Hæstiréttur íslands

Mál nr. 446/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                     

Þriðjudaginn 7. júlí 2015.

Nr. 446/2015.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

X

(Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í þrjá mánuði.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 1. júlí 2015 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. júní 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 20. sama mánaðar um að varnaraðila yrði gert að sæta í þrjá mánuði nánar tilgreindu nálgunarbanni gagnvart A. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðru og vægara móti. Við mat á því er heimilt, eftir 2. mgr. sömu greinar, að líta til þess hvort háttsemi sakbornings á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta sé talin á að hann hafi í frammi það atferli sem lýst er í 4. gr. laganna. Í hinum kærða úrskurði eru rakin fyrri afskipti lögreglu af varnaraðila vegna heimilisófriðar. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila í Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, X, Ólafs Rúnars Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. júní 2015.

Mál þetta, barst dóminum 23. júní sl. og var tekið til úrskurðar eftir fyrirtöku 26. sama mánaðar.

Endanlegar kröfur sóknaraðili, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, eru að staðfest verði ákvörðun hans frá 20. júní 2015 um að varnaraðila X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í þrjá mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili brotaþola, A, [...], að [...] á [...], á svæði sem afmarkast við 50 m radíus umhverfis heimili hennar, mælt frá miðju íbúðar eða húss.  Jafnframt verði lagt bann við því að varnaraðili setji sig í samband við brotaþola, nálgist hana á almannafæri, vinnustað hennar, eða hafi samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.

Varnaraðili, X, andmælti fyrir dómi, þann 26. júní sl., framangreindum kröfum lögreglustjóra og krafðist þess að þeim yrði hafnað, en til vara að nálgunarbanninu yrði markaður skemmri tími.

Við nefnda fyrirtöku var Ólafur Rúnar Ólafsson hrl. skipaður verjandi varnaraðila og Arnbjörg Sigurðardóttir hrl. skipuð réttargæslumaður brotaþola, en lögmennirnir höfðu áður verið tilnefndir til starfans af lögreglustjóra.

Lögmennirnir krefjast þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa sinna við alla meðferð málsins.

I.

1. Í greinargerð sóknaraðila segir að lögreglu hafi borist tilkynning að kveldi föstudagsins 19. júní sl., kl. 23:12, um heimilisofbeldi að [...] á [...], sem er heimili brotaþola.  Greint er frá því að er lögreglan kom á vettvang hafi brotaþoli verið þar fyrir á heimilinu ásamt tveimur börn sínum, sem fædd eru í desember 2009 og nóvember 2012.  Hafi hún verið í talsverðu uppnámi og grátið.  Þá hafi hún lýst ótta um varnaraðili myndi koma á heimilið á ný, en hann hafi hafi verið farinn af vettvangi þegar lögreglumann bar að garði.

Í greinargerð sóknaraðila er vísað til gagna málsins og þ. á m. frásagnar brotaþola á vettvangi umrætt kvöld, en einnig framburðarskýrslu hennar daginn eftir og skýrslu varnaraðila sama dag.

Samkvæmt framburði brotaþola var hún upp í rúmi á heimili sínu ásamt nefndum börnum er varnaraðili barði fast á útihurðina.  Vegna þessara aðfara hafi börnunum brugðið og öskrað og hágrátið.  Hafi varnaraðili hringt til vinkonu og beðið hana um að hringja á lögreglu, en eftir það opnað útihurðina örlítið og tilkynnt varnaraðila að hún myndi ræða við hann síðar þegar börnin væru ekki grátandi.  Hafi varnaraðili ekki sinnt þessum tilmælum heldur rykkt upp hurðinni og „grýtt“ brotaþola frá og á vegg, en í framhaldi af því gengið inn í íbúðina.  Á meðan á þessu hafi staðið hafi börnin staðið hjá hágrátandi.  Samkvæmt frásögn brotaþola hefði varnaraðili eftir að hann var kominn inn í íbúðina kýlt í vegg, en við það hefði keramiksdiskur fallið á gólfið og brotnað.  Að þessu loknu hefði varnaraðili rúllað sér sígarettu og þegar brotaþoli hefði ítrekað beðið hann um að fara ú hefði hann brugðist við með því að ýtt henni frá. Vegna þessa hefði brotaþoli farið inn í herbergi til barnanna, en varnaraðili þá fylgt henni eftir og „brjálast ennþá meira“ en síðan rokið út úr íbúðinni.  Hefði brotaþoli læst útihurðinni en varnaraðili þá sparkað og kýlt í hurðina þar til að hún hefði opnað á ný.  Eftir það hefði varnaraðili hrint henni frá sér, en leitað eftir það í allri íbúðinni að kveikjara , en við þá iðju gripið til brotaþola að börnunum ásjáandi, en síðan skyndilega horfið á braut.

Í skýrslu lögreglu segir að brotaþoli hafi greint frá því á vettvangi að hún fyndi til í baki vegna lýsts atgangs varnaraðila en ekki hlotið sýnilega áverka.

Í greinargerð lögreglustjóra er greint frá því að greinileg ummerki hafi verið á vettvangi, þ. á m. sýnileg sprunga á vegg, en einnig glerbrot á gólfi, en þar um er vísað til framlagðra ljósmynda lögreglu.  Skráð er í lögregluskýrslu að er lögreglumenn voru á vettvangi hefðu börnin haft á orði að pabbi þeirra, varnaraðili, hefði verið „brjálaður og reiður“ og að hann hefði brotið vegginn.

Samkvæmt gögnum var varnaraðili handtekinn af lögreglu þar sem hann var á reiðhjóli eigi langt frá heimili brotaþola.  Greint er frá því að hann hafi verið með sýnilega bólgu á hægri hendi og greinilega undir áhrifum lyfja eða örvandi efna, en að auki hafi verið kannabislykt frá vitum hans.  Fram kemur að varnaraðili hafi verið færður á lögreglustöð þar sem tekið var úr honum blóðsýni til rannsóknar, en í framhaldi af því hafi hann verið vistaður í fangaklefa kl. 23:45.

Samkvæmt gögnum var varnaraðili yfirheyrður af lögreglu um málsatvik laugardaginn 20. júní sl. eftir hádegið, eftir vist í fangaklefa, að viðstöddum tilnefndum verjanda.  Við skýrslutökuna kannaðist hann ekki við að hafa beitt brotaþola ofbeldi eða að hafa veitt henni áverka, en sagði að hann hefði þó einhvern tímann ýtt við henni eða hrint.  Í lok yfirheyrslunnar var varnaraðila kynnt krafa brotaþola um að hann yrði settur í nálgunarbann gagnvart henni.

Í kjölfar skýrslutökunnar var varnaraðila, að viðstöddum nefndum lögmanni, sem síðar var skipaður verjandi hans, birt ákvörðun lögreglustjóra sem hér að framan var lýst.

2. Samkvæmt gögnum lauk rúmlega fimm ára sambúð varnaraðila og brotaþola í desember 2014.  Á sambúðartímanum héldu nefndir aðilar heimili á nokkrum stöðum á [...], en þau eiga eitt barn saman, sem er tveggja og hálfs árs, en fyrir átti brotaþoli áðurnefnt barn, sem fædd er árið 2009.

Af gögnum verður helst ráðið að varnaraðili og brotaþoli hafi eftir sambúðarslitin skipt forsjá barnanna og þá þannig að þau hafi þau hjá sér viku og viku í senn, en hafi jafnframt þegið aðstoð náinna ættingja þegar þau skipti fara fram.

Samkvæmt gögnum leitaði brotaþoli eftir liðsinni lögreglustjóra um að varnaraðili yrði settur í nálgunarbann eftir fyrrgreinda aðstoð lögreglu.  Við meðferð málsins hjá lögreglu var brotaþola tilnefndur réttargæslumaður.  Við fyrirtöku málsins fyrir dómi staðfesti réttargæslumaðurinn þessa ósk brotaþola.

Auk þeirra gagna sem varða það lögreglumál, sem hér er til umfjöllunar, nr. 316-2015-[...], er af hálfu sóknaraðila, lögreglustjóra, vísað til eldri gagna sem greina frá afskiptum lögreglu, m.a. af heimili varnaraðila og brotaþola á liðnum árum.  Þannig er vísað til dagbókarfærslu frá 13. janúar 2013, en hún varðar tilkynningu til lögreglu um hávaða og læti frá þáverandi heimili varnaraðila og brotaþola að morgni dags.  Greint er frá því að á vettvangi hafi lögreglumenn m.a. séð glerbrot úr kertastjaka á gólfi.  Þá er vísað til dagbókarfærslna lögreglu frá 17. apríl og 5. október 2014 vegna tilkynninga um hávaða og læti frá heimili nefndra aðila.  Einnig er vísað til fjögurra mála frá árinu 2015.  Er fyrsta málið frá 27. janúar sl., en þá var tilkynnt um hávaða og rifrildi þar sem brotaþoli og varnaraðili komu við sögu.  Hið næsta er frá 21. febrúar sl., en í færslu er greint frá afskiptum lögreglu af heimili varnaraðila þar sem hann virðist hafa verið einn með nefndum börnin, en að mati lögreglumanna var hann þá verulega sljór og þvoglumæltur.  Vegna þessa atvik hafi barnaverndarnefnd verið gert viðvart.  Þá er í dagbókarfærslu skráð atvik um heimilisófriði á sama stað þann 25. febrúar sama ár.  Loks er í dagbókarfærslu frá 16. mars sl. greint frá aðkomu lögreglu á heimili varnaraðila þar sem hann hafi legið meðvitundarlaus á gólfi íbúðar sinnar, en nefnd börn þá verið í umsjá hans.  Greint er frá því að er varnaraðili hafi komið til sjálfs síns hafi hann verið mjög lyfjaður.  Vegna þess atviks hafi barnaverndarnefnd verið gert viðvart, líkt og gert var í því máli sem hér er til umfjöllunar.

II.

Fyrrnefnd ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann er byggð á 4. gr. a liðar laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.  Um rök fyrir ákvörðuninni er af hálfu sóknaraðila í greinargerð, líkt og við flutning fyrir dómi, vísað til áðurrakinna rannsóknargagna, en þess jafnframt getið að rannsókn málsins sé enn ekki lokið.

Sóknaraðili vísar til þess fyrir liggi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið refsivert brot gegn brotaþola er varðað geti við  ákvæði XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Þá er á því byggt að hætta sé á að varnaraðili muni raski friði brotaþola, en þar um er m.a. vísað til þeirra áðurrakinna dagbókarfærslna.  Þá sé það mat sóknaraðila að friðhelgi brotaþola verði ekki tryggð með öðrum eða vægari hætti en að setja varnaraðila í nálgunarbann.

Sóknaraðili byggir á því að skilyrði 4. gr. laga nr. 85, 2011 séu uppfyllt og að verndarhagsmunir standi til þess að tryggja brotaþola og börnum hennar þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og að þau geti verið þar óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu varnaraðila og að ekki sé hægt að vernda friðhelgi brotaþola með öðrum eða vægari hætti en með nálgunarbanni.

Um frekari lagarök er af hálfu sóknaraðila einkum vísað til 1. mgr. 3. gr., 4. gr og 12. gr. laga nr. 85, 2011.

Af hálfu varnaraðila er eins og hér að framan var lýst því mótmælt að krafa sóknaraðila nái fram að ganga.  Hann vísar einkum til þess að lagaskilyrði standi ekki til þess að fallist verði á kröfu sóknaraðila í máli þessu, enda standi brotaþola ekki slík ógn eða háski af honum að nauðsyn sé til að verða við henni.  Varnaraðili bendir á að hann eigi engan afbrotaferil að baki er varði ofbeldisbrot, að vilji brotaþola til nálgunarbanns sé ekki skýr og að slík aðgerð þjóni ekki hagsmunum barns hans eða stjúpbarns.  Þá geti vægari aðgerðir komið til m.a. með aðstoð félagsmálayfirvalda.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og fleira, er heimilt að beita nálgunarbanni ef að rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja slíka háttsemi.

Þegar gögn málsins eru virt í heild verður fallist á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola ofbeldi og að hann hafi jafnframt með háttsemi sinni, sem gerðist síðla kvölds þann 19. júní sl., raskað heimilisfriði hennar og mjög ungra barna.  Fram kom við fyrirtöku málsins að varnaraðili hefur nýverið leitað sér aðstoðar vegna sálrænna erfiðleika, en að sögn á hann viðtalstíma hjá geðlækni í ágústmánuði n.k. af þeim sökum.

Að framagreindu virtu og röksemdum sóknaraðila er fallist á með sóknaraðila að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85, 2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni á þann veg sem greinir í dómsorði.

Þóknun verjanda varnaraðila og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, að með­töldum virðisaukaskatti, sem ákveðst eins og í úrskurðarorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88, 2008 og 1. mgr. 48. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 85, 2011.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun sóknaraðila, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, um að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni samkvæmt a lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85, 2011 í þrjá mánuði frá og með birtingu ákvörðunar 20. júní 2015.  Er lagt bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við heimili brotaþola, A, að [...] á [...], á svæði sem afmarkast við 50 m radíus umhverfis heimili hennar, mælt frá miðju íbúðar eða húss, og jafnframt verði honum bannað að setji sig í samband við brotaþola, nálgast hana á almannafæri, vinnustað hennar eða hafa samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ólafs Rúnars Ólafssonar hrl. 124.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., 100.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.