Hæstiréttur íslands

Mál nr. 442/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. desember 2003.

Nr. 442/2003.

Ferskar afurðir ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Kaupþingi Búnaðarbanka hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Kyrrsetning. Frávísunarúrskurður staðfestur.

F ehf. krafðist þess að kyrrsetning á birgðum félagsins yrði felld úr gildi. Var kröfunni vísað frá dómi þar sem ekki var heimild að lögum til að bera ágreininginn undir dómstóla.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 31. október 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og dómkröfur hans teknar til efnislegrar úrlausnar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ferskar afurðir ehf., greiði varnaraðila, Kaupþingi Búnaðarbanka hf., 125.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 31. október 2003.

I

Sóknaraðili máls þessa er Ferskar afurðir ehf., kt. 590500-2590, Brekkugötu 5, Hvammstanga.

Varnaraðili er Kaupþing-Búnaðarbanki hf., kt. 560882-0419, Austurstræti 5, Reykjavík.

II

Með símbréfi mótteknu 27. þessa mánaðar krafðist Steingrímur Þormóðsson hrl. þess fyrir hönd sóknaraðila að kyrrsetning á birgðum félagsins sem framkvæmd var af sýslumanninum á Blönduósi að kröfu varnaraðila þann 24. október sl. verði felld úr gildi.  Síðar eða þann 29. október sl. barst dóminum frekari kröfugerð og útlistun á kröfum sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að af endurriti úr gerðarbók sýslumannsins á Blönduósi komi ekki fram hvenær gerðinni lauk.  Þá kveður hann fulltrúa sýslumanns hafa innsiglað geymslur í húsnæði sóknaraðila af handahófi en um það eða framkomu fulltrúa sýslumanns svo og talsmanns varnaraðila sé ekkert bókað.  Þá skorti bókun um að gerðinni sem byrjaði að Höfðabraut 6, Hvammstanga hafi verið fram haldið að Brekkugötu 5, Hvammstanga og eftir það í Búðardal.  Telur sóknaraðili því að engin kyrrsetning hafi farið fram þar. 

Þá bendir sóknaraðili á að lögmaður hans hafi verið boðaður til gerðarinnar með sólarhrings fyrirvara. Lögmaðurinn hafi tilkynnt lögmæt forföll og þá hafi forsvarsmaður sóknaraðila einnig haft lögmæt forföll.  Þrátt fyrir þetta hafi gerðinni ekki verið seinkað.  Telur sóknaraðili þetta fara í bága við 21. og 23. gr. aðfararlaga. 

Einnig byggir sóknaraðili á því að matsmenn þeir sem sýslumaður tilnefndi til að meta birgðir sóknaraðila séu vanhæfir til að vinna verkið vegna tengsla sinna við samkeppnisaðila sóknaraðila.  Loks bendir sóknaraðili á að ráða megi af endurriti úr gerðabók að sýslumaður hafi svipt sóknaraðila vörslum hins kyrrsetta og falið nafngreindum útibússtjóra varnaraðila í Búðardal vörslurnar.  Ákvörðun þessi fari gegn meginreglu laga um kyrrsetningu að hið kyrrsetta sé í vörslum gerðarþola þar til dómur um lögmæti kyrrsetningarinnar hafi verið upp kveðinn.  Þegar hið kyrrsetta sé tekið úr vörslum gerðarþola líkt og hér var gert beri sýslumanni að krefja gerðarbeiðanda um sérstaka tryggingu vegna þess en það hafi hann ekki gert.  Allt þetta leiði til þess að ógilda beri gerðina. 

Í bréfi sem barst dóminum 29. þessa mánaðar bætti sóknaraðili þeirri málsástæðu við að varnaraðili hafi ekki haft heimild til að krefjast kyrrsetningar líkt og hann gerði.  Vísar hann í þeim efnum til þess að tryggingarbréf það sem gerðin sé byggð á sé einungis undirritað af framkvæmdastjóra sóknaraðila en það sé ekki nægjanlegt þar sem meirihluti stjórnarmanna verði að skuldbinda félagið þegar um meiriháttar ákvarðanir er að ræða. 

Sóknaraðili byggir heimild sína til höfðunar ágreiningsmáls þess á 3. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

III

Þess er áður getið að sóknaraðili telur 3. gr. nefndra laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. heimila honum að vísa ágreiningsefni þessu til héraðsdóms.  Nefnd 3. gr. hljóðar svo: ,,Að því leyti, sem fyrirmæli laga þessara heimila að ágreiningur um gerð verði borinn undir héraðsdómstól, án þess að um mál sé að ræða til staðfestingar gerðinni, á úrlausn hans undir héraðsdómstólinn, sem hefur dómsvald í umdæmi þess sýslumanns sem fer með gerðina.”  Málinu er þannig réttilega beint til Héraðsdóms Norðurlands vestra. Í V. kafla nefndra laga er fjallað um meðferð mála fyrir héraðsdómi til úrlausnar ágreinings um undirbúning, framkvæmd eða endurupptöku gerðar. Í þessum kafla er gerðarþola hvergi heimilað að bera gildi gerðar sem þegar er lokið undir dómstóla líkt og sóknaraðili gerir nú.  Í V. kafla er fjallað um takmarkaðan rétt gerðarbeiðanda til að bera ákvarðanir sýslumanns undir héraðsdóm en gerðarþoli getur einungis borið slíkar ákvarðanir undir héraðsdóm ef gerðarbeiðandi samþykki það. Gerðarþoli getur þó borið neitun sýslumanns um að endurupptaka gerð undir héraðsdóm en um það er ekki að ræða hér. 

Kyrrsetning skal ekki fara fram nema að réttur gerðarbeiðanda sé nokkuð skýr.  Þá er ráð fyrir því gert að gerðarbeiðandi beri ríka skaðabótaskyldu ef hann veldur gerðarþola tjóni með kyrrsetningu eigna hans. Þessi ríka skaðabótaskylda svo og það að gerðarbeiðandi verður að höfða mál til staðfestingar gerðinni innan viku frá því að gerðinni lauk og í slíku máli getur gerðarþoli komið að öllum þeim vörnum sem hann telur sig hafa leiðir til þess að réttur gerðarþola til að bera ágreining undir héraðsdóm er verulega takmarkaður. Þessi sjónarmið eru áréttuð í greinargerð með frumvarpi að títtnefndum lögum nr. 31/1990.  Í athugasemdum með V. kafla laganna er þess sérstaklega getið að réttur gerðarþola og þriðja manns til að bera ákvarðanir sýslumanns undir dómstóla sé verulega takmarkaður. Þegar allt þetta er virt er það mat dómsins að sóknaraðila skorti heimildir að lögum til að bera ágreiningsefni þetta undir dóminn og er máli þessu því vísað frá dómi án kröfu.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.