Hæstiréttur íslands
Mál nr. 803/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Miðvikudaginn 16. desember 2015. |
|
Nr. 803/2015.
|
Alfacom General Trading ehf. (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.) gegn Bakkagranda ehf. og Ásgeiri Kolbeinssyni (Hilmar Magnússon hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni A um dómkvaðningu matsmanns til að skoða og meta fjárhagslegt tjón sem A taldi sig hafa orðið fyrir vegna hátternis B og Á í tengslum við stjórnun og eignarhald á félaginu 101 Austurstræti ehf. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að matsbeiðnin væri þannig úr garð gerð að skorti mjög á að A hefði gert víðhlítandi grein fyrir þýðingu hennar fyrir sakarefni málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gerðu aðilarnir með sér kaupsamning 16. október 2013 þar sem sóknaraðili keypti af varnaraðilum allt hlutafé einkahlutafélagsins 101 Austurstræti. Hlutaféð var að nafnvirði 500.000 krónur og var kaupverðið 95.000.000 krónur. Kaupverðið skyldi greiðast í þrennu lagi, 40.000.000 krónur við gerð samningsins, 5.000.000 krónur eigi síðar en tveimur mánuðum eftir undirskrift hans og 50.000.000 krónur innan 14 mánaða frá undirritun samningsins. Sóknaraðili greiddi tvær fyrstu greiðslurnar og í samræmi við samninginn fékk hann þá afhent 50% hlutafjárins. Eftirstöðvarnar eru ógreiddar og krefja varnaraðilar með máli þessu sóknaraðila um greiðslu þeirra auk févítis sem samkvæmt samningi þeirra skyldi vera 5.000.000 krónur ef lokagreiðslan bærist of seint.
Sóknaraðili telur varnaraðila hafa vanefnt kaupsamninginn og tilkynnti hann þeim með bréfi 12. nóvember 2014 að hann rifti kaupum á 50% eignarhlut í 101 Austurstræti ehf. Höfðaði hann gagnsök í máli þessu með stefnu 14. janúar 2015 og krafðist viðurkenningar á framangreindri riftun auk þess sem hann krafði varnaraðila um ótilgreinda fjárhæð í „skaðabætur og/eða afslátt“, svo og varnaraðilann Ásgeir um skaðabætur að fjárhæð 13.125.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Með úrskurði héraðsdóms 5. júní 2015 var vísað frá dómi öðrum kröfum sóknaraðila í gagnsök en um viðurkenningu riftunar. Eins og málið liggur fyrir nú stendur aðeins eftir af kröfum sóknaraðila krafa um sýknu í aðalsök og krafa í gagnsök um viðurkenningu á riftun.
Í beiðni sóknaraðila 7. september 2015 sem málið varðar var þess krafist að dómkvaddur yrði maður til að „skoða og meta fjárhagslegt tjón sem matsbeiðandi telur sig hafa orðið fyrir vegna hátternis matsþola í tengslum við stjórnun og eignarhald á félaginu 101 Austurstræti ehf.“ Eru matsspurningar settar fram í níu stafliðum og greinast sumir þeirra í fleiri undirliði. Eins og beiðnin er gerð úr garði skortir mjög á að sóknaraðili hafi gert viðhlítandi grein fyrir þýðingu matsgerðar fyrir sakarefni málsins eins og það liggur nú fyrir. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum hvorum fyrir sig kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Alfacom General Trading ehf., greiði hvorum varnaraðila, Bakkagranda ehf. og Ásgeiri Kolbeinssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. október sl., var í aðalsök höfðað 11. desember 2014 af aðalstefnendum, Bakkagranda ehf., Eiðismýri 15 á Seltjarnarnesi, og Ásgeiri Kolbeinssyni, Vesturbrún 16 í Reykjavík, á hendur gagnstefnanda, Alfacom General Trading ehf., Garðastræti 17 í Reykjavík. Aðalsök var þingfest 16. desember 2014.
Dómkröfur aðalstefnenda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða hvorum þeirra um sig 27.500.000 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þingfestingardegi til greiðsludags, gegn afhendingu á hlutafé í 101 Austurstræti ehf. að nafnverði 125.000 krónur. Þá krefjast aðalstefnendur málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Gagnstefnandi krefst aðallega sýknu af dómkröfum aðalstefnenda í aðalsök, en til vara þess að kröfur þeirra verði verulega lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Gagnstefnandi höfðaði gagnsakarmál á hendur aðalstefnendum með stefnu birtri 14. janúar 2015. Með úrskurði dómsins 5. júní sl. var dómkröfum í gagnsök vísað frá dómi, utan kröfu gagnstefnanda um að viðurkennd verði með dómi riftun hans á kaupum á 50% eignarhlut í félaginu 101 Austurstræti ehf., sbr. C-lið kaupsamnings á milli málsaðila um kaup gagnstefnanda á öllum hlutum aðalstefnenda í 101 Austurstræti ehf., dags. 16. október 2013, sem lýst var yfir í bréfi, dags. 12. nóvember 2014, og sent var stjórnarformanni aðalstefnanda, Bakkagranda ehf., og aðalstefnanda, Ásgeiri, í ábyrgðarbréfi þann dag og ítrekuð var 15. janúar 2015. Þá er krafist málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Aðalstefnendur krefjast sýknu af kröfu gagnstefnenda í gagnsök og málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Í þinghaldi 9. september sl. lagði gagnstefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Aðalstefnandi lýsti því að hann mótmælti framkominni matsbeiðni. Var ágreiningurinn tekinn til úrskurðar 14. október sl. að loknum munnlegum málflutningi.
I
Á árinu 2013 ákváðu aðalstefnendur að selja öll hlutabréf félags síns, 101 Austurstrætis ehf., sem þeir áttu saman til helminga. Heildarnafnverð hlutafjár var 500.000 krónur. Félagið rekur skemmtistaðinn Austur að Austurstræti 7 í Reykjavík. Félagið leigir húsnæði skemmtistaðarins af Eik ehf.
Forsvarsmenn gagnstefnanda höfðu áhuga á því að kaupa félagið og réðu Svein Andra Sveinsson hrl. til þess að aðstoða sig við kaupin. Gerði hann m.a. áreiðanleikakönnun á félaginu. Að henni lokinni, 16. október 2013, skrifuðu aðilar undir kaupsamning og hluthafasamkomulag.
Samkvæmt kaupsamningi aðila var kaupverð á öllu hlutafé félagsins 95.000.000 króna. Greiðslur skyldu fara þannig fram að 40.000.000 króna skyldu greiðast við undirritun og 5.000.000 króna eigi síðar en tveimur mánuðum eftir undirskrift. Samkvæmt B-lið kaupsamningsins skyldu þessar greiðslur jafngilda greiðslu fyrir 50% hlutafjárins. Óumdeilt er að gagnstefnandi innti þessar greiðslur af hendi og tók við 50% hlutafjárins.
Samkvæmt C-lið kaupsamningsins skyldu eftirstöðvar kaupverðsins 50.000.000 króna greiðast innan 14 mánaða frá undirritun hans. Samkvæmt J-lið samningsins skyldi gagnstefnandi greiða aðalstefnendum 5.000.000 króna sekt ef framangreind greiðsla bærist of seint. Gagnstefnandi hefur ekki innt lokagreiðsluna af hendi.
Samkvæmt F-lið kaupsamningsins skyldu stjórnarmenn 101 Austurstrætis ehf. verða fjórir við fyrstu greiðslu kaupverðsins. Í stjórn félagsins tóku sæti, af hálfu aðalstefnenda, aðalstefnandi, Ásgeir Kolbeinsson, og Kolbeinn Pétursson og af hálfu gagnstefnanda Kamran Keivanlou, sem jafnframt er framkvæmdastjóri og meðstjórnandi gagnstefnanda, og Gholamhossein Shirazi, stjórnarformaður gagnstefnanda. Á stjórnarfundi 25. október 2013 var Kamran kjörinn stjórnarformaður félagsins. Samkvæmt kaupsamningnum skyldi aðalstefnandi, Ásgeir, vera framkvæmdastjóri félagsins, a.m.k. þar til gagnstefnandi hefði greitt kaupverðið samkvæmt C-lið samningsins og var einnig gerður við hann sérstakur ráðningarsamningur. Þá var jafnframt kveðið á um það að framkvæmdastjórinn og Gholamhossein skyldu fara sameiginlega með prókúru og þyrfti samþykki þeirra beggja fyrir öðrum ráðstöfunum en greiðslu hefðbundinna viðskiptareikninga. Vegna þessa gaf Gholamhossein út umboð til Kamrans svo að hann gæti undirritað fyrir sig.
Í L-lið kaupsamnings aðila var kveðið á um að yrði hagnaður félagsins minni en 35.000.000 króna fyrir skatta á næstu 12 mánuðum eftir undirritun samningsins, skyldi bæta hlut gagnstefnanda með því að hluta af hagnaði aðalstefnanda, Ásgeirs, yrði ráðstafað til hans þannig að hagnaður hans yrði 17.500.000 krónur fyrir skatta í samræmi við eignarhald aðila á hlutabréfum á þeim tíma. Samkvæmt K-lið samningsins skyldu hluthafar fá greiddan arð á þriggja mánaða fresti, væri það mögulegt.
Fljótlega eftir undirritun kaupsamningsins fór að bera á ósamkomulagi aðila. Aðalstefnendur kveða að Kamran hafi farið að gefa fyrirskipanir sem ýmist hafi verið á borði stjórnar eða framkvæmdastjóra og hafi gengið gegn hagsmunum félagsins. Kamran hafi einnig haft í hótunum við starfsfólk og gesti skemmtistaðarins Austur. Félagið 101 Austurstræti ehf. greiddi gagnstefnanda 4.375.000 krónur, sem hlutdeild í hagnaði félagsins fyrstu þrjá mánuðina eftir kaupin, þann 29. janúar 2014. Endurskoðandi félagsins benti á að slíkar arðgreiðslur væru óheimilar. Aðalstefnandi, Ásgeir, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins, óskaði þess í kjölfarið að arðgreiðslan yrði bakfærð og endurgreidd en gagnstefnandi hafnaði því.
Þá telja aðalstefnendur að Kamran hafi, með blekkingum, fengið útgefinn aðgangslykil að bankareikningum félagins. Hann hafi gefið út tilhæfulausan reikning og fengið starfsfólk Íslandsbanka hf. til þess að greiða 4.381.319 krónur þann 29. apríl 2014. Íslandsbanki hf. hefur kært framangreint til lögreglu. Þá kveða aðalstefnendur að Kamran hafi jafnframt skipað gjaldkera félagsins að stöðva greiðslur vegna húsaleigu.
Þann 1. maí 2014 var öllum greiðsluposum 101 Austurstrætis ehf. hjá Borgun hf. lokað. Aðalstefnandi, Ásgeir, hafði samband við neyðarvakt Borgunar hf. og var þá skýrt frá því að Kamran hefði þann sama dag sagt upp öllum posasamningum félagsins. Reyndist ekki unnt að afgreiða viðskiptavini félagsins það kvöld. Aðalstefnendur kveðast engar skýringar hafa fengið á framkomu Kamrans.
Kamran boðaði til stjórnarfundar í 101 Austurstræti ehf. þann 5. júní 2014, en á dagskrá var staða framkvæmdastjóra og aðgangur hans að fyrirtækjabanka félagsins. Af hálfu aðalstefnenda var gerð athugasemd við dagskrá fundarins. Kamran taldi fundinn hafa tekið ákvörðun um að víkja framkvæmdastjóra frá störfum og sendi í framhaldi tilkynningu þar um til ríkisskattstjóra. Með úrskurði ríkisskattstjóra 21. október 2014 var synjað um skráningu tilkynningar um breytingu á framkvæmdastjórn og prókúru. Meðan á ágreiningnum stóð var skráð athugasemd í fyrirtækjaskrá um að ágreiningur væri um stöðu framkvæmdastjóra. Aðalstefnendur telja að þetta hafi leitt til verulegra erfiðleika í rekstri félagsins.
Fyrirsvarsmenn gagnstefnanda sendu ríkisskattstjóra svokallaðar „núllskýrslur“ vegna virðisaukaskatts 101 Austurstrætis ehf. vegna tveggja virðisaukaskattstímabila ársins 2014. Framkvæmdastjóri félagsins hafði þegar sent inn skýrslur vegna sömu tímabila. Í kjölfarið voru gerðar athugasemdir við skýrsluskil félagsins af hálfu eftirlitssviðs ríkisskattstjóra.
Boðuð hefur verið sekt á hendur 101 Austurstræti ehf. þar sem ársreikningi 2013 hefur ekki verið skilað. Aðalstefnendur kveða Kamran neita að undirrita ársreikninginn og hafa gefið þær skýringar að hann ætli sér að knésetja félagið.
Þá óskaði Kamran þess að Íslandsbanki hf. lokaði bankareikningum félagsins og lagði fram vottorð hlutafélagaskrár um að ágreiningur væri um stöðu framkvæmdastjóra. Var reikningum í kjölfarið lokað. Aðalstefnandi, Ásgeir, fékk reikningana opnaða að nýju, en með bréfi, dags. 24. nóvember 2014, tilkynnti bankinn að öllum bankaviðskiptum félagsins væri sagt upp frá og með 1. janúar 2015. Í kjölfarið, með bréfi dags. 27. nóvember 2014, sagði Borgun hf. upp þjónustusamningi sínum við 101 Austurstræti ehf.
Gagnstefnandi telur að aðalstefnandi, Ásgeir, hafi ekki virt ákvæði kaupsamnings aðila um sameiginlega prókúru. Jafnframt hafi aðalstefnendur ekki sagt rétt frá skuldum 101 Austurstrætis ehf. við gerð áreiðanleikakönnunar og háar fjárhæðir hafi verið færðar af reikningum félagsins til félaga í eigu aðalstefnanda, Ásgeirs. Þá hafi hann notað posa annars skemmtistaðar fyrir tekjur skemmtistaðarins Austur. Kamran hafi í framhaldi óskað lögbanns á úttektir af reikningum félagsins, lokunar á bankareikningum, haldið tvívegis stjórnarfundi til þess að víkja framkvæmdastjóra frá störfum og leitað til ríkisskattstjóra til þess að fá skráða athugasemd um ágreining vegna framkvæmdastjóra. Þá hafi hann kært „athæfi“ aðalstefnanda, Ásgeirs, til sérstaks saksóknara. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2014, lýsti gagnstefnandi yfir riftun á kaupum á 50% hlut í 101 Austurstræti ehf. samkvæmt C- og J-liðum kaupsamnings aðila frá 16. október 2013. Riftunin var ítrekuð með bréfi 8. janúar 2015.
II
Í matsbeiðni gagnstefnanda kemur fram að hann óski dómkvaðningar sérfróðs og óvilhalls mats- og skoðunarmanns til þess að skoða og meta fjárhagslegt tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna hátternis aðalstefnenda í tengslum við stjórnun og eignarhald á félaginu 101 Austurstræti ehf. Samkvæmt matsbeiðni gagnstefnanda eru matsefni eftirfarandi:
1. Var fjárhagsstaða félagsins 101 Austurstrætis ehf. í samræmi við það sem fram kom í áreiðanleikakönnun við undirritun kaupsamnings á milli matsbeiðanda og matsþola 16. október 2013?
a) Í því sambandi er þess sérstaklega óskað að reikningar (ársreikningar og árshlutauppgjör) og bókhald félagsins vegna áranna 2012 og 2013 verði skoðað og metið.
i. Þá er þess sérstaklega óskað að metið verði hver hafi verið hagnaður/tap félagsins annars vegar fyrstu sex mánuði ársins 2013 og hins vegar síðari sex mánuði ársins.
ii. Komi í ljós að hagnaður síðari sex mánuði ársins 2013 er lægri eða tap félagsins meira en fyrstu sex mánuði ársins er þess óskað að metið verði af hverju það stafi.
2. Hvert var virði félagsins 101 Austurstrætis ehf. sem hlutfall af umsömdu kaupverði við riftun matsbeiðanda á C-lið, sbr. A-lið, kaupsamnings aðila, þann dag sem riftunarbréf voru send til matsþola, eða 12. nóvember 2014 annars vegar og þann dag sem ítrekun á riftun var send matsþolum, þann 10. janúar 2015?
3. Leiði skoðun matsmanns skv. 1. og 2. lið í ljós að virði félagsins hafi rýrnað frá kaupum matsbeiðanda er þess óskað að kannað verði af hverju sú rýrnun stafi.
4. Þá er þess óskað að kannað verði og metið hvort reikningsskil og fjárhagsstaða félagsins hafi verið með þeim hætti að félaginu hafi verið fært að greiða út arð til hluthafa, þ. á m. matsbeiðanda, þ.e. annars vegar vegna ársins 2013 og hins vegar vegna ársins 2014, án tillits til þess að lögum samkvæmt var það ekki heimilt vegna þess að staðfestir ársreikningar lágu ekki fyrir. Þá er þess jafnframt óskað að metið verði hvort reikningsskil og fjárhagsstaða félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 hafi verið með þeim hætti að félaginu hafi verið fært að greiða út arð til hluthafa.
5. Að kannað verði hvað félagið 101 Austurstræti ehf. hefur greitt hluthöfum sínum í arð vegna áranna 2013, 2014 og 2015 og hverjir hafi notið arðgreiðslna. Óskað er eftir að sundurgreint verði hvaða fjárhæð hver og einn hluthafi fékk í arð eða annars konar greiðslur frá félaginu (þó annað en laun).
6. Að kannað verði hvað félagið 101 Austurstræti ehf. hefur greitt matsþolum í laun á árunum 2013, 2014 og 2015. Óskað er eftir að sundurgreint verði hvaða fjárhæð hvor matsþoli fékk í laun.
7. Að kannað verði hvort félagið 101 Austurstræti ehf. hafi á tímabilinu frá 16. október 2013 til dagsins í dag stundað viðskipti við skylda aðila, einkum þá:
a) Gulleyjan ehf., kt. 620711-0120,
b) Kolb Entertainment, kt. 440311-0830,
c) Bollasúpur ehf., kt. 690995-3019 (hét áður Austurstræti Eignarhald ehf.)
d) Austurstræti 5 ehf., kt. 670614-1740,
e) matsþola Ásgeir Kolbeinsson
f) matsþola Bakkagranda ehf.
g) eða hvort millifærslur hafi átt sér stað af reikningum félagsins 101 Austurstrætis ehf. yfir á reikninga fyrrgreindra aðila sem tilgreindir eru í stafliðum a)-f) eða annarra skyldra aðila.
8. Þá er þess óskað að matsmaður skoði notkun matsþola Ásgeirs á debet- og kreditkortum félagsins og gefi niðurstöðu um fjárhæðir og tilgang greiðslna á tímabilinu 16. október 2013 til dagsins í dag sundurliðað þannig að hægt sé að sjá hvaða fjárhæðir matsþoli Ásgeir hefur notað í persónulegar þarfir annars vegar og í þágu félagsins hins vegar. Þá er þess óskað að matsmaður kanni hvort matsþoli Ásgeir hafi gætt þess að fá heimild hjá Gholamhossein prókúruhafa við notkun fjármunanna.
9. Þá er þess óskað að matsmaður gefi álit sitt á öðrum atriðum sem hann telur máli skipta með vísan til þess sem fram kemur í málsatvikalýsingu í matsbeiðni.
III
Aðalstefnendur krefjast þess að hafnað verði beiðni gagnstefnanda um dómkvaðningu matsmanna. Mótmælin byggjast á því að beiðnin sé of seint fram komin, málsatvikum sé rangt lýst í beiðninni og hún lúti að atriðum sem ekki séu til umfjöllunar í málinu og sé því þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem aðalstefnendur gera athugasemdir við einstakar spurningar.
Aðalstefnendur telja að málsatvikum sé rangt lýst í matsbeiðni, en þar sé haldið fram atvikum sem ekki styðjist við gögn málsins. Í raun sé um að ræða málsástæður sem ekkert liggi fyrir um. Framsetning á matsbeiðninni sé því ámælisverð.
Matsbeiðni gagnstefnanda sé ekki í tengslum við kröfur hans í málinu. Hann taki það sjálfur fram að nota eigi hana til þess að byggja undir kröfur sem hann muni setja fram síðar. Engin grein sé gerð fyrir því hvað eigi að nota síðar og hvað lúti að þeim málsástæðum sem uppi séu í málinu.
Gagnstefnandi hafi áskilið sér rétt til öflunar matsgerðar vegna afsláttar af hinu selda vegna galla. Óljóst sé hins vegar hvernig matsbeiðnin geti tengst þessari málsástæðu.
Aðalstefnendur hafi orðið við áskorun gagnstefnanda um framlagningu gagna og hafi m.a. lagt fram skjöl sem sýni skuldastöðu 101 Austurstrætis ehf. nákvæmlega. Skýringar á skuldum sé að finna í gögnunum. Ljóst sé á þeim að engin skuld sé við Bollasúpur ehf. Um misskilning gagnstefnanda sé að ræða varðandi áreiðanleikakönnun, en staða félagsins hafi verið í samræmi við könnunina. Þá hafi gagnstefnandi fullan aðgang að bókhaldi félagsins.
Varðandi spurningu 1 sé ljóst að nákvæmt svar fáist ekki. Þá liggi þessar upplýsingar fyrir í ársreikningi auk þess sem óljóst sé hverju þetta eigi að skila. Spurningu 2 sé ekki hægt að svara eins og hún sé sett fram, en það vanti allar forsendur fyrir henni. Spurningin sé tilgangslaus í skilningi 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þá séu bótakröfur af hálfu gagnstefnanda ekki til umfjöllunar í málinu. Varðandi spurningu 3 sé á það bent að um sé að ræða félag í fullum rekstri sem eigi ekki aðrar eignir en reksturinn sjálfan. Gagnstefnandi hafi sjálfur gert allt í hans valdi til að stöðva reksturinn. Svar við spurningunni geti ekki komið þessu máli við. Varðandi spurningu 4 sé það mat hluthafa hvort arður sé greiddur út eða ekki. Matsmaður geti ekki metið þetta. Varðandi spurningu 5 liggi það fyrir í málinu að arður hafi ekki verið greiddur út á umræddum tíma vegna þess að fyrirsvarsmaður gagnstefnanda hafi neitað að koma á hluthafafundi. Varðandi spurningu 6 um laun aðalstefnenda sé ljóst að annar þeirra sé félag sem fái ekki greidd laun, en ráðningarsamningur hins liggi frammi í málinu með upplýsingum um laun hans. Varðandi spurningu 7 sé algerlega óljóst hvað hún eigi að sanna. Þá geti gögn málsins skorið úr um þetta. Varðandi spurningu 8 sé ómögulegt fyrir matsmann að meta hvaða notkun með greiðslukortum hafi verið í þágu aðalstefnanda Ásgeirs sjálfs og hvað hafi verið í þágu félagsins. Óljóst sé til hvers þetta eigi að leiða. Þá meti dómari það hvort þess hafi verið gætt að fá heimild prókúruhafa. Varðandi spurningu 9 sé bent á að málsatvikalýsing gagnstefnanda í matsbeiðni sé röng.
Þar sem matsbeiðnin geti ekki byggt undir málsástæður gagnstefnanda sé um tilgangslausa sönnunarfærslu að ræða. Þá sé beiðnin haldin verulegum göllum og ekki í samræmi við 9. kafla laga nr. 91/1991, en í matsbeiðninni komi ekki fram hvað aðili hyggist sanna með matinu og spurningarnar gefi það alls ekki til kynna.
Í greinargerð gagnstefnanda sem lögð hafi verið fram 20. janúar 2015 hafi verið boðað að óskað yrði mats um ýmis málefni og það hafi einnig verið gert í gagnstefnu. Þrátt fyrir þetta hafi enginn reki verið gerður að matsbeiðni fyrr en í þinghaldi 9. september sl. sem haldið hafi verið til þess að ljúka gagnaöflun og ákveða aðalmeðferð. Um skýrt brot á málshraðareglu sé að ræða.
IV
Gagnstefnandi telur að svör matsmanns við framangreindum spurningum muni renna stoðum undir málsástæður hans, en þeim sé ætlað að staðreyna sjónarmið um riftun. Ekki skipti máli þótt því sé lýst í matsbeiðni að ætlunin sé að nota matið síðar. Fyrst og fremst eigi að nota matið í þessu máli. Beiðnin sé í samræmi við áskilnað í greinargerð hans í aðalsök og gagnstefnu og hafi komið fram fljótlega eftir úrskurð vegna ágreinings um frávísun. Þá muni matið ekki tefja málið nema í stuttan tíma.
Almennt beri að fallast á beiðni um dómkvaðningu matsmanna nema beiðnin sé bersýnilega tilgangslaus til sönnunar. Matið fari fram á ábyrgð og áhættu matsbeiðanda sem beri kostnað af henni. Heimildir til öflunar matsgerðar séu rúmar, jafnvel þótt um sé að ræða atriði sem dómara beri að meta.
Gagnstefnandi bendi á að aðalstefnendur geti komið athugasemdum á framfæri við matsmann telji þeir málsatvikalýsingu ranga. Þá geti þeir óskað yfirmats séu þeir ósáttir við undirmatið.
Gagnstefnandi telji útilokað að halda uppi raunhæfum vörnum í málinu nema hann fái aðgang að bókhaldi 101 Austurstrætis ehf. með þessum hætti, þ.e. með öflun matsgerðar, þar sem hann hafi engin raunveruleg gögn um stöðu félagsins.
V
Eins og að framan greinir óskaði gagnstefnandi eftir því með matsbeiðni sem lögð var fram í þinghaldi 9. september sl. að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að skoða og meta fjárhagslegt tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna hátternis aðalstefnenda í tengslum við stjórnun og eignarhald á félaginu 101 Austurstræti ehf. Í matsbeiðninni kemur fram að með henni hyggist gagnstefnandi sanna að aðalstefnendur hafi vanefnt samning aðila verulega og þar með hafi riftun matsbeiðanda verið réttlætanleg. Þá hyggist matsbeiðandi nota matið til að sanna að aðalstefnendur hafi gefið rangar upplýsingar við söluna sem leiði til þess að um galla sé að ræða og þar með eigi gagnstefnandi rétt á afslætti af söluvirði félagsins eða skaðabótum, sannist sök aðalstefnenda og orsakatengsl. Vegna frávísunar fjárkrafna gagnstefnanda hyggist hann nota matið við gerð fjárkrafna síðar gegn aðalstefnendum.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafa aðilar máls forræði á því hverra gagna þeir afla til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómara að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar þar sem kveðið er á um að dómari geti meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar, eða matsbeiðnin lúti að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðir matsmenn, sbr. 2. mgr. 60. gr.
Andmæli aðalstefnenda gegn dómkvaðningu matsmanns byggjast einkum á því að atvikum sé rangt lýst í matsbeiðni og hún lúti að atriðum sem ekki séu til umfjöllunar í málinu. Þá sé beiðnin of seint fram komin.
Ljóst er að málsatvikalýsing í matsbeiðni gagnstefnanda byggist á umdeildum forsendum. Til þess er hins vegar að líta að matsmaður hefur frjálsar hendur um hvaða sjónarmið hann leggur til grundvallar við matsgerð sína og eftir atvikum hvaða gagna hann aflar sér til afnota við matið, en matsþoli á þess kost á matsfundi að koma að athugasemdum og ábendingum um framkvæmd matsins, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður matsbeiðandi að bera hallann af því ef sönnunargildi matsgerðar verður rýrara en ella vegna þess að lögð hefur verið til grundvallar í mati forsenda hans sem reynist ekki eiga við rök að styðjast. Verður dómkvaðningu matsmanns því ekki hafnað á þeim forsendum að atvikum sé rangt lýst í matsbeiðni.
Með úrskurði dómsins 5. júní sl. var vísað frá dómi kröfum sem gagnstefnandi hafði uppi á hendur aðalstefnendum um skaðabætur eða afslátt í gagnstefnu. Hugsanlegt tjón gagnstefnanda er því ekki til umfjöllunar í málinu og ljóst að spurningar sem að því lúta eru bersýnilega þýðingarlausar.
Í greinargerð gagnstefnanda í aðalsök er því lýst að hann hyggist afla sér matsgerðar til þess að meta fjárhæð lækkunar sem hann krefjist til vara á kröfum aðalstefnenda. Ekki verður séð að nein spurning lúti sérstaklega að þessu.
Kröfur gagnstefnanda um sýknu og riftun byggjast á því að aðalstefnendur hafi vanefnt samning aðila með því að hafa ekki virt ákvæði um prókúruumboð; skuld 101 Austurstrætis ehf. hafi verið hærri en komið hafi fram í áreiðanleikakönnun og rangar upplýsingar hafi verið gefnar um hagnað félagsins. Í greinargerð gagnstefnanda er vísað til tiltekinna dómskjala sem sýni fram á framangreind atriði.
Í matsbeiðninni er ekki greint á milli þess hvaða spurningum er ætlað að styðja málsástæður gagnstefnanda sem haldið er fram í málinu og hverjar þeirra eiga að sýna fram á tjón og vera notaðar síðar. Úr þessu var ekki bætt við munnlegan málflutning. Af spurningum gagnstefnanda í matsbeiðni verður ráðið að leitast sé við að undirbyggja fjárkröfur á hendur aðalstefnendum. Nokkuð óljóst er hvaða spurningar eiga að undirbyggja kröfur um riftun. Í matsbeiðni kemur þó fram varðandi spurningu 8 að hafi aðalstefnandi Ásgeir ítrekað ráðstafað peningum félagsins án þess að fá til þess samþykki hjá Gholamhossein, prókúruhafa félagsins, renni það stoðum undir riftun vegna vanefnda á samningnum. Eins og að framan greinir vísar gagnstefnandi til skjala í greinargerð sinni sem eiga að sýna fram á að um heimildarlausar úttektir hafi verið að ræða. Mat á því hvort um heimildarlausar úttektir hafi verið að ræða heyrir undir dóminn, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, en unnt er að upplýsa um þetta málefni með framlagningu gagna og skýrslum vitna.
Í matsbeiðni kemur jafnframt fram að í spurningum 1, 2 og 3 sé óskað skoðunar á bókhaldi félagsins og niðurstöðu um hvort hagnaður félagsins hafi verið sá sem aðalstefnendur hafi tiltekið við gerð áreiðanleikakönnunar, en komi í ljós að aðalstefnendur hafi vísvitandi gefið rangar upplýsingar við gerð áreiðanleikakönnunar renni það stoðum undir kröfu um riftun vegna galla á hinu selda. Í spurningu 1 er leitað svara við því hvort fjárhagsstaða félagsins hafi verið í samræmi við áreiðanleikakönnun við undirritun kaupsamnings milli aðila og sérstaklega óskað eftir mati á hagnaði félagsins fyrri og síðari hluta ársins 2013 og hver sé skýring hans. Gagnstefnandi byggir á því í greinargerð sinni að hagnaður ársins 2013 hafi verið í samræmi við ársreikning endurskoðanda, sem liggur frammi í málinu, og í ósamræmi við áreiðanleikakönnun og því sé um vanefnd að ræða. Gagnstefnandi hefur þess kost að leiða endurskoðandann sem vitni við aðalmeðferð málsins. Spurningar 2 og 3 lúta að virði félagsins og af hverju hugsanleg rýrnun þess stafi. Með öllu skortir á að gagnstefnandi hafi gert viðhlítandi grein fyrir þýðingu framangreindra spurninga fyrir sakarefni málsins.
Þá telur gagnstefnandi að verði sýnt fram á að ákvæði samnings aðila um arðgreiðslur séu brotin renni það stoðum undir kröfu um riftun, en spurningar 4 og 5 lúti að því. Í framangreindum spurningum er annars vegar spurt um arðgreiðslur áranna 2013 til 2015 og hins vegar hvort fjárhagsstaða félagsins hafi verið með þeim hætti að fært hafi verið að greiða út arð til hluthafa árið 2013, 2014 og fyrstu sex mánuði ársins 2015 án tillits til þess að það hafi ekki verið heimilt að lögum. Fyrir liggur í málinu að arður hefur ekki verið greiddur út þar sem það var óheimilt og verður því talið þýðingarlaust að leita svara við spurningu 5. Þá hefur ekki verið gerð viðhlítandi grein fyrir þýðingu spurningar 4 fyrir það sakarefni sem til umfjöllunar er í málinu.
Ekki er bent á fleiri matsspurningar í matsbeiðni sem varðað geti þær málsástæður gagnstefnanda sem til umfjöllunar eru og engin grein var gerð fyrir þeim í munnlegum málflutningi. Í samræmi við allt framangreint verður talið að fyrirhugað mat sé tilgangslaust fyrir úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, og verður kröfu gagnstefnanda um dómkvaðningu matsmanns því hafnað.
Aðalstefnendur gerðu kröfu um málskostnað úr hendi gagnstefnanda vegna þessa þáttar málsins. Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Beiðni gagnstefnanda, Alfacom General Trading ehf., um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.