Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit
  • Óvígð sambúð


                                              

Mánudaginn 17. mars 2014.

Nr. 163/2014.

M

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

gegn

K

(Ásgeir Jónsson hrl.)

Kærumál. Fjárslit. Óvígð sambúð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K er risið hafði við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna loka óvígðrar sambúðar. M krafðist þess að viðurkenndur yrði að fullu eignarréttur hans að fasteign sem aðilar höfðu búið í, en samkvæmt þinglýsingarvottorði var fasteignin eign M og K að jöfnu. Í dómi Hæstaréttar sagði að við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar beri að líta svo á að hvorum aðila tilheyri sínar eignir og gildi þá sú meginregla að hvort þeirra taki þær eignir sem tilheyrðu því við upphaf sambúðar eða það eignaðist meðan á henni stóð. Sá sem vefengi skráð eignarhlutföll beri sönnunarbyrði fyrir því. M þótti ekki hafa fært fyrir því viðhlítandi rök að efni væru til að víkja frá þinglýstum heimildum um eignarrétt að fasteigninni. Einnig var lagt til grundvallar að bifreið aðila og hjólhýsi væru eign beggja, í samræmi við kröfur aðila. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. febrúar 2014, þar sem leyst var úr ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar málsaðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við fjárslitin verði viðurkenndur eignarréttur hans að fasteigninni [...] á [...], aðallega að fullu en til vara að öðrum og lægri hundraðshluta umfram helming. Að því frágengnu krefst hann þess að viðurkennd verði helmingshlutdeild sín í bifreiðinni [...] og hjólhýsinu [...]. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði voru aðilar í sambúð á árunum 2006 til 2012. Með úrskurði 24. október 2012 var tekin til greina krafa sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita vegna sambúðarslita aðilanna. Á skipta­fundi 19. nóvember sama ár krafðist sóknaraðili þess að viðurkenndur yrði að fullu eignarréttur hans að fasteigninni [...], þar sem aðilarnir höfðu átt heimili. Skiptastjóri tók þá afstöðu til þessa ágreinings að fasteignin teldist að fullu í eigu sóknaraðila. Varnaraðili vildi ekki una þeirri niðurstöðu og vísaði skiptastjóri ágreiningsefninu til héraðsdóms 18. apríl 2013.

Ágreiningur aðilanna lýtur að þremur eignum. Í fyrsta lagi deila þau um eignarhald að fasteigninni [...], sem var að fullu í eigu sóknaraðila við upphaf sambúðar þeirra, en hann afsalaði 1. september 2006 helmingshlut í eigninni til varnaraðila gegn því að hún tæki yfir helming áhvílandi veðskulda og var afsali þinglýst 18. sama mánaðar. Í öðru lagi er ágreiningur aðilanna um bifreiðina [...]. Samkvæmt gögnum málsins hefur þessi bifreið verið skráð í ökutækjaskrá á nöfn beggja aðila allt frá kaupum hennar á árinu 2007, en í málatilbúnaði varnaraðila er því haldið fram að hún hafi staðið ein að kaupum á bifreiðinni. Í þriðja lagi deila aðilarnir um eignarhald að hjólhýsinu [...], sem í ökutækjaskrá var skráð á nafn varnaraðila frá því það var keypt á árinu 2010 þar til hún ráðstafaði því 2012.

Í hinum kærða úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að umrædd fasteign væri að helmingi í eigu hvors aðila í samræmi við þinglýstar heimildir. Var og lagt til grundvallar að varnaraðili væri skuldari af helmingi veðskulda, sem hvíldu á eigninni. Þá var það niðurstaða héraðsdóms að bifreiðin [...] og hjólhýsið [...] teldust hafa tilheyrt aðilunum að jöfnu.

II

Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar ber við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar að líta svo á að hvorum aðila tilheyri sínar eignir og komi þær ekki til skipta. Gildir þá sú meginregla að hvort þeirra taki þær eignir, sem tilheyrðu því við upphaf sambúðar eða það eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Eftir almennum reglum fjármunaréttar gildir sú meginregla við fjárslit að þinglýst eignarheimild yfir fasteign og skráning eignarréttar að bifreið í ökutækjaskrá veita líkindi fyrir eignarrétti. Leiðir af þeirri reglu að sá, sem heldur því fram að í slíkri skráningu felist ekki réttar upplýsingar um eignarrétt, ber sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var sóknaraðili einn þinglýstur eigandi fasteignarinnar [...] þegar aðilarnir hófu sambúð árið 2006, en síðar á sama ári afsalaði hann eins og áður greinir helmingshlut í eigninni til varnaraðila. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að afsalið hafi verið bundið fyrirvara eða því skilyrði að varnaraðili stæði skil á greiðslu til sóknaraðila umfram þá skuldbindingu að hún tæki yfir helming áhvílandi veðskuldar. Þvert á móti virðist það hafa verið skýr vilji sóknaraðila að varnaraðili eignaðist helmingshlut í eigninni, en til þess er einnig líta að eftir gögnum málsins verður ekki annað séð en að fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilunum og virðist raunar mega rekja talsverðan hluta fjármuna þeirra í upphafi sambúðar til sölu varnaraðila á fasteignum í hennar eigu. Í því sambandi getur engu breytt að sóknaraðili hafi einn staðið skil á greiðslum vegna áhvílandi veðskulda, enda liggur fyrir að varnaraðili bar kostnað af rekstri heimilis þeirra.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, hefur sóknaraðili ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að efni séu til að víkja frá þinglýstum heimildum um eignarrétt að fasteigninni að [...] og verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar hvað hana varðar. Verður jafnframt tekin til greina krafa varnaraðila um að hún verði talin bera ábyrgð á helmingi skulda, sem hvíldu á fasteigninni við lok sambúðar aðilanna.

Svo sem áður greinir var komist að þeirri niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að bifreiðin [...] og hjólhýsið [...] væru í sameign aðilanna að jöfnu. Sóknaraðili hefur sem fyrr segir krafist þess fyrir Hæstarétti að niðurstaða um þessar eignir verði á sama veg og hefur varnaraðili krafist staðfestingar úrskurðar héraðsdóms fyrir sitt leyti. Úrskurðurinn verður því óraskaður um þetta.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úr­skurður Héraðsdóms Suður­lands 12. febrúar 2014.

            Sóknaraðili er M, kt. [...], [...], [...].

            Varnaraðili er K, kt. [...], [...], [...].

             Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, upp kveðnum 24. október 2012, var bú ofangreindra aðila tekið til opinberra skipta vegna samvistaslita þeirra. Óskar Sigurðsson, hrl, var skipaður skiptastjóri. Á skiptafundi þann 19. nóvember 2012 lagði sóknaraðili fram kröfu um að fasteignin [...] yrði viðurkennd að fullu í hans eigu en varnaraðili hafnaði þeirri kröfu. Skiptastjóri tók afstöðu til ágreinings aðila og sú afstaða hans kynnt á skiptafundi 29. febrúar 2013 að fasteignin skyldi að öllu leyti talin í eigu sóknaraðila. Varnaraðili vildi ekki una þessari niðurstöðu og vísaði ágreiningsmálinu til dómsins með bréfi dagsettu 18. apríl 2013, en það var móttekið 22. apríl sama ár og þingfest 8. maí sama ár.  Aðalmeðferð fór fram 16. september sl. en málið var endurupptekið og endurflutt þann 16. janúar sl.

            Sóknaraðili gerir þær kröfur aðallega að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkenndur 100% eignarréttur hans að fasteigninni [...] á [...]. Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði eignarréttur hans að öðrum og lægri hundraðshluta fasteignarinnar, umfram 50% skráða eignarheimild. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði helmingshlutdeild hans í bifreiðinni [...] og hjólhýsinu [...]. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins. 

            Dómkröfur varnaraðila eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og viðurkenndur verði 50% eignarhluti hennar í fasteigninni [...] og að hún sé skuldari að 50% af áhvílandi veðlánum fasteignarinnar. Þá krefst varnaraðili þess að viðurkenndur verði 100% eignarréttur hennar í bifreiðinni [..] og hjólhýsinu [...]. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt tímaskýrslu.

Málavextir eru þeir að sögn sóknaraðila að málsaðilar hafi ekki verið í skráðri sambúð en hafið samvistir á árinu 2006. Sambúðinni hafi lokið í febrúar 2012.  Málsaðilar áttu ekki börn saman og töldu ekki saman fram til skatts. Við upphaf sambúðarinnar átti sóknaraðili einn fasteignina [...] á [...] en þann 1. september 2006 hafi verið gengið frá afsali milli aðila og hafi sóknaraðili afsalað 50% fasteignarinnar til varnaraðila. Samkvæmt afsali hafi varnaraðili átt að taka yfir áhvílandi lán á fasteigninni að fjárhæð 10.011.169 krónur. Ekkert hafi hins vegar orðið af því. Þá hafi varnaraðili ekki greitt fyrir eignarhlutann þrátt fyrir að hafa á sama tíma og afsalið hafi verið gert selt íbúð sem hún hafi átt að [...] á [...] og hús að [...] á [...]. Þá hafi varnaraðili á sambúðartímanum komið sér upp bifreið og keypt fellihýsi. Sóknaraðili segist á sambúðartímanum hafa alfarið staðið straum af greiðslu afborgana vegna áhvílandi lána, fasteignagjalda, greiðslu lögboðinna vátrygginga og annars rekstrarkostnaðar vegna fasteignarinnar, samtals að fjárhæð 7.865.735 krónur. Sóknaraðili hafi unnið utan heimilis á sambúðartímanum, að mestu við eigin rekstur. Varnaraðili hafi unnið utan heimilis fyrstu sambúðarárin en síðan notið örorkubóta frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum og haft tekjur af leirmunagerð á heimili aðila. Sóknaraðili segir málsaðila hafa lagt nokkuð jafnt til reksturs sameiginlegs heimilis, þ.e. til matarinnkaupa og annarra nauðsynja. Þá hafi sóknaraðili lagt til slysabætur að fjárhæð 4.833.388 krónur í október 2011.

Varnaraðili segist hafa komið með bifreið inn í sambúð aðila og þann 15. september 2006 hafi varnaraðili selt fasteign sína að [...] á [...] og fengið greiddar 6.767.685 krónur fyrir hana. Bifreiðin [...] hafi verið keypt og skráð á báða málsaðila en sóknaraðili hafi farið að nota bifreið varnaraðila sem vinnubifreið en hún hafi skemmst. Fjármunir sem fengist hafi vegna tjónsins hafi verið notaðir til kaupa á bifreið sem sóknaraðili hafi notað sem vinnubifreið. Varnaraðili segist hafa fjármagnað kaupin á bifreiðinni [...] að fullu m.a. með eingreiðslu sem hún hafi fengið frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði, en sóknaraðili hafi aldrei lagt fram neina fjármuni vegna bifreiðarkaupanna. Varnaraðili hafi einnig keypt hjólhýsið [...] og fjármagnað það með fyrrnefndri eingreiðslu og hafi það verið skráð eign varnaraðila. Varnaraðili segist á sambúðartímanum hafa staðið straum af ýmsum kostnaði tengdum rekstri heimilisins, m. a. áskriftargjöld fyrir sjónvarp, bifreiðagjöld fyrir tvær bifreiðar, tryggingum og rekstrarkostnaði bifreiðar o.fl., samtals 2.838.874 krónur auk kostnaðar vegna matarinnkaupa. Varnaraðili kveðst hafa greitt 3.543.773 krónur til sóknaraðila á sambúðartímanum og jafnframt staðið straum af lífeyrissjóðsiðgjöldum til [...], samtals 350.828 krónur og til [...], samtals 107.336 krónur, greiðslu á virðisaukaskatti og staðgreiðslu til sýslumanns, samtals 637.814 krónur. Sóknaraðili hafi einungis millifært 1.027.404 krónur yfir á bankareikning varnaraðila á sambúðartímanum. Varnaraðili segir að miklar endurbætur hafi verið gerðar á fasteigninni að [...] á sambúðartímanum, skipt hafi verið um eldhúsinnréttingu, baðherbergi og búr uppgert, ný gólfefni sett og pallur byggður. Hafi varnaraðili að mestu staðið straum af kostnaði vegna þessara framkvæmda. Þá hafi málsaðilar ferðast innan- og utanlands nokkrum sinnum á sambúðartímanum og hafi varnaraðili greitt samtals 867.585 krónur. Sóknaraðili hafi þann 12. febrúar 2009 fengið greiddar inn á bankareikning sinn tryggingabætur vegna [...] í eigu varnaraðila, samtals 356.735 krónur, en varnaraðili hafi aldrei fengið þá fjármuni í hendur.

                Sóknaraðili byggir á því að hann hafi komið með fasteignina [...] í bú aðila. Varnaraðili hafi ekki greitt fyrir þann hluta sem hún hafi fengið afsalað þann 1. september 2006, hvorki tekið yfir áhvílandi lán né greitt af því á sambúðartíma aðila. Við slit sambúðar verði að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og meginregla gildi að hvort þeirra taki þær eignir sem það hafi átt við upphaf sambúðar eða eignaðist meðan á sambúðinni hafi staðið. Sóknaraðili telur að fjárhagsleg samstaða hafi ekki myndast hjá aðilum á sambúðartíma og varnaraðila beri að sýna fram á að hún eigi þann hluta í fasteigninni sem hún sé þinglýstur eigandi að. Þinglýsing veiti vissulega líkindi fyrir eignarrétti, en í tilviki málsaðila telur sóknaraðili að svo sé ekki. Varnaraðili hafi haldið því fram að hún hafi með öðrum fjárframlögum lagt fé til eignamyndunar í fasteigninni en sóknaraðili hafnar því alfarið. Sóknaraðili hafi líka lagt fram fé til daglegra þarfa, ekki minna en varnaraðili. Þá hafi sóknaraðili m.a. lagt fram fé sem hann hafi fengið vegna slysabóta. Sóknaraðili bendir á að hann hafi verið kominn yfir fertugt og varnaraðili yfir fimmtugt þegar þau hófu sambúð. Þau hafi ekki átt börn saman eða verið með börn á framfæri. Tekjur þeirra hafi verið svipaðar öll árin, en tekjur varnaraðila hafi síðustu ár eingöngu komið frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun. Þá hafi varnaraðili haft tekjur af leirmunagerð sem ekki hafi ratað á skattframtöl. Sóknaraðili hafi einnig aflað tekna sem ekki hafi ratað á skattframtöl en þær tekjur hafi hann látið varnaraðila hafa, hún hafi lagt þær inn á sinn reikning og þaðan á reikning sóknaraðila. Sóknaraðili telur þetta skýra að hluta til greiðslur varnaraðila til sóknaraðila.

            Sóknaraðili bendir á að engin eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma aðila. Virðist varnaraðili hafa notað fjármuni þá sem  hún hafi fengið fyrir sölu á fasteignum til að kaupa bíl og hjólhýsi. Hafi engar eignir orðið til fyrir sameiginlegan tilverknað aðila á sambúðartíma.

            Sóknaraðili vísar til dómafordæma Hæstaréttar um að við fjárskipti sambúðaraðila séu lögð til grundvallar önnur eignarhlutföll en þinglýst eignarhlutföll ef sýnt er fram á að raunveruleg fjárframlög aðila til kaupa á eign hefðu verið með þeim hætti að eignarhlutföll skyldu teljast önnur. Þá séu fyrir því dómafordæmi að forsendur fyrir jafnri eignarhlutdeild sambúðaraðila haf brostið og aðili því ekki eignast eignarrétt að fasteign eins og þinglýstar eignarheimildir hafi kveðið á um.

            Sóknaraðili rökstyður málsástæður sínar nánar með þeim hætti að við afsalsgerð hafi ekki legið fyrir að varnaraðili hafi á nokkurn hátt greitt fyrir eignarhluta sinn. Í skattframtali komi fram að kaupverð eignarhluta varnaraðila hafi verið 10.000.000 krónur. Ætlun aðila hafi verið að varnaraðili greiddi fyrir eignarhlutann með sölu íbúðar og húseignar er hún hafi átt áður en sambúð hófst. Varnaraðili hafi fengið 1.500.000  krónur við sölu á íbúð að [...] á [...] í júní 2006 og 2.641.441 krónu við sölu á [...] á [...] í febrúar 2005. Verði fallist á kröfu varnaraðila telur sóknaraðili ljóst að um ólögmæta auðgun er að ræða, þar sem aldrei hafi verið greitt fyrir hlutinn.

            Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi aldrei tekið yfir áhvílandi lán á fasteigninni [...]. Lánið hafi á sambúðartíma alltaf verið skráð á sóknaraðila, enda hafi hann greitt allar afborganir. Lánið hafi á tímabili verið skráð að helmingi á varnaraðila og hafi hún notið vaxtabóta af því fyrirkomulagi. Lánið hafi síðar verið fært að öllu leyti á sóknaraðila, enda hafi varnaraðili aldrei yfirtekið það. Sóknaraðili telur að kaupverð á sambærilegum eignum á þessum tíma hafi numið 17-19 milljónum króna og hefði yfirtaka varnaraðila á láninu því átt að endurspegla helming kaupverðs eignarinnar.

            Sóknaraðili segir varnaraðila aldrei hafa greitt af áhvílandi láni eða önnur gjöld vegna fasteignarinnar á sambúðartíma aðila og hafnar sóknaraðili því að greiðslur varnaraðila inn á reikning hans hafi á einhvern hátt endurspeglað greiðslur afborgana af láninu.

            Varakrafa sóknaraðila er studd sömu rökum og aðalkrafa.

            Verði ekki fallist á kröfur sóknaraðila um aukinn eignarhlut í fasteigninni [...] er þess krafist að viðurkennd verði helmingshlutdeild hans í bifreiðinni [...] og hjólhýsinu [...]. Svo virðist sem varnaraðili hafi komið sér upp þessum eignum á sambúðartíma og telur sóknaraðili sanngjarnt að hann fái helmingshlutdeild í þeim.

            Sóknaraðili byggir málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 130. gr.

            Varnaraðili byggir á því að við fjárskipti aðila sem verið hafi í óvígðri sambúð gildi almennar reglur fjármunaréttar, þ.e. hvor aðili tekur það sem hann átti þegar til sambúðar var stofnað og það sem hann eignaðist á sambúðartímanum nema sérstakleg hafi verið samið um annað. Varnaraðili sé skráður 50% eigandi að fasteigninni [...] enda óumdeilt að sóknaraðili hafi afsalað til varnaraðila þeim eignarhluta með afsali dagsettu 1. september 2006. Þá sé varnaraðili skráður eigandi hjólhýsisins [...] og 50% eigandi að bifreiðinni [...].

            Varnaraðili byggir á því að hún hafi greitt ýmsar aðrar greiðslur en afborganir af áhvílandi veðlánum auk þess að standa að mestu straum af kostnaði vegna matarkaupa heimilisins og mikilla endurbóta á fasteigninni. Þá hafi hún lagt til töluverða fjármuni í verkfærakaup fyrir sóknaraðila á sambúðartímanum. Hafi varnaraðili millifært á reikning sóknaraðila samtals 3.543.773 krónur á sambúðartíma aðila, eða u.þ.b. 50.000 krónur á mánuði. Auk þessa hafi varnaraðili staðið straum af ýmsum kostnaði tengdum rekstri heimilisins, m.a. áskriftargjöld vegna sjónvarps, bifreiðagjöld fyrir tvær bifreiðir, tryggingum, rekstrarkostnaði bifreiðar o.fl., samtals 2.838.874 krónur. Þá telur varnaraðili til greiðslur fyrir sóknaraðila í lífeyrissjóðinn [...], 350.828 krónur, í [...], 107.336 krónur, greiðslur vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu til sýslumanns, 637.814 krónur. Þá sé kostnaður vegna heimilisreksturs 4.037.657 krónur og vegna ferða erlendis, 867.585 krónur. Varnaraðili hafnar þeirri afstöðu skiptastjóra að málsaðilar hafi lagt að jöfnu til matarinnkaupa heimilisins. Ekki hafi verið horft til þeirrar staðreyndar að hún hafi millifært fjármuni á bankareikning sóknaraðila.

            Varnaraðili byggir á því að hún hafi átt að yfirtaka 50% áhvílandi veðlána en ekki 100%, enda annað fráleitt þar sem hún hefði nýlega selt fasteign sína að [...] og lagt þá fjármuni til heimilisrekstrarins. Yfirtaka áhvílandi veðlána hafi aldrei átt sér stað enda hafi varnaraðili aldrei farið í greiðslumat vegna væntanlegrar yfirtöku. Sóknaraðili hafi í sex ár fengið greiðsluseðla vegna veðlánsins senda heim á sínu nafni og greitt þá án athugasemda, vitandi það að áhvílandi veðkröfur voru enn skráðar á nafn hans. Á skattframtölum aðila hafi áhvílandi veðlán verið talin sem 50% skuld hvors fyrir sig allt til ársins 2010 en þá hafi áhvílandi veðlán verið að fullu talin fram sem skuld sóknaraðila og hafi hann frá þeim tíma einn notið vaxtabóta vegna þeirra. Sóknaraðili hafi engar athugasemdir gert við þetta fyrirkomulag og verði því að  líta svo á að sóknaraðili hafi talið varnaraðila standa straum af sínum hluta af afborgunum veðkrafna og rekstrarkostnaði fasteignarinnar með millifærslum á bankareikning sinn og greiðslu varnaraðila á öðrum útgjöldum heimilisins. Varnaraðili bendir á að sambærilegar fasteignir hafi á þessum tíma verið að seljast á 17-19 milljónir króna og því verði að teljast fráleitt að varnaraðili tæki yfir meira en helming áhvílandi veðlána, sér í lagi þar sem ástand fasteignarinnar hafi verið mjög slæmt á þessum tíma og endurbætur ekki hafnar á henni.

            Vegna fullyrðingar sóknaraðila um að hann hafi lagt til á sambúðartímanum slysabætur sem hann hafi fengið greiddar í október 2011, samtals 4.833.388 krónur, bendir varnaraðili á að málsaðilar hafi slitið samvistum í febrúar 2012, fjórum mánuðum eftir að sóknaraðili fékk bæturnar greiddar. Sóknaraðili hafi notað þessa fjármuni til þess að greiða upp bankalán sem hann hefði tekið vegna atvinnurekstrar síns, u.þ.b. 800.000 krónur, keypt tvö sófasett og gervihnattadisk. Sóknaraðili hafi haldið þessum hlutum við sambúðarslitin og hafi fjármunirnir ekki farið í sameiginlegan rekstur heimilisins eða runnið til varnaraðila með beinum hætti, en mögulega til matarinnkaupa.

            Varnaraðili telur því ljóst að hún hafi lagt til verulega fjármuni til sóknaraðila á sambúðartímanum og sé meðaltalið reiknað af þessum fjárhæðum séu þær hærri en hluti varnaraðila í mánaðarlegum afborgunum af áhvílandi veðláni fasteignarinnar. Þá hafi varnaraðili lagt til umtalsverða fjármuni sem farið hafi í að auka verðgildi fasteignarinnar og þannig aukið eignarmyndun beggja í henni.

            Varnaraðili kveðst hafa átt bifreið þegar sambúð aðila hófst en bifreiðin [...] hafi verið keypt árið 2007 og þá hafi sóknaraðili farið að nota bifreið varnaraðila sem vinnubifreið þar til hún skemmdist. Sú bifreið hafi verið fjármögnuð með örorkubótum varnaraðila. Bifreiðin sé skráð eign beggja málsaðila en sóknaraðili hafi aldrei lagt til þá fjármuni sem til hafi staðið að hann legði fram vegna kaupanna. Við sambúðarslitin hafi varnaraðili fengið bifreiðina í sínar hendur og haft umráð hennar frá þeim tíma og greitt af henni allan rekstrarkostnað. Umrætt hjólhýsi hafi verið keypt á sambúðartímanum fyrir örorkubætur varnaraðila og hafi það verið skráð eign hennar. Varnaraðili sé skráður eigandi beggja þessara ökutækja í ökutækjaskrá og því krefst hún viðurkenningar á 100% eignarhlut í þeim.

            Varnaraðili byggir kröfur sínar á ólögfestum reglum um fjárskipti við slit á óvígðri sambúð og almennum reglum fjármunaréttar. Kafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

             Málsaðilar hófu samvistir á árinu 2006 og lauk sambúð þeirra í febrúar 2012. Við upphaf sambúðarinnar átti sóknaraðili einn fasteignina [...] á [...] en þann 1. september 2006 var gengið frá afsali milli aðila þar sem sóknaraðili afsalaði 50% fasteignarinnar til varnaraðila. Samkvæmt afsali hafi varnaraðili átt að taka yfir áhvílandi lán á fasteigninni að fjárhæð 10.011.169 krónur. Ekkert varð af því en ekki verður annað séð af gögnum málsins en að sóknaraðili hafi athugasemdalaust greitt af veðláninu. Þá fór varnaraðili aldrei í greiðslumat vegna væntanlegrar yfirtöku lánsins. Þá er upplýst að við upphaf sambúðarinnar seldi varnaraðili fasteignir sem hún átti á Selfossi og á Seyðisfirði. Samkvæmt gögnum málsins fjármagnaði varnaraðili kaupin á bifreiðinni [...] og hjólhýsinu [...]. Ekki verður annað ráðið af gögnum  málsins en að málsaðilar hafi lagt fjármuni að jöfnu til heimilishalds þeirra.

            Þegar litið er til þess að sambúð aðila stóð í sex ár og að strax í upphafi hennar afsalaði sóknaraðili 50% hluta fasteignar sinnar til varnaraðila og jafnframt að sóknaraðili greiddi allan þennan tíma athugasemdalaust af veðlánum sem til stóð að varnaraðili yfirtæki, verður að telja að sammæli hafi orðið með aðilum um að haga skiptingu eigna og skulda með þessum hætti og jafnframt að fjárhagsleg samstaða hafi myndast með þeim. Þá hefur ekki verið hrakið að varnaraðili hefi tekið þátt í kostnaði vegna endurbóta á húseigninni. Verður aðalkröfu sóknaraðila því hafnað en fallist á þá kröfu varnaraðila að viðurkenndur verði 50% eignarhlutur hennar í fasteigninni og jafnframt er viðurkennt að hún sé 50% skuldari af áhvílandi veðlánum fasteignarinnar. Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að umrædd bifreið og hjólhýsi hafi nýst báðum aðilum við heimilishaldið og verður því fallist á þrautavarakröfu sóknaraðila um að viðurkennd verði helmingshlutdeild hans í þeim.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kveður upp úrskurð þennan

Úrskurðarorð:

             Viðurkenndur er 50% eignarhluti varnaraðila, K, í fasteigninni [...], [...] og jafnframt er viðurkennt að hún sé 50% skuldari áhvílandi veðlána á fasteigninni.

            Viðurkennd er helmingshlutdeild sóknaraðila, M, í bifreiðinni [...] og hjólhýsinu [...].

            Málskostnaður fellur niður.