast rétt til bóta úr fyrrgreindri slysatryggingu þar sem hún hafi lent í slysi í frítíma við almenna íþróttaiðkun og orðið fyrir varanlegu líkamstjóni auk tímabundins missis starfsorku og sjúkrakostnaðar. Telur stefnandi enn fremur augljóst að tilvik hennar falli utan undantekningarákvæðis skilmála slysatryggingarinnar sem stefndi vísi til. Um líkamstjón stefnanda er vísað til framlagðra gagna málsins.
Stefnandi vísar til þess að hún hafi verið að stunda íþróttina sport klettaklifur er slysið varð en klettaklifur sé viðurkennd íþróttagrein af Alþjóðlega Ólympíusambandinu (IOC) og sé framtíðaríþróttargrein á Ólympíuleikunum. Í 9. gr. skilmála slysatryggingarinnar sé það ítrekað sem fram komi í 2. gr. að slysatryggingin nái til slysa er verði við almennar íþróttaiðkanir. Í ljósi framangreinds, og þeirrar staðreyndar að íþróttin klettaklifur sé ekki sérstaklega tilgreind sem undanskilin áhættu í a-lið 10. gr. skilmálans, telur stefnandi ljóst að stefndi geti ekki hafnað bótaskyldu úr vátryggingunni vegna slyssins, frekar en vegna slysa við knattspyrnuiðkun með sömu röksemdafærslu.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að ekki sé hægt að leggja að jöfnu klettaklifur annars vegar og fjallaklifur hins vegar, enda sé um tvennt ólíkt að ræða. Klettaklifur (e. rock climbing), sé íþróttagrein sem reyni á styrk, færni og leikni klifrarans við að klífa misháa kletta eða tilbúna klifurveggi og sé tilvalin fjölskylduíþrótt sem nær allir geti stundað. Iðkendum íþróttarinnar hafi fjölgað hratt hér á landi undanfarin ár enda bjóði íþróttafélög nú upp á skipulagðar æfingar í greininni. Fjallaklifur (e. mountaineering) gangi hins vegar út á það að ganga og klífa heilu fjöllin og geti slíkt klifur tekið marga daga og jafnvel vikur. Bæði klettaklifur og fjallaklifur eigi það sameiginlega markmið að komast hærra en frá upphafspunkti. En þar endi samanburðurinn þar sem aðferðafræðin, aðbúnaðurinn, áhættan, hæðamismunurinn og leiðin að settu markmiði séu gjörólík og því augljóst að um tvennt ólíkt sé að ræða.
Stefnandi byggir enn fremur á því að ekki sé sami skilningur lagður í orðin klettaklifur og fjallaklifur. Samkvæmt íslenskri orðabók og almennri málvenju sé mikill munur á merkingu orðanna „fjall“ og „klettur“. Nafnberalisti Landmælinga Íslands geri sömuleiðis skýran greinarmun á fyrrgreindum orðum. Sömu sögu sé að segja um muninn á merkingu orðanna klettaklifur og fjallaklifur. Stefnandi undirstriki þá meginreglu í vátryggingarétti að orð og hugtök í vátryggingarsamningum beri að skýra til samræmis við almenna málnotkun á hverjum tíma.
Ljóst sé að til þess að undanskilja slys við klettaklifursiðkun í vátryggingunni hefði verið nauðsynlegt að telja upp íþróttina sjálfa sem undantekningu í ákvæðinu. Ekki dugi að vísa til orðsins fjallaklifur þar sem um tvennt ólíkt sé að ræða.
Auk þess megi benda á þá staðreynd að við iðkun íþróttarinnar klettaklifurs geti maður ekki talist vera að stunda fjallaklifur út frá þeirri augljósu og einföldu staðreynd að ekki er um neitt fjall að ræða. Það hljóti að vera eitt meginskilyrði þess að „áhættuiðkun“ aðila falli undir undantekningarákvæði a-liðar 10. gr. skilmálans um fjallaklifur að um sé að ræða klifur á fjalli en ekki kletti líkt og raunin hafi verið í tilviki stefnanda.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi einnig til þess að stefndi geri sjálfur greinarmun á fjallaklifri og klettaklifri, sbr. framlagt umsóknareyðublöð fyrir líftryggingu hjá stefnda. Á eyðublaðinu Klifur, spurning nr. 1. Hvernig klifur stundar þú?, eru fjórir valmöguleikar: Fjallaklifur, klettaklifur innanhúss, klettaklifur utanhúss og loks annað. Byggir stefnandi á því að þetta sýni svo ekki verði um villst að reginmunur sé á efni og inntaki orðanna fjallaklifur og klettaklifur og að sú sé einnig afstaða stefnda að ekki sé um sambærilega hluti að ræða. Sé því ekki hægt að leggja orðin að jöfnu.
Stefndi byggir á því að ákvæði a-liðar 10. gr. skilmála slysatryggingarinnar undanskilji slys sem verði í hvers konar fjallaklifri. Telji stefndi því heimilt að taka orðin „hvers konar“, sem fram koma fyrr í upptalningu ákvæðisins, þ.e.a.s. í tengslum við hvers konar glímu, og nota þau einnig fyrir framan orðið fjallaklifur. Með þessari túlkun telur stefndi sig búinn að undanskilja bótaábyrgð slyss sem verði í klettaklifri þar sem klettaklifur geti án nokkurs vafa fallið undir hið víða orðalag: „hvers konar fjallaklifur“, sbr. umfjöllun stefnda í athugasemdum til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.
Stefnandi byggir á því að stefndi geti ekki túlkað og skýrt ákvæði a-liðar 10. gr. skilmála slysatryggingarinnar á þann veg að orðin hvers konar fyrir framan orðið glímu í öðrum lið upptalningar ákvæðisins skuli einnig vera notuð fyrir framan orðið fjallaklifur sem sé tveimur liðum aftar í upptalningunni. Stefnandi telur að þessi túlkun og niðurstaða stefnda sé beinlínis röng og fáist ekki staðist. Með þessari túlkun sé búið að víkka gildissvið undantekningarákvæðisins meira en heimilt geti talist skv. túlkunarreglum samninga- og vátryggingaréttar. Auk þess telur stefnandi ljóst að túlkun stefnda samræmist ekki venjulegri málnotkun og íslenskri greinarmerkjasetningu.
Líkt og áður hafi komið fram beri að skýra orð og hugtök í vátryggingarsamningum og skilmálum til samræmis við almenna málnotkun á hverjum tíma. Sömu sögu sé að segja um greinarmerkjasetningu í vátryggingarsamningum og skilmálum.
Samkvæmt íslenskri greinarmerkjasetningu gildi sú meginregla við kommusetningu að kommur séu fyrst og fremst settar milli ótengdra liða í upptalningu, sbr. 3. lið 3. gr. auglýsingar um greinarmerkjasetningu sem birt hafi verið í Stjórnartíðindum B, nr. 133/1974 og sbr. útskýringar Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors við Háskóla Íslands, á ákvæðum auglýsingarinnar.
Það sé óumdeilt að um sé að ræða tæmandi upptalningu á undanskildum áhættum í a-lið 10. gr. skilmála slysatryggingarinnar en ekki upptalningu í dæmaskyni. Verði því ekki aukið við það sem fram komi í ákvæðinu sjálfu. Með hliðsjón af framansögðu sé ljóst að stefndi geti ekki tekið orðin hvers konar úr lið tvö í upptalningunni og bætt fyrir framan orðið fjallaklifur í lið fjögur í upptalningunni enda um að ræða upptalningu á ótengdum liðum. Stefndi verði að bera hallann af því að hafa ekki útfært og samið ákvæðið á þann veg sem samræmist almennri málnotkun og greinarmerkjasetningu ef markmið þess hafi verið að undanskilja hvers konar fjallaklifur.
Þá byggir stefnandi einnig á því að samanburður á skilmálum slysatrygginga sem stefndi bjóði neytendum upp á leiði í ljós að orðin hvers konar eigi eingöngu við um glímu enda séu fyrrnefndu orðin ávallt og eingöngu fyrir framan orðið glímu í skilmálum stefnda. Hið sama eigi við í sambærilegum skilmálum annarra vátryggingafélaga.
Stefnandi byggir á því að ákvæði a-liðar 10. gr. skilmála slysatryggingarinnar beri að skýra þröngt og stefnanda sem vátryggðum í hag ef óvissa er um merkingu ákvæðisins. Sé áhætta/háttsemi ekki skýrlega talin upp í ákvæðinu geti stefndi ekki undanþegið sig ábyrgð vegna hennar enda séu skilmálarnir einhliða samdir af stefnda.
Í athugasemdum stefnda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum komi fram sú skoðun stefnda að ómögulegt sé fyrir stefnda að tiltaka í ákvæðinu allar undirgreinar og afbrigði af hinum tilgreindu áhættuiðkunum í ákvæðum skilmálanna en með orðalaginu „hvers konar“ sé einmitt ætlunin að ná yfir hin ólíku afbrigði af þessum áhættuiðkunum.
Stefnandi byggir á því að stefndi geti ekki borið fyrir sig ómöguleika í þessu tilviki þar sem um sé að ræða tæmandi upptalningu og einhliða og staðlaða samningsskilmála stefnda. Auk þess geti stefndi ekki notað orðalagið hvers konar við fjallaklifur líkt og áður hafi verið fjallað um. Beri því að túlka ákvæðið með hliðsjón af andskýringarreglu vátryggingaréttar; þ.e. á þann hátt að stefndi beri alla áhættu af óvissu um túlkun vátryggingaskilmálanna, enda séu þeir einhliða samdir og beri því að skýra ákvæði sem sé umdeilanlegt eða óljóst stefnda í óhag.
Stefnandi vísar einnig til þess að undantekningarákvæði í skilmálum vátrygginga beri að túlka þröngt samkvæmt almennum túlkunarreglum samninga- og vátryggingaréttar. Stefnandi vísar enn fremur til 36. gr., a- til d-liða, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga ásamt síðari breytingum.
Stefnandi byggir á því að skýra beri a-lið 10. gr. skilmála slysatryggingarinnar svo, að þar séu hinar undanskildu áhættur slysatryggingarinnar tæmandi taldar og að ekki verði aukið við þær, þrátt fyrir að stefndi geti hugsanlega sýnt fram á að slys hafi orðið við áhættuaukningu, sem ekki sé tíunduð í greininni.
Stefnandi telur, með hliðsjón af framangreindu og í ljósi fyrrgreinds mismunar á klettaklifri og fjallaklifri, að stefnda hafi verið í lófa lagið að setja þá sérstöku ábyrgðartakmörkun í skilmála slysatryggingarinnar að tryggingin bæti ekki slys sem verði í hvers konar klifri, líkt og það geri varðandi hvers konar glímu, eða að tiltaka beinlínis íþróttina klettaklifur í upptalningu a-liðar 10. gr. skilmálanna, hafi markmið félagsins verið að undanskilja þá áhættuhegðun sem felist í íþróttinni. Það hafi stefndi hins vegar ekki gert og verði að bera hallann af því.
Stefnandi undirstrikar að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að ofangreint slys hennar falli undir umrætt undanþáguákvæði í skilmálum slysatryggingarinnar. Stefnandi telur þá sönnun ekki hafa tekist.
Stefnandi telur óumdeilt að stefnandi hafi hlotið varanlegt líkamstjón í slysinu. Um það vísast til framlagðra gagna málsins, læknisvottorðs Björns Péturs Sigurðssonar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi tekur fram að undanþáguákvæði það sem mál þetta snýst um sé hluti af skilmálum vátryggingarinnar Fjölskylduvernd 2, nánar tiltekið í kaflanum Slysatrygging í frítíma, a-lið, 10. gr. sem beri yfirskriftina „Undanskildar áhættur“: Félagið bæti ekki: a. Slys sem verða í hnefaleikum, hvers konar glímu, akstursíþróttum, fjallaklifri, bjargsigi, froskköfun, drekaflugi, svifflugi og fallhlífarstökki.
Í ákvæðinu sé verið að telja upp ýmsar athafnir hins vátryggða sem stefndi firri sig ábyrgð á. Slysatíðni, bæði í hreinni tíðni og alvarleika slysa, skipta vátryggjanda vitanlega miklu máli þegar hann taki að sér samning um slysatryggingu. Í ofangreindu ákvæði sé safnað saman ýmsum athöfnum sem allar eigi það sammerkt að líkur á slysum við athafnirnar séu meiri en almennt gerist. Greinin sé augljóslega upptalning á ýmissi áhættuhegðun sem safnað sé saman í eina málsgrein svo vátryggingartaki eigi auðvelt með að átta sig á undanþágum vátryggingarverndar í löngu heildarskjali. Orðið hnefaleikar standi sér innan kommusetningar þar sem merking þess sé tiltölulega ljós, þ.e. hegðun sem felist í því að slá aðra með höndum sínum og taka á móti höggum annars. Síðan komi forskeytið „hvers kyns“ og í óslitinni kommuröð þar á eftir glíma, akstursíþróttum, fjallaklifri, bjargsigi, drekaflugi, svifflugi og fallhlífarstökki. Öll sú hegðun sem þarna er nefnd geti verið í mörgum myndum. Alls kyns afbrigði af glímu séu til. Sömuleiðis alls kyns afbrigði af akstursíþróttum og fjallaklifri o.s.frv. En öll þessi orð beri alveg skýrt með sér, beint og óbeint, það samningsatriði að vátryggingafélagið beri ekki ábyrgð á slysum sem henda í hinum upptöldu athöfnum, eða athöfnum sem séu algerlega sambærileg í eðli sínu.
Kommusetning sé einmitt til þess ætluð að tengja saman viðauka, sbr. 2. tl. 3. gr. 3. kafla auglýsingar um greinarmerkjasetningu nr. 133/1974. Orðin „hvers kyns“ standi framan við orð í óslitinni kommuröð þar sem þau séu þá öll viðauki. Það sé og í samræmi við almenna málvitund. Sjá megi fyrir sér setninguna „ og hann sá allskonar flugvélar, báta og skip“. Þarna sé ljóst hverjum íslenskumælandi manni að orðið „allskonar“ beinist að flugvélum, bátum og skipum í setningunni sem upptalningu og „bátar“ og „skip“ séu viðauki þar sem setningin geti staðið áfram þótt þau falli út. Túlkun stefnanda á eðlilegri kommusetningu í svona upptalningu virðist eiga að vera „hvers kyns glímu, hvers kyns akstursíþróttum, hvers kyns fjallaklifri, hvers kyns bjargsigi“ o.s.frv. Augljóst sé að slíkur ritháttur teldist einkennilegur stíll þótt hann væri hugsanlega málfræðilega réttur.
Niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum hafi enda verið á þá leið að umrædd athöfn hins vátryggða við slysið væri „hvers konar“ fjallaklifur eins og kveðið sé á um í skilmálum vátryggingarinnar.
Stefndi tekur fram að ekki sé til nákvæm skilgreining á hugtakinu „fjall“ (KOMA með skilgreiningu orðabókar). Í Oxford English Dictonary sé hugtakið „Mountain“ skilgreint sem:
„a natural elevation of the earth surface rising more or less abruptly from the surrounding level and attaining an altitude which, relatively to the adjacent elevation, is impressive or notable.“ Í íslenskri orðabók sé fjall skilgreint á svipaðan hátt eða svo: „fjall er landform sem gnæfir yfir umliggjandi landslag.“ Stefndi bendir á að ekki sé til skilgreining á því hve hátt yfir sjávarmáli afmarkað landform þurfi að vera til að teljast „fjall“ heldur verði að teljast ákveðin tilviljun hvaða nafn íbúar velji á afmarkaða hæð og hvort orðin bjarg, fjall, fell, háls, hæð, heiði, eða önnur samskonar orð séu notuð. Um þetta megi taka mörg dæmi.
Í stefnu sé tiltekinn reginmunur á „fjallaklifri“ og „Sport-rock climbing“ þar sem í fjallaklifri þurfi aðra aðferðafræði, fjallaklifur geti tekið marga daga eða vikur, áhætta sé meiri, o.s.frv. Það sé auðvitað svo að langflest fjöll í heiminum séu tiltölulega lág og séu þau gengin eða klifin á dagsparti, sbr. ganga t.d. á Esju. Og þannig sé um öll fjöll á Íslandi, þau séu klifin á einum degi eða dagsparti. Háfjallaklifur, sem stefnandi virðist vera að vísa til, svo sem í Himalayafjöllum, sé afar afmörkuð íþrótt og eingöngu stunduð af mjög þröngum hópi fjallgöngumanna enda sé háfjallaganga sennilega hættulegasta íþróttagrein sem stunduð sé og dánartíðni göngumanna iðulega mæld í tugum prósenta á hættulegustu fjöllin. Það sé algerlega augljóst að með undanþágugrein slysatryggingar hjá íslensku vátryggingafélagi sé ekki verið að hugsa „fjallaklifur“ svo þröngt. Það sé að sama skapi augljóst að „fjöll“ eru eins misjöfn og þau eru mörg. Ganga á mörg þeirra sé bara tiltölulega venjulegur göngutúr sem feli ekki í sér neina hættu. En fjöll séu iðulega samsett úr mörgum þáttum og þau séu mismunandi brött. En bröttustu og hættulegustu hlutar fjalla séu einmitt lóðrétt klettabelti, þar sem stórslys eða dauði sé líkleg niðurstaða klifurmanns sem falli í þeim hluta fjalls. Menn hafi líka klifið hæstu fjöll heims með aðferðafræði klettaklifurs, þ.e. eingöngu með reipi og bolta til tryggingar og enga sérstaka utanaðkomandi aðstoð eða útbúnað annan en þann sem borinn sé í bakpoka (Alpine Style Climbing).
Eins og fram komi í greinargerð stefnda fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum þá hafi „fjallganga“ skipst í undirgreinar þar sem tekist sé á við afmarkaða hluti sem tengjast fjöllum, s.s. ísklifur og klettaklifur. Þetta séu einmitt hættulegustu hlutar fjalla og skipti engu máli hvort 100 metra hátt klettabelti sé í 1000 metra hæð yfir sjávarmáli eða 10 metra hæð yfir sjávarmáli. Eðlishættan sé nákvæmlega sú sama. Það að „klettaklifur“ sé viðurkennd íþróttagrein skipti auðvitað engu máli. Í umræddu undanþáguákvæði vátryggingaskilmálans sé verið að undanskilja ýmsar viðurkenndar íþróttagreinar, s.s. hnefaleika og júdó, sem báðar séu keppnisgreinar á Ólympíuleikum.
Í stefnu sé áfram tiltekið að „klettaklifur“ snúist um að klífa misháa kletta en það sé mjög óskylt fjallaklifri. Einn af þeim klettum sem hér sé vísað til sé t.d. klettur (skv. Wikipedia „rock formation“), sem vinsæll sé meðal klettaklifrara og ganga á hann falli undir íþróttina „klettaklifur“. Sá heiti El Capitan og sé í Yosemite þjóðgarði Bandaríkjanna. Klettur þessi sé 900 metra hár lóðréttur granítveggur þannig að svo sannarlega séu klettar misháir. Flest íslensk fjöll séu undir 900 metra hæð. Stefndi telur það með nokkrum ólíkindum að stefnandi búist við að venjuleg fjölskyldutrygging á Íslandi taki til slysa sem verði við klifur á slíkum veggjum. En eins og að ofan greini skipti engu máli hvort klettaklifrari falli úr 30 metra hæð eða 300 metra hæð. Stórslys eða dauði klifrarans sé örugg niðurstaða þess.
Í túlkun á undaþáguákvæði vátryggingaskilmála stefnda sé seinnipartur orðsins „fjallaklifur“, þ.e. „klifur“ að sjálfsögðu lykilatriðið. Stefndi sé ekki að undanþiggja með þessu skilmálaákvæði venjulegar fjallgöngur, s.s. göngu upp á Esjuna eftir hefðbundnum leiðum. Þúsundir manna, ungir sem aldnir, gangi á Esjuna sér til hressingar á ári hverju og sé ekki nein sjálfstæð eðlisáhætta við þá göngu. En allir skilji hugtakið „klifur“ og hvað meint sé með því. Það sé ekkert annað en hártogun að telja að forskeytið „fjall“ eða „klettur“ skipti höfuðmáli í túlkun á skilmálanum. Það sé endingin „klifur“ sem feli í sér hina augljósu hættueiginleika sem hver maður geti séð að er tilætlan vátryggingafélags að undanskilja sig frá í slysatryggingu. Í hefðbundinni túlkun vátryggingafélaga teljist það vera klifur þegar nota þurfi hjálparbúnað, s.s. öryggislínu, til að verjast falli.
Í stefnu sé vísað til þess að stefndi geri sjálfur greinarmun á „klettaklifri“ og „fjallaklifri“ á umsóknum sínum um líftryggingar. Í fyrsta lagi selji stefndi ekki líftryggingar heldur geri dótturfélag þess það, Sjóva-Almennar líftryggingar hf. Í öðru lagi séu líftryggingar, annars vegar, og almenn fjölskyldutrygging, hins vegar, gerólíkar vátryggingategundir þar sem umsóknarferli og áhættumat sé allt annað og strangara við það síðarnefnda enda séu hreinlega engar undanþágur á bótaskyldu vegna andláts í líftryggingu. En til að innifela ákveðnar sérstakar áhættur í líftryggingu þurfi umsækjandi að gefa ítarlega skýrslu um tiltekna áhættuhegðun, þ.m.t. klifur. Dæmi um slíka skýrslu sé einmitt lagt fram í málinu af stefnanda sjálfum. Í kjölfar áhættumats sé líftryggingaráhættu ýmist hafnað eða hún samþykkt með álagi á iðgjald.
Fari svo ólíklega að ofangreindar málsástæður leiði ekki til sýknu byggir stefndi á því að undanþáguákvæði a-liðar, 10. gr. slysatryggingar stefnda tiltaki „bjargsig“ sem undantekna athöfn í slysatryggingunni. „Bjargsig“ og „klettaklifur“ séu algerlega eðlisskyldar athafnir að öllu leyti. Báðar þessar athafnir snúist um ferð manna í lóðréttum klettum þar sem trygging fyrir falli sé eitt reipi sem fest sé fyrir ofan klifrara/sigmann. Það sé hverjum manni augljóst að eðlishætta þessara athafna sér nákvæmlega sú sama. Og algengt sé að fjallaklifrari sígi svo einmitt niður klettavegginn þegar hann hafi komist á áfangastað. Einnig megi bæta því við að hefðbundnir sigmenn klifri líka oft upp í klettavegginn, t.d. til að komast að eggjum. Segja megi að bjargsig sé einmitt klettaklifur, þar sem byrjað sé á toppi kletts, frekar en við rót hans. Í íslenskri orðabók sé klettur og bjarg lögð að jöfnu, sem orð um sama fyrirbæri.
Þá tekur stefndi fram að túlka þurfi samninga þegar ágreiningur komi upp milli samningsaðila. Íslensk samningahefð sé á þann veg að samningar séu fremur stuttir en þróast hafi ýmsar túlkunarreglur til þess að ákvarða efni þeirra ef ágreiningur rís. Sé það t.d. gagnstætt englilsaxneskum samningarétti þar sem tíðkast afar langir og ítarlegir samningar. Íslenskir vátryggingaskilmálar fari bil beggja. Í íslenskum samningarétti séu margar túlkunarreglur en þær langveigamestu séu tvær, viljakenning og traustkenning. Samkvæmt viljakenningu sé megináhersla lögð á það að leiða í ljós þann tilgang sem löggerningsgjafinn hefur með samningsákvæðum sínum. Samkvæmt traustkenningu sé megináhersla lögð á að leiða í ljós þær hugmyndir eða það traust sem með sanngirni hafi mátt ætla að löggerningur hafi vakið hjá löggerningsmóttakanda. Í íslenskri réttarframkvæmd séu þessi tvö sjónarmið borin saman og niðurstaða ráðist iðulega af nokkru samblandi, eftir eðli þeirra samninga sem verið sé að túlka. Fáist ekki niðurstaða með þessum tveimur meginreglum sé gripið til annarra túlkunarreglna, s.s. andskýringarreglu vátryggingaréttar.
Í máli þessu sé fullljóst, við lestur á undanþáguákvæði a-liðar, 10. gr. slysatryggingaskilmála stefnda, að hann sé að undanþiggja áhættu sinni athafnir vátryggða sem meiri áhætta felist í en almennt gerist. Með notkun hugtakanna „fjallaklifur“ og „bjargsig“, geti allir lesendur séð þann vilja vátryggingafélagsins að undanskilja áhættu sinni slys vegna falls, þar sem mjó lína, í bókstaflegri merkingu, skilji á milli öryggis og stórslyss. Þótt slík lína sé án vafa traust og sterk þá sé hún sannkölluð líflína og hún sé bara ein. Þessi tilætlan stefnda sé alveg skýr og augljóst að hvers konar forskeyti við orðið „klifur“, svo sem „ís“, „bjarg“, „klettur, „fjall“, skipti þessa tilætlun ekki máli. Einnig megi segja að orðið „fjall“ geti vel rúmast sem almennt forskeyti á hvers kyns hæðarmismun í náttúrunni þar sem klifur er stundað enda séu lóðréttir náttúrulegir veggir iðulega hluti af fjalli, eða fjall í sjálfu sér, sbr. ofangreinda umfjöllun.
Stefndi telur alveg útilokað að kaupandi að almennri fjölskyldutryggingu hjá stefnda geti, við lestur á slysatryggingakafla þeirrar vátryggingar, skilið það svo eða treyst því að slys við klettaklifur sé bótaskylt atvik í tryggingunni. Í fyrsta lagi sé fjölskyldutrygging mjög almenn og keypt af meginhluta heimila í landinu. Iðgjald fyrir þessa vátryggingu hjá stefnanda hafi verið 36.594 kr. Innifalið í því iðgjaldi séu margar ólíkar vátryggingar sem augljóslega séu ætlaðar sem almenn stöðluð vátryggingarvernd fyrir innbú fjölskyldu og fyrir fjölskyldumeðlimi sjálfa við venjulegar athafnir þeirra. Í öðru lagi sé alveg ljóst að íþróttin klettaklifur sé hættuleg íþrótt þar sem ekkert megi bregðast, í orðanna fyllstu merkingu, svo ekki leiði til stórslyss. Það megi teljast með ólíkindum ef vátryggingartaki búist við því að í slíkri almennri vátryggingarvernd, með ekki hærra iðgjaldi, sé innifalin slysatrygging fyrir þeirri áhættu með mjög myndarlegum vátryggingabótum (dánarbætur 6.449.800 kr., örorkubætur 20.961.700 kr., auk dagpeningagreiðslu 16.800 kr. pr. viku), þegar undanþáguákvæði a-liðar, 10. gr. slysatryggingaskilmálans sé ekki einu sinni óljóst. Eins og að framan greini hafi stefnandi sjálfur lagt fyrir dóminn svokallað „séráhættueyðublað“ líftryggingar frá Sjóvá-Almennum líftryggingum hf. Þar sé spurt mjög nákvæmlega um ástundun umsækjanda á klifri. Í hvaða tilgangi vænti stefndi að svo sé? Búist hann við að áhætta vegna slysa í klettaklifri sé alltaf innifalin í venjulegri fjölskyldutryggingu en ekki nema að undangengnu mjög ítarlegu mati í líftryggingu? Í ljósi framlagningar þessa dómskjals megi telja sannað að stefndi geti ekki hafa borið það traust til samnings um fjölskyldutryggingu að hún innifæli í sér slysa- eða dánaráhættu vegna klettaklifurs.
Stefnda sé kunnugt um tilvist andskýringarreglu vátryggingaréttar. Til hennar sé gripið þegar túlka þurfi vátryggingaskilmála þar sem árekstur verði á milli tilgangs-trauststúlkunar, samningsákvæði séu mjög óljós eða þau hreinlega ekki fyrir hendi. Slíka aðstaða sé engan veginn uppi við túlkun á því samningsákvæði sem málarekstur þessi snúist um og andskýringarregla vátryggingaréttar eigi alls ekki við.
Málatilbúnaður stefnanda byggist alfarið á orðhengilshætti hugtakanna „fjall“ og „kletti“ sem í almennri málvitund renni iðulega saman enda myndi klettar og björg flest fjöll að einhverju eða öllu leyti. Almenn málvitund og beiting viðurkenndra túlkunarreglna samninga leiði á skýran máta til þess að sýkna beri stefnda í þessu máli.
Niðurstaða
Óumdeilt er að stefnandi er meðvátryggður samkvæmt 1. gr. skilmála stefnda um Fjölskylduvernd 2 og vátryggingarvernd vátryggingarinnar nær að fullu yfir stefnanda.
Ágreiningur málsaðila er sá, hvort skilmáli Fjölskylduverndar 2 nái til þess líkamstjón sem stefnandi varð fyrir í falli sínu 9. mars 2010, það er hvort undanþáguákvæði í a-lið, 10. gr. slysatryggingar í frítíma, sem er hluti af skilmála Fjölskylduverndar 2, eigi við um aðstæður þær sem slys stefnanda orsakaðist af. Í undanþáguákvæðinu segir að stefndi bæti ekki: „Slys sem verða í hnefaleikum, hvers konar glímu, akstursíþróttum, fjallaklifri, bjargsigi, froskköfun, drekaflugi, svifflugi og fallhlífarstökki.“
Fyrir liggur að stefnandi var í klettaklifri í Ástralíu er slysið átti sér stað. Eins og reifað er að framan í lýsingu málavaxta er klettaklifur þannig íþrótt að sá er klifrar notast við reipi og annan búnað til að verjast falli. Klifrarinn festir reipið í þar til gerðum festingum og boltum sem eru til staðar í klettunum (eða veggnum) um leið og hann klifrar áfram. Þá stendur annar aðili í klifurbelti fyrir neðan með tilheyrandi búnað og stjórnar reipinu og tryggir öryggi klifrarans. Dómurinn telur ljóst að fjallaklifur, sem felst í því að klífa fjöll, og klettaklifur er ekki sama háttsemin eða íþróttin, þótt í báðum tilvikum endi orðin á „klifur“.
Í undanþáguákvæðinu í 10. gr. eru taldar upp íþróttagreinar og aðrar athafnir sem bera það með sér að vera fremur hættulegar og líklegar til að alvarleg slys geti hlotist af iðkun þeirra, ef illa fer. Það er nokkuð ljóst að tilgangur stefnda er sá að undanskilja sig ábyrgð þegar um hættulegar athafnir og íþróttir er að ræða. Því er hægt að fallast á það með stefnda að fjölskyldutrygging, sem taka á til slysa og óhappa í daglegu lífi fjölskyldna og þar sem reynt er að halda iðgjöldum í skefjum, taki ekki til slysa í svo áhættusömum íþróttum eins og þeim sem taldar eru upp í undanþáguákvæðinu. Það er einnig hægt að taka undir það með stefnda að í ljósi þeirra spurninga um klifur sem lagðar eru fram á eyðublaði um líftryggingar megi gera ráð fyrir að stefnandi hafi gert sér grein fyrir því að vafasamt sé að slys við klifur séu bótaskyld samkvæmt Fjölskyldutryggingunni. Á það er hins vegar að líta að stefndi semur einhliða vátryggingaskilmálana og hann verður að bera hallann af óskýrleika þeirra. Honum var í lófa lagið að hafa upptalninguna ítarlegri, en ganga verður út frá því að stefnda sé kunnur munurinn á fjallaklifri og klettaklifri. Það dugar stefnda skammt að vísa til þess að ákvæðið eigi við „hvers konar“ fjallaklifur með því að klettaklifur og fjallaklifur er sitt hvor hluturinn. Þá skiptir heldur ekki máli tilvitnun stefnda til bjargsigs. Þar er um aðra háttsemi að ræða en í klettaklifri. Bjargsigið, ásamt annarri upptalningu á háttsemi í ákvæðinu, gefur einungs til kynna að um hættulega háttsemi sé að ræða.
Með vísan til þess sem að framan greinir er krafa stefnanda tekin til greina og viðurkenndur er réttur hennar til greiðslu bóta úr hendi stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., á grundvelli slysatryggingar í frítíma Fjölskylduverndar 2 hjá stefnda vegna líkamstjóns af völdum slyss stefnanda hinn 9. mars 2010.
Eftir þessari niðurstöðu, og með vísan til 131. gr. laga um meðferð einkamála, ber stefnda að greiða málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 kr. og rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og ákveðst 600.000 kr. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Viðurkenndur er réttur stefnanda, Elísabetar Birgisdóttir, til greiðslu bóta úr hendi stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., á grundvelli slysatryggingar í frítíma Fjölskylduverndar 2 hjá stefnda vegna líkamstjóns af völdum slyss stefnanda hinn 9. mars 2010.
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði 600.000 kr. í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Erlings Daða Emilssonar hdl., 600.000 krónur.