Hæstiréttur íslands
Mál nr. 55/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
- Skipting sakarefnis
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
|
|
Mánudaginn 22. febrúar 1999. |
|
Nr. 55/1999. |
Íslenska ríkið (Sveinn Snorrason hrl.) gegn Lunde Varv & Verkstads AB (Othar Örn Petersen hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging. Skipting sakarefnis. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta.
L höfðaði mál á hendur Í sem krafðist þess í greinargerð, sem lögð var fram við aðra fyrirtöku málsins í héraði, að L yrði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði. Héraðsdómari hafnaði kröfu L um málskostnaðartryggingu en féllst á mótmæli Í gegn því að skipta sakarefni málsins. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að Í hefði haft kröfu sína uppi of seint og ekki leitt líkur að því að L væri ófært um greiðslu málskostnaðar, þannig að skilyrðum 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt. Þá var ekki talið heimilt að kæra niðurstöðu héraðsdómara um að skipta ekki sakarefni málsins og var kröfu Í þar að lútandi vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 1.500.000 sænskar krónur í máli, sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila, auk þess sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að skipta ekki sakarefni málsins. Sóknaraðili styður kæruheimild við XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum o. lið 1. mgr. 143. gr. laganna. Hann krefst þess að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu, svo og að staðfest verði ákvæði hins kærða úrskurðar um að sakarefni málsins verði ekki skipt. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnaðartryggingu verði staðfest, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Heimild skortir til að kæra úrlausn héraðsdómara um að skipta ekki sakarefni málsins. Verður kröfu sóknaraðila um staðfestingu á úrskurði héraðsdóms að þessu leyti því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að öðru leyti.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Vísað er frá Hæstarétti kröfu sóknaraðila, íslenska ríkisins, um staðfestingu á ákvörðun héraðsdómara um að skipta ekki sakarefni málsins.
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Lunde Varv & Verkstads AB, 40.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 1999.
Mál þetta var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 4. september sl. Málið var þingfest 15. september sl. og tekið til úrskurðar 18. janúar sl.
Stefnandi er Lunde Varv & Verkstads AB, Brottkärrs Byväg PL 688, S-43658 Hovås, Svíþjóð.
Stefndi er íslenska ríkið og er samgönguráðherra og fjármálaráðherra stefnt fyrir þess hönd.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gerð að greiða stefnanda SEK 3.982.000 með nánar tilgreindum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af peningakröfum í sænskum krónum, frá 5. september 1988 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi. Þá er óskað eftir því að sakarefni málsins verði skipt þannig að fyrst verði dæmt um skaðabótaskyldu stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að setja tryggingu að fjárhæð SEK 1.500.000 eða annarrar fjárhæðar að mati dómsins til tryggingar greiðslu málskostnaðar.
Við þingfestingu málsins, 15. september sl., var sótt þing af hálfu stefnda. Við þingfestingu fékk stefndi frest til framlagningar greinargerðar til 10. nóvember sl. og skilaði hann greinargerð þann dag. Við fyrirtöku málsins 17. desember sl., voru lögmenn málsaðila sammála um að ágreiningur um málskostnaðartryggingu og skiptingu sakarefnis gengi til úrskurðar og var þeim gefinn kostur á að reifa kröfur sínar og sjónarmið í þinghaldi 18. janúar sl.
Í þinghaldinu 18. janúar hélt lögmaður stefnda fast við kröfu um að stefnanda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu. Ennfremur gerði hann þá kröfu að stefnandi greiddi málskostnað í þessum þætti málsins samkvæmt ákvörðun dómara.
Lögmaður stefnanda gerði þær dómkröfur að kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu yrði hafnað. Einnig var ítrekuð krafa um að sakarefni málsins yrði skipt, þannig að fyrst yrði dæmt um skaðabótaskyldu stefnda. Þá yrði stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað í þessum þætti málsins.
Lögmaður stefnda mótmælti kröfu stefnanda um að sakarefni málsins yrði skipt.
I.
Stefnandi máls þessa gerði, 16. janúar 1987, samning við Auðbjörgu hf. um að hann tæki að sér nýbyggingu skips. Skipið Arnar ÁR-55 skyldi tekið upp í kaupverð hins nýja skips. Fyrirtækið Bliki hf. gekk síðan inn í samningsskyldur kaupanda. Stefnandi heldur því fram að starfsmenn Siglingarmálastofnunar hafi tekið saknæma og ólögmæta ákvörðun þegar gefin voru út haffærnisskírteini og yfirlýsing um kvaðaleysi fyrir Arnar ÁR-55 þrátt fyrir lélegt ástand þes og ítrekaðar aðvaranir stefnanda. Stefnandi telur að þessi ákvörðun hafi leitt til tjóns fyrir hann.
Af hálfu stefnda er því m.a. haldið fram að skoðun starfsmanna Siglingarstofnunar og útgáfa haffærnisskírteina feli ekki í sér neina ábyrgð eða tryggingu af hálfu stofnunarinnar fyrir því að skip uppfylli ástands- eða gæðakröfur sem gerðar eru af hálfu kaupanda í einkaréttarlegum viðskiptum hans við eiganda skips. Því er ennfremur mótmælt að starfsmenn stofnunarinnar hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Þá telur stefndi ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni sem hann hafi ekki þegar fengið bætt.
II.
Sjónarmið aðila um málskostnaðartryggingu
Stefndi byggir kröfu um málskostnaðartryggingu á b-lið 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi vísar til framlagðs ársreiknings stefnanda fyrir árið 1997 en í honum kemur fram að frá 1994 hafi verkefni félagsins verið yfirtekin af móðurfélaginu Gustafsviks Verkstäder Aktiebolag og að starfsemi þess liggi niðri. Fram kemur að engin rekstur var á árinu 1997 og óráðstafað eigið fé í árslok 99.000 SKR.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að líkur séu á að eigið fé hafi enn minnkað. Þegar horft sé til stefnukrafna og líklegs málskostnaðar sé ekki útlit fyrir að eigið fé félagsins dugi til að greiða málskostnað í þessu máli. Stefnandi sé því í raun ófær um greiðslu málskostnaðar í skilningi b-liðar 1. mgr. 133. gr. einkamálalaga. Einnig verði að horfa til þess að um erlent félag sé að ræða með enga starfsemi og því erfiðara en ella að innheimta dæmdan málskostnað. Því er ennfremur haldið fram að málshöfðunin sé algerlega tilefnislaus og fyrirsjáanlega tilgangslaus.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að skilyrði þess að hægt sé að krefjast málskostnaðartryggingar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 133. gr. einkamálalaga sé að stefnandi sé ógjaldfær og að það verði stefndi að sýna fram. Í máli þessu hafi stefndi hvorki sýnt fram á að árangurslaus aðför hafi verið gerð hjá stefnanda né að hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota. Framlögð gögn sýni að eigið fé stefnanda hafi verið 99.000 SKR í árslok 1997 og dugi sú fjárhæð til greiðslu málskostnaðar í máli þessu. Stefnandi telur stefnda verða að sýna fram á að fjárhagur stefnanda hafi versnað þannig að hann sé nú ófær um að greiða málskostnað. Einnig er því haldið fram að stefnandi hafi meira fé til ráðstöfunar en sem nemi eigin fé. Þá geti stefnandi tekið lán. Ekki megi tengja saman skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 133. gr. og því geti það engu skipt varðandi kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu að stefnandi sé erlent félag. Þá hafi enga þýðingu við mat á því hvort setja eigi málskostnaðartryggingu á grundvelli b-liðar hvort málshöfðun sé tilefnislaus eða tilgangslaus.
III.
Sjónarmið aðila um skiptingu sakarinnar
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að verulegt hagræði sé af því fyrir hann að skipta sakarefni þessa máls þannig að fyrst verði fjallað um skaðabótaskyldu stefnanda. Því er haldið fram að verulegrar sönnunarfærslu sé þörf vegna fjárhæðar skaðabótakröfunnar. Kalla þurfi á vitni frá Svíþjóð sem hafa muni í för með sér mikinn kostnað. Þá telur stefnandi mögulegt að sætta megi málið á grundvelli dóms um bótaskyldu stefnda.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir öðru tjóni en því sem hann beri sjálfur ábyrgð á. Skipting sakarefnis kunni að draga úrslit málsins á langinn og auka kostnað stefnda af málinu. Stefndi telur því að hvorki sé þörf á að skipta sakarefninu né sé það heppilegt.
IV.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 er gert ráð fyrir því að krafa um málskostnaðartrygging komi fram við þingfestingu máls. Í greinargerð með lögunum segir að stefndi geti ekki komið fram kröfu sem þessari á síðari stigum máls ef honum var eða mátti vera kunnugt um tilefni til hennar við þingfestingu. Komi hins vegar fyrst tilefni til málskostnaðartryggingarkröfu eftir þingfestingu útiloka orð 133. gr. ekki að slík krafa verði tekin til greina.
Við þingfestingu málsins var sótt þing af hálfu stefnda en ekki höfð uppi krafa um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda. Ljóst er af gögnum málsins að stefnandi hafði verið í sambandi við Siglingamálstofnun og embætti ríkislögmanns fyrir útgáfu stefnu. Verður því ekki annað séð en að stefnda hafi verið eða mátt hafa verið kunnugt um, þegar við þingfestingu málsins, hvort tilefni væri til að krefjast málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda. Krafa stefnda sem fram kom í greinargerð hans um að stefnandi leggi fram málskostnaðartryggingu telst því of seint fram komin og verður ekki tekin til greina.
Rétt þykir að árétta að fram komnar upplýsingar um að starfsemi stefnanda liggi niðri og um eigið fé hans í árslok 1997 gefa vísbendingar um að hann hafi ekki yfir miklum fjármunum að ráða. Stefndi þykir þó ekki hafa leitt að því nægjanlega sterkar líkur að stefnandi sé eða verði ófær um að greiða þann málskostnað sem líklegt er að hann verði dæmdur til að greiða tapi hann máli þessu. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. einkamálalaga fyrir kröfu um málskostnaðartryggingu eru því ekki uppfyllt.
Í 1. mgr. 31. gr. einkamálalaga er kveðið á um að dómari geti ákveðið að skipta sakarefni ef annar málsaðili fer fram á það. Ekki er þörf á að ráða þessu ágreiningsefni til lykta með úrskurði en eins og á stendur þykir hagfellt að taka einnig ákvörðun um það samhliða úrskurði um málskostnaðartryggingu.
Varnarástæður stefnda í máli þessu lúta bæði að því að skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki fyrir hendi og eins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón sem stefndi beri ábyrgð á. Fléttast þessar varnarástæður mjög saman.
Svo sem sakarefni máls þessa er háttað þykir ekki liggja fyrir að skipting sakarefnis með þeim hætti að aðeins verði að svo stöddu fjallað um bótaskyldu stefnda muni hafa í för með sér verulega umfangsminni málsmeðferð varðandi þann þátt en þótt fjallað væri um allt sakarefnið. Fyrir liggur að verulegur ágreiningur er með aðilum um hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og um umfang tjónsins. Fari svo að stefndi verði talinn bótaskyldur hefði slík skipting sakarefnis því væntanlega í för með sér lengri málsmeðferðartíma og aukinn kostnað fyrir málsaðila.
Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og málatilbúnaði aðila í heild sinni þykir ekki heppilegt að skipta sakarefni máls þessa þannig að fyrst verði dæmt um bótaskyldu stefnda.
Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíði efnisdóms.
Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu stefnda, íslenska ríkisins, um að stefnanda, Lunde Varv & Verkstads AB, verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.
Sakarefni máls þessa verður ekki skipt.
Ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.