Hæstiréttur íslands

Mál nr. 57/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur


Þriðjudaginn 20. janúar 2015.

Nr. 57/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Guðmundur Þórir Steinþórsson saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Arnar Ingi Ingvarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 4. mgr. 33. gr. a útlendingalaga nr. 96/2002.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. janúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns til framkvæmdar kæmi ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda hann aftur til Finnlands, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. janúar 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að honum verði gert að halda sig á afmörkuðu svæði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2015.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess með vísan til 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að erlendum aðila, sem kveðst heita X og vera fæddur [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd brottvísunar hans til Finnlands fer fram, þó eigi lengur en til laugardagsins 31. janúar 2015, kl. 16:00.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu lögreglustjóra verði hafnað, til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni og til þrautavara að honum verði gert að halda sig á afmörkuðu svæði.

I

                Í greinargerð lögreglustjóra er þess í upphafi getið að varnaraðili, sem sé útlendingur, hafi gefið sig fram við lögreglu í ágúst sl. og óskað eftir hæli hér á landi. Mál hans hafi verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og lyktað með því að Innanríkisráðuneytið staðfesti, hinn 29. október 2014, ákvörðun Útlendingastofnunar frá 17. september 2014, um að hælisbeiðni hans yrði ekki tekin til meðferðar hér á landi og að hann yrði endursendur ásamt beiðninni til Finnlands á grundvelli svonefndrar Dyflinarreglugerðar. Við birtingu úrskurðarins hinn 9. desember sl. hafi varnaraðili óskað eftir frestun réttaráhrifa á grundvelli 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.

                Til að tryggja framkvæmd ákvörðunarinnar hafi lögregla ákveðið í kjölfarið að varnaraðila yrði gert að sæta skilyrðum samkvæmt 33. gr. a. útlendingalaga nr. 96/2002, þ.e. var honum gert að tilkynna sig til lögreglunnar á Suðurnesjum tvisvar á sólahring og gert að halda sig í Reykjanesbæ, uns ákvörðunin kæmi til framkvæmda. Hafi varnaraðila verið kynnt þessi ráðstöfun að viðstöddum túlki þegar birting hafi loks tekist á úrskurði Innanríkisráðuneytisins, hinn 5. janúar sl.

                Þegar birting hafi tekist 5. janúar sl. hafi varnaraðili verið handtekinn, þar sem hann hafi verið að reyna að komast um borð í skip í Sundahöfn Reykjavík en hann hafi tvívegis áður reynt að komast um borð í fraktskip, þar af hafi hann einu sinni fundist um borð í skipi sem hafi verið komið var um 180 sjómílur út af Reykjanesskaga. Þá liggi fyrir hjá lögreglu mál þar sem varnaraðili sé grunaður um þjófnað og þá hafir hann komið við sögu í átökum milli hælisleitenda í Reykjanesbæ.

                Innanríkisráðuneytið hafi hafnað beiðni varnaraðila um frestun réttaráhrifa úrskurðar þess 15. janúar sl.

                Síðastliðna daga hafi varnaraðili, að mati lögreglu, brotið gegn þeim skilyrðum sem honum hafi verið sett, annars vegar varðandi tilkynningaskyldu og hins vegar varðandi það að halda sig innan Reykjanesbæjar en hvað síðastnefnt varði sé meðal annars upplýst um að varnaraðili hefði verið á höfuðborgarsvæðinu í gær, 16. janúar. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi handtekið varnaraðila í gær, 16. janúar 2015, vegna ætlaðra brota á áðurnefndum skilyrðum. Þá liggi fyrir að finnsk yfirvöld hafi samþykkt að taka við varnaraðila og sé áætlað að hann fari í lögreglufylgd frá Íslandi, þriðjudaginn 20. janúar nk.

II

                Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri að ástæða sé til að ætla að varnaraðili muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar. Lögregla hafi sem áður segir beitt vægustu úrræðum sem henni séu heimil, samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 33. gr. a. útlendingalaga, þar sem talin hafi verið ástæða til að ætla að þolandi myndi koma sér undan framkvæmd brottvísunar. Við mat á því telji lögregla að almennt sé ástæða til að ætla að útlendingur, sem brottvísa eigi frá landi, muni reyna að koma sér undan framkvæmd ákvörðunar. Heildarmat á aðstæðum í máli varnaraðila hafi þegar leitt til þess að frekari ástæða sé til að ætla að svo kunni að fara, sbr. meðal annars þau atriði sem tiltekin séu í 2. mgr. 33. gr. a. útlendingalaga. Telji lögregla að í því máli sem hér um ræðir sé sýnt, í fyrsta lagi að varnaraðili hafi með háttsemi sinni meðal annars forðast eða hindrað undirbúning heimfarar, sbr. f-lið, með því að reyna að komast úr landi á ólögmætan hátt, tilkynna sig ekki til lögreglu og halda sig á ákveðnum svæðum, í öðru lagi hafi hann ekki upplýst stjórnvöld í hælisumsókn sinni um fyrri hælisumsókn í Finnlandi, sbr. g-lið, í þriðja lagi kunni hann að bera ábyrgð á röskun á friði í húsnæði hælisleitanda, sbr. h-lið, og loks telji lögreglustjóri í fjórða lagi að færa megi rök fyrir því að tilraunir hans til að komast úr landi með fraktskipum séu ógn við almannahagsmuni, sbr. i-lið.

                Að mati lögreglustjóra sé sýnt að þau úrræði sem beitt hafi verið nýtist ekki til að ná tilætluðu markmiði, þ.e. að tryggja framkvæmd brottvísunar og hafi varnaraðili því verið handtekin af lögreglu til að tryggja návist hans vegna brottvísunarinnar, sbr. 3. mgr. 33. gr. a. útlendingalaga. Raunveruleg hætta sé til staðar á því að varnaraðili muni annað hvort leynast eða reyna að komast úr landi, meðal annars á þann hátt sem hann hafi orðið uppvís að, til að koma í veg fyrir að ákvörðunin komi til framkvæmda. Sé því nauðsynlegt að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns brottvísun kemur til framkvæmda og að lagaskilyrði séu fyrir hendi til að fallist verði á kröfuna.

                Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 4. mgr. 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd brottvísunar hans til Finnlands nái fram að ganga, þó eigi lengur en til laugardagsins 31. janúar 2015.

III

Eins og að framan er rakið staðfesti Innanríkisráðuneytið með úrskurði 29. október 2014 ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að beiðni varnaraðila um að honum verði veitt hæli á Íslandi sem flóttamanni verði ekki tekin til efnismeðferðar og hann skuli sendur ásamt hælisbeiðni til Finnlands. Þá hefur ráðuneytið hafnað kröfu varnaraðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði ráðuneytisins.

Í 4. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002 um útlendinga er kveðið á um að ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd sé heimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála eftir því sem við eigi.  Í máli þessu liggur fyrir að finnsk yfirvöld hafa samþykkt að taka aftur við varnaraðila. Munu íslenskir lögreglumenn fylgja honum til Finnlands og er áætlað að hann fari í lögreglufylgd frá Íslandi þriðjudaginn 20. janúar nk.

Dómurinn telur í ljós leitt að vægari úrræði en gæsluvarðhald nýtist ekki til að ná því markmiði að tryggja framkvæmd brottvísunar varnaraðila. Samkvæmt framansögðu verður að telja að raunveruleg hætta sé á því að varnaraðili muni annað hvort leynast eða reyna að komast úr landi til að koma í veg fyrir að ákvörðun um brottvísun hans komi til framkvæmda, sbr. 1. og 3. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002, en af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hefur ítrekað reynt að komast úr landi á ólöglegan hátt. Verður því með heimild í 4. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002 fallist á kröfu lögreglustjóra með þeim hætti sem kveðið er á um í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Erlendum aðila, sem kveðst heita X og vera fæddur [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd brottvísunar hans til Finnlands fer fram, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. janúar 2015, kl. 16:00.