Hæstiréttur íslands

Mál nr. 830/2017

Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður), Y, Z og Þ (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Sakarkostnaður

Reifun

Staðfest var ákvæði í úrskurði héraðsdóms um að mál ákæruvaldsins á hendur X, Y, Z og Þ yrði fellt niður. Þá var sakarkostnaður í héraði gagnvart X og kærumálskostnaður felldur á ríkissjóð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðilinn X skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2017, þar sem tekin var til greina krafa sóknaraðila um að fellt yrði niður mál hans á hendur varnaraðilum. Kæruheimild var í v. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilinn X krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að kveðið verði á um að sakarkostnaður í málinu greiðist úr ríkissjóði. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðilarnir Y, Z og Þ hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að taka til greina kröfu sóknaraðila um að málið verði fellt niður.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008 bar héraðsdómi að kveða í hinum kærða úrskurði á um hvort sakarkostnaður skyldi felldur á varnaraðila eða ríkissjóð og gat þar engu breytt að sóknaraðili hygðist rakleitt höfða nýtt mál á hendur varnaraðilum. Verður því í samræmi við varakröfu varnaraðilans X að kveða á um sakarkostnað, en þó aðeins vegna meðferðar málsins í héraði á grundvelli ákærunnar, sem sóknaraðili hefur afturkallað. Af tímaskrá verjanda varnaraðilans X verður ráðið að hann hafi varið 25 klukkustundum til starfa við málið fyrir héraðsdómi frá því að ákæra var gefin út 1. desember 2017, ef frá er talin vinna vegna kröfu um að varnaraðilinn sætti áfram gæsluvarðhaldi, sem tekin var fyrir eftir þann dag. Á þeim grunni verða málsvarnarlaun verjandans ákveðin með þeirri fjárhæð, sem í dómsorði greinir, og skulu þau greidd úr ríkissjóði. Með því að máli á grundvelli ákærunnar frá 1. desember 2017 lýkur gagnvart varnaraðilanum X með dómi þessum verður kærumálskostnaður jafnframt felldur á ríkissjóðs, sbr. áðurgildandi 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Fer um fjárhæð kærumálskostnaðar samkvæmt því, sem í dómsorði segir, en fjárhæðir, sem þar greinir vegna málsvarnarlauna, eru ákveðnar að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Staðfest er ákvæði hins kærða úrskurðar um að mál ákæruvaldsins á hendur varnaraðilum, X, Y, Z og Þ, sé fellt niður.

Greiða skal úr ríkissjóði sakarkostnað í héraði gagnvart varnaraðilanum X, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Arnars Kormáks Friðrikssonar héraðsdómslögmanns, 527.000 krónur, og kærumálskostnað, þar á meðal þóknun sama verjanda, 124.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2017

Með ákæru héraðssaksóknara 1. desember sl. var ákærða X gefið að sök brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 19/1940, en ákærðu öðrum brot gegn 217. gr. sömu laga. Við þingfestingu málsins neituðu ákærðu sök, utan ákærði Y sem ekki mætti við þingfestingu málsins. Var málinu frestað til dagsins í dag þar sem ákærði myndi mæta fyrir dóminn.

Í upphafi þinghaldsins lýsti sækjandi því yfir að hann afturkallaði ákæru í málinu með vísan til b. liðar 1. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt lýsti sækjandi yfir að út hefði verið gefin ný ákæra vegna sama máls þar sem heiti brotsins hefði verið breytt úr því að vera sérstaklega hættuleg líkamsárás yfir í tilraun til manndráps. Lítilsháttar aðrar breytingar hefðu verið gerðar á ákæru.

Ákærði X mótmælti því að málið yrði fellt niður og krafðist úrskurðar þar um. Byggir ákærði á því að sækjandi hafi þegar gefið út aðra ákæru vegna sama verknaðar. Ákærði hafi tekið afstöðu til síðustu ákæru og látið ummæli falla sem gagnast hafi ákæruvaldi við síðari ákærusmíð. Fari það gegn rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar að gefin sé út ný ákæra vegna sama verknaðar þegar ákærði hafi tjáð sig með þessum hætti um ákæruefni. Ákærði krefst sakarkostnaðar verði málið fellt niður.

Aðrir ákærðu hafa ekki látið þennan þátt til sín taka.

Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að ákæruvald hafi forræði yfir því að afturkalla ákæru. Geti ákæruvald gefið út nýja ákæru vegna sama verknaðar innan tímafresta samkvæmt lögum nr. 88/2008.

Niðurstaða:

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008 verður mál fellt niður ef ákærandi afturkallar ákæru áður en dómur gengur. Samkvæmt því getur ákæruvald tekið þessa ákvörðun og skiptir ekki máli í því sambandi á hvaða grundvelli sú ákvörðun er tekin.

Samkvæmt 153. gr. laga nr. 88/2008 getur ákærandi allt fram til þess að dómur er upp kveðinn afturkallað ákæru sem hann hefur gefið út eða fallið frá einstökum ákæruatriðum. Hafi máli verið vísað frá dómi eða það verið fellt niður og verður þá nýtt mál um sama sakarefni ekki höfðað síðar en þremur mánuðum frá því að málinu var endanlega lokið á þann hátt. Skal fresturinn reiknast frá því að málinu var vísað frá dómi eða það var fellt niður í fyrsta sinn, eftir atvikum fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt greindu ákvæði eru það einungis tímafrestir sem geta leitt til þess að nýtt mál verði ekki höfðað um sakarefni sem fellt hefur verið niður. Getur sú staða að ákærði hefur tekið afstöðu til fyrri ákærunnar ekki breytt því. Í þessu ljósi verður krafa sækjanda um afturköllun ákæru tekin til greina sem aftur leiðir til þess að málið verður fellt niður. Í ljósi þess að ákæruvald mun reka málið áfram á grundvelli nýrrar ákæru verður ekki dæmt um sakarkostnað í þessu máli og bíður það efnisdóms í síðara máli.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Mál þetta er fellt niður.

Sakarkostnaður bíður efnisdóms um sama sakarefni.