Hæstiréttur íslands
Mál nr. 599/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. ágúst 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 21. september 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. ágúst 2016.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fæddur . [...], verði gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 21. september 2016, kl. 16.00.
Af hálfu kærða er kröfunni mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að hann hafi til rannsóknar aðild kærða á innflutningi á ávana- og fíkniefnum. Rannsókn málsins hafi hafist þriðjudaginn 16. ágúst 2016 í kjölfar tilkynningar frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um afskipti af kærða og öðrum aðila, A, á tollhliði vegna gruns um að þeir kynnu að hafa fíkniefni falin í fórum sínum. Hafi þeir verið að koma með flugi [...] frá [...] í [...].
Við leit í farangri meðkærða hafi fundist hylki með fíkniefnum í. Meðkærði hafi gefið greinargóða lýsingu á kærða við tollverði og sagt að kærði væri ferðafélagi sinn og bróðir. Engin fíkniefni hafi fundist í fórum kærða, hvorki í farangri né innvortis. Meðkærði hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöðina við Hringbraut, Reykjanesbæ. Hann hafi gengist undir röntgenrannsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að kvöldi 16. ágúst 2016. Niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi leitt í ljós að meðkærði hafi haft innvortis yfir 30 pakkningar af ætluðum fíkniefnum.
Efnið sem hafi fundist í farangri meðkærða hafi verið sent til tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og við frumrannsókn hafi það reynst vera kókaín, alls 562,60 g. Efnið sem meðkærði hafi verið með innvortis hafi einnig reynst vera kókaín, alls 306,58 g. Heildarmagn kókaíns hafi því verið 869,18 g.
Sýni efnanna hafi verið send Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði til styrkleikamælingar og frekari rannasóknar en niðurstöður liggi ekki fyrir á þessu stigi málsins.
Við yfirheyrslu yfir kærða hafi hann greint frá því að hann hafi komið hingað til lands til að horfa á fótbolta með frænda sínum. Frændi hans hafi átt að koma með flugi degi seinna, 17. ágúst, og þeir hafi ætlað að hittast á hótelinu sem kærði hafði bókað. Að öðru leyti neiti kærði að tjá sig við lögreglu um málið. Kærði hafi verið yfirheyrður aftur vegna málsins 23. ágúst sl. og hann haldið sig við þann framburð að hann hafi verið að koma hingað til lands á fótboltaleik og að frændi hans hafi átt að koma daginn eftir. Við nánari athugun hafi lögregla ekki fundið neinn sem hafi komið til landsins á því nafni sem kærði gaf upp að væri frændi sinn. Kærði hafi heldur ekki vitað á hvaða fótboltaleik hann væri að koma á. Kærði hafi heldur ekki getað gert grein fyrir því hvers vegna hótelbókunin hafi verið tveimur dögum fyrr en hann kom til landsins og þær skýringar sem hann hafi gefið væru mjög ótrúverðugar.
Meðkærði hafi lýst því í skýrslutöku að hann væri einungis burðardýr og að hann hafi verið neyddur til fararinnar þar sem maður að nafni B hafi hótað fjölskyldu hans. Meðkærði lýsi því að honum hafi verið sagt að maður myndi fylgja honum alla leið í fluginu og gefa sig fram við hann er þeir væru lentir og komnir í gegnum tollskoðun. Frásögn meðkærða sé að mati lögreglu mjög trúverðug.
Rannsókn lögreglu beinist nú að því að ná utan um þá starfsemi sem lögregla telur að kærði standi að, þ.e. umfangsmikilli og skipulagðri brotastarfsemi er snúi að innflutningi fíkniefna hingað til lands.
Sem stendur séu í gangi viðkvæmar rannsóknaraðgerðir sem snúi m.a. að hótel bókun kærða. Upplýsingar hafi fundist í fórum kærða um að hann ætti bókuð tvö herbergi á hóteli í Reykjavík. Lögreglu gruni að herbergin hafi verið ætluð kærða og meðkærða. Lögregla vinni nú að frekari upplýsingaöflun varðandi hótelbókunina og einnig varðandi kaupin á flugmiðum þeirra beggja. En fyrir liggi að bæði kærði og meðkærði hafi bókað flug með stuttum fyrirvara og sama dag, 15. ágúst sl. Að auki sé unnið að því að fá dómsúrskurði til að komast í farsíma sem kærði og meðkærði hafi haft meðferðist við komuna til landsins.
Að öllu framansögðu sé það mat lögreglu að framburður kærða sé í verulegum atriðum í ósamræmi við framburð meðkærða varðandi veigamikil atriði málsins. Það sé jafnframt mat lögreglu að kærði hafi verið full meðvitaður um að meðkærði hefði fíkniefni falin í líkama sínum og hann hafi verið einskonar fylgdarmaður meðkærða.
Rannsókn málsins sé í fullum gangi og sé kærða gefið að sök að hafa átt beina aðild að innflutningi á hættulegum ávana- og fíkniefnum hingað til lands og teljist meint háttsemi kærða varða við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/19402.
Kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, virðist ekki hafa tengsl við nokkurn mann hér á landi, önnur en þau sem hann hafi greint frá við skýrslutökur í málinu. Í ljósi þess og alvarleika þeirra brota sem kærða sé gefið að sök, telur lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér undan með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans er til meðferðar innan réttarkerfisins. Af þessum sökum telur lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, um áframhaldandi farbann sé fullnægt í málinu.
Með vísan til alls framangreinds, b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. og 3. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 21. september kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot sem fangelsisrefsing liggur við, en skýringar hans á ferð hans hingað til lands eru tortryggilegar. Rannsókn málsins er ekki lokið. Kærði hefur engin tengsl við landið og er hætta á að hann muni leynast eða koma sér undan málssókn gangi hann laus ferða sinna, eða torvelda rannsókn. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta farbanni allt til miðvikudagsins 21. september 2016, kl. 16.00.