Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Lögvarðir hagsmunir


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. mars 2002.

Nr. 116/2002.

Jóhann Óli Guðmundsson

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Lyfjaverslun Íslands hf.

Aðalsteini Karlssyni

Heiðu Láru Aðalsteinsdóttur

Hildi Sesselju Aðalsteinsdóttur

Tómasi Aðalsteinssyni

Bjarna Halldórssyni

Jóhannesi Blöndal

Haraldi Gunnarssyni og

Lárusi L. Blöndal

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

 

Kærumál. Aðild. Lögvarðir hagsmunir.

J höfðaði mál á hendur L hf. o.fl. þar sem hann krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að samningur milli L hf. annars vegar og A o.fl. hins vegar um kaup félagsins á öllum hlutabréfum hinna síðarnefndu í A hf. væri ógildur. Þá krafðist J þess að A o.fl. yrði gert að endurgreiða L hf. nánar tiltekna fjárhæð og afhenda L hf.  hlutabréf í félaginu gegn framsali þess á hlutabréfum í A hf. til A o.fl. Héraðsdómari vísaði málinu frá vegna annmarka á málatilbúnaði J. Hæstiréttur taldi J, sem átti 11,27% alls hlutafjár í L hf., ekki skorta lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum að efni til. Af hálfu L hf. o.fl. var því haldið fram að í héraðsdómsstefnu hefðu ekki verið færðar fram sérstakar skýringar á aðild J að málinu. Í dómi Hæstaréttar segir að þess sé að gæta að takist J ekki gegn andmælum L hf. o.fl. að vísa til viðhlítandi stoðar í réttarheimildum fyrir aðild sinni að málinu valdi það sýknu hinna síðastnefndu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Séu ekki efni til að vísa málinu frá dómi af þeim sökum. Vísun L hf. o.fl. til 4. mgr. 114. gr. sömu laga geti heldur ekki leitt til þeirrar niðurstöðu, en undantekningarákvæði 2. málsliðar greinarinnar teljist eiga hér við svo fremi J takist að sýna fram á að hann eigi aðild að máli um sakarefnið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2002, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málatilbúnaði sóknaraðila í héraði var þess getið að hann væri næst stærsti einstaki hluthafinn í varnaraðilanum Lyfjaverslun Íslands hf. og eigi hann 11,27% alls hlutafjár í félaginu. Í kæru til Hæstaréttar kemur jafnframt fram að sóknaraðili eigi enn stærri hlut ef með sé talinn hlutur nokkurra lögaðila, sem eru í hans eigu. Bendir hann á að fyrsta krafa hans í málinu sé sú að viðurkennt verði með dómi að samningur Lyfjaverslunar Íslands hf. 1. desember 1999 við aðra varnaraðila sé ógildur, en sá samningur hafi verið félaginu afar óhagstæður. Fari saman hagsmunir hans sjálfs sem stórs hluthafa og félagsins, því hagsmunir hans hafi skaðast við samningsgerðina rétt eins og félagsins. Miði kröfugerðin að því að þessi innbyrðis lögskipti varnaraðilanna verði ógilt þannig að lyfjaverslunin og aðrir varnaraðilar verði eins settir og samningur hefði ekki komist á. Verður að þessu gættu ekki fallist á með varnaraðilum að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum að efni til.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að í héraðsdómsstefnu hafi ekki verið færðar fram sérstakar skýringar á aðild sóknaraðila að málinu og að ekki hafi verið úr því bætt í kærumáli þessu. Af þessu tilefni er þess að gæta að takist sóknaraðila ekki gegn andmælum varnaraðila að vísa til viðhlítandi stoðar í réttarheimildum fyrir aðild sinni að málinu veldur það sýknu hinna síðastnefndu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Eru ekki efni til að vísa málinu frá dómi af þeim sökum. Vísun varnaraðila til 4. mgr. 114. gr. sömu laga getur heldur ekki leitt til þeirrar niðurstöðu, en undantekningarákvæði 2. málsliðar greinarinnar telst eiga hér við svo fremi sóknaraðila takist að sýna fram á að hann eigi aðild að máli um sakarefnið.

Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2002.

I

Mál þetta var höfðað 10. október 2001 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 1. febrúar 2002.  Stefnandi er Jóhann Óli Guðmundsson, kt. 020954-5829, búsettur á Gíbraltar.  Stefndu eru Lyfjaverslun Íslands hf., kt. 430269-4029, Borgartúni 7, Reykjavík, Aðalsteinn Karlsson, kt.121146-2749, Flókagötu 59, Reykjavík, Heiða Lára Aðalsteinsdóttir, kt. 290171-3509, Laugalind 2, Kópavogi, Hildur Sesselja Aðalsteinsdóttir, kt. 100377-4549, Lönguhlíð 21, Reykjavík, Tómas Aðalsteinsson, kt. 121182-5729, Flókagötu 59, Reykjavík, Bjarni Halldórsson 280252-3369, Hlyngerði 2, Reykjavík, Jóhannes Blöndal, kt. 250849-2069, Drápuhlíð 20, Reykjavík, Haraldur Gunnarsson kt. 200960-3519, Grasarima 20, Reykjavík og Lárus Blöndal kt. 051161-2899,  Rjúpnahæð 3, Garðabæ.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1. Að viðurkennt verði með dómi að samningur milli stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., annarsvegar, og stefndu, Aðalsteins, Heiðu, Lárusar, Hildar, Tómasar, Bjarna, Jóhannesar og Haraldar, hinsvegar, sem dagsettur er 1. desember 2000, um kaup stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., á öllum hlutabréfum stefndu Aðalsteins, Heiðu, Lárusar, Hildar, Tómasar, Bjarna, Jóhannesar og Haraldar, í hlutafélaginu A. Karlssyni hf., kt. 670976-0179, Brautarholti 28, Reykjavík, sé ógildur.

2. Að viðurkennt verði með dómi að samruni Lyfjaverslunar Íslands hf og Eignarhaldsfélagsins A. Karlssonar ehf., kt. 581200-4120, sé ógildur.

3. Að stefndu, Aðalsteini, Heiðu, Lárusi, Hildi, Tómasi, Bjarna, Jóhannesi og Haraldi, verði, in solidum, gert skylt með dómi að endurgreiða Lyfjaverslun Íslands hf. 332.500.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 100.000.000 krónum frá 1. janúar 2001 en af. 332.500.000 krónum frá l. apríl 2001 til greiðsludags.

4. Að stefndu, Aðalsteini, Heiðu, Lárusi, Hildi, Tómasi, Bjarna, Jóhannesi og Haraldi verði gert skylt með dómi, in solidum, að afhenda stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hlutabréf í Lyfjaverslun Íslands hf. að nafnverði 80.000.000 krónur.

5. Allt framangreint gegn framsali Lyfjaverslunar Íslands hf. á hlutabréfum í  A. Karlssyni hf. að nafnvirði 9.000.000 króna til annarra stefndu en Lyfjaverslunar Íslands hf.

6.        Að stefndu greiði stefnanda málskostnað in solidum.

Stefndu gera þær dómkröfur aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.  Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu sameiginlega málskostnað.

Hinn 1. febrúar sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfunni verði hrundið en auk þess krefst hann málskostnaðar.

II

Málsatvik eru þau að á árinu 2000 áttu fyrrum eigendur A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. allt hlutafé í hlutafélaginu A. Karlssyni.  Þann 16. nóvember 2000 voru undirrituð stofngögn fyrir Eignarhaldsfélagið A. Karlsson ehf. sem stofnað var í þeim tilgangi að hafa eignarhald um rekstur og efnahag A. Karlssonar hf.  Á hluthafafundi sem haldinn var í tengslum við stofnun félagsins 20. nóvember 2000 var ákveðin hækkun hlutafjár með áskrift nýrra hluta um 189.500.000 krónur og var nafnvirði hlutafjár félagsins eftir hækkunina 190.000.000 króna.

Þann 1. desember 2000 gerðu fyrrum eigendur A. Karlssonar hf., þ.e. stefndu aðrir en Lyfjaverslun Íslands hf. annars vegar og stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hins vegar samning um kaup Lyfjaverslunar Íslands hf. á hlutafé eigendanna í A. Karlssyni hf. Samkvæmt 1. gr. þessa samnings var hlutafé þess félags samtals að nafnverði 9.000.000 krónur og áttu seljendur hlutina í neðangreindum hlutföllum:

Nafn seljanda

Nafnverð hlutafjár

Aðalsteinn Karlsson

8.085.000

Heiða Lára Aðalsteinsdóttir   

180.000

Hildur Sesselja Aðalsteinsdóttir   

180.000

Tómas Aðalsteinsson  

180.000

Bjarni Halldórsson  

160.000

Jóhannes Blöndal    

80.000

Haraldur Gunnarsson    

80.000

Lárus L. Blöndal    

55.000

Í samningum er kveðið á um að seljendur muni framselja hlutafé sitt til eignarhaldsfélags sem þeir muni stofna í tengslum við gerð samningsins.  Þá kemur fram að aðilar séu sammála um að kaupandi muni yfirtaka allt hlutafé seljenda í eignarhaldsfélaginu með samruna þess við kaupanda.

Samkvæmt 2. gr. ofangreinds samnings skyldu stjórnir félaganna, þ.e. kaupanda og eignarhaldsfélagsins undirrita samrunaáætlun og gefa út greinargerðir stjórna um samrunann.  Þá er þar kveðið á um að seljendur muni fá sem endurgjald í samrunanum hluti í kaupanda að nafnvirði 160.000.000 króna í þeim hlutföllum sem fram komi í 1. grein samningsins.

Þá er í 3. gr. samningsins kveðið á um það að kaupandi skuli boða til hluthafafundar strax eftir undirritun samningsins til að fjalla um hann.  Jafnframt skyldi stjórn kaupanda fá heimild til þess að gefa út nýtt hlutafé að framangreindu nafnverði og samþykkja samrunaáætlunina.  Þá er mælt fyrir um það í sömu grein að eftir að hluthafafundur hafi samþykkt samninginn teljist kaupandi endanlega skuldbundinn til að afhenda seljendum umsamið endurgjald samkvæmt 2. gr. eigi síðar en 1. febrúar 2001.  Kaupandi teljist með sama hætti bundinn við greiðslu á 100.000.000 krónum í desember og innlausnarrétt í samræmi við 4. gr.

Í 4. gr. samningsins er kveðið á um innlausnarrétt í hlutafé.  Þar er mælt fyrir um að kaupandi og seljandinn, Aðalsteinn Karlsson, skuli hafa gagnkvæman innlausnarrétt á 80.000.000 króna af því hlutafé sem seljendur fái í sinn hlut sem endurgjald við samrunann.  Vilji aðilar beita innlausnarrétti sínum skuli þeir tilkynna það fyrir 1. febrúar 2001 og skuli innlausnarverðið vera 420.000.000 krónur og greiðast þann 15. febrúar 2001.  Sem tryggingu fyrir því að kaupandi standi við innlausnarskylduna skuli hann greiða seljandanum, Aðalsteini Karlssyni, 100.000.000 krónur þegar eftir að hluthafafundur hafi samþykkt heimild til handa stjórn félagsins til þess að gefa út nýtt hlutafé og samþykkja samrunaáætlunina.  Fjárhæðina skuli endurgreiða þann 15. febrúar 2001 ef hvorugur aðili nýti sér innlausnarréttinn.

Þann 4. desember 2000 birti Verðbréfaþing Íslands tilkynningu frá Lyfjaverslun Íslands hf. þar sem fram kemur að gengið hafi verið frá samningi um kaup Lyfjaverslunar Íslands hf. á öllu hlutafé í A. Karlssyni hf.  Þá kemur þar fram að vegna kaupanna sé fyrirhugað að auka nafnvirði hlutafjár Lyfjaverslunar Íslands hf. um 160.000.000 króna og séu kaupin háð samþykki hluthafafundar félagsins.  Jafnframt segir þar að Aðalsteinn Karlsson muni eiga 72.000.000 krónur af nafnvirði hlutafjár í Lyfjaverslun Íslands hf. eða 15,6% að teknu tilliti til fyrirhugaðrar hlutafjáraukningar, þegar ákvæði kaupsamningsins séu uppfyllt og verði þar með stærsti einstaki hluthafi félagsins.

Þann 20. desember 2000 samþykkti stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. samning um kaup á öllum hlutabréfum í A. Karlssyni hf. gegn greiðslu í hlutabréfum í Lyfjaverslun Íslands hf. að nafnvirði 160.000.000 króna.  Jafnframt samþykkti stjórnin að greidd yrði 100.000.000 króna tryggingargreiðsla vegna samruna A. Karlssonar hf. og Lyfjaverslunar Íslands hf.

Þann 8. janúar 2001 samþykkti stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. að boða til hluthafafundar þann 23. janúar 2001.  Jafnframt var samþykkt að leggja til við fundinn að hlutafé Lyfjaverslunar Íslands hf. yrði aukið um allt að 300.000.000 króna meðal annars vegna sameiningar við A. Karlsson hf. 

Þann 9. janúar 2001 birti Verðbréfaþing Íslands tilkynningu um hluthafafundinn.  Þar var tilgreint að á dagskrá fundarins væri tillaga um heimild til stjórnar að auka hlutafé félagsins um allt að 300.000.000 króna.  Þar af væru 160.000.000 krónur vegna kaupa á öllu hlutafé í A. Karlssyni hf. og allt að 140.000.000 krónur til frekari vaxtar félagsins.

Á hluthafafundi Lyfjaverslunar Íslands hf. þann 23. janúar 2001 sem framhaldið var þann 24. janúar 2001, var samþykkt breyting á 4. gr. samþykkta félagsins þar sem meðal annars var mælt fyrir um að stjórn félagsins skyldi hafa heimild til þess að hækka hlutafé félagsins um allt að 300.000.000 króna að nafnverði. 

Þann 24. janúar 2001 var undirrituð yfirlýsing Lyfjaverslunar Íslands hf. um að fyrirtækið ábyrgist gagnvart seljendum samkvæmt samningi dagsettum 1. desember 2000 milli Lyfjaverslunar Íslands hf. og eigenda hluta í A. Karlssyni hf. að með samþykki hluthafafundar í Lyfjaverslun Íslands hf. á hlutafjáraukningu teljist samningurinn endanlega samþykktur,  þar með hvað varði verð og greiðslutilhögun og að ekki verði frá því vikið.  Nái ábyrgð þessi til þess að umsamdar greiðslur verði inntar af hendi sem fyrst og ekki síðar en segi í viðauka við samninginn, dagsettum 22. janúar 2001.  Yfirlýsing þessi var undirrituð af fyrirsvarsmönnum Lyfjaverslunar Íslands hf., Aðalsteini Karlssyni fyrir hönd seljenda og samþykkt af stefnanda sem stærsta hluthafa í Lyfjaverslun Íslands hf.

Þann 9. febrúar 2001 tók Hlutafélagaskrá við samrunaáætlun Lyfjaverslunar Íslands hf. sem yfirtökufélags og Eignarhaldsfélag A. Karlssonar ehf. sem yfirtekins  félags og var hún birt í Lögbirtingablaðinu 21. febrúar 2001.  Samruninn miðaðist við 31. desember 2000.  Samkvæmt 1. gr. samrunaáætlunarinnar eru fyrrgreind félög þar sameinuð undir nafni Lyfjaverslunar Íslands hf. og samkvæmt 2. gr. er Eignarhaldsfélagi A. Karlssonar ehf. slitið.  Þá segir í 3. gr. að við samrunann fái hluthafar Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. eingöngu hlutabréf í Lyfjaverslun Íslands hf. að nafnverði 160.000.000 króna, eða 34,8% af sameinuðu félagi, í skiptum fyrir hluti sína, samtals að nafnverði 190.000.000 króna.

Þann 14. mars 2001 var undirritaður viðauki við kaupsamning um kaup á hlutum í A. Karlssyni hf. frá 1. desember 2000.  Í forsendum hans segir að við bráðabirgðauppgjör A. Karlssonar hf. fyrir árið 2000 hafi komið í ljós að eigið fé og hagnaður félagsins á fyrra ári hafi ekki verið í samræmi við þær forsendur sem lagðar hafi verið til grundvallar kaupverðinu.  Vegna þessa sé eigið fé félagsins um það bil 45 milljónum króna lægra en samningur aðila geri ráð fyrir.  Í 2. grein viðaukasamningsins segir að aðilar séu sammála um að kaupverðið eigi að lækka um fjárhæð sem nemur frávikum frá raunverulegu eigin fé A. Karlssonar hf. Skuli kaupandi hækka hlutafé félagsins sem nemi lækkuninni.  Þá eru aðilar samkvæmt 6. gr. samningsins sammála um að nýta sér innlausnarrétt á hlutafénu samkvæmt 4. gr. samningsins.

Á fundi stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. þann 29. mars 2001 var samruni Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. og Lyfjaverslunar Íslands hf. samþykktur með þeirri breytingu að helmingur endurgjaldsins yrði greiddur í peningum í stað hlutafjár.  Sama dag var samruninn samþykktur á hluthafafundi í Eignarhaldsfélaginu A. Karlssyni ehf. með þeirri breytingu að helmingur endurgjaldsins yrði greiddur í peningum í stað hlutafjár og skyldi hann greiðast inn á hlut Aðalsteins Karlssonar.

Þann 30. mars 2001 undirrituðu endurskoðendurnir, Birkir Leósson og Reynir Ragnarsson, yfirlýsingu þess efnis að samruni Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélagsins A. Karlssonar ehf. eins og hann hafi verið samþykktur á þar til bærum fundum í félögunum með breytingu á samrunaáætlun, muni ekki á nokkurn hátt rýra möguleika lánadrottna félaganna til fullnustu á kröfum sínum. Hlutafélagaskrá barst síðan þann 20. apríl 2001 tilkynning um samruna Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. og Lyfjaverslunar Íslands hf.

III

Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu á kaupsamningi Lyfjaverslunar Íslands hf. og meðstefndu á eftirgreindum málsástæðum og lagarökum.  Kveður hann að sú ákvörðun stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf., að rita undir kaupsamning þann l. desember 2000 um kaup á óútgefnum hlutabréfum í A. Karlssyni hf. að nafnvirði 9.000.000 króna og skuldbinda Lyfjaverslun Íslands hf. til útgáfu og afhendingar á nýjum hlutabréfum í Lyfjaverslun Íslands hf. að fjárhæð 160.000.000 króna og staðfesta þá ákvörðun á formlegum stjórnarfundi þann 20. desember 2000, sé í andstöðu við formreglur hlutafélagalaga nr. 2/1995 og því ólögmæt.

Með kaupsamningnum og stjórnarákvörðuninni hafi falist að stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. hafi samþykkt að taka hin óútgefnu hlutabréf í A. Karlssyni hf. sem greiðslu fyrir aukningarhluti í Lyfjaverslun Íslands hf. að nafnvirði 160.000.000 króna án þess að fyrir lægi lögboðin sérfræðiskýrsla skv. 37. gr. sbr. og 5.-8. gr. hlutafélagalaga. Sé skortur á sérfræðiskýrslunni nægjanleg lagarök fyrir ógildingu kaupsamningsins og málamyndasamrunans.

Þá hafi ákvörðun stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. um kaupin á hlutabréfum í A. Karlssyni hf. verið tekin án þess að fyrir lægi heimild í samþykktum félagsins eða samþykkt hluthafafundar þess efnis að stjórninni væri heimilt, í fyrsta lagi, að hækka hlutafé félagsins um 160.000.000 króna sbr. 33. gr. hlutafélagalaga sbr. 41. gr. laganna eða að greiða mætti hlutina í öðru en reiðufé sbr. 37. gr. laganna.  Hvorki hafi þá né síðar legið fyrir heimild til handa stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. að innleysa eigin bréf að nafnvirði 80.000.000 króna með peningagreiðslu að fjárhæð 420.000.000 króna svo sem ákveðið hafi verið og framkvæmt í mars 2001.  Samkvæmt 55. gr. hlutafélagalaga hafi Lyfjaverslun Íslands hf. aðeins verið heimilt að innleysa hlutabréfin að nyti við sérstakrar heimildar hluthafafundar til slíkra kaupa, sbr. 2. mgr. 55. gr.hlutafélagalaga og samkvæmt fyrirfram greindu hámarki og við tilteknu ákveðnu endurgjaldi sbr. 3. mgr. ákvæðisins.  Þá hafi innlausn hlutabréfa að nafnvirði 80.000.000 króna, með greiðslu að fjárhæð 420.000.000 króna, ennfremur verið háð því að hlutafé félagsins hefði áður verið hækkað með lögmæltum hætti um 160.000.000 krónur með ákvörðun stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. um hækkun og viðeigandi færslu þess efnis í bækur félagsins og tilkynningu til Hlutafélagaskrár og að þau væru að fullu greidd til félagsins áður, sbr. 58. gr. hlutafélagalaganna.  Hafi engu þessara skilyrða verið gætt og hafi innlausnin því verið ólögmæt af þeim ástæðum.  Með því að færa ekki hækkunina með lögformlegum hætti í bækur Lyfjaverslunar Íslands hf. og tilkynna hækkunina ekki að fullu til Hlutafélagaskrár hafi stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. og endurskoðandi félagsins brotið gegn ákvæðum hlutafélagalaga.  Raunveruleg eigin bréf Lyfjaverslunar Íslands hf. hafi eftir innlausnina verið 84.719.557 krónur sem sé umfram lögmælt hámark sbr. 55. gr. hlutafélagalaga.

Til fyllingar kröfunni um ógildingu kaupsamningsins byggir stefnandi á því að samruni Eignarhaldsfélags A. Karlssonar hf. og Lyfjaverslunar Íslands hf. hafi verið málamyndagerningur.  Þá hafi lagaskilyrði fyrir samruna félaganna ekki verið uppfyllt og samruninn því ógildur af þeim ástæðum.

Samkvæmt 120. gr. hlutafélagalaga skuli félagsstjórnir samrunafélaga gera og undirrita í sameiningu samrunaáætlun þar sem fram komi endurgjald fyrir hluti í yfirteknu félagi og hvaða réttindi eigendur hluta í yfirtekna félaginu skuli fá í yfirtökufélaginu, sbr. 3., 5., og 6. tl. ákvæðisins.  Þá skuli samrunaáætlun auglýst og hafi þá gildi gagnvart hluthöfum og öðrum, sbr. 151. gr. hlutafélagalaga.  Samrunaáætlunin 30. janúar 2001,  kveði á um að endurgjald til meðstefndu skuli vera hlutabréf í Lyfjaverslun Íslands hf. að nafnverði 160.000.000 króna. Hafi samrunaáætlunin verið þannig auglýst í Lögbirtingablaðinu.  Í samrunaáætluninni hafi hvorki verið getið um innlausnarrétt hluthafa í yfirtökufélaginu né að innlausnarfjárhæð skyldi vera 420.000.000 króna.  Hlutahafar í Lyfjaverslun Íslands hf. hafi því ekki getað tekið efnislega afstöðu til samrunans eins og hann hafi raunverulega verið framkvæmdur.

Þá kemur fram hjá stefnanda að í 124. gr. hlutafélagalaga sé kveðið á um að ákvörðun um samruna í yfirtökufélagi taki félagsstjórn nema hluthafafundur þurfi að gera breytingar á samþykktum að öðru leyti en snerti heiti yfirtökufélags.  Hafi sú ákvörðun stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. sem tekin var 29. mars 2001, að samþykkja samruna með þeirri breytingu að helmingur endurgjaldsins yrði greiddur með peningum í stað hlutafjár, verið ólögmæt.  Sú ákvörðun hafi ekki verið kynnt hluthöfum og í henni hafi falist mjög íþyngjandi staða fyrir efnahag félagsins og hafi því þurft að bera hana undir hluthafafund. 

Hafi í ofangreindri ákvörðun annars vegar falist veruleg frávik frá auglýstri samrunaáætlun sem kynnt hafi verið hluthöfum Lyfjaverslunar Íslands hf.  Hafi stjórninni af þeim ástæðum borið að senda breytta samrunaáætlun til birtingar í Lögbirtingablaði í samræmi við ákvæði 124. gr. hlutafélagalaga og gefa hluthöfum kost á að kynna sér hana áður en samruninn var samþykktur í stjórninni.  Þetta muni ekki hafa verið gert.  Með því að birta ekki nýja skilmála samrunans hafi stefnandi, sem og aðrir hluthafar, verið sviptir lögboðnum rétti til þess að kynna sér og tjá sig um væntanlegan samruna á vettvangi félagsins, sbr. og ákvæði 131 gr. hlutafélagalaga  um innlausn og 125 gr. laganna um skaðabætur.

Hins vegar hafi í samþykkt stjórnarinnar, um að greiða helming endurgjaldsins í stað hlutafjár, falist svo veruleg efnisbreyting á samrunaáætluninni að stjórnina hafi brostið vald til að samþykkja samrunann, sbr. 2. mgr. 124. gr. hlutafélagalaga.  Þá ákvörðun hafi borið að taka á hluthafafundi, sbr. 55. gr. og ákveða þar nafnverð hlutabréfa, kaupverð þeirra og frest til að nýta kaupheimild. Ákvörðunin hafi auk þess kallað á breytingu á samþykktum félagsins um að einstakir hluthafar,  þ.e. meðstefndu, skyldu njóta innlausnarréttar umfram aðra, sbr. meginreglu 20. gr. hlutafélagalaga um jafna stöðu einstakra hluthafa, sbr. og 93. gr. og 124. gr. laganna.

Þá telur stefnandi að ákvörðun stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. um greiðslu peninga auk þess vera óskýra og ónákvæma.  Sé ekkert bókað um hversu háa peningafjárhæð skuli reiða fram til innlausnar bréfanna.  Telur stefnandi fráleitt að stjórn félagsins hafi haft sjálfdæmi um það hvernig meta skyldi peningalegt andvirði helmings hinna innleystu hlutabréfa. 

Þá kveður stefnandi á því byggt að lögboðin matsskýrsla endurskoðendanna, dagsett 16. mars 2001, vegna samruna Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. sé andstæð 122. gr. laga nr. 2/1995.  Samkvæmt því ákvæði eigi að gera óháða sérfræðiskýrslu um samrunaáætlun og eigi sú skýrsla að liggja frammi hluthöfum til sýnis áður en ákvörðun um samruna sé tekin.  Skuli skýrslan geyma efnislega rökstutt mat á því hvort endurgjald fyrir hlutina í yfirtekna félaginu sé sanngjarnt.  Þá skuli skýrslan lýsa aðferðum sem nota eigi við ákvörðun endurgjaldsins, greina það verð sem aðferðirnar leiði til og hvaða innbyrðis þýðingu leggja skuli í aðferðir við verðákvörðun.  Sé tilgangur skýrslunnar að tryggja óháð sérfræðimat á því að endurgjald fyrir yfirtekna hluti sé sanngjarnt með tilliti til hagsmuna yfirtökufélagsins, hluthafa þess og lánardrottna.

Byggir stefnandi á því að Reynir Ragnarsson og Birkir Leósson, löggiltir endurskoðendur, teljist ekki óháðir matsmenn í skilningi 122. gr. hlutafélagalaga sbr.2. og 3. mgr. 7. gr. laganna og þriðju tilskipun EB um samruna almenningshlutafélaga.  Hafi þeir báðir verið vanhæfir til þess að framkvæma matið, Birkir sökum þess að hann hafi verið kjörinn endurskoðandi Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. og Reynir sem kjörinn endurskoðandi A. Karlssonar hf. og persónulegur endurskoðandi Aðalsteins Karlssonar. Geti hvorugur því talist vera óháður matsmaður í skilningi hlutafélagalaga og sé matsskýrslan því ómerk.  Að auki sé skýrslan í andstöðu við hlutafélagalögin og efnislega röng um rekstrarlegt virði A. Karlssonar hf.  Kveðst stefnandi byggja þá skoðun sína, að skýrslan sé röng, á því að þar sé ekki að finna sjálfstætt mat um gildi endurgjalds til hluthafa í yfirtekna félaginu heldur vísað til þess að til grundvallar á skiptihlutföllum sé stuðst við mat á raunverulegri hreinni eign félaganna, markaðsvirði hlutafjár og mati á rekstrarhæfni félaganna.  Að því er varði mat á Eignarhaldsfélaginu A. Karlssyni ehf., sé sérstaklega stuðst við forsendur í samningi um samrunann er lúti að efnahag og rekstri A. Karlssonar hf. svo og öðrum þáttum í starfsemi þess félags í samanburði við markaðsvirði Lyfjaverslunar Íslands hf. á þeim tíma.  Sé tekinn upp í skýrsluna orðréttur texti úr greinargerðum félagsstjórna Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. vegna samrunans frá 30. janúar 2001. Telur stefnandi að matsmönnum hafi verið óheimilt að vísa til mats stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. eða byggja á kaupsamningi Lyfjaverslunar Íslands hf. og meðstefndu um virði hlutabréfanna í A. Karlssyni hf. enda hafi engin sérfræðiskýrsla legið fyrir um verðmæti þeirra hlutabréfa.  Matsmenn hafi því í engu sinnt lögboðnu hlutverki sínu um framkvæmd óháðs sérfræðimats og matsskýrsla þeirra því ekki marktæk.

Við samruna hlutafélaga sé það grundvallarregla að félögin séu metin með sambærilegum hætti sbr. grunnreglu 122. gr. hlutafélagalaga.  Í því felist að meta hafi orðið bæði Lyfjaverslun Íslands hf. og Eignarhaldsfélagið A. Karlsson ehf. út frá sömu forsendum til að unnt væri að finna eðlilegt og sanngjarnt skiptahlutfall.  Þetta hafi ekki verið gert heldur hafi Eignarhaldsfélag A. Karlssonar ehf. verið virt út frá fyrirfram gefnum niðurstöðum í kaupsamningi Lyfjaverslunar Íslands hf. um hlutabréfin í A. Karlssyni hf. þar sem verðmætið hafi einkum falist í viðskiptavild sem ákveðin hafi verið af seljendum en ekki sérfróðum aðilum.  Hins vegar hafi ekki verið framkvæmt sambærilegt mat á Lyfjaverslun Íslands hf. heldur stuðst við þágildandi markaðsgengi félagsins þar sem verðmyndun félagsins hafi verið með allt öðrum hætti en í Eignarhaldsfélagi A. Karlssonar ehf. og  A. Karlssyni hf.  Af þessu leiði að eiginlegt lögboðið samrunamat hafi ekki farið fram.

Vísi matsskýrslan um samrunann til forsendna í samningi stefndu varðandi rekstur og efnahag A. Karlssonar hf.  Þann 14. mars 2001 hafi stefndu gert með sér viðauka við kaupsamninginn þar sem því sé lýst yfir að bráðabirgðauppgjör fyrir A. Karlsson hf. hafi leitt í ljós að eigið fé og hagnaður félagsins á síðasta ári hafi ekki verið í samræmi við þær forsendur sem lagðar hafi verið til grundvallar kaupverðinu.  Hafi því verið ljóst, áður en matsskýrslan var undirrituð að rekstrarafkoma og efnahagur A. Karlssonar hf. hafi verið umtalsvert lakari en ráðgert hafi verið í kaupsamningnum um hlutabréfin. Á stjórnarfundi í Lyfjaverslun Íslands hf. þann 8. mars 2001 hafi verið ljóst að bráðabirgðaniðurstaða ársins 2000 væri langt frá væntingum og hafi verið ákveðið að fela lögmanni félagsins að kanna réttarstöðu þess.  Í framhaldi af því hafi viðaukinn verið gerður og í honum komi meðal annars fram að ákveðið hafi verið að fresta uppgjöri á hluta endurgjaldsins þar til niðurstaða úr rekstri félagsins á árinu 2001 lægi fyrir.  Þrátt fyrir að ljóst væri að um veruleg frávik frá samningsbundnum forsendum um rekstur og efnahag A. Karlssonar hf. væri að ræða,  þegar í byrjun mars 2001, sé þess ekki getið í sérfræðiskýrslu matsmanna.  Tilvísun í matsskýrslunni til forsendna samningsins um kaupin á hlutabréfunum í A. Karlssyni hf. um rekstur og efnahag eignahaldsfélagsins þann 16. mars 2001 hafi verið efnislega röng.  Beri í þessu sambandi að hafa í huga að samkvæmt efnahagsreikningi Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf., séu hlutabréfin í A. Karlssyni hf. sögð keypt í lok árs 2000 á 124.880.301 krónur og sé ekki að finna athugasemdir Birkis Leóssonar við því verði meðal annars með hliðsjón af 58 gr. laga nr.  75/1981 um tekju- og eignaskatt þó að honum væri fullkunnugt að bréfin væru í raun seld til Lyfjaverslunar Íslands hf. fyrir 840.000.000 króna.   Sömu hlutabréf séu hins vegar talin vera 840.000.000 króna virði í samningi Lyfjaverslunar Íslands hf. og meðstefndu, sbr. og bækur Lyfjaverslunar Íslands hf. sem fyrrnefndur Birkir hafi fært og endurskoðað.

Þegar haft sé í huga að endurskoðendurnir, Birkir og Reynir, hafi leynt hluthafa Lyfjaverslunar Íslands hf. þeirri skyldu félagsins gagnvart meðstefndu að innleysa eigin bréf fyrir 420.000.000 króna, leynt hluthafa Lyfjaverslunar Íslands hf. raunverulegri afkomu og efnahagi A. Karlssonar hf. og ekki framkvæmt sambærilegt mat á virði Lyfjaverslunar Íslands hf., Eignarhaldsfélagsins A. Karlssonar ehf. og A. Karlssonar hf., sé bersýnilegt að áritun endurskoðendanna á matsskýrsluna hafi verið efnislega röng og í andstöðu við 8. gr. laga nr.  18/1997 um 1öggilta endurskoðendur.  Liggi því ekki fyrir lögboðin sérfræðiskýrsla um samruna félaganna svo sem boðið sé í hlutafélagalögum.

Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að kaup Lyfjaverslunar Íslands hf. á hlutabréfum í A. Karlssyni hf., þar með talinn málamyndarsamruni Lyfjaverslunar Íslands hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf., hafi verið í andstöðu við hlutafélagalögin.  Með því að skuldbinda Lyfjaverslun Íslands hf. til að afhenda meðstefndu hlutabréf í Lyfjaverslun Íslands hf. að markaðsvirði 840.000.000 króna gegn afhendingu hlutabréfa í óskráðu og lokuðu hlutafélagi, hvers virði hafi að stærstum hluta falist í óefnislegum verðmætum, hafi stjórnin brotið á hagsmunum félagsins, hluthöfum þess og lánardrottnum og valdið þeim verulegu tjóni og sé stefnanda því rétt og skylt að ógilda samninginn og samrunann.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til viðauka XXII með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið sbr. og þriðju tilskipun um samruna almenningshlutafélaga (78/855/EBE) og 8. tilskipun um löggildingu einstaklinga sem falið sé að annast lögmælta endurskoðun bókhaldsgagna (84/253/EBE). Þá vísar hann til meginreglna samningalaga nr. 7/1936 um ógildingu samninga. Um skyldu til framlagningar gagna vísar stefnandi til 67. gr. laga nr. 91/1991 sbr. og ákvæði X. kafla laganna og um málskostnað til 129. gr. og 130.gr. laganna.

Stefnandi telur frávísunarkröfu stefndu setta fram að ófyrirsynju og standi engin efnisleg rök til þess að máli hans verði vísað frá dómi.  Krafa hans sé skýr og verði á hana fallist leysi hún efnislega úr ágreiningi og sé því dómtæk.  Fyrsta krafa hans snúist um ógildingu á samningi en aðrar kröfur séu afleiddar af þeirri kröfu.  Stefnandi kveðst, sem næststærsti hluthafinn í Lyfjaverslun Íslands hf. hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr ágreiningsefnum þessa máls.

IV

Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því að krafa stefnanda sé ekki dómtæk.  Ljóst sé að á stefnanda hvíli sú skylda samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að gera dómkröfur sem unnt er að taka til greina á þann hátt sem þær séu framsettar í stefnu.  Í l. ml. 4. mgr. 114. gr. laganna séu hins vegar þær mikilvægu skorður reistar um efni dómsniðurstöðu að í henni megi ekki skírskota í dómi til sannana eða atvika sem kunna síðar að koma fram.

Kröfugerð stefnanda geri ráð fyrir því að fyrrum eigendur A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar verði skyldaðir með dómi að inna af hendi greiðslu til Lyfjaverslunar Íslands hf. á peningum og hlutafé í Lyfjaverslun Íslands hf. gegn því að þau atvik komi síðar fram að Lyfjaverslun Íslands hf. framselji eigendum A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélagsins A. Karlssonar ehf. alla hluti í A. Karlssyni hf.  Af þessu leiði að kröfugerð stefnanda sé í bága við meginregluna í l. ml. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.  Eigi kröfugerðin því ekki rétt á sér nema til sé að dreifa sérstakri lögákveðinni undantekningu frá meginreglunni.  Sú undantekning sem helst kæmi til greina komi fram í 2. ml. 4. mgr. 114. gr.  Þar sé ákveðið að heimilt sé að verða við kröfu um að stefnda verði gert að leysa af hendi skyldu gegn tilteknu gagngjaldi úr hendi stefnanda.  Eins og ljóst megi vera eigi þessi undantekning ekki við hér vegna þess að sú skylda sem stefnandi ætli fyrrum eigendum A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélagi A. Karlssonar ehf. að inna af hendi sé ekki háð tilteknu gagngjaldi úr hendi stefnanda eins og áskilið sé, heldur sé hún háð tilteknu gagngjaldi úr hendi Lyfjaverslunar Íslands hf. Þegar af þessari ástæðu bresti stefnanda heimild til kröfugerðarinnar um þessi atriði og beri, vegna samhengis allra dómkrafnanna, að vísa málinu í heild sinni frá dómi.

Kveða stefndu að í reynd megi telja fráleitt að krafa stefnanda, eins og hún sé úr garði gerð hvað þetta varði, geti komið til efnisumfjöllunar dómsins þar sem fyrir liggi að bæði Lyfjaverslun Íslands hf. og fyrrum eigendur A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. séu sammála um að samningurinn frá l. desember 2000 og samruni Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf.  og Lyfjaverslunar Íslands hf. séu gildir löggerningar.  Vilji Lyfjaverslunar Íslands hf. standi ekki til þess að veita viðtöku þeim greiðslum sem stefnandi vilji að fyrrum eigendur A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. greiði til Lyfjaverslunar Íslands hf. Á sama hátt vilji Lyfjaverslun Íslands hf. heldur ekki, gegn því að fyrrum eigendur A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélag A. Karlssonar ehf. bjóði fram þessar greiðslur, skila til þeirra öllu hlutafé í A. Karlssyni hf. Yrði því dómsniðurstaða sem tæki til greina kröfu stefnanda um þetta í reynd markleysa, enda gæti hann ekki átt neina aðild að fullnustu hennar samkvæmt aðfararlögum nr. 90/1989.  Megi af þessari ástæðu jafnframt telja að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af umfjöllun um kröfur sínar, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Þá sé málsreifun í stefnu ekki sem skyldi.  Samkvæmt meginreglu 80. gr. laga nr. 91/1991 beri í stefnu að gera með skýrum hætti grein fyrir þeim kröfum sem málssókn sé reist á, við hvaða réttarsamband sé miðað og hvernig það hafi stofnast.  Verulega bresti á að þessa sé gætt af hálfu stefnanda.  Stefnandi geri í stefnunni enga grein fyrir því hvaða atriði málsins það séu sem færi honum aðild til að gera réttarkröfur um gildi samnings fyrrum eigenda A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. og Lyfjaverslunar Íslands hf. frá l. desember 2000 eða hvernig sú aðild hafi stofnast.  Þá sé heldur ekkert vikið að því í stefnu hvaða atriði færi stefnanda aðild að kröfu um viðurkenningu á ógildi samruna Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. og Lyfjaverslunar Íslands hf. sem samþykktur var á hluthafafundi í Eignarhaldsfélagi A. Karlssonar ehf. og á stjórnarfundi í Lyfjaverslun Íslands hf. sem haldnir hafi verið 29. mars 2001 og tilkynntur hafi verið til Hlutafélagaskrár 20. apríl 2001.  Það sé vissulega svo samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/ 1991 að aðildarskortur teljist efnisþáttur í máli og leiði til sýknu.  Það hljóti hins vegar að heyra til málsreifunar að stefnandi, sem geri dómkröfur um réttarsamband tveggja annarra lögaðila, geri að minnsta kosti einhverja grein fyrir því á hverju hann byggi aðild sína að slíkum kröfum en stefnandi geri enga tilraun til þess í stefnunni.  Sé málið því vanreifað að þessu leyti og hljóti vankantar á málatilbúnaði stefnanda að vera þess eðlis að vísa beri málinu frá dómi.

Þá séu dómkröfur stefnanda ekki eins skýrar og gera megi kröfu til og áskilið sé í 80. gr. laga nr. 91/1991.  Hafi samningurinn frá 1. desember 2000, sem 1. tl. dómkröfu stefnanda lúti að, ekki falið í sér kaup Lyfjaverslunar Íslands hf. á öllum hlutum fyrrum eigenda A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélagsins A. Karlssonar ehf. í A. Karlssyni hf. líkt og segi í dómkröfu stefnanda.   Samningurinn hafi falið í sér að Lyfjaverslun Íslands hf. myndi sameinast Eignarhaldsfélagi A. Karlssonar ehf. eftir að Eignarhaldsfélag A. Karlsson ehf. hefði eignast alla hluti í A. Karlssyni ehf.  Sé því um verulega ónákvæmni stefnanda að ræða við gerð dómkröfu sinnar, sem leiði til frávísunar.  Þá geri stefnandi í kröfugerð sinni kröfu um að skylda fyrrum eigendur A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélagsins A. Karlssonar ehf. in solidum til að skila Lyfjaverslun Íslands hf. hlutafé í því félagi.  Kröfugerð sem þessi fái ljóslega ekki staðist varðandi greiðslu í ákveðnum takmörkuðum verðmætum, svo sem hluti í félagi og beri af þessari ástæðu að vísa kröfunni frá dómi.

Öll þau atriði sem að framan eru rakin, ýmist ein og sér, eða virt heildstætt telja stefndu að eigi að leiða til frávísunar málsins. 

V

Í máli þessu hagar stefnandi kröfugerð sinni með þeim hætti að hann krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennt verði með dómi að samningur sá sem stefndi, Lyfjaverslun Íslands hf., gerði við aðra meðstefndu, um kaup stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf,. á hlutabréfum meðstefndu í hlutafélaginu A. Karlssyni hf. sé ógildur.  Þá krefst hann þess að viðurkennt verði með dómi að samruni stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. sé ógildur. Loks er þess krafist að þeir stefndu sem eru fyrrum eigendur A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. verði dæmdir til að endurgreiða stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., in solidum 332.500.000 krónur auk þess sem þeir verði dæmdir in solidum til að afhenda stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hlutabréf í stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., að nafnvirði 80.000.000 krónur, allt framangreint gegn framsali stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., á hlutabréfum í A. Karlssyni hf. að nafnvirði 9.000.000 krónur til fyrrum eigenda A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf.  

Verður málatilbúnaður stefnanda ekki skilinn á annan veg en þann en hann telji sig sem hluthafa í stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um að viðurkennt verði að framangreindir samningar verði ógildir og á sama hátt hafi hann lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um aðrar kröfur sínar vegna samhengis þeirra við kröfur hans um ógildingu samninganna.  Í stefnu gerir stefnandi ekki skýra grein fyrir því hvaða atriði það séu sem færi honum aðild til að gera dómkröfur um gildi samningsins frá 1. desember 2000 milli stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., og annarra stefndu sem eru fyrrum eigendur A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. eða hvernig sú aðild hafi stofnast.  Þá er heldur ekkert vikið að því í stefnu hvaða atriði færi honum aðild að kröfu um viðurkenningu á að samruni Eignarhaldsfélags A. Karlssonar ehf. og stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., sé ógildur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 leiða varnir sem byggðar eru á aðildarskorti til sýknu.  Þykir þó verða að fallast á það með stefndu að það varði reifun máls að stefnandi, sem gerir dómkröfur um réttarsamband annarra lögaðila en hans sjálfs, geri skýra grein fyrir á hverju hann byggi aðild sína að slíkum kröfum.  Þykir sú staðreynd að stefnandi er hluthafi í stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., ekki skýra aðild hans að máli þessu til hlítar, þótt hann kunni að hafa hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort réttindum hans sem hluthafa hafi verið raskað með fyrrgreindum aðgerðum.  Þá liggur fyrir að stefndu eru sammála því að umdeildir samningar séu gildir löggerningar og því örðugt að sjá hvernig stefnandi getur haft hagsmuni af umfjöllun um kröfur sínar, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991, þar sem hann krefst ákveðinna réttinda til handa stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., í óþökk við þann sem réttindanna á að njóta.  Þykir stefnandi ekki hafa rökstutt það með skýrum hætti hvernig hann hafi hagsmuni af því að fá dóm fyrir kröfum sínum og er málið því vanreifað að því leyti og því um ágalla á málatilbúnaði hans að ræða þótt ekki þyki það eitt og sér leiða til frávísunar málsins.  Þá er og vandséð hvernig stefndu, aðrir en Lyfjaverslun Íslands hf., verði  skyldaðir til að afhenda stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hlutabréf samtals að nafnverði 80.000.000, in solidum, eins og kröfuliður 4 í dómkröfum stefnanda gerir ráð fyrir.

Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 eru gerðar kröfur um skýra afmörkun sakarefnis og misbrestur á því varðar frávísun máls en það er meginregla íslensks réttar að sá sem gerir kröfu í dómsmáli þarf að gera skýra grein fyrir grundvelli krafna sinna og haga málatilbúnaði sínum þannig að málsgrundvöllurinn sé skýr.   Þá er boðið í 1. ml. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 að niðurstaða dóms megi ekki vera þannig að hún eigi að ráðast af síðari atburðum.  Samkvæmt því mega réttindi samkvæmt dómi ekki vera háð því að ákveðinn síðari atburður þurfi að gerast til að réttindin verði virk.  Þessi regla hefur þannig áhrif á það hvernig kröfugerð megi vera í einkamáli og því hvernig sakarefnið verði mótað enda er kröfugerð málsaðila, krafa um ákveðna niðurstöðu í dómsmáli.  Kröfugerð má því ekki vera þannig úr garði gerð að útilokað sé að taka hana til greina í dómi.

Frá þessari meginreglu 1. ml. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 eru tvær undantekningar tilgreindar í 2. ml. ákvæðisins.  Í fyrsta lagi sú að í dómi má kveða á um skyldu stefnda til annars en peningagreiðslu að viðlögðum dagsektum og í öðru lagi er heimild til að leggja skyldu á stefnda í dómi með þeim skilmálum að stefnandi láti af hendi tiltekið endurgjald til stefnda síðar.  Eru þetta einu undantekningarnar frá fyrrgreindri meginreglu um að niðurstaða um sakarefni verði að ráðast af atvikum sem eru þegar að baki við uppkvaðningu dóms. 

Eins og rakið hefur verið gerir kröfugerð stefnanda ráð fyrir að stefndu, aðrir en Lyfjaverslun Íslands hf., verði skyldaðir með dómi til að inna af hendi greiðslu til stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., á peningum og hlutafé í stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., gegn því að þau atvik komi síðar til að stefndi, Lyfjaverslun Íslands hf., framselji meðstefndu alla hluti í A. Karlssyni hf.  Með vísan til framangreinds ákvæðis 1. ml. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 fer kröfugerð stefnanda í bága við ákvæðið og sú undantekning frá ákvæðinu varðandi heimild til að verða við kröfu um að stefnda verði gert að leysa af hendi skyldu gegn tilteknu gagngjaldi úr hendi stefnanda getur ekki átt við því að sú skylda sem stefnandi ætlar fyrrum eigendum A. Karlssonar hf. og Eignarhaldsfélagi A. Karlssonar ehf. að inna af hendi er ekki háð tilteknu gagngjaldi úr hendi stefnanda, eins og áskilið er í ákvæðinu, heldur háð tilteknu gagngjaldi úr hendi stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf.  Er kröfugerð stefnanda að þessu leyti því þannig úr garði gerð að dómur verður ekki á hana lagður og vegna samhengis dómkrafna á það sama við um allar dómkröfur stefnanda.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið þykja slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að óhjákvæmilegt er að verða við kröfu stefndu um að vísa málinu frá dómi í heild sinni.

Eftir atvikum þykir rétt að stefnandi greiði stefndu sameiginlega 125.000 krónur í málskostnað.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Af hálfu stefnanda flutti málið Hróbjartur Jónatansson hrl. en af hálfu stefndu flutti málið Reimar Pétursson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi Jóhann Óli Guðmundsson greiði stefndu, Lyfjaverslun Íslands hf., Aðalsteini Karlssyni, Heiðu Láru Aðalsteinsdóttur, Hildi Sesselju Aðalsteinsdóttur, Tómasi Aðalsteinssyni, Bjarna Halldórssyni, Jóhannesi Blöndal, Haraldi Gunnarssyni og Lárusi Blöndal 125.000 krónur í málskostnað sameiginlega.