Hæstiréttur íslands

Mál nr. 273/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 30. maí 2017, kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í gærkvöldi klukkan 17:43 en óskað hafði verið eftir aðstoð lögreglu vegna meintrar gripdeildar kærða í verslun [...] í Kringlunni. Í frumskýrslu lögreglu sé haft eftir starfsmanni verslunarinnar að kærði hafi komið þar inn og týnt til fatnað og sett í tösku sem hann hafi verið með. Þá hafi kærði farið inn í mátunarherbergi með töskuna og klætt sig í fatnaðinn sem hann hafi tekið til og sett í töskuna. Síðan hafi kærði gengið að afgreiðslukassanum og skilið töskuna eftir og gengið út úr versluninni. Þar hafi öryggisverðir beðið eftir manninum. Gömlu fötin hans hafi verið í íþróttartöskunni sem hann skildi eftir. Búið hafi verið að eiga við þjófavarnarbúnað á fatnaðinum.

                Þegar kærði hafi verið fluttur í fangaklefa, hafi fundist á honum ætluð fíkniefni.

                Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað sök varðandi gripdeildina en játað vörslu á fíkniefnum.

                Auk þessa máls sé kærði undir rökstuddum grun um eftirfarandi brot framin á undanförnum vikum og mánuðum:

[...] – Innbrot, þjófnaður

                Þann 30. apríl sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að brotist hafi verið inn í bifreiðina [...] við [...] í Reykjavík og þaðan stolið munum. Þá hafi skráningarnúmerum bifreiðarinnar einnig verið stolið. Lögreglumenn telji sig þekkja kærða sem geranda (mál nr. [...]).

                Í dag hafi síðan borist tilkynning um innbrot og þjófnað í nýbyggingu við [...] í Reykjavík. Þar hafi starfsmaður komið að manni sem verið hafi að bera verkfæri í bifreið sem lagt hefði verið við húsið. Þegar starfsmaðurinn hafi komið að geranda, þá hafi hann hlaupið í burtu. Umrædd bifreið sé í eigu kærða en hafi verið með ofangreind stolin skráningarnúmer, þ.e. [...].

                Í bifreiðinni hafi fundist munir sem tilheyri kærða en einnig hafi fundist lykill sem sé frá [...] og stolið hafi verið í máli nr. [...].

                Kærði hafi neitað sök í skýrslutöku hjá lögreglu.

[...] - Þjófnaður og húsbrot

                Í gærmorgun hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] vegna tveggja aðila sem dvelji án leyfis í einu hótelherberginu. Lögregla hafi varið á vettvang og hitt þar konu. Hún hafi sagst hafa komið með kærða og þau hafi stolið lykli af herberginu og verið þarna í nótt. Þá hafi komið fram hjá konunni að kærði væri farinn og hann væri með lyklana af herberginu. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi konan hins vegar greint frá því að rangt hefði verið haft eftir henni í frumskýrslu lögreglu og hún telji að kærði hafi ekki verið með henni í umrætt sinn.

[...] – Innbrot, þjófnaður

                Tilkynnt hafi verið um innbrot í geymslu þann 28. apríl sl. við [...] í Kópavogi. Teknir hafi verið nokkrir munir úr geymslunni, t.d. Canon filmuvél með linsum, háþrýstidæla, stafrænar myndavélar, fartölva, Ipod, gamlar kvikmyndatökuvélar/upptökuvélar. Kærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu.

[...] – Þjófnaður og nytjastuldur ökutækis

Þann 28. apríl sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að farið hefði verið í óleyfi inn á skrifstofu við Skútuvog í Reykjavík og teknir lyklar af bifreiðinni [...], lyklar af fyrirtæki og að heimili tilkynnanda. Þá hafi bifreiðinni [...] einnig verið stolið eða hún tekin í heimildarleysi. Lögreglumenn hafi þekkt kærða á upptökum og fundið umrædda bifreið við heimili kærustu kærða. Kærði hafi síðan játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu.

[...] – Þjófnaður

                Þann 28. apríl sl. hafi lögreglu borist kæra á hendur kærða fyrir þjófnað á síma. Kærandi hafi greint frá því að kærði hefði fengið að gista hjá honum en launað greiðann með því að stela síma kæranda.

[...] – Þjófnaður/hylming

                Þann 27. apríl sl. hafi lögreglu borist tilkynning um farið hafi verið inn í skrifstofuhúsnæði við [...] í Reykjavík og þaðan teknir nokkrir munir, þ.á.m. skjávarpi. Lögreglu hafi síðan borist ábending um að kærði hafi farið þarna inn og tekið umrædda muni. Við leit að kærða vegna rannsóknar lögreglu á öðru máli, þá hafi lögregla farið að heimili kærustu kærða. Þar hafi móðir kærustu kærða afhent lögreglu meint þýfi sem kærði hefði komið með inn á heimilið, þ.á.m. umræddan skjávarpa. Kærði hafi sagst hafa keypt umræddan skjávarpa af ónafngreindum manni.

[...] – Nytjastuldur ökutækis

                Kærði hafi viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa þann 24. apríl sl. tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi frá N1 Reykjavíkurvegi og notað hana þar til lögregla hefði haft afskipti af honum sama dag á bifreiðinni.

[...] – Innbrot, þjófnaður/nytjastuldur

                Kærði sé grunaður um að hafa þann 10. apríl sl. klippt á lás á bílageymsluhúsnæði í fyrirtækinu [...], [...], [...] og stolið kerru með tveimur vélsleðum samtals að verðmæti um 5.000.000 kr. Kærði hafi viðurkennt sök í skýrslutöku hjá lögreglu en hann hafi einungis sagst hafa ætlað að nota vélsleðana, ekki að selja þá.

[...] – Innbrot, þjófnaður

                Þann 3. apríl sl. hafi verið borist inn í bílageymslu við [...] og þaðan stolið nokkru magni af verkfærum. Lögregla hefði síðan haft afskipti af kærða daginn eftir við umferðareftirlit og hafi lögreglumenn séð umrædd verkfæri í bifreið kærða. Kærði hafi viðurkennt sök í skýrslutöku hjá lögreglu.

[...] – Innbrot, þjófnaður

                Þann 12. desember sl. hafi verið tilkynnt um innbrot og þjófnað í fyrirtæki við [...] í Kópavogi og þaðan stolið töluverðu magni af verkfærum. Umrædd verkfæri hafi fundist í geymslu sem kærði hafi verið með á leigu og hafi hann viðurkennt sök í skýrslutöku hjá lögreglu.

[...] – Rán

                Þann 17. október sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í Reykjavík. Tilkynnandi hafi greint frá því að maður hefði ruðst inn í íbúð hans, heimtað að fá hjá honum lyf og hótað því að stinga hann með hníf. Maðurinn hafi slegið tilkynnanda nokkrum sinnum og tekið síma hans. Tilkynnandi hafi verið með sjáanlega áverka í andliti. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað því að hafa ruðst þarna inn en tilkynnandi hefði boðið honum inn. Kærði hafi neitað að hafa hótað manninum. Hann hafi viðurkennt að hafa tekið lyf og síma mannsins og að hann hafi slegið hann eftir að hafa reiðst.     

                Þá kemur fram að lögreglustjóri hafi einnig til meðferðar nokkur fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot kærða. Kærði eigi að baki nokkurn sakarferil og hafi hlotið  dóma fyrir auðgunarbrot. Við rannsókn mála kærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í neyslu fíkniefna og megi ætla að hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína með afbrotum.

                Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna en nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem séu til meðferðar hjá lögreglu sem fyrst.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

                Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi hefur lögreglan til rannsóknar tíu mál þar sem varnaraðili er grunaður um þjófnað, hylmingu og nytjastuld síðast liðinn mánuð. Í nokkrum af þessum málum hefur varnaraðili viðurkennt sök. Þá hefur varnaraðili viðurkennt þjófnað 12. desember sl., auk þess sem hann er grunaður um að hafa framið rán 17. október sl. Í því máli hefur hann gengist við því að hafa tekið lyf og farsíma af manni og síðan slegið hann. Í ljósi þess sem fyrir liggur í framangreindum málum er fallist á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Því er almennu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fullnægt til að fallast megi á kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald.

                Varnaraðili á nokkurn brotaferil að baki og hefur hann m.a. hlotið dóma fyrir auðgunarbrot. Þá liggur fyrir að varnaraðili á við fíkniefnavanda að etja. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til þess fjölda mála sem upp hafa komið að undanförnu verður jafnframt á það fallist að fullnægt sé sérstöku skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þess efnis að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er sett fram.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 30. maí nk. kl. 16:00.