Hæstiréttur íslands

Mál nr. 74/2007


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. september 2007.

Nr. 74/2007.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

Björk Andersen

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Skaðabótamál. Vinnuslys. Líkamstjón. Gjafsókn.

B krafðist viðurkenningar á bótaskyldu Í vegna meiðsla sem hún hlaut er hún var að lyfta sjúklingi við störf sín á endurhæfingarstöð. Hún byggði kröfu sína á því að vinnuaðstaða og vinnuskipulag á deildinni hefði ekki verið í samræmi við reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar þar sem of fá tæki hefðu verið fyrir hendi til að lyfta sjúklingum. Ekki var talið að B hefði sýnt fram á að skortur á skipulagningu hefði verið valdur að slysinu. Þá var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að atvikið hefði borið að með þeim hætti eða aðstæður verið slíkar í umrætt sinn að bein tengsl væru á milli meiðsla B og skorts á hjálpartækjum á staðnum. Var Í því sýknað af kröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Stefnda krefst viðurkenningar á bótaskyldu áfrýjanda vegna meiðsla sem hún hlaut 5. apríl 1998 við vinnu á deild 20 á endurhæfingarstöð Landspítalans í Kópavogi. Byggir hún kröfu sína á því að vinnuaðstaða og vinnuskipulag á deildinni hafi ekki verið í samræmi við reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Telur hún að of fá tæki hafi verið fyrir hendi til að lyfta sjúklingum, en mátt hefði koma í veg fyrir slysið ef fleiri tæki hefðu verið til taks. Um er að ræða lyftu með lausum dúk, sem smeygt er undir sjúkling með tilteknum hætti, og lyftan síðan notuð til þess að færa sjúklinginn.

Rúmur tugur mikið fatlaðra einstaklinga voru vistaðir á umræddri deild. Sex vitni sem störfuðu með stefndu komu fyrir dóminn. Með vætti þeirra verður að telja upplýst að á deildinni hafi verið ein lyfta og að minnsta kosti einn venjulegur dúkur og einn baðdúkur. Eitt vitnið taldi víst að tveir venjulegir dúkar hefðu verið fyrir hendi og tvö önnur að svo kynni að hafa verið. Stefnda byggir á því að þegar hún slasaðist hafi sá dúkur, sem var fyrir hendi, verið í notkun undir fjölfötluðum, mjög þungum og krepptum sjúklingi, og það hafi verið erfitt að ná dúknum undan honum. Þegar sá sjúklingur var í stól hafi dúkurinn því yfirleitt verið látinn vera þar kyrr á meðan. Þegar stefnda meiddist var hún að flytja annan sjúkling á milli stóla ásamt öðrum starfsmanni og beittu þær við það líkamskröftum. Ber vitnum saman um að þessi sjúklingur hafi getað staðið í fæturna ef hann var studdur, og var hann því gjarnan færður þannig á milli stóla, að hann var reistur upp með handafli, honum snúið og hann látinn setjast á ný. Hann gat þó ekki hlítt fyrirmælum og var með ósjálfráðar hreyfingar sem þurfti að varast. Málsatvikum og framburði stefndu og vitna er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Með framburði framangreindra vitna telst sannað að yfirmenn hafi gefið þau fyrirmæli að nota skyldi lyftubúnaðinn við að færa sjúklinga. Átti það almennt einnig við um þann sjúkling sem stefnda vann með í umrætt sinn. Upplýst er með framburði vitnanna að almennt hafi verið auðvelt að taka dúkinn undan sjúklingum, en erfitt gat þó verið að fjarlægja hann undan sjúklingi þeim sem stefnda segir dúkinn hafa verið undir þegar slysið varð. Ljóst er þó að þetta átti ekki að taka nema nokkrar mínútur. Í tilkynningum um slysið er sagt að það hafi orðið klukkan 14. Færa átti sjúklinginn á milli stóla í því skyni að breyta um stöðu hans til að forðast legusár. Ekkert bendir til þess að um álagstíma hafi verið að ræða og verður því ekki séð að tímaþröng hafi valdið því að dúkurinn var ekki sóttur. Engin sönnunarfærsla fór fram um sjálfan atburðinn og aðstæður á deildinni á þeim tíma sem hann varð. Liggur því ekki annað fyrir um það hvort tilgreind hjálpartæki voru tiltæk en frásögn stefndu. Sé hún lögð til grundvallar og virt í ljósi framburðar vitna um notkun dúksins, þykir stefnda ekki hafa sýnt fram á að ekki hefði mátt bíða þess að lyfta yrði tiltæk eða að eitthvað hafi staðið því í vegi að hún næði í dúkinn og notaði lyftuna. Verður ekki annað ráðið af því sem fram er komið en að það hafi verið ákvörðun stefndu sjálfrar, sem var menntaður sjúkraliði með nokkra starfsreynslu á þessari deild, að nota ekki lyftuna. Í ljósi þessa hefur ekki verið sýnt fram á að skortur á skipulagningu vinnunnar hafi valdið slysinu. Atvikið var fyrst tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins rúmum þremur vikum eftir að það átti sér stað. Vottorð um fyrstu komu stefndu til læknis vegna slyssins liggur ekki fyrir og engin sönnunarfærsla hefur farið fram um það hvenær hún lét yfirmenn sína eða samstarfsfólk vita um það. Er því hvorki ljóst hvenær unnt var að tilkynninga slysið né að aðkoma Vinnueftirlits hefði haft áhrif á sönnunarstöðu í málinu.

Stefnda hefur samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á að atvikið hafi borið að með þeim hætti eða aðstæður hafi verið slíkar í umrætt sinn, að bein tengsl séu á milli meiðsla hennar og skorts á hjálpartækjum á staðnum. Verður hún að bera hallann af skorti á sönnun um þetta. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefndu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefndu fer samkvæmt því sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefndu, Bjarkar Andersen.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun lögmanns hennar 350.000 krónur.                                                                                                                                  

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2006.

            Mál þetta var höfðað 22. desember 2005 og dómtekið 11. október sl.

            Stefnandi er Björk Andersen, Sólheimum 25, Reykjavík.

            Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur

            Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegna þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í vinnuslysi, hinn 5. apríl 1998, á endurhæfingardeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, Kópavogi, er hún þurfti að handleika byrðar með þeim afleiðingum að hnykkur kom á bak stefnanda og hún tognaði í mjóbaki. 

            Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

            Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Málavextir

            Stefnandi, sem er sjúkraliði, starfaði við endurhæfingarstöð Landspítalans í Kópavogi frá því í september 1997 til 5. apríl 1998.  Þann dag kveðst hún hafa slasast við vinnu sína.  Lýsir stefnandi málsatvikum svo að sjúklingar á þeirri deild sem hún vann á hafi verið fjölfatlaðir og hafi þurft á mikilli aðstoð að halda við allar athafnir daglegs lífs.  Viðeigandi hjálpartæki til þeirra athafna hafi átt að vera til staðar á deildinni.  Þar á meðal rafmagnslyftur til að lyfta hreyfihömluðum.  Lyfturnar hafi verið með örmum og armarnir síðan festir í tilheyrandi lyftudúk eða setu sem smeygja þurfti undir sjúklinginn sem færa átti og sjúklingurinn síðan hífður í dúknum.

            Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir slysi við vinnu sína 5. apríl 1998 þegar hún og samstarfskona hennar voru að undirbúa færslu spastísks sjúklings, sem var um 80 kg, úr hjólastól yfir í hægindastól.  Stefnandi bar fyrir dómi að ástæða þess að lyfta og segl var ekki notað hafi verið sú að seglið var í notkun undir öðrum sjúklingi, en aðeins ein lyfta og einn dúkur hafi verið til afnota á deildinni.  Stefnandi kveður tvær aðrar deildir hafa verið á staðnum og einn rafmagnslyftari á hverri deild, sem alltaf hafi verið í fullri notkun, og meira en það, á hverri deild.

            Stefnandi kveður slysið hafa borið að með þeim hætti að flytja átti sjúkling úr hjólastól yfir í hægindastól.  Þar sem dúkurinn var í notkun undir öðrum sjúklingi kveður stefnandi að ekki hafi verið um annað að ræða við þessar aðstæður en að flytja sjúklinginn með handafli, en það hafi verið algengt við slíkar aðstæður.  Hafi  tveir sjúkraliðar yfirleitt gert það saman.  Kveður stefnandi þetta hafa þróast þannig, þar sem mun erfiðara, eða nær ómögulegt, hafi verið að setja dúkinn undir þunga sjúklinga, þegar þeir sátu í hjólastól, heldur en þegar þeir lágu í rúmi. Það hafi því ekki verið tíðkað.  Þetta hafi því verið viðtekið verk og venja að gera það eins og stefnandi og samstarfskona hennar reyndu.  Stefnandi kveðst hafa haldið undir hægri upphandlegg sjúklingsins og samstarfskona hennar undir vinstri handlegg í því skyni að lyfta honum, er sjúklingurinn, sem sé ósjálfbjarga vegna hreyfihömlunar og með ósjálfráðar hreyfíngar, hafi allt í einu baðað út höndunum.  Við það hafi stefnandi misst tak sitt á sjúklingnum og til að varna honum falli hafi hún beygt sig fram á við og hafi orðið að snúa upp á líkama sinn til að grípa í sjúklinginn.  Er hún náði taki á sjúklingnum í fallinu hafi komið mikið högg á stefnanda og slinkur á bak hennar.  Hún hafi þá þegar lagt niður vinnu og fór heim fyrir vaktarlok, vegna verkja og óvinnufærni.

Stefnandi tekur fram að á deildinni hafi verið algjörlega hreyfihamlaðir einstaklingar og ósjálfbjarga.

            Stefnandi leitaði til Stefáns Dalberg, bæklunarskurðlæknis, nokkrum dögum eftir þennan atburð.  Í læknisvottorði hans, dags. 30. ágúst 2000, kemur fram að eftir slysið hafi stefnandi haft verki í bakinu.  Hún hafi verið í sprautumeðferð og farið í sjúkraþjálfun.  Hún hafi verið ár á Reykjalundi í meðferð vegna slæmra bakverkja.  Hafi hún ekki náð bata þrátt fyrir meðferðina.  Hún hafi ekki getað unnið utan heimilis eða við heimilisstörf vegna bakverkjanna og fái heimilishjálp og eigi erfitt með að sofa vegna verkjanna.  Hún hafi ekki getað keyrt beinskiptan bíl.  Henni fannst hún hafa minni kraft í vinstri ganglim sem leiði út frá baki og niður í hné.  Hafi skynbreytingu framan í lærinu. Borið hafi á þunglyndi og hún verið hjá geðlækni. Í áliti læknisins segir að stefnandi virðist hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við vinnuslysið.  Hún hafi hlotið slæma tognun á brjóst og mjóbak.  Þrátt fyrir mikla meðferð hafi hún ekki lagast í bakinu.  Hún hafi verulega skerta vinnugetu, þar sem álag sé á bakið, bæði við störf utan og innan heimilisins.  Ekki sé að búast við að henni batni með tímanum og telst ástandið varanlegt.

            Atli Þór Ólason, bæklunarlæknir, mat örorku stefnanda.  Samkvæmt örorkumati hans, dags. 5. október 2000, telst varanleg örorka stefnanda vera 40% og varanlegur miski 20%.  Samkvæmt örorkumati hans greindist stefnandi með hryggskekkju sem hann telur óháð slysinu en við slysið hafi hún hlotið mjóbakstognun.  Telur Atli Þór að mjóbaksóþægindi sem stefnandi hafði haft til margra ára hafi versnað við slysið.

            Samkvæmt framlögðu bréfi Vinnueftirlits ríkisins, dags. 18. nóvember 1998, var slysið ekki tilkynnt fyrr en 4. maí 1998.  Þar sem það var ekki tilkynnt þegar það átti sér stað var það ekki rannsakað.

            Stefnandi sendi kröfu, dags. 21. ágúst 2004, til Landspítala-háskólasjúkrahúss um viðurkenningu á bótaskyldu vegna slyssins.  Þeirri kröfu var hafnað með bréfi, dags. 20. september 2004.  Stefnandi telur sig eiga lögvarinn rétt til skaðabóta úr hendi vinnuveitanda síns, Landspítala-háskólasjúkrahúss, og hefur því höfðað mál þetta.

Málsástæður stefnanda og lagarök

            Stefnandi byggir kröfur sínar á því að íslenska ríkið beri ótvíræða bótaábyrgð á vinnuslysi stefnanda.  Sú ábyrgð grundvallist á almennu skaðabótareglunni (sakarreglunni) og reglunni um húsbóndaábyrgð (vinnuveitendaábyrgð) sem og reglum um aukna ábyrgð atvinnnrekanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað.

            Stefnandi byggir á að aðbúnaður starfsmanna stefnda hafi verið óforsvaranlegur og stefndi hafi vanrækt að tryggja stefnanda öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, eins og kveðið sé á um í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

            Hinn óforsvaranlegi aðbúnaður felist í því að vinnuveitandi stefnanda hafi vanrækt þá skyldu sína að sjá starfsmönnum, og þar með stefnanda, fyrir viðeigandi búnaði og hjálpartækjum til að komast hjá að handleika byrðar í þeim tilgangi að draga úr slysaáhættu, sem fólst í starfi stefnanda.  Þessi vanræksla hafi almennt verið til þess fallin að skapa slysahættu og hafi forsvarsmönnum stefnda mátt vera það ljóst.

            Á deildinni sem stefnandi vann á hafi verið sjúklingar sem voru fjölfatlaðir og þurftu aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.  Næg viðeigandi hjálpartæki til þeirra athafna hafi átt að vera til staðar á deildinni.  Einungis ein rafmagnslyfta hafi verið á deildinni til að þjónusta alla sjúklingana og einn lyftudúkur henni tilheyrandi.  Byggir stefnandi á að það hefði þurft að vera fleiri lyftur á deildinni til að tryggja fyllsta öryggi þeirra sem þar störfuðu við erfiðar aðstæður, og sjúklinganna sjálfra.  Á þeirri vanrækslu beri stefndi ábyrgð.

            Ef talið verður ósannað að aðeins ein lyfta hafí verið á deildinni, til að þjónusta sjúklinga deildarinnar, og/eða ef talið verður að ein lyfta hafí nægt til að þjónusta deildina, svo fyllsta öryggis starfsmanna væri gætt, þá byggir stefnandi á að stefnda hafi borið að hafa nægjanlegan fjölda af lyftudúkum tiltæka til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að handleika byrðar, sbr. 3. gr., 4. gr. og 5. gr. reglna nr. 499/1994, sem stoð eigi í 38. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

            Rafmagnslyftan sem um ræði í þessu vinnuslysi sé þannig útbúin að á lyftunni séu armar.  Þessum örmum sé krækt í tilheyrandi lyftudúk, sem sé eins konar seta sem smeygt sé undir sjúklinginn.  Eftir að búið sé að smeygja dúknum undir sjúklinginn sé örmunum krækt í dúkinn og sjúklingurinn hífður upp.  Þegar sjúklingur sé rúmliggjandi sé auðvelt verk að velta honum til í rúminu og smeygja dúknum undir,  velta honum til frá einni hliðinni og smokra dúknum undir, fara síðan hinum megin við rúmið og velta sjúklingnum til og draga dúkinn áfram, þannig að sjúklingurinn liggi á honum. Þetta sé unnt að gera á öruggan hátt, bæði fyrir starfsmenn og sjúklinginn sjálfan meðan hann sé rúmliggjandi, jafnvel þó um þungan spastískan einstakling sé að ræða. Sjúklingnum sé síðan lyft í dúknum yfir í t.d. hjólastól.   Þegar sjúklingur þurfi síðan að fara aftur í rúmið sé auðvelt mál að krækja örmum lyftunnar aftur í dúkinn og lyfta að nýju yfir í rúmið.  Ef hins vegar þurfi að taka dúkinn undan sjúklingnum meðan hann er í hjólastólnum, til nota fyrir aðra sjúklinga vegna skorts á lyftudúkum á stofnuninni, þá sé verulega erfitt að koma dúknum undir hann aftur.  Til þess að koma dúknum undir sjúklinginn aftur meðan hann sitji í hjólastól þurfi að lyfta sjúklingnum upp úr stólnum og smokra dúknum undir hann aftur.  Flestir hjólastólar séu þannig útbúnir að þrjár hliðar af fjórum séu nánast lokaðar, þ.e.a.s. bak og síðan hliðararmar fyrir handleggi.  Verulega erfitt sé því að koma lyftudúk undir sjúkling í hjólastól.  Slíkt sé enn erfiðara ef um spastískan sjúkling sé að ræða sem ekki hafi stjórn á hreyfingum líkamans.  Lyfta þurfi sjúklingnum upp úr stólnum og láta þunga hans hvíla á viðkomandi starfsmanni meðan dúknum sé komið fyrir undir viðkomandi sjúklingi. Ekki hafi verið til nema einn dúkur og ein lyfta á þessari deild.  Stefnandi byggir á að stefnda hefði borið að sjá til þess að til væru dúkar fyrir hvern og einn sjúkling á deildinni sem þurfti á þjónustu lyftunnar að halda, þannig að hægt væri að hafa dúkinn undir sjúklingnum, þar til hann væri hífður upp í rúm á ný, þar sem rúmið sé sá staður sem auðveldast og öruggast sé að koma dúknum fyrir.  Sú vanræksla stefnda á að hafa nægjanlega marga dúka til staðar á deildinni hafi verið til þess fallin að valda starfsmönnum slysahættu og hafi forsvarsmönnum stefnda mátt vera það ljóst. Tiltölulega kostnaðarlítið hafi verið fyrir stefnda að sjá til þess að nægjanlega margir dúkar væru til taks, miðað við það öryggi og þá vinnuhagræðingu sem í því felist.

            Þá byggir stefnandi á að forsvarsmenn stefnda hafi vanrækt þá skyldu sína sem atvinnurekandi að tilkynna slysið til lögreglustjóra og Vinnueftirlits ríkisins svo fljótt sem unnt var og eigi síðar en innan sólarhrings frá því slysið átti sér stað, eins og skylt hafi verið samkvæmt reglum um tilkynningu vinnuslysa nr. 612/1989, sem settar séu á grundvelli laga nr. 46/1980.  Full ástæða hafi verið til þess, enda hafi stefnandi strax í kjölfar slyssins lagt niður vinnu og þurfti síðar að leita til læknis, auk þess sem hún hafí verið óvinnufær í kjölfar slyssins.  Slysið hafi því ekki verið rannsakað af Vinnueftirlitinu, eins og lög geri ráð fyrir, þar sem það var ekki tilkynnt þegar það átti sér stað.  Skrifleg tilkynning, dags. 28.04.1998, frá stefnda hafi ekki borist Vinnueftirlitinu fyrr en þann 4. maí 1998.  Beri stefndi því hallann af því að svo langur tími leið frá slysdegi þar til slysið var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins.  Aðdragandi og orsök slyssins væri að fullu upplýst ef það hefði verið tilkynnt og rannsakað strax í kjölfar slyssins.

            Stefnandi byggir á að hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í ofangreindu vinnuslysi.  Samkvæmt matsgerð Atla Þórs Ólasonar, læknis, sé miski hennar vegna þeirra áverka sem hún fékk í slysinu 20 miskastig og varanleg örorka 40%.  Stefnandi byggi hins vegar á að tjón hennar sé verulega meira og áskilur sér rétt til að láta meta það á ný.  Það sé hins vegar ljóst, með hliðsjón af áverkum stefnanda og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, að stefnandi eigi rétt á verulegum bótum.

            Stefnandi byggir á almennu skaðabótareglunni og reglum um vinnuveitendaábyrgð, auk reglna skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem þær eiga við um ákvörðun bótafjárhæðarinnar. Stefnandi vísar til reglna skaðabótaréttarins um ábyrgð atvinnurekanda á vanbúnaði á vinnustað.  Í því sambandi vísar hún jafnframt til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna settra á grundvelli þeirra laga, sérstaklega reglna nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, þá helst 3. gr., 4. gr. og 5. grein þeirra reglna.  Einnig reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa. Stefnandi vísar og til reglunnar um uppsafnaða sök ótilgreindra starfsmanna. Viðurkenningarkrafan styðst við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

            Varðandi aðild vísar stefnandi til þess að heilbrigðisráðherra hafi yfirumsjón með heilbrigðismálum hér á landi, sbr. 1. mgr. 2. greinar laga nr. 97/1990, sem og 7. grein reglugerðar um Stjórnarráð Íslands. Um valdsvið heilbrigðisráðherra yfir LSH sé vísað til 30. greinar laga nr. 97/1990 og 3. mgr. 18. greinar sömu laga.  Varðandi fyrirsvar er síðan vísað til 5. mgr. 17. greinar laga um meðferð einkamála og niðurlags greinargerðar með 5. málsgrein 17. greinar einkamálalaga.

Málsástæður stefnda og lagarök.

            Af hálfu stefnda er á því byggt að á endurhæfingarstöðinni, sem stefnandi starfaði á, hafi verið útbúnaður og tæki til að lyfta sjúklingum og færa þá til eftir þörfum, í því skyni að starfsfólkið þyrfti ekki að gera það sjálft með eigin líkamsburðum og vöðvaafli.  Meðal þeirra hjálpartækja hafi verið sérhannaðar lyftur til að lyfta sjúklingum og færa þá t.d. úr rúmi í stól, milli stóla o.s.frv.  Þá hafi meðal hjálpartækja verið sérstakir dúkar sem notaðir voru þegar verið var að lyfta sjúklingum og hafi dúkurinn þá verið hafður undir sjúklingnum og sjúklingurinn hífður" í dúknum. Umrædd lyfta sé með svokallaða CE merkingu og EB yfirlýsingu um samræmi, en í því felist samkvæmt 5. gr. reglugerðar um vélar og tæknilegan búnað nr. 761, 2001 að ekki þurfi frekari prófanir og að lyftan teljist fullnægja öllum kröfum.  Um sé að ræða viðurkenndar lyftur og dúka sem hafi verið prófuð og samþykkt, enda haldi stefnandi því ekki fram að um vanbúnað lyftunnar hafi verið að ræða.  Engar málsástæður stefnanda lúti að því að lyftan hafí verið vanbúin eða ekki uppfyllt kröfur og staðla.  Í því ljósi sé óskiljanleg sérstök áskorun í stefnu um upplýsingar varðandi lyftuna.

            Það sé rangt sem stefnandi haldi fram að skort hafi á hjálpartæki og viðeigandi búnað á vinnustað stefnanda.  Þvert á móti hafi verið til staðar tæki og búnaður til að komast hjá því eftir megni að starfsmenn, þ. á m. stefnandi, þyrftu að handleika byrðar.  Ekki hafi verið skortur á hjálpartækjum á vinnustað stefnanda. Ekki hafi stefnandi vísað til þess að tiltekinn lágmarksfjöldi hjálpartækja skuli vera til staðar miðað við tiltekinn fjölda sjúklinga, enda séu slík viðmið ekki til.  Fáir sjúklingar hafi verið á þeirri deild þar sem stefnandi starfaði á.

            Lyfta hafi alltaf verið tiltæk á vinnustað stefnanda og innan seilingar.  Hafi sú lyfta sem næst var stefnanda verið upptekin þá hafi verið hægur vandi að bíða eftir að hún losnaði, eða að sækja aðra lyftu, en þær hafi jafnan verið skammt undan.  Sama sé að segja um lyftudúka.  Stefnandi hafi ekki haldið því fram að sérstaklega hafi legið á að færa sjúklinginn og því hafi tímaskortur valdið hinum óvönduðu vinnubrögðum stefnanda.  Stefnandi hafi haft nægan tíma til að verða sér úti um öll nauðsynleg hjálpartæki til verksins.  Það sé rangt sem stefnandi haldi fram að ekki hafi verið lyfta tiltæk.

            Það sé rangt sem stefnandi haldi fram að örðugt sé, eða ómögulegt, að koma dúknum undir sjúkling í hjólastól.  Vegna þess hvernig dúkurinn sé útbúinn sé auðvelt að gera það og þurfi ekki að lyfta sjúklingnum til þess.  Þess vegna skipti fjöldi dúka ekki máli.  Auk þess hafi sá sjúklingur sem stefnandi var að aðstoða verið svo sjálfbjarga að þetta skipti enn síður máli varðandi aðstoð við hann.  Stefnandi hafi heldur ekki byggt á því að tímapressa hafi verið á verkinu.

            Á endurhæfingarmiðstöðinni, m.a. þeirri deild sem stefnandi starfaði á, giltu vinnureglur fyrir starfsfólkið.  Þessar vinnureglur hafi legið fyrir á vaktherbergjum þar sem starfsfólk var.  Í vinnureglunum séu skýr fyrirmæli um notkun hjálpartækja.  Starfsfólkið hafði fyrirmæli um að nota hjálpartæki, m.a. þegar handleika þurfti byrðar í samræmi við reglugerð nr. 499/1994.  Þessi fyrirmæli hafi gilt bæði um notkun á lyftum og lyftudúkum.  Reglurnar hafi legið frammi á aðstöðu starfsmanna.

           Sjúkraliðar hafi haft fasta viðveru á þeirri deild þar sem stefnandi vann á og haldin voru námskeið í vinnutækni.  Regluleg námskeið hafi verið haldin oft á ári og hafi þá sjúkraliði leiðbeint, m.a. um vinnutækni.

           Borgarspítalinn, sem áður var, hafi gefið út leiðbeiningabækurnar „Vinnutækni fyrir hjúkrunarfólk“ á árinu 1984 og „Vinnutækni við umönnun“ á árinu 1995, en síðari bókina hafi spítalinn gefið út ásamt Vinnueftirlitinu.  Báðar þessar bækur hafi legið fyrir á vinnustað stefnanda til afnota fyrir starfsmenn og hafi starfsmenn verið hvattir til að tileinka sér þær faglegu aðferðir sem þar eru sýndar.

           Stefndi hafi þannig reynt að tryggja að starfsmenn sem vinna við byrðar komist hjá því að handleika þær eins og unnt er.  Þá hafi stefndi séð starfsmönnum fyrir viðeigandi búnaði til að draga úr áhættu sem því getur fylgt að handleika byrðar. Stefndi hafi sett reglur á vinnustað stefnanda sem giltu þá er stefnandi varð fyrir umræddu atviki og hafi starfsmönnum verið skylt að fara eftir þeim vinnureglum. Vinnureglurnar höfðu verið kynntar starfsmönnum, þ. á m. stefnanda.  Stefndi hafi líka reynt að stuðla að því með námskeiðahaldi og bókakosti, að starfsmenn sem komast ekki hjá því að handleika byrðar hafi þekkingu til að gera það á réttan hátt og geri það.

           Stefndi hafi gert allt sem í hans valdi stóð og sem ætlast mátti til af honum, og sem mátti duga til að stefnandi gæti unnið verk sitt rétt og án þess að bíða skaða af.

           Stefnandi starfaði sem sjúkraliði og hafi þannig verið fagmaður við umönnun sjúkra og hreyfihamlaðra.  Hún hafi starfsleyfí sjúkraliða. Hún hafi lært hvernig skal meðhöndla og aðstoða fatlað fólk.  Stefnandi sé ekki leikmaður á þessu sviði heldur fagmaður sem hefur unnið við umönnun hreyfihamlaðra og beri að gera til hennar kröfur í samræmi við það.  Verði að gera til hennar ríkari kröfur, en sem fagmanni beri henni að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfíð.

         Stefnandi hafi unnið á vinnustaðnum allnokkurn tíma og kynnst sjúklingunum.  Hún hafi vitað eða átt að vita að umræddur sjúklingur hafði ósjálfráðar, spastískar hreyfingar.  Hafði stefnandi því ástæðu til að gæta sérstakrar varúðar við verk sitt.  Það hafi hún ekki gert.

            Þegar sá atburður varð sem málið er sprottið af hafi stefnandi verið að aðstoða hreyfihamlaðan mann.  Af stefnu verður ráðið að hann hafi nánast verið algerlega ófær um að hreyfa sig sjálfur eða hjálpa til við verkefnið.  Þetta sé rangt.  Viðkomandi sjúklingur hafi getað staðið í fæturna.  Þetta atriði skipti máli á þann hátt að enn auðveldara hafi verið að koma lyftudúknum undir sjúklinginn meðan hann stóð í fæturna og lyfta honum eftir það.  Þannig hefði engu máli skipt hversu margir dúkar voru á vinnustaðnum, ekki hafi verið þörf á að hafa stöðugt dúk undir þessum sjúklingi þar sem auðvelt hafi verið að koma undir hann dúk.  Auk þess séu dúkarnir séu þess eðlis að ekki þurfi að lyfta sjúklingi úr hjólastól til að koma undir hann dúknum.  Því hafi það verið hreinn óþarfi af stefnanda að baksa við að lyfta sjúklingnum með handafli.  Hægur vandi hafi verið að útvega sér lyftu og lyftudúk og láta sjúklinginn standa í fæturna meðan dúknum yrði komið undir hann og lyfta honum svo með lyftunni.  Sá háttur á verkinu hefði auk þess verið í samræmi við þær vinnureglur sem stefnanda bar að fara eftir en gerði ekki.  Hins vegar hafi sjúklingurinn verið það sjálfbjarga að ekki þurfti að lyfta honum við þessa færslu þar sem hann gat staðið í fæturna og muni það stundum hafa verið gert þannig, en þá hafi aðeins þurft að aðstoða sjúklinginn án þess að lyfta honum.

           Hægur vandi hafi verið að smeygja dúknum undir sjúklinginn og til þess þurfti ekki að lyfta sjúklingi vegna þess hvernig dúkurinn er gerður.  Þannig sé það útilokað að mati stefnda að stefnandi hafi þurft að lyfta sjúklingi til að koma undir hann dúk eða að það hafi ekki verið hægt að koma undir hann dúk þar sem þá hefði þurft að lyfta honum.

           Um langt árabil fyrir umræddan atburð hafi stefnandi verið veik í baki.  Fram komi í gögnum málsins að hún hafi til margra ára haft hryggskekkju og verki í mjóbaki.  Stefnandi hafi því haft enn ríkari ástæðu en ella til að fara varlega.  Það hafi hún ekki gert og telur stefndi að hafí stefnandi á annað borð orðið fyrir meiðslum í umrætt sinn, þá megi rekja það alfarið til hennar eigin óvarkárni og til þess að hún fór ekki eftir þeim vinnureglum sem um starf hennar giltu og notaði ekki þau hjálpartæki og útbúnað sem fyrir hendi var og átti að nota.  Beri stefnandi því sjálf alla sök á umræddum atburði.

           Stefnandi hafi sjálf haft það á valdi sínu hvernig hún stóð að því verki sem hún vann.  Ekki sé við annan starfsmann að sakast en hana sjálfa um það hvernig til tókst. Enginn annar starfsmaður en stefnandi beri ábyrgð á því hvernig hún framkvæmdi verk sitt, enda hafi stefnandi ekki haldið fram neinu um að sá háttur sem hún hafi haft á verki sínu hafi verið að fyrirmælum yfirmanns.

           Almenn regla sé að sá sem verði fyrir tjóni beri tjón sitt sjálfur. Undantekningar frá því séu ef fyrir hendi er tjónvaldur beri bótaábyrgð á tjóninu. Stefndi hafi ekki valdið stefnanda tjóni.  Frekar en að telja stefnda vera tjónvald í málinu væri nær að telja sjúklinginn sem verið var að aðstoða vera tjónvald, enda lýsi stefnandi því svo að sjúklingurinn hafi „baðað út höndunum“ og við það hafí óhappið orðið. Stefndi telur ekki efni til að taka afstöðu til þess hvort önnur atriði leiði til þess að sjúklingurinn beri ekki bótaábyrgð gagnvart stefnanda.

            Ekki sé ljóst af framlögðum gögnum stefnanda hvaða dag atburðurinn átti sér stað.  Ýmist komi fram dagsetningin 4. apríl eða 5. apríl 1998.  Stefnandi hafi mætt til vinnu daginn eftir, eða 5. apríl 1998, og verði því að draga í efa að hún hafi þá fundið mikið fyrir meiðslum, enda bendi stefndi á að stefnandi hafi ekki leitað til læknis fyrr en 8. apríl 1998.  Dagurinn 8. apríl 1998 sé ekki dagurinn þegar stefnandi kveðst hafa meiðst heldur dagurinn þegar stefnandi hafi átti að koma til vinnu samkvæmt vaktaáætlun.  Ekki virðist því hafa verið brýnt fyrir stefnanda að komast til læknis vegna þjáninga eða meiðsla.

            Stefndi telur ekki sannað að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu tjóni í umrætt sinn.  Ljóst virðist að einhverskonar óhapp hafi orðið, en stefndi telur meintar afleiðingar þess alfarið ósannaðar.  Það sé óhrekjandi staðreynd að stefnandi hafi verið veik í baki fyrir atburðinn.  Hafi stefnandi ekki sýnt fram á hver af hennar meinum nú sé að rekja til umrædds atburðar og hver megi rekja til annarra þátta, s.s. viðvarandi bakveiki fyrir atburðinn.  Ekki komi heldur fram hvort fyrri bakveiki hafi orðið til þess að atburðurinn varð alvarlegri eða hvort atburðurinn hafí magnað upp fyrri bakveiki.  Fyrir fullyrðingum um meint tjón og afleiðingar þess og umfang beri stefnandi sönnunarbyrði, en undir þeirri byrði hafi hann ekki risið að mati stefnda.  Í þessu sambandi bendir stefndi á að ekkert liggi fyrir um heilsufarslegt ástand stefnanda nú og séu öll gögn um það margra ára gömul. Með bréfi ríkislögmanns, dags. 29. nóvember 2000, hafi þáverandi lögmaður stefnanda fengið senda ávísun að fjárhæð kr. 1.130.640, sem hafi verið bótagreiðsla til stefnanda samkvæmt reglum nr. 30/1990um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verði fyrir í starfi.

            Ástæða þess að umræddur atburður hafi ekki verið tilkynntur til lögreglu og Vinnueftirlits hafi verið sú að ekki hafi upphaflega verið litið á þetta sem vinnuslys. Það eitt að atburðurinn hafi ekki verið tilkynntur strax til Vinnueftirlits og af þeim sökum ekki verið rannsakaður sem vinnuslys hafi engin áhrif um efnislega niðurstöðu.  Þetta felli enga bótaskyldu á stefnda og hafi hér engin áhrif.

           Allar fullyrðingar stefnanda um afleiðingar atburðarins, um tjón og umfang þess, séu því ósannaðar að mati stefnda og þeim vísað á bug.

           Að öðru leyti sé málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91, 1991.

Niðurstaða

            Fallast má á það með stefnda að málsatvikalýsing í stefnu sé óljós.  Málsatvik skýrðust hins vegar við skýrslutökur í málinu, m.a við aðilaskýrslu stefnanda.

            Stefnandi sem er sjúkraliði starfaði á endurhæfingarstöð Landspítalans í Kópavogi.  Bar hún fyrir dómi að hún hefði, er slysið varð, unnið á deild þar sem voru 12 sjúklingar sem allir voru lamaðir og ósjálfbjarga og hafi hún unnið við umönnun þeirra.  Þegar umrætt slys átti sér stað hafi hún ásamt annarri starfsstúlku verið að færa sjúkling úr hjólastól yfir í venjulegan stól.  Bar hún að sjúklingur þessi sé mjög spastískur og hafi hann slegið til hennar.  Hún hafi ekki náð því að setja hann í stólinn, hann hafi einhvern veginn runnið úr höndum hennar og hún hafi fengið slynk á bakið við það að reyna að forða því að hann dytti í gólfið.

            Stefnandi bar að á deildinni hefðu verið fjórar starfsstúlkur í umönnun með eina lyftu og einn dúk, sem settur var undir sjúklinginn áður en honum var lyft.  Hefði það komið fyrir að lyftan eða dúkurinn  voru ekki tiltæk og hafi þær þá notað líkamskrafta sína til þess að færa sjúklinga til.  Kvaðst hún hafa notað rafmagnslyftuna þegar hún var laus en það hafi bara ekki alltaf verið svo.  Taldi hún eina lyftu og einn dúk ekkert gagn gera á slíkri deild.

            Samstarfskonur stefnanda, Ásdís Emelía Björgvinsdóttir og Brynja Guðjónsdóttir, staðfestu að einungis hefði verið ein lyfta á deildinni þar sem þær störfuðu.  Staðfestu þær einnig að það hafi komið fyrir að starfsfólk notaði eigin líkamskrafta til þess að færa sjúklinga til.  Bar Brynja að það hefði oft verið ítrekað við þær að nota ekki eigin líkamskrafta þar sem það gæti verið hættulegt bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga.

            Halldóra Guðmundsdóttir þroskaþjálfi bar að ein lyfta hefði verið á deildinni og ef ekki var hægt að koma því við að nota hana hafi tveir starfsmenn notað eigin líkamskrafta og lyft einstaklingi ef á þurfti að halda.  Bar hún að ef fleiri lyftur hefðu verið á deildinni hefðu þær verið notaðar því reynt hefði verið að nota hjálpartækin.  Hins vegar hefði ekki alltaf verið hægt að bíða eftir hjálpartæki ef sinna þurfti sjúklingi strax.  Taldi hún enn þann dag í dag vera of fá hjálpartæki til staðar.  Hún lýsti því að á þessum tíma hafi góður sjúkraþjálfari verið starfandi á deildinni og teymi í kringum hann.  Þau hafi lagt áherslu á að hjálpartæki væru notuð en annars myndu starfsstúlkur hjálpast að tvær og tvær.  Benti hún á að á matmálstímum, svefntímum og baðtímum þurfi að sinna sjúklingunum á svipuðum tíma.

            Sigríður Harðardóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri á Landspítala Kópavogi, bar fyrir dómi að starfsmenn fái mjög skýr fyrirmæli frá stjórnendum að nota lyftur við umönnun sjúklinganna.  Á umræddum tíma hafi þessi fyrirmæli verið skráð í möppur sem starfsmenn hafi átt að leita í.  Haldin hafi verið tvö námskeið á ári til að leiðbeina starfsfólki með hvernig höndla eigi með svo mikið fatlað fólk.  Þá hafi einnig verið til staðar svokallaður bakskóli sem sjúkraþjálfari sá um og kenndi fólki að beita sér við vinnu sína til að forða meiðslum, kenna vinnustellingar o.fl.  Þá hafi deildarfundir verið haldnir og sjúkraþjálfari iðulega þar mættur til ráðgjafar.  Bar Sigríður að oft hefði verið erfitt að fá starfsfólk til þess að nota hjálpartækin og hafi nánast þurft að minna á það daglega en hjálpartækin hafi verið til staðar.  Lýsti Sigríður þeirri skoðun sinni að nóg hafi verið að hafa eina lyftu á þessari deild, þetta hafi bara verið spurning um skipulag.  Fjórir eða fimm hafi starfað á deildinni á hverri vakt og vinnuna þurfi bara að skipuleggja.

            Guðný Jónsdóttir sjúkraþjálfari bar fyrir dómi að endalaust hefði verið brýnt fyrir fólki að nota hjálpartækin.  Námskeið hafi verið haldin og sjúkraþjálfarar hafi mikið verið inni á deildunum.  Þá hafi, einu sinni í mánuði, verið haldnir starfsmannafundir þar sem mjög sértækar leiðbeiningar hafi verið gefnar.  Á þessari deild hafi verið mikið fatlaðir einstaklingar og ekki einfalt að handlyfta þeim og því hafi verið brýnt fyrir fólki að nota hjálpartæki.  Það hafi hins vegar viljað brenna við að starfsfólk færi ekki eftir þessu.  Það taki ákveðinn tíma að nota lyftu en allt sé þetta spurning um skipulag.  Aðspurð hvort heppilegra hefði verið að hafa tvær lyftur taldi hún svo vera að sumu leyti, t.d. ef allir eru að fara á sama tíma.

            Marrit Meinthema, sjúkraþjálfari, bar fyrir dómi að hún hefði verið sjúkraþjálfari á deild stefnanda og hefði hún séð um umræddan sjúkling sem stefnandi var að sinna þegar hún varð fyrir slysinu.  Bar Marrit að hún hefði aldrei notað lyftu við umönnun hans þar sem ekki þurfi að nota krafta til að halda uppi þyngd hans.  Hafi hún látið hann standa í fæturnr.  Hins vegar sé léttara að nota lyftu og sé alltaf mælt með því.  Aðspurð taldi hún að það hefði verið auðveldara að hafa tvær lyftur á deildinni, þá hefði verið minni tímapressa.

            Fram er komið að á þeirri deild þar sem stefnandi starfaði var ein sérhönnuð rafmagnslyfta sem notuð var til þess að lyfta sjúklingunum.  Var sérstakur dúkur látinn undir sjúklinginn og honum lyft í dúknum.  Einn dúkur var til staðar og notaður við annað en böðun sjúklinga en sérstakur dúkur var notaður á baði.

            Stefnandi heldur því fram að dúkur hafi ekki verið tiltækur þegar umrætt slys varð.  Hún og önnur starfsstúlka hafi því orðið að nota eigin líkamskrafta til þess að lyfta sjúklingi sem hún var að sinna í umrætt sinn.  Enda þótt mikil áhersla hafi verið á það lögð, af hálfu stjórnenda, að starfsfólk notaði hjálpartæki við umönnun sjúklinganna, þykir, þegar virtir eru þeir framburðir sem raktir eru hér að framan, að það hafi samt sem áður verið liðið og látið óátalið, að starfsfólk beitti eigin líkamskröftum við að lyfta sjúklinum.  Þykir það styðja fullyrðingar stefnanda um að ein lyfta og einn dúkur hafi ekki verið fullnægjandi hjálpartæki á umræddri deild.  Er ekki á því byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi, með því að haga vinnu sinni með umræddum hætti, brotið fyrirmæli yfirboðara sinna.  Fram hefur komið að nýting hjálpartækja sé háð skipulagningu vinnu á sjúkradeildum.  Ekki hefur verið sýnt fram á af hálfu stefnda að vinna á deildinni hafi verið skipulögð með þeim hætti að við umönnun sjúklinganna hafi í öllum tilvikum verið unnt að nota hjálpartæki.  Þá liggur ekki fyrir í málinu að stefnandi hafi haft með skipulagningu vinnu á deildinni að gera.  Þá hefur heldur ekki verið sýnt fram á að það hafi verið raunhæfur kostur að sækja hjálpartæki á aðrar deildir enda má gera ráð fyrir að slík tæki hafi verið í fullri notkun þar.

            Fram hefur komið að umræddur sjúklingur gat stigið í fæturna þegar verið var að sinna honum.  Þykir það ekki útiloka að stefnandi hefði notað lyftu í umrætt sinn hefði hún verið til staðar enda léttara að nota hana, sbr. framburð Marrit Meinthema, sjúkraþjálfara.

            Reglur nr. 499/1994 gilda á vinnustöðum sem lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ná til, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglnanna.  Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. gilda reglurnar um það þegar byrðar eru handleiknar og því fylgir hætta á heilsutjóni, sérstaklega bakmeiðslum, vegna þess hvernig hluturinn er gerður eða vinnuvistfræðilegar aðstæður eru slæmar.  Samkvæmt 3. gr. reglnanna skal atvinnurekandi gera skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki, einkum vélbúnað, til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að handleika byrðar.

            Í ljósi þess sem að framan er rakið verður að telja að þessum ákvæðum hafi ekki verið fullnægt af hálfu stefnda og slys stefnanda megi rekja til þess að skort hafi á að viðeigandi hjálpartæki hafi verið til staðar fyrir stefnanda til notkunar í umrætt sinn.  Telst stefndi því bera skaðabótaábyrgð á því tjóni er stefnandi varð fyrir við slysið.

            Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir varanlegu tjóni í slysinu.

            Stefnandi hefur lagt fram vottorð Stefáns Dalberg læknis, dags. 30. ágúst 2000. Þar segir að stefnandi virðist hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við vinnuslysið 4. apríl 1998.  Hún hafi hlotið slæma tognun á brjóst og mjóbak.  Þrátt fyrir mikla meðferð hafi hún ekki lagast í bakinu.  Hún hafi verulega skerta vinnugetu þar sem álag sé á bakið, bæði við störf utan og innan heimilisins.  Ekki sé að búast við að hún verði betri með tímanum og teljist ástandið varanlegt.

            Þá hefur stefnandi lagt fram matsgerð Atla Þórs Ólasonar, læknis, dags. 5. október 2000.  Samkvæmt henni hafði stefnandi þekkta hryggskekkju í mjóhrygg og mjóbaksverki öðru hverju til margra ára.  Við mat á varanlegum miska er tekið mið af tognun í mjóbaki með verulegri hreyfiskerðingu og auknum andlegum óþægindum því tengdu.  Við mat á varanlegri örorku er litið til þess að stefnandi hafi haft mjóbaksóþægindi til margra ára sem hafi versnað verulega eftir slysið og hafi gert hana alveg óvinnufæra.  Niðurstaða Atla Þórs er að við slysið hafi stefnandi hlotið varanlega 20% miska og 40% varanlega örorku.

            Með hliðsjón af framangreindum gögnum telst stefnandi hafa gert það sennilegt að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni í umræddu slysi, en með því að í máli þessu er einungis deilt um bótaskyldu stefnda en ekki meint tjón stefnanda verður ekki nánar um það fjallað í máli þessu.  Samkvæmt framansögðu ber því að fallast á kröfur stefnanda í málinu.

            Eins og aðild háttar í máli þessu, svo og með hliðsjón af því að stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu, þykir ekki ástæða til að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem rennur í ríkissjóð og fellur málskostnaður milli aðila því niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 400.000 krónur, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

            Kristjana Jónsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

            Viðurkennd er bótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegna þess líkamstjóns sem stefnandi, Björk Andersen, varð fyrir í vinnuslysi í apríl 1998, á endurhæfingardeild Landspítala háskólasjúkrahúss, Kópavogi, er hún þurfti að handleika byrðar með þeim afleiðingum að hnykkur kom á bak stefnanda og hún tognaði í mjóbaki. 

            Málskostnaður fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 400.000 krónur, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.