Hæstiréttur íslands
Mál nr. 401/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 19. október 2001. |
|
Nr. 401/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X, sem var undir rökstuddum grun um aðild að innbrotum í apótek, þar sem m.a. var stolið sterkum lyfjum er gátu verið lífshættuleg neytendum, var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdómara.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2001.
Ár 2001, miðvikudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Hjördísi Hákonardóttur héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [ . . . ], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. október nk. kl. 16:00.
[ . . . ]
Kærða er grunuð um brot gegn 244. gr almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Ef sök sannast í málum þessum varða brot hennar fangelsisrefsingu. Til stuðnings kröfu sinni vísar fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík til framangreindra málsatvika, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála.
Fallist er á að með framlögðum gögnum og í ljósi þeirra málsatvika sem hér að framan eru rakin sé fram kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi framið brot sem varði við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slík brot varða fangelsisrefsingu. Kærða hefur ekki játað aðild sína, en sterkar vísbendingar eru um hana samkvæmt því sem hér að framan er lýst. Hættulegt þýfi úr einu innbrotanna hefur ekki fundist. Tæknirannsókn er ekki lokið. Ljóst er að nauðsynlegt er að yfirheyra kærðu frekar svo og vitni, og að hætta er á að rannsóknarhagsmunum verði spillt fái kærða að ganga laus. Er því fallist á að nauðsynlegt sé vegna rannsóknarhagsmuna að hún sæti gæsluvarðhaldi. Tímamörkum kröfunnar er í hóf stillt. Er krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærðu, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. október nk. kl. 16:00.