Hæstiréttur íslands
Mál nr. 23/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Föstudaginn 20. janúar 2006. |
|
Nr. 23/2006. |
Kristinn Guðmundsson(Sigmundur Hannesson hrl.) gegn þrotabúi Marafla ehf. (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Hafnað var kröfu K um að Þ yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar þar sem krafan þótti of seint fram komin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. janúar 2006. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði var krafa sóknaraðila um endurupptöku máls Marafla ehf. á hendur honum tekin fyrir í þinghaldi 12. október 2005 og var fallist á kröfuna með úrskurði sama dag. Því næst var málið tekið fyrir 16. nóvember 2005 og bókað í þinghaldi að varnaraðili tæki við aðild málsins af Marafla ehf., þar sem bú félagsins hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta 25. október 2005. Málið var svo tekið fyrir á ný í því horfi 30. nóvember 2005. Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi samkvæmt framansögðu haft vitneskju um hvernig komið var efnahag Marafla ehf. kom í hvorugt sinnið fram krafa af hálfu hans um að varnaraðili legði fram málskostnaðartryggingu og var hennar ekki krafist fyrr en í þinghaldi 14. desember 2005 er sóknaraðili lagði fram greinargerð sína.
Ákvæði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 girða ekki fyrir að hafa megi uppi kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls ef sérstakt tilefni gefst þá fyrst til þess. Samkvæmt því sem áður segir var framangreind krafa hins vegar of seint sett fram. Þegar af þeim sökum verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Kristinn Guðmundsson, greiði varnaraðila, þrotabúi Marafla ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2005.
Mál þetta var þingfest 9. mars 2005 á hendur Kristni Guðmundssyni, persónulega og fyrir hönd Fiskverkunar Kristins Guðmundssonar, Grétari Ingólfi Guðlaugssyni og Aflamarki ehf. Upphaflegur stefnandi var Maröfl ehf., Síðumúla 15, Reykjavík. Stefndu var veittur frestur til að skila greinargerð, fyrst til 13. apríl, en sá frestur var síðan framlengdur til 27. apríl og aftur til 4. maí.
Í þinghaldi 4. maí felldi stefnandi málið niður á hendur stefndu Grétari og Aflamarki ehf. og sama dag var málið dómtekið á hendur stefnda Kristni, þrátt fyrir að þing væri sótt af hans hálfu. Nefndum Kristni er bæði stefnt persónulega og fyrir hönd Fiskverkunar Kristins Guðmundssonar, sem er óskráð einkafirma í eigu stefnda og getur því ekki átt sjálfstæða aðild að dómsmáli. Stefna í málinu var síðan árituð um aðfararhæfi á hendur stefnda Kristni 9. maí, en málið endurupptekið að beiðni stefnda með úrskurði 12. október og honum veittur frestur til að skila greinargerð til 16. nóvember. Áður hafði stefndi lagt fram 400.000 króna málskostnaðartryggingu í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október var bú Marafla ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og í framhaldi var Magnús Guðlaugsson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Hefur þrotabúið því tekið við aðild málsins samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. og 72. gr. og 1. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í þinghaldi 16. nóvember samþykkti skiptastjóri aukinn frest stefnda til að skila greinargerð til 30. nóvember, en sá frestur var svo framlengdur til 14. desember. Á reglulegu dómþingi þann dag lagði stefndi fram greinargerð og krafðist þess meðal annars að stefnanda, nú þrotabúinu, verði gert að setja málskostnaðartryggingu á grundvelli b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála, enda sé að áliti stefnda alls óvíst hvort stefnandi sé fær um að greiða málskostnað í ljósi nefndra gjaldþrotaskipta. Af hálfu stefnanda var kröfunni mótmælt með vísan til 3. mgr. 141. gr. sömu laga. Að auki var vísað til þess að krafan væri allt of seint fram komin, en stefnda hafi borið að setja fram slíka kröfu við þingfestingu málsins og aldrei síðar en í þinghaldi 16. nóvember, þegar málið var fyrst tekið fyrir að lokinni endurupptöku. Var því krafist synjunar dómara á kröfunni.
Við úrlausn þessa afmarkaða ágreiningsefnis vegast á tvær reglur einkamálalaga, annars vegar sú meginregla b-liðar 1. mgr. 133. gr., að stefndi geti ekki komið fram kröfu á hendur stefnanda um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls og hins vegar sú sérregla 3. mgr. 141. gr. laganna, að stefndi skuli „að öðru jöfnu“ dæmdur til að greiða stefnanda allan málskostnað án tillits til þeirrar niðurstöðu sem fæst við endurupptöku einkamáls.
Af athugasemdum er fylgdu frumvarpi til 133. gr. laganna á sínum tíma er ljóst að ef sérstakt tilefni til að setja fram kröfu um málskostnaðartryggingu rís fyrst eftir þingfestingu útiloki lagagreinin ekki að rétt sé að verða við slíkri kröfu stefnda á síðari stigum máls, svo sem ef stefnandi verður ógreiðslufær. Sú staða er nú uppi í þessu máli, en samkvæmt munnlegri yfirlýsingu skiptastjóra í þrotabúi stefnanda er búið eignalaust ef frá er talin aðaldómkrafan í stefnu um greiðslu stefnda á tæplega 44.000.000 króna. Gögn málsins bera ekki með sér að stefnda hafi mátt vera ljóst hve bágur fjárhagur stefnanda var fyrir töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Með hliðsjón af því, skírskotunar til dóms Hæstaréttar 16. nóvember 2001 í máli nr. 427/2001 og gagnályktunar frá dómi réttarins 12. febrúar 2004 í máli nr. 38/2004, þykir hin umþrætta krafa stefnda ekki of seint fram komin.
Úrlausn þessa ágreiningsefnis er þó ekki svo einföld. Svo sem ráða má af fyrri þinghöldum í málinu var það dómtekið, stefna árituð á hendur stefnda og síðar fallist á beiðni hans um endurupptöku málsins í héraði. Fyrrnefnda sérreglu 3. mgr. 141. gr. einkamálalaga ber eðli máls samkvæmt að skýra þröngt, þannig að aðeins í undantekningartilvikum geti sá dómari sem leysir úr efniságreiningi máls að nýju eftir endurupptöku kveðið á um skyldu stefnanda til greiðslu málskostnaðar. Með hliðsjón af því er það álit dómsins að ekki sé efni til að verða við kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu og er því synjað um hana.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Synjað er kröfu stefnda, Kristins Guðmundssonar, um að stefnanda, þrotabúi Marafla ehf., sé skylt að setja fram málskostnaðartryggingu.