Hæstiréttur íslands

Mál nr. 371/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


           

Föstudaginn 11. júlí 2008.

Nr. 371/2008.

A

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

B

(Eva B. Helgadóttir hrl.)

 

Kærumál. Lögræði.

Úrskurður héraðsdóms um að A skyldi sviptur sjálfræði á grundvelli a. liðar  4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2008, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í 24 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þóknun skipaðs talsmanns hans greidd úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda og talsmanns aðila vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

       Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 300.000 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2008.

          Ár 2008, föstudaginn 4. júlí, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dóm­húsinu við Lækjartorg af Allani Vagni Magnússyni héraðsdómara og úrskurður kveðinn upp í málinu nr. L-26/2008: A gegn B.

          Sóknaraðili er A, [...], Reykjavík. Varnaraðili er bróðir hans, B, [...], Reykjavík, nú sjúklingur á deild 12 geðsviðs LSH á Kleppi.

          Sóknaraðili krafðist þess í bréfi sínu til dómsins 19. júní sl. að varnaraðili verði sviptur sjálfræði ótímabundið á grundvelli a liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1971.

          Krafa sóknaraðila barst dóminum 19. júní. Málið var þingfest 24. júní sl. Í þinghaldi þann dag vék dómari sæti. Í þinghaldinu 24. júní sl. breytti talsmaður sóknaraðila kröfugerð á þann veg að krafist er tímabundinnar sjálfræðissviptingar á grundvelli a-liðar 4. gr. lögræðislaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna í allt 24 mánuði eða jafnvel skemur allt eftir því hvert sé álit sérfræðinga. Í þinghaldi 30. júní sl. tók núverandi dómari við meðferð málsins og kom þá fyrir dóminn Halldóra Jónsdóttir læknir og bar vitni. Í þinghaldi 2. júlí sl. lagði lögmaður varnaraðila fram greinargerð sína. Dómari fór þess á leit við Sigurð Pál Pálsson, geðlækni að hann mæti geðheilbrigði varnaraðila og var greinargerð hans lögð fram í þinghaldi nú í dag. Varnaraðili gaf aðilaskýrslu, en síðan var málið flutt og tekið til úrskurðar.

          Í bréfi sóknaraðila til dómsins segir að varnaraðili hafi verið greindur með langvinnan geðklofasjúkdóm sem hafi farið mjög versnandi undanfarin ár. Varnaraðili sæti nú nauðungarvistun sem renni út hinn 20. júní næstkomandi. Varnaraðili sé mjög ósamstarfsfús varðandi meðhöndlun á sjúkdómi sínum og sé mjög ofbeldishneigður. Sé hann talinn hættulegur sjálfum sér og öðrum. Varnaraðili hafi verið búsettur í félagslegri íbúð að [...], Reykjavík, en sé búinn að missa þá íbúð. Varnaraðili eigi sex systkini og einn hálfbróður og séu þau öll sammála um að brýn nauðsyn sé á sjálfræðissviptingu bróður síns. Foreldrar varnaraðila eru bæði látin. Til þess að eiga möguleika á einhverjum bata sé langtíma endurhæfing nauðsynleg og varnaraðili sé ekki tilbúinn til þess að undirgangast þá meðferð sjálfviljugur. Sé því brýn nauðsyn á að svipta varnaraðila sjálfræði ótímabundið.

          Í niðurstöðukafla vottorðs Halldóru Jónsdóttur geðlæknis, dagsettu 16. júní sl. segir:

„A hefur langvinnan geðklofasjúkdóm. Án viðeigandi lyfjameðferðar verður hann mjög fljótt tortrygginn og telur sig ofsóttan. Það er ljóst af sögu síðustu ára að hann fylgir ekki eftir sinni meðferð sjálfviljugur, hann er búin að vera mjög veikur lengi og hefur ekkert sjúkdómsinnsæi. Til að hann eigi möguleika á einhverjum bata og meiri lífsgæðum er langtíma endurhæfing nauðsynleg. Hann er nú kominn á endurhæfingardeild innan geðsviðs Landspítala og er áætluð innlögn í nokkra mánuði, eða eins lengi og þarf til að hann verði stöðugur i sínum bata.

Ég tel ljóst að án meðferðar á geðdeild nú sé möguleikum hans á að ná bata verulega spillt og styð ég og mæli með beiðni bróður um sjálfræðissviptingu ótímabundið.“

          Læknirinn kom fyrir dóminn samkvæmt framansögðu og staðfesti framangreinda niðurstöðu sína.

          Í niðurstöðukafla greinargerðar Sigurðar Páls Pálssonar, geðlæknis dagsettrar í gær segir:

„1. Það er niðurstaða mín að A þjáist enn af alvarlegum geðsjúkdómi.

2. A hefur geðklofa af aðsóknargerð (paranoid schizophreniu). Hann hefur ekkert stöðugt sjúkdómsinnsæi enn. Hann er nýlega kominn á endurhæfingardeild en virðist hafa verulega róast miðað við skoðun við innlögnina í lok maí 2008.

3. A verður að vistast á geðdeild og fá geðrofslyfjameðferð í lengri tíma til að fá varanlegt innsæi og stöðugleika. Þá síðar gefst eins og áður tækifæri á útskrift út í samfélagið.

4. Fyrri saga og reynsla af geðrænum einkennum A bendir til þess að hann verði að vera undir þéttara og nákvæmara eftirliti en læknar hans hingað til hafa haft möguleika til að framfylgja.

5. Flest bendir til þess að A þurfi á forðasprautum að halda þegar hann útskrifast af geðdeildinni síðar. Til þess að hægt sé að framfylgja mikilvægri lyfjameðferð sem hann hefur sögu um að hafa svarað vel er mikilvægt að meðhöndlandi læknar geti sótt hann og meðhöndlað hann mæti hann ekki til lyfjameðferðar.

6. Miðað við fyrri geðskoðanir, fyrri geðsögu og alvarleg einkenni nú er ótímabundin sjálfræðissvipting réttlætanleg.“      

Varnaraðili hefur andmælt vitnisburði vitnisins Halldóru og greinargerð Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis. Hann segir rangt að hann sé haldinn geðklofasjúkdómi, ber á móti því að hafa hótað fólki eða hagað sér á annan afbrigðilegan hátt og telur því alls engar forsendur fyrir því að verða við kröfu sóknaraðila.

          Af vottorði vitnisins Halldóru Jónsdóttur geðlæknis vætti hennar fyrir dómi og greinargerð Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis þykir dómara alveg vafalaust að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og ófær um að ráða högum sínum. Þá álítur hann að skilyrði a- liðar 4. gr. lögræðislaga eigi við um varnaraðila og að þörf sé á því að svipta hann sjálfræði.  Ber að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli svipt sjálfræði í tuttugu og fjóra mánuði. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða allan málskostnað úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun til talsmanna aðilanna, Evu B. Helgadóttur hrl. og Hilmars Ingimundarsonar hrl., 85.000 krónur til hvors um sig, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá greiðist lögmanni sóknaraðila 81.280 krónur vegna vottorðs Halldóru Jónsdóttur læknis.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

                Varnaraðili, A, [...], Reykjavík, nú sjúklingur á deild 12 geðsviðs LSH á Kleppi, er sviptur sjálfræði í tuttugu og fjóra mánuði.

                Kostnaður af málinu, þar með talin þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna, Evu Bryndísar Helgadóttur hrl., 85.000 krónur, og Hilmars Ingimundarsonar, hrl. 85.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Þá greiðist 81.280 krónur úr ríkissjóði til lögmanns sóknaraðila.