Hæstiréttur íslands
Mál nr. 731/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi. I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 31. október 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. október 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að kærði, X, kt. [...], [...] Hafnarfirði verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 31. október 2015, kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglu hafi í gær borist beiðni um lögreglurannsókn frá barnavernd Hafnarfjarðar. Samkvæmt beiðninni hafi kennari úr skóla [...] í Hafnarfirði hringt í bakvaktarsíma nefndarinnar um hádegið í gær og greint frá því að dóttir kærða, A, kt. [...], hafi lýst fyrir henni kynferðisofbeldi af hálfu föður síns í orðum og með teikningum. Hafi stúlkan teiknað mynd af sér í rúmi og pabba sinn á rúmstokknum. Þá hafi hún skýrt frá því að kærði kæmi við einkastaði hennar og setti sinn einkastað inn í hennar. Þegar kennarinn hafi beðið hana um að útskýra myndina nánar hafi hún bent á hana og sagt að þetta væri typpið á pabba sem færi inn í píkuna hennar. Þá hafi hún teiknað mynd sem væri af pabba hennar og henni að gráta. Hendur hennar væru svartar á myndinni og hafi hún sagt að hendur hennar væru svartar þar sem hún væri að reyna að stöðva pabba sinn. Hafi hún sett svarta punkta yfir allt sem væri neikvætt í hennar huga svo sem hendur foreldra og hennar eigin, sem og einkastaði hennar og föður hennar. Fram komi í beiðninni að stúlkan hafi verið sorgmædd og leið er hún hafi komið til kennarans, en hún hafi verið hjá honum í vinnu sem væri til þess fallin að styrkja sjálfsmynd barna og vinna í tilfinningarvanda þeirra. Í beiðninni komi fram að stúlkan hafi átt við tilfinningavanda að etja. Hafi henni farið aftur í haust og átt það til að missa þvag og hægðir í svefni. Samkvæmt beiðninni hafi stúlkan tjáð kennaranum að hún hefði áhyggjur af bróður sínum í þessu sambandi, en bróðir hennar sé B, fæddur í febrúar [...].
Kærði hafi verið handtekinn vegna málsins rétt fyrir klukkan fjögur í gær. Hann hafi alfarið neitað sök í skýrslutöku hjá lögreglu. Er hann hafi verið spurður út í frásögn stúlkunnar samkvæmt kennaranum og teikningarnar þá hafi hann ekki sagst skilja hvaðan þetta kæmi, en sagt að stúlkan hefði verið læra um líkamsvirðingu og líkamann í skólanum og hvernig börnin yrðu til og að foreldrar hafi verið varaðir við þessari fræðslu. Kærði hafi sagst hafa sett bleyju á stúlkuna vegna næturvætu, en passað sig að setja ekki krem á hana sjálfur ef þess þurfti. Honum hafi verið kynnt að stúlkan hefði teiknað hendur sínar svartar og það væri vegna þess að hún væri að reyna að stoppa hann og hafi kærði sagt að hann vissi ekki hvaðan það kæmi.
Í málinu liggi fyrir samantekt frá framangreindum kennara um viðtalið við stúlkuna og þær myndir sem stúlkuna hafi teiknað. Í samantektinni sé ítarleg lýsing á viðtalinu við stúlkuna þar sem fram komi lýsingar á kynferðisofbeldi af hálfu föður hennar í máli og myndum stúlkunnar. Um sé að ræða sams konar lýsingu og fram komi í beiðni barnaverndar, auk þess sem fram komi að stúlkan hafi lýst því að hún hefði viljað segja frá fyrr en ekki þorað því þegar hún var [...] ára því þá hafi hún ekki vitað að pabbi sinn væri að “ruglast”. Aðspurð um hvar mamma sín hefði verið hafi hún sagt að hún hefði verið að svæfa B eða frammi í stofu, en hún vissi það ekki.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögregla hafi rætt við umsjónarkennara stúlkunnar og samkvæmt honum hafi í kynfræðslu í skólanum ekki verið farið út í það hvernig börn yrðu til.
Að mati lögreglu sé fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi brotið kynferðislega gegn dóttur sinni. Séu brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brotin varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé á frumstigi og telji lögreglustjóri ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Fyrir liggi að taka þurfi skýrslu af stúlkunni og bróður hennar fyrir dómi og eigi að gera það síðar í vikunni. Þá þurfi einnig að taka skýrslur af öðrum vitnum. Jafnframt þurfi að rannsaka síma- og tölvugögn sakbornings. Mál þetta sé á það viðkvæmu stigi að hætta sé á að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins með einhverjum hætti gangi hann laus.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan um gæsluvarðhald yfir kærða nái fram að ganga. Þess sé einnig krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldi standi, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna.
Í rannsóknargögnum málsins liggur fyrir ítarleg samantekt af viðtali sem kennari Barnaskólans í Hafnarfirði átti við brotaþola í gær, sem og teikningar sem brotaþoli gerði meðan á viðtalinu stóð. Í gögnum þessum kemur fram lýsing á kynferðisofbeldi kærða gagnvart brotaþola í máli og myndum, en brotaþoli er aðeins [...] ára gömul. Þar kemur einnig fram að brotaþoli hafi lýst áhyggjum af yngri bróður sínum í þessu sambandi. Jafnframt kemur fram í gögnum frá skóla að brotaþoli hafi um nokkurt skeið sýnt einkenni vanlíðunar og kvíða og verið óörugg og áhyggjufull. Með vísan til framangreinds og gagna málsins að öðru leyti verður ráðið að kærði sé undir rökstuddum grun um kynferðisbrot gegn dóttur sinni, sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi, sbr. XXII. kafla almennra hegningarlaga. Rannsókn málsins er á frumstigi, en kærði var handtekinn skömmu eftir að málið kom upp í gær. Fram kom við meðferð málsins að börn kærða hafa verið vistuð utan heimilis, en muni áfram sækja skóla og leikskóla þar sem kærði gæti nálgast börn sín. Með vísan til framangreinds þykir hætta á því að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á brotaþola og önnur vitni fari hann frjáls ferða sinna. Þykja því uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að fallast megi á kröfu sóknaraðila um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 31. október 2015, kl. 16.00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.