Hæstiréttur íslands
Mál nr. 9/2009
Lykilorð
- Rán
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
|
|
Miðvikudaginn 20. maí 2009. |
|
Nr. 9/2009. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn Emilíu Rós Hallsteinsdóttur (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Rán. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
X var sakfelld fyrir rán sem hún framdi í félagi við annan mann. Hún huldi andlit sitt og ógnaði starfsmanni með hnífi. Þá var hún einnig sakfelld fyrir nytjastuld og að hafa í tvígang ekið óhæf um að stjórna ökutæki örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Með brotunum rauf X skilorð sem hún hafði fengið fyrir umferðarlagabrot og brot gegn valdstjórninni. Hún hafði áður verið dæmd í skilorðsbundið fangelsi fyrir ránsbrot en var ekki fullra 18 ára er hún framdi það brot. Henni höfðu einnig verið gerðar sektir fyrir auðgunar- og umferðarlagabrot. Háttsemi ákærðu við ránið var talin ógnandi og því metin henni til refsiþyngingar. Hins vegar voru ekki miklir fjármunir teknir og ákærða játaði brot sín að mestu leyti. Með hliðsjón af 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var refsing hennar ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Um tvö umferðarlagabrot var að ræða og ýmis ólögleg efni mældust í blóði og þvagi ákærðu í bæði skiptin. Var ákærða svipt ökurétti í 18 mánuði frá birtingu héraðsdóms að telja.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. desember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar á dæmdri refsingu ákærðu og að henni verði gert að greiða Stefáni Þormari Guðmundssyni 788.745 krónur í skaðabætur.
Ákærða krefst þess að refsing verði milduð og jafnframt skilorðsbundin, en niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skaðabætur verði staðfest.
Mál þetta er höfðað samkvæmt þremur ákærum útgefnum 1. apríl, 6. maí og 16. maí 2008. Í upphafi aðalmeðferðar 10. október 2008 var bókað að sækjandi afturkalli 2. ákærulið í ákæru dagsettri 1. apríl 2008, en hann laut að broti gegn 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ekki var vikið að 2. tölulið ákærunnar í skýrslutökum fyrir dómi. Þrátt fyrir framangreinda bókun fjallar dómari um þennan ákærulið og sakfellir ákærðu samkvæmt honum. Með vísan til 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða sýknuð af broti samkvæmt þessum ákærulið.
Að því er varðar ákæru 16. maí 2008 segir í dómi héraðsdóms að ákærða hafi sagt framburð sinn hjá lögreglu um nytjastuld réttan þegar hann var borinn undir hana. Það athugast að samkvæmt endurriti úr þingbók segist hún ekki muna atvikið þegar á hana er gengið. Þykir þetta þó ekki breyta því að staðfesta beri sakarmat dómsins.
Ákærða er sakfelld fyrir rán sem hún framdi í félagi við annan mann. Hún huldi andlit sitt og ógnaði starfsmanni með hnífi. Hún er einnig sakfelld fyrir nytjastuld og að hafa í tvígang ekið óhæf um að stjórna ökutæki örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Sakarferill ákærðu er nægilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir var hún dæmd í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára 5. maí 2006 fyrir brot gegn 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 47. gr. a umferðarlaga og einnig fyrir brot gegn valdstjórninni. Hún hefur rofið það skilorð. Hún hefur áður verið dæmd í skilorðsbundið fangelsi fyrir ránsbrot en var ekki fullra 18 ára er hún framdi það brot og stóðst skilorðið. Hún hefur hlotið sektir fyrir auðgunarbrot og umferðarlagabrot. Háttsemi hennar við ránið var eins og áður segir ógnandi og er hún metin henni til refsiþyngingar. Hins vegar voru ekki miklir fjármunir teknir. Þá hefur hún játaði brot sín að mestu leyti. Að þessu virtu og með hliðsjón af 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður refsing hennar ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða svipt ökurétti í þrjú ár með „vísan til lagaákvæða í ákæru“. Ekki var farið fram á endurskoðun Hæstaréttar á þessari ákvörðun. Engu að síður þykir með vísan til 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 verða að taka hana upp án kröfu. Ákærða var með dómi 5. maí 2006 svipt ökurétti í fjóra mánuði frá 28. júlí 2006 vegna brots gegn 2. mgr. 44. umferðarlaga. Hefur það brot ekki ítrekunaráhrif samkvæmt 6. mgr. 102. gr. sömu laga. Í þessu máli er um að ræða tvö brot og ýmis ólögleg efni mældust í blóði og þvagi ákærðu í bæði skiptin, í síðara skiptið mældist meðal annars MDMA í miklu magni. Þegar allt framangreint er virt verður ákærða svipt ökurétti í 18 mánuði frá birtingu héraðsdóms að telja.
Ákæruvaldið krefst þess að brotaþola, Stefáni Þormari Guðmundssyni, verði dæmdar 788.745 krónur í skaðabætur en fallið var frá kröfu um dráttarvexti enda er þeirra hvorki krafist í ákæru né við aðalmeðferð, sbr. 171. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður fjallað um kröfuna samkvæmt d. lið II. kafla ákvæðis til bráðabirgða með lögum nr. 88/2008. Héraðsdómur ákvað miskabætur að álitum hæfilegar 150.000 krónur sameiginlega úr hendi ákærðu og meðákærða, sem ekki hefur áfrýjað af sinni hálfu. Með vísan til forsendna dómsins er þetta staðfest að því er ákærðu varðar, en engin gögn hafa verið lögð fram sem benda til þess að frekara tjón hafi orðið. Héraðsdómur hafnar að öðru leyti kröfu um bætur vegna fjártjóns á þeirri forsendu að hún sé ekki studd neinum gögnum. Verður að skilja þetta orðalag svo að dómarinn hafi synjað að taka þennan kröfulið til meðferðar samkvæmt heimild 1. mgr. 172. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 og kemur þessi hluti bótakröfunnar ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Staðfest verður ákvæði héraðsdóms um lögmannskostnað brotaþola.
Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað, en allur áfrýjunarkostnaður málsins verður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, Emilía Rós Hallsteinsdóttir, skal sæta fangelsi í 12 mánuði.
Ákærða er svipt ökurétti í 18 mánuði frá 19. nóvember 2008.
Ákærða greiði Stefáni Þormari Guðmundssyni 150.000 krónur í miskabætur. Ákvæði héraðsdóms um lögmannskostnað til hans skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins, samtals 199.346 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 1. apríl 2008 á hendur Emilíu Rós Hallsteinsdóttur, kennitala 210182-3499, Kleppsvegi 76, Reykjavík, og Sigurjóni Magnússyni, kennitala 261060-5909, Einarshöfn 4, Eyrarbakka, fyrir rán framið laugardaginn 22. desember 2007, með því að hafa:
1. Farið inn á veitingastaðinn Litlu-Kaffistofuna við Suðurlandsveg, Ölfushreppi, og með ofbeldi haft þaðan á brott með sér 7.500 krónur í peningaseðlum. Ákærða Emilía Rós, sem var með andlit sitt hulið, otaði hnífi að starfsmanninum Stefáni Þ. Guðmundssyni, og lét þau orð falla að um vopnað rán væri að ræða. Hörfaði starfsmaðurinn úr afgreiðslunni en kom aftur fram með skóflu í hendi. Reyndi ákærði Sigurjón þá ítrekað að slá til hans með hafnaboltakylfu en við það féll sjóðsvél á afgreiðsluborði í gólfið og opnaðist. Hrifsaði ákærða Emelía Rós úr henni framangreinda peningaseðla.
Þetta er talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Gegn ákærðu Emilíu Rós, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, ekið bifreiðinni TJ-660, ófær um að stjórna henni örugglega sökum neyslu deyfandi lyfja frá Eyrarbakka að Litlu-Kaffistofunni og til baka vestur Suðurlandsveg og frá honum norður varnargarð við Fossvallaá þar sem bifreiðin festist í aur.
Er þetta talið varða við 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu Stefáns Þormars Guðmundssonar, kennitala 250346-4339, er krafist skaðabóta úr hendi ákærðu báðum að fjárhæð samtals 788.745 krónur.
Hinn 16. júlí sl. var sakamálið nr. 747/2008 sameinað þessu máli en þar er ákærðu Emilíu Rós gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. maí sl. umferðalagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni PR-637 aðfaranótt laugardagsins 18. ágúst 2007, óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, um götur í Breiðholtshverfi í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Depluhóla í Reykjavík.
Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.
Hinn 16. júlí sl. var sakamálið nr. 768/2008 einnig sameinað þessu máli en þar er ákærðu Emilíu Rós gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 16. maí sl. nytjastuldur og umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 20. október 2007, um kl. 15:30, tekið bifreiðina RU-027 í heimildarleysi, þar sem hún stóð við Gaukshóla 2 í Reykjavík, til eigin nota og ekið henni víðsvegar um götur Reykjavíkur, óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, uns lögregla stöðvaði akstur hennar, um kl. 22:25, á Grettisgötu í Reykjavík.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.
Verjandi ákærðu Emilíu Rósar krefst þess að ákærða verði dæmd í vægustu refsingu er lög leyfa, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að honum verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun.
Verjandi ákærða Sigurjóns krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Ákæra 1. apríl 2008.
1. tl.
Laugardaginn 22. desember 2007 kl. 07.37 var lögreglu tilkynnt um vopnað rán á veitingastaðnum Litlu Kaffistofunni við Suðurlandsveg í Ölfushreppi. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var tilkynnt um að ræningjarnir hefðu farið af vettvangi á bifreið með skráningarnúmerið TJ-660, en um væri að ræða karlmann og kvenmann. Á vettvangi ræddu lögreglumenn við Stefán Guðmundsson, rekstraraðila veitingastaðarins, Jónu Gunnarsdóttur starfsmanns á veitingastaðnum og Árna Sigurðsson viðskiptavin. Samkvæmt skýrslunni lá sjóðsvél veitingastaðarins á gólfinu fyrir innan afgreiðsluborð og var peningaskúffa hennar opin. Gáfu vitnin lýsingu á atvikum og ræningjunum.
Samkvæmt skýrslu lögreglu voru karlmaður og kvenmaður á göngu í Lögbergsbrekku rétt fyrir kl. 8.30 þennan morgun. Kom lýsing á þeim heim og saman við lýsingu á þeim einstaklingum er rænt höfðu veitingastaðinn Litlu Kaffistofuna fyrr um morguninn. Voru ákærðu þá handtekin. Á ákærðu Emilíu fundust 7.500 krónur í 1.000 og 500 krónu seðlum. Bifreiðin TJ-660 fannst á varnargarði við Fossvallaá þar sem hún hafði fest í aur. Hafði bifreiðinni verið ekið grýttan vegarslóða eða varnargarð norðanmegin við Suðurlandsveg skammt austan við Lögbergsbrekku.
Ákærða Emilía Rós kvaðst umrætt sinn hafa farið með meðákærða til Eyrarbakka. Hafi þau farið þangað á bifreið með skráningarnúmerið TJ-660. Þau hafi farið til baka laugardagsmorguninn 22. desember 2007. Þá hafi ákærða verið undir áhrifum lyfja. Meðákærði hafi ákveðið að þau skyldu koma við á veitingastaðnum Litlu Kaffistofunni og ræna veitingastaðinn. Er þau hafi komið upp að veitingastaðnum hafi meðákærði látið ákærðu fá hníf í hendi og skipað henni að fara á undan inn og ræna veitingastaðinn. Í bifreiðinni hafi verið bæði hnífur og hafnarboltakylfa. Hafi ákærða verið með andlitið hulið er hún hafi farið inn. Kvaðst ákærða muna að hún hafi farið fyrir aftan afgreiðsluborð veitingastaðarins og hótað þar starfsmanni staðarins. Hafi hún verið með hnífinn í hendi. Gæti staðist er vitni héldu fram að hún hafi sagt að um vopnað rán væri að ræða. Meðákærði hafi verið með hafnarboltakylfu í hendi. Kvaðst ákærða muna að meðákærði hafi gert tilraun til að slá starfsmann veitingastaðarins. Myndi ákærða atburði ekki vel sökum lyfjaáhrifa, auk þess sem hún hafi verið í sjokki og mjög hrædd. Kvaðst ákærða muna að sjóðsvél hafi fallið í gólfið og hún sennilega beygt sig niður og tekið peninga úr vélinni. Í framhaldi hafi ákærðu bæði farið út af veitingastaðnum og út í bíl. Á leið á brott af vettvangi hafi þau ekið bifreiðinni útaf. Hafi þau þá yfirgefið bifreiðina og haldið fótgangandi af stað til Reykjavíkur. Meðákærði hafi sagt að hann vissi að þau yrðu handtekin í framhaldinu. Hafi hann sagt við ákærðu að hún skyldi segja atburðina eins og þeir hafi gerst en með því hafi hann átt við að ákærða skyldi skýra frá því að hún hafi framið ránið og að meðákærði hafi ekkert gert. Ákærða kvað vel geta staðist sem hún hafi sagt við lögregluyfirheyrslu um að ákærðu hafi losað sig við hnífinn og hafnarboltakylfuna með því að henda hvorutveggja í á. Kvaðst ákærða telja að er þau hafi gengið út í bifreiðina hafi meðákærði tekið til sín þá peninga sem ákærða hafi haft á brott með sér. Ekki kvaðst ákærða vita hve mikla peninga hún hafi tekið úr sjóðsvélinni. Ákærða kvaðst eiga erfitt með að skýra frá einstökum atriðum varðandi atburðinn en kvað framburð sinn í lögregluskýrslu vera réttan. Er tekin var lögregluskýrsla af ákærðu greindi hún frá því að hún hafi verið ökumaður bifreiðarinnar frá Eyrarbakka að Litlu Kaffistofunni. Þá greindi hún frá því í lögregluskýrslu að ákærðu hafi orðið sammála um að fara inn á veitingastaðinn og ræna þar peningum. Eftir ránið hafi ákærða ekið bifreiðinni frá veitingastaðnum eftir Suðurlandsvegi í átt til Reykjavíkur. Þar sem þau hafi átt von á því að lögregla myndi koma á móti þeim hafi hún ekið bifreiðinni út af veginum og ekið nokkra vegalengd. Hafi hún að lokum fest bifreiðina.
Ákærði Sigurjón kvað ákærðu hafa farið til Eyrarbakka þar sem ákærði hafi átt heimili. Á laugardagsmorgninum hafi þau farið til baka til Reykjavíkur og hafi meðákærða ekið bifreiðinni. Meðákærðu hafi dottið í hug að fara inn á veitingastaðinn Litlu Kaffistofuna og ræna þar peningum. Hafi ákærði sagt henni að gera það ekki. Ákærði hafi verið búinn að taka inn talsvert af lyfjum og verið undir áhrifum lyfja. Hafi ákærði ætlað að fara inn á veitingastaðinn og kaupa þar gosdrykk og sígarettur. Hafi ákærði farið inn á veitingastaðinn og meðákærða einnig. Meðákærða hafi skyndilega öskrað rán, rán, rán. Afgreiðslumaður á veitingastaðnum hafi náð í skóflu til að lemja meðákærðu með. Meðákærða hafi þá verið með hníf í hendi sem ákærði kvaðst ekki vita hvar hún hafi fengið. Hafi ákærði farið út í bifreið þeirra og náð í kylfu til að verja meðákærðu. Hafi hann sagt við afgreiðslumanninn að hann myndi slá hann ef afgreiðslumaðurinn myndi ráðast á meðákærðu. Í framhaldinu hafi orðið einhverjir skruðningar og læti. Sjóðsvél staðarins hafi m.a. dottið í gólfið. Ákærði kvaðst ekki hafa reynt að slá afgreiðslumanninn. Hafi hann einfaldlega sagt að hann myndi verja meðákærðu. Ákærði kvað ekki rétt hjá meðákærðu að hann hafi átt hugmynd að ráninu. Ekki kvaðst ákærði vita hvort meðákærða hafi tekið einhverja peninga af staðnum. Eftir að út var komið hafi þau farið beint út í bifreiðina og meðákærða ekið á brott. Hvarflað hafi að ákærða að bíða eftir lögreglu, en það hafi hann hins vegar ekki gert. Meðákærða hafi ekki látið ákærða fá neina peninga. Ekki kvaðst ákærði muna hvort ákærða hafi verið með andlit sitt hulið inni á veitingastaðnum.
Stefán Þ. Guðmundsson kvaðst hafa rekið veitingastaðinn Litlu Kaffistofuna á þessum tíma. Hafi hann mætt snemma um morguninn. Um kl. 7.30 hafi ung stúlka komið inn á veitingastaðinn og hún verið með andlit sitt hulið. Hafi hún gengið rakleitt aftur fyrir afgreiðsluborðið og sagt að um vopnað rán væri að ræða. Hafi hún tekið upp hníf og otað honum að Stefáni. Hnífurinn hafi verið með blaði sem hafi verið 12 til 15 cm að lengd. Stefán hafi tekið eftir að karlmaður hafi komið inn á veitingastaðinn og sest á koll við glugga. Hafi maðurinn verið með anorak í hendi. Stefán hafi tekið þá ákvörðun að konan fengi ekki peninga. Hafi hann því náð í skóflu. Hafi hann með skóflunni ætlað að fá konuna fram fyrir afgreiðsluborðið. Þá hafi maðurinn sem komið hafi inn staðið upp og hafnarboltakylfa komið í ljós undan anoraknum. Maðurinn hafi reitt kylfuna til höggs og höggið komið á sjóðsvél veitingastaðarins. Hafi maðurinn greinilega ætlað að slá Stefán í höfuðið með kylfunni. Sjóðsvélin hafi við þetta fallið í gólfið og opnast. Peningaseðlar hafi fallið út og konan beygt sig niður og tekið þá. Maðurinn hafi þá slegið til Stefáns annað högg en það ekki heldur hitt Stefán. Í framhaldi af þessu hafi fólkið farið út og Stefán elt þau. Þau hafi stokkið inn í bifreið sem hafi verið í gangi fyrir utan. Hafi þau ekið í átt til Reykjavíkur. Er tekin var lögregluskýrsla af Stefáni kvaðst hann telja að konan hafi tekið um 16.500 krónur úr sjóðsvélinni. Fyrir dómi kvaðst Stefán ekki muna þetta vel en taldi fjárhæðina hafa verið 7.000 eða 17.000 krónur. Stefán kvaðst hafa upplifað sig í mikilli hættu umrætt sinn. Hafi hann séð trylling í svip mannsins sem hafi verið trylltur og stjórnlaus. Hafi Stefán verið miður sín eftir atvikið og vissi hann til þess að eiginkonu hans og dóttur hafi verið mikið brugðið.
Jóna Gunnarsdóttir kvaðst hafa verið að störfum í eldhúsi veitingastaðarins umrætt sinn. Eiginmaður hennar, Stefán Guðmundsson, hafi verið í versluninni. Hafi hann komið inn í eldhúsið og sagt að um rán væri að ræða. Hafi Jóna litið fram og séð konu með hníf í hendi og hettu á höfði. Hnífurinn hafi sennilega verið með allt að 20 cm löngu blaði. Hafi hnífurinn verið of stór til að geta verið venjulegur vasahnífur. Stefán hafi náð í skóflu og ætlað á móti konunni. Í því hafi Jóna séð mann koma á móti Stefáni og með hafnarboltakylfu í hendi. Hafi hann lamið í átt að Stefáni og höggið lent í sjóðsvélinni. Hafi vélin við það dottið í gólfið og opnast. Í því hafi maðurinn slegið aftur til Stefáns. Jóna kvaðst þá hafa ýtt á neyðarhnapp á veitingastaðnum. Konan hafi í þessu beygt sig niður og tekið peningaseðla. Eftir þetta hafi konan og maðurinn yfirgefið staðinn.
Árni Sigurðsson kvaðst hafa starfað við snjóruðning á Hellisheiði þegar atburðir hafi gerst. Hafi hann verið að fá sér kaffi á veitingastaðnum Litlu Kaffistofunni. Skyndilega hafi tvær manneskjur komið inn á staðinn. Kona hafi sagt upphátt að um vopnað rán væri að ræða. Hafi hún farið að afgreiðsluborði staðarins. Árni kvaðst hafa ákveðið að gera ekkert sjálfur í stöðunni. Er konan hafi verið komin aftur fyrir afgreiðsluborðið hafi Stefán Guðmundsson veitingamaður náð í eitthvað til að verja sig með. Í því hafi maður sem komið hafi með stúlkunni inn stokkið á fætur. Hafi hann ætlað að lemja Stefán með einhverju sem hann hafi haft í hendi. Höggið hafi komið í sjóðsvélina sem hafi dottið í gólfið og opnast. Konan hafi beygt sig niður og tekið peningaseðla upp af gólfinu. Fólkið hafi í kjölfarið farið út úr veitingaskálanum og inn í bifreið. Þau hafi haft viðkomu í snjóruðningstæki Árna og tekið kveikjuláslykla úr því til að þeim yrði ekki veitt eftirför.
Niðurstaða:
Ákærða Emilía Rós hefur viðurkennt að hafa farið inn á veitingastaðinn Litlu Kaffistofuna við Suðurlandsveg laugardaginn 22. desember 2007 og með ofbeldi haft á brott með sér peningaseðla. Hafi hún verið með andlit sitt hulið og með hníf í hendi, otað honum að starfsmanni veitingastaðarins og sagt honum að um vopnað rán væri að ræða. Hafi meðákærði reynt að slá til starfsmannsins með hafnarboltakylfu og hafi sjóðsvél fallið í gólfið við þetta. Þaðan hafi ákærða tekið peningaseðlana. Ákærða kvaðst ekki vita hve mikla peninga hún hafi tekið. Fyrir dóminum hefur hún borið því við að meðákærði hafi átt hugmyndina að ráninu og fengið hana til að taka þátt í því. Hafi hún verið hrædd við hann og ekki þorað annað en að fylgja fyrirmælum hans.
Ákærði Sigurjón neitar sök. Hefur hann fullyrt að meðákærða hafi átt frumkvæðið að umræddu ráni og framið það. Hafi ákærði farið inn á veitingastaðinn til að kaupa sér sígarettur og gosdrykk. Eftir að meðákærða hafi hrópað að um rán væri að ræða hafi fyrir ákærða vakað að varna því að á meðákærðu yrði ráðist og í því skyni gengið á milli hennar og starfsmanns veitingastaðarins. Hafi ákærði náð í kylfu í því skyni í bifreið þá er þau hafi komið á.
Þegar litið er til framburðar ákærðu Emilíu Rósar og vitnanna Stefáns Guðmundssonar, Árna Sigurðssonar og Jónu Gunnarsdóttur telur dómurinn sannað að ákærðu hafi bæði komið inn á veitingastaðinn í einu. Ákærði Sigurjón hafi fengið sér sæti og þá verið með kylfu í hendi sem hann hafi falið. Ákærða Emilía Rós hafi otað hnífi að Stefáni Guðmundssyni og sagt upphátt að um vopnað rán væri að ræða. Er Stefán hafi gripið til varna hafi ákærði Sigurjón reynt að slá Stefán með hafnarboltakylfu en höggið lent í sjóðsvél. Við það hafi kassinn opnast og ákærða Emilía haft þaðan á brott með sér peningaseðla. Eftir það hafi ákærðu í félagi yfirgefið veitingastaðinn. Ákærðu bera á hvort annað um frumkvæði að ráninu. Af lýsingu vitna verður ekki annað ráðið en að þau hafi framið ránið í félagi. Verður ekki fallist á þann framburð ákærða Sigurjóns að hann hafi ekki átt þátt í ráninu. Framburðir vitna slá föstu að hann hafi fylgt ákærðu Emilíu eftir og verið með hafnarboltakylfuna í hendi er hann kom inn á veitingastaðinn. Þá ber framferði ákærðu Emilíu ekki með sér að hún hafi verið þvinguð til verksins. Er ákærða ein um þann framburð og verður honum hafnað. Veitingamaðurinn Stefán hefur fullyrt við skýrslutökur eftir ránið að 16.500 krónur hafi verið teknar úr sjóðsvélinni. Ákæra miðar við 7.500 krónur. Þar sem það er lægri fjárhæð en veitingamaðurinn miðar við verður lægri fjárhæðin lögð til grundvallar niðurstöðu. Verða ákærðu bæði sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
2. tl.
Fyrir lögreglu viðurkenndi ákærða að hafa 22. desember 2007 ekið bifreiðinni TJ-660 frá Eyrarbakka að Litlu Kaffistofunni, vestur Suðurlandsveg og norður varnargarð við Fossvallaá þar sem bifreiðin festist í aur. Þann framburð sinn hefur ákærða staðfest fyrir dómi. Með vísan til þess og niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 22. janúar 2008 verður ákærða sakfelld samkvæmt þessum lið ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákæra 6. maí 2008.
Ákærða hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni PR-637 aðfaranótt laugardagsins 18. ágúst 2007 um götur í Breiðholtshverfi í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Depluhóla í Reykjavík. Ákærða dregur ekki í efa niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 25. október 2007. Með hliðsjón af framburði ákærðu og niðurstöðu rannsóknarstofunnar hefur ákærða gerst sek um það brot sem henni er gefið að sök í ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákæra 16. maí 2008.
Ákærða hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni RU-027 laugardaginn 20. október 2007 um götur í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Grettisgötu í Reykjavík. Ákærða dregur ekki í efa niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 13. nóvember 2007. Er tekin var skýrsla af ákærðu hjá lögreglu kvaðst hún hafa verið stödd í anddyri fjöleignarhússins að Gaukshólum 2 í Reykjavík þegar kona hafi gengið þar um. Hafi konan misst lykla að bifreið sinni. Ákærða hafi tekið lyklana upp og ákveðið að fá bifreið konunnar lánaða. Hafi hún ætlað að skila bifreiðinni seinna. Er framburður þessi var borin undir ákærðu fyrir dómi kvað hún hann réttan. Með hliðsjón af framburði ákærðu og niðurstöðu rannsóknarstofunnar hefur ákærða gerst sek um það brot sem henni er gefið að sök í ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærða Emilía Rós er fædd í janúar 1982. Hún var dæmd 10. mars 2000 í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir rán. Þá var hún á árinu 2001 dæmd fyrir hraðakstur. Hún var 5. maí 2006 dæmd í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir lyfjaakstur og brot gegn valdstjórninni. Loks var hún dæmd 28. júlí 2006 í sektargreiðslu fyrir þjófnað. Ákærða hefur með brotum sínum nú rofið skilyrði refsidómsins frá 5. maí 2006 og verður sá dómur nú tekinn upp eftir ákvæðum 60. gr. laga nr. 19/1940 og ákærðu ákvörðuð refsing í einu lagi. Ákærða hefur í þessu máli verið sakfelld fyrir rán, nytjastuld og í tvígang akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna og einu sinni undir áhrifum lyfja. Rán það er ákærða er sakfelld fyrir framdi hún í félagi við annan mann. Var hún hettuklædd og með hníf í hendi. Er háttsemi ákærðu alvarleg. Á hún það eitt sér til málsbóta að hún hefur viðurkennt háttsemi sína. Er refsing hennar ákveðin fangelsi í 16 mánuði, sem í ljósi brotsins og sakaferils ákærðu ekki er unnt að skilorðsbinda.
Ákærði Sigurjón er fæddur í október 1960. Hann var 4. apríl 2007 dæmdur í 9 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundið til þriggja ára fyrir rán, brot gegn valdstjórninni og þjófnað. Ákærði hefur með broti sínu rofið skilyrði refsidómsins frá 4. apríl 2007. Verður ákærða nú ákveðin refsing eftir 60. gr. laga nr. 19/1940 og við þá refsingu sem nú er dæmd bætt 6 mánuðum samkvæmt fyrri dómi. Rán það sem ákærði er sakfelldur fyrir framdi hann í félagi við annan mann. Beitti hann hættulegu vopni sem er hafnarboltakylfa. Þá hefur ákærði áður verið dæmdur fyrir rán en samkvæmt 255. gr. laga nr. 19/1940 er heimilt að hækka refsingu hafi viðkomandi áður verið dæmdur fyrir rán. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 20 mánuði, sem ekki verður bundið skilorði í ljósi brotsins og sakaferils ákærða.
Af hálfu Stefáns Guðmundssonar hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð 788.745 krónur. Sundurliðast skaðabótakrafan þannig:
- 600.000 krónur vegna miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993
- 78.900 krónur vegna annars fjártjóns samkvæmt 1. gr. laganna
- 100.845 krónur í lögmannskostnað.
Um miskabótakröfu er vísað til þess að Stefán hafi orðið fyrir fólskulegri og tilefnislausri árás þar sem beitt hafi verið hættulegum vopnum og árásaraðferðum. Árásin hafi haft töluverð andleg áhrif. Um annað fjártjón er vísað til þess að sjóðsvélin hafi eyðilagst en verðmæti hennar nemi 57.900 krónum. Þá sé áætlað tjón vegna skemmda á lampa og kökuboxum á afgreiðsluborði 30.000 krónur. Að mati dómsins hefur framferði ákærðu beggja valdið Stefáni miska. Um það má vísa til þeirrar aðferðar sem þau beittu og þess á hvern hátt Stefán upplifði þá hættu sem að honum steðjaði. Á hann rétt á miskabótum á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993 og eru bæturnar hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Ekki liggja fyrir nein gögn að baki lið um fjártjón s.s. yfirlit um raunverulegt verðmæti sjóðsvélar. Verður þessum kröfulið því hafnað. Ákærðu verða dæmd til að greiða Stefáni kostnað, sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Lögmannskostnaður telst hæfilega ákveðinn 60.000 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru skal ákærða Emilía Rós svipt ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins að telja.
Að því er varðar sakarefni samkvæmt ákæru 1. apríl 2008 liggur fyrir sakarkostnaður að fjárhæð 279.422 krónur. Er þar um að ræða kostnað vegna Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði og kostnaður vegna dráttarbifreiðar. Rétt er að þessum fjárhæðum verði skipt jafnt á milli ákærðu. Þá liggur fyrir að verjandi ákærða Sigurjóns hefur fengið greitt vegna vinnu á rannsóknarstigi 39.840 krónur. Þá fjárhæð greiði ákærði Sigurjón einn. Ákærða Emilía Rós greiði sakarkostnað samkvæmt öðrum sakarkostnaðaryfirlitum sem varða sakarefni sem hún hefur verið sakfelld fyrir. Þá greiði ákærðu tildæmd málsvarnarlaun að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl I. Vilbergsson fulltrúi lögreglustjóra.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærða, Emilía Rós Hallsteinsdóttir, sæti fangelsi í 16 mánuði.
Ákærði, Sigurjón Magnússon, sæti fangelsi í 20 mánuði.
Ákærða Emilía Rós er svipt ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærðu greiði í félagi Stefáni Guðmundssyni 150.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 22. desember 2007 til 16. ágúst 2008, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Ákærðu greiði í félagi 60.000 krónur í lögmannskostnað.
Ákærða Emilía Rós greiði 757.220 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 364.158 krónur.
Ákærði Sigurjón greiði 299.071 krónu í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 139.440 krónur.