Hæstiréttur íslands
Mál nr. 16/2002
Lykilorð
- Skuldabréf
- Veðréttur
- Nauðungarsala
- Gjaldþrotaskipti
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 6. júní 2002. |
|
Nr. 16/2002. |
Ástþór Rafn Pálsson Guðmundur Pálsson Páll Pálsson og Karl Pálsson (Jón Hjaltason hrl.) gegn Ferðamálasjóði (Jónatan Sveinsson hrl.) |
Skuldabréf. Veðréttur. Nauðungarsala. Gjaldþrotaskipti. Skaðabætur.
Bræðurnir Á, G, P og K keyptu þrjár fasteignir af F og gáfu um leið út skuldabréf, tryggð með 1. veðrétti í viðkomandi eignum. Bréf þessi voru auðkennd hjá F sem nr. 847 og 848. Á varð síðar einn eigandi að húseignum þessum og gaf þá út skuldabréf, nr. 970 og 971, tryggð með 5. veðrétti í einni eigninni. F höfðaði síðar mál á hendur öllum bræðrunum á grundvelli bréfa nr. 847 og 848 fékk þar viðurkenndar kröfur á hendur þeim. Í framhaldi voru fyrrnefndar fasteignir seldar nauðungarsölu. Bú Á, P og K voru í kjölfarið tekin til gjaldþrotaskipta að kröfu F, sem lýsti m.a. kröfu í bú Á á grundvelli skuldabréfanna fjögurra, án þess að gert væri ráð fyrir lækkun hennar vegna þess sem F hafði fengið í sinn hlut við nauðungarsölurnar. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að kröfuhafa er ekki skylt samkvæmt síðari málslið 1. mgr. og 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 að færa niður skuldir án gefins tilefnis frá skuldara. Ekki voru heldur fyrir hendi skilyrði samkvæmt nefndri 57. gr. til að færa niður kröfur F samkvæmt skuldabréfum nr. 970 og 971, þar sem F hafði ekki keypt þá fasteign sem veð samkvæmt þeim bréfum var í, þegar hún var seld nauðungarsölu. Með hliðsjón af framlagðri yfirmatsgerð þótti fullnægt skilyrðum 57. gr. til að lækka kröfur F um þá fjárhæð sem nam mismuninum á því verði sem hann keypti eignirnar á og markaðsvirði þeirra á þeim tíma. Með því að F átti réttmæta kröfu á hendur Á, P og K voru allt að einu skilyrði til gjaldþrotaskipta og var því hafnað kröfum þeirra um bætur úr hendi F á grundvelli 3. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2002. Þeir krefjast þess að staðfest verði með dómi að stefnda hafi borið eftir samþykki boðs við nauðungarsölu 5. maí 1998 að fella niður kröfur sínar að fjárhæð samtals 30.307.093 krónur samkvæmt veðskuldabréfum, auðkennd af honum nr. 847 og 848, sem síðar var lýst í þrotabú áfrýjenda Karls Pálssonar og Páls Pálssonar, og kröfu að fjárhæð 44.075.916 krónur, sem síðar var lýst í þrotabú áfrýjandans Ástþórs Rafns Pálssonar, og verði eftirstöðvar skuldabréfanna felldar niður með dómi. Einnig er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjandanum Ástþóri 5.692.093 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. maí 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi greiði áfrýjendunum Ástþóri, Páli og Karli hverjum um sig 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum eins og að framan greinir. Loks krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að sér verði aðeins gert að lækka samanlagðar eftirstöðvar fyrrnefndra skuldabréfa, sem séu 30.355.241 króna, um 18.600.000 krónur og að því frágengnu um 26.100.000 krónur, en málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði þá felldur niður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerðu áfrýjendur samning 15. júní 1990 við stefnda um kaup á fasteignum að Heiðarvegi 3 og Herjólfsgötu 4 í Vestmannaeyjum ásamt 1. hæð hússins að Heiðarvegi 1. Fyrir þessi kaup munu áfrýjendur hafa átt 2., 3. og 4. hæð síðastnefnda hússins. Umsamið kaupverð var 50.000.000 krónur. Af því skyldu áfrýjendur greiða 10.000.000 krónur með peningum á tólf mánaða tímabili, 20.000.000 krónur með verðtryggðu skuldabréfi, sem bera átti 4,75% ársvexti, og jafngildi 20.000.000 króna í bandaríkjadölum með skuldabréfi, sem bæri millibankavexti í þeim gjaldmiðli með 2% álagi. Þessu til samræmis voru tvö skuldabréf gefin út af áfrýjendum til stefnda 20. maí 1991. Þau voru tryggð með 1. veðrétti í fasteignunum, sem kaupin voru gerð um. Átti að greiða fjárhæð þeirra með 38 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn á tilteknum gjalddögum á árinu 1992, en vexti skyldi þó greiða frá sömu gjalddögum á árinu 1991 og upp frá því samhliða afborgunum af höfuðstól. Annað skuldabréfið bar þá fjárhæð í íslenskum krónum, sem áður er getið, en hitt var fyrir 332.336,32 bandaríkjadölum. Í bókum stefnda fengu þessi skuldabréf númerin 847 og 848. Áfrýjendur fengu afsal frá stefnda fyrir fasteignunum 10. júní 1991.
Áfrýjendur munu saman hafa rekið í fyrrnefndum húseignum veitinga- og gistihús undir nafninu Hótel Bræðraborg þar til áfrýjandinn Ástþór fékk afsöl í mars og júlí 1995 frá öðrum áfrýjendum og varð með því einn eigandi að húseignunum. Mun hann þá einnig hafa tekið við rekstrinum, sem þar fór fram. Í framhaldi af því gaf áfrýjandinn Ástþór út tvö skuldabréf til stefnda 10. október 1995, annað að fjárhæð 4.250.000 krónur og hitt fyrir 67.814,54 bandaríkjadölum, og voru þau tryggð með 5. veðrétti í 2., 3. og 4. hæð hússins að Heiðarvegi 1. Virðist vera óumdeilt í málinu að þessi skuldabréf, sem fengu númerin 970 og 971 í bókum stefnda, hafi verið gefin út til uppgjörs á vanskilum við hann á eldri skuldabréfunum tveimur.
Með stefnu 15. september 1997 höfðaði stefndi mál gegn áfrýjendum og krafðist þess að þeim yrði í sameiningu gert að greiða sér 17.673.995 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 20. júní 1997 og málskostnaði. Var hér um að ræða skuld samkvæmt áðurnefndu skuldabréfi nr. 848, sem var upphaflega að fjárhæð 20.000.000 krónur. Í stefnunni kvað stefndi skuldabréfið hafa verið í vanskilum allt frá gjalddaga 20. desember 1993 og skuldin þannig öll gjaldfallin. Væri stefnufjárhæðin eftirstöðvar skuldabréfsins síðastnefndan dag, 14.210.526 krónur, með verðbótum frá þeim tíma til 20. júní 1997. Stefnan var árituð 19. febrúar 1998 í Héraðsdómi Reykjavíkur um aðfararhæfi dómkröfunnar ásamt málskostnaði að fjárhæð 467.000 krónur. Þá höfðaði stefndi annað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur áfrýjendum með stefnu 10. nóvember 1997, þar sem hann krafðist þess að þeir yrðu dæmdir í sameiningu til að greiða 20.670.426 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 27. nóvember 1993 og málskostnaði, svo og að staðfestur yrði veðréttur fyrir þessari skuld í fasteignunum Heiðarvegi 3 og Herjólfsgötu 4 og 33,75% í fasteigninni Heiðarvegi 1. Krafan í þessu máli var studd við fyrrnefnt skuldabréf nr. 847, sem var eins og áður greinir upphaflega að fjárhæð 332.336,32 bandaríkjadalir. Í stefnunni sagði stefndi þetta skuldabréf hafa verið í vanskilum frá 20. september 1993, en eftirstöðvar þess þann dag, 298.791,93 bandaríkjadalir, væru fyrir þær sakir gjaldfallnar og næmi stefnufjárhæðin jafngildi þeirra samkvæmt sölugengi bandaríkjadals á því tímamarki. Áfrýjendur tóku ekki til varna í málinu og gekk dómur í því 9. janúar 1998, þar sem krafa stefnda var tekin til greina og þeim að auki gert að greiða honum 380.000 krónur í málskostnað.
Á þeim tíma, sem framangreind dómsmál voru rekin, ritaði stefndi bréf 28. nóvember 1997 til áfrýjandans Ástþórs, þar sem sagði meðal annars: „1. Ástæða þess að hverjum einstökum skuldara er stefnt til greiðslu lána nr. 847 og 8 er að með lagabreytingu 1992 er ekki bein heimild til nauðungarsölu í skuldabréfum sjóðsins. Því þarf að taka sérstakan dóm fyrir kröfunni. Í þeirri gerð staðfestist jafnframt að skuldarar eru fjórir. 2. Sjóðurinn mun ekki ganga að eignum hvers skuldara fyrir sig fyrr en fullreynt er hvað veðið sjálft skilar. 3. Bæjarstjóri Vestmannaeyja og forstöðumaður Atvinnuþróunarsjóðs bæjarins hafa komið að máli við Ferðamálasjóð og talið sig geta komið á frjálsri sölu á Hótel Bræðraborg. Ég tel heppilegast að það gerist með beinum samningum við núverandi eigendur, sem í framhaldi semji við Ferðamálasjóð um þær kröfur sem út af kynnu að standa. ... 4. Ég tel æskilegt að ljúka þessum kaupum fyrir áramót. ... 5. Uppboðsaðgerðum á Hótel Bræðraborg verður haldið áfram, en af hófsemi í ljósi hugsanlegrar frjálsrar sölu.“
Stefndi fékk gert fjárnám 19. febrúar 1998 á grundvelli dómsins frá 9. janúar sama árs í fasteignunum, sem hann naut veðréttar í fyrir kröfu sinni. Í framhaldi af því krafðist hann 23. febrúar 1998 nauðungarsölu með stoð í fjárnáminu. Af gögnum málsins er ljóst að nauðungarsala á þessum eignum hljóti áður að hafa verið byrjuð, enda voru fasteignirnar Heiðarvegur 3 og Herjólfsgata 4 ásamt 1. hæð hússins að Heiðarvegi 1 seld nauðungarsölu við uppboð sýslumannsins í Vestmannaeyjum 11. mars 1998. Við sölu fyrstnefndu eignarinnar var hún greind í þrjá hluta, neðri hæð, efri hæð netagerðarhúss og íbúð á efri hæð. Þá voru 2., 3. og 4. hæð hússins að Heiðarvegi 1 seld nauðungarsölu á uppboði 1. apríl 1998. Á þessum uppboðum keypti faðir áfrýjenda, Páll Helgason, neðri hæð og efri hæð netagerðarhúss í fasteigninni Heiðarvegi 3 fyrir samtals 6.600.000 krónur, en stefndi keypti íbúðina á efri hæð hússins fyrir 500.000 krónur. Þá keypti stefndi fasteignina Herjólfsgötu 4 fyrir 15.500.000 krónur og 1. hæð hússins að Heiðarvegi 1 fyrir 7.500.000 krónur. Við uppboðið á 2., 3. og 4. hæð í sama húsi gerðist Íslandsbanki hf. kaupandi fyrir 5.000.000 krónur. Í málinu liggur fyrir kröfulýsing stefnda 10. mars 1998 í söluverð fasteignarinnar að Herjólfsgötu 4, en ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að stefndi hafi lagt fram samhljóða kröfulýsingar vegna annarra áðurnefndra eigna, sem boðnar voru upp 11. þess mánaðar. Í umræddri kröfulýsingu sagði að hún væri gerð með stoð í skuldabréfum stefnda nr. 847 og 848. Var í einu lagi gerð krafa um greiðslu á samtals 54.026.252 krónum, þar af vegna höfuðstóls 52.259.258 krónur og 215.569 krónur vegna vaxta til 11. mars 1998. Þá verður ráðið af gögnum málsins að stefndi hafi lýst kröfu að fjárhæð samtals 6.607.066 krónur í söluverð 2., 3. og 4. hæðar hússins að Heiðarvegi 1, en ætla verður að sú krafa hafi verið reist á fyrrnefndum skuldabréfum hans nr. 970 og 971 frá 10. október 1995.
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum gerði frumvörp til úthlutunar á söluverði allra framangreindra fasteigna 5. maí 1998. Af söluverði eignarhlutanna tveggja í Heiðarvegi 3, sem Páll Helgason gerðist kaupandi að, átti stefndi að fá greiddar samtals 5.201.003 krónur. Af söluverði Herjólfsgötu 4, 1. hæðar að Heiðarvegi 1 og íbúðar að Heiðarvegi 3, sem stefndi keypti sjálfur eins og áður greinir, átti hann að fá í sinn hlut samtals 18.517.342 krónur, en söluverðið að öðru leyti, 4.982.658 krónur, átti að ganga til greiðslu sölulauna og krafna lögveðhafa. Liggur fyrir í málinu að stefndi greiddi sýslumanni eingöngu síðastnefnda fjárhæð vegna þessara kaupa sinna, en jafnaði söluverðið að öðru leyti út á móti lýstum veðkröfum sínum. Af söluverði 2., 3. og 4. hæðar hússins að Heiðarvegi 1 átti ekkert að koma í hlut stefnda. Sýslumaður gaf út afsöl fyrir þessum fasteignum 26. maí og 22. júní 1998. Af þeim verður séð að úthlutun til stefnda varð endanlega á sama veg og ráðgert var í þeim frumvörpum, sem hér var lýst. Samkvæmt þessu fékk stefndi greiddar alls 23.718.345 krónur af söluverði fasteignanna upp í kröfur sínar samkvæmt skuldabréfum nr. 847 og 848. Stóðu því eftir sem ófullnægðar eftirstöðvar skuldabréfanna 30.307.907 krónur þegar tekið er mið af heildarfjárhæðinni, sem stefndi krafðist á grundvelli þeirra með áðurnefndri kröfulýsingu 10. mars 1998. Á hinn bóginn fékk stefndi ekkert greitt upp í kröfu sína að fjárhæð 6.607.066 krónur samkvæmt skuldabréfum nr. 970 og 971, sem eins og fyrr segir voru gefin út til hans 10. október 1995 af áfrýjandanum Ástþóri.
Áður en framangreind úthlutun á söluverði fasteignanna var ráðin leitaði stefndi til sýslumannsins í Reykjavík um að fá gert fjárnám hjá áfrýjendunum Páli og Karli á grundvelli fyrrnefndrar stefnu í máli hans gegn áfrýjendunum öllum, sem árituð var um aðfararhæfi 19. febrúar 1998. Sýslumaður gerði fjárnám hjá hvorum þessara áfrýjenda um sig 7. apríl 1998 fyrir kröfu stefnda, sem tiltekin var með óskertum höfuðstól, áðurnefndum 17.673.995 krónum, en að viðbættum vöxtum og kostnaði nam hún alls 20.109.234 krónum. Þessum fjárnámum var lokið án árangurs. Þá liggur fyrir að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum gerði 1. apríl 1998 hjá áfrýjandanum Ástþóri árangurslaust fjárnám, en þar átti í hlut annar lánardrottinn hans en stefndi. Á grundvelli þessara þriggja árangurslausra fjárnámsgerða krafðist stefndi 24. apríl og 7. maí 1998 gjaldþrotaskipta á búum áfrýjendanna Ástþórs, Páls og Karls. Krafa stefnda varðandi þann fyrstnefnda var tekin til greina með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 15. júní 1998, en að því er varðar þá tvo síðastnefndu var fallist á kröfur stefnda með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 30. sama mánaðar. Í framhaldi af þessu lýsti stefndi kröfu að fjárhæð 68.575.676 krónur í þrotabú áfrýjandans Ástþórs, kröfu í þrotabú áfrýjandans Páls að fjárhæð 33.688.749 krónur og kröfu sömu fjárhæðar í þrotabú áfrýjandans Karls. Krafan á hendur fyrstnefnda áfrýjandanum var reist á skuldabréfum stefnda nr. 847, 848, 970 og 971 án þess að gert væri ráð fyrir lækkun hennar vegna þess, sem stefndi fékk í sinn hlut við áðurgreindar nauðungarsölur. Kröfulýsingar stefnda í þrotabú áfrýjendanna Páls og Karls liggja ekki fyrir í málinu, en af fjárhæðum þeirra að dæma má ætla að þær hafi verið studdar við skuldabréf stefnda nr. 847 og 848. Ágreiningur reis um viðurkenningu á öllum þessum kröfum stefnda, sem ekki er ástæða til að rekja hér nánar. Skiptum á þrotabúi áfrýjandans Karls var lokið 2. maí 2000 og fékk stefndi þar úthlutað 762.878 krónum upp í kröfu sína. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að gjaldþrotaskiptum hafi enn verið lokið á búum áfrýjendanna Ástþórs og Páls.
Stefndi gerði samning 6. maí 1998 við áðurnefndan Pál Helgason um að hann tæki á leigu frá 1. sama mánaðar til loka febrúar 1999 þær fasteignir, sem stefndi eignaðist við áðurgreindar nauðungarsölur. Í samningnum var kveðið á um forkaupsrétt Páls að þessum fasteignum á leigutímanum, svo og kauprétt hans að þeim. Ef hann hygðist neyta kaupréttar skyldi verð íbúðarinnar að Heiðarvegi 3 verða 1.600.000 krónur, fasteignarinnar Herjólfsgötu 4 32.000.000 krónur og 1. hæðar hússins að Heiðarvegi 1 8.500.000 krónur, allt miðað við útborgun fimmtungs kaupverðsins og greiðslu eftirstöðva með verðtryggðu skuldabréfi til 20 ára með 5% ársvöxtum. Í málinu liggur fyrir að Páll keypti 17. september 1998 íbúðina að Heiðarvegi 3 fyrir það verð, sem að framan greinir, en að öðru leyti varð hvorki af kaupum hans né varð framhald á leigumála hans við stefnda. Í framlögðu minnisblaði forsvarsmanns stefnda frá 20. maí 2000 kemur fram að stefndi hafi á árinu 1998 falið tveimur nafngreindum fasteignasölum að leita tilboða í aðrar umræddar eignir sínar og þær verið boðnar til sölu fyrir samtals 50.000.000 krónur. Tilboð þeirrar fjárhæðar hafi borist í september 1998 en verið hafnað, þar sem engin útborgun var boðin og tilboðsgjafi þótti ekki áreiðanlegur. Eignirnar hafi staðið ónotaðar frá lokum leigutíma Páls í febrúar 1999, en verið leigðar út frá 10. maí á því ári til 20. mars 2000. Á því tímabili hafi komið fram tilboð að fjárhæð 45.000.000 krónur, en stefndi talið þann tilboðsgjafa ótraustan og því hafnað boðinu. Loks fór svo að stefndi seldi Hótel Þórshamri ehf. með samningi 10. maí 2000 Herjólfsgötu 4 og 1. hæð hússins að Heiðarvegi 1 fyrir samtals 22.000.000 krónur.
Áfrýjendur höfðuðu mál 26. október 1998 á hendur stefnda, þar sem krafist var að hann yrði dæmdur til að fella niður eftirstöðvar skulda samkvæmt skuldabréfum sínum nr. 847 og 848, að felldar yrðu niður fyrrnefndar lýstar kröfur hans í þrotabú áfrýjendanna Ástþórs, Páls og Karls og að honum yrði gert að greiða hverjum þeirra þriggja 2.000.000 krónur í skaðabætur. Með dómi Hæstaréttar 9. desember 1999, sem er birtur í dómasafni þess árs á bls. 4688, var því máli vísað frá héraðsdómi. Aftur höfðuðu áfrýjendur mál gegn stefnda 27. janúar 2000. Í það sinn var þess krafist að stefnda yrði gert að greiða áfrýjandanum Ástþóri 24.209.435 krónur, en jafnframt sama áfrýjanda og áfrýjendunum Páli og Karli hverjum 2.000.000 krónur í skaðabætur. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2000 var því máli vísað frá dómi og staðfesti Hæstaréttur þann úrskurð með dómi 15. júní sama árs. Í framhaldi af því höfðuðu áfrýjendur þetta mál 3. júlí 2000 og var það þingfest 5. september sama árs. Í öllum þessum tilvikum öfluðu áfrýjendurnir Ástþór, Páll og Karl samþykkis skiptastjóra í þrotabúum sínum fyrir málshöfðun.
Þegar fyrsta mál áfrýjenda gegn stefnda var rekið fyrir Hæstarétti leituðu þeir matsgerðar dómkvaddra manna um hvert hafi verið markaðsverð fasteignanna, sem stefndi keypti nauðungarsölu og áður er getið, þegar boð hans í þær var samþykkt 5. maí 1998, miðað við þau greiðslukjör, sem eignirnar voru seldar gegn. Í matsgerð 6. október 1999 komust matsmennirnir, sem báðir eru löggiltir fasteignasalar, að þeirri niðurstöðu að umrætt markaðsverð hafi verið samtals 59.500.000 krónur. Undir rekstri þessa máls leitaði stefndi yfirmats um sama efni. Í matsgerð þriggja yfirmatsmanna 12. júlí 2001, en tveir þeirra eru löggiltir fasteignasalar og sá þriðji tæknifræðingur, var markaðsverðið talið nema alls 49.600.000 krónum.
II.
Samkvæmt fyrsta hluta kröfu áfrýjenda fyrir Hæstarétti leita þeir dóms um að stefnda „hafi borið að fella niður kröfur sínar, kr. 30.307.907,oo samkvæmt skuldabréfum nr. 847 og 848, er síðar voru gerðar í þrotabú áfrýjenda Karls og Páls, kr. 33.685.699,oo á hvorn þeirra og í þrotabú Ástþórs Rafns, kr. 44.075.916,oo eftir nauðungaruppboð 11.03.1998, hinn 5. maí 1998 og verði eftirstöðvar skuldabréfanna felldar niður með dómi Hæstaréttar.“ Af síðari málslið 1. mgr. og 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er ljóst að sá, sem er krafinn eða kann að verða krafinn um eftirstöðvar skuldar, sem ekki hefur fengist fullnægt við nauðungarsölu, verður að eiga frumkvæði að því að fá þær færðar niður á þann hátt, sem um ræðir í fyrrnefnda ákvæðinu. Kröfuhafa er á hinn bóginn ekki skylt samkvæmt ákvæðinu að gera slíkt án gefins tilefnis frá skuldara. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði til að fallast á kröfu áfrýjenda að því leyti, sem þeir leita viðurkenningar á því að stefnda hafi strax borið 5. maí 1998 að fella niður eftirstöðvar kröfu á hendur þeim samkvæmt umræddum skuldabréfum. Þá er ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þann þátt í framangreindri kröfugerð áfrýjenda, sem lýtur að fjárhæð krafna, sem þeir kveða stefnda hafa lýst við gjaldþrotaskipti á búum þriggja þeirra, enda verður að skilja orðalag dómkröfunnar svo að með þessu séu áfrýjendur aðeins að auðkenna frekar á hvaða kröfum stefnda þeir leiti niðurfærslu.
Skuldabréf stefnda nr. 970 og 971 voru eins og áður greinir gefin út af áfrýjandanum Ástþóri og tryggð með veði í 2., 3. og 4. hæð hússins að Heiðarvegi 1. Stefndi keypti ekki þá eign þegar hún var seld nauðungarsölu við uppboð 1. apríl 1998, heldur Íslandsbanki hf. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/1991 til að færa niður kröfur stefnda samkvæmt skuldabréfum þessum, en ætla verður að framangreind dómkrafa að því er sérstaklega varðar áfrýjandann Ástþór miði meðal annars að því að fá skuld hans samkvæmt þessum skuldabréfum færða niður.
Áfrýjendum, sem gáfu allir út skuldabréf stefnda nr. 847 og 848, var sem fyrr segir gert með dómsúrlausnum í janúar og febrúar 1998 að greiða stefnda skuld samkvæmt þeim. Er með öllu ósannað að stefndi hafi í tengslum við eigendaskipti að fasteignunum Herjólfsgötu 4, Heiðarveg 1 og Heiðarveg 3 á árinu 1995 leyst áfrýjendurna Guðmund, Pál og Karl undan skuldbindingum þeirra samkvæmt skuldabréfunum, svo sem þeir halda nú fram, eða að stefndi hafi á síðari stigum látið slíka afstöðu í ljós í orði eða verki. Samkvæmt því hvíla skuldbindingar samkvæmt þessum skuldabréfum enn óskipt á áfrýjendum.
Eins og áður er rakið gerðist stefndi kaupandi við nauðungarsölu á fasteigninni Herjólfsgötu 4, 1. hæð hússins að Heiðarvegi 1 og íbúð á efri hæð hússins að Heiðarvegi 3. Af söluverði þessara eigna fékk stefndi að hluta fullnægt veðkröfum samkvæmt skuldabréfum sínum nr. 847 og 848, sem áfrýjendur báru sameiginlega ábyrgð á. Stefndi hefur með aðgerðum, sem hann greip til eftir nauðungarsölu, krafið áfrýjendurna Ástþór, Pál og Karl um ófullnægðar eftirstöðvar þessara krafna. Ekki liggur fyrir í málinu hvort stefndi hafi eftir nauðungarsölu beint að áfrýjandanum Guðmundi kröfum á þessum grunni, en ljóst er að það gæti þó stefndi gert. Er því fullnægt skilyrðum 57. gr. laga nr. 90/1991 til þess að áfrýjendur leiti allir dóms um skyldu stefnda til að færa niður þann hluta krafna sinna samkvæmt skuldabréfum nr. 847 og 848, sem ekki fékkst fullnægt við nauðungarsölu framangreindra eigna, en skilja verður niðurlagið í áðurgreindri tilvitnun í orðalag dómkröfu áfrýjenda svo að eftir slíku leiti þeir.
Stefndi keypti sem áður segir við nauðungarsölu fasteignina Herjólfsgötu 4 fyrir 15.500.000 krónur, 1. hæð hússins að Heiðarvegi 1 á 7.500.000 krónur og íbúð á efri hæð hússins að Heiðarvegi 3 á 500.000 krónur. Samanlagt var kaupverðið því 23.500.000 krónur. Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 er unnt að færa niður ófullnægðar eftirstöðvar veðkröfu í eign, sem veðhafinn gerist kaupandi að, um mismuninn á því verði, sem hann keypti, og „því sem þykir sýnt að hafi verið markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs miðað við þau greiðslukjör sem eignin var seld gegn.“ Ákvæði þetta á við án nokkurs tillits til þess hvort veðhafi hafi selt eignina. Þó hann hafi gert það miðar orðalag ákvæðisins heldur ekki við það verð, sem hann fékk fyrir eignina, heldur markaðsverð hennar þegar hann keypti. Verðið, sem veðhafi fær við endursölu eignar, kann allt að einu að geta gefið vísbendingu um markaðsverð hennar við samþykki boðs hans. Í sambandi við þetta verður við úrlausn þessa máls að líta til þess að stefndi seldi í september 1998 verðminnstu eignina, sem hann eignaðist við nauðungarsölurnar, en að öðru leyti voru eignirnar fyrst seldar í maí 2000. Verður samanlagt verð, sem hann fékk fyrir eignirnar, því ekki haft til marks um hvert markaðsverð þeirra hafi verið í maí 1998. Áfrýjendur öfluðu sem áður segir matsgerðar dómkvaddra manna um hvert þetta markaðsverð hafi verið. Töldu matsmenn það 59.500.000 krónur. Þessu mati hefur undir rekstri málsins verið hnekkt með yfirmati, sem stefndi aflaði, en samkvæmt því var markaðsverðið, eins og það er skilgreint með framangreindum orðum 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991, 49.600.000 krónur. Þar sem annarra gagna nýtur ekki við í málinu, sem leitt geta til annarrar niðurstöðu, verður að leggja til grundvallar að markaðsverð eignanna, sem stefndi keypti, hafi við samþykki boða hans verið 26.100.000 krónum hærra en þeim boðum nam.
Við nauðungarsölu á fasteignunum Herjólfsgötu 4, Heiðarvegi 3 og 1. hæð hússins að Heiðarvegi 1 krafðist stefndi sem fyrr segir að fá greiddar samtals 54.026.252 krónur af söluverði. Þótt stefndi telji nú kröfu sína hafa með réttu verið hærri en þessu nemur og áfrýjendur hana hafa verið lægri hefur ekkert komið fram í málinu, sem hnekkt getur að þessi fjárhæð verði lögð til grundvallar. Upp í þær kröfur fékk stefndi eins og áður greinir greiddar samtals 23.718.345 krónur af söluverði umræddra fasteigna og teljast eftirstöðvar þeirra því hafa numið 30.307.907 krónum við samþykki boða hans, sem eftir málatilbúnaði aðilanna verður að teljast hafa gerst 5. maí 1998. Samkvæmt öllu framangreindu er fullnægt skilyrðum 57. gr. laga nr. 90/1991 til að lækka síðastnefnda fjárhæð um mismuninn á því verði, sem stefndi keypti hluta þessara fasteigna fyrir, og markaðsverði þeirra á nefndum degi, eða 26.100.000 krónur. Verða eftirstöðvar krafna stefnda samkvæmt skuldabréfum hans nr. 847 og 848, eins og þær voru 5. maí 1998, því færðar niður um þá fjárhæð í samtals 4.207.907 krónur.
III.
Í öðrum hluta dómkröfu áfrýjenda fyrir Hæstarétti er þess krafist að stefnda verði gert að greiða áfrýjandanum Ástþóri 5.692.093 krónur. Eins og reifun þessarar kröfu hefur verið háttað verður að líta svo á að með henni leiti nefndur áfrýjandi sem gerðarþoli við nauðungarsölu á fyrrnefndum eignum, sem stefndi festi þar kaup á, eftir greiðslu á því, sem hann telur stefnda hafa hagnast um með kaupum sínum umfram fjárhæð krafna sinna á hendur áfrýjendum. Hér að framan hefur verið leyst úr því að skort hafi 4.207.907 krónur á að stefndi teldist fá kröfur samkvæmt skuldabréfum sínum nr. 847 og 848 greiddar að fullu við nauðungarsölu og kaupum þar á eignum. Þegar af þeirri ástæðu getur þessi krafa áfrýjandans Ástþórs, sem að auki er engin lagastoð fyrir, ekki komið frekar til álita.
IV.
Áfrýjendurnir Ástþór, Páll og Karl hafa sem áður greinir loks krafist þess að stefnda verði gert að greiða hverjum þeirra 2.000.000 krónur í bætur. Þessar kröfur reisa þeir á ákvæði 3. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með því að stefndi hafi enga réttmæta kröfu átt á hendur þeim þegar hann krafðist gjaldþrotaskipta á búum þeirra í apríl og maí 1998.
Þegar stefndi leitaði gjaldþrotaskipta á búum þessara þriggja áfrýjenda höfðu þeir ekkert aðhafst um að leita niðurfærslu á kröfum hans með stoð í 57. gr. laga nr. 90/1991 og hreyfðu þeir heldur engum andmælum gegn skiptakröfu hans á þeim grunni. Samkvæmt áðursögðu er nú leyst úr því að kröfur stefnda samkvæmt skuldabréfum hans nr. 847 og 848 séu færðar niður í samtals 4.207.907 krónur miðað við stöðu þeirra í maí 1998. Hvað sem öðru líður átti stefndi réttmæta kröfu þessarar fjárhæðar á hendur hverjum þeirra þriggja áfrýjenda, sem áður er getið, þegar hann krafðist gjaldþrotaskipta, auk kröfu samkvæmt skuldabréfum nr. 970 og 971 á hendur áfrýjandanum Ástþóri. Þótt stefndi hafi leitað fullnustu á verulega hærri kröfum en hér um ræðir þegar hann krafðist gjaldþrotaskiptanna fær það því ekki breytt að allt að einu voru skilyrði til skiptanna. Samkvæmt því verða umræddum áfrýjendum ekki dæmdar bætur úr hendi stefnda á grundvelli 3. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991.
V.
Eftir þeim lyktum, sem mál þetta fær, og að teknu tilliti til allra atvika þess verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einni fjárhæð handa hverjum þeirra eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Eftirstöðvar skuldabréfa að fjárhæð 20.000.000 krónur og 332.336,32 bandaríkjadalir, sem áfrýjendur, Ástþór Rafn Pálsson, Guðmundur Pálsson, Páll Pálsson og Karl Pálsson, gáfu út 20. maí 1991 til stefnda, Ferðamálasjóðs, eru færðar niður í samtals 4.207.907 krónur miðað við stöðu skuldabréfanna 5. maí 1998.
Stefndi greiði hverjum áfrýjanda fyrir sig samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2001.
I
Málið er höfðað 3. júlí 2000 og tekið til dóms 28. nóvember sl.
Stefnendur eru Ástþór Rafn Pálsson, Vesturtúni 26, Álftanesi, Guðmundur Pálsson, Hólagötu 33, Vestmannaeyjum, Páll Pálsson, Kleppsvegi 44, Reykjavík og Karl Pálsson, Austurströnd 6, Seltjarnarnesi.
Stefndi er Ferðamálasjóður, Hverfisgötu 6, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda eru að staðfest verði með dómi að stefnda hafi borið 5. maí 1998 að fella niður kröfur sínar að fjárhæð 30.307.907 krónur samkvæmt skuldabréfum nr. 847 og 848, er síðar voru gerðar í þrotabú stefnenda, Karls og Páls, 33.685.699 krónur á hvorn þeirra og í þrotabú stefnandans, Ástþórs Rafns, 44.075.916 krónur, eftir nauðungaruppboð 11. mars 1998.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnandanum, Ástþóri Rafni, 5.692.093 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. maí 1998 til greiðsludags.
Að stefndi greiði stefnendunum, Ástþóri Rafni, Páli og Karli, hverjum um sig 2.000.000 króna í skaðabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 5. maí 1998 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar. Til vara að einungis verði fallist á að lækka eftirstöðvar skuldabréfa stefnda nr. 847 og 848 um 18.600.000 krónur frá samanlögðum eftirstöðvum skuldabréfanna, samtals að fjárhæð 30.355.241 króna, svo sem þær voru endanlega samþykktar af skiptastjóra þrotabús eins stefnanda, Páls Pálssonar, 16. júní 2000. Til þrautavara að einungis verði fallist á að lækka eftirstöðvar skuldabréfa stefnda nr. 847 og 848 um 26.100.000 krónur frá samanlögðum eftirstöðvum skuldabréfanna, samtals að fjárhæð 30.355.241 króna svo sem þær voru endanlega samþykktar af skiptastjóra þrotabús eins stefnenda, Páls Pálssonar, 16. júní 2000. Verði fallist á varakröfu eða þrautavarakröfu þá er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.
II
Stefnendur skýra svo frá að þeir hafi keypt saman af stefnda á árinu 1991 þessar fasteignir í Vestmannaeyjum: Herjólfsgötu 4, Heiðarveg 3, neðri hæð, Heiðarveg 3, netagerð á efri hæð, Heiðarveg 3, íbúð á efri hæð, og 1. hæð Heiðarvegar 1 en áður hafi þeir átt 2., 3. og 4. hæð hússins en sú fasteign sé nefnd Heimir. Hafi þeir rekið þessar fasteignir saman undir nafninu Hótel Bræðraborg. Stefnandinn, Guðmundur, hafi afsalað hluta sínum til stefnendanna, Páls, Karls og Ástþórs Rafns, 14. mars 1995, en stefnendurnir, Páll og Karl, afsalað sínum hlutum til stefnandans, Ástþórs Rafns, 27. júlí 1995. Stefnendur hafi keypt eignirnar 1991 fyrir 50.000.000 króna. Útborgun hafði verið 10.000.000 krónur en fyrir eftirstöðvunum hafi stefnendur gefið út tvö veðskuldabréf 20. maí 1991, tryggð með l. veðrétti í eignunum, öðrum en Heimi, annað að fjárhæð 20.000.000 króna en hitt 332.336,32 Bandaríkjadalir.
Áður en salan hafi farið fram til stefnandans, Ástþórs Rafns, hafi stefnendurnir þrír leitað eftir samþykki stefnda, sem 1. veðréttarhafa annarra eigna en Heimis, um að hann leysti þá undan ábyrgð á bréfunum. Á það hafi stefndi ekki fallist nema að þeir settu hver um sig húseignir sínar að veði fyrir fjórum milljónum króna til enn frekari tryggingar fyrir stefnda. Á þetta hafi þeir ekki fallist en engu að síður hafi verið gengið frá sölunni og afsölunum þinglýst.
Í framhaldi af yfirtöku stefnandans, Ástþórs Rafns, á árinu 1995 hafi hann einn gefið út tvö veðskuldabréf 10. október 1995, fyrir öllum vanskilum við stefnda sem þá hafi verið að fjárhæð 4.250.000 krónur og 67.815,54 Bandaríkjadalir. Bréfunum hafi verið þinglýst með 5. veðrétti samhliða á 2., 3. og 4. hæð hússins nr. 1 við Heiðarveg. Stefnendur kveða öll lánin eftir þetta hafa verið talin skuldir stefnandans, Ástþórs Rafns, í bókhaldi stefnda. Hafi stefnendur litið svo á, að með þessu hafi stefndi í raun samþykkt afsöl stefnendanna, Guðmundar, Karls og Páls til stefnandans, Ástþórs Rafns.
Stefnandanum, Ástþóri Rafni, hafi ekki tekist að greiða afborganir af lánunum, svo að eignirnar hafi verið seldar á nauðungaruppboði að kröfu stefnda 11. mars og 1. apríl 1998. Á uppboðunum hafi stefndi lýst skuldum, samtals 54.026.252 krónum, tryggðum með 1. veðrétti í öðrum eignum en Heimi, en skuldum tryggðum með veði í Heimi samtals 6.607.066 krónum.
Stefnendur kveða stefnandann, Ástþór Rafn, hafa ætlað að selja eignirnar frjálsri sölu eftir áramótin 1997/1998 en ekki gefist ráðrúm til frjálsra sölutilrauna.
Á nauðungaruppboðinu 11. mars 1998 hafi Páll Helgason keypt Heiðarveg 3, neðri hæð og Heiðarveg 3, efri hæð en stefndi Herjólfsgötu 4, Heiðarveg 1, 1. hæð og Heiðarveg 3, íbúð. Íslandsbanki hf. hafi síðan keypti 2., 3. og 4. hæð Heiðarvegar 1 á uppboðinu 1. apríl 1998. Boð framangreindra í eignirnar hafi öll verið samþykkt 5. maí 1998, gerð upp í framhaldinu og afsölum þinglýst samkvæmt því.
Stefnendur fengu dómkvadda matsmenn til að skoða og meta til peningaverðs fasteignirnar Herjólfsgötu 4, Heiðarveg 1, 1. hæð, þ.e. 33,75% af allri eigninni og Heiðarveg 3, íbúð, þ.e. 22,5% allrar eignarinnar, ásamt tilheyrandi leigulóðarréttindum og fylgifé, sem eignunum fylgdi og fylgja bar á nauðungaruppboði 11. mars 1998. Miða átti við markaðsverð eignanna samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu 5. maí 1998 en þann dag voru boð í eignirnar samþykkt og miða við þau greiðslukjör, sem þær voru seldar á.
Samkvæmt framangreindum forsendum mátu matsmennirnir Herjólfsgötu 4 á 42.000.000 króna, Heiðarveg 1 á 13.300.000 krónur og Heiðarveg 3 á 4.200.000 krónur. Eða samtals 59.500.000 krónur.
Frá framangreindri fjárhæð draga stefnendur 30.307.907 krónur, sem er mismunur eftirstöðva áhvílandi lána samkvæmt kröfulýsingu stefnda og greiðslu á uppboðinu upp í veðskuldir. Eftir standa þá 29.192.093 krónur og frá þeirri fjárhæð draga stefnendur 23.500.000 krónur, sem var kaupverð uppboðseignanna og fæst þá fjárhæðin 5.692.093 krónur, sem þeir telja vera mismun, stefnda í hag.
Af hálfu stefnda er því mótmælt sem röngu að hann hafi samþykkt skuldskeytingu þannig að stefnandinn, Ástþór Rafn, hafi einn verið talinn skuldari lánanna frá 20. maí 1991. Stefnandinn hafi hins vegar einn verið tilgreindur sem skuldari á yfirlitum stefnda en það hafi verið vegna þess að reitur í yfirlitunum rúmi aðeins nafn eins skuldara.
Stefndi kveðst, þegar eftir að hann hafði eignast eignirnar, hafa hafist handa um að reyna selja þær. Þær tilraunir hafi hins vegar lítinn árangur borið. Fljótlega hafi komið í ljós að litlir sem engir möguleikar voru á að selja þær á því verði, að dygði fyrir eftirstöðvum skuldanna og raunar var lítill áhugi á að kaupa þær þótt verð væri lækkað verulega. Loks voru þær leigðar til ákveðins tíma og jafnframt samið um að leigjandinn hefði forkaupsrétt og kauprétt að þeim fyrir tiltekið verð að loknum leigutíma. Hann nýtti sér kauprétt að íbúðinni að Heiðarvegi 3 og keypti hana á 1.600.000 krónur í september 1998.
Dómkvaddir matsmenn mátu íbúðina á 4.200.000 krónur og bendir stefndi á að þeir hafi metið hana í því ástandi, sem hún var í við skoðun en það hafi verið eftir gagngerðar endurbætur. Kveðst stefndi hafa mótmælt því að þannig hafi verið að verki staðið.
Stefndi kveðst síðan hafa selt hinar eignirnar 10. maí 2000 á 22.000.000 króna. Söluverð allra eignanna hafi því verið samtals 23.600.000 krónur eða 100.000 krónum hærri fjárhæð en kaupverðið var. Söluhagnaður stefnda hafi því verið 100.000 krónur og hafi hann þegar verið færður til lækkunar á skuldum stefnenda samkvæmt skuldabréfunum frá 20. maí 1991.
Að kröfu stefnda voru dómkvaddir yfirmatsmenn til að framkvæma yfirmat á matsgerð þeirri, sem að framan getur. Niðurstaða yfirmatsins var að markaðsverð eignanna 5. maí 1998 hafi verið sem hér segir, Herjólfsgata 4 25.000.000 króna, Heiðarvegur 1 20.000.000 króna og íbúð að Heiðarvegi 3 4.600.000 krónur eða samtals 49.600.000 krónur.
III
Stefnendur byggja á því að þar sem stefndi hafi keypt Herjólfsgötu 4, l. hæð Heiðarvegar l og íbúð á efri hæð Heiðarvegar 3 á uppboðinu hafi honum borið skylda til, samkvæmt l. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, að gera upp veðskuldirnar með þeim hætti sem fyrir sé mælt í greininni.
Aðalkröfuna um að stefnda hafi borið að fella niður eftirstöðvar skuldabréfanna byggja stefnendur á því mati, sem að framan greinir, um að markaðsverð eignanna hafi verið 59.500.000 krónur 5. maí 1998. Það hafi því engin efni verið til að lýsa eftirstöðvunum í þrotabú stefnenda, Ástþórs Rafns, Karls og Páls. Stefnendur kveðast miða við eftirstöðvar skuldabréfanna 5. maí 1998, sem hafi verið 30.307.907 krónur og sé það í samræmi við ákvæði framangreindrar greinar nauðungarsölulaganna.
Þá hafi stefndi hagnast á sölu eignanna um þá fjárhæð, sem stefnandinn, Ástþór Rafn, krefst að fá greidda, enda hafi hann einn verið þinglýstur eigandi þeirra þegar uppboðið fór fram.
Skaðabótakröfurnar byggja stefnendur, Ástþór Rafn, Karl og Páll, á því að stefnda hafi mátt vera ljóst allt frá lokum uppboðsins að skilyrði fyrir gjaldþrotaskiptum voru ekki fyrir hendi. Kveðast þeir hafa orðið fyrir fjártjóni og miska og vísa máli sínu til stuðnings til almennu skaðabótareglunnar og 3. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Af hálfu stefnda er það viðurkennt að stefnendur eigi niðurfærslurétt á eftirstöðvum krafna hans samkvæmt framangreindum skuldabréfum með vísun til ákvæða 1. mgr. 57. gr. nauðungarsölulaga. Söluhagnaður stefnda hafi numið 100.000 krónum og hafi hann þegar verið færður til lækkunar á eftirstöðvum krafna stefnda á hendur stefnandanum, Páli. Stefndi byggir á því að hann hafi keypt eignirnar á 23.500.000 krónur og selt þær aftur á 23.600.000 krónur og sé söluhagnaður hans mismunurinn á þessum fjárhæðum. Byggir stefndi þannig á því að markaðsverð eignanna sé raunverulegt endursöluverð þeirra en ekki það verð, sem dómkvaddir matsmenn telji vera markaðsverð. Kveður stefndi ekkert vera í málinu, sem sanni að markaðsverð eignanna hafi verið lægra þegar þær seldust en þegar boð stefnda í þær var samþykkt 5. maí 1998.
Stefndi hafnar því að mat hinna dómkvöddu matsmanna verði lagt til grundvallar við ákvörðun markaðsverðs og byggir þá afstöðu í fyrsta lagi á því að slíkt mat komi þá fyrst til greina sem verðviðmiðun að kaupandinn ætli sér að eiga eignina áfram eða hann hafi selt hana undir markaðsvirði. Í öðru lagi byggir stefndi á því að eignirnar hafi verið metnar áður en þær tvær verðmestu hafi verið seldar. Matið sé fjarri því að vera í samræmi við raunverulegt verð fasteigna í Vestamannaeyjum og bendir stefndi á álit staðkunnugra manna því til stuðnings. Loks byggir stefndi á því að íbúðin að Heiðarvegi 3 hafi verið metin eftir að gagngerðar endurbætur hafi verið gerðar á henni en ekki í því ástandi, er hún var í við kaupin.
Sýknukrafa stefnda af kröfum um skaðabætur er byggð á því að bú stefnendanna, Ástþórs Rafns, Karls og Páls, hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslausra fjárnámsgerða. Þá hafi engin þau mótmæli verið höfð uppi, sem lotið hafi að kröfugerð þeirra og málsástæðum, sem haldið sé uppi í þessu máli. Það sé því of seint að halda þessu fram nú. Þá er og á því byggt að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að lögmæt skilyrði hafi brostið til að krefjast gjaldþrotaskipta né að stefndi hafi á annan hátt staðið þannig að málum að skaðabótaskylt sé.
Varakröfu sína byggir stefndi á því að verð eignanna skuli metið hið sama og fólst í framangreindum kaupréttarsamningi. Þrautavarakrafan er byggð á yfirmatinu.
IV
Stefnendur byggja aðalkröfu sína á 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og halda því fram að verðið, sem stefndi keypti umræddar eignir á á nauðungarsölunni hafi verið mun lægra en markaðsverð þeirra, eins og rakið var. Í greinargerð með nefndu lagaákvæði segir að megininntak heimilda greinarinnar felist í því að hagnaður, sem kaupandi kunni að njóta af því að fá eign á lægra verði við nauðungarsölu en sem nemi gangverði hennar í frjálsum viðskiptum gegn sambærilegum kjörum, verði notaður líkt og greiðsla á þeim hluta af kröfum hans, sem söluverð eignarinnar nægði ekki til að greiða.
Hér að framan var gerð grein fyrir því að stefndi keypti eignirnar fyrir 23.500.000 krónur en seldi þær aftur fyrir 23.600.000 krónur. Söluhagnaðurinn hefur þegar verið færður til lækkunar eftirstæðra skulda stefnenda við stefnda. Þá hefur og verið getið matsgerða dómkvaddra matsmanna en þeir mátu markaðsverð eignanna í maí 1998, sbr. nefnt ákvæði nauðungarsölulaganna. Matsmennirnir virðast ekki hafa tekið tillit til þess verðs, er fékkst við sölu eignanna, enda bar einn yfirmatsmannanna að þeir hafi fundið markaðsverðið út með því að reikna verðmæti eignanna út frá verðmæti sambærilegra húseigna á höfuðborgarsvæðinu og færa það síðan niður um það hlutfall, er þeir töldu hæfilegt fyrir Vestmannaeyjar. Þá hafi og verið höfð hliðsjón af ástandi eignanna.
Það er niðurstaða dómsins að í tilfellum eins og þeim, sem hér um ræðir, þ.e. þegar uppboðskaupandinn á ekki eignirnar sjálfur heldur selur þær aftur, verði ekki miðað við annað verð en það, sem hann fékk fyrir þær við endursöluna. Gagnstæð niðurstaða, þ.e. að miða við reiknað markaðsverð eignanna, eins og stefnendur krefjast, myndi leiða til þess að uppboðskaupandinn yrði í raun að greiða með þeim í formi eftirgjafar á skuldum. Sú niðurstaða væri ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 57. gr. nauðungarsölulaganna, sbr. og framangreinda tilvitnun í greinargerðina. Stefndi hefur þegar lækkað kröfu sína á hendur stefnendum um þann hagnað, sem hann hafði af sölunni og er því ekki fallist á að þeir eigi frekari kröfur á hendur honum á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af þessu leiðir og að stefnda var rétt að krefjast gjaldþrotaskipta stefnendanna, Ástþórs Rafns, Karls og Páls, og eiga þeir því ekki rétt á skaðabótum eins og þeir krefjast.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda og skulu þeir óskipt greiða honum 400.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, Ferðamálasjóður, er sýknaður af kröfum stefnenda, Ástþórs Rafns, Guðmundar, Karls og Páls Pálssona, og skulu stefnendur óskipt greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.