Hæstiréttur íslands

Mál nr. 572/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. nóvember 2006.

Nr. 572/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember næstkomandi kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 1. nóvember 2006.

Ríkissaksóknari hefur sett fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 20. desember nk. kl. 16.00.

Í greinargerð ríkissaksóknara segir að hinn 20. október sl. hafi embættinu borist til meðferðar mál frá lögreglunni í Reykjavík er varði stórfellt fíkniefnabrot kærða og fleiri manna.  Af gögnum málsins megi ráða að kærði sé undir sterkum grun um aðild að innflutningi á 1.980,87 g af kókaíni til landsins.  Umrædd fíkniefni hafi verið flutt til landsins frá Spáni í þann 9. ágúst sl. og hafi fundist við leit í farangri konu á Kefla­víkurflugvelli þegar hún hafi komið til landsins.  Þáttur kærða í málinu sé talinn verulegur þar sem hann hafi viðurkennt að hafa hitt tvo aðra sakborninga og skipulagt innflutning efnisins.  Þá hafi hann fengið ofan­greinda konu til að fara til Spánar í því skyni að taka efnin með sér til baka og fara með þau í gegnum tollskoðun.  Kærði hafi einnig sjálfur farið til Spánar þar sem hann  hafi sótt efnið til annars sakbornings og afhent það konunni.  Kærði hafi farið á undan henni í gegnum tollskoðun við komu þeirra til landsins í þeirri von að tollverðir beindu athygli sinni að honum til að konan kæmist í gegn með fíkniefnin.

Sakargiftir á hendur kærða styðjist við framburð kærða sjálfs og einnig við framburð annarra sakborninga og rannsóknargögn.

Kærði sé því undir sterkum grun um að hafa framið brot sem geti varðað hann allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 64,1974, sbr. lög nr. 32,2001, og telur ákæruvaldið því að skilyrði séu til áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991, um meðferð opinberra mála.

Gefin hefur verið út ákæra í málinu, dags. í dag, á hendur kærða og fleira fólki.

Þá hafi Hæstiréttur tekið undir það álit ákæruvalds að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði hafa framið brot sem geti varðað hann allt að 12 ára fangelsi.

Ríkissaksóknari vísar til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála kröfu sinni til stuðnings.

Kærði hefur mótmælt kröfunni en kannast við að hafa átt aðild að þeim fíkniefna­innflutningi sem hann er ákærður fyrir.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er fallist á það með ákæru­valdinu að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 séu uppfyllt og verður því orðið við kröfu þess og kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.  Ákæra í málinu hefur þegar verið gefin út og þess því að vænta að meðferð þess ljúki á þeim tíma sem gæsluvarðhaldið stendur.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð:

Kærði, X, [kt.], skal sæta áfram gæslu­varðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember nk. kl. 16.00.