Hæstiréttur íslands
Mál nr. 76/2016
Lykilorð
- Hjón
- Skilnaðarsamningur
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 25. nóvember 2015. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 6. janúar 2016 og var málinu áfrýjað öðru sinni 29. þess mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess að ógiltur verði skilnaðarsamningur um eignaskipti, sem hún gerði við stefnda 14. ágúst 2012. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, K, greiði stefnda, M, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2015
I
Mál þetta, sem var dómtekið 27. maí 2015, er höfðað 11. júlí 2014 af K, [..], Reykjavík gegn M, [...], Mosfellsbæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær að skilnaðarsamningur um eignaskipti málsaðila, dagsettur 14. ágúst 2012, verði ógiltur með dómi. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts.
Við þingfestingu máls þessa 4. september 2014 fékk stefndi frest til að skila greinargerð í málinu. Hinn 23. október 2014 lagði lögmaður stefnda fram greinargerð, en málið var fyrst tekið fyrir af undirrituðum dómara 18. nóvember 2014. Því næst var málið tekið fyrir sex sinnum, en í þinghaldi 13. maí sl. var ekki sótt þing af hálfu stefnda. Fékk lögmaður stefnanda frest til að skila skriflegri sókn í málinu, sem hann lagði fram við fyrirtöku þess, 27. maí sl. Málið var þá dómtekið að kröfu stefnanda.
II
Málsaðilar gengu í hjúskap árið 1974 og eignuðust fjögur börn saman sem eru nú öll orðin lögráða. Í stefnu kemur fram að á hjúskapartíma þeirra hafi stefnandi verið heimavinnandi en hafi þó tekið að sér verkefni við [...]. Stefndi hafi starfað um tíma sem framkvæmdastjóri [...] en síðar hafi hann stofnað verkfræðistofuna [...] og verið í fjölbreyttum viðskiptatengdum rekstri.
Hinn 14. ágúst 2012 var aðilum veittur lögskilnaður. Þann sama dag rituðu þau undir samning um skilnaðarkjör sín á milli. Í samningnum kemur fram að heildareign búsins umfram skuldir væru 35.902.469 kr. Samkvæmt samningnum fékk stefnandi 30.000.000 kr. af söluverði fasteignarinnar að [..], Reykjavík, í sinn hlut en stefndi tók að sér að greiða allar áhvílandi skuldir af húsinu og kostnað vegna sölu þess. Það sem eftir stæði af söluvirði fasteignarinnar skyldi renna til stefnda. Þá kæmi fellihýsi í hlut konunnar en innbúi yrði skipt milli aðila. Auk þess segir í samningnum að hlutafé í [...] og hlutdeild í húsi á Spáni komi í hlut mannsins. Var jafnframt tekið fram að lífeyrisréttindi stefnda kæmu ekki til skipta milli aðila og að stefndi tæki að sér að greiða allar aðrar skuldir búsins. Loks lýstu aðilar því yfir að eignir búsins væru ekki aðrar og að um fullnaðaruppgjör væri að ræða.
Með bréfi til stefnda, dagsettu 26. febrúar 2014, var því haldið fram af hálfu lögmanns stefnanda að eignir kynnu að hafa verið verulega vantaldar við gerð skilnaðarsamningsins og leitað eftir samþykki stefnda fyrir því að samningurinn yrði tekinn upp og að stefndi gæfi stefnanda upplýsingar um eignir og aðrar fjárfestingar stefnda, sem að mati stefnanda hefðu átt að koma til skipta.
Með bréfi, dags. 5. mars 2014, hafnaði stefndi því að samningurinn yrði tekinn upp og að gefa stefnanda umbeðnar upplýsingar.
III
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur samninginn bersýnilega ósanngjarnan og samkvæmt honum beri hún skarðan hlut frá borði. Við mat á sanngirni skuli bæði litið hlutlægt á samninginn, sérstaklega á öll frávik frá 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sem og aðdraganda og stöðu aðila við samningsgerð. Eftirfarandi sýni að verulegum verðmætum hafi verið haldið utan skipta:
Stefndi sé einn hluthafi í félaginu [...] og hafi eignin verið hjúskapareign málsaðila. Hlutafé félagsins sé 500.000 kr. Samkvæmt upplýsingum sem stefndi hafi lagt til grundvallar við skilnaðarsamninginn sé „fyrirtækið skuldsett, óvíst með andvirði“. Félagið hafi því ekki verið metið til eigna í skiptasamningnum og hafi stefndi fengið það óskipt í sinn hlut. Félagið eigi samt sem áður eignir langt umfram skuldir. Samkvæmt ársreikningi árið 2012 hafi félagið verið með eigið fé upp á 46.259.165 kr. Þá eigi félagið fastafjármuni sem séu bókfærðir á 24.145.930 kr., þ.á.m. fasteign að [..] í Reykjavík, sem boðin sé til sölu á 86.000.000 kr. Samkvæmt framlögðum gögnum skilaði [...] ehf. góðum rekstrarhagnaði bæði árin 2011 og 2012.
[...] sé félag að öllu leyti í eigu [...]. Hlutafé þess sé 7.000.000 kr. Félagið eigi jörðina [...] og [...] í Eyjafjarðarsveit, sem hafi verið keypt árið 2002 á 13.800.000 kr. Kaupverðið hafi að hluta til verið greitt með söluverði fasteignar sem málsaðilar hafi átt að [...] í Njarðvík. Félagið eigi einnig jörðina [...], sem keypt hafi verið árið 2007 fyrir 35.000.000 kr. Á jörðinni [...] og [...] sé rekinn umfangsmikill búrekstur. Tilkomnar skuldir í búinu séu vegna kaupa á fullvirðisrétti og vegna byggingaframkvæmda, sem auki verulega verðgildi þess. Bent sé á að fullvirðisréttur mjólkur á jörðinni í ágúst 2012 hafi verið 168.368 lítrar og hafi markaðsverðmæti þess verið um 50.000.000 kr. Ekki sé að sjá að fullvirðisréttur sé tilgreindur sem eign í ársreikningum [...]. Þá fylgi jörðinni einnig nokkurt greiðslumark vegna sauðfjár. Félagið skilaði rúmlega 16.000.000 kr. rekstrarhagnaði árið 2012.
Stefndi eigi 25% hlut í sumarhúsi á Spáni. Engar opinberar upplýsingar liggi fyrir um verðgildi hússins og verðmæti eignarhluta stefnda en eignarinnar sé ekki getið í skattframtali. Mynd af húsnæðinu gefi í skyn að húsið sé mikils virði.
Engin gögn liggi fyrir um áunnin lífeyrisréttindi stefnda við slit hjúskapar. Þá hafi stefndi ekki upplýst um séreignarsparnað en stefnandi telji að hér sé um umtalsverð verðmæti að ræða. Stefnandi upplýsir að lífeyrisréttindi hennar séu nánast engin.
Stefndi hafi fengið umtalsverðan arf frá nákomnum sem teljist lögum samkvæmt hjúskapareign enda hafði stefndi ekki tilgreint arfinn sem séreign. Stefndi veitti engar upplýsingar um arfinn við skiptin.
Stefnandi telur að skilnaðarsamningur málsaðila gefi ekki rétta mynd af raunvirði eigna eða stöðu þeirra. Það brjóti gegn jafnskiptareglum hjúskaparlaga og geri því skilnaðarsamninginn ósanngjarnan að stefndi hafi haldið verulegum eignum leyndum og utan skipta og þannig tekið til sín stærstan hluta hjúskapareignar, án vitundar og samþykkis stefnanda. Beri því, með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, að ógilda samninginn.
Stefnandi byggir á því að staða aðila við samningsgerð hafi verið ójöfn. Stefnandi hafi engar upplýsingar haft um umfang eigna eða stöðu búsins enda hafi stefndi haft allt á sinni hendi er varðaði fjárreiður málsaðila í tæp 40 ár. Skilnaðarsamningurinn byggi einvörðungu á þeim gögnum og upplýsingum sem stefndi hafi framvísað. Að lögmaður hafi sett upp samninginn breyti engu enda hafi samningurinn verið settur upp samkvæmt upplýsingum stefnda, án gagnrýninnar eftirgrennslan. Þá beri að líta til þess að stefndi sé þrautreyndur í viðskiptum og hafi haft yfirhöndina í öllum samskiptum aðila. Stefnandi hafi verið félagslega einangruð, lítið menntuð og ekki haft burði til þess að takast á við stefnda um hagsmuni. Til þessa ójafnræðis með aðilum verði að líta við beitingu ógildingarástæðna samningalaga.
Þá vissi stefndi, eða mátti vita, að stefnandi hafi ekki haft yfirsýn yfir fjármál og hjúskapareignir þeirra. Stefndi hafi þannig nýtt sér til ávinnings fákunnáttu stefnanda og vangetu til að afla sér upplýsinga og með því gæta hagsmuna sinna. Þannig sé bersýnilegur mismunur á því sem stefndi fékk í sinn hlut umfram stefnanda. Samningurinn verði því einnig ógiltur skv. 31. gr. samningalaga.
Stefnda hafi verið skylt að veita greinargóðar og tæmandi upplýsingar um allar hjúskapareignir málsaðila, þ.m.t. markaðsvirði eigna [...]. og [...] svo stefnandi gæti tekið upplýsta ákvörðun um stöðu sína. Þessa hafi stefndi ekki gætt og þannig nýtt sér óljósa vitund stefnanda um hjúskapareignir þeirra við samningsgerð. Við samningsgerð hafi stefndi leynt staðreyndum sem verulegu máli skipta og beri því að ógilda samninginn á grundvelli 30. gr. samningalaga.
Stefnandi byggir kröfu um ógildingu á reglum fjármunaréttar um ógilda löggerninga, sérstaklega III. kafla samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum, en þó einkum á 36., 31. og 30. gr. laganna. Hann byggir kröfu sína einnig á reglum hjúskaparlaga nr. 31/1993. Krafa um málskostnað er reist á ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum og röksemdum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Í greinargerð kemur fram að fjárskiptum málsaðila hafi lokið með lögformlegum hætti með undirritun fjárskiptasamnings 14. ágúst 2012. Eftir að samningurinn var efndur telur stefndi að hvorugur aðili eigi frekari kröfur á hendur hinum en það leiði af samningum sjálfum samkvæmt 7. gr. hans. Stefndi hafnar því alfarið að nokkuð athugavert hafi verið við fjárskipti aðila, hvað þá að samningur þeirra þar um hafi verið ósanngjarn eins og stefnandi haldi fram. Samningurinn hafi tekið til allra eigna og skulda aðila, að engu undanskildu, og hafi þeim verið skipt samkvæmt samkomulagi aðila þar um og hafi þar síst hallað á stefnanda. Bendir stefndi á að það hafi verið stefnandi sjálf, sem hafi átt allt frumkvæði að gerð samningsins. Þá hafi lögmaður stefnanda alfarið séð um gerð og útfærslu samningsins með aðstoð stefnanda sjálfs. Stefndi hafi hins vegar ekki gert annað en að veita þær upplýsingar sem um hafi verið beðið. Hafi stefnandi og lögmaður hennar ekki þurft að reiða sig á stefnda við upplýsingagjöf, enda í flestum ef ekki öllum tilvikum um að ræða upplýsingar sem stefnandi hafi annað hvort sjálf búið yfir eða að unnt hafi verið að nálgast þær hjá öðrum, s.s. skattayfirvöldum. Stefndi telur að því fari fjarri að stefnandi, sem hafi verið í hjúskap með stefnda frá árinu 1974, hafi ekkert vitað um eignir búsins, eins og nú sé haldið fram af hennar hálfu. Þá sæti furðu að mati stefnda að stefnandi skuli nú telja samning, sem saminn hafi verið af lögmanni að áeggjan stefnanda sjálfrar, ósanngjarnan á þeim tíma sem til hans hafi verið stofnað. Vekur stefndi athygli á því að stefnandi hafi ekki krafist ógildingar samningsins á grundvelli 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga, nr. 31, 1993. Sé tómlæti stefnanda í þessum efnum óútskýrt. Heldur stefndi því fram að það gefi til kynna að aðrar ástæður en meint ósanngirni kunni að búa að baki málshöfðun stefnanda nú. Núverandi fjárhagsleg eða félagsleg staða málsaðila geti ekki staðið að baki kröfu um ógildingu rúmlega tveggja ára fjárskiptasamnings þeirra.
Stefndi mótmælir því alfarið að nokkrar eignir hafi verið vantaldar við gerð fjárskiptasamnings aðila. Mótmælir hann öllum fullyrðingum stefnanda þar um sem röngum og ósönnuðum. Beri stefnandi alla sönnunarbyrði í þessum efnum og sé tilraunum stefnanda til að reyna að snúa þeirri sönnunarbyrði upp á stefnda harðlega mótmælt. Þá bendir stefndi á að frá því að stefnandi sleit samvistum við hann á árinu 2007, fram að gerð fjárslitasamnings aðila, hafi eignir einkahlutafélaga stefnda rýrnað mjög.
Síðla árs 1986 hafi stefndi hafið störf sem einyrki í ráðgjöf á [...] og skráð félag með þann tilgang undir heitinu [...] og [...]. Stefndi hafi alla tíð verið eini starfsmaður félagsins og sé það enn. Í kjölfar hruns íslenska bankakerfisins árið 2008 hafi starfsemi félagsins dregist verulega saman og um tíma hafi litið út fyrir að félagið myndi fara í þrot. Þannig hafi tekjur félagsins einungis numið um 9,2 milljónir króna á árinu 2010. Stefnda hafi hins vegar tekist, með mikilli vinnu og dugnaði, að halda félaginu á floti og hafi verkefnastaða þess farið batnandi síðustu ár. Hafi tekjur félagsins árið 2011 numið 22,9 milljónum króna árið 2011 og 30,5 milljónir króna á árinu 2012. Allt hlutafé félagsins hafi komið í hlut stefnda samkvæmt fjárskiptasamningi aðila en aðilum hafi þótt það eðlilegt að teknu tilliti til þess með hvaða hætti og í hvaða tilgangi það hafi verið stofnað. Í stefnu sé bent á að umrætt félag eigi eignir langt umfram skuldir. Sé þannig bent á að samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2012 hafi eigið fé þess numið 46,3 milljónum króna og þá eigi félagið bókfærða fastafjármuni upp á 24,1 milljónir króna. Hafi félagið ennfremur skilað góðum rekstrarhagnaði bæði árin 2011 og 2012. Stefndi bendir hins vegar í fyrsta lagi á að ekki dugi fyrir stefnanda að leggja fram ársreikning félagsins fyrir árið 2012, sem endurspegli stöðu þess í lok ársins til viðmiðunar fyrir fjárskiptasamning sem gerður hafi verið um mitt ár 2012. Sé slíkt í besta falli blekkjandi. Þá bendir stefndi í öðru lagi á að það sé ekki síður blekkjandi að tilgreina aðeins eigið fé félags en skeyta engu um að tilgreina skuldir þess. Stefndi vísar í því sambandi á að samkvæmt ársreikningi [...] fyrir árið 2011, sem endurspegli stöðu félagsins í lok árs 2011, en stefnandi beiddist skilnaðar frá stefnda snemma það ár, hafi eigið fé þess numið 39 milljónum króna en skuldir 31,3 milljónir króna. Á árinu 2010 hafi þessu hins vegar verið öfugt farið, þ.e. þá hafi skuldir félagsins numið 36 milljónir króna en eigið fé 33,9 milljónir króna. Skuldir í árslok 2012 námu 28,9 milljónum króna. Telur stefndi að bæði hann og stefnandi hafi verið meðvituð um þessa stöðu félagsins er þau hafi skrifað undir fjárskiptasamning sinn í ágúst 2012. Bendir stefndi sérstaklega á að meðan bróðurparturinn af andvirði fasteignar aðila hafi komið í hlut stefnanda, ásamt fellihýsi, þá hafi stefndi tekið að sér að greiða allar áhvílandi skuldir af fasteigninni, auk annarra skulda búsins. Sé ósannað að nokkuð hafi hallað á stefnanda í þessum efnum nema síður væri og sé öllum fullyrðingum um annað mótmælt. Stefndi bendir í þriðja lagi á að þegar komi að verðmæti [...] verði ekki litið framhjá tengslum félagsins við [...]., sem nánar sé fjallað um síðar. Um þau tengsl hafi stefnandi verið að fullu meðvituð, líkt og gögn málsins beri skýrlega með sér.
Stefndi kveður [...] hafa verið stofnað í kringum rekstur bújarðarinnar [...] Eyjafirði, en það sé að öllu leyti í eigu [...]. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2011 hafi eigið fé félagsins verið neikvætt um 144,8 milljónir króna en skuldir þess hafi numið 222,7 milljónum króna á sama tíma. Staða félagsins hafi verið svipuð í árslok 2010. Skuldir í árslok 2012 hafi verið um 204,9 milljónir króna og eigið fé verið neikvætt um 127,9 milljónir króna. Lán félagsins hafi verið leiðrétt á árinu 2012 um 39,1 milljón króna og hafi sú leiðrétting verið færð félaginu til fjármagnstekna. Hagnaður af reglulegri starfsemi hafi verið 8,2 milljónir króna. Vaxtagjöld hafi hins vegar numið 30,8 milljónum króna en að teknu tilliti til leiðréttingarinnar hafi fjármagnsliðir verið jákvæðir um 8,5 milljónir króna. Hins vegar sé ljóst að félagið hafi ekki staðið og standi ekki undir skuldum sínum og sé það ógreiðslufært. Sé nú svo komið að stefndi hafi sett eignir félagsins á sölu til að lágmarka tjón sitt af rekstri og skuldbindingum félagsins. Stefndi bendir á að ekki verði horft framhjá þessari stöðu [..]. við mat á verðmæti [...]., enda sé fyrrnefnda félagið að fullu í eigu þess síðarnefnda. Þá séu til staðar gagnkvæmar veðheimildir í öllum eignum beggja félaganna, auk þess sem stefndi sé sjálfur í persónulegri ábyrgð fyrir skuldum þeirra beggja. Samanlagðar hafi verið og séu skuldir félaganna langt umfram eignir. Sé annað ósannað og áréttað að stefnandi beri alla sönnunarbyrði hér um. Stefnandi hafi þannig fengið í sinn hlut reiðufé sem hún hafi getað notað til kaupa á húsnæði á meðan stefnandi hafi setið eftir með skuldug félög í mjög erfiðum rekstri og stöðu og sé enn ekki útséð um hvort þau muni halda sjó. Sé mjög líklegt að stefndi tapi öllu sínu fé á rekstri og skuldbindingum þeim tengdum. Það sé með öllu óútskýrt með hvaða hætti stefnandi telji að eignir aðila hafi verið vantaldar þegar fyrir liggi að verðmæti áðurgreindra félaga hafi verið ekkert. Stefndi tekur sérstaklega fram í því sambandi að engu breyti hér um þótt fasteign [...] hafi verið boðin til kaups á 86.000.000 milljónir króna. Það verð sé sýnd veiði en ekki gefin, en fyrirhuguð sala sé til komin vegna þrýstings lánardrottna þar um og muni mögulegt söluandvirði allt ganga til greiðslu skulda við þá. Ennfremur breyti engu þótt umrætt verð fengist fyrir fasteignina, enda væri sameiginlegt verðmæti félaganna enn neikvætt. Í þessu sambandi bendir stefndi jafnframt á að rúmlega tvö ár séu liðin frá því að aðilar málsins undirrituðu fjárskiptasamninginn.
Stefndi tekur fram að hann hafi margfaldlega bent á, þegar hann lýsti afstöðu sinni til skilnaðarsamnings aðila, að hann skuldaði, og skuldi enn, verulega fjármuni vegna sumarhúss aðila á Spáni, sem aukinheldur sé yfirveðsett. Stefndi eigi 25% eignarhlut í húsinu og hafi greitt í upphafi 1.400.000 kr. sem útborgun fyrir eignarhlutann, sem hafi verið arfur sem stefnda hafði tæmst frá föðursystur sinni. Stefndi hafi hins vegar ekki getað haldið í við mánaðarlegar afborganir og hafi vanskil því hlaðist upp. Samkvæmt því hafi hvorki verið né sé nokkur eign í umræddri fasteign, aðeins skuldir. Sé stefnanda frjálst að taka yfir þær skuldir, sýnist henni svo.
Samkvæmt fjárskiptasamningi aðila skyldi lífeyrisréttindum stefnda haldið utan skipta. Að teknu tilliti til niðurstöðu skiptanna að öðru leyti hafi sú ráðstöfun síður en svo verið ósanngjörn. Telji stefnandi að raunin sé önnur beri hún alla sönnunarbyrði fyrir því og dugi getgátur og órökstuddar fullyrðingar skammt í þeim efnum.
Stefndi tekur fram að stefnandi hafi vitað mæta vel að hann hafi tvisvar sinnum tekið arf meðan á hjúskap aðila stóð. Annars vegar um 1.400.000 kr. eftir föðursystur sína, en sú fjárhæð hafi verið notuð sem innborgun í fasteign aðila á Spáni. Hins vegar hafi stefndi tekið nokkur hundruð þúsund krónur í arf eftir föður sinn. Telur stefndi að lágt sé lagst af hálfu stefnanda að reyna að gera þessa arfsviðtöku stefnda eftir ættingja sína tortryggilega.
Samkvæmt ofansögðu sé ljóst að engar eignir hafi verið vantaldar við skipti aðila og það eina sem stefndi hafi haft fram yfir stefnanda við skiptin hafi verið skuldir. Sé staðhæfingum stefnanda sem gangi í aðra átt mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Stefndi hafnar því alfarið að skilyrði 36. gr. laga um samninga, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 séu uppfyllt. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. nefndra laga megi víkja samningi til hliðar í heild eða hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laganna skuli við mat á því hvort samningur teljist ósanngjarn líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar komu til.
Stefndi bendir í fyrsta lagi á að stefnandi hafi engar sönnur fært fyrir þeim staðhæfingum sínum að samningur aðila hafi að efni til verið ósanngjarn í hennar garð. Af gögnum málsins verði þvert á móti ráðið að það hafi verið stefndi sem hafi borið skarðan hlut frá borði við skiptin og árétti stefndi mótmæli sín við villandi framsetningu stefnanda á meintum vantöldum eignum í stefnu. Séu fullyrðingar stefnanda, um að stefndi hafi haldið eignum leyndum og utan skipta, engum gögnum eða rökum studdar. Sé litið til samnings aðila og horft framhjá ósönnuðum fullyrðingum og staðhæfingum stefnanda sé samningurinn skýr um efni sitt og halli þar hvergi á stefnanda.
Í öðru lagi mótmælir stefndi því sérstaklega að staða aðila hafi verið ójöfn við samningsgerðina. Stefnandi hafi notið aðstoðar hæstaréttarlögmanns við skiptin og sá hinn sami lögmaður um alla samnings- og skjalagerð tengdum skiptunum. Hafi stefnandi því haft allt forræði í samningsgerðinni. Stefndi hafi hins vegar ekki notið sérfræðiaðstoðar við gerð samningsins og kunni það að skýra hversu mjög hafi hallað á hann í samningnum. Þá mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda um ætlað ójafnræði aðila meðan á hjúskap þeirra stóð. Sé um ósannaðar dylgjur að ræða sem engu geti breytt um samning aðila.
Stefndi bendir í þriðja lagi á að það sé ekkert við atvik málsins, hvorki þegar samningurinn var gerður né síðar, sem bendi til þess að um ósanngjarnan löggerning hafi verið að ræða. Áréttar stefndi sem fyrr að rangar og ósannaðar fullyrðingar og staðhæfingar stefnanda geti aldrei fullnægt þeirri sönnunarbyrði sem stefnandi beri í málinu. Þar sem skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu augljóslega ekki uppfyllt geti ekki komið til álita að víkja samningi aðila til hliðar í heild eða að hluta eða breyta honum á grundvelli ákvæðisins.
Stefnandi styðji ógildingarkröfu sína jafnframt við 31. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt ákvæðinu sé unnt að ógilda löggerning hafi nokkur maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds. Þá gildir það sama þótt annar maður en sá, sem gerningurinn var gerður við, eigi sök á misferli því sem getið er í 1. málsl. 31. gr., enda sé þeim, er haginn átti að hafa af gerningnum, það kunnugt eða megi vera það kunnugt.
Þrátt fyrir að styðja kröfu sína við ofangreint ákvæði, geri stefnandi litla sem enga tilraun til þess að sýna fram á að skilyrði þess séu uppfyllt eða rökstyðja beitingu þess að öðru leyti. Geri stefnandi ekki annað en að endurskrifa nefnt ákvæði í stefnu og fullyrða svo að það eigi við. Sé málatilbúnaði stefnanda verulega ábótavant að þessu leyti og stefnda af þeim sökum óhægt um vik að taka til varna.
Hvað sem því líði mótmælir stefndi því að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Um sé að ræða málsástæðu sem byggi á órökstuddum og ósönnuðum staðhæfingum stefnanda um ætlaða háttsemi stefnda. Stefndi hafnar því enn sem fyrr að hafa nokkuð á hlut stefnanda gert og hvað þá að hann hafi notfært sér meint bágindi hennar, einfeldni, fákunnáttu eða annað það er um ræði í 31. gr. laga nr. 7/1936.
Stefnandi byggir ógildingarkröfu sína jafnframt á ákvæði 30. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt nefndu ákvæði skuldbindi löggerningur ekki þann mann sem gerði hann, ef hann var fenginn til þess með svikum, og sá maður, sem við löggerningnum tók, beitti sjálfur svikunum eða hann vissi eða mátti vita, að gerningurinn var gerður fyrir svik annars manns.
Þessi málsástæða stefnanda sé, líkt og sú síðasta, með öllu vanreifuð. Stefndi hafnar því alfarið að ákvæðið geti átt við um lögskipti aðila, enda ekkert sem bendi til þess að stefnandi hafi verið fengin til þess að gera samning aðila með svikum og hvað þá fyrir atbeina stefnda. Verði í þeim efnum að árétta sérstaklega að stefnandi naut aðstoðar lögmanns við samningsgerðina. Stefndi leyndi engu og beitti engum rangindum við samningsgerðina. Þvert á móti hafi hann veitt lögmanni stefnanda allar þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir. Verði enn að mótmæla rakalausum og ósönnuðum fullyrðingum stefnanda. Séu engin efni til að fallast á þessa málsástæðu hennar.
Samkvæmt ofansögðu sé ljóst að málatilbúnaður stefnanda standist enga skoðun. Byggi hann nær eingöngu á ósönnuðum, órökstuddum og meiðandi fullyrðingum og dylgjum um ætlaða háttsemi stefnda og villandi framsetningu á ætluðum vantöldum eignum aðila þegar samningur þeirra hafi verið gerður. Þá séu málsástæður stefnanda á tíðum verulega vanreifaðar og beri þess merki að byggja á óskhyggju fremur en staðreyndum. Sé nokkuð ljóst að fullkomlega lögmætur fjárskiptasamningur aðila, sem gerður hafi verið af þáverandi lögmanni stefnanda fyrir tilstilli hennar, verði ekki ógiltur á grundvelli slíks málatilbúnaðar. Verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, einkum 30., 31. og 36. gr. laganna. Þá vísar stefndi til almennra meginreglna íslensks samninga-, kröfu- og fjármunaréttar. Stefndi vísar ennfremur til hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 95. gr. laganna. Þá vísar stefndi til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en krafa stefnda um málskostnað styðst við XXI. kafla síðastnefndra laga. Um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
3. Athugasemdir stefnanda í skriflegri sókn
Í framlagðri sókn stefnanda kemur fram að stefnandi byggi á því að skilnaðarsamningur gefi ekki rétta mynd af raunvirði eigna eða stöðu aðila. Það sé röng staðhæfing í greinargerð stefnda að hann hafi tekið á sig einn að greiða skuldir vegna fasteignarinnar að [...], en það hafi verið skuldir sem stefndi hafi sjálfur stofnað til m.a. vegna atvinnurekstrar og ábyrgðar sem hann hafði tekist á hendur. Þá sé ekki í skilnaðarsamningi getið um séreignarsparnað og með hvaða hætti skuli farið með hann. Veruleg verðmæti hafi ekki skilað sér inn í skilnaðarsamning aðila. Þannig hafi [...]. verið færð án verðmæta. Ekki sé gerð grein fyrir [...], en hlutafé þess sé 7.000.000 kr., allt í eigu [...]. Þá sé jörðin [...] í Eyjafjarðarsveit keypt á árinu 2007 fyrir 35.000.000 kr. og sé síðar færð inn í [...]. Ekki sé rekinn þar búskapur. Í rekstri séu eignir færðar á skattmati og horft sé fram hjá markaðsverðmætum, en skuldir vegna kaupa sýnist skila sér inn í skuldayfirlit og rekstur samsteypunnar. Þá sé í reikningum ekki gerð grein fyrir fullvirðisrétti jarðar með eignarfærslu sem nemi að verðmæti tugum milljóna króna.
Stefnandi hafi ekki aðgang að skattalegum upplýsingum félaganna án aðkomu stefnda, sem hafi neitað að leggja fram frekari gögn. Þá bendir stefnandi á að eignum sé haldið utan skattframtals, t.d. lóðum á Laugarvatni og eignarhlut í fasteign á Spáni. Þessi eignarhlutur sé í uppnámi vegna vanefnda stefnda og samskiptaerfiðleika hans og annarra eigenda. Stefnandi hafnar málsástæðum stefnda sem tilgreindar eru í greinargerð hans og telur þær vera útúrsnúninga.
IV
Eins og áður er fram komið féll þingsókn niður af hálfu stefnda 13. maí sl. Fékk lögmaður stefnanda frest til að skila skriflegri sókn í málinu, sem hann lagði fram við fyrirtöku þess 27. maí sl. Málið var þá dómtekið að kröfu stefnanda og er það dæmt í samræmi við 3. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu skilnaðarsamnings aðila á 30., 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnandi heldur því fram að ekki hafi verið jafnræði með aðilum við samningsgerðina og að stefndi hafi nýtt sér fákunnáttu stefnanda til þess að gæta hagsmuna sinna og fá meira í sinn hlut. Þá heldur stefnandi því jafnframt fram að stefndi hafi leynt hana staðreyndum sem skiptu verulegu máli við samningsgerðina.
Hinn 14. ágúst 2012 rituðu málsaðilar undir samning um skilnaðarkjör og þann sama dag gaf sýslumaðurinn í Reykjavík út leyfi til lögskilnaðar. Samkvæmt samningnum fékk stefnandi í sinn hlut andvirði sölu fasteignarinnar að [...], að fjárhæð 30 milljónir króna, sem og fellihýsi. Stefndi tók hins vegar að sér að greiða allar áhvílandi skuldir af fasteigninni en eftirstöðvar andvirðisins runnu til hans. Í samningnum er einnig kveðið svo á að hlutafé í félaginu [...]. komi í hlut mannsins og hlutdeild í húsi á Spáni. Ennfremur skyldu allar skuldir búsins greiddar af stefnda.
Stefnandi leitaði til hæstaréttarlögmannsins Láru V. Júlíusdóttur til að gæta hagsmuna sinna við gerð samnings um skilnaðarkjör og liggja tölvupóstsamskipti lögmannsins við aðila málsins fyrir í málinu. Þá ber skilnaðarsamningur það með sér að lögmaðurinn hafi samið hann. Stefndi naut hins vegar ekki lögmannsaðstoðar við gerð samningsins. Hefur stefnandi hvorki fært fram haldbær rök né gögn fyrir því að stefndi hafi beitt stefnanda svikum eða notfært sér aðstöðumun aðila þannig að hallaði á stefnanda við samningsgerðina. Verður því ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að skilyrði 30. eða 31. gr. laga nr. 7/1936 hafi verið fyrir hendi þegar málsaðilar gerðu samning um fjárskiptin. Verður því hafnað að ógilda samninginn á þeim grundvelli.
Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að skilnaðarsamningur aðila hafi verið þannig úr garði gerður að efni sé til þess að víkja honum til hliðar á grundvelli ákvæðisins. Við mat á því hvort rétt sé að gera það skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 með síðari breytingum.
Samkvæmt 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal við skipti á eignum og skuldum milli hjóna við hjúskaparslit miða við það tímamark þegar sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, dómsmál var höfðað til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar eða héraðsdómari tók fyrst fyrir kröfu um opinber skipti milli hjóna. Eignir sem maki hefur aflað sér eftir þetta tímamark, og tekjur og arður af þeim, koma ekki undir skiptin. Sama gildir um skuldir sem maki hefur bakað sér eftir þennan tíma. Gögn málsins bera með sér að sýslumaður hafi vísað kröfu stefnanda um skilnað frá embættinu 24. júní 2011. Ekki liggur hins vegar fyrir hvenær sú krafa var fyrst tekin fyrir eða hvenær slík krafa var aftur tekin fyrir hjá sýslumanni. Með vísan til þess sem að framan er rakið er hins vegar ljóst að ekki er unnt að líta til gagna um eignir og skuldir aðila við árslok 2012 við mat á því hvort samningur, sem gerður var í ágúst 2012 um skiptingu þeirra, sé efnislega ósanngjarn.
Af málsgögnum, m.a. ársreikningum, má ráða að félögin [...]. og [...]., sem stefndi fékk í sinn hlut, hafi átt nokkrar eignir á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Meðal eigna [...] var fasteign að [...] og jarðirnar [...] og [...] í Eyjafjarðarsveit. Eigið fé félagsins var samkvæmt ársreikningi í árslok 2011 tæpar 39 milljónir króna. Þá liggur fyrir að [...] félag sem stofnað var í kringum rekstur bújarðarinnar[...], hafi á árinu 2011 átt fullvirðisrétt til mjólkurframleiðslu sem nemur 40,3 milljónum króna. Eigið fé þess félags var hins vegar neikvætt um 144.765.233 krónur samkvæmt ársreikningi 2011. Þá hefur stefnandi ekki hnekkt því sem stefndi hélt fram við skiptin, sem og undir rekstri þessa máls, að eignir [...]séu veðsettar til tryggingar á skuldum [...] og að stefndi hafi sjálfur gengist í persónulega ábyrgð fyrir skuldum félaganna.
Samkvæmt skilnaðarsamningnum var söluverð fasteignarinnar að [...] 45 milljónir króna. Eins og rakið hefur verið fékk stefnandi bróðurpartinn af söluverði fasteignarinnar í sinn hlut og greiddan út við skiptin eða 30 milljónir króna. Stefndi fékk eftirstöðvar söluandvirðisins, en tók að sér að greiða áhvílandi skuldir sem og aðrar skuldir búsins, samtals rúmlega 9,8 milljónir króna. Á móti hélt stefndi framangreindum félögum, ásamt lífeyrisréttindum sínum og hlutdeild í sumarhúsi á Spáni.
Gögn málsins bera með sér að stefndi hafi í aðdraganda að gerð samningsins lagt áherslu á að félögin sem um ræðir stæðu höllum fæti vegna skuldsetningar [...]. Þá hafi hann upplýst að verðmæti sumarhússins á Spáni hafi á þeim tíma verið lægra en áhvílandi veðskuld við spænskan banka. Samkvæmt framlögðum gögnum um samskipti stefnda við lögmann stefnanda áður en samningurinn var undirritaður verður ekki séð að stefnandi hafi dregið þetta í efa að öðru leyti en því að í tölvuskeyti 9. júlí 2012 hefur lögmaðurinn það eftir henni að hún telji að eignir hans séu mun meiri en hann vilji vera láta og að staða [...] hefði batnað. Stefnandi hafi hins vegar viljað leysa málið í heild sinni „án frekari málalenginga“. Því virðist stefnandi hafa verið meðvituð um það, áður en gengið var til samninga, að stefndi hefði mögulega gert lítið úr verðmæti eigna sinna, en viljað eftir sem áður ljúka skiptum og fá í hendur þær 30 milljónir króna sem skilnaðarsamningurinn mælti fyrir um að kæmi í hennar hlut. Í þessu ljósi, og að teknu tilliti til þess að stefnandi hefur ekki fært viðhlítandi sönnur á að hún hafi borið svo skarðan hlut frá borði, þegar samningurinn er metinn í heild sinni, að ósanngjarnt sé að bera hann fyrir sig, telur dómurinn ekkert fram komið sem gefi tilefni til að víkja honum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.
Stefndi er því sýkn af kröfu stefnanda um að samningur aðila um fjárskipti vegna skilnaðar frá 14. ágúst 2012 verði felldur úr gildi. Í ljósi atvika málsins er rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, M er sýkn af kröfu stefnanda, K.
Málskostnaður fellur niður.