Hæstiréttur íslands

Mál nr. 498/2007


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Veikindalaun


           

Fimmtudaginn 5. júní 2008.

Nr. 498/2007.

Össur Willardsson

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Samherja hf.

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

 

Sjómenn. Veikindalaun.

Ö var skipverji á fiskiskipi S. Meðan skipið var á veiðum fékk Ö þá frétt að náinn ættingi hans hefði látist. Var Ö þegar fluttur í land. Krafðist hann launa fyrir tveggja mánaða tímabil þar eð hann hafi orðið óvinnufær vegna andlegs áfalls, sem hann hefði orðið fyrir við áðurnefnda frétt. S var sýknað af kröfunni þegar af þeirri ástæðu að Ö hefði ekki fært sönnur á að hann hafi verið óvinnufær vegna veikinda á umræddu tímabili.                                                                                                                                         

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 30. júlí 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 12. september sama ár og var áfrýjað öðru sinni 3. október 2007. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.082.223 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 11. maí 2004 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi var ráðinn í skiprúm á fiskiskipi stefnda, Akureyrinni EA 110, þegar atvik málsins urðu. Þann 25. apríl 2004 fékk áfrýjandi þá frétt meðan skipið var statt á rúmsjó að náinn ættingi hans hefði látist. Að ósk áfrýjanda var honum tafarlaust komið í land. Ágreiningur aðila snýst um kröfu  áfrýjanda um greiðslu launa í veikindum á tímabilinu 27. apríl til 25. júní 2004. Reisir hann kröfuna á 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en hann hafi veikst meðan í gildi var ráðningarsamband milli aðilanna. Telur áfrýjandi að margoft hafi verið staðfest í dómum að lagaákvæðið taki jafnt til andlegra veikinda, svo sem hér eigi við, sem líkamlegra. Málsatvik og málsástæður aðilanna eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti var lýst yfir af hálfu stefnda að fallið væri frá varakröfu, sem höfð var uppi fyrir héraðsdómi, að því leyti sem hún væri reist á skuldajöfnuði.

II.

Meðal málsskjala er læknisvottorð 3. apríl 2006 þar sem fram kemur að áfrýjandi hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms á tímabilinu frá 25. apríl 2004 til 1. júlí sama ár. Annað vottorð sama læknis 7. nóvember 2006 liggur einnig fyrir, þar sem segir meðal annars að vegna langvarandi geðrænna erfiðleika hafi áfrýjandi verið illa búinn undir áfallið, sem fylgdi áðurnefndu fráfalli náins ættingja hans. Áfrýjandi hafi verið í símasambandi við lækninn mörgum sinnum á árinu 2004 og lýst dæmigerðum þunglyndiseinkennum. Læknirinn gaf einnig skýrslu fyrir dómi.

Fram er komið að læknirinn hitti áfrýjanda ekki á því tímabili, sem sá síðarnefndi kveðst hafa verið óvinnufær, og kannaði þannig ekki ástand hans af eigin raun. Af framburði þeirra fyrir dómi verður ráðið að læknirinn kunni að hafa ávísað áfrýjanda lyfjum vegna þunglyndis og svefntruflana á því tveggja mánaða tímabili, sem um ræðir. Í því sambandi verður ekki litið framhjá því að læknirinn ávísaði honum sams konar lyfjum bæði fyrir og eftir umrætt tímabil, en ekki er borið við að hann hafi þá verið óvinnufær vegna veikinda. Að þessu gættu er ekki fram komin sönnun fyrir því að áfrýjandi hafi verið óvinnufær vegna veikinda 27. apríl til 25. júní 2004, svo sem hann heldur fram. Verður stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda þegar af þeirri ástæðu.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Össur Willardsson, greiði stefnda, Samherja hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. maí 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 13. mars 2007, hefur Össur Willardsson, kt. 160878-3719, Urðargili 18, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Samherja h.f., kt. 610297-3079, Glerárgötu 30, 600 Akureyri með stefnu útgefinni og birtri 11. ágúst 2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða honum kr. 1.082.223 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, af kr. 241.478 frá 11. 5. 2004 til 28. 6. 2004, en af kr. 696.942 frá þ.d. til 17. 7. 2004, en af kr. 1.082.223 frá þ.d. til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmt til greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum krefst stefnda að því verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins.

I.

Samkvæmt stefnu og öðrum gögnum málsins eru helstu atvik þau, að stefnandi hafði um árabil verið háseti á skipum stefnda er honum bárust fregnir þann 25. apríl 2004, þar sem hann var í veiðiferð með Akureyrinni EA-110, að yngri bróðir hans hefði látist með voveiflegum hætti.  Hafi tíðindi þessi fengið verulega á stefnanda og hann farið fram á það við skipstjórann Guðmund Frey Guðmundsson, að hann fengi að fara í land, en skipið hafi er atvik gerðust verið á veiðum vestur af Látrabjargi.

Óumdeilt er að forsvarsmenn stefnda ákváðu að verða við ofangreindri bón stefnanda við fyrstu hentugleika og var það ráð tekið um síðir að sigla til lands í um 7-8 tíma til móts við björgunarbát björgunarsveitarinnar á Hellissandi, sem síðan færði stefnanda í land.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að andleg líðan hans hafi verið slík eftir greint atvik að hann hafi verið óvinnufær allt til júníloka nefnt ár.  Hann hafi því fyrst þann 1. júlí treyst sér til sjómannsstarfa, en þá farið um borð í fjölveiðiskip stefnda Baldvin Þorsteinsson EA- 10.

Af hálfu stefnanda er til þess vísað að þrátt fyrir greind veikindi og óvinnufærni hafi hann ekki fengið laun greidd frá stefnda.  Af þeim sökum hafi lögmaður stefnanda sent stefnda kröfubréf þann 30. maí 2006 vegna ógreiddra vinnulauna á tímabilinu frá 27. apríl til 1. júlí 2004.  Til rökstuðnings hafi stefnandi lagt fram vottorð Guðmundar Pálssonar læknis á Heilsugæslustöðinni á Dalvík, sem dagsett hafi verið 3. apríl 2006, en þar sé því m.a lýst að stefnandi hafi verið með öllu óvinnufær vegna sjúkdóms á greindu tímabili, og jafnframt sé þar tiltekið, að sé óskað eftir nánari upplýsingum þá skuli trúnaðarlæknir stefnda snúa sér til vottorðsgefanda.  Bendir stefnandi á að viðbrögð stefnda við bréfinu hafi verið þau, að kröfum hans hafi verið hafnað, sbr. tölvupóstur frá 12. júní s.á., en það jafnframt boðað að hann yrði krafinn um kostnað í tengslum við siglingu veiðiskips til lands í miðri veiðiferð.  Málsókn af hálfu stefnanda hafi því verið óhjákvæmileg.

Í greinargerð stefnda eru hafðar uppi þær athugasemdir við lýsingu stefnanda hér að framan, að áður en hinar voveiflegu fréttir bárust stefnanda í veiðiferðinni í aprílmánuði 2004 hafi hann verið búinn að ræða við skipstjórann, Guðmund Frey, um að hann væri líklega að fara að hætta á Akureyrinni EA-110.  Hafi stefnandi í orðræðunni jafnframt lýst yfir vilja til að fara á fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson EA-10, í eigu stefnda, en á því skipi hafi móðurbróðir hans verið skipstjóri.  Af hálfu stefnda er staðhæft að eftir að hinar voveiflegu fréttir höfðu borist um borð í Akureyrina EA-110 og eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að verða við óskum stefnanda um að sigla til lands, hafi stefnandi spurst fyrir um það hjá skipstjóra hvort hann fengi greidd full laun allt til enda veiðiferðarinnar.  Hafi skipstjóri svarað því til að um slík kjaramál skyldi hann leita upplýsinga hjá launadeild stefnda.  Loks er staðhæft að u.þ.b. 2 vikum eftir að stefnandi hafði verið færður í land með greindum hætti hafi hann hringt í nefndan skipstjóra og þakkað honum greiðviknina.

Undir rekstri málsins og eftir framlagningu greinargerðar stefnda var af hálfu stefnanda lagt fram viðbótarvottorð frá áður nefndum heilsugæslulækni, Guðmundi Pálssyni.  Er það dagsett 7. nóvember 2006.  Í vottorðinu er vísað til erindis lögmanns stefnanda ásamt því að áréttað er efni fyrra vottorðs um óvinnufærni stefnanda á árinu 2004.  Þá er í vottorðinu frá því greint að sumarið 2005 hafi komið upp alvarleg bilun í tölvukerfi Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík er hafi leitt til þess að öll gögn á tímabilinu frá júní 2003 til apríl 2005 hafi tapast.  Um afleiðingar þessa segir:  ,,Af þessum sökum verður undirritaður að styðjast við minni sitt varðandi atburði frá þessum tíma“.  Efni vottorðsins er að öðru leyti svofellt:

,,25. apríl 2004 tók Þ, bróðir Össurar, eigið líf hér á Dalvík.  Atburðurinn var dramatískur, þótt ekki sé ástæða til að rekja það nánar hér.  Dauðsfallið kastaði miklum skugga á alla fjölskyldu Þ.  Össur hafði um langt skeið átt við geðræna erfiðleika að etja.  Hann var kvíðafullur og átti erfitt með svefn.  Auk þess að hafa leitað hjálpar hjá heilsugæslulæknum hér á Dalvík hafði honum verið vísað til geðlæknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og göngudeild geðdeildar Landspítalans.  Hann hafði af og til þurft á geðlyfjum að halda.  Hann var því e.t.v. sá í fjölskyldunni sem var verst búinn undir áfallið sem fylgdi fráfalli Þ.  Össur var í símasambandi við undirritaðan mörgum sinnum á árinu 2004.  Hann lýsti dæmigerðum þunglyndiseinkennum.  Hann átti erfitt með svefn og fékk kvíðaköst.  Hann fékk róandi lyf, svefnlyf og þunglyndislyf.  Minni mitt leyfir þó ekki nánari útlistanir á líðan hans.  Að mínu mati er fullkomlega eðlilegt að Össur Willardsson var ekki í standi til að sinna sjómennsku á tímabilinu frá því í apríl og fram í júlí.“

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu.  Þá gáfu vitnaskýrslur þau Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri, Árni V. Þórðarson skipstjóri, Jóhanna Erla Birgisdóttir fyrrverandi launafulltrúi stefnda, Anna María Kristinsdóttir starfsmannastjóri stefnda, Guðmundur Pálsson heilsugæslulæknir og móðir stefnanda Þórunn Þórðardóttir.

Í aðilaskýrslu greindi stefnandi frá því að hann hefði verið skipverji á veiðiskipum stefnda frá árinu 1998, en hætt störfum í mars 2006.  Á nefndum starfstíma kvaðst hann tvívegis, fyrir utan það tímabil sem hér um ræðir, hafa vikið úr skiprúmi.  Í fyrra sinnið, árið 1999 hafi hann tekið sér um átta mánaða orlof, en það síðara, árið 2001, hafi hann þurft að fara frá í um fimm mánuði vegna veikinda er hafi komið til vegna andlegs áfalls sem hann hefði orðið fyrir eftir að besti vinur hans hafi horfið með sviplegum hætti við sjómannstörf.  Kvaðst stefnandi hafi verið í svipuðu andlegu ástandi á umkröfðu tímabili árið 2004 og því verið ófær til sjómannsstarfa.  Vísaði stefnandi til þess að hann hefði verið haldin andlegri vanlíðan, sektarkennd auk þunglyndis, kvíða, eirðarleysis og skapsveiflna.  Vegna þessa hafi hann haft samband við Guðmund Pálsson heilsugæslulækni, en ætlaði að það hefði hann fyrst gert eftir að hann hóf sjómannsstörf að nýju á fjölveiðiskipi stefnda, Baldvini Þorsteinssyni EA–10, þann 1. júlí 2004.  Um hafi verið að ræða símaviðræður og lyfjagjafir í kjölfar þeirra.  Var það ætlan hans að hann hefði í eitt skipt hitt lækninn að máli, en vísaði til þess að langt væri um liðið frá þessum atburði.  Stefnandi kvaðst hafa farið á launaskrifstofu stefnda í maímánuði 2004 til viðræðna við Jóhönnu Erlu Birgisdóttur, en tilefnið hafi annars vegar verið, að kanna hver væri réttur hans til launa vegna þeirra daga sem hann hafði misst úr er hann hvarf af skipi stefnda í lok aprílmánaðar nefnt ár og hins vegar kvaðst hann hafa tilkynnt launafulltrúanum að hann treysti sér ekki vegna nefnda heilsufarsástæðna til að sinna starfi sínu um hríð.  Stefnandi kvaðst hafa fengið þau viðbrögð frá stefnda að það tíðkaðist ekki hjá félaginu að greiða laun í slíkum tilvikum og bar að það svar hefði verið áréttað er hann hafi ítrekað kröfu sína um laun á umkröfðu tímabili í tölvupósti til starfsmannastjóra stefnda, vitnisins Önnu Maríu Kristinsdóttur síðla árs 2004 og enn síðar í viðræðum við launafulltrúann eftir að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 207/2005 hafði fallið síðla árs 2005.  Staðhæfði stefnandi að í greind skipti hafi hann ekki verið krafinn um læknisvottorð.

Vitnið Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri bar fyrir dómi að í kjölfar þeirrar sorgarfregnar er barst um borð í Akureyrina EA-110 vorið 2004 hafi stefnandi verið haldin augljósri andlegri vanlíðan.  Hann kvað stefnanda hafa borið upp þá fyrirspurn áður en hann hvarf frá borði hvort að hann ætti rétt á launum fyrir þá daga sem þá voru eftir af veiðiferðinni, en því erindi kvaðst hann hafa bent honum á að beina til launaskrifstofu stefnda.  Í næstu veiðiferð skipsins um miðjan maí 2004 kvaðst vitnið hafa svarað símhringingu stefnanda, en erindið kvað hann hafa verið þakkir vegna heimferðarinnar.  Vitnið bar að stefnandi hefði spurst fyrir um aflabrögð, en minntist þess ekki að hann hefði haft orð á veikindum.  Vitnið bar að það hefði ekki reiknað með stefnanda í nefnda veiðiferð og vísaði til þess að það hefði tíðkast hjá stefnda að sjómenn færu í tvær veiðiferðir en tæki síðan frítúr, án þess að það hefði þó verið algild regla.  Raunar kvaðst vitnið ekki hafa reiknað frekar með stefnanda um borð og vísaði til þess að þeir hefðu átt í viðræðum og verið sáttir með að hann flytti sig á fjölveiðiskip stefnda Baldvin Þorsteinsson EA-10 gæfist honum færi á því, líkt og síðar hafi orðið raunin.

Vitnið Árni V. Þórðarson fyrrverandi skipstjóri á Baldvin Þorsteinssyni EA-10 skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði ráðið frænda sinn, stefnanda, á skipið þann 1. júlí 2004.  Vegna nefndra tengsla kvaðst vitnið hafa haft vitneskju um það áfall sem stefnandi og fjölskylda hans hafði orðið fyrir þá um vorið, en hins vegar ekki verið kunnugt um að hann hefði átt við veikinda að stríða af þeim sökum.  Vitnið treysti sér ekki til að segja til um andlegt heilsufar stefnanda eftir að hann kom um borð, en bar að hann hefði leyst störf sín vel af hendi.

Guðmundur Pálsson heilsugæslulæknir á Dalvík kom fyrir dóm og staðfesti efni rakinna vottorða, en áréttaði að vegna nefndrar bilunar í tölvukerfi hafi hann orðið að skrá samskipti sín við stefnanda eftir minni.  Vitnið kvað stefnanda hafa átt sögu um þunglyndi a.m.k. frá árinu 2001, en bar að samskipti þeirra á árinu 2004 hafi nær alfarið verið í formi viðræðna í síma og þá fyrst allnokkrum vikum eftir hið sviplega fráfall bróður hans.  Vitnið bar að alllangt væri um liðið frá þessum atburðum, en ætlaði að hann hefði ef til vill hitt stefnanda í eitt skipti augliti til auglitis.

Vitnið Þórunn Þórðardóttir bar fyrir dómi að sonur hennar, stefnandi, hefði eftir hið mikla áfall sem hann hefði orðið fyrir vorið 2004, líkt og öll fjölskyldan, verið algjörlega óvinnufær.  Vitnið staðhæfði að vegna þessa hefði stefnandi leitað til læknis, en treysti sér ekki til að segja hvenær það var.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á ráðningarsamningi aðila ásamt rétti til launa í veikindaforföllum á 36. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985.  Reisir hann kröfuna á þeirri forsendu, að er hann hafi orðið veikur hafi verið í gildi ráðningarsamband milli aðila.  Hann hafi starfað á skipum stefnda um árbil er atvik gerðust og eigi hann því rétt á launum í veikindaforföllum samkvæmt nefndri lagagrein sjómannalaganna.

Í stefnu, líkt og við málflutning, er af hálfu stefnanda sérstaklega vísað til áður rakinna vottorða Guðmundar Pálssonar heilsugæslulæknis og vættis hans fyrir dómi, þ.á.m. varðandi samskipti þeirra á árinu 2004.  Ennfremur vísar hann til framburðar starfsmanna stefnda, þ.á.m. launafulltrúa um að hann hafi frá fyrstu tíð án árangurs reynt að fá rétt sinn til launa viðurkenndan.  Hann hafi áréttað kröfugerðina eftir að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 207/2005 féll hinn 27. október 2005, en þá hafi hann fyrst gert sér fyllilega grein fyrir réttindum sínum.  Læknisvottorð hafi verið sent stefnda ásamt umræddri kröfu með bréfi dagsettu 30. maí 2006.

Af hálfu stefnanda er auk ofangreinds til þess vísað að margdæmt sé að andleg veikindi jafnt sem líkamleg séu veikindi í skilningi 36. gr. sjómannalaga, enda séu engin rök fyrir því að útiloka fólk, sem lendir í slíkum tímabundnum veikindum frá launagreiðslum í veikindaforföllum.  Veikindaréttur samkvæmt nefndri lagagrein sé og lögbundinn lágmarksréttur og sé óheimilt að semja um þau réttindi starfsmanni í óhag eða áskilja honum lakari rétt en þar sé kveðið á um, sbr. 1. gr. laga nr. 55, 1980.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 5. mgr. 36. gr. sjómannalaga sé það eingöngu skylda skipverja að afhenda vottorð læknis er sýni fram á óvinnufærni ef atvinnurekandi óskar eftir því.  Hann hafi lagt fram slík vottorð og sé því fullnægjandi sönnun um óvinnufærni hans framkomin í málinu.  Við flutning benti stefnandi á að frekari tilkynningar til stefnda hafi verið óþarfar, þar eð starfsmönnum stefnda hafi í ljósi samskipta mátt vera kunnugt um hvert andlegt ástand hans var vegna hins sviplega áfalls er hann hafði orðið fyrir.  Er á því byggt að skortur á formlegri tilkynningu raski ekki lágmarksréttindum hans til launa né tómlæti við að halda réttindunum fram, sbr. áðurnefndur dómur Hæstaréttar Íslands.

 

Í stefnu sundurliðar stefnandi kröfugerð sína í málinu með eftirfarandi hætti: 

Ógreidd laun

- Tímabilið 27/4 - 8/5 ´04                                                           kr.              241.478

- Tímabilið 13/5 - 4/6/ ´04                                                         kr.              455.464

- Tímabilið 7/6 - 25/6 ´04                                                           kr.              385.281

                                                                            Samtals           kr.           1.082.223

Bendir stefnandi á að kröfugerðin eigi að vera óumdeild, enda byggi hún á upplýsingum frá stefnda sjálfum um staðgengilslaun á umræddu tímabili óvinnufærni hans.  Við flutning málsins andmælti stefnandi öllum málsástæðum stefnda sem ósönnuðum ellegar vanreifuðum.

Um lagarök fyrir kröfu sinni vísar stefnandi sérstaklega til áðurnefndrar 36. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 auk almennra reglna vinnuréttar um rétt til launa í veikindaforföllum, en ennfremur til megin reglna samningaréttar um skyldu til að efna samninga.  Þá styður hann kröfur sína við lög nr. 55, 1980, lög nr. 19, 1979 og lög nr. 80, 1938.  Kröfu um vexti styður stefnandi við III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, en um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91, 1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Við málflutning var af hálfu stefnda á það bent að ekki væri véfengt að stefnandi hefði átt við andlega erfiðleika að stríða í kjölfar sviplegs fráfalls nákomins ættingja.  Stefnda andmælir því hins vegar sem ósönnuðu að stefnandi hafi vegna þessa verið óvinnufær vegna sjúkdóms líkt og áskilið sé í 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985.  Bendir stefnda á að framlögð læknisvottorð séu dagsett tæpum tveimur árum eftir að atvik máls gerðustu og geti því ekki ásamt óljósum framburði læknisins Guðmundar Pálssonar um samskipti hans við stefnanda sannað með ótvíræðum hætti hvert hafi verið heilsufarslegt ástand stefnanda á umkröfðu tímabili.  Í því sambandi bendir stefnda einnig á framburð vitnanna Guðmundar Freys Guðmundssonar skipstjóra og Önnu Maríu Kristinsdóttur fyrir dómi.

Stefnda vísar til þess að sjúkdómur í skilningi 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga verði að hafa þau áhrif á heilsu og starfsgetu viðkomandi starfsmanns að honum sé ókleift að vinna öll störf í þágu útgerðar.  Staðhæfir stefnda að ekkert liggi fyrir um að slíkt ástand hafi verið fyrir hendi í tilviki stefnanda.

Í öðru lagi byggir stefnda sýknukröfu sína á því að honum hafi ekki verið tilkynnt um óvinnufærni stefnanda fyrr en með bréfi lögmanns hans þann 30. maí 2006 eða rúmum 2 árum eftir andlát bróður stefnanda.  Vísar stefnda til þeirrar almennu reglu í vinnurétti að starfsmanni beri að tilkynna atvinnurekanda tafarlaust í upphafi veikinda eða svo fljótt sem auðið er, ef hann verður óvinnufær sökum sjúkdóms eða slyss, en að öðrum kosti falli réttur til veikindalauna niður.  Þessa reglu sé að finna m.a. í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og L.Í.Ú., sbr. grein 1.23, þar sem jafnframt segi að skipstjóri skuli skila læknisvottorði til útgerðarmanns svo fljótt sem verða megi.  Tilkynning samkvæmt þessu hljóti auk þess að vera forsenda þess að atvinnurekandi geti krafist framlagningar læknisvottorðs, sbr. 5. mgr. 36. gr. sjómannalaga.  Í máli þessu sé ekkert sem bendi til þess að stefnandi hafi með nokkrum hætti tilkynnt stefnda um veikindi sín.  Atvik máls leiði heldur ekki til þess með neinum hætti að forráðamenn stefnda hafi átt að gera sér ljóst að stefnandi hafi verið haldinn sjúkdómi og því verið óvinnufær.  Að þessu leyti vísar stefndi sérstaklega til áðurrakinna samræðna sem stefnandi átti við skipstjóra Akureyrinnar EA-110, Guðmund Frey stuttu eftir hið voveiflega dauðsfall, en þá hafi ekki verið minnst á veikindi eða óvinnufærni.  Þvert á móti hafi skipstjórinn skilið stefnanda vegna fyrri orðræðna þeirra á þann veg að hann kæmi alls ekki aftur um borð þar eð hugur hans stæði til að ráð sig á annað skip í eigu stefnda, Baldvin Þorsteinsson EA-10.  Hafi það og gengið eftir nokkru síðar eða þann  1. júlí 2004.

Af hálfu stefnda er á það bent að vinnulag stefnanda líkt og annarra skipverja stefnda hafi verið þannig að þeir hafi farið í tvær veiðiferðir, en síðan tekið sér launalaust leyfi.  Og þar sem stefnandi hafi verið í sinni annarri veiðiferð í röð er atvik máls gerðust hafi hann átt að vera í fríi í þeirri veiðiferð sem staðið hafi yfir frá 13. maí til 4. júní 2004.  Hafi því verið eðlilegt að stefnandi mætti ekki til skips við upphaf nefndrar veiðiferðar.  Í millitíðinni hafi stefnandi eins og hafi komið fram ráðið sig á fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson EA-10 og farið í sína fyrstu veiðiferð með því skipi þann 1. júlí 2004.  Og þar sem Akureyrin EA-110 hafi ekki komið úr næstu veiðiferð á eftir fyrr en þann 17. júlí 2004 sé ljóst að stefnandi hefði aldrei getað náð þeirri veiðiferð.

Með vísan til alls ofanritaðs hafi forráðamenn stefnda með engu móti getað haft vitneskju um það að stefnandi hafi verið haldinn sjúkdómi þannig að hann væri óvinnufær á umkröfðu tímabili.  Stefnda hafi og fyrst borist tilkynning um nefnda óvinnufærni með bréfi lögmanns þann 30. maí 2006 eða rúmum tveimur árum eftir að hið voveiflega dauðsfall átti sér stað.  Af þessu leiði að þrátt fyrir að stefnandi hafi verið óvinnufær af völdum sjúkdóms á umræddu tímabili hafi hann glatað rétti sínum til veikindalauna.

Stefnda bendir á í þriðja lagi að krafa stefnanda hljóti hvað sem öðru líður að vera niður fallin sökum tómlætis þar sem liðið hafi rúmlega 2 ár frá því stefnandi var óvinnufær og þar til hann tilkynnti stefnda um þá óvinnufærni og gerði kröfu um veikindalaun.  Fram að því hafi stefndi með engu móti getað gert sér grein fyrir þessum meintu veikindum stefnanda.  Verði í því sambandi að benda á að stefnandi hafi á greindum tíma verið skipverji á skipi í eigu stefnda og því átt að vera auðvelt að koma boðum um ástand sitt til forráðamanna stefnda.  Jafnframt hafi honum verið rétt að geta um umrætt ástand sitt í samtali við skipstjóra Akureyrinnar EA-110, sbr. það sem rakið var hér að framan.

Til stuðnings sýknukröfu vísar stefnda í fjórða lagi til þess kostnaðar, sem lagður hafi verið út fyrir stefnanda vegna kröfu hans um að komast í land tafarlaust.  Hafi sá kostnaður verið um kr. 1.277.695 eða alltént hærri fjárhæð en stefnukröfur og sé þess því krafist að þeirri fjárhæð verði skuldajafnað á móti kröfu stefnanda.  Um rökstuðning vegna þessa vísar stefnda einkum til dskj. nr. 10 og 11, sem sé ljósrit af reikningi björgunarsveitar og eigin útreikningur fyrirsvarsmanns stefnda vegna olíukostnaðar og aflaverðmætis. 

Varðandi varakröfu sína bendir stefnda á að ef svo ólíklega fari að stefnandi verði talinn eiga rétt til veikindalauna samkvæmt 5. mgr. 36. gr. sjómannalaga, þá sé ljóst að lækka beri kröfu hans verulega.  Í fyrsta lagi vísar stefnda til þess að ef stefnda hafi átt með einhverju móti að vera kunnugt um einhver veikindi stefnanda hafi það í mesta lagi verið vegna þeirra daga, sem stefnandi missti úr í veiðiferðinni frá 26. apríl til 8. maí 2004.  Í öðru lagi vísar stefnda til þeirrar staðreyndar að stefnandi hafi undir öllum kringumstæðum átt að vera í fríi í veiðiferð þeirri, sem farin var þann 16. maí og hafi staðið til 4. júní 2004.  Í þriðja lagi vísar stefnda til þeirrar staðreyndar að stefnandi hafi verið búinn að ráða sig á Baldvin Þorsteinsson EA-10 og farið í veiðiferð með því skipi þann 1. júlí 2004.  Hafi hann því með engu móti getað farið í þá veiðiferð Akureyrinnar EA-110 er hafi hafist þann 7. júní s.á.  Að lokum vísar stefnda til áðurrakins kostnaðar sem lagður hafi verið út fyrir stefnanda vegna heimferðar hans þann 27. apríl 2004.

Af hálfu stefnda er dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega mótmælt.  Er til þess vísað að engin krafa var gerð á hendur stefnda fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda þann 30. maí 2006.  Í því bréfi hafi verið gerð mun hærri krafa en í stefnu síðar og verði því að telja að í fyrsta lagi sé hægt að gera kröfu um dráttarvexti frá birtingardegi stefnu, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38, 2001.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnda til almennra reglna vinnu- og kröfuréttar um tómlæti og skuldajöfnuð, en um málskostnað er vísað til 129. sbr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum.

IV:

Í máli þessu krefst stefnandi launa í veikindaforföllum á grundvelli 36. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985.  Nær krafa hans til tveggja veiðiferða auk nokkurra daga vegna veiðiferðar sem hann hvarf frá eftir að honum bárust hinar voveiflegu fregnir um fráfall yngri bróður.

Er atvik gerðust var stefnandi ráðinn ótímabundinni ráðningu í skipsrúm hjá stefnda og átti samkvæmt því, stæðu skilyrði til slíks, kröfu um laun í veikindaforföllum samkvæmt nefndri 36. gr. sjómannalaga.

Dómkrafa stefnanda er studd áðurröktum vottorðum Guðmundar Pálssonar heilsugæslulæknis.  Fyrir dómi hefur læknirinn staðfest gögnin og jafnframt lýst samskiptum sínum og sjúkdómsgreiningu, en einnig greint frá fyrri viðskiptum við stefnanda.  Að áliti dómsins eru ekki efni til að bera brigður á nefnd gögn, sbr. 71. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Verður því fallist á með stefnanda að sannað sé að hann hafi verið óvinnufær vegna sjúkleika á því tímabili sem lýst er í stefnu, í skilningi 36. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985.

Samkvæmt nefndri lagagrein sjómannalaganna, 1. og 2. málsgrein, á skipverji í stöðu stefnanda rétt til veikindalauna í allt að tvo mánuði auk kauptryggingar í aðra tvo.  Í 5. málsgrein lagagreinarinnar er sá áskilnaður gerður, að vilji skipverji neyta réttar síns skuli hann, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindi eða slys, er sýni að hann hafi verið óvinnufær vegna veikinda eða slyss.  Í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands Íslenskra útvegsmann og Samtaka atvinnulífsins er vísað til nefndrar lagagreinar, en síðan segir í ákvæði 1.21:  ,,Verði skipverji óvinnufær af völdum veikinda eða meiðsla, skal hann tilkynna það svo fljótt sem verða má skipstjóra eða útgerðarmanni.  Skipverja ber að leita læknis svo fljótt sem verða má og hann telur sig óvinnufæran og þegar skip kemur að landi.  Skal skipverjinn skila læknisvottorði til útgerðarmanns svo fljótt sem verða má.  Útgerðin skal greiða kostnað vegna öflunar læknisvottorða. Skipverji, sem verður óvinnufær, skal tilkynna skipstjóra eða útgerðarmanni strax þegar hann er orðinn vinnufær að nýju.“

Samkvæmt nefndri lagagrein sjómannalaga og lýstu kjarasamningsákvæði er gert ráð fyrir að skipverji verði að hafa uppi kröfu um að honum verði greidd laun í veikindaforföllum.  Með vísan til andmæla stefnda og að virtum framburði vitna, m.a. Guðmundar Freys skipstjóra og Jóhönnu Erlu fyrrverandi launafulltrúa, en einnig með hliðsjóna af frásögn Árna V. Þórarinssonar skipstjóra og Önnu Maríu starfsmannastjóra, er að áliti dómsins ósannað að stefnda hafi verið kunnugt um það á árinu 2004, að fjárvistir stefnanda á umkröfðu tímabili hafi verið vegna lýstra veikinda.  Að þessu virtu verður að fallast á þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi ekki haldið kröfum sínum fram án ástæðulauss dráttar, en samkvæmt frásögn nefnds launafulltrúa heyrði hún fyrst af þeim síðla árs 2005.  Þá liggur fyrir að stefnandi bar kröfur sínar fyrst fram formlega í innheimtubréfi dagsettu 30 maí 2006.  Er það niðurstaða dómsins, að með aðgerðarleysi sínu hafi stefnandi firrt sig rétti þeim sem hann telur sig hafa átt.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91,1991, sbr. framlagðar yfirlýsingar málflytjanda, Stefáns Geirs Þórissonar hrl. og Eyvindar Sólnes hdl.

Dóm þennan kvað upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð.

Stefnda, Samherji hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Össurar Willardssonar.

Málskostnaður fellur niður.