Hæstiréttur íslands

Mál nr. 609/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Haldlagning
  • Fjarskipti

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu lögreglustjóra um að X ehf. yrði gert að veita lögreglustjóra upplýsingar um nánar tilgreinda vefsíðu, þar sem lögreglustjóri hafði ekki sýnt fram á það með viðhlítandi gögnum, svo sem áliti sérfræðings, að X ehf., sem krafan beindist að, væri í þeirri aðstöðu að geta orðið við henni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert skylt að veita honum upplýsingar um nánar tilgreinda vefsíðu. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert skylt að veita honum upplýsingar sem tengjast vefsíðunni http:// [...], sem hýst er hjá félaginu Y, sem aftur er hýst hjá Z, sem er í eigu varnaraðila, þar með talið upplýsingar um fjarskipti við síðuna á tímabilinu frá 18. febrúar til og með 19. ágúst 2016.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á það með viðhlítandi gögnum, svo sem áliti sérfræðings, að varnaraðili sé í þeirri aðstöðu að geta orðið við áðurgreindri kröfu sóknaraðila. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, greiði varnaraðila 124.000 krónur í kærumálskostnað.                                                         

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2016

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X ehf., kt. [...], sé skylt að veita lögreglustjóranum höfuðborgarsvæðinu allar upplýsingar er tengjast vefsíðunni http:// [...], sem hýst er hjá félaginu Y, sem aftur er hýst hjá Z, sem er í eigu X ehf., þar með talið upplýsingar um fjarskipti við síðuna, á tímabilinu frá 18. febrúar til og með 19. ágúst 2016.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til meðferðar réttarbeiðni [...] yfirvalda, dags. 25. júlí sl., sem borist hafi  lögreglu með bréfi ríkissaksóknara þann 16. ágúst sl. Beiðnin tengist rannsókn lögreglunnar í [...] á vefsíðunni [...], en þann 15. júlí sl. hafi lögreglan komist á snoðir um síðuna, en á henni séu [...], sem [...] í [...], nafngreindir auk þess sem birtar séu myndir af þeim. Alls hafi myndbirtingar og nafngreiningar á 16 slíkum [...] komið fram á vefsíðunni.

                Samkvæmt réttarbeiðninni hafi rannsókn lögreglunnar í [...] leitt í ljós að vefsíðan sé hýst hjá Y, sem skráð sé til heimilis að [...] í Reykjavík.

                Í réttarbeiðninni sé farið fram á að íslensk yfirvöld afli allra nauðsynlegra upplýsinga frá félaginu um þá aðila sem hafi staðið að baki vefsíðunni, þ.e. kaupendur netþjónustunnar og um netumferð við síðuna, þ.á.m. upplýsingar um allar ip-tölur sem tengst hafi vefsíðunni, önnur fjarskipti við hana og viðeigandi tímasetningar, auk upplýsinga um nöfn og heimilisföng þeirra aðila sem fram koma í samningi Y um hýsingu við eigendur vefsíðunnar, og ennfremur greiðsluupplýsingar fyrir hýsingu, þ.á.m. greiðslumáta og bankaupplýsingar. Um nánari málsatvik og þá aðstoð sem óskað sé eftir vísast til meðfylgjandi réttarbeiðni [...] yfirvalda.

                Verknaður sá er rannsóknin beinist að teljist vera refsiverður og varðar fangelsisrefsingu samkvæmt íslenskum lögum, en rannsóknin beinist að brotum sem heimfæra mætti undir 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ.e. ólögmæta meðferð og vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.

                Z ehf. sé alfarið í eigu X ehf. [...], [...]. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu X virðist sala á þjónustu gagnaversins vera á vegum X ehf. Af þeim sökum telji lögregla að upplýsingar um kaupendur þjónustu gagnaversins kunni að vera vistaðar  hjá X auk þess sem félagið kunni að búa yfir upplýsingum um fjarskipti tengd verinu. X ehf. sé skráð fjarskiptafyrirtæki og því sé kröfu þessari beint að X en skv. 80. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að veita upplýsingar um nánar tilgreind fjarskipti. Fyrir liggi að það sé mat [...] yfirvalda að upplýsingar um fjarskipti við tilgreinda vefsíðu skipti miklu máli fyrir rannsókn málsins og því þyki skilyrði ákvæðis 80. gr. uppfyllt. Krafa um veitingu annarra upplýsinga er tengjast vefsíðunni [...] byggir á ákvæðum um haldlagningu í þágu rannsóknar þ.e. 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, 22. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, 80 gr. sbr. 1. mgr. 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og 2. mgr. 68. gr. sbr. 2. mgr. 69. gr. sömu laga sé það mat lögreglu að fyrir hendi séu skilyrði til að verða við beiðni [...] yfirvalda um upplýsingar er tengjast vefsíðunni [...]. Þess sé farið á leit að framangreint rannsóknarúrræði verði heimilað eins og krafist sé.

  Niðurstaða

          Sóknaraðili krefst þess að úrskurðað verði að varnaraðila verði gert að veita sóknaraðila allar upplýsingar er tengjast vefsíðunni http:// [...], sem hýst er hjá félaginu Y, sem aftur er hýst hjá Z, sem er í eigu varnaraðila, þar með talið upplýsingar um fjarskipti við síðuna, á tímabilinu frá 18. febrúar til og með 19. ágúst 2016. Sóknaraðili vísar til réttarbeiðni lögreglunnar í [...], dags. 25. júlí 2016, og henni til stuðnings er vísað til laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum

        Í greinargerð varnaraðila er upplýst að fyrirtækið Y kaupi einungis af varnaraðila vélbúnaðarleigu og vélbúnaðarhýsingu, en enga þjónustu sem lýtur að rekstri hugbúnaðarkerfa. Varnaraðili reki því engin hugbúnaðarkerfi fyrir Y og hafi engan aðgang að slíkum kerfum þess. Samkvæmt upplýsingum á umræddri vefsíðu og skráningargögnum um það lén, virðist  sem að meðal þeirrrar starfsemi sem Y stundar á þeim búnaði sem fyrirtækið hafi í velbúnaðarhýsingu hjá varnaraðila sé að hýsa þar vefsíður fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Varnaraðili hafi hins vegar ekki frekari upplýsingar um þá þjónustu eða hvað annað fyrirtækið nýtir umræddan vélbúnaðar til. Þá hafi varnaraðili engar upplýsingar um  þess, svo sem hverjir haldi úti þeirri vefsíðu á léninu http:// [...], sem kröfur sóknaraðila lúta að. Þá er á því byggt af hálfu varnaraðila að engin stoð sé í hinum erlendu dómsúrskurðum fyrir því að beina að honum þeim aðgerðum sem þeir lúta að, heldur öðrum lögaðila. Þá búi varnaraðili ekki yfir öðrum upplýsingum um rekstraraðila vefsíðunnar eða aðra viðskiptavini hans en eru opinberlega aðgengilegar. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kröfu sóknaraðila. Varnaraðili krefst málskostnaður úr hendi sóknaraðila.

            Samkvæmt því sem rakið hefur verið hýsir varnaraðili ekki umrædda vefsíðu og hefur hvorki aðgang að því hugbúnaðarkerfi sem hún er hýst í né öðrum hugbúnaðarkerfum Y. Það er því ekki á valdi varnaraðila að verða við kröfum sóknaraðila. Þegar af þessari ástæðu ber að hafna kröfu sóknaraðila, sem beint er að varnaraðila.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, í máli    

     þessu.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, X ehf., 124.000 kr. í málskostnað.