Hæstiréttur íslands

Mál nr. 80/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Lánssamningur
  • Veð
  • Meðalganga


Miðvikudaginn 19. febrúar 2014.

Nr. 80/2014.

Avenue A ehf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Austurbraut ehf. og

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

EA fjárfestingarfélagi ehf.

(enginn)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Lánssamningur. Veð. Meðalganga.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A ehf. um að því yrði heimiluð meðalganga í máli um kröfu Ab ehf. á hendur F ehf. við slit þess síðarnefnda. A ehf. átti veðrétt í kröfum E ehf. á hendur Ab ehf. samkvæmt tveimur lánssamningum. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að sem veðhafi nyti A ehf. réttar til að grípa til ráðstafana til verndar óbeinum eignarréttindum sínum, sbr. dóm réttarins frá 13. nóvember 2003 í máli nr. 106/2003. Ljóst væri að A ehf. hefði ótvíræða hagsmuni af því að hafnað yrði kröfu Ab ehf. um að lánssamningarnir yrðu ógiltir þar sem verðmæti hins veðsetta myndi óhjákvæmilega skerðast eða jafnvel verða að engu við það. Yrði jafnframt talið að hagsmunir A ehf. sem veðhafa og E ehf. færu ekki að öllu leyti saman. Með skírskotun til þessa hefði A ehf. lögmæta hagsmuni af því að því yrði heimiluð meðalganga í máli Ab ehf. og E ehf. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2014 sem barst héraðsdómi degi síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimiluð meðalganga í máli vegna ágreinings um kröfu varnaraðilans Austurbrautar ehf. á hendur varnaraðilanum EA fjárfestingarfélagi ehf. við slit þess síðarnefnda. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að honum verði heimiluð meðalganga í framangreindu máli. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Austurbraut ehf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerðu varnaraðilarnir með sér lánssamning 28. september 2009, þar sem varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf., sem þá hét MP Banki hf., veitti varnaraðilanum Austurbraut ehf., sem þá var hlutafélag, lán að fjárhæð 442.011.457 krónur sem endurgreiða skyldi 15. júlí 2010. Skilmálum lánsins var síðar breytt 14. janúar 2011 með samkomulagi aðila, þar sem samið var um að höfuðstóll lánsins yrði 485.858.994 krónur, miðaður við 15. júlí 2010, og nýr gjalddagi þess 26. ágúst 2014. Hinn 27. nóvember 2009 gerðu varnaraðilarnir með sér annan lánssamning, þar sem varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. veitti varnaraðilanum Austurbraut ehf. lán að fjárhæð 650.161.425 krónur sem sömuleiðis skyldi endurgreiða 15. júlí 2010. Skilmálum þessa láns var einnig breytt 14. janúar 2011 með samkomulagi aðila, þar sem samið var um að höfuðstóll lánsins yrði 701.668.658 krónur, miðaður við 15. júlí 2010, og nýr gjalddagi þess 26. ágúst 2014. Til tryggingar greiðslu lánanna tveggja ásamt vöxtum, verðtryggingu og kostnaði fékk varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. veð í ýmsum eignum varnaraðilans Austurbrautar ehf., auk veðs í hlutafé í nafngreindu hlutafélagi sem var eign annars manns.

 Með yfirlýsingu 1. apríl 2011 veitti varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf., sem þá hét enn MP Banki hf., nb.is-sparisjóði hf., er nú ber heitið MP banki hf., veð í kröfum sínum á hendur varnaraðilanum Austurbraut ehf. samkvæmt áðurgreindum lánssamningum. Samdægurs var þeim síðastnefnda tilkynnt um veðsetninguna.

Varnaraðilinn EA fjárfestingarfélag ehf. var tekið til slita 1. júní 2012 að kröfu stjórnar hans á grundvelli 4. töluliðar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Varnaraðilinn Austurbraut ehf. lýsti kröfu við slitin 16. ágúst 2012, þar sem þess var krafist að viðurkennt yrði að lánssamningarnir tveir yrðu ógiltir auk annarra nánar greindra „viðskipta“ varnaraðilanna. Áður hafði MP banki hf. 14. sama mánaðar lýst veðkröfu við slitin vegna áðurnefndrar veðsetningar á kröfum varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. á hendur varnaraðilanum Austurbraut ehf. samkvæmt lánssamningunum tveimur. Með samningi 21. mars 2013 framseldi MP banki hf. Avenue A ehf. umrædda veðkröfu sína á hendur varnaraðilanum EA fjárfestingarfélagi ehf., en áður hafði slitastjórn varnaraðilans samþykkt framsal kröfunnar fyrir sitt leyti. Í nóvember 2013 mun framsalshafinn Avenue A ehf. hafa runnið inn í sóknaraðila, sem þá hét Bowery ehf., en heiti hans breyttist í Avenue A ehf.

Slitastjórn varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. hafnaði fyrrgreindri kröfu varnaraðilans Austurbrautar ehf. og þar sem ágreiningur aðila varð ekki jafnaður var málinu beint til héraðsdóms eftir 171. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 120. gr. þeirra laga. Í þinghaldi í málinu 22. nóvember 2013 var mætt af hálfu sóknaraðila sem krafðist þess að sér yrði „leyfð meðalganga varnarmegin í málinu“. Jafnframt krafðist sóknaraðili þess að málið yrði fellt niður eða því vísað frá dómi, en að því frágengnu að staðfest yrði afstaða slitastjórnar varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. um að hafna kröfu varnaraðilans Austurbrautar ehf. og „að kröfum Austurbrautar ehf. í dómsmáli þessu verði hafnað og að kröfum Austurbrautar ehf. sem Austurbraut ehf. hefur lýst í slitabú EA fjárfestingarfélags ehf. verði hafnað.“ Eins og áður greinir var þeirri kröfu sóknaraðila að honum yrði heimiluð meðalganga í málinu hafnað með hinum kærða úrskurði.

II

Sóknaraðili heldur því fram að hann hafi brýna og sjálfstæða hagsmuni af því að honum verði játuð meðalganga í málinu, sem rekið er milli varnaraðilanna, vegna þess að hann eigi veð í kröfum varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. á hendur varnaraðilanum Austurbraut ehf., en sú veðkrafa geti hugsanlega fallið niður eða orðið verðlítil ef sakarefnið yrði dæmt þeim síðarnefnda í vil. Hagsmunir sóknaraðila af úrslitum í málinu séu hagsmunir hans eins vegna þess að það varði hagsmuni varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. í raun engu hvort málið vinnist eða tapist þar sem hann hafi þegar viðurkennt veðkröfu sóknaraðila og aðrir kröfuhafar muni því hvorki fá meira né minna í sinn hlut við slit varnaraðilans, ef til kemur, hver sem málsúrslit yrðu. Í rauninni eigi því sóknaraðili og varnaraðilinn Austurbraut ehf. alla þá hagsmuni sem um sé teflt í málinu.

Varnaraðilinn Austurbraut ehf. mótmælir því að sóknaraðila verði heimiluð meðalganga í máli hans og varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. Þótt sá síðarnefndi hafi veðsett sóknaraðila kröfur sínar á hendur varnaraðilanum Austurbraut ehf. þurfi varnaraðilinn ekki að sæta því að sóknaraðili geti, á grundvelli stöðu sinnar sem veðhafi, gengið inn í málið fyrir aukameðalgöngu og haft þar uppi aðrar málsástæður en upphaflegur gagnaðili að því. Með því móti yrði málatilbúnaður gagnaðila í allt öðru horfi en varnaraðilinn þurfi að sætta sig við. Þannig yrði hann hugsanlega að svara mismunandi málsástæðum af hálfu fleiri en eins aðila sem gætu verið ósamþýðanlegar.

III

Máli vegna ágreinings um kröfu varnaraðilans Austurbrautar ehf., sem meðal annars krefst ógildingar á áðurgreindum tveimur lánssamningum milli sín og varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf., var sem fyrr greinir vísað til héraðsdóms eftir 171. gr. laga nr. 21/1991. Er málið rekið þar á grundvelli XXIV. kafla þeirra laga.  Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laganna gilda almennar reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við meðferð slíks máls. Af því leiðir að þriðji maður getur samkvæmt 20. gr. síðargreindu laganna krafist þess að ganga inn í málið, annaðhvort til að fá sakarefnið dæmt sér eða dómur verði annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 10. desember 2009 í máli nr. 663/2009.

Sóknaraðili krefst þess að sér verði leyfð meðalganga í máli því, sem rekið er milli varnaraðilanna, og gerir að auki kröfur er horfa bæði að formi þess og efni. Kröfur sóknaraðila um að málið verði fellt niður eða því vísað frá héraðsdómi eru báðar þess eðlis að slíkt yrði gert sjálfkrafa ef fallist væri á rök hans fyrir þeim. Þótt kröfugerð sóknaraðila, sem lýtur að efni málsins, sé sett fram með þeim hætti að um fleiri en eina kröfu sé að ræða, er fallist á með héraðsdómi að sóknaraðili sé í raun að krefjast þess að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðilans EA fjárfestingarfélags ehf. að hafna kröfu varnaraðilans Austurbrautar ehf. Af þeim sökum verður sóknaraðila því aðeins heimiluð meðalganga í málinu að hann hafi lögvarða hagsmuni af þátttöku í máli varnaraðilanna til verndar rétti sínum, sbr. niðurlag 20. gr. laga nr. 91/1991.

Það er almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings geta einir haft uppi kröfur í tilefni af ætluðum ógildingarástæðum samningsins. Eiga aðrir almennt ekki aðild að slíkum málum, enda þótt þeir kunni að hafa hagsmuni af málsúrslitum. Niðurstaðan getur þó orðið önnur ef atvik og aðstæður mæla með því, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 13. nóvember 2003 í máli nr. 106/2003 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 3928, en í því máli var veðhafa í fiskiskipi talið rétt að standa að málsókn til ógildingar framsals á leyfi skipsins til veiða í atvinnuskyni þótt ekki væri bein heimild til þess í lögum.

Sóknaraðili á sem fyrr segir veðrétt í kröfum varnaraðilans EA eignarhaldsfélags ehf. á hendur varnaraðilanum Austurbraut ehf. samkvæmt lánssamningunum 28. september og 27. nóvember 2009. Sem veðhafi nýtur sóknaraðili réttar til að grípa til ráðstafana til verndar þessum óbeinu eignarréttindum sínum, sbr. áður tilvitnaðan dóm Hæstaréttar. Ljóst er að hann hefur ótvíræða hagsmuni af því að hafnað verði kröfu varnaraðilans Austurbrautar ehf. um að lánssamningarnir verði ógiltir þar sem verðmæti hins veðsetta myndi óhjákvæmilega skerðast eða jafnvel verða að engu við það. Verður jafnframt talið að hagsmunir hans sem veðhafa og varnaraðilans EA eignarhaldsfélags ehf. fari ekki að öllu leyti saman í því máli sem hér um ræðir. Með skírskotun til þessa hefur sóknaraðili lögmæta hagsmuni af því að honum verði heimiluð meðalganga í máli varnaraðilanna. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og fallist á kröfu sóknaraðila eins og í dómorði segir.

Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðilanum Austurbraut ehf. gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sóknaraðila, Avenue A ehf., er heimiluð meðalganga í máli varnaraðila, Austurbrautar ehf. og EA fjárfestingarfélags ehf.

Varnaraðilinn Austurbraut ehf. greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2014.

Þetta mál var þingfest 27. september 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 26. nóvember s.á.

Sóknaraðili er Austurbraut ehf., Skipholti 50d, Reykjavík, en varnaraðili er EA fjárfestingarfélag ehf., Skipholti 50d, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess að eftirfarandi viðskipti séu ógild:

1.       Lánssamningur milli varnaraðila, þá MP Fjárfestingarbanka hf., og sóknaraðila, dags. 28. september 2009 á dómskjali nr. 26, að fjárhæð 442.011.457 krónur.

2.       Handveðsyfirlýsingar frá 28. september 2009 á dómskjölum nr. 27 og 28 sem að efni til fólu í sér að allar eignir sóknaraðila væru nú veðsettar varnaraðila fyrir framangreindu láni. Á dómskjali nr. 27 var sett að veði allt hlutafé í Torpedo Leisure Ltd., skráð á Englandi, og á dómskjali nr. 28 allt hlutafé í Pivnichbudinvest, skráð í Úkraínu.

3.       Yfirtaka sóknaraðila á lánasamningi milli varnaraðila, þá MP banka hf., og OIIL, sbr. dómskjal nr. 29.

4.       Lánasamningur milli aðila, dags. 27. nóvember 2009 á dómskjali nr. 39, að fjárhæð 650.161.425 krónur.

5.       Handveðsyfirlýsingar frá 27. nóvember 2009 á dómskjölum nr. 40 til 42. Dómskjal nr. 40 er um alla fjármálagerninga sóknaraðila á geymslusafni hjá varnaraðila, dómskjal nr. 41 er um hlutabréf í Aurora Holding hf. og dómskjal nr. 42 er um lánasamninga við OIIL.

6.       Kaup sóknaraðila á hlutabréfum í Aurora Holding hf. að nafnverði 4.600.000 krónur 30. nóvember 2009, sbr. dómskjal nr. 44.

7.       Handveðsyfirlýsing (Pledge of Collateral) um hlutabréf í Vostok Holding Netherlands B.V., dags. 30. desember 2009, sbr. dómskjal nr. 49.

8.       Samkomulag milli sóknaraðila og varnaraðila frá 14. janúar 2011 um breytingar á lánakjörum o.fl., sbr. dómskjöl nr. 99 og 100.

Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Í þinghaldi 25. október 2013 lagði sóknaraðili fram greinargerð ásamt þar tilgreindum fylgiskjölum sem urðu dómskjöl nr. 7 til 100. Lögmaður varnaraðila óskaði eftir fresti til að skila greinargerð og var málinu frestað í því skyni til föstudagsins 22. nóvember 2013 kl. 9:40 í dómsal 102. Við fyrirtöku málsins þann dag var mætt af hálfu Avenue A ehf. sem krafðist þess að gerast meðalgönguaðili í málinu. Af hálfu varnaraðila var ekki tekin afstaða til kröfu um meðalgöngu á þessu stigi. Af hálfu sóknaraðila var kröfu um meðalgöngu í málinu hafnað í þinghaldinu. Af hálfu varnaraðila hefur greinargerð ekki verið skilað.

                Í málinu er þess krafist af hálfu Avenue A ehf. að félaginu verði heimiluð meðalganga varnarmegin og að úrskurður verði felldur þannig að réttur félagsins verði verndaður.

                Verði fallist á kröfu Avenue A ehf. um meðalgöngu eru eftirfarandi dómkröfur gerðar:

2.       Avenue A ehf. krefst þess að þetta mál verði fellt niður vegna útivistar sóknaraðila.

2.       [sic] Avenue A ehf. krefst þess að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi.

4.       [sic] Avenue A ehf. krefst þess að staðfest verði afstaða slitastjórnar varnaraðila um að hafna kröfu sóknaraðila í slitabúið sem kynnt var á fundi í varnaraðila vegna afstöðu slitastjórnar til kröfu sóknaraðila 3. júní 2013.

5.       Avenue A ehf. krefst þess að kröfum sóknaraðila í þessu máli verði hafnað og að kröfum sóknaraðila sem hann hefur lýst í slitabú varnaraðila verði hafnað.

6.       Avenue A ehf. krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila, en verði málið fellt niður eða vísað frá vegna útivistar sóknaraðila krefst hann þess að Einari Gauti Steingrímssyni hrl. og Katrínu Smára Ólafsdóttur hdl. verði gert að greiða málskostnað óskipt.

Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að synjað verði um meðalgöngu Avenue A ehf. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi félagsins í þessum þætti málsins.

Hér til úrlausnar er einungis sá þáttur málsins sem varðar heimild Avenue A ehf. til meðalgöngu í málinu og var málið tekið til úrskurðar 26. nóvember 2013 að afloknum málflutningi lögmanns félagsins til sóknar og lögmanns sóknaraðila til varnar um kröfur aðila í þessum þætti málsins. Til skýringar verður vísað til Avenue A ehf. sem sóknaraðila þessa þáttar málsins en vísað verður til sóknaraðila sem varnaraðila þessa þáttar málsins.

Málavextir

                Hinn 1. júní 2012 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 4. tl. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Björn L. Bergsson hrl. var skipaður í slitastjórn varnaraðila með vísan til 4. mgr. sömu greinar. Eftir innköllun slitastjórnar sem birtist í Lögbirtingablaði lýsti varnaraðili þessa þáttar málsins kröfu sem auðkennd er nr. 12 í kröfuskrá varnaraðila. MP banki hf. lýsti einnig kröfu við slitameðferð varnaraðila og er hún auðkennd nr. 6 í kröfuskrá varnaraðila. Sóknaraðili þessa þáttar málsins kveður að Avenue A ehf. hafi keypt kröfuna af MP banka hf. 21. mars 2013. Í nóvember 2013 hafi Avenue A ehf. sameinast Bowery ehf. og hafi hið sameinaða félag tekið upp nafnið Avenue A ehf., og sé það félag sóknaraðili þessa þáttar málsins. Sóknaraðili þessa þáttar málsins segir að kröfu hans hafi verið lýst sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 og byggi á tveimur lánssamningum, dags. 28. september 2009 og 27. nóvember 2009. Þetta séu sömu samningar og varnaraðili þessa þáttar málsins krefjist að ógiltir séu samkvæmt liðum eitt og fjögur í kröfugerð sinni.

                Á kröfuhafafundi 3. júní 2013 kynnti slitastjórn varnaraðila þá afstöðu sína að hafna kröfu varnaraðili þessa þáttar málsins. Varnaraðili þessa þáttar málsins hélt sig við kröfu sína og ákvað slitastjórn varnaraðila að beina ágreiningi um kröfuna til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Varnaraðili þessa þáttar málsins vefengir gildi þeirra löggerninga sem hann krefst að verði ógiltir. Hann byggir á því að til þessara löggerninga hafi verið stofnað með ólögmætum hætti. Þeir menn sem undirrituðu umrædda löggerninga hafi ekki verið til þess bærir og hafi að auki ekki haft heimild til þess að undirrita þá. Varnaraðila hafi verið fullkunnugt um þennan heimildarskort. Varnaraðili þessa þáttar málsins hefur lagt fram kæru til embættis sérstaks saksóknara á hendur tveimur nafngreindum mönnum fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni þar sem ekki væru forsendur fyrir kröfu varnaraðila þessa þáttar málsins. Sóknaraðili þessa þáttar málsins hafnar öllum málsástæðum varnaraðila þessa þáttar málsins sem röngum og ósönnuðum.

Málsástæður sóknaraðila þessa þáttar málsins

                Sóknaraðili þessa þáttar málsins byggir kröfu sína um að vera heimiluð meðalganga í þessu máli á því að hann sé kröfuhafi í slitabú varnaraðila. Krafa sóknaraðila þessa þáttar málsins sé veðkrafa og byggi á veði í kröfum samkvæmt tveimur lánssamningum, dags. 28. september 2009 og 27. nóvember 2009. Þeir lánssamningar séu aftur tryggðir með veðum í öllu hlutafé í Torpedo Leisure Ltd., skráðu í Englandi, veði í öllu hlutafé í Pivnichbudinvest, skráðu í Úkraínu, kröfum á hendur Orange International Investments Ltd. og hlutabréfum í Vostok Holding Netherlands B.V. Sóknaraðili þessa þáttar málsins sé því framveðhafi í þessu hlutafé og kröfum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, og njóti óbeinna eignarréttinda (veðréttinda og framveðs) í hinum umdeildu gerningum. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila þessa þáttar málsins, við munnlegan flutning málsins, að slitastjórn varnaraðila hefði samþykkt kröfu hans. Þá hafi allir aðilar verið sammála um framsal til sóknaraðila þessa þáttar málsins og því sé framsalið lögmætt þrátt fyrir bann við framsali í veðsamningi. Þá sagði lögmaðurinn að þess væri ekki krafist að sakarefnið yrði dæmt honum, heldur að úrskurðað verði honum í hag.

                Leiði úrskurður í þessu máli til þess að umræddir lánssamningar, veðsamningar eða kaup á hlutabréfum í Aurora Holding hf. og á kröfum á hendur Orange International Investments Ltd. verði vefengjanleg eða felld úr gildi kunni þau verðmæti sem sóknaraðili þessa þáttar málsins sé með veð í að tapast í heild eða að hluta. Hagsmunir hans standi því í slíku sambandi við sakarefni þessa máls að ef fallist yrði á kröfur varnaraðila þessa þáttar málsins hefði það bein áhrif á réttarstöðu sóknaraðila þessa þáttar málsins. Úrslit málsins skipti sóknaraðila þessa þáttar málsins sjálfstæðu máli að lögum. Hann verði því að neyta heimilda til meðalgöngu til að vernda rétt sinn. Lögmaður sóknaraðila þessa þáttar málsins sagði við munnlegan flutning málsins að krafa hans væri um aðalmeðalgöngu.

                Samkvæmt 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, verði dómsmál ekki höfðað í héraði gegn varnaraðila. Sóknaraðili þessa þáttar málsins eigi því ekki kost á að stefna sér inn í þetta mál með meðalgöngustefnu, sbr. 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómvenja sé fyrir því að í ágreiningsmálum um skipti á þrotabúum og slit fjármálafyrirtækja sæki sá aðili sem vill gerast meðalgönguaðili þing í málinu og krefjist þess að hann fái að gerast meðalgönguaðili og leggi fram bréf þess efnis, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 663/2009, 638/2010 og 142/2011.

                Í þessum hæstaréttardómum hafi almennir kröfuhafar viljað styðja slitastjórn sem hefði hafnað kröfu eins kröfuhafa sem forgangskröfu. Talið hafi verið að almennu kröfuhafarnir hefðu ekki fært fram haldbær rök fyrir því að þeir hefðu af öðrum sökum lögvarða hagsmuni af þátttöku í málinu. Þetta mál sé öðruvísi vaxið þar sem sóknaraðili þessa þáttar málsins sé sé ekki bara almennur kröfuhafi sem hafi sömu hagsmuni og slitabúið sjálft heldur sé hann með veð í þeim löggerningum sem krafist sé viðurkenningar á að séu ógild viðskipti. Því sé óhjákvæmilegt að heimila sóknaraðila þessa þáttar málsins að gæta þessara hagsmuna sinna sem séu sjálfstæðir og ólíkir hagsmunum varnaraðila.

                Þá sé sóknaraðili þessa þáttar málsins eini veðkröfuhafi við slitameðferð varnaraðila en allir aðrir kröfuhafar séu almennir kröfuhafar. Hinir almennu kröfuhafar gætu því hagnast á því að varnaraðili þessa þáttar málsins vinni þetta dómsmál, verði það til þess að veð sóknaraðila þessa þáttar málsins í umræddum lánssamningum verði að engu. Hagsmunir varnaraðila almennt og sóknaraðila þessa þáttar málsins fari því ekki saman.

                Loks hafi sóknaraðili þessa þáttar málsins ekki haft tilefni til að mótmæla afstöðu varnaraðila til kröfu varnaraðila þessa þáttar málsins, sbr. 2. málslið 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, vegna þess að sóknaraðili þessa þáttar málsins sé sammála varnaraðila um að hafna kröfunni.

Málsástæður varnaraðila þessa þáttar málsins

                Við munnlegan flutning málsins vísaði lögmaður varnaraðila þessa þáttar málsins til þess að sóknaraðili þessa þáttar málsins krefðist þess ekki að honum yrði dæmt sakarefnið. Sóknaraðili þessa þáttar málsins krefjist aukameðalgöngu. Veðsamningur dags. 1. apríl 2011 sé milli varnaraðila, sem þá hét MP banki hf., og nb.is sparisjóðs hf., sem nú heiti MP banki hf. Samningurinn feli einungis í sér veðsetningu á kröfum varnaraðila til varnaraðila þessa þáttar málsins samkvæmt lánssamningum dags. 28. september 2009 og 27. nóvember 2009. Ekki sé veitt sjálfstætt veð í eignum í Úkraínu. Þeim sem lýsti veðkröfu við slitameðferð varnaraðila hefði verið í lófa lagið að mótmæla kröfu varnaraðila þessa þáttar málsins, hefði hann talið sig eiga sjálfstæð réttindi. Sá sem ekki taki afstöðu við slitameðferð tapi þeim réttindum. Sóknaraðili þessa þáttar málsins hafi ekki mótmælt á skiptafundum. Slíkt sé skilyrði fyrir aðild að ágreiningsmáli samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Í þessu máli sé nákvæmlega sama staða uppi og í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 664/2009. Sóknaraðili þessa þáttar málsins vilji breyta málatilbúnaði varnaraðila og búa til nýjar kröfur og málsástæður við hlið hans. Skiptastjóri gæti allra réttinda og sé hlutlaus gagnvart kröfuhöfum. Skiptastjóri styðji ekki almenna kröfuhafa gegn veðkröfuhafa. Sóknaraðili þessa þáttar málsins sé einnig í sömu stöðu og kröfuhafi í dómum Hæstaréttar í málum nr. 398/2011 og 562/2013. Í fyrrnefnda málinu hafi D verið eigandi kröfu á hendur fjármálafyrirtæki en E hafi átt að fá alla þá fjármuni sem yrði úthlutað upp í kröfuna. Báðir aðilar hafi lýst kröfu við slitameðferð fjármálafyrirtækisins. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að D ætti aðild.

                Sóknaraðili þessa þáttar málsins eigi ekki þau veðréttindi sem hann haldi fram. MP banki hf. eigi veðréttindin og hafi verið óheimilt að framselja þau samkvæmt fyrrnefndum veðsamningi. Búið sé að framselja undirliggjandi kröfur að baki veðsetningunni samkvæmt lánssamningum en bankanum hafi ekki verið heimilt að framselja veðréttindin sjálf. Ekkert liggi fyrir um að skiptastjóri hafi samþykkt veðflutning. MP banki hf. eigi að gæta hagsmuna sóknaraðila þessa þáttar málsins sem verði að bíða og sjá til. Þar sem undirliggjandi kröfur hafi verið framseldar verði að taka kröfu sóknaraðila þessa þáttar málsins á kröfuskrá, a.m.k. sem almenna kröfu.

Niðurstaða

Ágreiningur í þessum þætti málsins snýst um heimild sóknaraðila þessa þáttar málsins til þess að ganga inn í mál sóknar- og varnaraðila, sem er ágreiningsmál um meðferð og stöðu krafna á hendur fjármálafyrirtæki í slitameðferð, en slitastjórn fjármálafyrirtækis hefur sambærilegu hlutverki að gegna og skiptastjóri þrotabús við gjaldþrotaskipti, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að því leyti, sem ekki mælir á annan veg í lögunum sjálfum. Þá segir í 1. mgr. 103. gr., að við ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis í slitameðferð gildi sömu reglur um ráðstafanir slitastjórnar og gildi um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti með þeim frávikum, sem leiði af ákvæðum 103. gr., og í 2. mgr. segir, að rísi ágreiningur um slíkar ráðstafanir, skuli leyst úr honum eftir fyrirmælum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Er málið því rekið eftir XXIV. kafla laga nr. 21/1991.

Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 gilda almennar reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við meðferð máls, sem rekið er til að fá leyst úr ágreiningi um viðurkenningu á kröfu við gjaldþrotaskipti. Á þessum grunni getur þriðji maður samkvæmt 20. gr. síðarnefndu laganna krafist þess að ganga inn í mál af þessum toga annaðhvort til að fá sakarefnið dæmt sér eða dómur verði annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 10. desember 2009 í málum nr. 663/2009 og 664/2009.

Kröfur sóknaraðila þessa þáttar málsins varðandi form- og efnishlið þessa máls eru raktar hér að framan. Varðandi formhlið málsins krefst sóknaraðili þessa þáttar málsins þess að málið verði fellt niður vegna útivistar varnaraðila þessa þáttar málsins en til vara að málinu verði vísað frá dómi. Skilja verður dómkröfur sóknaraðila þessa þáttar málsins um efni málsins þannig að hann krefjist þess að kröfum varnaraðila þessa þáttar málsins verði hafnað og að staðfest verði afstaða slitastjórnar varnaraðila um að hafna kröfu hans. Sóknaraðili þessa þáttar málsins krefst því aukameðalgöngu. Almennt hefur verið talið að afskipti þriðja manns af dómsmáli annarra eigi yfirleitt engan rétt á sér, enda sé henni almennt ofaukið ef hún á sér einvörðungu stað til þess að taka undir kröfu annars hvors aðilans. Þannig verður að gera strangar kröfur til þess að þriðji maður sýni fram á brýna og sjálfstæða hagsmuni sína af því að úrslit máls verði á tiltekinn veg, til þess að krafa um aukameðalgöngu verði tekin til greina. Þriðji maður þarf með öðrum orðum að sýna fram á að úrslit málsins skipti hann sjálfstæðu máli að lögum.

Sóknaraðili þessa þáttar málsins hefur aldrei mótmælt afstöðu slitastjórnar varnaraðila um að hafna kröfu varnaraðila þessa þáttar málsins. Þegar af þeirri ástæðu getur hann ekki látið ágreining málsaðila til sín taka fyrir dómi á grundvelli almennrar reglu síðari málsliðar 1. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, sem hér á við samkvæmt 4. mgr. 102. gr laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 663/2009 og 664/2009.

Í þessu máli háttar svo til að sóknaraðili þessa þáttar málsins kveðst eiga veðréttindi í kröfum varnaraðila á hendur varnaraðila þessa þáttar málsins samkvæmt tveimur lánssamningum, dags. 28. september 2009 og 27. nóvember 2009. Eru það sömu lánssamningar og sóknaraðili krefst ógildingar á í þessu máli samkvæmt liðum 1 og 4 í kröfugerð hans. Fyrir liggur að slitastjórn varnaraðila hefur samþykkt kröfu sóknaraðila þessa þáttar málsins með umkrafinni rétthæð og er ekki komið fram að varnaraðili þessa þáttar málsins eða aðrir kröfuhafar hafi mótmælt þeirri afstöðu á skiptafundum. Verður því að leggja til grundvallar að sóknaraðili þessa þáttar málsins eigi veðkröfu gagnvart varnaraðila. Ekki er hægt að fallast á það með sóknaraðila þessa þáttar málsins að hann hafi brýna og sjálfstæða hagsmuni af þeirri ástæðu einni að hann eigi veðkröfu gagnvart varnaraðila. Slitastjórn varnaraðila ber að sýna öllum kröfuhöfum hlutleysi og er ekki heimilt að styðja almenna kröfuhafa gagnvart kröfuhöfum sem eiga rétthærri kröfur, jafnvel þótt aðeins sé um einn kröfuhafa að ræða. 

Samkvæmt umræddum veðsamningi á lántaki að greiða veðsala allar greiðslur samkvæmt þeim lánssamningum sem um ræðir. Að þessu leyti er aðstaðan önnur en staða kröfuhafa í dómum Hæstaréttar í málum nr. 398/2011 og 562/2013. Að mati dómsins verður þó ekki fram hjá því horft að sóknaraðili þessa þáttar málsins er veðhafi en hann er ekki aðili að þeim lánssamningum sem veðsamningurinn tekur til. Ekki verður lesin út úr 2. mgr. 6. gr. eða 3. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð ráðagerð um að veðhafi veðsettrar fjárkröfu eigi með meðalgöngu að geta skipt sér af ágreiningi milli aðila um kröfuna. Sóknaraðili þessa þáttar málsins hefur því að mati dómsins ekki sýnt fram á að hann hafi slíka hagsmuni af því að úrslit þessa máls verði á tiltekinn veg að honum verði heimiluð meðalganga. Verður því að hafna kröfu hans um að honum verði heimiluð meðalganga í þessu máli.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila þessa þáttar málsins gert að greiða varnaraðila þessa þáttar málsins málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi þessa þáttar málsins, vera hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila þessa þáttar málsins, Avenue A ehf., um meðalgöngu í þessu máli, er hafnað.

Sóknaraðili þessa þáttar málsins greiði varnaraðila þessa þáttar málsins, Austurbraut ehf., 100.000 krónur í málskostnað.