Hæstiréttur íslands

Mál nr. 455/2014


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Refsiákvörðun
  • Skilorð
  • Neyðarvörn


                                     

Fimmtudaginn 7. maí 2015.

Nr. 455/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Erni Geirdal Arnarssyni

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

Líkamsárás. Refsiákvörðun. Skilorð. Neyðarvörn.

X var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa sparkað í tvígang af miklu afli í höfuð og andlit A með þeim afleiðingum að A hlaut bólgu á efri og neðri vör, bólgu í kringum vinstra auga og hruflsár á vinstri framhandlegg. Við ákvörðun refsingar var litið til 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga og þess að afleiðingar árásarinnar voru ekki alvarlegar. Þá var refsing ákvörðuð í samræmi við 78. gr., sbr. 77. gr. sömu laga, en brot X var hegningarauki við dóm sem hann hafði hlotið 17. mars 2014.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

I

Ákærða er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 9. mars 2013 sparkað tvívegis af miklu afli í höfuð og andlit A með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgu á efri og neðri vör, bólgu í kringum vinstra auga og hruflsár á vinstri framhandlegg. Var háttsemi ákærða talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fyrir dómi neitaði ákærði sök. Lögreglumaður sem kom á vettvang hafði eftir ákærða að brotaþoli hefði ekki viljað skila síma sem hann hafi fengið lánaðan hjá ákærða og slegið ákærða með honum. Hafi þá ákærði sparkað brotaþola ,,niður með hringsparki í höfuðið“. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa lent í ryskingum við brotaþola umrædda nótt. Upptök þeirra hafi verið þau að brotaþoli hafi fengið farsíma sinn lánaðan, en ekki viljað skila honum. Hafi brotaþoli slegið sig með einhverju og ákærði viljað verjast frekari árásum og kvað ,,sennilega rétt“ að hann hafi þá sparkað í brotaþola. Hann kvaðst hins vegar ekki muna eftir að hafa sparkað í höfuð hans.

Af því sem fram kom í máli ákæruvaldsins fyrir réttinum er ágreiningslaust að áður en brotaþoli féll í jörðina, fyrir þau atvik sem urðu tilefni ákæru, hafði hann neitað að afhenda ákærða síma sem hann átti. Jafnframt er ekki vefengt af hálfu ákæruvaldsins að brotaþoli hafi slegið ákærða í andlitið með einhverjum hlut með þeim afleiðingum að brotaþoli fékk skurð í höfuð.

Vitnin B, C og D gáfu skýrslu hjá lögreglu í maí 2013. Þau báru öll á þann veg að eftir að brotaþoli féll í götuna hefði ákærði sparkað oftar en einu sinni í höfuð hans. Kvað B síðara sparkið hafa verið ,,fast sparkhögg í andlitið“, en C bar á þann veg að ákærði hefði sparkað fast í höfuð brotaþola og í kjölfarið hafi annað spark fylgt á vanga brotaþola. Vitnið D kvað ákærða hafa sparkað ,,tveimur föstum spörkum í höfuð“ brotaþola. Fyrir dómi bar B að ,,í minningunni“ hefðu spörkin verið fleiri en eitt. Vitnið C bar fyrir dómi að hann héldi að spörkin hefðu verið fleiri en eitt og þau hafi lent á vanga brotaþola, en gat þó ekki með fullri vissu staðhæft hvar spörkin lentu á höfði hans. Fyrir dómi bar vitnið D að hún og vinkona sín hefðu orðið vitni að átökum og farið að skipta sér af, þar sem ekki sé ,,gott að sparka í liggjandi fólk“og hafi þær náð að stöðva árásina. Hún hafi séð liggjandi mann og ákærða ,,sparka ítrekað í hann“.

Þegar framangreint er virt verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæðis og að sá verknaður verði ekki réttlættur af grundvelli neyðarvarnar.

Sakaferli ákærða er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir var ákærði dæmdur 17. mars 2014 í 12 mánaða fangelsi, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 en níu mánuðir refsingarinnar voru skilorðsbundnir í þrjú ár. Er brot ákærða hegningarauki við þann dóm og ber að dæma upp skilorðshluta dómsins og ákvarða ákærða refsingu í samræmi við 78. gr. laga nr. 19/1940 fyrir bæði brotin í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið um atvik í aðdraganda árásarinnar ber við ákvörðun refsingar að líta til 3. mgr. 218. gr. b. laga nr. 19/1940. Þótt árás ákærða hafi verið vítaverð, verður horft til þess að afleiðingar hennar voru ekki alvarlegar, sbr. 2. tölulið 70. gr. laga nr. 19/1940. Er refsing ákærða að öllu framanrituðu virtu ákveðin fangelsi í 15 mánuði, en hún bundin skilorði með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað, en allur áfrýjunarkostnaður verður felldur á ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Örn Geirdal Arnarsson, sæti fangelsi í 15 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. maí sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru 7. janúar 2014 á hendur Erni Geirdal Arnarssyni, kennitala [...],[...],[...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 9. mars 2013, fyrir utan húsnæði við Laugaveg 29 í Reykjavík, sparkað í tvígang af miklu afli í höfuð og andlit A, með þeim afleiðingum að A hlaut bólgu á efri og neðri vör, bólgu í kringum vinstra auga og hruflsár á vinstri framhandlegg.

Er talið að þetta varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt laugardagsins 9. mars 2013 barst lögreglu, kl. 03.59 þá nótt, tilkynning um slagsmál fyrir utan verslunina Brynju, Laugavegi 29 í Reykjavík. Tilkynnandi kvað tvo menn vera í slagsmálum og var annar sagður með opið sár á enni. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu sat brotaþoli við verslunina Brynju er lögreglu bar að garði. Var hann samkvæmt skýrslunni blóðugur og bólginn í framan. Virtist hann illa áttaður og kemur fram að hann hafi nokkrum sinnum reynt að standa á fætur. Hafi hann verið mjög óstöðugur. Tekið er fram að sterka áfengislykt hafi lagt frá honum. Þá kemur fram að rætt hafi verið við ákærða, sem hafi verið áberandi ölvaður og með sár í hársverði. Hafi ákærði gert lögreglu grein fyrir því að brotaþoli hafi fengið að hringja hjá ákærða en ekki viljað skila símanum. Hafi brotaþoli slegið ákærða með símanum en þá hafi ákærði sparkað brotaþola niður með hringsparki í höfuð. Fram kemur að rætt hafi verið við vitni á vettvangi. Brotaþoli hafi verið fluttur á slysadeild til skoðunar. Í frumskýrslu er tekið fram að ákærði hafi verið fluttur á lögreglustöð. Þegar vista hafi átt ákærða hafi honum verið boðið að þvo sér í andliti svo hægt væri að sjá sár í hársverði hans. Því hafi ákærði neitað. Hafi ákærði viljað leggja fram kæru á hendur brotaþola vegna líkamsárásar.

E, læknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi, hefur 28. febrúar 2013 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á slysadeild 9. mars 2013 kl. 04.43. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun hafi brotaþoli sést með bólgu á efri og neðri vör. Um hafi verið að ræða vægt sár sem ekki hafi þurft að sauma. Nokkur bólga hafi verið í kringum vinstra auga og blætt hafi úr báðum nösum. Brotaþoli hafi útskrifast að skoðun lokinni.

Brotaþoli lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás 23. maí 2013.

Við aðalmeðferð málsins gáfu ákærði og brotaþoli skýrslu fyrir dóminum. Auk þeirra gáfu skýrslu fjögur vitni að atvikum, lögreglumenn sem unnu að frumrannsókn málsins og læknir er ritaði læknisvottorð vegna brotaþola, auk læknis er ritaði læknisvottorð vegna ákærða. Ekki þykir ástæða til að reifa framburði ákærða og vitna frekar en hér fer á eftir.

Ákærði kvað brotaþola hafa farið þess á leit að fá að nota síma ákærða til að hringja. Að því loknu hafi brotaþoli ekki viljað skila símanum. Hafi brotaþoli brugðist illa við er ákærði hafi spurt hvort hann mætti leita að síma sínum á brotaþola. Þeir hafi farið að rífast, sem endað hafi með því að brotaþoli hafi slegið ákærða í höfuðið og tvö högg í andlitið. Ákærði hafi vankast við höggin og mikið blætt úr sári á höfði hans. Hann hafi síðan fengið högg í maga. Minni ákærða væri gloppótt eftir þetta. Hann myndi þó eftir því að þeir hafi tekist á og endað í götunni. Ákærða hafi að lokum tekist að forða sér frá brotaþola liggjandi í götunni. Geti verið að hann hafi í því sparkað frá sér og í átt að brotaþola.

Brotaþoli kvaðst hafa fengið að hringja hjá ákærða á Laugavegi. Hafi brotaþoli verið undir áhrifum áfengis. Verið geti að hann hafi verið með einhver leiðindi varðandi síma ákærða. Hafi brotaþoli fengið högg í andlitið frá ákærða. Við höggið hafi brotaþoli vankast og fallið í götuna. Ekki kvaðst brotaþoli geta sagt til um hvort hann hafi fengið spark í höfuðið í framhaldi. Hann hafi allur verið lemstraður eftir atlöguna. Brotaþoli sagðist muna takmarkað eftir að ákærði hafi tekið hann niður.

C kvaðst hafa orðið vitni að árásinni. Hafi hann tekið eftir því að maður hafi gert tilraun til að kýla mann með hnefa. Höggið hafi geigað og maðurinn fallið í jörðina. Í framhaldi hafi hinn maðurinn ítrekað sparkað í höfuð mannsins þar sem hann lá eftir fallið. Hljóðið sem myndaðist við það að fætinum var sparkaði í höfuð mannsins hafi látið illa í eyrum. Hafi C hrópað á viðkomandi að hætta. Tvær stúlkur hafi stöðvað slagsmálin. Ekki hafi hann séð upphaf átakanna. Brotaþolinn hafi ekki verið með vopn í hendi. C hafi verið skammt frá átökunum.  

B kvaðst hafa séð tvo menn í slagsmálum. Annar hafi reynt að kýla hinn, en ekki hitt hann. Við vindhöggið hafi hann fallið í jörðina. Hinn maðurinn hafi þá sparkað í andlit hans. Hafi B fundist árásin mjög gróf. Spörkin hafi sennilega verið tvö og hafi þau verið föst. Átökin hafi B séð vel.

F kvaðst hafa séð tvo menn í slagsmálum. Annar mannanna hafi reynt að slá hinn en slegið vindhögg. Í kjölfar þess hafi hann dottið í jörðina. Hinn maðurinn hafi þá sparkað í andlit mannsins þar sem hann hafi legið í jörðinni. Spörkin hafi verið ítrekuð, þung og hafnað í andliti mannsins.

D kvaðst hafa séð tvo menn í átökum. Annar hafi sparkað ítrekað í andlit hins. Hafi hún og vinkona hennar gengið á milli og stöðvað átökin. Ekki hafi hún séð hvar spörk mannsins hafi lent.

Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök. Kveður hann ekki útilokað að hann hafi sparkað í brotaþola aðfaranótt laugardagsins 9. mars 2013. Það hafi hann hins vegar gert í neyðarvörn, þar sem brotaþoli hafi að fyrra bragði ráðist á ákærða og valdið honum líkamstjóni.

                Brotaþoli kveður ákærða hafa veitt sér þá áverka er í ákæru greinir. Hann hafi ekki veitt ákærða áverka með áhaldi, svo sem ákærði haldi fram. Fyrir dóminn komu vitni. Ekkert þeirra gat borið um upphaf átaka ákærða og brotaþola. Hafa vitnin, C, B og F, borið á einn veg um að brotaþoli hafi sveiflað hnefa í átt að ákærða en ekki hitt og þar sem um vindhögg hafi verið að ræða hafi hann fallið í götuna fyrir utan húsnæði við Laugaveg 29 í Reykjavík. Þá ber vitnunum og D saman um að ákærði hafi a.m.k. í tvígang sparkað í höfuð brotaþola, þar sem brotaþoli hafi legið í götunni. Þegar samhljóða framburðir þessara vitna eru virtir telur dómurinn komna fram lögfulla sönnun þess að ákærði hafi í tvígang sparkað í höfuð brotaþola umrætt sinn. Slík háttsemi er stórhættuleg, þar sem spörkin beindust að höfði. Ákærði gekk mun lengra í atlögu sinni en tilefni var til og getur háttsemi hans ekki réttlæst af neyðarvörn. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

                Ákærði er fæddur í október 1976. Hann á að baki sakaferil. Hann gekkst undir viðurlagaákvarðanir á árunum 2004 og 2005 fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Á árinu 2007 var ákærði dæmdur í sekt fyrir brot gegn 217. gr. laga nr. 19/1940. Þá var hann, 17. mars sl. dæmdur í 12 mánaða fangelsi, að hluta skilorðsbundið, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða nú eru hegningarauki við síðastgreindan dóm. Verður refsing ákveðin með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Verður að ákvarða ákærða nýja heildarrefsingu í málinu, bæði fyrir það brot sem hér er til meðferðar og brot í máli frá 17. mars. Ákærði var í dómi 17. mars dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Ákærði á sér ekki málsbætur. Er refsing ákveðin fangelsi í 1 ár og tíu mánuði. Með hliðsjón af alvarleika brotsins og sakarferli ákærða eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvalds sótti mál þetta Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Örn Geirdal Arnarsson, sæti fangelsi í 1 ár og tíu mánuði.

Ákærði greiði 596.650 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 539.650 krónur.