Hæstiréttur íslands

Mál nr. 501/2004


Lykilorð

  • Laun
  • Stjórnsýsla
  • Aðild
  • Kjaramál
  • Launatengd gjöld


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. maí 2005.

Nr. 501/2004.

Júlíus Sólnes

(Atli Gíslason hrl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Skarphéðinn Þórisson hrl.

Kristín Edwald hdl.)

Háskóla Íslands

(Hörður Felix Harðarson hrl.

Gísli Guðni Hall hdl.)

 

Laun. Stjórnsýsla. Aðild. Kjaramál. Launatengd gjöld.

J starfaði sem prófessor við H og voru launakjör hans ákvörðuð af kjaranefnd. Auk fastra launa átti J þess kost að sækja um úthlutun úr ritlauna- og rannsóknasjóði prófessora, en sjóðurinn naut framlaga frá ríkissjóði sem nam tilteknu hlutfalli af föstum launum prófessora við H. Fallist var á með J að óheimilt hafi verið að draga tiltekin launatengd gjöld frá þeirri fjárhæð sem hann hafði fengið úthlutað úr sjóðnum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. desember 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 128.700 krónur með vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2001 til 28. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags, og að viðurkennt verði með dómi, að stefndu sé óheimilt að draga eftirtalin launatengd gjöld frá úthlutunum til áfrýjanda af heildarframlagi ritlauna- og rannsóknasjóðs prófessora:

Lífeyrisframlag (mótframlag)

11,50%

Tryggingagjald

5,23%

Tryggingagjald af lífeyrisframlagi

0,60%

Mótframlag í séreignasjóð

1,00%

Tryggingagjald af mótframlagi í séreignasjóð

0,05%

Önnur launatengd gjöld

1,30%

Samtals

19,68%

 

Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti. Við málflutning fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá varakröfu sinni í héraði.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með 6. gr. laga nr. 150/1996 um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var kjaranefnd falið að ákveða laun og starfskjör prófessora, enda yrði talið að þeir gegndu því starfi að aðalstarfi. Í úrskurði nefndarinnar um launakjör prófessora 2. júlí 1998 kemur fram, að prófessorar hafi fram til þessa tekið laun samkvæmt kjarasamningum einhvers hinna þriggja félaga háskólakennara við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, en auk þess átt kost á að sækja um greiðslu fyrir rannsóknir umfram vinnuskyldu úr svokölluðum vinnumatssjóði innan hvers háskóla. Mun vinnumatssjóður Háskóla Íslands hafa verið stofnaður 27. apríl 1989. Í úrskurði nefndarinnar var kveðið á um, að nýtt launakerfi skyldi taka gildi frá 1. janúar 1998. Eftir því skyldi prófessorum raðað í flokka á grundvelli stigafjölda samkvæmd matsreglum nefndarinnar og þeir taka mánaðarlaun eftir niðurstöðu þeirrar röðunar. Jafnframt skyldi greiða prófessorum nánar tiltekinn fjölda eininga fyrir fasta yfirvinnu, og heimilt var að greiða þeim nánar tiltekinn fjölda stunda fyrir aðra yfirvinnu. Þá var mælt fyrir um, að 1. janúar 1999 skyldi taka til starfa ritlauna- og rannsóknasjóður prófessora. Var tekið fram, að prófessorar gætu sótt um greiðslur úr sjóðnum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum, en fram til 1. janúar 1999 gætu þeir sótt um greiðslur úr vinnumatssjóðum þeirra háskóla þar sem þeir störfuðu. Um fjármögnun sjóðsins var svofellt ákvæði í 6. tölulið IX. kafla úrskurðarins: „Ríkissjóður skal leggja til sjóðsins (Sum M + Sum E) ´ 0,125, þar sem M eru mánaðarlaun prófessors og E eru fastar einingagreiðslur prófessors.” Í málinu er óumdeilt, að í framangreindu ákvæði felist, að ríkissjóður skuli leggja til sjóðsins 12,5% af föstum launum prófessora, það er mánaðarlaunum og einingum.

 Reglur um sjóðinn voru samþykktar á fundi kjaranefndar 3. nóvember 1999. Í 1. gr. þeirra segir: „Úr sjóðnum renna allar greiðslur frá ríkissjóði samkvæmt ákv. 6. tl. IX. kafla úrskurðarins.” Er þar vísað til úrskurðar kjaranefndar 2. júlí 1998. Samkvæmt 3. gr. reglnanna geta prófessorar sótt árlega um greiðslur úr sjóðnum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum á liðnu almanaksári. Samkvæmt 5. gr. úthlutar kjaranefnd greiðslum úr sjóðnum 1. september ár hvert.

Samkvæmt gögnum málsins sótti áfrýjandi um greiðslur úr sjóðnum fyrir árin 1997, 1998, 1999 og 2000, en úthlutun vegna fyrstu tveggja áranna var samkvæmt bráðabirgðaákvæði verklagsreglna kjaranefndar 3. nóvember 1999. Með bréfi kjaranefndar 24. nóvember 1999 var honum úthlutað 408.552 krónum úr sjóðnum fyrir árin 1997 og 1998, án nokkurs frádráttar. Í bréfi nefndarinnar til áfrýjanda 9. ágúst 2000 vegna rannsókna á árinu 1999 segir, að samkvæmt fjárlögum séu 75.600.000 krónur til úthlutunar úr sjóðnum. Engin úthlutun komi í hlut áfrýjanda, en tekið er fram, að öll launatengd gjöld dragist frá úthlutuninni, þar á meðal tryggingagjald og framlag ríkisins í lífeyrissjóð. Í bréfi nefndarinnar til áfrýjanda 17. ágúst 2001 vegna rannsókna á árinu 2000 er með sama hætti lýst, að samkvæmt fjárlögum séu 93.700.000 krónur til ráðstöfunar úr sjóðnum, en í hlut áfrýjanda komi 1.042.620 krónur. Er tekið fram, að frá þeirri fjárhæð dragist öll launatengd gjöld, þar á meðal tryggingagjald og framlag ríkisins í lífeyrissjóð. Að teknu tilliti til frádráttarins nam endanleg fjárhæð úthlutunarinnar 913.900 krónum. Er fyrri liður í kröfu áfrýjanda mismunur framangreindra tveggja fjárhæða. Frádráttur þessi er 12,35% af úthlutuninni. Stefndu halda því fram að hann hefði átt að nema 19,68%, en sökum mistaka af hálfu stefnda Háskóla Íslands, sem annaðist útborgunina, hafi áfrýjandi fengið meira í sinn hlut úr sjóðnum en til stóð.

Kjaranefnd tók nýja ákvörðun um laun og önnur starfskjör prófessora 11. desember 2001. Um ritlauna- og rannsóknasjóð prófessora voru svofelld ákvæði í 4. tölulið VIII. kafla ákvörðunarinnar: „Ríkissjóður leggur 12,5% af föstum launum prófessora, þ.e. mánaðarlaunum og einingum, í ritlauna- og rannsóknasjóð prófessora. Prófessorar geta sótt um greiðslur úr sjóðnum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum. Greitt er úr sjóðnum samkvæmt reglum sem kjaranefnd setur.”

II.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd með áorðnum breytingum skal kjaranefnd ákveða laun og starfskjör prófessora, enda verði talið að þeir gegni því starfi að aðalstarfi. Skal nefndin ákvarða föst laun fyrir dagvinnu og kveða á um önnur starfskjör, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Er nefndinni þannig ætlað að ákvarða mánaðarlaun og aðrar greiðslur, sem prófessorar taka fyrir störf sín. Eins og að framan er getið tók nýtt launakerfi prófessora gildi 1. janúar 1998, en liður í því var stofnun ritlauna- og rannsóknasjóðs prófessora.

Ritlauna- og rannsóknasjóður prófessora var stofnaður til að greiða prófessorum fyrir vissa tegund yfirvinnu, það er rannsóknir umfram rannsóknarskyldu. Verður því að skýra ákvæði í úrskurði kjaranefndar 2. júlí 1998 og ákvörðun hennar 11. desember 2001, þar sem kveðið er á um framlag stefnda íslenska ríkisins til sjóðsins, í tengslum við önnur ákvæði þeirra, þar á meðal um mánaðarlaun, einingar og aðra yfirvinnu. Ekki er gert ráð fyrir að þessi laun sæti þeim frádrætti, sem um ræðir í þessu máli. Í úrskurði kjaranefndar og reglum þeim, sem hún hefur sett um sjóðinn, er hvergi minnst á launatengd gjöld heldur eingöngu rætt um greiðslur. Í 1. gr. áðurnefndra reglna kjaranefndar um sjóðinn segir, að úr honum renni allar greiðslur ríkissjóðs samkvæmt ákvæði 6. töluliðar IX. kafla úrskurðar nefndarinnar. Samkvæmt orðanna hljóðan er nærlægast að skýra ákvæðið á þann veg, að allar greiðslur ríkissjóðs í sjóðinn skuli renna úr honum aftur til rétthafa án frádráttar. Miðað við hið lögbundna hlutverk kjaranefndar verður að telja að orðið hefði að taka fram með skýrum hætti, ef ætlunin var að draga launatengd gjöld frá úthlutun úr sjóðnum. Við fyrstu úthlutun til áfrýjanda með bréfi kjaranefndar 24. nóvember 1999 var engum frádrætti beitt vegna launatengdra gjalda, en við næstu úthlutun 9. ágúst 2000 var tekið fram, að frá skyldi draga öll launatengd gjöld. Ekki verður séð, að breytt framkvæmd styðjist við formlega ákvörðun kjaranefndar um að breyta þeim reglum, sem hún setti um sjóðinn. Samkvæmt því var óheimilt að skerða úthlutun til áfrýjanda vegna rannsókna hans á árinu 2000 um þá fjárhæð, sem hann sækir í máli þessu. Verður því fallist á fyrri lið í kröfu áfrýjanda.

Eins og hér hagar til má líta svo á, að annar hluti aðalkröfu áfrýjanda gangi lengra en fyrsti hluti hennar og að áfrýjandi hafi af því hagsmuni að lögum að sérstaklega verði fjallað um þá kröfu. Þennan lið í kröfu áfrýjanda verður að skilja þannig, að hann taki aðeins til úthlutana úr ritlauna- og rannsóknasjóði prófessora samkvæmt framangreindum úrskurði kjaranefndar 2. júlí 1998 og ákvörðun hennar 11. desember 2001. Á þeim grundvelli ber að fallast á síðari lið kröfu áfrýjanda.

III.

Stefndi Háskóli Íslands reisir sýknukröfu sína fyrst og fremst á aðildarskorti, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hinn umdeildi frádráttur hafi verið ákveðinn af kjaranefnd, sem sé stjórnvald, er heyri undir íslenska ríkið, og beri stefndi Háskóli Íslands ekki stjórnýslulega ábyrgð á lögmæti þeirrar ákvörðunar. Stefndi íslenska ríkið leggi sjóðnum til fjármuni og hafi þeir aldrei verið í vörslu háskólans. Við framkvæmd úthlutana úr sjóðnum fái starfsmenn háskólans bindandi fyrirmæli frá kjaranefnd, sem þeim sé skylt að hlýta.

Það er lögbundið hlutverk kjaranefndar að ákvarða laun og kjör prófessora við Háskóla Íslands. Launin eru ákvörðuð á grundvelli starfa prófessoranna við háskólann, og stefndi Háskóli Íslands er vinnuveitandi og launagreiðandi áfrýjanda. Stefndi Háskóli Íslands átti í samskiptum við kjaranefnd vegna hagsmuna sinna áður en ákvörðun um ritlauna- og rannsóknasjóð prófessora var tekin með úrskurði nefndarinnar 2. júlí 1998 og annaðist framkvæmd úthlutunarinnar, þar á meðal ákvörðun um þau launatengdu gjöld, sem draga skyldi frá greiðslu. Verður að telja, að stefndi Háskóli Íslands sé réttur aðili málsins.

Samkvæmt framansögðu verða báðir stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda óskipt 128.700 krónur með vöxtum, svo sem í dómsorði greinir. Þá verður viðurkenningarkrafa áfrýjanda tekin til greina.

Stefndu greiði óskipt áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, íslenska ríkið og Háskóli Íslands, greiði óskipt áfrýjanda, Júlíusi Sólnes, 128.700 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2001 til 28. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Viðurkennt er að óheimilt sé að draga eftirtalin launatengd gjöld frá úthlutunum til áfrýjanda samkvæmt úrskurði kjaranefndar 2. júlí 1998 og ákvörðun hennar 11. desember 2001 af heildarframlagi ritlauna- og rannsóknasjóðs prófessora:

Lífeyrisframlag (mótframlag)

11,50%

Tryggingagjald 

5,23%

Tryggingagjald af lífeyrisframlagi

0,60%

Mótframlag í séreignasjóð

1,00%

Tryggingagjald af mótframlagi í séreignasjóð

0,05%

Önnur launatengd gjöld

1,30%

Samtals  

19,68%

Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. ágúst 2004.

Stefnandi málsins er Júlíus Sólnes, [kt.], Tómasarhaga 32, Reykja­vík, en stefndu eru íslenska ríkið, Arnarhváli, Reykjavík og Háskóli Íslands, [kt.], við Suðurgötu í Reykjavík.

Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 11. janúar 2003, sem árituð var um birtingu af lögmönnum stefndu hinn 20. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 28. sama mánaðar. Málið var upphaflega dómtekið 11. júní 2003 að afloknum munnlegum málflutningi. Því lauk með dómi 30. sama mánaðar.

Stefnandi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, sem lauk dómi á málið 11. mars sl. (mál nr. 365/2003) og ómerkti dóm héraðsdóms og vísaði málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Málið var flutt að nýju 25. júní sl. og dómtekið að afloknum munnlegum málflutningi. Dómkröfur málsaðila eru óbreyttar, en þær eru þessar:

Dómkröfur:

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

Aðallega:

1.                         Að stefndu verði gert að greiða stefnanda 128.720 krónur með vöxtum skv. II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2001 til 28. janúar 2003 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, skv. III. kafla laga nr. 38/2001.

2.                         Að viðurkennt verði með dómi, að stefndu sé óheimilt að draga eftirtalin launatengd gjöld frá úthlutunum til stefnanda af heildar­framlagi ritlauna- og rannsóknasjóðs prófessora: 

Lífeyrisframlag                                                              11,50%

                         Tryggingagjald                                                               5,23%

                         Tryggingagjald af lífeyrisframlagi                                0,60%

                         Mótframlag í séreignasjóð                                1,00%

                         Tryggingagjald af mótframlagi í séreignasjóð            0,50%

                         Önnur launatengd gjöld                                                1,30%

             Samtals                                                                           19,68%

Til vara:  Að stefndu verði með dómi gert skylt að skila lífeyrisframlagi, 11,5%, og mótframlagi í séreignasjóði, 1%, af úthlutun til stefnanda af heildarframlagi ritlauna- og rannsóknasjóðs prófessora fyrir árin 1997, 1998 og 2000 til lífeyrissjóðs stefnanda.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hver sem úrslit málsins verða.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að mati dómsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Málavextir eru í aðalatriðum, sem hér segir:  Með lögum nr. 150/1996 var sú breyting gerð á 8. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, að kjaranefnd skyldi ákveða laun og starfskjör prófessora, enda verði talið, að þeir gegni þeim störfum að aðalstarfi, eins og segir í 2. mgr. 8. gr. Hinn 2. júlí 1998 kvað kjaranefnd upp fyrsta úrskurð sinn um launakjör prófessora. Þar var m.a. ákveðið, að settur yrði á stofn sérstakur sjóður, ritlauna- og rannsóknasjóður prófessora (eftirleiðis ritlaunasjóður), sem annast skyldi greiðslur til prófessora fyrir rannsóknir og stjórnun. Sá sjóður tók við af svonefndum vinnumatssjóðum, sem stofnsettir voru á árinu 1989. Í 6. tl. IX. kafla úrskurðarorða kjaranefndar er svohljóðandi ákvæði um ritlauna­sjóðinn: Hinn 1. janúar 1999 skal taka til starfa ritlauna- og rannsóknarsjóður prófessora. Prófessorar geta sótt um greiðslu úr sjóðnum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum. Kjaranefnd mun setja reglur um sjóðinn.  Ríkissjóður skal leggja til sjóðsins (Sum M+Sum E) x 0.125, þar sem M eru mánaðarlaun prófessors og E-fastar einingagreiðslur prófessors. Fram til 1. janúar 1999 geta prófessorar sótt um greiðslur úr vinnumatssjóðum þeirra háskóla sem þeir starfa við, samkvæmt reglum sem um þá sjóði gilda.  Svonefndar matsreglur kjaranefndar fylgdu úrskurði hennar sem fylgiskjal I. Kjaranefnd samþykkti síðan reglur um úthlutanir úr ritlaunasjóðnum á fundi 3. nóvember 1999. Þar var m.a. tekið fram, að úr sjóðum renni allar greiðslur frá ríkissjóði, samkvæmt ákv. 6. tl. IX. kafla úrskurðarins, að kjaranefnd njóti aðstoðar þriggja manna ráðgjafanefndar við undirbúning úthlutunar úr sjóðnum, og að kjaranefnd úthluti greiðslum úr sjóðnum 1. september ár hvert.  Kjaranefnd samþykkti sama dag verklagsreglur um úthlutanir úr sjóðnum.  Þar kemur fram, að greiðslur úr sjóðnum skuli miðast við fjölda rannsóknastiga prófessora umfram tíu stig á ári miðað við að rannsóknaskylda sé 40% af vinnuskyldu þeirra. Sé hlutfall rannsóknaskyldu hærra, hækki lágmarksstigafjöldi hlutfallslega.

Hvorki í áðurnefndum úrskurði kjaranefndar né í starfs- og úthlutunarreglum, sem nefndin síðar setti, er vikið að því, að lögbundin launatengd gjöld skuli koma til frádráttar við úthlutun. Ágreiningur málsaðila lýtur eingöngu að því álitaefni.

Með bréfi kjaranefndar, dags. 24. nóvember 1999, var stefnanda tilkynnt um úthlutun til hans úr ritlaunasjóðum fyrir árin 1997 og 1998. Úthlutun vegna ársins 1997 nam 362.108 kr., en 46.444 kr. vegna ársins 1998, samtals 408.552 kr. Árið eftir var stefnanda tilkynnt um það með bréfi kjaranefndar, dags. 9. ágúst 2000, að hann fengi enga úthlutun úr sjóðnum vegna rannsóknarstarfa hans ársins á undan, og ástæður þess tilgreindar (rannsóknastig innan við 10). Í bréfinu kemur fram, að launatengd gjöld skuli dragast frá þeirri upphæð, sem  úthlutað sé úr sjóðum til viðkomandi prófessors. Einnig er þess getið, hvaða fjárhæð hafi runnið til sjóðsins af fjárlögum og hvernig henni sé ráðstafað hlutfallslega til umsækjenda. Með bréfi, dags. 17. ágúst 2001, var stefnanda tilkynnt um fyrirhugaða úthlutun ársins 2001 vegna rannsóknarstarfa fyrra árs. Þar segir svo orðrétt: Samkvæmt fjárlögum eru 93.700 þúsund krónur til ráðstöfunar í ár. Sú upphæð deilist á 3325,2 stig og greiðast því 28.179 krónur fyrir hvert umreiknað stig. Í yðar hlut koma 1.042.620 krónur, en frá þeirri upphæð dragast öll launatengd gjöld þar á meðal tryggingagjald og framlag ríkisins í lífeyrissjóð.

Frádráttur sá, sem stefnandi varð að sæta vegna launatengdra gjald, nam 128.720 kr., sem er sú fjárhæð, sem svarar til 1. töluliðs í aðalkröfu hans. Um var að ræða 12,35% þeirrar fjárhæðar, sem stefnandi fékk úthlutað úr ritlaunasjóðnum, en lögbundinn heildarafdráttur vegna launatengdra gjalda skyldi svara til 19,68% úthlutaðs fjár að sögn stefnda, ríkisins. Mistök hafi valdið lægri afdrætti en lög mæltu fyrir um í tilviki stefnanda.

Þórólfur Þórlindsson, formaður Félags prófessora, ritaði ríkisbókhaldi bréf, dags. 25. mars 2002, og kvað félagið vefengja lögmæti þeirrar ákvörðunar kjaranefndar að draga lífeyrisframlag og tryggingagjald frá úthlutun úr ritlaunasjóði, þegar við­komandi prófessor ætti aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Benti hann á, að greiðslur úr ritlaunasjóðnum tilheyrðu ekki dagvinnu eða vaktaálagi og veittu þær því ekki hlutaðeigandi prófessorum aukin lífeyrisréttindi. Hann vakti einnig athygli á því, að hluti félagsmanna í B-deild LSR nytu svonefndrar 95 ára reglu og auknar greiðslur þeirra til lífeyrisjóðsins hefðu engin áhrif á lífeyrisréttindi þeirra. Í svarbréfi ríkisbókhalds kom fram, að greiðslur úr ritlaunasjóði fari eftir reglum kjara­nefndar og það sé því ekki í verkahring launaafgreiðslu ríkisbókhalds að taka afstöðu til erindis Félags prófessora. Formaður Félags prófessora ritaði einnig kjaranefnd 12. september 2002 vegna sama málefnis og mótmælti starfsaðferðum nefndarinnar um frádrátt vegna lífeyrissjóðsiðgjalda og tryggingagjalds. Svarbréf kjaranefndar liggur ekki fyrir.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að kjaranefnd hafi verið óheimilt að draga af launum hans launatengd gjöld við úthlutun til hans 1. september 2001. Frádrátturinn sé and­stæður lögum og venjum  Stefndu beri sem atvinnurekendum að standa skil á öllum þeim gjöldum, sem tilgreind séu í stefnu undir 2. tölulið í aðalkröfu stefnanda. Hvorki í úrskurði kjaranefndar frá 2. júlí 1998, reglum um ritlaunasjóð frá 3. nóvember 1999 né verklagsreglum, dags. sama dag, sé að finna heimild til frádráttarins. Hlutverk kjaranefndar samkvæmt lögum nr. 120/1992 sé að ákveða laun og starfskjör, en alls ekki launatengd gjöld eða frádrátt þeirra af launum.  Auk þess liggi ekki fyrir lög­formlegur úrskurður kjaranefndar um meðferð umræddra gjalda og því bresti nefndina heimild til að ákvarða um frádráttinn. Það verði ekki gert með tilkynningu í bréfum til einstakra prófessora, eins og átt hafi sér stað. Kjaranefnd geti heldur ekki tekið ákvarðanir, sem brjóti gegn skýlausum lagafyrirmælum um mótframlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði, skil á tryggingagjaldi til ríkissjóðs og skil á öðrum launatengdum gjöldum, sem séu launamönnum og launagreiðslum til þeirra óviðkomandi. Ekki verði dregnar af launagreiðslum önnur gjöld en iðgjald launa­manns til lífeyrissjóðs, og hugsanlega félagsgjald til viðkomandi stéttarfélags, en alls ekki mótframlag atvinnurekanda. Greiðslur úr ritlaunasjóði séu launagreiðslur fyrir vinnu í þágu stefnda, sem lúti ákveðnum afkastahvetjandi reglum. Þeim megi jafna við kjarasamning, enda hafi þær verið ákveðnar með úrskurði kjaranefndar, eins og önnur laun prófessora. Frádrátturinn sé því andstæður 11. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 120/1992. Stefnandi bendir á í þessu sambandi, að launatengd gjöld hafi ekki verið dregin af úthlutuðum launum úr vinnumatssjóði, sem var fyrirrennari ritlaunasjóðs, en sama fyrirkomulag hljóti að eiga að gilda um báða sjóðina, enda báðum ætlað að greiða laun fyrir rannsóknarstörf prófessora. Stefnandi hafi því mátt vænta þess, að eins yrði farið með úthlutanir úr ritlaunasjóði, enda hafi engin formleg ákvörðun kjaranefndar gefið tilefni til að ætla annað.

Stefnandi byggir enn fremur á því, að frádráttur launatengdra gjalda sé and­stæður 40. gr. stjórnarskrárinnar, sem leggi bann við því, að skattar séu lagðir á, nema með lögum. Þau lög, sem stefndi vísi til og byggi heimildir sínar á, varði skyldu atvinnurekanda til að innheimta og standa ríkinu skil á umræddum gjöldum, en snúi ekki að hinum almenna launþega. Frádráttur gjaldanna sé því löglaus af þeirri ástæðu, en feli einnig í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sem mæli svo fyrir, að allir skuli jafnir fyrir lögum, (65. gr. stjskr.).

Þá telur stefnandi, að frádráttur vegna lífeyrisframlags stefnanda af úthlutun til hans brjóti í bága við umburðarbréf fjármálaráðuneytisins, dags. 10. febrúar 1998. Þar sé mælt svo fyrir, að ríkið greiði þetta framlag til LSR, en ekki starfsmenn þess.

Stefnandi byggir varakröfu sína á því, að prófessorar greiði lífeyrisiðgjöld af launum ýmist til A- eða B-deildar LSR. Lífeyrisréttur sjóðsfélaga í B-deild miðist alfarið við dagvinnulaun, þannig að iðgjaldagreiðslur af úthlutunum úr ritlauna­sjóðnum skapi engan rétt. Sjóðsfélagar í B-deild greiði lífeyrisframlag sitt einvörð­ungu af dagvinnulaunum og við þau laun miðist mótframlag atvinnurekanda.  Frádráttur lífeyrissjóðsframlags af úthlutun úr ritlaunasjóði skapi stefnanda engan viðbótarlífeyrisrétt, þar sem hann greiði til B-deildar sjóðsins og njóti svonefndrar 95 ára reglu.  Úthlutun til stefnanda úr sjóðnum sé launagreiðsla fyrir rannsóknir utan dagvinnu og umfram vinnuskyldu, sbr. V. kafla í úrskurði kjaranefndar frá 2. júlí 1998 og verklagsreglur, dags. 3. nóvember 1999. Frádráttur lífeyrissjóðsframlagsins og annarra launatengdra gjalda, sem talin séu upp í 2. tl. aðalkröfu, af umræddum úthlutunum, sé því í alla staði ólögmætur og með honum séu úrskurðuð laun stefnanda skert heimildarlaust, og þannig hafi stefndu auðgast með ólögmætum hætti. Samkvæmt reglum ritlaunasjóðsins eigi allar greiðslur frá ríkissjóði að renna úr honum til prófessora.  Stefnandi bendir einnig á í þessu sambandi, að ekkert liggi fyrir um það, að afdregin iðgjöld til LSR hafi skilað sér þangað.

Málsástæður og lagarök stefnda ríkisins.

Stefndi, íslenska ríkið, (eftirleiðis ríkið) bendir á, að kjaranefnd hafi í úrskurði sínum frá 2. júlí 1998 ákveðið að setja á stofn sérstakan sjóð, ritlauna- og rannsóknasjóð prófessora, sem taka ætti við af vinnumatssjóðum viðkomandi háskóla. Nefndin hafi einnig ákveðið, hvernig standa skyldi að fjármögnun sjóðsins, þ.e. að ríkið greiddi til sjóðsins ákveðið hlutfall af launum prófessora, eins og nánar sé skilgreint í úrskurði nefndarinnar. Niðurlag 1. gr. verklagsreglna nefndarinnar frá 3. nóvember 1999 styðji þennan skilning, en þar segi, að úr sjóðnum renni allar greiðslur frá ríkissjóði sam­kvæmt þeirri reglu um fjármögnum, sem kveðið sé á um í úrskurði kjaranefndar. Skýra verði úrskurð kjaranefndar þannig, að kostnaður ríkissjóðs vegna ritlaunasjóðs eigi ekki að vera meiri en svari til fjármögnunar sjóðsins, enda hafi kjaranefndin starfað eftir þeirri reglu. Þessi skilningur og sú framkvæmd, sem tíðkast hafi um greiðslur úr vinnumatssjóði Félags háskólakennara, styðji einnig þessa túlkun. Eðlilegt sé að taka mið af þessu, þar sem sá sjóður sé fyrirmyndin að núverandi ritlaunasjóði prófessora. Í báðum tilvikum sé úthlutun úr sjóðunum til einstakra umsækjenda háð því fjármagni, sem sé til ráðstöfunar hverju sinni, og fjölda umsækjenda og rannsóknarafköstum þeirra.

Úthlutanir úr ritlaunasjóði og vinnumatssjóði Háskóla Íslands teljist til launa, enda sé um greiðslur fyrir vinnuframlag að ræða. Því þurfi að standa skil á launa­tengdum gjöldum af þessum úthlutunum líkt og öðrum launum. Þau geti verið breytileg milli ára, eins og framlögð gögn beri með sér. Gjöldunum sé skipt í fjóra flokka, þ.e. lífeyrissjóðsframlag, tryggingagjald, mótframlag í séreignalífeyrissjóð og önnur launatengd gjöld. 

Um lífeyrissjóðsframlag stefnanda gildi ákvæði viðkomandi laga, sbr. 2. mgr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 139/1997.  Stefnandi sé í B-deild LSR og gildi ákvæði laga nr. 1/1997 með síðari breytingum, að því er hann varðar. Í 3. mgr. 23. gr. laganna sé kveðið á um iðgjald launagreiðanda til B-deildar sjóðsins, þ.e. 6% af föstum launum fyrir dagvinnu, orlofsuppbót og persónuuppbót. Til viðbótar þessu sé sjóðnum heimilt, samkvæmt 5. mgr. 33. gr. að taka við sérstöku iðgjaldi frá launagreiðanda jafnháu því sem svari iðgjaldi launagreiðanda til A-deildar, eins og það sé ákveðið í 4. mgr. 13. gr., sbr. og ákvæði til bráðabirgða, þ.e. 11,5% af öllum launum. Ákveðið hafi verið að nýta þessa heimild til greiðslu viðbótarframlags til B-deildar LSR, eins og sjá megi nánar í framlögðu umburðarbréfi fjármálaráðuneytisins nr. 1/1998.

Lög nr. 113/1990 með síðari breytingum gildi um tryggingagjald. Í 2. gr. sé kveðið á um hundraðshluta tryggingagjaldsins og um gjaldstofninn í III. kafla laganna.

Mótframlag í séreignalífeyrissjóð fari eftir ákvæði 4. mgr. 2. gr. áðurnefndra laga um tryggingagjald, sbr. 1. gr. laga nr. 148/1999. Þar sé kveðið á um lögbundið 10% mótframlag vinnuveitanda af framlagi starfsmanns í séreignasjóð, sem dragast skuli frá tryggingaiðgjaldinu. Þá hafi verið samið um framlög launagreiðanda til viðbótar því lögbundna. Kjaranefnd hafi ákvarðað sams konar viðbótarframlög, sbr. kafla 5 í reglum nefndarinnar frá 27. febrúar 2001.

Önnur launatengd gjöld séu þau, sem samið hafi verið um í kjarasamningum eða ákvörðuð af Kjaradómi eða kjarnefnd, s.s. orlofssjóðsgjald, sjúkrasjóðsgjald, starfsmenntunarsjóðsgjald o.fl.  Sjá megi af framlögðum launayfirlitum, að þessi gjöld séu reiknuð í einu lagi sem tiltekinn hundraðshluti af launum.

Í tilefni þess, að stefnandi skorar á ríkið að upplýsa um skil á afdregnum gjöldum, er því haldið fram af ríkisins hálfu, að öllum afdregnum gjöldum hafi verið skilað til réttra viðtakenda, bæði að því er varðar lífeyrisiðgjöld og önnur gjöld, eins og framlögð gögn beri með sér.

Ríkið bendir á, að því er varðar varakröfu stefnanda, að fjárhæðir iðgjalds­greiðslna hafi ekki bein áhrif á ávinnslu lífeyrisréttinda í B-deild LSR.  Áunnin réttindi miðist við starfshlutfall og mánaðafjölda í starfi.  Fyrir hvert ár í fullu starfi ávinnist 2% og samanlagt hlutfall iðgjaldsgreiðslutímans skapi rétt til lífeyris­greiðslna, sem oftast miðist við áunnið hlutfall af lokalaunum viðkomandi starfsmanns og þeim breytingum, sem þau síðar taka. Þannig sé lítið samhengi milli greiddra iðgjalda og lífeyrisgreiðslna. Allt öðru máli gegni um þá starfsmenn, sem greiði iðgjöld til A-deildar. Þar miðist lífeyrisréttindi við greidd iðgjöld.

Ríkið bendir á, að kjaranefnd hafi vald til að ákveða framlög úr ritlaunasjóði. Í úthlutun til stefnanda hafi komið skýrt fram, að frá úthlutaðri greiðslu skyldi draga öll launatengd gjöld, þar á meðal tryggingagjald og framlag ríkisins í lífeyrissjóð. Þessi ákvörðun hafi verið lögmæt í alla staði og innan valdheimilda nefndarinnar. Jafnræðis hafi verið gætt og úthlutunin byggst á því fjármagni, sem sjóðurinn hafði til ráðstöfunar. Stefnandi hafi í raun fengið meira en honum bar, þar sem mistök hafi átt sér stað og frádráttur launatengdra gjalda í tilviki stefnanda verið lægri en lög hafi staðið til. 

Ríkið telur því með hliðsjón af framansögðu, að sýkna beri það af öllum dómkröfum stefnanda. Stefnandi verði að sæta því sem aðrir í hans sporum, að fé til úthlutunar úr ritlaunasjóði verði einungis sótt í sjóðinn sjálfan.  Sjóðurinn verði algjörlega að standa undir sér sjálfur, hvað varði rétthafagreiðslur og óhjákvæmilegar launatengdar greiðslur, sem fylgja þeim. Fyrirkomulagið geri ekki ráð fyrir því, að ríkið greiði umfram umsamin framlög, t.d. frekari framlög til LSR.  Stefnandi eigi því ekki kröfu til frekari greiðslna úr sjóðnum og því beri að sýkna stefnda, ríkið.

Málsástæður og lagarök stefnda Háskóla Íslands.

Stefndi, Háskóli Íslands (hér eftir háskólinn), byggir sýknukröfu sína á því, að ákvörðun um stofnun ritlaunasjóðs og úthlutanir úr honum falli alfarið innan valdheimilda kjaranefndar. Framlög á fjárlögum til sjóðsins séu á sjálfstæðum lið, sem tilheyri ekki háskólanum.  Ákvörðun um frádrátt launatengdra gjalda við úthlutanir úr sjóðnum, sé tekin af kjaranefnd. Frádrátturinn reiknist sjálfvirkt í launakerfi ríkisins og skil gjaldanna sé í höndum starfsmanna fjármálaráðuneytisins. Starfsmenn háskólans fái bindandi fyrirmæli frá kjaranefnd um framkvæmd greiðslna úr ritlauna­sjóði og hafi engin áhrif á fyrirkomulag þeirra.  Kröfum stefnanda sé því ranglega að honum beint, bæði að því er varðar aðal- og varakröfu hans, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Háskólinn vísar til málsástæðna og lagaraka ríkisins, verði litið svo á, að sýknukrafa hans á grundvelli aðildarskorts fái ekki staðist.

 

Niðurstaða:

 

Ritlauna- og rannsóknasjóður prófessora var settur á stofn með úrskurði kjaranefndar, sem kveðinn var upp 2. júlí 1998. Sjóðurinn skyldi taka til starfa 1. janúar 1999. Kjaranefnd ákvað jafnframt, að ríkissjóður skyldi leggja sjóðnum til fé, sem nema skyldi tilgreindu hlutfalli af launum prófessora. Í úrskurðinum segir enn fremur, að prófessorar geti sótt um greiðslur úr sjóðum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum og að kjaranefnd muni setja reglur um sjóðinn, sbr. 6. kafla í úrskurðarorðum kjaranefndar, sem áður er getið.  Kjaranefnd ákvað á fundi 3. nóvember 1999, hvernig greiðslum úr sjóðnum skyldi háttað. Í 1. gr. þeirra reglna segir, að allar greiðslur frá ríkissjóði skuli renna úr sjóðnum. Í 5. gr. reglna um ritlaunasjóð frá 3. nóvember 1999, segir að kjaranefnd úthluti greiðslum úr sjóðnum 1. september ár hvert. Lögbundið verkefni kjaranefndar er að ákveða laun og starfskjör þeirra ríkisstarfsmanna, sem getið er um í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 með síðari breytingum. Þær ákvarðanir nefndarinnar, sem hafa í för með sér greiðsluskyldu fyrir ríkissjóð, hafa verið teknar með formlegum hætti í formi úrskurða.

Úrskurður kjaranefndar frá 2. júlí 1998, sem hér er til umfjöllunar, tók þá ákvörðun að árlegt framlag ríkissjóðs til ritlauna og rannsóknasjóðs prófessora skyldi nema 12,5% af föstum launum allra prófessora, sjá fyrri umfjöllun.  Greiðsluskylda stefnda, ríkisins, takmarkast því af þeirri ákvörðun, enda hefur kjaranefnd ekki breytt þeirri afstöðu sinni, þrátt fyrir að hafa fellt úrskurð um launakjör prófessora með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2001, eftir að deilur þær upphófust, sem mál þetta varðar.

Eins og áður segir hefur kjaranefnd það verkefni að deila niður á umsækjendur árlegu framlagi ríkissjóðs til ritlaunasjóðs. Greiðslur úr sjóðnum takmarkast við það fé, sem ríkissjóður leggur sjóðnum til hverju sinni og ákveðið er í fjárlögum, sem afmarkaður útgjaldaliður.  Greiðslur til umsækjenda ráðast því af ráðstöfunarfé sjóðsins á hverjum tíma, fjölda umsókna og starfsárangri umsækjanda. Við þá ráðstöfun er kjaranefnd bundin af lögum. Framlög úr ritlaunasjóði eru laun fyrir sérgreind störf prófessora, sem kjaranefnd úthlutar til prófessora. Þau launatengdu gjöld, sem dregin voru frá þeirri fjárhæð, sem stefnanda var úthlutað, eru lögbundin.  Launagreiðanda ber að standa rétthöfum skil á þessum gjöldum. Líta verður á kjaranefnd sem launagreiðanda í þessu tilliti. Henni var því skylt að sjá til þess sem öðrum launagreiðendum, að launatengdum gjöldum væri skilað til lögmæltra viðtakenda af þeim fjármunum, sem hún úthlutaði sem launum og nam árlegu ráðstöfunarfé hennar.

Stefnandi byggir á því, að kjaranefnd geti aðeins tekið ákvarðanir um launakjör í úrskurðarformi. Nefndin hafi ekki tekið þá ákvörðun um að úthlutanir úr ritlaunasjóði skuli sæta frádrætti launatengdra gjalda, heldur hafi formaður hennar einn ákveðið það. Sú ákvörðun sé því ólögmæt og andstæð þeim lögbundnu starfsreglum, sem nefndinni sé ætlað að starfa eftir.

Dómurinn lítur svo á, að kjaranefnd hafi ekki verið skylt að ákveða með úrskurði að fara skyldi að lögum við úthlutanir til umsækjanda úr ritlaunasjóði og hafnar því þessari málsástæðu stefnanda. Einnig er þeirri málsástæðu hafnað, að frádráttur launatengdra gjalda fari í bága við 40. gr. stjórnarskrárinnar, eins og stefnandi heldur fram. Um var að ræða ráðstöfun á ákveðinni fjárhæð, sem ríkissjóður lagði til og var kjaranefnd skylt að fara að eigin reglum og gildandi lögum við þá úthlutun.

Í fjárlögum fyrir árið 2001 (lög nr. 181/2000), undir lið 02-234 var 93,7 milljónum króna varið úr ríkissjóði til ritlauna- og rannsóknasjóðs prófessora.

Kjaranefnd gerði stefnanda grein fyrir þeirri fjárhæð, sem ritlaunasjóður hafi til ráðstöfunar með bréfi, dags. 17. ágúst 2001.  Þar segir einnig, að sú fjárhæð deilist á 3325,2 stig, þannig að 28.179 kr. greiðist fyrir hvert umreiknað stig. Einnig kom fram í bréfinu, að umreiknaður stigafjöldi stefnanda væri 37 stig. Síðan segir í bréfinu, eins og áður er lýst: Í yðar hlut koma 1.042.620 krónur, en frá þeirri upphæð dragast öll launatengd gjöld, þar á meðal tryggingagjald og framlag ríkisins í lífeyrissjóð.

Nefndin valdi það fyrirkomulag að láta koma fram, hvernig árlegu framlagi ríkissjóðs væri ráðstafað með því að úthluta öllu ráðstöfunarfé sínu til rétthafa og draga síðan frá þau lögboðnu launatengdu gjöld, sem henni bar að standa skil á, í stað þess að úthluta aðeins því fé, sem til ráðstöfunar var eftir greiðslu launatengdra gjalda. Hér var aðeins um fyrirkomulagsatriði að ræða, sem lýsti betur að mati dómsins, hvernig ráðstöfun kjaranefndar á framlagi ríkissjóðs væri háttað enda eiga umsækjendur rétt á að fá vitneskju um hvaða aðferðum nefndin beitti við úthlutun ráðstöfunarfjárins. Þessi starfsaðferð nefndarinnar hefur engin áhrif á lögmæti ákvörðunar hennar.

Engu breytir þótt greiðslur úr svonefndum vinnumatssjóðum hafi verið með öðrum hætti, enda lutu þær öðrum reglum.

Eins og áður er lýst var stefnanda gert ljóst þegar á árinu 2000, sbr. bréf formanns kjaranefndar frá 9. ágúst 2000, að launatengd gjöld yrðu dregin frá þeirri fjárhæð, sem úthlutað yrði til viðkomandi umsækjanda. Ekkert liggur fyrir um það, hvort stefnandi hafi þá gert athugasemdir við þessa framkvæmd.

Niðurstaða dómsins er því sú, með vísan til framangreindra sjónarmiða, að kjaranefnd hafi verið heimilt að draga 128.720 krónur frá þeirri fjárhæð, sem kom í hlut stefnanda með þeirri aðferð, sem kjaranefnd beitti.

Ber því að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af kröfu stefnanda samkvæmt 1. tölulið aðalkröfu hans.

Raunar liggur fyrir, að afdregin fjárhæð nam 12,35% af þeirri fjárhæð, sem stefnandi ella hefði fengið, hefði frádrætti ekki verið beitt.

Í 2. kröfulið aðalkröfu stefnanda er lögboðnum launatengdum gjöldum lýst. Þar kemur fram, að þau hefðu átt að svara til 19,68% þeirrar fjárhæðar, sem hlutfallslega kom í hlut stefnanda miðað við framlag ríkissjóðs. Lögmaður ríkissjóðs lýsti því yfir, að mistök kjaranefndar hafi valdið því, að ekki var fullum frádrætti beitt. Við það verði látið sitja gagnvart stefnanda.

Hæstiréttur vísaði málinu heim í hérað m.a. á þeirri forsendu, að ekki hefði verið tekin afstaða til allra málsástæðna stefnanda.

Dómurinn leit svo á, að sú staðreynd, að kjaranefnd hafi farið að lögum og ekki átt annarra kosta völ, en beita þeim frádrætti, sem um er deilt í máli þessu, svari öðrum málsástæðum stefnanda að fullu. Sú afstaða er óbreytt.

Afstaða dómsins til 2. kröfuliðs aðalkröfu stefnanda er sú, að kjaranefnd hafi í raun ekki dregið frá úthlutun stefnanda þau launatengdu gjöld, sem fjallað er um undir þessum kröfulið, heldur dregið þau frá því fé, sem til ráðstöfunar var og greitt stefnanda mismuninn. Þessari kröfu stefnanda er því hafnað.

Eins og áður segir svaraði frádráttur kjaranefndar til 12,35% af þeirri hlut­fallstölu stefnanda miðað við vinnuframlag hans af framlagi ríkissjóðs til ritlaunasjóðs.

Varakrafa stefnanda lýtur að því að gera stefndu skylt að skila lífeyrisframlagi og mótframlagi í séreignasjóði af úthlutun til stefnanda til lífeyrissjóðs stefnanda, eins og nánar er lýst í kröfugerð hans.

Stefndi, ríkið, hefur lagt fyrir dóminn gögn, sem eiga að sýna að þessum gjöldum hafi verið skilað. Gögnin bera ekki með sér svo óyggjandi sé, að um sé að ræða þau iðgjöld, sem stefnandi krefst skila á. Aðeins eru þar sýndar greiðslur án þess að fram komi, hvaða grunnfjárhæð liggi til grundvallar.

Í bréfi frá fjársýslu ríkisins, sem liggur frammi í málinu, dags. 22. júní sl., kemur fram, að launagreiðendagjöld séu reiknuð vélrænt/rafrænt á hverja launafærslu og sé unnin heildstætt fyrir öll laun. Viðbótariðgjald sé fært á viðskiptamannareikning viðkomandi sjóða og innistæðan greidd þeim um 10. hvers mánaðar, ásamt skilagreinum, þar sem fram kemur, hvernig viðbótariðgjaldið skiptist á milli hluta fjárlaga (A-og B). Stefndi, íslenska ríkið, heldur því fram, að umræddum afdregnum iðgjöldum stefnanda hafi verið skilað og framlagt yfirlit sýni að svo hafi verið þótt ekki sé hægt nú að tengja skilin við ákveðna grunnfjárhæð. Vélræn færsla launa feli sjálfkrafa í sér frádrátt lögboðinna launatengdra gjalda.

Dómurinn á þess engan kost að ráða af framlögðum gögnum, hvort umræddum iðgjöldum hafi verið skilað. Upplýsingar þar að lútandi hljóti að liggja hjá viðkomandi lífeyrissjóði, sem stefnandi einn hefur aðgang að.

Rétt þykir, eins og hér stendur sérstaklega á, að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af varakröfu stefnanda, að svo stöddu.

Stefndi, Háskóli Íslands, byggir sýknukröfu sína á því, að úthlutun úr ritlaunasjóði sé alfarið á valdsviði kjaranefndar og háskólinn hafi engin áhrif á það, hvernig úthlutunum sé háttað. Kjaranefnd hafi ein ákveðið úthlutunarreglur og hvernig að úthlutun skuli staðið. Engu breyti, þótt háskólinn sé skráður launagreiðandi stefnanda við útborgun úr ritlaunasjóði. Sú greiðsla hafi ekki verið sótt til fjárheimilda háskólans, heldur hafi sú fjárhæð verið greidd af því fé, sem kjaranefnd hafi verið úthlutað á fjárlögum.

Fallist er á það, að stefndi Háskóli Íslands geti enga aðild átt að þessu máli, þar sem hann verði að hlíta fyrirmælum kjaranefndar um úthlutun úr ritlaunasjóði og komi þar hvergi að.

Því ber að sýkna Háskóla Íslands af kröfum stefnanda á hendur honum.

Rétt þykir, með vísan til 3. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991, að málsaðilar beri hver um sig kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, íslenska ríkið og Háskóli Íslands, eru sýknuð af aðalkröfum stefnanda, Júlíusar Sólness.

Íslenska ríkið er sýknað af varakröfu stefnanda að svo stöddu.

Málskostnaður fellur niður.