Hæstiréttur íslands
Mál nr. 445/2012
Lykilorð
- Handtaka
- Skaðabótamál
- Lögregla
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2013. |
|
Nr. 445/2012.
|
Karl R. Ólafsson (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Handtaka. Skaðabótamál. Lögregla.
K krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í vegna líkamstjóns sem hann kvaðst hafa orðið fyrir af völdum lögreglu á vinnusvæði hans tiltekið sinn. Reisti K kröfu sína annars vegar á ákvæði 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og hins vegar á reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að krafa K, að því leyti sem hún væri reist á 176. gr. laga nr. 19/1991 hefði verið fyrnd er málið hefði verið höfðað. Þá var einnig fallist á það að K hefði ekki sannað að líkamstjón hans yrði rakið til þess að lögreglumenn sem stóðu að handtöku hans hefðu farið offari miðað við aðstæður sem og að lögreglumennirnir hefðu haft heimild til að athafna sig á vinnusvæði K umrætt sinn. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2012. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna nánar tilgreinds líkamstjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir 27. september 2005 af völdum lögreglu á vinnusvæði áfrýjanda að Lyngási, Hellu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi reisir kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda annars vegar á 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem giltu er atvik málsins áttu sér stað, og hins vegar á reglunni um vinnuveitandaábyrgð þar sem lögreglumenn þeir, er líkamstjóni hans ollu, hafi verið starfsmenn stefnda og sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við handtökuna. Hann telur handtökuna hafa verið tilefnislausa og framgöngu lögreglumannanna umfram það sem þörf var á og heimildir þeirra samkvæmt 14. gr., sbr. 13. gr., lögreglulaga nr. 90/1996 til valdbeitingar hafi réttlætt.
Fallist er á með héraðsdómi að krafa áfrýjanda, að því leyti sem hún er reist á 176. gr. laga nr. 19/1991, hafi verið fyrnd, sbr. 181. gr. laganna, er mál þetta var höfðað. Tilvitnuð ákvæði gilda um atvik máls þessa, þótt málið sé höfðað eftir gildistöku laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. ákvæðis VI. til bráðabirgða með þeim lögum.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur dómur Hæstaréttar 16. maí 2007 í máli nr. 21/2007 fullt sönnunargildi um þau málsatvik, sem þar eru lögð til grundvallar, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á að áfrýjandi hafi ekki sannað að líkamstjón hans verði rakið til þess að lögreglumennirnir, sem stóðu að handtökunni, hafi farið offari miðað við aðstæður, sem þar er lýst. Þá er einnig fallist á röksemdir dómsins fyrir því að lögreglumennirnir hafi haft heimild til að athafna sig á kartöfluakri, sem áfrýjandi hafði forræði á, eftir að einn lögreglumannanna hafði veitt syni áfrýjanda eftirför í beinu framhaldi af ætluðu umferðarlagabroti hans, sbr. 2. mgr. 90. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður hvor málsaðila látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 12. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Karli R. Ólafssyni, kt. [...], Lyngási 4, Hellu, með stefnu, birtri 22. febrúar 2011, á hendur íslenzka ríkinu, vegna innanríkisráðuneytisins, kt. 461010-0400, Skuggasundi, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda íslenzka ríkisins, vegna líkamstjóns á hálsi og höfði, báðum öxlum,vinstri þumli, mjóbaki, báðum hnjám og ökklum auk andlegra einkenna, sem stefnandi varð fyrir þann 27.09. 2005, af völdum lögreglu á vinnusvæði stefnanda á Lyngási, Hellu. Þá er krafizt málskostnaðar að skaðlausu, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti og tillit verði tekið til þess, að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
Dómkröfur stefnda eru þær, að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins..
II
Málavextir
Ágreiningur er með aðilum um málsatvik.
Stefnandi kveður málsatvik hafa verið þau, að hinn 27.09. 2005 hafi hann verið við vinnu við fjórða mann við kartöfluupptöku á landi sínu að Lyngási, sem er kartöflubýli skammt vestan við Hellu á Rangárvöllum, en hann starfi sem kartöflubóndi og sé með tug hektara kartöflugarð sunnan við þjóðveg nr. 1 og vestan við Bugaveg nr. 273. Hann hafi orðið var við lögreglubíl inni á akrinum, sem hafi verið vinnusvæði með stórvirkum upptökuvélum og stórum dráttarvélum með aftanívagna til að ferja uppskeruna á annan stað. Stefnandi hafi í fyrstu ekki vitað, hvað viðkomandi lögreglubíll, sem í hafi verið einn maður, væri að gera á vinnusvæði hans, en svo hafi virzt sem lögreglumaðurinn, Atli Árdal Ólafsson, hafi átt eitthvað vantalað við son stefnanda vegna ætlaðs umferðarlagabrots hans skömmu áður. Hafi Atli hraðamælt bifreið á 98 km hraða á klukkustund, þar sem hámarkshraðinn sé 70 km á klst. Hafi lögreglumaðurinn misst sjónar á bifreiðinni, er henni var ekið sem leið lá eftir akveginum. Lögreglumaðurinn Atli hafi haldið í humátt á eftir og haldið sig þekkja bifreiðina, þar sem hann hafi séð svipaða bifreið inni á kartöfluakri, skammt sunnan við bæinn Lyngás. Komi fram í skýrslum, sem teknar hafi verið fyrir dómi, að lögreglumaðurinn hafi hvorki séð númerið á númersplötu bifreiðarinnar, né hafi verið hægt að greina númerið á myndbandsupptöku lögreglu. Á kartöfluakrinum hafi farið fram vinna með stórvirkum vinnuvélum, og hafi a.m.k. þrjár öflugar dráttarvélar verið í vinnu. Ein þeirra hafi verið að plægja saman kartöflur á öðrum akri á þann hátt, að þær væru aðgengilegar fyrir upptökuvélina, þá var þar upptökuvélin sjálf og svo sú þriðja, sem hafi tekið við uppskerunni. Þegar upptökuvélin og safn/flutningsvélin höfðu athafnað sig á akrinum, hafi stjórnendur þeirra ætlað að halda áfram vinnu sinni á næsta akri. Hafi lögreglumenn tekið sér stöðu á þann hátt, að þeir og lögreglubifreiðar hafi verið fyrir vinnuvélunum, þannig að þær hafi ekki komizt samsíða yfir á næsta akur. Því hafi ökumenn þeirra brugðið á það ráð að fara hvor sínum megin við lögreglumennina og bifreið þeirra.
Hafi virzt sem færiband upptökuvélarinnar hafi hrokkið í gang með þeim afleiðingum, að einn lögreglumaðurinn hafi fengið nokkur jarðepli í sig og hafi nokkur ratað inn í lögreglubifreið, sem þar hafi staðið með opnar dyr. Þegar stefnandi hafi séð þetta, hafi hann ætlað að bregðast fljótt og örugglega við og stöðva bandið, svo ekki hlytist af frekara tjón á mönnum, munum og uppskeru.
Þegar stefnandi hafi ætlað að stöðva færibandið, hafi lögreglumennirnir, Atli Árdal Ólafsson, kt. [...], Davíð Ómar Gunnarsson, kt. [...] og Ármann Höskuldsson, kt. [...] ráðizt á stefnanda. Hafi stefnandi talið sig í fullum rétti að koma í veg fyrir frekara tjón en orðið var. Hafi lögreglumenn túlkað þessa hegðan stefnanda sem stórhættulega og ráðizt harkalega að stefnanda, þannig að hann hafi hlotið varanlegt líkamstjón, bæði á líkama og sál.
Hafi stefnandi máls þessa verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni, en sýknaður með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 21/2007.
Stefnandi hafi ítrekað leitað læknis vegna áverka þeirra, sem hann hafi hlotið umrætt sinn. Þá hafi hann verið metinn af Sigurjóni Sigurðssyni lækni með 30% læknisfræðilega örorku, en hann hafi verið tilkvaddur til að meta áverka stefnanda með heimild í 10. gr. skaðabótalaga. Í matinu komi fram, að áverkar stefnanda séu höfuðáverki, sem hafi í för með sér viðvarandi höfuðverk, afleiðingar hálstognunar, sem hafi leitt til álagsbundinna einkenna með leiðni út í báðar herðar, viðvarandi þreytuseyðingur og verkir í báðum öxlum, sem aukist við álag og geti leitt niður í báða handleggi, en þó sérstaklega vinstra megin, verkir og minnkaður kraftur í vinstri þumli, álagsbundin einkenni frá báðum úlnliðum og kraftleysi í báðum höndum, álagsbundin einkenni í mjóbaki, sem stundum leiði niður í lærin aftanverð, álagsbundin einkenni frá báðum hnjám, sem vilji stirðna upp við álag og kyrrsetu, þreytuseyðingur í báðum ökklum við álag, andleg vanlíðan og svefntruflanir.
Stefnandi hafi ritað ríkilögmanni bréf þann 20.10. 2010 og krafizt viðurkenningar á bótaskyldu vegna ofangreinds. Því hafi verið hafnað.
Stefndi kveður málsatvik verða rakin til þess, að lögreglumenn hafi haft afskipti af stefnanda þar sem hann hafi truflaði störf þeirra þann 27. september 2005. Samkvæmt skýrslu Atla Árdal Ólafssonar lögreglumanns hafi hann veitt bifreiðinni [...] eftirför á 98 km hraða, þar sem hámarkshraði hafi verið 70 km, og hafi hann orðið var við framúrakstur hennar yfir óbrotna línu. Hafi bifreiðinni verið veitt eftirför eftir að beygt hafi verið af Suðurlandsvegi niður að Lyngási, en þar hafi henni verið ekið inn á kartöfluakur. Hafi ökumaðurinn þar stigið úr bifreiðinni og haldið upp í dráttarvél, sem hafi dregið kartöfluupptökuvél, og ekið henni inn á akur. Hafi maðurinn verið eltur. Hann hafi stöðvað vélina og opnað afturglugga hennar. Honum hafi verið kynnt tilefni afskiptanna og óskað upplýsinga um hann. Hafi hann reynzt vera sonur stefnanda málsins. Þegar lögreglumaðurinn óskaði eftir upplýsingum um manninn, hafi hann sagt, að hann hefði ekki tíma í þetta, auk þess sem lögreglumaðurinn gæti ekkert gert þar sem hann væri einn síns liðs.
Lögreglumaðurinn hafi haft samband við varðstjóra og kallað eftir aðstoð. Skömmu eftir að lögreglumaðurinn hringdi í varðstjórann, hafi stefnandi komið að og spurt um ferðir hans. Þegar lögreglumaðurinn hafi sagzt þurfa að hafa tal af manninum á dráttarvélinni vegna umferðarlagabrots hafi stefnandi strax orðið reiður og sagt, að um einkaland væri að ræða. Hafi hann óskað eftir því, að lögreglumaðurinn færi brott af landinu. Hafi hann nefnt, að lögreglumaðurinn og bifreið hans væru í hættu þarna, þar sem um vinnusvæði væri að ræða. Lögreglumaðurinn hafi sagt honum, að varðstjórinn væri á leiðinni, en þá hafi stefnandi ekið af stað með miklum látum og að hliðinu inn á akurinn. Hafi varðstjórinn þá komið þar að á lögreglubifreið. Hafi hann skilið lögreglubifreiðina eftir út við veg, en komið fótgangandi til stefnanda. Þegar hér var komið við sögu hafi lögreglumaðurinn greint varðstjóranum frá málavöxtum og hafi þeir ákveðið að bíða, unz ökumaður dráttarvélarinnar kæmi aftur til þeirra. Þá hafi stefnandi komið til þeirra með tvo menn í bíl sínum, sem hann hafi sótt. Hafi stefnandi lagt bifreiðinni á móti lögreglubifreiðinni og hafi þeir beðið þar. Í ljósi þessa hafi lögreglumennirnir ákveðið að kalla eftir frekari aðstoð frá Selfossi.
Þegar lögreglumenn komu frá Selfossi, hafi stefnandi verið farinn og menn hans byrjaðir að vinna í nágrenninu. Skömmu síðar hafi þeir verið að færa vinnuvélar sínar milli akra og Páll Sigurðsson, sem ók einni vélinni, hafi sett band upptökuvélarinnar í gang, þegar hann ók fram hjá varðstjóranum, þar sem hann var í símanum við lögreglubifreiðina. Kartöflur hafi þá hrunið yfir lögreglubifreiðina og varðstjórann úr um þriggja metra hæð. Hafi lögreglumaðurinn talið augljóst, að þetta hefði veri með vilja gert.
Lögreglumennirnir hafi stokkið til og ætlað að ræða við Pál. Hafi stefnandi þá stokkið til og rifið í Ármann Höskuldsson, lögreglumann, þar sem hann hafi staðið á vélinni hjá Páli. Í framhaldi af því hafi lögreglumenn hlaupið til, yfirbugað stefnanda og sett í handjárn. Í skýrslu fyrir dómi hafi lögreglumaðurinn þó dregið framburð þess efnis, að hann hafi séð stefnanda rífa í Ármann, til baka. Stefnandi hafi veitt mikla mótspyrnu og haldið sér í rör á vinnuvélinni. Fljótlega hafi þó tekizt að leggja hann í jörðina og handjárna hann. Lögreglumenn frá Selfossi hafi fært stefnanda í lögreglubifreiðina. Hafi svo verið reynt að ræða við Trausta, son stefnanda, sem enn hafi verið á dráttarvélinni. Hafi það gengið illa og hafi hann gert kröfur um, að föður hans yrði sleppt. Hafi hann ekki viljað stöðva vélina, meðan hann ræddi við lögreglumennina. Hafi hann þó gefið varðstjóranum upplýsingar um sig og viðurkennt umferðarlagabrotið.
Í skýrslu Atla komi fram, að lögreglumenn hafi nánast allan tímann sætt hótunum af hálfu stefnanda og hann ítrekað sagt, að hann hefði ekkert við þá að tala og bent á hliðið með því að hann ætti landið, og að lögreglumennirnir væru þarna í hans óþökk.
Í skýrslu sinni hafi lögreglumaðurinn Atli lýst átökum við stefnanda og mótspyrnu hans nánar á þann hátt, að hann hefði ríghaldið sér í dráttarvélina og þeir því þurft að taka á honum, þegar verið var að losa hann frá vélinni. Eftir að búið var að leggja hann á jörðina, hafi hann náð undir sig höndum og reynt að koma í veg fyrir, að hægt væri að færa hann í handjárn. Ekki hafi, af hálfu lögreglumanna, verið beitt meiri hörku við handtöku en nauðsynlegt hafi verið. Stefnandi hafi hins vegar sýnt alla þá mótspyrnu, sem hann hafi getað og ekki hlustað á neitt, sem við hann hafi verið sagt.
Í skýrslum lögreglumannanna, Guðmundar Hjörvars Jónssonar og Ármanns Höskuldssonar, og varðstjórans, Sveins Kristjáns Rúnarssonar, sé atburðum lýst á sömu lund og fram komi í skýrslu lögreglumannsins Atla.
Stefndi kveðst mótmæla málavaxtalýsingu stefnanda sem rangri um atriði, sem ósamrýmanleg séu skýrslum lögreglumanna.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir dómkröfu sína á því, að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni þann 27.09. 2005 af völdum nafngreindra lögreglumanna, er þeir hafi farið út fyrir valdsvið sitt og farið inn á einkalóð hans, án heimildar, og beitt stefnanda óþarfa harðræði. Kveðst stefnandi einnig byggja sjálfstætt á því, að þeir hafi brotið meðalhófsreglu í athöfnum sínum, þar sem stefnandi hafi verið beittur harðræði án sjáanlegrar ástæðu.
Byggir stefnandi á því, að vera lögreglunnar á afgirtu einkalandi hans (félags í hans eigu) hafi með öllu verið ólögmæt. Ekki hafi verið um beina eftirför lögreglu að ræða, og lögreglan því í algeru heimildarleysi inni á vinnusvæði, í einkaeigu stefnanda, sem njóti friðhelgi sbr. 1.mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá kveðst stefnandi byggja á því, að lögreglan hafi ekki haft dómsúrskurð til þess að fara heimildarlaust inn á landareign hans í þeim erindagjörðum að hafa uppi á meintum geranda í hraðakstursmáli.
Þá kveðst stefnandi einnig byggja sjálfstætt á, að þeir lögreglumenn, sem komu á vettvang, hafi farið langt fram úr þeim starfsheimildum, sem þeim sé skapað með lögum, og brotið gróflega gegn meðalhófsreglu 12. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem meta megi a.m.k. til stórkostlegs gáleysis, er þeir hafi handtekið stefnanda. Hafi lögreglumennirnir beitt stefnanda óþarfa harðræði, langt umfram tilefni. En þeir hafi verið á vettvangi til rannsóknar á meintum hraðakstri. Valdbeiting sú, sem fram hafi farið til þess eins að koma stefnanda í járn, hafi farið langt fram úr þeim hagsmunum, sem íslenzka ríkið hafi haft af því að fá meinta hraðasekt í fjárhirzlur sínar. Hefðu lögreglumennirnir getað náð markmiði sínu með vægari aðgerðum, svo sem viðræðum við stefnanda.
Hinar hrottalegu lögregluaðgerðir hafi verið með öllu þarflausar, þar sem sá aðili, sem lögreglumenn hugðust ná tali af, hafi verið inni á afgirtu landsvæði, og hefðu þeir því með réttu átt að bíða utan eignarlands stefnanda eftir að dómsúrskurður bærist, eða eftir því að sá aðili, sem hugsanlega hafði framið hraðakstursbrot, færi út af landi stefnanda.
Stefnandi byggi einnig á því sjálfstætt, að hann hafi ekki gefið tilefni til þess að vera settur í járn, en eitt hafi greinilega leitt af öðru, samanber atvikalýsingu stefnanda. Staðhæfi stefnandi, að hann hafi ekki gefið nokkurt tilefni til þess, að á hann yrði ráðizt með þeim hætti sem varð, en hann hafi einfaldlega ætlað að stöðva það, að kartöflurnar flæddu út af færibandinu, bæði til þess að þær færu ekki yfir lögreglumennina og eins til að koma í veg fyrir tjón á uppskeru sinni.
Stefnandi byggi einnig á því, að þegar meðalhófsregla stjórnsýslulaga sé brotin, geti þeir, sem fyrir verði átt rétt á bótum, sbr. 176. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sem þá hafi verið í gildi, sbr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Byggi stefnandi á því, að bæði a- og b- liður 176. gr. laga um meðferð opinberra mála eigi við um aðgerðir lögreglu í umrætt sinn.
Byggi stefnandi á því, að hann hafi verið handtekinn og settur í handjárn, án þess að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir hendi, og enn fremur, að ekki hafi verið nægilegt tilefni til þeirra aðgerða, sem lögreglan hafi gripið til. Stefnandi viti enn ekki af hverju lögregla hafi handtekið hann í umrætt skipti. Stefnandi hafi verið að ganga að dráttarvél, sem hafi verið í hans eigu, er þetta gerðist. Hann viti ekki með hvaða hætti hann eigi að hafa tálmað lögreglu við störf sín og geti ekki með neinu móti glöggvað sig á, af hvaða ástæðu hann hafi verið færður í járn.
Stefnandi byggi á því, að viðbrögð hans við handtökunni hafi verið eðlileg; hann hafi staðið á vinnusvæði sínu við dráttarvél, sem hafi verið í hans eigu, þegar ráðist hafi verið á hann og höfuð hans reigt aftur, með þeim hætti, að fingur hafi verið settir upp í nasir hans. Við þessu hafi hann brugðizt eins og flestir myndu gera, þ.e. með því að reyna að flýja undan sársaukanum, en við þau viðbrögð hafi lögreglumönnunum fjölgað, og hann hafi verið settur í járn, við miklar kvalir víðs vegar um líkamann.
Byggi stefnandi jafnframt á því, að lögreglumenn hafi brotið gegn 13. og 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Telji stefnandi sig hafa verið beittan harðræði við ólögmætar aðgerðir lögreglu, og hafi í því efni verið gengið mun lengra en lagt verði á saklausan mann.
Þá byggi stefnandi á því, að hann hafi ítrekað skorað á lögreglumennina að vera utan girðingar, án þess að þeir hafi orðið við því. Byggi stefnandi á því, að hann hafi verið að koma í veg fyrir frekara tjón en orðið var, en með einhverjum hætti hafi lögreglumennirnir túlkað það sem stórhættulegan gjörning og beitt hann harðræði, þannig að hann hafi hlotið varanlegt líkamstjón af. Lögreglumennirnir hefðu ruðzt inn á lokað vinnusvæði, þar sem stefnandi hafi farið með verkstjórn og því eðlilegt, að hann brygðist við með þeim hætti að reyna að koma í veg fyrir frekara tjón.
Af ofangreindu leiði, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem íslenzka ríkið beri ábyrgð á, á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar, en lögreglumennirnir hafi allir verið í starfi hjá stefnda, er umrædd atvik gerðust.
Stefnandi byggir á því, að hann eigi lögvarða hagsmuni af því, að viðurkenningarkrafa hans verði tekin til efnislegrar úrlausnar. Verði fallizt á kröfu stefnanda, verði hægt að meta tjónið eftir lögum um skaðabætur nr. 50/1993, en ljóst þyki, að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni.
Byggi stefnandi á því, að heimilt sé að höfða mál til viðurkenningar á bótaskyldu, án þess að jafnframt sé gerð krafa um tiltekna peningagreiðslu. Styðjist þetta við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og skýrt fordæmi í dómi Hæstaréttar frá 7. október 1999 í máli nr. 166/1999. Af öðrum dómi réttarins, í máli nr. 146/2001 (upp kveðinn 4. maí 2001), verði þó ráðið að sýna verði fram á, að tjón hafi orðið, sem krafizt sé viðurkenningar bótaskyldu á.
Vísi stefnandi í því efni til framlagðra læknisvottorða í dómsskjölum 4-6, sbr. atvikalýsingu. Einnig vísi hann til matsgerðar á dskj. nr. 19. Með öflun viðkomandi matsgerðar, þar sem stefnandi sé metinn til 30% læknisfræðilegrar örorku, sé ljóst, að tjón hans sé sannað með fullnægjandi hætti.
Stefnandi styðji dómkröfur sínar við sakarregluna og meginreglur um vinnuveitandaábyrgð, lög um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, einkum 176. gr. Þá styðji stefnandi dómkröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar nr. 50/1993. Þá byggi stefnandi á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og lögreglulögum, en viðurkenningarkröfu sína byggi hann á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Einnig byggi stefnandi á þeim lagaákvæðum, sem hér að ofan séu tilgreind. Hvað málskostnað varði sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnandi byggi á því, að innanríkisráðherra hafi yfirumsjón með lögregluembættunum á Hvolsvelli og Selfossi fyrir hönd íslenzka ríkisins. Vísi stefnandi til 3. greinar auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969 og núgildandi reglugerðar nr. 177/2007 vegna aðildar dóms- og mannréttindamálaráðherra, sem og til 5. greinar laga nr. 92/1989. Þá vísi stefnandi til 2. greinar laga nr. 51/1985 varðandi uppáskrift ríkislögmanns á stefnu.
Málsástæður stefnda
Stefndi mótmælir því, að lögreglumenn hafi ekið inn á einkalóð án heimildar, farið út fyrir valdsvið sitt eða beitt óþarfa harðræði. Lögreglumenn hafi á engan hátt brotið gegn stjórnsýslulögum eða ákvæðum 13. eða 14. gr. lögreglulaga. Þá sé því mótmælt, að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu. Eftirför lögreglumannsins vegna umferðarlagabrotsins hafi verið bein, óslitin og af réttmætu og lögmætu tilefni. Um hafi verið að ræða kartöfluakur, en ekki einkaheimili, og hafi stefnandi engin gögn lagt fram um eignarhald sitt á svæðinu. Í engu hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs. Sé það meginregla, sem eigi einnig stoð í eldri og yngri lögum um meðferð sakamála, nú 75. gr., en áður 90. gr., að veita megi manni eftirför með þeim hætti, sem gert hafi verið. Hafi þær aðstæður verið uppi, að ökumaður bifreiðarinnar hafi reynt að koma sér undan broti sínu. Lögreglumenn hafi verið í fullum rétti til að hafa afskipti af ökumanninum, sem hafi reynzt vera sonur stefnanda, og afla upplýsinga um hann og ferðir hans. Hvað sem því líði hafi framkoma og háttsemi stefnanda verið ólögmæt og hann sjálfur valdur að þeim áverkum, sem hann reki til þessara atburða.
Stefndi byggir á því, að sannað sé, að stefnandi hafi truflað störf lögreglumanna á vettvangi, óhlýðnazt fyrirskipunum lögreglumanna, hótað þeim og sýnt framkomu, sem hiklaust hafi gefið tilefni til handtöku. Komi fram í dómi Hæstaréttar frá 16. maí 2007 í málinu nr. 21/2007, að hann hafi truflað störf lögreglumanna. Hafi stefnandi einnig sýnt mikinn mótþróa og æsing við handtökuna. Stefnanda hafi borið að hlýða fyrirskipunum lögreglumanna umorðalaust á vettvangi, sbr. ákvæði lögreglulaga og grunnreglu 60. gr. stjórnarskrár um að hlýða beri yfirvaldsboði. Með háttarlagi sínu hafi hann sjálfur verið valdur að því, að þurft hafi að handtaka hann og setja í handjárn, og hafi hann borið alla ábyrgð á því, að beita þyrfti hann tökum. Breyti þá engu, hvort hann hafi talið lögreglumenn ranglega komna inn á akurinn. Telji stefndi með öllu ósannað, að lögreglumenn hafi farið út fyrir þann ramma, sem lög setji um valdbeitingu, eða að þeir hafi átt upptök að átökum. Hafi þeir gripið til eðlilegra ráðstafana, og hafi þeim borið að stöðva háttsemi stefnanda og taka hann tökum, þegar hann sýndi mótþróa, sbr. 15. 16. gr. lögreglulaga. Hafi það einnig átt við um handtökuheimildir þágildandi laga nr. 19/1991, sbr. 97. gr. þeirra. Meginatriði sé, að stefnanda hafi borið að fara að fyrirmælum, án mótþróa, enda hafi honum verið ljóst, svo sem fram komi í skýrslum, í hvaða erindagjörðum lögreglumenn hafi verið, og honum hafi einnig verið tilkynnt, að hann væri handtekinn. Þrátt fyrir það hafi hann sýnt mikinn mótþróa og mótspyrnu.
Stefndi mótmæli því, að bótaréttur hafi stofnazt á grundvelli 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eða 228. gr. laga nr. 88/2008. Bótaréttur á grundvelli 176. gr. fyrrnefndu laganna, sem í gildi hafi verið í september 2007, falli niður í þeim tilvikum, er menn stuðli að aðgerðum gegn sér á þann hátt, sem stefnandi hafi gert. Auk þess sé bótaréttur á grundvelli 176. gr. laganna löngu fyrndur, sbr. 181. gr. laganna, enda löngu liðinn frestur frá því, að stefnandi var sýknaður með dómi Hæstaréttar þann 16. maí 2007, unz mál þetta hafi verið höfðað.
Gagnvart öðrum reglum, sem vísað sé til í stefnu, byggi stefndi einnig á því, að ætlað tjón stefnanda sé einungis að rekja til eigin sakar hans. Engri ólögmætri eða saknæmri háttsemi sé til að dreifa af hálfu lögreglumanna. Sem fyrr segi hafi stefnanda borið að hlýða fyrirmælum lögreglumanna og sæta fyrirskipunum þeirra og aðgerðum með friði. Stefnandi hefði þannig getað komið í veg fyrir öll átök og ætlað tjón sitt, en hann hafi kosið að óhlýðnast og veita mótspyrnu. Ætlað tjón stafi því einungis af háttsemi stefnanda og beri í því ljósi að sýkna stefnda.
Í stefnu sé ekki farið rétt með forsendur hæstaréttardómsins í málinu nr. 21/2007. Auk þess verði að hafa í huga, að sönnunarvafi, sem þar hafi leitt til sýknu, sé metinn stefnanda í hag á grundvelli 45. til 46. gr. þágildandi laga um meðferð opinberra mála.
Stefndi mótmæli þeim mötum á áverkum, sem fyrir liggi í málinu, enda séu þau alfarið unnin eftir upplýsingum af hálfu stefnanda og í þeim sé gengið út frá því, að stefnandi hafi orðið fyrir líkamsárás af hálfu lögreglumanna. Geti þau á engan hátt skoðazt sem sönnun þess, að lögreglumenn hafi valdið stefnanda tjóni. Eigi þetta t.d. við um mat Sigurjóns Sigurðssonar læknis á dskj. nr. 19. Sé þetta einnig gefin forsenda í álitsgerð Marínós Péturs Hafstein læknis, á dskj. nr. 5. Þá virðist dagsetningar í vottorðum, sem lögð séu fram, ekki standast.
Stefndi mótmæli því sem ósönnuðu, að þeir áverkar, sem getið sé um í dómkröfum, stafi af athöfnum lögreglumanna. Þótt stefnandi hafi sýnt mikla mótspyrnu, hafi lögreglumenn verið mjög fljótir að yfirbuga hann og koma í járn. Á hinn bóginn sé ljóst af lýsingum á áverkum stefnanda, sem þar greini og nefndir séu í dómkröfum stefnanda, að ef sannaðir séu sem afleiðing átakanna, hafi þeir komið til af mótspyrnu hans og mótþróa. Áverkarnir stafi þá augljóslega af því, hversu harða og mikla mótspyrnu stefnanda hafi veitt, svo sem lögregluskýrslur séu samhljóma um.
Verði ekki á sýknukröfu fallizt, byggi stefndi á því, að stefnandi beri stærstan hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar, eins og lýst hafi verið að framan.
Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi, sem og vitnin, Atli Árdal Ólafsson lögreglumaður, Ármann Höskuldsson, yfirmaður sjúkraflutninga á Selfossi, Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn, Davíð Ómar Gunnarsson lögregluþjónn, Guðmundur Hjörvar Jónsson lögregluvarðstjóri, Hallgrímur Sigurðsson, þáverandi starfsmaður stefnanda, Trausti Daði Karlsson verkamaður og Páll Sigurðsson skipstjóri og þáverandi starfsmaður stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar annars vegar á 176. gr. laga nr. 19/1991 og hins vegar á skaðabótalögum nr. 50/1993. Er af hálfu stefnda á því byggt, að kröfur, sem reistar eru á 176. gr. þágildandi laga nr. 19/1991, séu fyrndar.
Með vísan til 181. greinar laga nr. 19/1991 er fallizt á með stefnda, að kröfur stefnanda, sem reistar eru á 176. gr. laganna, séu fyrndar, en stefnandi var sýknaður af ákæru vegna meints brots, sem m.a. var tilefni handtökunnar, með dómi Hæstaréttar, upp kveðnum 16. maí 2007.
Stefnandi var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa gert lögreglumanni tálmanir í að gegna skyldustarfi sínu, eins og nánar er lýst í ákæru. Með dómi Hæstaréttar í því máli, nr. 21/2007, var ákærði sýknaður, þar sem ekki var talin komin fram lögfull sönnun þess, að hann hefði gerzt sekur um þau atriði, sem ákæran laut að.
Ágreiningur er um málsatvik, svo sem fyrr er rakið, en í framangreindum dómi Hæstaréttar er því m.a. slegið föstu, að eftirfarandi málsatvikalýsing sé rétt: Þegar lögreglan hafi ítrekað verið búin að segja ákærða, að þeir þyrftu að ná til ökumanns [...], þar sem þeir vissu ekki deili á honum, hefði hann einungis bent í áttina að Lyngási og sagt: „Strákar, hliðið er þarna.“ Lögreglumennirnir hefðu, þegar þarna var komið, séð, að engu skynsamlegu sambandi yrði náð við ákærða, þar sem hann hafi verið fastur á þeirri skoðun, að lögreglan væri inni á svæðinu í heimildarleysi. Hefðu þeir því farið frá bifreið ákærða að lögreglubifreið Atla, sem fyrstur kom á staðinn. Í framhaldinu hafi önnur dráttarvélin, sem var með kartöfluupptökuvélina með færibandsrananum, ekið úr kartöflugarðinum áleiðis að garðinum, þar sem ökumaður [...] var að vinna. Þegar vélin ók fram hjá lögreglubifreiðinni, þar sem Sveinn Kristján stóð, hafi ökumaður vélarinnar sett færibandsranann í gang, þannig að töluvert magn af kartöflum hrundi yfir lögreglumanninn og lögreglubifreiðina. Hafi Sveinn Kjartan þá kallað til hinna lögreglumannanna, sem voru á staðnum, og beðið þá að stöðva vélina og ræða við ökumanninn. Þá hafi ákærði stokkið út úr bifreið sinni og á eftir lögreglumönnunum. Ákærði hefði verið mjög æstur, og því hefðu þrír lögreglumenn tekið ákærða og sett hann í lögreglutök. Ákærði hafi brotizt um og reynt að sleppa frá þeim, þannig að lögreglumennirnir hefðu lagt hann á jörðina og sett í handjárn.
Þá er því slegið föstu í dómi Hæstaréttar, að ljóst sé, að ákærði hafi truflað störf lögreglumanna á vettvangi, enda þótt hann hafi verið sýknaður af ákæruatriðum, sem lutu að því að hafa tálmað störf lögreglumanns með því annars vegar að loka hliði að akrinum með streng og leggja bifreið fyrir hliðið, og hins vegar að hafa ýtt við lögreglumanni, þar sem hann var að reyna að hafa tal af ökumanni dráttarvélar, og þvingað hann upp að dráttarvélinni.
Við skýrslutökur fyrir dómi komu fram misvísandi lýsingar á því, hvaða lögreglumaður það var, sem stóð uppi á vélinni að tala við Pál, þegar átökin hófust, sem urðu tilefni handtöku stefnanda, en hins vegar er ljóst, með vísan til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar, sem og með hliðsjón af framburði lögreglumanna fyrir dómi, að stefnandi átti upptökin að þeim atburði, með afskiptum af störfum lögreglumannanna við skyldustörf sín og truflun.
Það er ósannað, að lögreglumennirnir hafi brotið gegn 13. og 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, eða meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að beita stefnanda meira harðræði, en tilefni gafst til, eða að handtakan hafi verið án tilefnis, þegar litið er til þess mikla mótþróa, sem stefnandi sýndi, þegar lögregla var að sinna löggæzlustörfum, en af skýrslutökum og gögnum málsins þykir upplýst, að stefnandi streittist á móti, eins og kraftar leyfðu. Þá er ósannað, gegn andmælum lögreglumanna, sem við sögu komu, að fingrum hafi verið stungið upp í nasir stefnanda af tilefnislausu og höfuðið reigt aftur, en ekki er getið um áverka á eða í nösum í læknaskýrslum við komu á sjúkrahús.
Stefnandi byggir á því, að lögreglumennirnir hafi verið inni á kartöfluakri hans án heimildar.
Samkvæmt 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, getur lögregla, í þar tilgreindum tilvikum, farið inn á svæði í einkaeign. Í því tilviki, sem hér um ræðir, var lögregla í óslitinni eftirför á eftir bifreið, sem ekið var á ólögmætum hraða, og er ósönnuð sú fullyrðing stefnanda, gegn andmælum þess lögreglumanns, sem í hlut átti, að ekki hafi verið um óslitna eftirför að ræða. Er ekki fallizt á með stefnanda, að lögreglunni hafi í þessu tilviki, verið óheimilt að fara inn á akurinn, auk þess sem ekkert lá fyrir um eignarhald eða forræði stefnanda á svæðinu.
Samkvæmt framangreindu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt leyfisbréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 27. janúar 2011. Greiðist gjafsóknarkostnaður stefnanda úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans, kr. 700.000, en við þá ákvörðun hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenzka ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Karls R. Ólafssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans, kr. 700.000.