Hæstiréttur íslands

Mál nr. 183/2011


Lykilorð

  • Fjársvik
  • Skilorð
  • Skaðabætur


                                                                                              

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011.

Nr. 183/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

Árna Þór Björnssyni

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Fjársvik. Skilorð. Skaðabætur.

Á var ákærður fyrir að hafa á árunum 2005 og 2006, í starfi sínu sem svæfingarlæknir, blekkt TR til að ofgreiða sér samtals 4.689.485 krónur, með því að framvísa 265 röngum reikningum. Var Á gefið að sök að hafa innheimt greiðslur vegna fleiri eininga fyrir svæfingar hjá tannlæknum en TR bar að greiða fyrir samkvæmt gjaldskrá svæfingarlækna og samningi TR og LR. Ekki var fallist á með Á að hægt væri að skilja umrædda gjaldskrá á þann veg að TR myndi greiða fyrir þann tíma sem færi í undirbúning, viðtöl, eftirmeðferð og annað vegna svæfingar. Þvert á móti þótti orðalag gjaldskrárinnar skýrt. Óljós afstaða í bréfi LR til lögreglu um túlkun gjaldskrárinnar breytti engu um niðurstöðuna, enda báru gögn með sér að aðrir svæfingarlæknar hefðu ekki beitt gjaldskránni með þeim hætti sem Á hafði gert. Einnig hafði ákærði ekki borið umrædda túlkun fyrir sig við eftirlitsheimsókn starfsmanna TR þótt fullt tilefni hefði verið til. Þess í stað hefði hann sagt ósatt um að megnið af svæfingarskýrslum hans hefði farið forgörðum og varð af því ráðið að Á hefði viljað leyna efni þeirra, en misræmi var með þeim og reikningum sem hann gerði TR. Á þótti hafa beitt starfsmenn TR vísvitandi blekkingum og var hann því fundinn sekur um að hafa brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga. Refsing Á var ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Í dómi Hæstaréttar var rakið að TR hefði beint kæru til ríkislögreglustjóra 28. júní 2007 en ákæra hefði ekki verið gefin út fyrr en 4. júní 2010 en að engin skýring hefði verið gefin á þessum drætti. Var refsing Á því bundin skilorði að öllu leyti. Á var einnig gert að greiða SÍ, sem tekið hafði við réttindum TR, 4.689.485 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. mars 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð. Þá er þess krafist að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.

Sjúkratryggingar Íslands krefjast þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu stofnunarinnar verði staðfest og ákærða gert að greiða henni málskostnað fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og er refsing hans þar hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Líta verður til þess að Tryggingastofnun ríkisins beindi 28. júní 2007 kæru til ríkislögreglustjóra vegna þeirrar háttsemi, sem mál þetta varðar, en ákæra var ekki gefin út fyrr en 4. júní 2010. Á þessum drætti hefur engin skýring verið gefin. Að þessu gættu er rétt að binda refsingu ákærða skilorði að öllu leyti.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki eru efni til að dæma hann til að greiða Sjúkratryggingum Íslands málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:    

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að refsing ákærða, Árna Þórs Björnssonar, verður bundin skilorði að öllu leyti.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 477.602 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar 2011, var höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 4. júní 2010, á hendur Árna Þór Björnssyni, kt. […], fyrir fjársvik í eftirfarandi tilvikum:

A.

Með því að hafa á árinu 2005, í starfi sínu sem svæfingalæknir, blekkt Tryggingastofnun ríkisins til að ofgreiða sér samtals fjárhæð 2.063.263 krónur, með því að framvísa 154 röngum reikningum þar sem innheimtar voru greiðslur vegna fleiri eininga fyrir svæfingar hjá tannlækninum Sigurði Rúnari Sæmundssyni sem voru vegna starfa tengdum svæfingunum sem stofnuninni bar ekki að greiða fyrir sérstaklega samkvæmt gjaldskrá svæfingalækna og samningi Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur.

B.

Með því að hafa á tímabilinu janúar til lok október 2006, í starfi sínu sem svæfingalæknir, blekkt Tryggingastofnun ríkisins til að ofgreiða sér samtals fjárhæð 2.626.222 krónur, með því að framvísa 111 röngum reikningum þar sem innheimtar voru greiðslur vegna fleiri eininga fyrir svæfingar hjá tannlækninum Sigurði Rúnari Sæmundssyni sem voru vegna starfa tengdum svæfingunum sem stofnuninni bar ekki að greiða fyrir sérstaklega samkvæmt gjaldskrá svæfingalækna og samningi Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur.

Teljast framangreind brot varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins, kt. 660269-2669, er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 4.689.485 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá dagsetningu kæru þann 28. júní 2007 til birtingar kröfunnar og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin að fullu. Þá er krafist frávísunar skaðabótakröfu, en til vara að bótakrafa sæti verulegri lækkun. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Rétt þykir að gera grein fyrir rekstri málsins fyrir dómi, en dómara var úthlutað málinu hinn 28. júní 2010. Var fyrirkall gefið út hinn 23. júlí og þingfesting fyrirhuguð 7. september. Birting fyrirkalls misfórst hins vegar, en ákærði er búsettur í Svíþjóð. Var gefið út nýtt fyrirkall hinn 7. september og það birt ákærða hinn 23. sama mánaðar. Var ákærði með því kvaddur til að koma fyrir dóm hinn 13. október. Ákærði mætti ekki í dóminn á þeim tíma, heldur verjandi fyrir hans hönd. Voru verjanda afhent gögn málsins og óskaði hann eftir fresti til að yfirfara þau með ákærða. Verjandi mætti til þinghalds hinn 29. október og að höfðu samráði við hann var ákveðið að aðalmeðferð málsins skyldi háð hinn 14. desember. Hinn 8. desember barst dóminum hins vegar tölvubréf verjanda þar sem hann boðaði forföll ákærða. Var þá ákveðinn nýr tími fyrir aðalmeðferðina, sem háð var hinn 24. janúar 2011 og málið dómtekið.

Málsatvik

                Með bréfi, dagsettu 28. júní 2007, barst ríkislögreglustjóra kæra forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins á hendur ákærða vegna meintra brota gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga, einkum 248. gr. laganna. Í kæru kemur fram að ákærði, sem er sérfræðingur í svæfingalækningum, hafi starfað samkvæmt samningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, en reikningar sérfræðilækna sem starfi samkvæmt samningnum séu greiddir að hluta af Tryggingastofnun ríkisins. Ákærði hafi m.a. haft með höndum svæfingar fyrir tannlækna, en greiðslur fyrir þau störf séu byggðar á tímagjaldi. Við eftirlit Tryggingastofnunar hafi komið í ljós að reikningar ákærða hafi skorið sig úr varðandi tímalengd svæfinga borið saman við reikninga annarra svæfingalækna. Því hafi þótt ástæða til að kanna svæfingaskýrslur ákærða og bera þær saman við reikninga sem hann hafi sent stofnuninni. Við skoðun sjúkraskráa frá árunum 2005 og 2006 hafi komið í ljós að ákærði hafi krafið Tryggingastofnun og sjúklinga um greiðslu fyrir vinnu í mun lengri tíma en sjúkraskrár segi til um.

                Meðal gagna málsins eru skýrslur um þrjár eftirlitsferðir fulltrúa Tryggingastofnunar á starfsstöð ákærða í desember 2006, febrúar og apríl 2007. Hinn 4. desember 2006  fóru Ingibjörg K. Þorsteinsdóttir lögfræðingur og Halldór Baldursson aðstoðartryggingayfirlæknir á tannlæknastofu A þar sem ákærði annaðist svæfingar einn dag í viku. Í skýrslu um heimsóknina kemur fram að ákærði hafi lagt fram 19 svæfingaskýrslur frá árinu 2006, en sagt aðrar skýrslur farnar forgörðum. Hafi ákærði sagt að sumar skýrslurnar hefðu verið færðar í tölvu en eyðst eða orðið ólæsilegar og síðan verið eytt. Aðrar skýrslur voru að hans sögn í pappírsformi, en hann hefði eytt þeim, „strimlað“ í pappírstætara. Hafi ákærði tekið fram að hann færði ekki í svæfingaskýrslur annan svæfingartíma en þann sem líður frá því að sjúklingur er sofnaður og þar til sjúklingurinn er vakinn, þ.e.a.s. svæfingartíma í þrengsta skilningi, ekki undirbúning svæfingar eða eftirlit með sjúklingi eftir svæfingu. Hafi ákærði sagt að sjúklingar liggi oft í hliðarherbergi í tvær til þrjár klukkustundir eftir langar svæfingar, en þá í umsjá aðstandenda og nálægð svæfingalæknisins.

                Með bréfi, dagsettu 23. janúar 2007, beindi Tryggingastofnun erindi til Landlæknis, þar sem vakin var athygli á því að ákærði hefði sagst hafa eytt sjúkraskrám, sem honum var skylt að varðveita lögum samkvæmt. Hinn 29. sama mánaðar barst lögfræðingi Tryggingastofnunar bréf þáverandi lögmanns ákærða, þar sem kom fram að ótti ákærða um að skýrslurnar hefðu fyrir mistök misfarist hafi reynst ástæðulaus. Væru skýrslurnar nú fyrirliggjandi og aðgengilegar starfsmönnum stofnunarinnar til skoðunar.

                Í kjölfarið fóru Halldór Baldursson og Halla Backmann Ólafsdóttir lögfræðingur í tvígang í eftirlitsferðir á starfsstöð ákærða, hinn 19. febrúar og 25. apríl 2007, og voru skoðaðar sjúkraskýrslur sem ákærði framvísaði. Niðurstaðan var sem fyrr segir, að verulegt ósamræmi væri milli þess svæfingartíma sem ákærði hafði skráð í svæfingaskýrslur og þess tíma sem hann hefði krafði Tryggingastofnun um greiðslur fyrir. Í kjölfarið sagði forstjóri Tryggingastofnunar upp samningi við ákærða og kærði málið til ríkislögreglustjóra.

Samkvæmt gögnum málsins afhenti ákærði hinn 27. nóvember 2007 svæfingaskýrslur sem um ræðir í málinu, að undangengnum dómsúrskurði um húsleit á heimili hans. Voru svæfingaskýrslurnar bornar saman við reikninga sem ákærði hafði gert vegna vinnu sinnar. Leiddi sú athugun í ljós að ákærði hafði krafið Tryggingastofnun um greiðslu fyrir mun fleiri tíma en tilteknir voru í svæfingaskýrslum. Að teknu tilliti til afsláttareininga hefði ákærði fengið ofgreitt samtals 2.063.263 krónur árið 2005 og 2.626.222 krónur árið 2006, eða samtals 4.689.485 krónur. Við þessa útreikninga var ekki litið til greiðslna sem sjúklingar höfðu innt af hendi til ákærða, en gögn málsins bera með sér að ákærði hafi krafið sjúklinga um greiðslu fyrir fleiri tíma en tilteknir voru í svæfingarskýrslum.

Ákærði höfðaði dómsmál til ógildingar ákvörðunar forstjóra Tryggingastofnunar um uppsögn samnings gagnvart sér. Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 13. mars 2008 í málinu nr. 518/2007, var stofnunin sýknuð af kröfu ákærða.

                Ákærði gaf skýrslu hjá ríkislögreglustjóra 12. mars 2008. Hann vísað kæru Tryggingastofnunar alfarið á bug og sagðist haga reikningsgerð sinni í samræmi við gjaldskrá samnings stofnunarinnar og Læknafélags Reykjavíkur. Ákærði sagðist skilja gjaldskrána þannig að sér væri heimilt að innheimta gjald fyrir undirbúning, viðtöl, eftirmeðferð og annað, auk þess tíma sem sjúklingur væri svæfður. Hafði lögmaður ákærða áður lýst þessu verklagi í bréfi til lögfræðings Tryggingastofnunar, dagsettu 6. mars 2007. 

Ákærði lýsti störfum sínum fyrir A barnatannlækni og sagði sjúklinga hafa verið börn og fatlaða einstaklinga. Nokkur undirbúningur væri nauðsynlegur fyrir aðgerðir, svo sem með því að ræða við foreldra og útvega lyf. Eftir aðgerðina væri haft eftirlit með sjúklingi á meðan hann væri að vakna. Yfirleitt væri fylgst með sjúklingi í um 2 klukkustundir eftir aðgerð, en stundum lengur. Sagðist ákærði oft fara að huga að undirbúningi svæfingar næsta sjúklings á meðan á því eftirliti stæði. Því gæti vel verið að hann hafi innheimt gjald fyrir vinnu við fleiri en einn sjúkling á sama tíma.

                Borin voru undir ákærða afrit svæfingaskýrslna og reikninga sem kæra Tryggingastofnunar laut að, alls 265 rannsóknartilvik. Ákærði sagði mismun á skráðum svæfingartíma í sjúkraskýrslum og innheimtum tímum í öllum tilvikum skýrast af því að hann hefði innheimt gjald vegna vinnu við undirbúning, viðtöl, eftirmeðferð og annað. 

                Lögregla leitaði álits Læknafélags Reykjavíkur á þeim ákvæðum í gjaldskrá svæfingalækna sem um ræðir með hliðsjón af skýringum ákærða. Í bréfi félagsins, sem dagsett er 11. september 2008 og undirritað af Gunnari Ármannssyni lögfræðingi, kemur fram að fulltrúar félagsins hafi hist á fundi vegna málsins. Meðal þeirra hafi verið formaður félags svæfingalækna, en komið hafi fram hjá honum að þótt aðrir svæfingalæknar hafi ekki beitt gjaldskránni með sama hætti og ákærði sé vel hægt að skilja gjaldskrána á þann hátt sem hann hafi lýst. Ástæðan sé sú að ekki sé sjálfgefið hvenær svæfingu lýkur og sé í raun hægt að skipta svæfingunni í nokkur stig. Sé það niðurstaða félagsins að umrædd gjaldskrárákvæði séu ekki nógu skýr og þurfi að skýra betur í næsta samningi.

                Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði gerði grein fyrir störfum sínum á tannlæknastofu A. Hann sagðist ávallt hafa fært í svæfingaskýrslur þann tíma sem laut að svæfingu með lyfjagjöf, en með reikningum sem hann sendi Tryggingastofnun hafi hann jafnframt krafist greiðslu fyrir undirbúning, viðtöl og eftirmeðferð. Hefði það verið í samræmi við túlkun hans á umræddum gjaldskrárákvæðum. Ákærði sagðist ekki hafa rætt það við starfsbræður sína hvernig þeir höguðu sinni reikningsgerð. Bornar voru undir ákærða nokkrar svæfingaskýrslur og reikningar og hann beðinn um að gera grein fyrir mismun á skráðum tímum samkvæmt skýrslum og tímum sem gjaldfærðir voru. Ákærði sagðist ekki muna eftir þeim sjúklingum sem um ræðir, en óvenju mikill mismunur gæti t.d. legið í því að sjúklingur hafi orðið að liggja lengur en venjulegt er vegna ógleði eða blæðinga. Þá gætu tímar hafa skarast þar sem komið hafi fyrir að hann sinnti tveimur eða fleiri sjúklingum á sama tíma, t.d. þannig að einn hafi þegið forlyfjagjöf, annar verið í aðgerð og sá þriðji að vakna. Einnig hafi komið fyrir að tveir sjúklingar væru í vöknunarferli á sama tíma.

                Ákærði sagðist hafa sagt starfsmönnum Tryggingastofnunar sem komu í eftirlitsheimsókn til hans 4. desember 2006 rangt til um að hann hefði eytt sjúkraskýrslum. Hafi hann gert það þar sem fólkið hefði komið hranalega fram og ekki farið vel á með þeim.

                Halldór Baldursson, sem var aðstoðartryggingayfirlæknir á þeim tíma sem um ræðir, gerði grein fyrir þremur eftirlitsheimsóknum sem hann fór í á starfsstöð ákærða.

Aðdragandinn hafi verið sá að legið hafi fyrir að ákærði hefði gert mjög háa reikninga fyrir störf sín. Hann hefði gert grein fyrir mjög löngum svæfingartíma og skorið sig úr borið saman við reikninga lækna í sams konar störfum. Hafi verið óskað eftir því við vitnið að hann skoðaði sjúkraskrár hjá ákærða með tilliti til þess hvort þær samræmdust reikningum sem hann hefði sent Tryggingastofnun. Hinn 4. desember 2006 hafi hann farið í fyrstu eftirlitsheimsóknina ásamt Ingibjörgu K. Þorsteindóttur, lögfræðingi Tryggingastofnunar, og hafi Gunnar Ármannsson, þáverandi framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands, verið viðstaddur. Hafi ákærði sagt þeim að hann hefði eytt öðrum svæfingaskýrslum en þeim sem hann framvísaði í þessari heimsókn. Hann hefði  strimlað“ skýrslur.

                Ingibjörg K. Þorsteinsdóttir sagðist hafa farið með Halldóri Baldurssyni í eftirlitsferðina 4. desember 2006. Aðeins 19 skýrslur hefðu verið á staðnum og hefði Halldór skoðað þær. Ákærði hefði sagst hafa fargað öðrum skýrslum. Sumar hefðu verið á tölvutæku formi og hefðu þær eyðst, en aðrar hefði hann sett í pappírstætara. Síðar hafi komið í ljós að ákærði hefði ekki sagt rétt til um þetta. Ástæða þess að farið var í þetta eftirlit hafi verið sú að sumarið áður hefðu starfsmenn Tryggingastofnunar tekið eftir því að reikningar sem ákærði sendi voru að breytast, þannig að svæfingartími samkvæmt þeim var að lengjast. Hafi ákærði verið farinn að innheimta fyrir svæfingartíma í allt að 5 til 7 tíma, en slíkt hefði ekki sést hjá öðrum læknum. Bornir hafi verið saman reikningar ákærða yfir einstök tímabil og þá sést hvernig reikningsfærsla hans hefði breyst. Þá hafi reikningar hans verið bornir saman við reikninga annarra lækna og hafi ákærði skorið sig það mikið úr hvað svæfingartíma varðaði að ástæða hafi þótt til að skoða málið nánar.

Vitnið sagði 5 til 6 lækna hafa sinnt svæfingum fyrir tannlækna á þessum tíma. Hún vissi ekki til þess að aðrir svæfingalæknar hefðu túlkað gjaldskrána með þeim hætti sem ákærði hafi sagst gera. Reikningar þeirra hefðu verið skoðaðir og bornir saman við reikninga ákærða. Ekki hafi þótt ástæða til eftirlitsheimsókna til þessara sérfræðinga. Reikningsfærslur þeirra hefðu verið allt öðruvísi en ákærða og hefðu þeir innheimt fyrir mun skemmri svæfingartíma. Um miklu styttri svæfingartíma hefði verið að ræða, sem benti til þess að þeir hefðu skilið gjaldskrárákvæðin rétt. Vitnið sagði málið hafa verið rætt í samráðsnefnd Tryggingastofnunar og Læknafélags Reykjavíkur og hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að gjaldskráin væri skýr að því leyti að ekki skyldi greitt sérstaklega fyrir undirbúning, viðtöl og eftirmeðferð.

                Halla Backmann Ólafsdóttir, forstöðumaður eftirlits Tryggingastofnunar, lýsti tveimur eftirlitsferðum sem hún hefði farið með Halldóri Baldurssyni á starfsstöð ákærða 19. febrúar og 25. apríl 2007. Áður hefðu reikningar ákærða um ákveðið tímabil verið skoðaðir og hefði komið ákveðinn stígandi í ljós. Hafi síðar komið í ljós að ákærði hafi bætt 2 til 3 klukkustundum við skráðan svæfingartíma vegna hvers sjúklings árið 2005, en árið 2006 hefðu viðbótartímar verið orðnir 4 til 5 og undir lokin 6 í einhverjum tilvikum. Hefðu reikningar um fjögurra svæfingalækna verið skoðaðir og reikningar ákærða skorið sig algjörlega úr hvað tímalengd varðaði. Hefðu aðrir svæfingalæknar klárlega ekki beitt gjaldskránni með þeim hætti sem ákærði hefði gert.

                Katrín Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri á sjúkratryggingasviði Tryggingastofnunar, sagðist hafa farið fyrir hópi starfsmanna sem höfðu eftirlit með reikningsgerð lækna. Hefðu þau orðið vör við það á árinu 2006 að reikningar ákærða voru að breytast þannig að tímalengd svæfinga samkvæmt þeim lengdist jafnt og þétt. Hafi reikningar ákærða skorið sig verulega úr miðað við reikninga annarra svæfingalækna og það orðið til þess að ákveðið var að skoða mál hans betur. Skoðaðir hafi verið reikningar þriggja til fjögurra svæfingalækna auk ákærða, en reikningar þeirra hefðu ekki verið bornir saman við svæfingaskýrslur. Aðrir svæfingalæknar hefðu ekki virst beita sömu túlkun gjaldskrárinnar og ákærði hafi borið að hann hafi gert

Niðurstaða

                Um gjaldtöku vegna svæfinga sem ákærði hafði með höndum í starfi sínu fyrir nafngreindan tannlækni fer eftir ákvæðum gjaldskrár svæfingalækna samkvæmt samningi Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur frá 21. desember 2004. Tveir gjaldskrárliðir lúta að svæfingum hjá tannlæknum, annars vegar nr. 82-007-01, sem hljóðar þannig: „Svæfing hjá tannlækni fyrir hvern hálftíma til viðbótar fyrstu tveimur í svæfingunni sjálfri. (Undirbúningur, viðtöl, eftirmeðferð og allt annað innifalið).“ Þá er gjaldskrárliður nr. 82-008-01 svohljóðandi: „Svæfing hjá tannlækni fyrir hvern fyrsta og hvern annan hálftímann í svæfingunni sjálfri. (Undirbúningur, viðtöl, eftirmeðferð og allt annað innifalið.“ Kemur fram að fyrri liðurinn sé metinn til 30 eininga, en hinn síðari til 35 eininga.

                Ákærði hefur borið fyrir sig að hann hafi skilið gjaldskrána þannig að honum væri rétt að krefja Tryggingastofnun um greiðslur fyrir tíma vegna svæfingar með lyfjagjöf, sem hann hafi fært í svæfingaskýrslur, sem og tíma vegna undirbúnings, viðtala, eftirmeðferðar og annars. Hafi hann hagað reikningsgerð sinni í samræmi við það, en samkvæmt gögnum málsins sendi ákærði stofnuninni 265 reikninga á árunum 2005 og 2006, þar sem hann krafðist greiðslu fyrir tæplega 800 stundir umfram svæfingartíma samkvæmt svæfingaskýrslum.

Það er hins vegar mat dómsins að orðalag gjaldskrárákvæðanna sé skýrt og ótvírætt um að undirbúningur, viðtöl, eftirmeðferð og allt annað, sé innifalið í svæfingartíma sem metinn er til tilgreinds einingafjölda og að skýringar ákærða um aðra túlkun séu haldlausar, sbr. einnig þar um niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 518/2007. Óljós afstaða sem felst í bréfi Læknafélags Reykjavíkur til lögreglu um túlkun gjaldskrárinnar breytir engu um þessa niðurstöðu, enda bera gögn málsins með sér að aðrir svæfingalæknar hafi ekki beitt gjaldskránni með þeim hætti sem ákærði hefur sagst hafa gert. Ákærði bar ekki fyrir sig framangreinda túlkun á gjaldskránni við eftirlitsheimsókn starfsmanna Tryggingastofnunar 4. desember 2006, þótt fullt tilefni væri til. Hins vegar sagði hann ósatt um að megnið af svæfingaskýrslum hans hefðu farið forgörðum. Verður af því ráðið að ákærði hafi viljað leyna efni svæfingaskýrslnanna, en misræmi var með þeim og reikningum sem hann gerði Tryggingastofnun. Þykir þetta til marks um að ákærði hafi ekki verið í góðri trú um beitingu gjaldskrárinnar, heldur séu skýringar hans í þá veru síðar til komnar. Þvert á móti hafi ákærði beitt starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins vísvitandi blekkingum með því að framvísa röngum reikningum og innheimt greiðslur samkvæmt þeim vegna fleiri eininga en stofnuninni bar að greiða samkvæmt gjaldskránni, svo sem rakið er í ákæru. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og telst háttsemi hans varða við 248. gr. almennra hegningarlaga

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

                Ákærði er fæddur í september 1956. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að í starfi sínu sem sérfræðingur í svæfingalækningum sveik ákærði umtalsverðar fjárhæðir úr ríkissjóði. Var um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða og sýndi ákærði af sér einbeittan brotavilja með því að framvísa 265 röngum reikningum við Tryggingastofnun á um 20 mánaða tímabili. Var brot hans sérlega ófyrirleitið. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu hefur Tryggingastofnun ríkisins krafist þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 4.689.485 krónur, auk vaxta. Með lögum nr. 112/2008, sem tóku gildi 1. október 2008, var komið á fót nýrri stofnun, Sjúkratryggingum Íslands, sem m.a. hefur að hlutverki að annast framkvæmd sjúkratrygginga, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Tók hin nýja stofnun yfir verkefni sjúkratryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins þar að lútandi. Samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laganna tók stofnunin við eignum, réttindum og skyldum Tryggingastofnunar að því er varðar framkvæmd sjúkratrygginga. Leiðir af ákvæðinu að aðild að bótakröfu í málinu liggur hjá Sjúkratryggingum, enda var málinu fylgt eftir fyrir dóminum af hálfu lögmanns stofnunarinnar. Ákærði hefur bakað sér bótaábyrgð vegna þess tjóns sem hlaust af broti hans, en áður hefur verið gerð grein fyrir útreikningum þar að lútandi. Verður hann dæmdur til greiðslu skaðabóta með vöxtum sem í dómsorði greinir.

                Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi málins og við meðferð þess fyrir dómi, 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Tryggvason aðstoðarsaksóknari.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

                Ákærði, Árni Þór Björnsson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði Sjúkratryggingum Íslands 4.689.485 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. júní 2007 til 10. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.