Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-26, 27 og 28

Vátryggingarfélag Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður) og HH byggingar ehf. (Guðmundur Siemsen lögmaður)
gegn
húsfélaginu Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 (Ólafur Kjartansson lögmaður), og húsfélagið Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 (Guðmundur Óli Björgvinsson lögmaður), gegn Gunnari Bergmann Stefánssyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Fjöleignarhús
  • Mannvirki
  • Galli
  • Tjón
  • Byggingarreglugerð
  • Byggingarstjóri
  • Hönnuður
  • Starfsábyrgðartrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðnum 8. mars. 2024 leita Vátryggingarfélag Íslands hf. og HH byggingar ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. febrúar 2024 í máli nr. 522/2022: Gunnar Bergmann Stefánsson, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Red ehf., HH byggingar ehf. og Vátryggingarfélag Íslands hf. gegn húsfélaginu Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53. Gagnaðili húsfélagið Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 leggst gegn beiðninni.

3. Með beiðni 8. mars 2024 leitar húsfélagið Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, til að áfrýja sama dómi Landsréttar gagnvart Gunnari Bergmann Stefánssyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðilar Gunnar Bergmann Stefánsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leggjast gegn beiðninni.

4. Red ehf., einn áfrýjenda fyrir Landsrétti, hefur hvorki óskað eftir áfrýjunarleyfi né látið beiðnir um áfrýjunarleyfi til sín taka.

5. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gallar hafi verið á sameign fjöleignarhússins að Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 í Reykjavík og hvaða aðilar beri ábyrgð á tjóni sem rakið verði til þeirra. Húsfélagið Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 beindi kröfum að Red ehf. sem eiganda hússins og seljanda íbúða í því. Þá var kröfum beint að HH byggingum ehf. sem byggingaraðila og byggingarstjóra, auk þess sem Vátryggingarfélagi Íslands var stefnt vegna starfsábyrgðar byggingarstjóra. Jafnframt var kröfum beint að Gunnari Bergmann Stefánssyni sem öðrum hönnuða hússins og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. þar sem hann var með starfsábyrgðartryggingu.

6. Með dómi Landsréttar var Red ehf. dæmt til að greiða húsfélaginu Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 samtals 19.111.508 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum. Þar af voru HH byggingar ehf. dæmdar til að greiða 18.147.939 krónur óskipt með Red ehf. og Vátryggingarfélag Íslands hf. dæmt til að greiða 13.172.000 krónur óskipt með Red ehf. og HH byggingum ehf. Með héraðsdómi höfðu Gunnar Bergmann Stefánsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. jafnframt verið dæmd skaðabótaskyld en með dómi Landsréttar voru þeir aðilar sýknaðir af kröfu húsfélagsins. Í dómi Landsréttar var lagt til grundvallar að frágangur á yfirborði bílageymslu annars vegar og þaki hennar hins vegar hefði ekki verið í samræmi við byggingarreglugerð. Húsfélagið hefði orðið fyrir tjóni vegna þessa. Varðandi skaðabótaábyrgð Gunnars Bergmann Stefánssonar og Sjóvá-Almennra trygginga hf. var vísað til þess að við frágang þakplötu bílageymslunnar hefði verið tekin ákvörðun um að fylgja ekki þeirri byggingarlýsingu sem hönnuðurinn hafði staðfest. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sýnt fram á að hönnuðurinn gæti borið sakarábyrgð á tjóni húsfélagsins. Einnig komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að sýnt hefði verið nægilega fram á að Red ehf. hefði, sem eigandi mannvirkisins, komið að ákvarðanatöku um frágang þaks bílageymslunnar sem var í andstöðu við byggingarlýsingu. Því var fallist á skaðabótaskyldu þess félags. Um ábyrgð HH bygginga hf. var vísað til þess að ákvörðun um að víkja frá byggingarlýsingu hefði verið tekin af Red ehf. og HH byggingum hf. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hefði síðarnefnda félagið sem byggingarstjóri jafnframt borið ábyrgð á því að frágangurinn samrýmdist samþykktum hönnunargögnum. Á grundvelli starfsábyrgðartryggingar var Vátryggingarfélagi Íslands hf. gert að greiða fjárhæðina óskipt með Red ehf. og HH byggingum ehf. Með vísan til matsgerðar dómkvadds manns, sem ekki hafði verið hnekkt, var félögunum gert að greiða tilgreinda fjárhæð vegna frágangs á þaki og yfirborði bílageymslu. Þá var Red ehf. jafnframt gert að greiða kostnað við úrbætur vegna galla á gólfi bílageymslu, niðurfalli af þaki og þakbrún.

7. Leyfisbeiðendurnir HH byggingar ehf. og Vátryggingarfélag Íslands hf. byggja báðir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, einkum þar sem mikilvægt sé að fá niðurstöðu Hæstaréttar varðandi skil ábyrgðar byggingarstjóra og hönnuða, og þá sérstaklega um það hvort hönnuðir beri ekki ábyrgð á staðfestum byggingarteikningum sem sendar séu byggingarfulltrúa og þá nefndar „reyndarteikningar“. Þá telja þeir leyfisbeiðendur niðurstöðu Landsréttar ekki nægjanlega skýra varðandi skil 5. og 7. mgr. 29. gr. laga nr. 160/2010. Þeir byggja jafnframt á því að um sé að ræða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

8. Leyfisbeiðandinn Húsfélagið Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi einkum um ábyrgð hönnuðar á svonefndum reyndarteikningum. Vísar hann jafnframt til þess að ábyrgð hönnuðar sé sérfræðiábyrgð og sakarmat strangt. Þessi leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar rangan að efni til að því er varðar sýknu hönnuðar og vátryggingarfélags hans. Hann byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

9. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðendanna Vátryggingafélags Íslands hf. og HH bygginga ehf. í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Að fenginni þeirri niðurstöðu og að virtum atvikum málsins og málatilbúnaði leyfisbeiðandans Húsfélagsins Skyggnisbraut 2-6 og Friggjarbrunni 53 er, eins og málið liggur fyrir, ekki ástæða til að fallast á áfrýjunarleyfisbeiðni þess aðila. Enn fremur verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur í skilningi 4. málsliðar 1. mgr. sömu greinar. Beiðnum um áfrýjunarleyfi vegna dóms Landsréttar er því hafnað.