Hæstiréttur íslands
Mál nr. 369/2005
Lykilorð
- Tryggingarbréf
|
|
Fimmtudaginn 2. febrúar 2006. |
|
Nr. 369/2005. |
B.M. Vallá hf. (Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Jóhönnu Andrésdóttur (Hreinn Pálsson hrl.) og gagnsök |
Tryggingarbréf.
B reisti kröfur sínar í málinu á tryggingarbréfi þar sem J veðsetti fasteign sína. B hélt því fram að veðbréfið hafi í raun verið til tryggingar skilvísri greiðslu á viðskiptaskuld fyrirtækisins E, en að nafn þess félags hafi fallið niður af misgáningi. Því til stuðnings vísaði B til viðvarandi viðskiptasambands B og E og að J hafi, sem annar eigandi E, áður gefið út sambærileg veðskjöl. Ágreiningslaust var að starfsmenn B höfðu samið efni tryggingarbréfsins. Af orðalagi bréfsins varð ekki annað ráðið en að það hafi verið gefið út til tryggingar vegna kaupa J á steypuefni o.fl. hjá B. Talið var að gera yrði þá kröfu, hafi ætlunin verið að tryggja viðskiptaskuldir E, að ótvírætt væri kveðið á um það í bréfinu. Ágreiningslaust var að J var ekki í skuld við B. Var J sýkn af öllum kröfum B í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2005. Hann krefst þess að staðfest verði að tryggingarbréf í eigu Malar og sands hf., nú aðaláfrýjanda, útgefið 21. september 2001, er hvílir með 6. veðrétti á fasteign gagnáfrýjanda að Mosateigi 11, Akureyri, standi til tryggingar skuldum Eyco ehf. við Möl og Sand hf., nú aðaláfrýjanda. Þá verði staðfest að tryggingarbréfið sé uppboðsheimild vegna skulda Eyco ehf. við Möl og Sand hf., nú aðaláfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 14. október 2005. Hún krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins er gagnáfrýjandi eigandi að fasteigninni Mosateigi 11, Akureyri, og var lóðarleigusamningi um þá fasteign þinglýst 19. október 2000. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi, B.M. Vallá hf., greiði gagnáfrýjanda, Jóhönnu Andrésdóttur, samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. mars 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 3. mars sl., hefur B.M.Vallá hf., kt. 630669-0179, Súluvegi, Akureyri höfðað hér fyrir dómi gegn Jóhönnu Andrésdóttur, kt. 140561-5419, Mosateigi 11, Akureyri, með stefnu þingfestri 24. júní 2004.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að staðfest verði með dómi að tryggingarbréf í eigu Malar og sands hf., kt. 470269-1469, nú stefnanda, útgefið þann 21. september 2001 er hvílir á 6. veðrétti fasteignar stefndu Mosateigi 11, Akureyri, standi til tryggingar skuldum Eyco ehf. við Möl og sand hf. Jafnframt er krafist dóms um að tryggingarbréfið verði staðfest sem uppboðsheimild vegna skulda Eyco ehf. við stefnanda. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefndu er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda auk hæfilegs málskostnaðar að mati dómsins.
I.
Málsatvik munu vera þau að félagið Möl og sandur hf., nú stefnandi, hóf að selja steinsteypu árið 1995 til Eyco ehf., en það félag hafði með höndum byggingaframkvæmdir og sölu íbúða á byggingastigi. Í stjórn Eyco ehf. voru stefnda og eiginmaður hennar, vitnið Gunnar Jónsson.
Áríð 1995 undirritaði stefnda, vegna viðskipta nefndra lögaðila tryggingarbréf og veðsetti fasteign sína að Sólvöllum 1 á Akureyri, en undir það bréf ritaði einnig eiginmaður hennar. Sama ár undirritaði stefnda vegna sömu aðila tryggingarbréf og veðsetti bifreið sína. Samkvæmt gögnum málsins var af hálfu Malar og sands hf. eignarhluti stefndu í fasteigninni Vörðugil 3 á Akureyri leystur úr veðböndum fyrir eftirstöðvum skuldar að fjárhæð kr. 500.000 hinn 17. mars 1997, en samhliða veðsetti nefndur Gunnar Jónsson, fyrir hönd Eyco ehf. tiltekna bifreið fyrir sömu fjárhæð.
Fyrir liggur að þann 8. febrúar 2001 undirritaði stefnda ásamt eiginmanni sínum Gunnari Jónssyni, tryggingarbréf til handa Möl og sandi hf. að fjárhæð kr. 2.500.000 og veðsetti fasteignina Mosateig 11, en stefnda var þá þinglýstur eigandi eignarinnar. Með veðflutningi 18. desember sama ár var fasteignin leyst úr veðböndum, en fasteignin Hringteigur 3 veðsett í staðinn. Á veðbandslausnina rituðu fyrirsvarsmaður Malar og sands hf. en fyrir hönd Eyco ehf. stefnda og nefndur Gunnar Jónsson.
Hinn 21. september 2001 undirritaði stefnda umþrætt tryggingarbréf til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu á steinsteypu, vinnuvélaleigu og öðrum viðskiptum við Möl og sand hf. að upphæð kr. 1.500.000 og veðsetti fasteignina Mosateig 11 á Akureyri, með 6. veðrétti.
Samkvæmt gögnum málsins var fyrirtækið Eyco ehf. úrskurðað gjaldþrota þann 19. nóvember 2003.
II.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á greindu tryggingarbréfi, útgefnu 21. september 2001, þar sem stefnda veðsetti fasteignina Mosateig 11, með 6. veðrétti og uppfærslurétti. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að í texta veðbréfsins hafi fallið niður að veðsetningin væri vegna viðskipta Eyco ehf. við Möl og sand hf.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að Möl og sandur hf. og Eyco ehf. hafi haft viðskipti um áraraðir, að stefnda hafi verið stjórnarmaður í Eyco ehf. og að hún hafi haft heimild til að skuldbinda félagið, líkt og m.a. sjáist á áðurgreindum eldri tryggingarbréfum.
Stefnandi staðhæfir í stefnu að í bókhaldi Malar og sands hf., nú BM Vallár hf. sé ekki að finna persónulega skuld stefndu við félagið, enda hafi hún aldrei haft viðskipti við það. Á hinn bóginn hafi Eyco ehf. verið í viðvararandi viðskiptum og hafi skuld þess við stefnanda þann 10. júní 2004 verið samtals að fjárhæð kr. 2.334.354, sbr. dskj. nr.5. Kröfunni hafi verið lýst í þrotabú Eyco ehf. sem almennri kröfu en samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra liggi nánast fyrir að ekkert komi upp í hana. Hafi því stefnanda verið nauðsynlegt að fá staðfest að umþrætt tryggingarbréf stæði til tryggingar skuldum Eyco ehf. við Möl og sand hf. nú BM Vallá hf., allt að fjárhæð kr. 1.500.000, en sé ekki vegna persónulegra skulda stefndu.
Stefnandi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar, auk meginreglna veðréttar, um ábyrgðarskuldbindingar og heimildir til veðsetninga. Kröfu sína um málflutningsþóknun styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en um varnarþing til 32. gr. sömu laga.
Stefnda reisir sýknukröfu sína á því, að hún hafi gefið út umþrætt tryggingabréf á árinu 2001 vegna fyrirhugaðra eigin kaupa á steypuefni og fleiru hjá Möl og sandi hf. vegna byggingaframkvæmda við fasteignina að Mosateigi 11 á Akureyri. Ætlan hennar hafi verið taka út byggingarefni til nota við eigið einbýlishús og hafi sú ráðstöfun því verið viðskiptum Eyco ehf. alls óviðkomandi. Framkvæmdirnar hafi hins vegar frestast og mál síðan þróast á þann veg að hún hafi keypt steypuefni hjá öðru fyrirtæki, fyrir utan lítilsháttar staðgreiðsluviðskipti við Möl og sand hf. árið 2004. Umþrætt tryggingabréf og veðsetning hafi því verið ótengt viðskiptum Eyco ehf. við Möl og sand hf., þrátt fyrir að hún hafi setið í stjórn þess fyrrnefnda. Hún hafi heldur ekki komið að daglegri stjórn Eyco ehf., enda ekki haft þekkingu né verið í stöðu til að koma nærri slíku.
Af hálfu stefndu er á því byggt að hafi það verið ætlan stefnanda eða forvera hans að binda viðskiptin að baki umþrættu tryggingabréfi við úttektir Eyco ehf. hafi það engum staðið nær en stefnanda að setja slíkt ákvæði í bréfið, enda hafi hann samið texta þess.
Af hálfu stefndu er á því byggt að til þess að tryggingarréttur líkt og hér um ræðir nái fram að ganga þurfi lögskiptin að vera skýr og augljós, þ.á. m. hvað eigi að tryggja, enda sé tryggingarétthafa veittur forgangur umfram aðra kröfuhafa. Því sé hins vegar ekki að heilsa í þessu máli. Þá hafi stefnandi heldur ekki sýnt fram á vöruúttektir af hennar hálfu í þágu fasteignar hennar að Mosateigi 11.
III.
Fyrir dómi gáfu skýrslur Hólmsteinn Hólmsteinsson, rekstrarstjóri stefnanda og Jóhann Jónsson, skrifstofustjóri stefnanda, en einnig stefnda og eiginmaður hennar Gunnar Jónsson.
IV.
Niðurstaða.
Stefnandi reisir kröfur sínar í máli þessu á umþrættu tryggingarbréfi, útgefnu af stefndu þann 21. september 2001. Til grundvallar kröfum sínum um að veðbréfið hafi í raun verið til tryggingar skilvísri greiðslu á viðskiptaskuld Eyco ehf., en að nafn þess félags hafi fallið niður af misgáningi, vísar stefnandi einkum til áður lýsts viðvarandi viðskiptasambands og að stefnda hafi sem annar eigandi Eyco ehf. áður gefið út sambærileg veðskjöl. Vitnisburður Jóhanns Jónssonar, skrifstofustjóra stefnanda, fyrir dómi var þessu til stuðnings.
Af gögnum málsins verður ráðið að stefnda hafi allt frá árinu 1995 áritað veðbréf vegna viðskipta Eyco ehf. og Malar og sands hf., þess fyrirtækis sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, og áritaði hún m.a. tryggingarbréf og veitti veðleyfi sem þinglýstur eigandi fasteignar. Jafnframt liggur fyrir að stefnda áritaði þann 8. febrúar 2001, ásamt eiginmanni sínum, tryggingarbréf, er var án tilvísunar til viðskipta Eyco ehf. og veðsetti með því núverandi eignaríbúð sína, Mosateig 11.
Um tilurð hins umþrætta veðbréfs hefur stefnda staðhæft að ætlan hennar hafi verið að stofna til skulda við veðhafann með kaupum á steypuefni til nota við eigin fasteign, Mosateig 11. Frásögn stefndu hefur að þessu leyti stoð í vitnisburði eiginmanns hennar, Gunnars Jónssonar, en einnig að nokkru í áðurnefndum staðgreiðslureikningi um steypukaup frá 29. mars 2004, sbr. dskj. nr. 9.
Ágreiningslaust er að starfsmenn Malar og sands hf. sömdu efni margnefnds tryggingarbréfs. Verður af orðalagi bréfsins ekki annað ráðið en að það hafi verið gefið út til tryggingar vegna kaupa stefndu á steypuefni o.fl. hjá Möl og sandi hf.
Að áliti dómsins verður að gera þá kröfu, hafi ætlunin verið að tryggja viðskiptaskuldir Eyco ehf., líkt og stefnandi heldur fram, að ótvírætt væri kveðið á um það í veðbréfinu.
Líkt og áður var rakið er stefnandi eigandi fasteignarinnar að Mosateigi 11, en lóðaleigusamningi þar um var þinglýst þann 5. september 2000. Ágreiningslaust er að stefnda er ekki í skuld við stefnanda.
Að öllu ofangreindu athuguðu og þar sem stefnandi hefur að áliti dómsins ekki hnekkt staðhæfingum stefndu um tilurð umþrætts tryggingarbréfs ber að sýkna hana af öllum kröfum í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Jóhanna Andrésdóttir, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda BM Vallár hf. í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.