Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-80
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
Með beiðni 6. mars 2020 leitar Austurbraut ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 21. febrúar sama ár í máli nr. 11/2020: Austurbraut ehf. gegn Avenue A ehf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Avenue A ehf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2019 verði felldur úr gildi en með honum var bú leyfisbeiðanda tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu gagnaðila, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Krafa gagnaðila var reist á tveimur lánssamningum sem báðir voru gjaldfallnir. Annars vegar krafa samkvæmt lánssamningi 28. september 2009 að fjárhæð 442.011.457 krónur, upphaflega milli EA fjárfestingarfélags ehf. sem lánveitanda en nú gagnaðila og leyfisbeiðanda sem lántaka. Hins vegar krafa samkvæmt lánssamningi 27. nóvember 2009 að fjárhæð 650.161.425 krónur milli sömu aðila og hinn fyrrnefndi samningur. Með úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Var talið að gögn málsins gæfu ótvíræða vísbendingu um að leyfisbeiðandi stæði í hárri skuld við gagnaðila og hefði ekki brugðist við greiðsluáskorun 24. maí 2019 eins og áskilið væri í 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort krafa gagnaðila sé fyrir hendi, hvort birting greiðsluáskorunar hafi uppfyllt skilyrði 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. XIII. kafla laga nr. 91/1991, hvort krafa gagnaðila sé fyrnd, hvort hann sé í raun lánardrottinn leyfisbeiðanda og hvort krafan sé nægilega tryggð.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem ranglega sé lagt til grundvallar að gögn málsins beri ekki með sér að um „seljandalán“ sé að ræða. Þá telur leyfisbeiðandi það lögvillu að útlit og áferð texta í lánssamningi geti skipti máli við mat á því hvort um „seljandalán“ sé að ræða eða ekki því samkvæmt dómaframkvæmd eigi að skoða efni viðskiptanna óháð skjalagerð. Leyfisbeiðandi vísar einnig til þess að hann telji að skýra verði betur hvaða kröfur verði gerðar til þess sem telur sig lánadrottin annars til að sanna mál sitt.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið geti haft fordæmisgildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.