Hæstiréttur íslands
Mál nr. 668/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Kröfulýsing
- Málsástæða
- Tómlæti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2017, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín, aðallega að fjárhæð 49.839.572 krónur en til vara 36.307.057 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. október 2008 til 3. nóvember 2008 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til 22. apríl 2009 verði viðurkennd við slit varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en krafa um dráttarvexti frá síðastgreindum degi til greiðsludags verði viðurkennd við slitin með stöðu samkvæmt 114. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að fjárhæð kröfu sóknaraðila verði lækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Fyrir Hæstarétti byggir sóknaraðili meðal annars á því að í greinargerð í héraði hafi varnaraðili ekki borið fyrir sig að sóknaraðili hafi sýnt af sér tómlæti um að gera athugasemdir um hvernig varnaraðili hafi staðið að framkvæmd viðskipta þeirra, sem málið á rætur að rekja til, en héraðsdómur hafi þrátt fyrir það reist niðurstöðu sína á málsástæðu um þetta, sem varnaraðili hafi fyrst haldið fram við munnlegan flutning málsins. Um þetta verður að gæta að því að í greinargerð í héraði staðhæfði varnaraðili ítrekað að myndast hafi um framkvæmd viðskiptanna nánar tiltekin venja, en sóknaraðili hafi ekki brugðist við henni eða hreyft athugasemdum og yrði hann að bera af því halla. Ekki er unnt að líta svo á að varnaraðili hafi haldið fram nýrri málsástæðu þótt hann hafi fyrst við munnlegan flutning málsins sett þessi atvik berum orðum í samhengi við meginreglur fjármunaréttar um áhrif tómlætis. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Orkuveita Reykjavíkur, greiði varnaraðila, LBI ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2017.
I. Dómkröfur aðila
Varnaraðili vísaði máli þessu til dómsins 20. nóvember 2015 þar sem hann óskaði eftir úrlausn þess með vísan til 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sbr. einnig 171. gr. sömu laga. Málið var tekið til úrskurðar 8. september 2017 að lokinni aðalmeðferð.
Krafa sóknaraðila í málinu er að fjárhæð 49.839.572 krónur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 3. október 2008 til 3. nóvember 2008 en með dráttarvöxtum frá 4. nóvember 2008 til 22. apríl 2009, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá er þess krafist að krafa um dráttarvexti frá 23. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 36.307.057 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1.mgr. 8.gr.laga nr. 38/2001 frá 3.október 2008 til 3.nóvember 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 4. nóvember 2011 verði viðurkennd sem almenn krafa við slit varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili þess að honum verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi sóknaraðila. Þá er þess krafist að krafa um dráttarvexti frá 23. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til þess að varnaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur.
II. Málavextir
Hinn 14. apríl 2008 veitti sóknaraðili tilteknum starfsmönnum Landsbanka Íslands hf., (hér eftir varnaraðili) umboð til þess að vakta reikning nr. [...] og fyrirmæli um að kaupa verðbréf í nafni sóknaraðila fyrir þá fjármuni sem væru fyrir „ofan umsamið gólf á hverju tímabili“. Ekki liggur fyrir í málinu hvert umsamið „gólf“ var samkvæmt umboðinu. Í umboðinu kom þó fram að „vöktun“ samkvæmt umboðinu merkti að starfsmenn varnaraðila skyldu „tryggja að fjármunir yrðu færðir í hagkvæmustu ávöxtunarleið með tilliti til áhættu (Peningabréf Landsbanka Íslands), dag hvern ásamt því að reikningur nr. [...] yrði aldrei með neikvæða stöðu yfir nótt að því gefnu að eign væri til staðar í Peningabréfum Landsbankans.“
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins, þ.e. yfirliti yfir verðbréfaeign sóknaraðila og yfirliti reiknings sóknaraðila nr. [...], og fullyrðingum varnaraðila sem ekki hefur verið mótmælt, höfðu starfsmenn varnaraðila það verklag við framkvæmd umboðsins að kanna stöðu tilgreinds reiknings sóknaraðila við upphaf hvers viðskiptadags til að athuga hvort þörf væri á að leysa inn hlutdeildarskírteini sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans, væri slík eign til staðar, til að mæta þá neikvæðri stöðu reikningsins. Þá munu starfsmennirnir einnig hafa haft þann háttinn á að kanna stöðu reikningsins síðdegis hvern viðskiptadag. Ef upphæð innstæðunnar á reikningnum var hærri en umsamið gólf á hverju tímabili var fjárfest fyrir sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans fyrir það sem umfram var.
Í samræmi við tilgreint umboð um vöktun frá 14. apríl 2008 og samkvæmt því verklagi sem lýst hefur verið átti sóknaraðili í ítrekuðum viðskiptum, þ.e. kaup og innlausnir, með hlutdeildarskírteini í sjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK á tímabilinu frá 14. apríl 2008 til og með 1. október 2008. Af yfirlitinu má einnig sjá að sóknaraðili hafði átt í viðskiptum með hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK frá því 14. nóvember 2007.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að sóknaraðili hafi gert athugasemdir við hvernig varnaraðili sinnti þessum viðskiptum á grundvelli vöktunarumboðsins á því tímabili sem hér um ræðir, þ.e. 14. apríl til 1. október 2008.
Á grundvelli umboðsins um vöktun reikningsins keypti sóknaraðili hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK þann 1. október 2008 að fjárhæð kr. 159.000.000. Nánar tiltekið þá var um að ræða kaup á 5.055.804,64 hlutum á genginu 31,449. Kaupin voru endanlega frágengin í kerfum Landsbanka Íslands hf. kl. 16.12 þann dag.
Samkvæmt kröfulýsingu sóknaraðila nam eign hans í framangreindum peningamarkaðssjóði kr. 159.808.798, föstudaginn 3. október 2008. Þann sama dag var reikningur varnaraðila nr. [...] í neikvæðri stöðu að fjárhæð kr. 146.276.283.
Með ákvörðun stjórnar Landsvaka hf. að morgni 6. október 2008 var lokað fyrir innlausnir úr peningamarkaðssjóði. Samhliða því tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að lokað yrði fyrir viðskipti með öll verðbréf útgefin af varnaraðila. Sóknaraðili rifti i kjölfarið umboði um vöktun reiknings þann 7. október 2008.
Hinn 29. október 2008 var öllum sjóðsfélögum Peningamarkaðssjóðs Landsbankans greitt út virði síns hlutar. Útgreiðsluhlutfall var 68,8% og fékk sóknaraðili útgreiddar kr. 109.969.226 eða 49.839.572 krónum minna en nam innistæðu hans í peningamarkaðssjóði 3. október 2008. Krafa sóknaraðila í málinu nemur þessari fjárhæð, auk vaxta.
Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila hinn 22. október 2009. Í kröfulýsingunni var engin grein gerð fyrir á hvaða málsástæðum krafan væri byggð.
Varnaraðili hafnaði kröfu sóknaraðila með bréfi hinn 7. maí 2011 með þeim röksemdum að sóknaraðili hefði ekki sýnt fram á saknæma og ólögmæta háttsemi starfsmanna varnaraðila. Sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu varnaraðila með bréfi hinn 11. maí 2011. Haldnir voru tveir fundir með sóknaraðila og varnaraðila 6. janúar 2015 og 6. október 2015 í því skyni að jafna ágreining aðila. Voru fundirnir árangurslausir og var málinu því skotið til héraðsdóms til úrlausnar.
III. Málsástæður aðila
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að starfsmenn varnaraðila hafi brotið gegn fyrirmælum umboðs, dags. 14. apríl 2008, með því að hafa ekki innleyst Peningabréf Landsbanka Íslands 3. október 2008 og ráðstafað andvirði þeirra samdægurs inn á reikning sinn nr. [...], sem þá hafi verið í neikvæðri stöðu. Telur sóknaraðili að þessi saknæma vanræksla varnaraðila hafi leitt til þess að reikningur hans var með neikvæða stöðu fram til 6. október 2008. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að hann hefði ekki orðið fyrir tjóni því sem varð vegna lokunar á innlausnum úr Peningamarkaðssjóði Landsbankans að morgni 6. október 2008, ef varnaraðili hefði farið að fyrirmælum sóknaraðila samkvæmt umboðinu.
Sóknaraðili bendir á að umboð sóknaraðila til varnaraðila, dags. 14. apríl 2008, sé mjög skýrt að efni til og feli í sér fyrirmæli til handa tilteknum starfsmönnum varnaraðila um að vakta tiltekinn reikning sóknaraðila. Segi þar orðrétt að vöktun í umboðinu merki „að tryggja að fjármunir séu færðir í hagkvæmustu ávöxtunarleið með tilliti til áhættu (Peningabréf Landsbankans) dag hvern ásamt því að ofangreindur reikningur verði aldrei með neikvæða stöðu yfir nótt að því gefnu að eign sé til staðar á móti í Peningabréfum Landsbankans.“
Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að varnaraðili hafi samið og útbúið umboðið og sóknaraðila hafi verið gert að rita undir það. Það sé því með engu móti hægt að halda öðru fram en að varnaraðili hafi gert sér grein fyrir þeim skyldum sem fólust í framangreindum fyrirmælum. Telur sóknaraðili að starfsmenn varnaraðila hafi brugðist þessum skyldum sínum og þar með valdið honum því tjóni sem deilt er um í málinu.
Sóknaraðili vísar til þess að öll skilyrði þau er koma fram í umboðinu hafi verið uppfyllt. Þannig hafi verið til staðar eign sóknaraðila að fjárhæð kr. 159.808.798 í Peningabréfum Landsbankans og var reikningur sóknaraðila hjá varnaraðila í neikvæðri stöðu að fjárhæð kr. 146.276.283. Telur sóknaraðili að varnaraðila hafi samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi aðila borið að innleysa eign þá sem var til staðar í Peningabréfum Landsbankans til þess að staða reiknings nr. [...] yrði ekki neikvæð yfir nótt.
Sóknaraðili kveður málatilbúnað sinn í fyrsta lagi byggjast á almennum sjónarmiðum samningaréttarins. Samið hafi verið um að varnaraðili skyldi vakta reikning sóknaraðila og aðhafast sérstaklega ef reikningur sóknaraðila var neikvæðri stöðu áður en kom að lokun innlausnar, til þess að tryggja að reikningurinn yrði ekki í neikvæðri stöðu yfir nótt. Ýmsar ástæður hafi verið fyrir samningnum, m.a. sú að ekki myndu reiknast yfirdráttarvextir á reikninginn. Byggir sóknaraðili á þeirri málsástæðu að varnaraðili hafi þverbrotið gegn þeim fyrirmælum sem fram komu í framangreindu umboði. Varnaraðili hafi því valdið sóknaraðila tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti sem hafi bakað honum bótaskyldu gagnvart sóknaraðila.
Þá byggir sóknaraðili kröfu sína á þeirri málsástæðu að varnaraðili hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, um bestu framkvæmd. Vísar sóknaraðili til þess að í ákvæðinu sé kveðið á um skyldu fjármálafyrirtækis til að leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína. Í ákvæðinu sé jafnframt tilgreint að mæli viðskiptavinur fyrir um ákveðna framkvæmd skuli fylgja fyrirmælum hans. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki hugað að bestri mögulegri niðurstöðu vegna fjármuna sóknaraðila. Óumdeilt sé að mikill órói var á fjármálamörkuðum þessa fyrstu viku októbermánaðar árið 2008 og varnaraðili hefði því átt að gæta öryggis í viðskiptum með fjármuni sóknaraðila og minnka áhættu sóknaraðila með því að innleysa umrædd verðbréf. Það hafi einnig verið vilji sóknaraðila og varnaraðila hafi því borið að fylgja fyrirmælum sóknaraðila um þessa tilteknu framkvæmd. Þá er jafnframt byggt á 44. – 46. gr. reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd í þessu sambandi.
Að auki kveður sóknaraðili byggt á 5. gr. laga nr. 108/2007 og 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Framangreind ákvæði kveði á um skyldu fjármálafyrirtækja til þess að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi brotið gegn eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum með því að hafa ekki farið að skýrum fyrirmælum umboðsins sem varnaraðili lét útbúa sjálfur. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi skarað eld að eigin köku með því að fylgja ekki umræddum fyrirmælum í stað þess að gæta að hagsmunum sóknaraðila, líkt og honum var skylt.
Sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir miklu tjóni sökum þess eins að varnaraðili fór ekki eftir fyrirmælum þeim sem komu fram í umboði aðila frá 14. apríl 2008. Telur sóknaraðili að tjón hans nemi mismuninum á verðbréfaeign í peningamarkaðsbréfum Landsbankans þann 3. október 2008 (159.808.798 kr.) og þeirri fjárhæð sem sóknaraðili fékk útgreiddar þann 28. október sama ár (109.969.226 kr.). Tjónið hafi því numið 49.839.572 krónum. Sóknaraðili byggir á því að þessu tjóni hefði mátt forða ef starfsmenn varnaraðila hefðu farið eftir þeim fyrirmælum sem komu fram í umboðinu.
Að mati sóknaraðila virðist varnaraðili byggja á því að einhvers konar venja hafi skapast í viðskiptum aðila, þannig að reikningur sóknaraðila hafi verið leiðréttur að morgni næsta dags, ef hann var í neikvæðri stöðu yfir nótt. Sóknaraðili hafnar þessu alfarið, enda hefði slík venja þýtt breytingu á skýrum fyrirmælum umboðs sóknaraðila til varnaraðila, breytingu sem sóknaraðili hafði aldrei samþykkt. Ef varnaraðili taldi að breyta hefði átt framkvæmdinni með þessum hætti þá hafi honum borið að beina slíkum athugasemdum að sóknaraðila. Sú ákvörðun varnaraðila að láta reikninginn standa í neikvæðri stöðu yfir nótt hafi því algerlega verið á ábyrgð varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að engu breyti þótt áður hafi varnaraðili látið reikning sóknaraðila standa í neikvæðri stöðu yfir nótt. Hafi það gerst þá var sú framkvæmd einnig á ábyrgð varnaraðila. Þótt ekki hafi hlotist tjón áður af því að varnaraðili kaus að fara ekki eftir þeim fyrirmælum sem komu fram í samkomulagi aðila um vöktun þá réttlæti það ekki háttsemi varnaraðila. Þvert á móti verði varnaraðili að bera ábyrgð á vanrækslu sinni að hafa ekki farið að skýrum fyrirmælum umboðsins.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um viðurkenningu á vöxtum á því að sannanlegt tjón sóknaraðila hafi orðið þann 3. október þegar varnaraðili lét reikning sóknaraðila standa í neikvæðri stöðu yfir nótt, þrátt fyrir að eign væri inni á peningamarkaðssjóði. Nær vaxtakrafa sóknaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 til 22. apríl 2009 þegar bankinn var tekinn til slitameðferðar og honum skipuð slitastjórn í samræmi við ákvæði laga nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002. Krafa um viðurkenningu á vöxtum frá þeim tíma byggist á 114. gr. laga nr. 21/1991.
Um lagarök er vísað til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002, laga nr. 108/2007 og til almennra reglna skaðabótaréttar. Um vexti vísar sóknaraðili til laga nr. 38/2001 en um málskostnað til til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að hafna kröfu sóknaraðila 7. maí 2011 fái staðist að öllu leyti. Telur varnaraðili því að hafna eigi kröfum sóknaraðila í málinu.
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi sýnt fram á bótaskylda háttsemi sem falli undir ábyrgðarsvið varnaraðila. Þá er því jafnframt mótmælt að sýnt hafi verið fram á tjón sóknaraðila og enn síður að meint tjón hans hafi verið nægjanlega afmarkað vegna þeirra atvika sem greinir í málatilbúnaði sóknaraðila.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt hreyfingaryfirliti yfir verðbréfaeign sóknaraðila þá hafi hlutdeildarskírteini sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans ISK verið innleyst í 28 skipti frá því að umboð um vöktun reiknings var veitt þann 14. apríl 2008, þ.e. nánar tiltekið á tímabilinu frá 14. apríl 2008 til 1. október 2008. Þær innlausnir hafi í öllum tilvikum verið framkvæmdar í samræmi við ákveðið verklag sem lýsti sér í því að varnaraðili kannaði stöðu á reikningi sóknaraðila nr. 101-26-420 við upphaf hvers viðskiptadags til að athuga hvort þörf væri á innlausn hlutdeildarskírteina. Peningabréfum Landsbankans til að mæta þá neikvæðri stöðu reikningsins í því tilviki. Þá hefði varnaraðili einnig haft það verklag að kanna stöðu reikningsins síðdegis hvern viðskiptadag. Ef upphæð innstæðunnar var hærri en umsamið gólf á hverju tímabili þá hefði varnaraðili fjárfest fyrir sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans fyrir það sem umfram var.
Um þessa framkvæmd á efni vöktunarumboðsins vísar varnaraðili til kvittana vegna innlausna sóknaraðila á tímabilinu frá 15. apríl 2008 til 1. október 2008. Varnaraðili vísar enn fremur til yfirlits tilgreinds reiknings sóknaraðila vegna tímabilsins frá 14. apríl 2008 til 2. október 2008. Byggir varnaraðili á því að yfirlitið staðfesti framangreinda framkvæmd vöktunarumboðsins og skorar á sóknaraðila að leggja skjalið fram í málinu eða andmæla því ekki að varnaraðili leggi skjalið fram. Verði sóknaraðili ekki við áskorun varnaraðila að þessu leyti eða andmæli því að skjalið verði lagt fram byggir varnaraðili á því að leggja eigi lýsingu hans á skjalinu til grundvallar niðurstöðu þessa máls.
Til þess að sýna fram á framkvæmd vöktunarumboðsins bendir varnaraðili á nokkrar hreyfingar í dæmaskyni. Þannig hafi reikningur sóknaraðila nr. 0101-26-420 í fyrsta lagi endað í neikvæðri stöðu að fjárhæð 303.378.152 krónur að kvöldi dags þann 14. apríl 2008. Að morgni næsta dags, þ.e. þann 15. apríl 2008, innleysti varnaraðili síðan hlutdeildarskírteini sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans ISK á grundvelli umboðsins um vöktun reikningsins, að fjárhæð kr. 304.000.000. Eftir viðskiptin, sem voru endanlega frágengin í kerfum Landsbanka Íslands hf. kl. 11:14 þann 15. apríl 2008, var jákvæð staða á innstæðu reiknings sóknaraðila.
Í öðru lagi er bent á að reikningur sóknaraðila endaði í neikvæðri stöðu að fjárhæð 2.942.485 krónur að kvöldi miðvikudagsins 23. apríl 2008. Að morgni næsta viðskiptadags, föstudaginn 25. apríl 2008, en sumardaginn fyrsta bar upp fimmtudaginn 24. apríl 2008, voru hlutdeildarskírteini sóknaraðila í sjóðnum að fjárhæð 3.000.000 krónur innleyst á grundvelli umboðsins. Eftir viðskiptin, sem voru endanlega frágengin í kerfum Landsbanka Íslands hf. kl. 10:32 25. apríl 2008, var staðan á innstæðu reiknings sóknaraðila jákvæð.
Í þriðja og síðasta lagi er bent á að reikningur sóknaraðila endaði í neikvæðri stöðu að fjárhæð 53.875.426 krónur að kvöldi föstudagsins 8. ágúst 2008. Næsta viðskiptadag, þ.e. mánudaginn 11. ágúst 2008, voru hlutdeildarskírteini sóknaraðila í sjóðnum að fjárhæð 54.000.000 krónur innleyst á grundvelli umboðsins. Eftir viðskiptin, sem voru endanlega frágengin í kerfum Landsbanka Íslands hf. kl. 10:30 þann 11. ágúst 2008, var staðan á innstæðu reiknings sóknaraðila jákvæð.
Varnaraðili telur þessa framkvæmd á umboði um vöktun reiknings sóknaraðila sýna fram á þá venju sem var milli aðila og áður er lýst.
Í málatilbúnaði sóknaraðila greinir að staða reiknings hans hafi verið neikvæð um 146.276.283 krónur að kvöldi dags föstudaginn 3. október 2008. Varnaraðili byggir á að í samræmi við framangreinda venju og framkvæmd á umboði um vöktun reikningsins hafi varnaraðila borið að innleysa eign sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans ISK að fjárhæð 147.000.000 krónur, að því gefnu að slík eign væri til staðar, að morgni næsta viðskiptadags á eftir, þ.e. mánudaginn 6. október 2008. Til þess kom ekki þar sem lokað var fyrir viðskipti með peningabréfin að morgni mánudagsins 6. október 2008 eins og lýst er í málsatvikalýsingu að framan. Eins og þar greinir áttu engar innlausnir sér stað í peningabréfum eftir lokun viðskipta föstudaginn 3. október 2008. Var varnaraðila því ómögulegt að innleysa peningabréf sóknaraðila að morgni 6. október 2008 til að mæta neikvæðri stöðu reiknings aðilans, í samræmi við efni umboðsins frá 14. apríl 2008.
Varnaraðili mótmælir með öllu að framangreind háttsemi hans gagnvart sóknaraðila hafi verið bótaskyld sem og að sóknaraðili hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni vegna meintrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna varnaraðila. Byggir varnaraðili á að það hafi staðið sóknaraðila nær að rifta tilgreindu umboði um vöktun reikningsins eða ljúka því með öðrum hætti, líkt og honum var heimilt samkvæmt umboðinu, ef víkja átti frá þeirri venju sem hafði skapast við framkvæmd umboðsins. Verði sóknaraðili að bera hallann af því að hafa látið það ógert.
Auk alls framangreinds bendir varnaraðili á að bæði almennur og sérstakur ómöguleiki hafi komið í veg fyrir að varnaraðili gæti tryggt að reikningur sóknaraðila nr. [...] yrði aldrei með neikvæða stöðu yfir nótt, að því gefnu að eign væri til staðar á móti í Peningabréfum Landsbankans. Vísar varnaraðili til þess að hinn almenni ómöguleiki hafi stafað af því að sóknaraðili gat framkvæmt millifærslur af tilgreindum reikningi eftir lok viðskiptadags hjá varnaraðila. Færi reikningurinn þannig í neikvæða stöðu eftir lok viðskiptadags varnaraðila var það eðli málsins samkvæmt ekki á forræði eða á valdi varnaraðila að tryggja jákvæða stöðu reikningsins.
Varðandi hinn sérstaka ómöguleika vísar varnaraðili til þess að samkvæmt útboðslýsingu og reglum fyrir Peningabréf Landsbankans ISK var opið fyrir viðskipti í sjóðnum virka daga frá kl. 10:00 – 16:00. Viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðnum fóru þannig fram samdægurs bærist ósk um viðskipti fyrir kl. 16:00 (T+0). Samkvæmt því var sérstakur ómöguleiki á að innleysa eign sóknaraðila í sjóðnum eftir lok viðskiptadags til að mæta neikvæðri stöðu reiknings sóknaraðila eftir þann tíma.
Á grundvelli framangreinds ómöguleika hafði því skapast sú venja sem áður er lýst, að staða reiknings sóknaraðila var könnuð að morgni hvers viðskiptadags til að tryggja jákvæða stöðu reikningsins, væri eign í peningabréfum til staðar. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi aldrei gert athugasemdir við þessa framkvæmd á meðan samningssambandi aðila stóð.
Varnaraðili mótmælir því jafnframt að sóknaraðili hafi sýnt fram á að varnaraðili hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eða reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd, við framkvæmd viðskipta á grundvelli umboðsins. Er því sérstaklega mótmælt að varnaraðila „hafi borið að gæta öryggis í viðskiptum með fjármuni sóknaraðila og minnka áhættu sóknaraðila með því að innleysa umrædd verðbréf“ í ljósi óróa á fjármálamörkuðum í byrjun október 2008, líkt og byggt er á í greinargerð sóknaraðila.
Af þessu tilefni bendir varnaraðili á að síðdegis þann 1. október 2008 var innstæða á reikningi sóknaraðila nr. 0101-26-420 að fjárhæð 169.181.000 krónur. Á sama hátt og í fyrri skipti, þegar innstæða reikningsins var umfram umsamið gólf, fjárfesti sóknaraðili þann dag í Peningabréfum Landsbankans ISK fyrir 159.000.000 krónur eins og nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Eftir kaupin var innstæða reikningsins að fjárhæð 10.181.100 krónu. Varnaraðili vekur athygli á því að sóknaraðili gerði engar athugasemdir við þessi viðskipti.
Varnaraðili byggir á að samkvæmt umboði um vöktun reiknings sóknaraðila hafi varnaraðila verið skylt að leggja fram pöntun um kaup í Peningabréfum Landsbankans ISK daglega, ef innstæða á reikningi sóknaraðila var fyrir ofan umsamið gólf á hverju tímabili líkt og að framan er rakið. Samkvæmt því bar varnaraðila skylda til að sinna hinum umþrættu viðskiptum á þann hátt sem gert var þann 1. október 2008 og hlaut sóknaraðila að vera ljóst að þau færu fram í samræmi við efni umboðsins og fyrri venju við framkvæmd þess, gæfi hann ekki fyrirmæli um annað. Jafnframt mátti sóknaraðila vera það ljóst að innlausn myndi ekki fara fram fyrr en að morgni næsta viðskiptadags eftir að reikningur hans endaði í neikvæðri stöðu. Hafi sóknaraðili talið að inneign hans í Peningabréfum Landsbankans ISK fæli í sér áhættu fyrir sóknaraðila bar honum sjálfum að hafa frumkvæði af því að innleysa bréfin eða rifta tilgreindu umboði um vöktun reikningsins, líkt og honum var heimilt samkvæmt umboðinu. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili verði að bera hallann af því að hafa látið það ógert.
Þá er þeirri málsástæðu sóknaraðila sérstaklega mótmælt sem ósannaðri og vanreifaðri að varnaraðili hafi á einhvern hátt „skarað eld að eigin köku“ með framkvæmd umboðsins í stað þess að gæta að hagsmunum sóknaraðila, líkt og byggt er á í greinargerð sóknaraðila.
Varnaraðili bendir jafnframt á að sóknaraðili er sameignarfyrirtæki sem starfar á grundvelli laga nr. 136/2013 (áður á grundvelli laga nr. 139/2001) og er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins með yfirgripsmikla þekkingu á fjármálum. Telur varnaraðili að taka verði tillit til þeirrar staðreyndar við úrlausn málsins.
Fallist dómurinn á kröfu sóknaraðila í málinu mótmælir varnaraðili því að fjárhæð kröfu hans verði tekin til greina. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili miðar meint tjón sitt við mismun á inneign hans í Peningabréfum Landsbankans ISK þann 3. október 2008, þ.e. 159.808.798 krónur, og þeirri fjárhæð sem hann hafi fengið greidda við slit sjóðsins þann 28. október 2008, þ.e. 109.969.226 krónur. Telur sóknaraðili meint tjón sitt því nema 49.839.572 krónum.
Varnaraðili mótmælir þessari framsetningu á meintu tjóni sóknaraðila. Í fyrsta lagi er bent á að sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn er sýni fram á útgreiðslu til hans í kjölfar slita peningamarkaðssjóða Landsvaka hf. þann 28. október 2008. Í öðru lagi mótmælir varnaraðili því að meint tjón sóknaraðila verði miðað við inneign hans í Peningabréfum Landsbankans ISK þann 3. október 2008 heldur verði að miða það við þá innlausn sem samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila hefði átt að fara fram til að mæta neikvæðri stöðu á reikningi hans þann sama dag sem nam 146.276.283 krónum samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila. Telur varnaraðili kröfu sóknaraðila vanreifaða að þessu leyti.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega kröfu sóknaraðila um vexti og dráttarvexti og telur að það séu ekki forsendur til þess að miða upphafsdag vaxta við 3. október 2008, verði á annað borð fallist á kröfu sóknaraðila.
Í samræmi við allt framangreint mótmælir varnaraðili því að hann hafi valdið sóknaraðila tjóni sem rekja megi til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna hans. Í samræmi við það er þess krafist að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 30/2003, áðurgildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 108/ og laga nr. 161/2002, auk þeirra reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli framangreindra laga og kunna að varða mál þetta.
Jafnframt vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991, laga nr. 91/1991, laga nr. 38/2001 og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá er vísað til almennra meginreglna kröfuréttar og skaðabótaréttar. Einnig er vísað til reglna um peningabréf, stjórnvaldsfyrirmæla og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins.
Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. einnig lög nr. 50/1998, um virðisaukaskatt, en varnaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur.
IV. Niðurstaða dómsins
Mál þetta lýtur sem fyrr segir að því hvort varnaraðili hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart sóknaraðila vegna þess að starfsmenn varnaraðila brutu gegn fyrirmælum um fjárfestingar fyrir sóknaraðila samkvæmt umboði sem veitt var 14. apríl 2008. Í umboðinu var kveðið á um að starfsmönnum varnaraðila bæði að tryggja að fjármunir yrðu færðir í hagkvæmustu ávöxtunarleið með tilliti til áhættu (Peningabréf Landsbanka Íslands), dag hvern ásamt því að reikningur nr. [...] yrði aldrei með neikvæða stöðu yfir nótt að því gefnu að eign væri til staðar í Peningabréfum Landsbankans.“
Dómkröfur sóknaraðila byggjast nánar tiltekið á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að starfsmönnum varnaraðila hafi verið skylt að innleysa Peningabréf Landsbanka Íslands þann 3. október 2008 á grundvelli umboðsins frá 14. apríl 2008 og að þeirrar skyldu hafi þeir ekki gætt. Telur sóknaraðili að þarna hafi verið um að ræða saknæma vanrækslu af hálfu starfsmanna varnaraðila sem leitt hafi til þess að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni. Þar sem varnaraðili hefur í greinargerð sinni ekki gert athugasemdir við kröfulýsingu sóknaraðila frá 22. október 2009 heldur tekið til efnislegra varna mun dómurinn fjalla efnislega um kröfur aðila.
Í máli þessu er ekki ágreiningur um að frá því að sóknaraðili veitti umboð sitt 14. apríl 2008 til starfsmanna varnaraðila fram til þess að hann rifti umboðinu 7. október 2008 var þess ekki alltaf gætt af hálfu starfsmanna varnaraðila að alltaf væru fjármunir til staðar inni á reikningi nr.[...], eins og áskilið var í umboðinu.
Að sama skapi eru engin áhöld um það að starfsmenn varnaraðila ákváðu að haga verklagi sínu við fjárfestingar samkvæmt umboðinu með þeim hætti að kanna að jafnaði í upphafi hvers viðskiptadags hvort þörf væri á að leysa inn hlutdeildarskírteini til að afstýra neikvæðri stöðu á reikningnum. Síðan könnuðu þeir aftur síðdegis hvern viðskiptadag hvort innstæðan á reikningnum væri hærri en umsamið gólf á hverju tímabili og fjárfestu þá fyrir sóknaraðila í Peningabréfum fyrir það sem umfram var, ef sú var raunin.
Enda þótt deila megi um hversu samviskusamlega starfsmenn varnaraðila fylgdu orðalagi umboðsins um vöktun frá 14. apríl 2008 með því verklagi sem hér hefur verið lýst verður að sama skapi að horfa til þess að ekki verður ráðið annað af gögnum málsins en að sóknaraðili hafi látið þetta verklag viðgangast. Þannig verður hvorki séð að sóknaraðili hafi aðhafst sérstaklega né hreyft við neinum athugasemdum vegna þeirra 28 skipta sem starfsmenn varnaraðila áttu viðskipti fyrir hans hönd samkvæmt umræddu verklagi. Varnaraðili hefur í þessu sambandi lagt fram yfirlit um hreyfingar á reikningi sóknaraðila til staðfestingar þessum málatilbúnaði og hefur sóknaraðili ekki borið brigður á sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem þar koma fram.
Ljóst er að sóknaraðili sýndi af sér verulegt tómlæti um að gera athugasemdir við varnaraðila vegna viðskiptanna. Þegar tekin er afstaða til þess hvaða áhrif slíkt tómlæti hefur á réttarstöðu sóknaraðila verður ekki litið framhjá því að í dómaframkvæmd um verðbréfaviðskipti hefur margsinnis verið lagt til grundvallar að annar samningsaðila geti samkvæmt meginreglum kröfuréttar glatað rétti til að bera fyrir sig vanefnd eða annað réttarbrot viðsemjanda síns ef athugasemdum er ekki hreyft af slíku tilefni án ástæðulausra tafa. Hefur þá um leið verið gengið út frá því að tómlæti geti haft meiri áhrif á réttarstöðu samningsaðila í verðbréfaviðskiptum en á öðrum sviðum, enda geti hver dagur skipt máli fyrir verðmæti verðbréfa í slíkum viðskiptum. Þannig gætu rúmir frestir til athugasemda leitt til þess að samningsaðili tæki ekki aðeins mið af upplýsingum, sem lágu fyrir þegar viðskipti voru gerð, heldur einnig síðari upplýsingum.
Í ljósi þess sem að framan er rakið verður að telja að sóknaraðili hafi ekki gætt nægilega að tillitsskyldu gagnvart viðsemjanda sínum. Varnaraðila verður af þeim sökum ekki virt það til sakar þótt hann hafi ekki farið eftir umboði sóknaraðila í einu og öllu. Að öllu þessu virtu er óhjákvæmilegt að telja sóknaraðili hafa glatað hér rétti fyrir tómlæti og því verði að hafna kröfu hans um skaðabætur úr hendi sóknaraðila hvort sem hún byggist á almennum sjónarmiðum samningaréttarins, 18. gr. laga nr. 108/2007 eða skyldum fjármálafyrirtækja til að starfa í samræmi við eðlilega viðskiptahætti, sbr. 5. gr. laga nr. 108/2007 og 19. gr. laga 161/2002, um fjármálafyrirtæki eða öðrum málsástæðum sem sóknaraðili hefur vísað til.
Í samræmi við framangreint verður að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu. Á grundvelli þessarar niðurstöðu verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sem þykir hæfilega ákveðin 600.000 krónur.
Meðferð málsins hefur tafist vegna leyfis dómara samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir.
Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, Orkuveitu Reykjavíkur, á hendur varnaraðila LBI ehf. er hafnað. Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.