Hæstiréttur íslands

Mál nr. 470/2005


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. febrúar 2006.

Nr. 470/2005.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Páli Jónssyni

(Valgeir Kristinsson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar.

P var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti ævilangt og undir áhrifum áfengis. Refsing hans var hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. október 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Páll Jónsson, greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 185.367 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Valgeirs Kristinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 161.850 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. september 2005.

Mál þetta, sem þingfest var 27. júlí sl. og dómtekið 24. ágúst sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dags. 1. júlí 2005, á hendur Páli Jónssyni, kt. 210755-7999, Hringbraut 114, Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa um hádegi laugardaginn 4. júní 2005, ekið bifreiðinni VM 434, sviptur ökurétti ævilangt, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 3,01‰), vestur Austurveg á Selfossi, uns lögregla hafði afskipti af akstri ákærða við Austurveg 1-3.” 

Ákæruvaldið segir háttsemi ákærða varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 84/2004.

Ákærði kom fyrir dóm 27. júlí sl. og játaði brot sitt. Með málið var farið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði framdi brot það sem greinir í ákæru og þar er réttilega fært til refsiákvæða. Ákærði hefur með greindri háttsemi unnið sér til refsingar. 

Ákærða hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði hans, margsinnis verið gerð refsing fyrir brot gegn umferðarlögum, en einnig fyrir brot á almennum hegningarlögum. Ákærði gekkst undir 40.000 króna sátt og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði 25. júlí 1997 vegna umferðarlagabrota, meðal annars vegna ölvunaraksturs. Þá gekkst hann undir 47.000 króna sekt 30. apríl 1998 vegna aksturs sviptur ökurétti. 29. október 1998 gekkst hann aftur undir 100.000 króna sekt vegna aksturs sviptur ökurétti. Þá gekkst hann undir 120.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í þrjú ár 24. mars 1999 fyrir ölvunarakstur og brot gegn 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga. Þá var ákærði dæmdur 1. október 1999 í 30 daga fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti. 6. mars 2001 var ákærði dæmdur í fangelsi í 60 daga og sviptur ökurétti ævilangt fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Loks var ákærði dæmdur 14. janúar 2004 í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að aka tvívegis sviptur ökurétti.

Í málinu liggja frammi gögn um að ákærði hafi leitað sér meðferðar við áfengisvanda og hafi innritast í meðferð seinni partinn í ágúst sl. Við ákvörðun refsingar verður þó einkum að líta til þess að ákærði hefur ítrekað gerst sekur um ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Þykir refsing ákærða með hliðsjón af þessu hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.

Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt með dómi 6. mars 2001 og er sú svipting ítrekuð.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 23.517 krónur, auk málsvarnarþóknunar skipaðs verjanda hans, Valgeirs Kristinssonar hrl., sem ákveðst 50.000 krónur.

             Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Páll Jónsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ævilöng ökuréttarsvipting ákærða er ítrekuð.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 23.517 krónur, auk málsvarnarþóknunar skipaðs verjanda, Valgeirs Kristinssonar hrl., 50.000 krónur.