Hæstiréttur íslands
Mál nr. 302/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Þriðjudaginn 13. maí 2014. |
|
Nr. 302/2014.
|
A (Brynjólfur Eyvindsson hrl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem A var svipt sjálfræði í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2014, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Brynjólfs Eyvindssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2014.
Með beiðni, dagsettri 22. apríl sl. og móttekinni sama dag, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], til heimilis að [...], [...], verði svipt sjálfræði tímabundið í tvö ár á grundvelli a- liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild sóknaraðila er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað en krefst þess til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími, t.d. eitt ár. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997
Málið var þingfest og tekið til úrskurðar 28. apríl 2014.
I.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé 38 ára gömul, einhleyp kona sem búi í búsetu- og endurhæfingarúrræði á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Varnaraðili hafi lengi glímt við geðræn veikindi og eigi að baki innlagnir á geðdeildir vegna alvarlegra geðrænna einkenna. Einnig kemur fram að í mars 2014 hafi varnaraðili lagst inn á deild 32C og í kjölfarið verið nauðungarvistuð í 48 klst. og síðar í allt að 21 dag.
Í málinu liggur fyrir vottorð Halldóru Jónsdóttur yfirlæknis og sérfræðings í geðlækningum dagsett 14. apríl 2014. Þar kemur fram að varnaraðili sé langveik kona með erfiða og mikla sögu um geðræn vandamál. Hún sé verulega hugsanatrufluð og ófær um að eiga samskipti við fólk eða að hugsa um sig. Hún þurfi á meðferð og endurhæfingu til lengri tíma að halda. Hún þurfi nauðsynlega að taka geðrofslyf og það sé óhjákvæmilegt að varnaraðili dveljist á geðdeild til endurhæfingar næstu mánuði og jafnvel eitt til tvö ár. Einnig liggur frammi vottorð Erik Erikssonar læknis dagsett 2. apríl 2014. Þar kemur fram að varnaraðili sé haldin alvarlegum geðklofasjúkdómi og sé mjög veik. Hún sé innsæislaus í sín veikindi og ekki viljug til að þiggja lyfjameðferð. Það sé enginn vafi að sjúklingur sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og án meðferðar stefni hún heilsu sinni í hættu.
Halldóra Jónsdóttir geðlæknir staðfesti læknisvottorð sitt í símaskýrslu fyrir dómi og gerði frekari grein fyrir veikindum varnaraðila og nauðsyn þess að hún yrði svipt sjálfræði a.m.k. í 2 ár.
Byggist krafa sóknaraðila á því að varnaraðili sé án vafa haldin alvarlegum geðsjúkdómi og að óbreyttu í hættulegu ástandi. Sé því nauðsynlegt að svipta varnaraðila sjálfræði, í hennar eigin þágu, til að koma megi við og tryggja nauðsynlega endurhæfingar- og læknismeðferð.
Varnaraðili kom fyrir dóminn. Aðspurð kvaðst hún hafa fengið þá greiningu að hún væri með geðhvarfasýki en síðar að hún væri með geðklofa. Þá kvaðst hún hafa verið á lyfjum en ekki fundist þau hjálpa sér neitt sérstaklega, kvaðst hafa tekið inn svefnlyf en ekki viljað taka inn önnur lyf. Varnaraðili kvaðst ekki vita hversvegna hún væri vistuð á spítala.
II.
Með framangreindum vottorðum læknanna Halldóru Jónsdóttur og Erik Erikssonar og vætti Halldóru fyrir dóminum, er sýnt fram á að varnaraðili er vegna geðsjúkdóms ófær um að ráða persónulegum högum sínum og að brýna nauðsyn ber til þess að veita henni viðeigandi læknismeðferð. Ber því með heimild í a-lið 4. gr. lögræðislaga, að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli vera svipt sjálfræði í tvö ár.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 87.850 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Guðfinnur Stefánsson settur héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...], er svipt sjálfræði í tvö ár.
Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 87.850 krónur, greiðist úr ríkissjóði.