Hæstiréttur íslands
Mál nr. 392/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 13. júlí 2009. |
|
Nr. 392/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Erlendur Þór Gunnarsson hdl.) |
Kærumál. Farbann. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt 1. mgr. 100 gr. laga nr. 88/2008, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. sömu lag, var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til föstudagsins 24. júlí 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2009 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til 15. maí 2009 klukkan 16. Með dómi Hæstaréttar 13. sama mánaðar í máli nr. 226/2009 var úrskurði héraðsdóms breytt og varnaraðila í stað gæsluvarðhalds gert að sæta farbanni til sama tíma. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2009 var farbann varnaraðila framlengt allt til 12. júní 2009 klukkan 16. Sá úrskurður var staðfestur í Hæstarétti með dómi 19. maí 2009 í máli nr. 253/2009. Var það gert með þeim athugasemdum að sérstaka skyldu bæri til að hraða rannsókn og meðferð sakamála, þar sem sakborningur sætir þvingunaraðgerð, en samkvæmt gögnum málsins virtist rannsókn lögreglu lokið og einungis væri eftir að taka ákvörðun hvort sækja bæri varnaraðila til sakar. Þó var talið að enn væru fyrir hendi skilyrði farbanns „þann tíma sem ákveðinn var í hinum kærða úrskurði.“ Af gögnum málsins verður ekki séð að nokkuð hafi gerst í rannsókn málsins frá því þessi dómur Hæstaréttar gekk þar til ákæra var gefin út 15. júní 2009, eða nokkrum dögum eftir að farbann samkvæmt dómi Hæstaréttar rann út. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2009, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 16. júní 2009 í máli nr. 325/2009, var fallist á frekara farbann yfir varnaraðila, eða allt til 10. júlí 2009 klukkan 16. Mál ákæruvaldsins á hendur varnaraðila var hins vegar ekki þingfest fyrr en 25. júní 2009 og hófst aðalmeðferð þess 7. júlí. Í þinghaldi þann dag var bókað eftir sækjanda að ákæruvaldið hafi óskað eftir því að tilgreint vitni, sem dvelji í Bandaríkjunum, gæfi símaskýrslu fyrir dómi. Eftir ósk ákærða var ákveðið að vitnið kæmi fyrir dóm og var því beint til sækjanda að reynt yrði að hafa uppi á vitninu og gera þær ráðstafanir sem þyrfti til þess að það kæmi til landsins sem fyrst. Var málinu frestað um tvo daga til framhaldsaðalmeðferðar og síðan aftur til 16. sama mánaðar í því skyni að sækjandi reyndi til þrautar að hafa uppi á vitninu.
Ákærði hefur gefið skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þá gaf umrætt vitni einnig skýrslu fyrir dómi áður en ákæra var gefin út eða 15. maí 2009 en þá sem kærður við fyrirtöku kröfu um farbann yfir honum. Varnaraðili hefur nú sætt farbanni um langa hríð og eins og að framan er rakið hefur meðferð málsins dregist töluvert án þess að honum verði um það kennt. Að öllu framansögðu virtu eru ekki efni til að fallast á kröfu sóknaraðila um frekara farbann yfir varnaraðila og því ber að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ég er sammála Ólafi Berki Þorvaldssyni hæstaréttardómara um að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi á þeim forsendum sem hér fara á eftir:
Varnaraðili er erlendur ríkisborgari sem kom til Íslands sem ferðamaður. Farbann felur í sér alvarlega skerðingu á frelsi hans sem meðal annars hindrar hann í að komast heim til sín. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þurfa að vera fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt 1. eða 2. mgr. 95. gr. laganna til þess að taka megi kröfu um farbann til greina. Meðal skilyrða sem þar greinir er að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að sakaður maður hafi gerst sekur um þá háttsemi sem um ræðir.
Fyrir liggur í málinu að varnaraðili hafði kynmök við kæranda sem hún að eigin sögn skynjaði að fullu meðan á þeim stóð. Hún kveðst hins vegar hafa talið að hún væri að eiga kynmök við annan mann. Felast sakargiftir á hendur varnaraðila í því að hann hafi nýtt sér þessa ætluðu villu kæranda til að geta átt kynmökin við hana. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir Hæstarétti hefur varnaraðili sagt samskipti þeirra hafa verið með þeim hætti að henni hafi ekki getað dulist við hvern hún hafði kynmök. Sönnunarbyrði um atvikin að þessu leyti hvílir á sóknaraðila samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008. Til úrlausnar er í þessu máli hvort rökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 95. gr. sömu laga sé fyrir hendi um ætlað brot varnaraðila. Ekki verður séð að unnt sé með frekari sönnunarfærslu að renna stoðum undir staðhæfingar kæranda um villu sína, þar sem hún og varnaraðili eru ein til frásagnar um það sem gerðist. Er að mínum dómi óhjákvæmilegt að taka tillit til þess, þegar metið er hvort grunur á hendur varnaraðila teljist rökstuddur í skilningi nefnds lagaákvæðis, þannig að skilyrði séu til að beita hann enn þeirri þvingun sem felst í farbanni. Tel ég að ekki geti talist um slíkan grun að ræða og því séu ekki fyrir hendi skilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila. Beri þegar af þeirri ástæðu að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Sératkvæði
Viðars Más Matthíassonar
Ég tel að staðfesta beri hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2009.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að bandarískum ríkisborgara X, f. 9. ágúst 1969, með dvalarstað á Y, Reykjavík, verði gert að sæta áfram farbanni þar til niðurstaða málsins liggur fyrir og þá eftir atvikum með dómi héraðsdóms en þó ekki lengur en til föstudagsins 24. júlí 2009, kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi verið með til rannsóknar ætlað kynferðisbrot ákærða, aðfaranótt föstudagsins 8. maí sl. gegn A og voru atvik talin hafa gerst á herbergi á Hótel Z.
Ákærði sé grunaður um að hafa misnotað sér ástand kæranda í því skyni að hafa við hana samræði. Fyrir liggi að kærandi hafði áður haft samræði við félaga ákærða B og taldi þegar ákærði hafði samræði við hana skömmu síðar að það væri einnig B.
Með ákæru 15. júní sl. hafi ákærði verið ákærður fyrir kynferðisbrot, aðallega nauðgun en til vara brot gegn blygðunarsemi, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 8. maí 2009, á herbergi nr [...] á Hótel Z, [....], Reykjavík, haft samræði við A gegn vilja hennar og við það notfært sér að hún hafi hvorki getað spornað við né skilið þýðingu verknaðar ákærða þar sem hún taldi að um annan mann væri að ræða. Ákærði hafi farið inn í myrkvað herbergið þar sem A hafi legið ein sofandi eftir að hafa haft samræði við annan mann skömmu áður og átti hún von á þeim manni til baka inn í herbergið.
Í ákæru sé brot ákærða aðallega talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, sbr. en til vara við 209. gr. sömu almennra hegningarlaga.
Aðalmeðferð málsins hafi hafist 7. júlí sl. Ekki hafi tekist að ljúka henni þá þar sem fram hafi komið ósk frá verjanda um að vitnið B kæmi fyrir dóminn og gæfi skýrslu í stað þess að gefa símaskýrslu eins og áður hafði verið ætlað. Af hálfu bandarískra yfirvalda hefur verið reynt að ná í vitnið síðan þá en ekki tekist en hann sé nú talinn vera staddur í Bandaríkjunum. Næst verði málið tekið fyrir 16. júlí nk. og sé þá fyrirhugað að ljúka aðalmeðferð málsins.
Að mati ríkissaksóknara liggi fyrir rökstuddur grunur um að ákærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um kynferðisbrot. Ákærði hafi viðurkennt að hafa haft samræði við kæranda í umrætt sinn. Atvik öll, þar á meðal framburður kæranda og vitnisins B, bendi til þess að ákærði hafi vitað að kærandi ætti von á B aftur inn í herbergið og að B hafði áður haft samræði við kæranda. Ákærði hafi notfært sér þær aðstæður að kærandi beið eftir B og farið inn í herbergi til hennar og upp í rúm og byrjað að hafa við hana samræði. Fyrir liggi að lítil birta var í herberginu og að ákærði og B virtust nokkuð líkir útlits. Ákærði hafi sagt í framburði sínum hjá lögreglu að verið geti að kærandi hafi haldið að hann væri B og einnig komi þar fram að hann telji sig vera líkan honum í útliti. Fyrir dómi hafi ákærði sagt að hann og B væru ekki líkir.
Ákærði hafi verið handtekinn 8. maí 2009 og sama dag verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til 15. maí s.á. Þegar gæsluvarðhaldið rann út hafi ákærði verið úrskurðaður í farbann til 12. júní s.á., kl. 16.00, sbr. úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-204/2009. Sá úrskurður hafi verið kærður til Hæstaréttar af hálfu ákærða sem staðfesti úrskurð héraðsdóms, sbr. meðfylgjandi dómur í máli hæstaréttar nr. 253/2009. Með úrskurði héraðsdóms í máli nr. R-269/2009, dags. 12. júní hafi ákærða verið gert að sæta farbanni til 10. júlí. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 325/2009 hafi sú niðurstaða héraðsdóms verið staðfest.
Vísað sé til þess að ákærði sé erlendur ríkisborgari og þyki hætta á að hann hverfi af landi brott til að koma sér undan dómi. Ekki sé vitað til þess að hann hafi nein tengsl við landið. Þyki því nauðsynlegt að ákærði sæti farbanni til að tryggja nærveru hans til að ljúka megi meðferð málsins eftir atvikum með dómi og fullnustu dóms.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 1. mgr. 100. gr., sbr. b lið 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess beiðst að ofangreind krafa nái fram að ganga.
Með vísun til þess sem að framan var rakið úr greinargerð ríkissaksóknara er fallist á það með honum að fram sé kominn sá áskilnaður sem gerður er í 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að ákærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Ákærði kom til landsins sem ferðamaður og eru því einnig uppfyllt skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Fyrirhugað er að ákærumálið verði dómtekið í næstu viku. Telja verður að enn séu fyrir hendi skilyrði þess að ákærði sæti farbanni þann tíma sem krafist er. Samkvæmt þessu verður orðið við kröfu ríkissaksóknara eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærða, X, fæddum 9. ágúst 1969, er bönnuð brottför af landinu, þar til niðurstaða málsins liggur fyrir og þá eftir atvikum með dómi héraðsdóms en þó ekki lengur en til föstudagsins 24. júlí 2009, kl. 16.00.