Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2002


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Miskabætur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 11. nóvember 2003.

Nr. 420/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Guðmundi Magnúsi Elíassyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Nauðgun. Miskabætur. Sératkvæði.

G var ákærður fyrir að hafa nauðgað stúlkunni X. Í héraðsdómi var framburður X talinn staðfastur og í heild trúverðugur en framburður G ekki fyllilega staðfastur. Í ljósi þess að X bar öll merki þess að hafa orðið fyrir verulegu áfalli í húsi G umræddan morgun þótti ekki varhugavert að leggja framburð hennar um málsatvik til grundvallar niðurstöðu málsins. Með hliðsjón af aldursmuni þeirra X og G, því að G var talsvert drukkinn, stærri og sterkari, var það mat dómsins að ekki væri til staðar neinn vafi á því að G hefði neytt aflsmunar til að ná fram vilja sínum. Var G því fundinn sekur um brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var niðurstaða héraðsdóms um tveggja ára fangelsi og greiðslu miskabóta staðfest með þeirri athugasemd að framburður X væri í heild trúverðugur, sbr. myndband sem dómarar höfðu skoðað af skýrslu hennar fyrir dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. ágúst 2002 samkvæmt yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og miskabætur hækkaðar í 800.000 krónur.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds og frávísunar bótakröfu, en til vara að refsing verði milduð og bætur lækkaðar.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var skýrsla brotaþola fyrir dómi tekin upp á myndband. Dómarar Hæstaréttar hafa skoðað myndband þetta og taka undir það með héraðsdómi, að framburður hennar sé í heild trúverðugur. Með þessari athugasemd og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann um annað en vexti, sem dæmast eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins svo sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Guðmundur Magnús Elíasson, skal sæta fangelsi í 2 ár.

Ákærði skal greiða X 604.500 krónur í skaðabætur með vöxtum af 600.000 krónum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst 2001 til 16. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 604.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

 

Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

I.

Svo sem í héraðsdómi greinir kom kærandi heim til sín snemma morguns laugardaginn 18. ágúst 2001 á nærfötum einum klæða og sagði móður sinni grátandi að sér hefði verið nauðgað. Lögreglan var kvödd á staðinn og reyndi lögreglumaður að tala við kæranda, en hún var vart viðræðuhæf. Hún sagði að hún hafi verið í gleðskap hjá ákærða, verið ein eftir og á förum er ákærði hefði „heft för hennar og dregið hana aftur inn í húsið og nauðgað henni.“ Hún hafi síðan komist út og hlaupið heim. Lögreglan fór heim til ákærða, vakti hann þar sem hann svaf í rúmi sínu og tjáði honum að hann væri grunaður um kynferðisbrot gegn stúlku undir lögaldri. Kærandi var þá ný orðin 17 ára.

Lögreglumaður á Y talaði við kæranda kl. 17.10 sama dag. Samkvæmt skýrslu hans lýsti hún atburðum þannig að ákærði hafi hindrað hana í að fara og sagt að hann ætti eftir að ræða betur við hana, tekið í hægri handlegg hennar og dregið hana inn í svefnherbergið. Hún hafi reynt að slíta sig lausa en ekki getað það þar sem ákærði var svo sterkur. Hún hafi dottið upp í rúmið og hann hafi þá klætt hana úr buxunum og sokkabuxunum. Hún hafi reynt að sparka í hann en ekki tekist. Ákærði hafi tekið hægri fót hennar og fært hann upp á vinstri öxl sér og lagst við hliðina á henni, fært nærbuxur hennar til hliðar frá kynfærunum og hafið við hana samfarir. Hún hafi ekkert getað streist á móti í fyrstu en síðan tekist að slá með hægri hendinni eða olnboga í ákærða „sem lá hægra megin við hana.“ Þá hafi hún náð að sleppa út. Lögreglumaðurinn bar fyrir héraðsdómi að kærandi hefði í viðtali þessu verið yfirveguð og í góðu jafnvægi og frásögn hennar verið greinargóð.

Kærandi gaf skýrslu fyrir héraðsdómi á Y 12. næsta mánaðar. Eins og í héraðsdómi greinir var skýrslan tekin upp á myndband, en stúlkan kom ekki aftur fyrir dóm við aðalmeðferð 17. maí 2002. Hún lýsti því hvernig ákærði hafi dregið hana inn í svefnherbergið, ýtt henni í rúmið, klætt hana úr buxunum og neytt hana til samræðis. Hún var spurð hvernig hún hafi legið í rúminu. Hún sagðist hafa legið á bakinu og hann ofan á sér en „einhvern veginn löppina upp einhvern veginn þannig að ég gæti ekkert ...“ Hann hafi ekki beitt hana ofbeldi en „bara hélt hérna fast.“

Eins og fyrr segir fóru lögreglumennirnir kl. 8.45 um morguninn til ákærða og vöktu hann. Hann var að sögn lögreglu mjög illa áttaður og ringlaður en klæddi sig og fór með þeim á lögreglustöð, þar sem honum var kynntur réttur handtekins manns. Lögreglumaður sá sem tók skýrslu af kæranda kl. 17.10 þennan sama dag á Y tók einnig skýrslu af ákærða á Z kl. 20.47 um kvöldið. Ákærði lýsti teitinu í íbúð hans. Hann og kærandi hafi setið saman í sófanum. Milli klukkan fjögur eða fimm um morguninn hafi hún ákveðið að vera eftir þegar hin fóru. Þau hafi látið vel hvort að öðru í sófanum en hún hafi sofnað þar og hann vakið hana. Hún hafi farið inn í rúm og lagt sig og hann hafi lagst við hlið hennar og sofnað en vaknað við það að hún rauk upp með andfælum. Aðspurður sagði hann að hann hafi ekki sér vitandi haft við hana samfarir.

Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 23. ágúst 2001 og kvaðst vilja breyta einu atriði í fyrri skýrslu. Allt sem hann hafi sagt hafi verið rétt nema að það sé möguleiki á að hann hafi haft mök við stúlkuna, en það hafi ekki verið nauðgun. Hún hafi afklæðst sjálf og farið í rúmið og hann með hennar samþykki lagst við hliðina á henni, bæði í nærbuxunum. Þau hafi legið hlið við hlið og hafið samfarir en hann hætt fljótlega. Svo hafi þau legið saman þegar hún hafi vaknað í hræðslukasti, staðið upp úr rúminu og farið fram og sagt að hún vildi fara heim.

Fyrir héraðsdómi bar ákærði á sama veg og sagði að hann hafi hætt strax þegar hann fann að hún vildi þetta ekki.

II.

Eins og að framan greinir sagði kærandi fyrst lögreglu þannig frá atburðinum, að ákærði hefði lagst við hlið hennar og nauðgað henni, en fyrir dómi sagði hún að hann hafi legið ofan á henni. Ákærði hefur frá því hann fyrst viðurkenndi samfarir við stúlkuna hjá lögreglu 23. ágúst lýst því að hann hafi verið við hliðina á henni og þau hafi legið hlið við hlið, eins og lögreglumaðurinn hafði eftir henni 18. ágúst. Fyrir dómi var stúlkan ekki sérstaklega spurð um þessa breyttu lýsingu og í héraðsdómi er ekkert fjallað um hana.

Stúlkan var allsgáð en ákærði drukkinn. Hún var klædd í síðbuxur og sokkabuxur yfir nærbuxum. Hún hefur borið að ákærði hafi með valdi klætt hana úr síðbuxum og sokkabuxum. Föt hennar báru þess ekki vott að hún hefði verið færð úr þeim með ofbeldi. Engir áverkar voru á stúlkunni. Miðað við fyrstu frásögn hennar ber henni og ákærða saman um að þau hafi legið hlið við hlið í rúminu í nærbuxum þegar hann hóf samræði en hætti fljótlega, svo og að honum hafi ekki orðið sáðfall. Þessi lýsing á samförunum bendir ekki til að hann hafi beitt hana ofbeldi til þess að koma fram vilja sínum.

Ákærði hefur staðfastlega borið að hann hafi hætt samförum þegar hann varð þess var að hún var þeim mótfallin. Fram er komið að hún vissi að hann hefði kynferðislegan áhuga á henni. Hún varð eftir ein hjá honum þegar aðrir fóru enda þótt hún hafi fyrr um nóttina sagt vinkonu sinni að hún væri hrædd við ákærða og fyndist hann horfa einkennilega á sig. Frásögn hennar um undankomu og heimför, svo og lýsing á líðan hennar, er út af fyrir sig ekki næg vísbending þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi. Þegar einnig er virt það sem fyrr greinir, þar á meðal að hún hefur ekki verið fyllilega samkvæm í frásögninni af samförunum, svo og að viss mótsögn er í frásögn hennar um beyg hennar af ákærða og að hún hafi sest ein hjá honum eftir að aðrir voru farnir, þykir varhugavert að telja sannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi beitt stúlkuna ofbeldi þannig að varði við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar er með öllu framangreindu og vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti nægilega sannað að til þess hafi komið í samskiptum ákærða og stúlkunnar, sem var þreytt og syfjuð, að hann hafi notfært sér aðstæður og hinn mikla aldurs- og aflsmun þeirra og þröngvað henni til samræðis. Verður að því leyti við sakfellingu héraðsdóms unað og verður brot ákærða fært undir 195. gr. almennra hegningarlaga, enda var málið nægilega reifað að þessu leyti.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess sem í héraðsdómi greinir, að hann hvarf frá hinni refsiverðu háttsemi. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Miskabætur til stúlkunnar teljast hæfilega ákveðnar 350.000 krónur.

Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og dæma ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 2. júlí 2002.

                Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara hinn 7. janúar 2002 á hendur Guðmundi Magnúsi Elíassyni [...] fyrir nauðgun með því að hafa að morgni laugardagsins 18. ágúst 2001, á þáverandi heimili sínu [...], með ofbeldi þröngvað stúlkunni X, fæddri 1984, til holdlegs samræðis.

                Þetta er talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu X er krafist miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur með vöxtum frá tjónsdegi til 5. nóvember 2001 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist útlagðs kostnaðar, 4.500 krónur, og þóknunar til handa réttargæslumanni X, Berglindi Svavarsdóttur héraðsdómslögmanni.

                Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda verði felldur á ríkissjóð, og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa, að sýknað verði af skaðabótakröfu eða hún stórlega lækkuð og að sakarkostnaður verði að stærstum hluta felldur á ríkissjóð.

Málsatvik og sönnunargögn

Laugardaginn 18. ágúst 2001, kl. 06.05, var hringt til lögreglunnar á Z og tilkynnt um meinta nauðgun. Tilkynnandi var móðir brotaþola, X. Fór lögregla að heimili hennar [...] Z. Í frumskýrslu lögreglu segir að þar hafi X verið, viti sínu fjær af ótta og vart viðræðuhæf. Hafi verið náð í vakthafandi lækni sem fljótlega hafi komið á staðinn. X hafi legið í sófa og með teppi breitt yfir sig. Í henni hafi verið mikill skjálfti. Hún hafi verið í nærbuxum einum fata. Móðir hennar E hafi tjáð lögreglu að þannig hafi hún komið heim, en verið með föt sín í hendinni og hafi þau verið þar öll utan sokka sem hafi vantað. Hafi fötin virst vera órifin.  Guðbrandur Jóhann Ólafsson lögreglumaður skráir í frumskýrslu að hann hafi reynt að ræða við X og hafi henni sagst svo frá að hún hafi verið í “partíi” hjá “Gumma smið” að H. Þar hafi einnig verið A, B og C. Þau hin hafi verið farin og hafi hún verið ein eftir og verið á förum þegar “Gummi smiður” hafi heft för hennar og dregið hana aftur inn í húsið og nauðgað henni. Hún kvaðst síðan hafa komist út og hlaupið heim. Sagði hún að fyrr um kvöldið hefði A spurt hana hvort hún væri til í að sofa hjá “Guðmundi smið” fyrir 10.000 krónur. Hún kvaðst hafa hlegið að þessu. Í frumskýrslunni kemur fram að um 300 metrar eru á milli H og heimilis X. X hafi verið flutt á Heilbrigðisstofnun Z og síðan á bráðamóttöku [...] til rannsóknar. Föt hennar hafi verið haldlögð af lögreglu og fylgt henni til rannsóknar á Y.

Í frumskýrslu lögreglu er enn fremur tilgreint að klukkan 08.45 hafi lögregla farið að H og knúið dyra, en ekki verið svarað. Hurð austanmegin hafi verið ólæst og í hálfa gátt og hafi verið farið inn. Guðmundur Magnús Elíasson hafi sofið í rúmi sínu. Hafi hann verið einn í húsinu. Hann hafi verið vakinn, og verið illa áttaður og ringlaður, en klæðst og komið sjálfviljugur með lögreglu á lögreglustöð eftir að honum hafði verið kynnt að hann væri grunaður um kynferðisbrot gegn stúlku undir lögaldri. Læknir hafi verið kvaddur til sem tekið hafi blóð- og þvagsýni af Guðmundi Magnúsi. Klukkan 11.00 hafi lögregla farið aftur að H til rannsóknar á vettvangi, ljósmyndir hafi verið teknar og munir haldlagðir. Lögreglan á Z hafi síðan haft samband við rannsóknarlögregluna á Y og farið fram á aðstoð við rannsókn málsins. Rannsóknarlögreglan hafi yfirheyrt aðila og vitni, tekið ljósmyndir á vettvangi og aflað annarra gagna.

Í vottorði Kristbjargar Sigurðardóttur, læknis á Heilbrigðisstofnun Z, dagsettu 19. ágúst 2001, segir:

“Ég sé X fyrst um ½ klst. eftir að kallað er í lögreglu, um kl. 06:30 þann 18/8 ’01, og þá heima hjá henni, í stofusófanum. Hún liggur í topp og nærbuxum einum saman hnipruð undir teppi og er greinilega í miklu uppnámi. Grætur stanslaust og erfitt er að fá hana til að svara spurningum en auðséð að hún skilur það sem sagt er við hana og bregst strax við þegar hún er beðin að standa upp, klæða sig og koma út í bíl.

Þegar komið er á heilsugæslustöðina ræði ég við hana í einrúmi, hún er þá hætt að gráta og situr róleg á skrifstofunni minni. Hún hefur komið nokkrum sinnum til mín áður og finnst greinilega auðvelt að tala opinskátt um það sem gerðist, í smáatriðum. Hún er vel vakandi og gefur góðan augnkontakt en hún segist vera syfjuð. Hún talar skýrt og greinir frá öllu í tímaröð á skipulegan hátt. Hún er ekki með aukinn talþrýsting en hún er heldur ekki hæg í hugsun eða tali. Göngulag er óskeikult og hreyfingar eðlilegar. Augu hennar eru grátbólgin. Ekki er að finna áfengislykt úr vitum.

Engin líkamleg skoðun er gerð af minni hálfu því málinu er strax vísað til neyðarmóttökunnar á [...] en stúlkan kvartar heldur ekki um nein líkamleg óþægindi.

Niðurstaða mín er sú að X leit ekki út fyrir að vera undir áhrifum róandi eða örvandi lyfja umræddan morgun.”

Af Heilbrigðisstofnuninni var farið með X á neyðarmóttöku vegna nauðgana á slysadeild [...] og kom hún þangað kl. 09.00 ásamt móður sinni. Í lýsingu á atburðarás sem þar er skráð kemur fram að gerandi hafi hindrað hana í að fara og hún hafi streist á móti og reynt að sparka í punginn á geranda en mistekist. Hann hafi haldið í upphandlegg hennar og það hafi verið vont. Hann hafi haft samfarir við hana en hún viti ekki hvort hann hafði sáðlát. Henni hafi síðan tekist að slíta sig lausa, tekið fötin sín og hlaupið heim á brjóstahaldara, bol og nærbuxum einum fata. Henni er lýst syfjaðri og að hún dotti þegar færi gefst; hún sé sljó og í hnipri, svari samt spurningum og virðist samkvæm sjálfri sér; hún skjálfi, sé með hroll, sé stíf og kvarti um ógleði. Föt eru sögð ekki rifin eða illa farin, en tekin til varðveislu. Hún greinist með marblett á miðju vinstra læri utanvert, en hann talinn vera eldri. Engir líkamlegir áverkar utan eldri marblettur fundust og skoðun kynfæra var eðlileg. Strok sýndi ekkert óeðlilegt nema fimm lífvana sæðisfrumur.

Sama kvöld, laugardagskvöld, hafði móðir X aftur samband við Kristbjörgu Sigurðardóttur lækni sem skrifar svohljóðandi vottorð af því tilefni, dagsett 20. ágúst 2001: “Sama kvöld og meintur atburður átti sér stað, eftir miðnætti 19/8, hringdi móðir X í mig og sagði að stelpunni liði mjög illa. Ég bað hana að hitta mig á heilsugæslustöðinni og þegar ég kom þangað lá hún í hnipri undir teppi á biðstofunni og grét. Hún hafði verið á [...] til kl. 18 en svo komið heim og þá brotnað niður, að sögn móður. Hafði þegar leið á daginn farið að finna meira og meira fyrir verkjum í hæ. nára, á hæ. rasskinn og ofanverðu hæ. læri. Hafði fengið sýklalyf á [...] til að fyrirbyggja sýkingu en um ½ klst. eftir að hún tók það hafði hún kastað upp. Hún var hrædd við einkennin og þreytt eftir daginn, hafði ekkert sofið í 1 ½ sólarhring. Ég skoðaði hana lauslega og hún var þreifiaum á hæ. rasskinn og læri, engin sjáanleg áverkamerki. Ógleðina og uppköstin skrifaði ég á sýklalyfin en þau eru vel þekkt af því að valda slíkum einkennum. Ég bauð henni ógleðistillandi stíl og svefnlyf sem hún þáði. Daginn eftir heyrði ég í móður hennar, þá hafði hún sofið mjög vel og henni leið betur.”

Hinn 12. september 2001 var tekin skýrsla fyrir dómi af brotaþola, X, samkvæmt 1. mgr. a-liðar 74. gr.a laga nr. 19/1991. Var þinghaldið tekið upp á myndband.

X kvaðst umrætt kvöld hafa hitt vini sína B og A. Þau hefðu ætlað í partí sem reyndist vera búið og þá ákveðið að leita að öðru samkvæmi. B hafi hringt í ákærða og fengið leyfi til að fara í húsið hans. C hefði einnig verið með þeim. Þau hafi reynt að fá fleiri til að koma en án árangurs. Þau hafi verið að hlusta á tónlist og dansa og tala saman. Ákærði hafi síðan komið heim og farið síðan aftur út til að ná í áfengi. Hún kvað B vera fyrrverandi kærasta sinn. Þau C hefðu eitthvað verið að draga sig saman. Hún kvaðst hafa farið upp á loft með, þau hefðu bara verið að tala saman. Þá hefði ákærði hringt í A og hún hefði heyrt hann segja við hann “að láta ljóshærðu stelpuna í friði.” Hún kvað þau síðan öll hafa setið saman í stofunni. Hefði henni fundist ákærði horfa alltaf eitthvað skringilega á hana og hafi hún verið “orðin virkilega hrædd.”  Hafi hún talað einslega við C og sagt henni að hún væri hrædd við hann. Mamma C hefði síðan hringt og C hefði orðið að fara. A hefði þá viljað tala við hana og hefði hann spurt hana hvort henni væri ekki sama að ákærði myndi borga honum eða henni 10.000 krónur fyrir að hún myndi sofa hjá ákærða. Hún kvaðst hafa reiðst þessu mjög og hefði ætlað að fara, en þá hefði ákærði elt hana og spurt hvort ekki væri allt í lagi. Hún kvaðst ekki hafa þorað annað en að segja: “Jú, jú, allt í lagi.” A hafi svo verið orðinn þreyttur og farið heim. Hann hafi verið hræddur við hana því að þau voru alltaf að rífast og hún hafi skammað hann. B hafi farið niður í bæ að leita að fleira fólki en ekki fundið neina og komið aftur. A hafi komið aftur til að ná í lyklana sína og svo farið aftur. Hún kvaðst hafa sagt við B að hann mætti ekki fara því hún ætlaði að vera samferða honum, síðan hafi hún farið á klósettið, en þegar hún kom aftur hafi B verið farinn. Hún kvaðst hafa ákveðið að drekka kókið sitt og reykja eina sígarettu og fara svo og hefði þambað kókið. Þá hefði hún orðið eitthvað slöpp, þung og þreytt, og allt í einu sofnað í svona tvær mínútur í sófanum í stofunni. Kvaðst hún ekkert áfengi hafa drukkið þetta kvöld. Hún hafi vaknað við að ákærði var búinn að taka buxurnar frá sér og var farinn að halda utan um hana.  Hún hafi ýtt honum frá og hafi ætlað að taka símann sinn og dótið og hlaupa út, en ákærði hafi látið höndina við dyrnar og sagst eitthvað vilja tala við hana. Hann hafi svo tekið í höndina á henni og dregið hana inn í svefnherbergi. Ákærði hafi ýtt henni í rúmið og farið að klæða hana úr buxunum. Þá hafi hann verið búinn að klæða sig úr buxunum. Svo hafi hann bara tekið brókina hennar frá og haldið áfram. Nánar spurð um þetta kvað hún hann hafa tekið liminn út um buxnaklaufina á nærbuxunum, hann hefði legið ofan á henni, tekið fótinn á henni upp og sett liminn inn og hafið samfarahreyfingar. Það hafi ekki staðið lengi, svona tvær til þrjár mínútur. Hún kvaðst hafa reynt að ýta honum frá, alveg af alefli. Reynt að berja í hann og þá hafi hann farið af henni. Spurð nánar um þetta kvaðst hún ekki hafa viljað þetta og hann hafi vitað það. Hún hafi öskrað á hann að hætta. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við að honum yrði sáðfall. Þegar henni hafi tekist að ýta honum frá sér hafi hún tekið dótið sitt og ætlað að hlaupa út um aðaldyrnar. Hann hafi hlaupið á eftir henni, ætlað að rífa í hana og samt haldið hurðinni og sagst þurfa að tala við hana. Þá hafi hún áttað sig á að það voru aðrar dyr á húsinu og hlaupið þangað og á leiðinni skellt miðhurðinni á hann. Hún hafi náð að komast út um hinar dyrnar og hlaupið heim.

X kvaðst engan hafa hitt á leiðinni, en hafa hringt í vin sinn á Q og sagt honum þetta. Hún hafi ekki vitað hvort hún ætti að fara heim eða ekki. Nánar spurð um þetta kvaðst hún hafa sagt við hann að henni hefði verið nauðgað og svo hágrátið í símann. Hann hafi reynt að tala við hana, hún hafi spurt hvort hún ætti að fara heim og svo hafi hún skellt á hann og hlaupið heim. Hún hafi hlaupið heim á brókinni með dótið undir hendinni. Hún hafi ekki ráðið við sig þegar hún kom heim, hafi hent fötunum á gólfið og hlaupið upp í herbergi til mömmu sinnar og öskrað þar. Hún hafi síðan setið í stiganum og hágrátið og mamma hennar hafi látið hana leggjast í sófann og reynt að tala við hana, en X kvaðst ekki hafa viljað tala við hana, hafi ekki þorað það í fyrstu. Mamma hennar hafi hringt í lögregluna sem hafi komið og talað við hana, og svo hafi hún farið í lögreglubílnum upp á sjúkrahús og talað við lækninn þar. Síðan hafi þau farið til Y á sjúkrahúsið þar.

Nánar spurð kvaðst hún ekki hafa séð ákærða fyrr en í þessu partíi. Þau hafi eitthvað talað saman þar, um hvað hún héti og hvað hann væri að gera þarna á Z. Spurð nánar um buxurnar sínar og hvernig ákærði hefði klætt hana úr, kvað hún bara þurfa að taka í buxnastrenginn og þá væri talan farin og rennilásinn hefði verið eitthvað bilaður. Nánar spurð um drykkju sína kvaðst hún vera alveg hætt að drekka og ekkert hafa drukkið. Spurð um það hvort hún héldi að henni hefði verið byrlað eitthvað lyf, kvað hún B hafa verið að borða einhverjar róandi töflur og taldi að ákærði hefði líka borðað einhverjar róandi töflur á fimmtudeginum og föstudeginum. Þeir hafi verið að tala um eitthvað gramm, hún hafi ekkert viljað vera að hlusta á það. Hún hefði skilið kókflöskuna sína eftir á borðinu þegar hún fór á klósettið meðan þeir voru eitthvað að tala, annað vissi hún ekki. Hún kvaðst einungis hafa drukkið úr kókflösku sem hún hafði keypt sjálf. B hefði verið orðinn mjög drukkinn þegar hann fór. Spurð hversu lengi hún hafi verið í húsinu eftir að hin voru farin, kvaðst hún ekki vita það, en taldi það getað hafa verið fimmtán til tuttugu mínútur. 

Við aðalmeðferð málsins gaf ákærði, Guðmundur Magnús Elíasson, skýrslu og vitnin, A, B, C, D, F, G, E, Guðbrandur Jóhann Ólafsson, Jón Trausti Traustason, Kristbjörg Sigurðardóttir, Anna Mýrdal Helgadóttir, Guðrún Árnadóttir og Daníel Snorrason. Verða framburðir þeirra nú raktir eins og tilefni er til.

                Ákærði, Guðmundur Magnús Elíasson, kvaðst hafa kynnst þeim A og B í gegnum vinnu sína á Z. Hann kvaðst hafa lánað þeim íbúð sína þetta kvöld til að halda gleðskap, sjálfur hafi hann verið í boði annars staðar, en komið síðar um nóttina. Hann kvaðst ekki viss um hvað klukkan hefði þá verið. Þegar hann kom heim hefðu verið þar A, B, C og X. Hann hafi síðan farið út aftur og keypt bjór og Woody’s. Þau hafi setið og drukkið og hlustað á tónlist. Fljótlega hafi þau B, C og A farið, en X hafi orðið eftir. Fyrr um nóttina kvaðst hann hafa minnst á það í gríni við A hvort hann væri ekki til í að fá 10.000 kall fyrir það að sjá til þess að ákærði fengi að vera með X. Þetta hefði verið grín og hefði honum ekki verið nokkur alvara með þessu. Spurður hvort hann hefði haft kynferðislegan áhuga á X, kvað hann svo ekki hafa verið þá. Hann hefði verið í glasi, og hann hafi ekki mikinn kynferðislegan áhuga þegar hann sé undir áhrifum áfengis. Hann kvað þau X hafa setið saman í sófanum, eftir að A fór. Þau hafi verið að tala saman og farið hafi vel á með þeim til að byrja með, þau hafi eitthvað örlítið verið að kyssast. Taldi hann að það hefði verið eftir að hin voru farin, en hann hefði verið búinn að færa sig í sófann áður en A fór. Þau hafi síðan farið inn í herbergi og lagst þar. Hann kvaðst hafa spurt hana hvort hún vildi gista, hún hafi sagt að hún væri ekki alveg viss um hvort hún vildi það, en hefði samt komið með honum inn í herbergið. Þau hefðu bæði verið syfjuð. Hún hefði gengið á undan inn í herbergið, en það sé beint inn af stofunni. Þau hafi lagst upp í rúmið. Hann kvaðst hafa farið úr treyju og gallabuxum áður en hann fór upp í rúmið, en hún hefði ekki farið úr neinu til að byrja með en klætt sig úr buxunum undir sænginni. Hún hafi verið í bláleitum toppi og nærbuxum þegar hún fór burtu. Hún hafi legið á bakinu og hann hafi haldið utan um hana. Þau hafi verið “eitthvað að kjafta til að byrja með og það var eitthvað smá kossaflens og káf.” Það hafi stefnt í að kynferðismök væru að byrja, en þá hafi hann fundið það á henni að hún vildi ekki meir og hafi hann að sjálfsögðu hætt og farið að sofa. Hann kvaðst ekki hafa verið búinn að setja lim sinn inn í kynfæri hennar. Nánar spurður um þetta kannaðist hann við að samræði hefði eitthvað verið byrjað, en það hefði bara verið örfáar sekúndur. Þau hefðu ekki farið úr nærbuxunum, bara tekið þær frá. Hann kvað hana ekki hafa sagt að hún vildi þetta ekki heldur sýnt það, og hann hefði þá bara beðist afsökunar og sagt að þau skildu bara hætta þessu og farið að sofa. Hann hefði séð að þetta var “náttúrulega algjör vitleysa” bæði að bjóða þessum krökkum að vera þarna og að drekka áfengi, en hann hefði verið hættur að drekka. Hann kvaðst hafa verið búinn að drekka talsvert, aðallega af bjór frá því klukkan sex um daginn. Spurður um fíkniefni kvaðst hann ekki neyta þeirra. Eina lyfið sem hann hefði stundum tekið væri gigtarlyfið Arthrotez.

                Nánar spurður kvaðst hann hafa sofnað, en svo hafi X vaknað upp með andfælum eins og hún væri hrædd og hlaupið fram “alveg skutlaðist upp úr rúminu eins og með rakettu í rassinum.” Hann hefði farið á eftir henni þar sem hún ætlaði út um aðalinnganginn, sem er á norðurhlið, og stoppað hana og spurt hvort eitthvað væri að og hvort eitthvað væri hægt að gera fyrir hana. Hún hafi þá hlaupið að austurdyrunum. Hún hafi verið á brók og bol og klætt sig í skó, alla vega hafi hún verið í skóm þegar hún hljóp út, og tekið eitthvað með sér. Einhvern bol hafi hún skilið eftir. Hún hafi farið með hann út og lagt við austurdyrnar, þar hefðu verið einhverjar flíkur eftir hana. Hann kvaðst hafa lokað hurðinni og síðan farið upp í rúm og haldið áfram að sofa. Hann kvaðst ekki hafa reynt að hindra hana í að fara, hann hefði ef til vill tekið í öxlina á henni og snúið henni við til þess að ná sambandi við hana, ekkert annað. Nánar spurður um þetta kannaðist hann við að hafa fyrst sett höndina á dyrnar til að stoppa hana, því hann vildi ræða við hana um hvað væri að. Hann kvaðst ekki hafa elt hana að austurdyrunum, bara leyft henni að hlaupa, það hefði ekkert verið hægt að tala við hana, hann hafi séð á eftir henni út og lokað. Hann staðfesti að hún hefði verið í miklu uppnámi og það eina sem hún hefði sagt var að hún vildi fara heim. Hann hefði ekki ætlað að hindra hana í því.

Ákærði staðfesti að A og X hefðu verið uppi á lofti þegar hann kom heim í fyrra skiptið. Spurður hvort hann hefði hringt í A og sagt að hann ætti að láta ljóshærðu stelpuna í friði, kvaðst ákærði ekki minnast þess, en þau hefðu ekki átt að vera uppi, það pláss tilheyrði ekki hans íbúð. Taldi hann sig hafa sagt þeim að koma niður, en hvort hann hringdi mundi hann ekki.

Nánar spurður um útidyrahurðina austanmegin, kvaðst hann hafa krækt henni. Lykillinn væri týndur og því væri þar krókur. Skemmdir sem á henni voru kvað hann stafa af því að einhverjir krakkar hefðu farið inn nokkrum dögum áður. Það þyrfti ekki mikið átak til að opna því gereftið væri laust, lítið barn gæti opnað. Skemmdirnar hefðu ekki orðið við að X ýtti í hurðina. Spurður um það sem segir í lögregluskýrslu hans að hann hafi farið í að laga hurðina, kvaðst hann bara hafa ýtt gereftinu til. Hann kvað það ekki geta staðist að dyrnar hafi verið hálf opnar þegar lögreglan kom.

Hann kvað það rétt að lögreglan hefði vakið hann. Hann kvaðst hafa verið miður sín vegna þess að hann hefði verið að drekka “eftir góðan árangur edrúmennsku.” Hann hefði rokið í að taka til, tæma öskubakka og taka saman bjórdósir, því honum hafi fundist sóðalegt.

Nánar spurður um kynmök þeirra X, kvað hann allt hafa verið í sátt og samlyndi þar til hún lét í ljós að hún vildi þetta ekki. Hann neitaði því að hafa dregið hana inn í herbergið. Hann taldi að þau hefðu verið í sófanum í stofunni nokkurn tíma, nær klukkustund en nokkrum mínútum, eftir að hin fóru og áður en þau fóru inn í svefnherbergið. Þau hafi fyrst byrjað á einhverju keleríi eftir að hin voru farin. Í svefnherberginu hefðu þau kelað í korter, tuttugu mínútur í mesta lagi. Hann taldi að hún hefði síðan rokið upp fimm til tíu mínútum eftir að hann festi svefn, hann hefði alla vega dottað. Hann kvaðst alveg viss um að honum hefði ekki orðið sáðlát, en hann hefði haft stinningu. Spurður hvort hann hefði sett lim sinn inn í kynfæri hennar, svaraði hann “ekki að öllu leyti.” Hann kvaðst hafa tekið nærbuxur hennar frá, en kannaðist ekki við lýsingu hennar á líkamsstellingum þeirra. Spurður hvers vegna hann hefði í byrjun neitað samförum þegar hann var spurður af lögreglu, kvaðst hann hafa verið ruglaður þarna um morguninn og hræddur, hann hefði ekki vitað hvað hafði gerst. Spurður hvenær honum hefði orðið ljóst að X vildi ekki halda samförunum áfram, sagði hann að það hefði eiginlega bara verið strax eftir að þær voru að byrja og þá hefði hann hætt og sofnað haldandi utan um hana. Hún hefði ekki sagt neitt, bara gefið það í skyn að hún vildi ekki meira. Hann gat ekki lýst því frekar, hann neitaði að hún hefði öskrað á hann. “Hún bara fór upp og var eins og hún væri viti sínu fjær.” Hann staðfesti að á þessum tíma hefði hann verið 195,5, cm á hæð og 94 kg að þyngd.

Spurður um ölvunarástand X, kvaðst hann hafa keypt Woody’s handa stelpunum þegar hann fór að kaupa bjórinn, A hefði beðið hann um það af því að þær drykkju ekki bjór. Hann kvaðst annað hvort hafa séð X fá sér sopa af Woody’s eða A hefði opnað fyrir hana og rétt henni, a.m.k. hefði einn verið á borðinu fyrir framan hana. Hann hefði einnig talið að hún hefði drukkið bjór. Hún hefði verið syfjuð og hann hafi talið að það væri af því að hún væri búin að drekka of mikið. Hann kannaðist við að hafa sagt hjá lögreglu að hann hefði talið hana vera að deyja áfengisdauða. Spurður hvað hún hefði drukkið eftir að þau voru tvö ein, sagði hann að þarna hefði líka verið kók og vatn og hann hefði hellt upp á kaffi. Hann kvaðst ekki hafa sett neitt út í drykk X og ekki hafa orðið var við að aðrir gerðu það.

Vitnið A kvaðst hafa verið talsvert drukkinn þetta kvöld og hafa tekið nokkrar töflur af rivotril, auk þess sé hann með slæmt minni. Hann kvaðst hafa farið í íbúð ákærða ásamt B og C eftir að hafa fengið leyfi hjá ákærða, og taldi að X hefði komið eitthvað seinna. Hann kvað þá B einnig hafa verið í íbúðinni með ákærða á miðvikudags- og fimmtudagskvöldinu að spjalla og drekka nokkra bjóra, og hafi þeir B þá einnig tekið rivotril. Taldi hann að ákærði hefði þá líka drukkið bjór en hann tæki ekki svona töflur. Hann kvaðst hafa þekkt ákærða í um mánuð þegar atburðurinn varð, hann hefði kynnst ákærða þegar hann var að smíða í búðinni þar sem hann vinnur. Hann kvað X og C ekki hafa drukkið áfengi þetta kvöld, en taldi sig hafa séð X með kók. Ákærði hefði komið þegar þau voru búin að vera þarna í einhvern tíma. Ákærði hefði síðan farið út aftur til að ná í meira áfengi.

A kannaðist við að hafa farið með X upp á efri hæð hússins. Þar hafi þau verið að spjalla og svo kannski kysst einn eða tvo kossa, ekki annað. Hann kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hefði hringt í hann þá í gsm síma. Hann kvaðst ekki heldur muna neitt eftir því að ákærði hefði talað við hann um að fá að hafa kynmök við X gegn greiðslu, en X hefði sagt honum frá þessu áður en hann fór í yfirheyrslu hjá lögreglu og ekki verið ánægð. Spurður hvers vegna hann hefði lýst þessu atviki í lögregluskýrslu eins og hann myndi eftir því, taldi hann að þetta hefði hugsanlega rifjast eitthvað upp fyrir honum í yfirheyrslunni. Hann minntist þess ekki að hafa orðið var við kynferðislegan áhuga hjá ákærða á X þarna um nóttina.

Ítrekað spurður um áfengisneyslu þeirra, kvaðst hann vera alveg viss um að X hefði ekki drukkið því hún hefði verið búin að fara í meðferð og hafi ekki verið að drekka þá. Spurður um skýringu á því að hann segir í lögregluskýrslu að C og X hafi verið að drekka bjór, taldi hann skýringu á röngum framburði sínum vera að þau hefðu verið í “sjokki” og ein taugahrúga og lögreglumennirnir verið “svona að peppa upp úr manni.” Hann taldi að ákærði gæti hafa séð að þeir B voru með töflur, þeir hafi ekki verið að fela þetta.

A taldi að C hefði farið fyrst þeirra heim, síðan hefði hann sjálfur farið, en komið aftur til að sækja lykla. Taldi hann að B og X hefðu verið eftir þegar hann fór aftur. Hann kvaðst lítið hafa spáð í hvar fólk sat og hvað var í öðrum flöskum en hans eigin.

Vitnið B kvaðst hafa verið mjög ölvaður þessa nótt og lítið muna frá gleðskapnum af þeim sökum og einnig vegna þess að það væri langt um liðið. Hann taldi sig hafa munað þetta betur þegar lögregluskýrsla var tekin af honum að kvöldi sama dags, en var þó ekki viss um að hann hefði ekki ályktað um eitthvað sem hann bar þá. Hann taldi að hann hefði verið búinn að frétta af málinu er hann fór í skýrslutökuna, en ekki frá X heldur hefðu þá allir vitað þetta. Hann kvaðst hafa drukkið bjór á miðvikudeginum heima hjá ákærða og tekið þá mikið af rivotril töflum, hann hefði átt tíu töflur og honum hefði verið sagt að hann hefði keypt fleiri, en hann mundi það ekki. Hann kvaðst einnig hafa drukkið á fimmtudeginum en var ekki viss hvort hann hefði þá verið heima hjá ákærða. Á föstudeginum kvaðst hann hafa drukkið og tekið einhverjar róandi töflur sem hann átti en gat ekki upplýst hvaða lyf það hefði verið. Hann kvað þá A hafa haldið samkvæmið heima hjá ákærða og þar hefðu einnig verið C og X og síðan hefði ákærði komið. Honum fannst að eitthvað fleira fólk hefði komið þarna, en gat ekki nafngreint fleiri. Hann kvaðst ekki muna hvar hver sat eða hvað aðrir drukku, en taldi að X hefði ekki verið að drekka. Hann kvaðst ekki geta svarað því hvort ákærði og X hefðu eitthvað verið að draga sig saman. Sjálfur kvaðst hann hafa verið með C og þau hefðu um tíma verið inni í herbergi þar sem var rauður sófi. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því þegar A fór, sjálfur hefði hann drifið sig heim þegar hann fann að hann var deyja áfengisdauða. Hann kvaðst ekki muna eftir því að X hefði beðið hann um að bíða eftir sér því hún hefði viljað verða samferða honum heim, en kvaðst hafa heyrt af því. Hann sagðist ekki hafa heyrt af því að ákærði hefði verið að bjóða peningagreiðslu fyrir það að fá að sofa hjá X. Hann kvað þau X hafa verið saman í eitt ár þegar hún var í 8. eða 9. bekk og hann í 9. eða 10. bekk og kvað þau nú vera góða vini. Hann kvaðst ekkert hafa spurt hana út í þetta fyrst á eftir. Hún hefði verið “voðalega viðkvæm fyrir þessu svona fyrstu mánuðina” en taldi að hún væri svipuð nú og hún hefði verið, tæki þátt í félagslífi eins og áður, en þau umgengust ekki mjög mikið. Hann kvaðst ekki hafa þekkt ákærða mikið, hann hefði í fyrsta sinn komið heim til ákærða á miðvikudeginum þarna á undan. Hann kvaðst ekki hafa vitneskju um það að tafla hefði verið látin út í kók X og tók fram að rivotril með kóki myndi virka örvandi.

Vitnið C kvaðst hafa verið í samkvæmi á heimili ákærða með A, B og X og svolítið seinna hafi ákærði komið. Hvorki hún né X hefðu drukkið. A og B hefðu verið ölvaðir, en meira hafi séð á B. Beðin um að lýsa ölvunarástandi ákærða kvað hún það hafa verið frekar mikið. Ákærði hefði farið aftur út til að kaupa sér bjór, en þær X hefðu ekki beðið hann um að kaupa neitt fyrir sig. Hún kvaðst ekki muna hvar hver sat. Spurð hvort hún hefði orðið vör við að ákærði væri eitthvað spenntur fyrir X, svaraði hún því játandi en kvað það ekki hafa verið “hrikalega áberandi.” Þau hefðu ekki verið farin að gefa sig hvort að öðru ákærði og X þegar hún fór heim. Hún kvaðst hafa heyrt hann segja við A að hann ætti að láta X vera. Hún kvað þær X hafa verið vinkonur og hefðu þær nokkuð oft farið inn í lítið herbergi með sófa til að tala saman. Þá hefði X sagt að hún væri eitthvað hrædd við ákærða. Hún kvaðst ekki hafa spurt X frekar út í það. Síðar í yfirheyrslunni taldi hún að þetta hefði verið eftir að hún var búin að heyra að ákærði vildi borga A fyrir að láta X í friði. Hún kvaðst telja að klukkan hefði verið um fjögur þegar hún fór, þá hefðu A, B, X og ákærði verið eftir. Hún kvaðst hafa verið að flýta sér og ekki minnast þess að X hefði talað um hvort hún væri að fara eða ætlaði að vera. Hún kvaðst ekki hafa hitt X aftur fyrr en nokkrum dögum síðar og þá hefði hún lítið viljað tala um þetta, bara sagt eitthvað um að ákærði hefði ráðist á hana og svo hefði hún farið heim. Þær væru enn vinkonur en ekki jafn mikið saman. Hún taldi að X væri ekki mikið breytt eftir þetta og væri í góðum félagslegum tengslum, en væri samt minna úti á nóttunni. Hún kvaðst lítið hafa þekkt ákærða, hún hefði fyrst hitt hann í sömu vikunni eða vikunni þar áður, þegar hún hefði komið í íbúðina. Þá hafi þeir A og B verið þar að hlusta á tónlist og spjalla, drekka og taka einhverjar töflur. Hún kvaðst ekki muna hvort ákærði hefði líka verið að drekka, og taldi ekki að hann hefði verið með töflur. Nóttina sem atvikið átti sér stað kvaðst hún ekki hafa orðið vör við að strákarnir væru með töflur.

Vitnið D kvað X hafa hringt í sig að morgni 18. ágúst þegar hann var að koma heim, á milli klukkan fjögur og sex. Hún hefði verið hágrátandi, í mjög miklu uppnámi. X hefði sagt við hann að sér hefði verið nauðgað og beðið hann um að koma til sín. Hún hefði ekki sagt hver hefði gert þetta og ekkert sagt frekar um hvernig. Hann kvaðst ekki vita hvaðan hún hringdi, en eftir að hún hringdi eða á meðan hún var að tala við hann, hafi hann heyrt að hún fór inn um dyr og hafi heyrt í mömmu hennar spyrja hvað hefði gerst. Hann kvaðst hafa hringt aftur og hefði mamma hennar tekið símann og sagt honum að hringja seinna. Hann hefði talað við X tveimur dögum seinna og eitthvað hefði hún talað um þetta en ekki í neinum smáatriðum. Hún hefði talað um að hún fyndi til í hnjánum. Hann kvaðst hafa verið búinn að þekkja X í tvo mánuði, þau hefðu verið kærustupar í smá tíma. Hann kvaðst ekki áður hafa orðið vitni af því að hún kæmist í svona uppnám.

Vitnið F gaf skýrslu í síma. Hann kvaðst hafa verið að koma heim úr bænum að morgni 18. ágúst sl. ásamt félaga sínum F, þegar þeir sáu X ganga hágrátandi heim til sín. Hann kvaðst sjá frekar illa, þurfa að fá gleraugu, og hafi honum sýnst að hún væri bara á nærbuxum og ekki í neinu að ofan. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð að hún væri með neitt í fanginu, ekki að hún væri að tala í síma og ekki að hún væri í skóm. Hann kvað X vera vinkonu sína. Þeir hefðu ekki kallað í hana og taldi hann að hún hefði ekki orðið þeirra var. Taldi hann að það hefðu verið um sex, sjö hús á milli þeirra. Þeir hefðu fylgst með henni í nokkrar mínútur þangað til hún var komin heim til sín. Hún hefði hvorki gengið hægt né hratt. Þegar hún var komin heim hefðu þeir heyrt hana öskra “mamma” eða eitthvað álíka. Hann kvaðst aldrei hafa séð X í svona ástandi. Aðspurður jánkaði hann því að hún væri svolítill “töffari”. Beðinn um að lýsa henni nánar, kvað hann hana í meðallagi opna.

Vitnið G kvaðst hafa verið á gangi með félaga sínum snemma morguns 18. ágúst sl. eftir S þegar þeir hefðu heyrt grát og síðan séð X koma frá L og fara inn á S. Hún hafi verið hágrátandi, klædd brjóstahaldara og nærbuxum, og haldið á fötunum sínum í hendinni. Hún hafi verið í skóm. Þeir hafi ekkert sagt og gengið á eftir henni í um 20 metra fjarlægð þar til hún fór inn heima hjá sér. Taldi hann þetta gætu hafa verið um 100 metrar sem þeir fylgdust með henni. Hún hefði gengið, ekki hlaupið. Taldi hann að hún hefði ekki verið að tala í síma. Eftir að hún fór inn hefðu þeir heyrt hana gráta og tala eitthvað við mömmu sína.

Vitnið E, móðir X, kvaðst hafa vaknað umræddan morgun við að hurðinni var skellt og að dóttir hennar kom hágrátandi upp í herbergið til hennar á efri hæð og sagt að henni hefði verið nauðgað. Hún hefði bara verið í bol og brók og hefði öll hrist og skolfið. Hún kvaðst hafa látið X leggjast í sófa í stofunni á neðri hæð, breitt yfir hana sæng og reynt að tala við hana. X hefði verið í losti og átt erfitt með að tala, grátið mikið. Hún kvaðst aldrei hafa séð hana svona. E kvaðst hafa náð í lögregluna um neyðarlínuna og hefðu þeir komið fljótt. Þá hefði hún tekið eftir fötum X á gólfinu við sófann í stofunni. Spurð um skó X kvað hún hana hafa komið í þeim heim. Nokkru síðar hefði læknirinn komið. Hún kvaðst hafa farið með dóttur sinni út á sjúkrahús og síðan á sjúkrahúsið á Y og verið þar viðstödd þegar læknirinn talaði við hana. Spurð út í lögregluskýrslu sína rifjaðist upp fyrir henni að X hefði sagst hafa verið heima hjá Gumma smið með A, B og C. Hún hefði drukkið Mix eða gos og hefði fundist það eitthvað skrýtið, hún kvaðst ekki hafa spurt nánar út í það. B hefði ætlað að bíða eftir henni, hún hefði farið á salernið, og þegar hún kom aftur hefði hann verið farinn og þessi atburðarás hefði byrjað. Hefði Gummi ýtt eða dregið hana inn í eitthvert herbergi. Taldi E að hún hefði seinna spurt X hvort hún hefði ekki getað ýtt honum frá sér og hefði hún sagst ekki hafa náð því. Vitnið kvað þennan morgun vera í mikilli móðu, sjálf hefði hún verið í sjokki og þetta rynni eitthvað saman hjá sér og það væri erfitt að rifja þetta upp. Hún kvaðst ekki vita hvort X hefði dottað í sjúkrabílnum á leiðinni til Y. X hefði bara legið og kreist á henni hendurnar, sér hefði fundist skrýtið að það var “eins og hún væri ekkert á svæðinu.” Allt í einu hefði hún argað upp. Á sjúkrahúsinu hafi X verið orðin mjög þreytt og dottað. Þær hafi komið frá Y seinni partinn. Kvaðst hún um kvöldið hafa farið í göngutúr til að ná áttum, en þá hafi vinkona X hringt og beðið hana að koma því X væri hágrátandi. Hún hafi farið aftur með X á sjúkrahúsið á Z. Spurð hvort X hefði jafnað sig kvað hún henni hafa liðið mjög illa og hefði hún sofið á milli foreldra sinna um nóttina. Hún kvað vanlíðan X hafa verið aðallega andlega, en nánar spurð rifjaðist upp fyrir henni að hún hefði kvartað yfir verk í nára og rasskinn. Vitnið kvað X vera frekar lokaða og almennt ekki tjá tilfinningar sínar mikið. Hún kvað X ekki hafa drukkið á þessum tíma svo hún vissi til. X hefði verið búin að fara tvisvar í meðferð og viðtöl. Nýlega hefði hún farið á Vog í um tíu daga, en það hefði ekki verið vegna áfengisneyslu heldur til að ná tilfinningalegu jafnvægi vegna þessa atburðar. Ráðgjafi frá SÁÁ hefði mælt með því. X hefði einnig leitað til Stígamóta og fengið aðstoð hjá félagsráðgjafa. Taldi hún X vera illa farna vegna þessa atburðar.

Vitnið Guðbrandur Jóhann Ólafsson, lögreglumaður, kvaðst hafa verið á bakvakt og verið ræstur út um sexleytið af neyðarlínunni, sem hefði gefið sér samband við E, móður X. Hún hefði óskað eftir því að lögreglan kæmi þar sem hún teldi að dóttir sín hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, og hefði nefnt nauðgun í því sambandi. Hann hefði ræst starfsfélaga sinn og farið á staðinn. Þar hefði X verið fyrir. Hún hefði verið undir teppi og kvaðst hann ekki geta sagt í dag hvernig hún hefði verið klædd. Hún hefði verið í mikilli geðshræringu, grátandi og með skjálfta. Kvaðst hann hafa ræst út lækni og síðan reynt að tala við hana og róa hana. Það sem hún sagði hefði verið samhengislaust, en í megindráttum hefði hún sagst hafa verið í partíi hjá Guðmundi smið og orðið fyrir kynferðislegri misbeitingu af hans hálfu. Hún hefði nefnt orðið nauðgun og að hann hefði meinað henni brottför úr húsinu. Hún hefði nafngreint önnur ungmenni sem þarna hafi verið, A og B. Þá hefði hún nefnt þarna heima eða í lögreglubílnum á leiðinni á heilsugæslustöðina, að A hefði rætt við hana að hún hefði mök við ákærða gegn greiðslu. Ingvar lögreglumaður hefði síðan ekið henni á sjúkrabílnum til Y. Aðspurður kvaðst hann áður hafa haft afskipti af X vegna áfengisneyslu og útivistartíma, hún hefði verið í erfiðleikum, en væri búin að fara í meðferð og hafi átt að vera í betri málum með líf sitt. Hann kvaðst ekki hafa fundið af henni áfengislykt í umrætt sinn. Hann kvaðst ekki hafa séð X í slíku ástandi sem hún var í þennan morgun, hún hefði verið í hálfgerðu móðursýkiskasti. Hann kvaðst hafa talið ástæðu til þess að taka mark á orðum hennar og rannsaka málið frekar eftir að hafa upplifað hvernig hún “aktaði.”

Þegar Ingvar lögreglumaður hefði verið lagður af stað til Y með X hafi hann farið ásamt Jóni Trausta lögreglumanni að heimili ákærða. Íbúðin sé á neðri hæð, en innangengt upp á efri hæð. Hann hafi knúið dyra að norðanverðu en enginn hafi svarað. Hann hafi farið austur fyrir húsið og þar hafi hurð verið í hálfa gátt. Þeir hafi farið þar inn og kallað en engin hafi svarað. Þeir hafi síðan fundið ákærða sofandi í rúmi sínu. Hann hafi sofið mjög fast og verið illa áttaður þegar hann var vakinn. Kvaðst Guðbrandur Jóhann hafa kynnt ákærða hvað hann væri sakaður um og réttindi hans, en taldi að hann hefði sáralítið meðtekið af því. Ákærði hefði virst vera undir áhrifum áfengis. Hann hefði verið á nærbuxum, en Guðbrandur Jóhann kvaðst ekki muna hvort ákærði hefði verið ber að ofan. Ákærði hefði ætlað að fara að taka eitthvað til í stofunni en verið stöðvaður í því. Ákærði hefði ekki talið sig hafa gert neitt af sér en fallist á að koma á lögreglustöðina. Þar hefði honum verið kynnt réttindi handtekins manns og læknirinn komið og tekið blóð- og þvagsýni. Hann kvaðst síðan hafa farið aftur á vettvang, tekið myndir og haldlagt muni, sem hafi verið afhentir rannsóknarlögreglunni á Y en hún hafi yfirtekið rannsókn málsins.

Vitnið Jón Trausti Traustason, lögreglumaður, skýrði svo frá að hann hefði verið kallaður út vegna málsins um klukkan átta. Hefði Guðbrandur Jóhann hringt í hann og sagt að þeir þyrftu að handtaka mann. Þeir hafi farið að heimili ákærða þar sem austurdyr hafi verið ólæstar. Ummerki hafi verið um samkvæmi í íbúðinni og ákærði hafi verið sofandi. Það hafi gengið erfiðlega að vekja ákærða og hann hafi verið illa áttaður í byrjun. Honum hafi verið kynnt sakarefnið í tvígang, fyrst þarna í íbúðinni og síðan aftur á lögreglustöðinni því þeim hafi ekki fundist hann vel áttaður í fyrra skiptið. Jón Trausti kvað hlutverk sitt síðan hafa verið að haldleggja muni og tryggja vettvang, hurðin hafi ekki fest í falsinu og hafi þurft sérstakar tilfæringar til að geta lokað henni. Rannsóknarlögreglan á Y hafi síðan tekið við málinu. Spurður hvort hann hefði talað við ákærða um málsatvik kvaðst hann hafa spjallað við hann. Hann hefði ekki viljað kannast við að hafa þvingað X til samræðis, en talað um að það hefði verið partí og einhvers konar samneyti á milli þeirra X. Þau hefðu kúrt þarna saman í rúminu og hún síðan rokið á dyr. Hann hefði vaknað upp við það og þetta hafi komið honum á óvart. Spurður hvort ákærði hefði virst muna málsatvik, kvað hann það kannski ekki hafa verið nógu vel enda hefði ákærði sjálfur sagt að nóttin væri að hluta svolítið í þoku, en þetta myndi hann best. Spurður hvort hann hefði áður haft afskipti af X í starfi kvað hann það afskaplega lítið, varðandi útvistartíma eða eitthvað slíkt. Hann kvaðst ekki hafa séð hana þarna um morguninn.

Tekin var símaskýrsla af vitninu Kristbjörgu Sigurðardóttur lækni. Hún kvaðst hafa verið kölluð út á heimili X um kl. 06.30 umræddan morgun. X hefði legið upp í sófa með teppi yfir sér, verið grátandi og greinilega í miklu uppnámi. Hún hefði verið klædd toppi og nærbuxum. Það hefði lítið verið hægt að tala við hana og hefði hún viljað fá X á heilsugæslustöðina. Spurð hvort X hefði verið í sjokki, kvað læknirinn hana ekki hafa verið það. Hún hefði brugðist við því sem við hana var sagt eins og að klæða sig. Hún kvað X hafa róast þegar þær voru komnar inn á skrifstofu vitnisins þar sem hún hefði talað við X í einrúmi. Þar hefði X sagt henni frá því sem hafði gerst. Kristbjörg kvaðst hins vegar ekki hafa skráð þá lýsingu hjá sér og treysti sér lítið til að endurtaka hana. Hún kvaðst hafa skoðað X og hefðu engin líkamleg ummerki verið. Einhver smáóþægindi í hægri rasskinn, en fyrst og fremst hefði hún verið miður sín vegna þessarar lífsreynslu. Engin áfengislykt hafi verið af henni og hún hafi ekki virst vera undir neinum áhrifum vímuefna. Hún hafi síðan sent X á neyðarmóttökuna á Y. Kvöldið eftir hafi X komið aftur til hennar og verið alveg miður sín, verið óhuggandi og ekki getað sofið. Henni hefði verið svolítið illt í rassinum og í náranum og verið hrædd við það. Vitnið kvaðst hafa spjallað við hana og gefið henni svefnlyf og ógleðistillandi lyf og hafi vitnið ekki séð hana eftir það. Fram kom að X hafði komið til hennar áður á stofu, hún hefði komið ágætlega fyrir, róleg og með fínt sjálfstraust, “hún er svona eins og maður segir töffarastelpa.” Hafi vitninu fundist hún geta tekið X trúanlega í umrætt sinn. Vitnið staðfesti tvö vottorð sem fylgja málinu.

Spurð um afskipti sín af ákærða kvaðst hún einungis hafa tekið hjá honum blóð- og þvagprufu þar sem hann var hjá lögreglunni. Hann hafi verið alveg rólegur og samstarfsfús. Hún kvaðst ekkert hafa rætt við hann um málið.

Vitnið Anna Mýrdal Helgadóttir, læknir, kvaðst hafa hlotið sérfræðiviðurkenningu í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp 1985 í Svíþjóð. Kvaðst hún hafa séð X á neyðarmóttöku [...] á Y umræddan dag. X hefði verið í uppnámi, verið stíf og með skjálftakippi, ekki grátandi en mjög leið, mjög syfjuð og hafi dottað. Nánar spurð um þetta kvað hún X hafa borið merki þess að hafa orðið fyrir einhverju áfalli. Fannst vitninu óeðlileg syfja gæti bent til þess að henni hefði verið gefin einhver ólyfjan, þó að það mældist ekki í blóði. Engir líkamlegir áverkar hefðu fundist utan eldri marblettur. Ekki hefðu sést ummerki á vinstri handlegg eða hægri hnúa, en X hafi sagt að tekið hefði verið í vinstri handlegg sinn og að hún hefði slegið með hægri hnúa í manninn. Engir áverkar hefðu verið á kynfærum, en a.m.k. fimm sæðisfrumur hafi sést. Þær hafi ekki verið hreyfanlegar. Hún kvað sæðisfrumur geta sést innan sólarhrings, en ekki eftir einhverja daga. Sæðisfrumur hætti fljótlega að hreyfast þar sem umhverfið í leggöngunum sé þeim óvinveitt. Hún kvað sæði geta lekið fyrir fullnægingu og án þess að menn vissu af því. Hún kvað X vera tæplega í meðallagi á hæð og hún hefði talið sig vera um 55 kg, en við endurkomu hefði hún verið vigtuð 52 kg. Hún hafi komið þrisvar í endurkomu. Vitnið staðfesti skýrslu sína og kvaðst hafa skrifað hana í beinu framhaldi af samtali sínu við X og skoðun.

Vitnið Guðrún Árnadóttir, starfsmaður félagsþjónustunnar á Z, kvað X hafa leitað til sín bæði fyrir og eftir þann atburð sem hér er til umfjöllunar. Hún kvaðst vera fóstra að mennt og hafa unnið að félagsmálastörfum í fjögur til fimm ár. X hefði átt við áfengisvandamál að stríða og væri ekki í góðu jafnvægi. Hún hefði farið á Vog til að styrkja sig að ráði Hjalta Björnssonar dagskrárstjóra á Vogi, sem hefði komið á Z. Beðin um að lýsa X kvað vitnið hana vera opna og frakka og stundum geta verið dálítið glannalega, hún væri að mati vitnisins fyrst og fremst ung og óþroskuð. Vitnið taldi að X hefði ekki fengið eins mikla hjálp og hún þyrfti á að halda. Eftir atvikið væru hjá henni skarpari geðsveiflur. Vitnið taldi hana ekki hafa lokað sig af og hún stæði sig ágætlega í vinnu. Spurð vegna viðbragða X við atvikinu, sagði hún að X gæti verið ör, ef henni liði illa, en kvaðst ekki hafa orðið vitni að viðbrögðum eins og hún væri sögð hafa sýnt þá og taldi að þarna hefði “verið ansi að henni gengið.”

Ákærði kom aftur fyrir dóminn þegar vitni höfðu verið yfirheyrð. Hann kvað það rétt að A hefði komið heim með honum á miðvikudeginum og drukkið bjóra sem hann átti í ísskápnum og kvað það geta verið rétt að B hefði einnig komið þar, en kannaðist ekki við að C hefði komið, þó einhver hefði komið við, og kannaðist ekki við að þeir A og B hefðu verið þar á fimmtudeginum. Sjálfur kvaðst hann ekkert hafa drukkið fyrr en á föstudagskvöldið. Þá gerði hann athugasemd við framburð ungmennanna almennt og við framburð lögreglunnar um að hurðin hefði verið opin og hann hefði ekki verið vel áttaður þegar hann var vakinn. Ákærði kvaðst muna það sem við hann var sagt þá. Aðspurður kvaðst hann ekki þola sterkt vín og hefði komið fyrir að yfir hann kæmi óminni af því, en ekki af bjór, sem hann hefði einungis drukkið þetta kvöld. Hann kvað X ekki hafa verið grátandi þegar hún fór frá honum.

Við framhald aðalmeðferðar kom fyrir dóminn vitnið Daníel Snorrason rannsóknarlögreglumaður. Hann kvaðst hafa stjórnað rannsókn málsins eftir að lögreglan á Z óskaði eftir aðstoð við það. Lýsti hann viðtali sínu við X eftir skoðun á neyðarmóttöku [...] og staðfesti skýrslu sína um það samtal. Kvað hann X hafa verið yfirvegaða og í góðu jafnvægi og gefið greinargóða frásögn. Aðspurður kvað hann hafa talið hana vera trúverðuga. Hann lýsti einnig skýrslutöku af ákærða sem farið hefði fram eftir vettvangsrannsókn. Hefði hann einnig verið í mjög góðu jafnvægi. Fyrst hefði verið tekin af honum stutt skýrsla á Z, en ítarlegri skýrsla hefði verið tekin síðar eftir að hann var færður til Y til afplánunar dóms. Fatnaður X hefði borist lögreglu frá neyðarmóttöku. Hefðu föt þessi verið skoðuð á meðan á rannsókn stóð, en ekki hefði verið tilefni til að fjalla frekar um þau. Vitnið sýndi í dóminum svartar utanyfirbuxur, sem ekkert var athugavert við en ljóst var að hnappagat var rúmt og tala því laus í hneppslu, ljósar sokkabuxur með nokkrum götum þar af eitt að aftanverðu ofarlega nálægt streng, ennfremur var gat og lykkjufall á innanverðu læri. Einnig blár toppur og hvítur bolur sem ekki verður talið að hafi tilheyrt X. Vitnið kvaðst sjálft ekki hafa haldlagt muni í íbúðinni, og kvað flösku með gulum vökva og grænum tappa sem getið er í gögnum málsins aldrei hafa komið til rannsóknarlögreglunnar á Y. Glös hefðu verið tóm og ekki talið tilefni til að rannsaka innihald í flöskum. Sérstaklega spurður kvað hann ekki hafa verið talið tilefni til að haldleggja svarta sokka sem fundust í íbúðinni, þar sem þeir hafi ekki verið taldir tilheyra X. Ekki hafi verið talin ástæða til að rannsaka sérstaklega lak, sængurver og koddaver sem lögreglan á Z haldlagði. Hann kvað dyraumbúnað á íbúð ákærða hafa vakið athygli lögreglu, greinilegt hafi verið að hurðin hafði verið rifin upp, og hafi það verið í samræmi við frásögn X. Lögreglan á Z hafi sagt að hurðin hafi verið opin er þeir komu að og hafi þurft að gera sérstakar ráðstafanir til að loka henni. Aðspurður kvað hann ekki útilokað að skemmdirnar gætu hafa verið eldri. Vitnið staðfesti rannsóknarskýrslur sem það hefur skráð og fylgja málsgögnum.

Niðurstaða

                Ákærði og X þekktust ekki fyrir, en vísbendingar eru um að ákærði hafi haft kynferðislegan áhuga á X í samkvæminu og henni hafi verið þetta ljóst. Upplýst er til dæmis með framburði X og ákærða, sem hefur stuðning í framburði C, og A hjá lögreglu, að ákærði hafi fyrr um kvöldið boðið A 10.000 krónur fyrir “að fara á X.” Þó að ákærði haldi því fram að ekki hafi átt að taka “tilboðið” alvarlega, verður ekki litið fram hjá því að tal af þessu tagi er í sjálfu sér lítilsvirðandi og kynferðislegt. Þykir upplýst að X brást illa við framangreindu “tilboði” ákærða. Til þessa bendir einnig framburður um samræður X við C um áhyggjur sínar varðandi ákærða.

B getur ekki staðfest að X hafi beðið hann um að bíða eftir sér þar sem hún hafi ætlað að vera honum samferða, en hann man mjög lítið eftir þessu kvöldi vegna áfengis- og lyfjaneyslu. Þykir frásögn X um þetta atriði trúverðug. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að X hafi haft áhuga á að vera ein með ákærða eða haft á honum kynferðislegan áhuga. Viðbrögð hennar við “tilboði” ákærða og samræður við C benda til hins gagnstæða. Ekki verður fallist á það með verjanda, að það að hún ákveður að ljúka við kókið sitt og reykja sígarettu áður en hún fer, þegar hún stendur frammi fyrir því að vera ein eftir með ákærða, veiki trúverðugleika framburðar hennar. Er sú hegðun í samræmi við persónuleika hennar eins og vitni lýsa henni, að hún sé dálítill glanni og “töffarastelpa”. Mátti ákærði ekki draga af því þá ályktun að hún væri tilbúin til kynmaka.

                X kveðst skyndilega hafa orðið þung eftir að hún þambaði kókið og hafa dottað í sófanum. Vaknaði hjá henni grunur um að eitthvað lyf hefði verið sett út í kókið hennar. Ákærði neitar að hafa gert það. Vitni kannast við að töflur hafi verið hafðar um hönd í samkvæminu en enginn vitnisburður er um að eitthvað hafi verið sett í drykk hennar. Vitnið Kristbjörg ber að hún hafi sérstaklega litið eftir því hvort X væri undir einhverjum annarlegum áhrifum og taldi vitnið að svo hafi ekki verið. Ekkert slíkt kom fram við blóðprufu, en vitnið Anna Mýrdal taldi að áhrifa slíkra efna gæti gætt þó það væri ekki mælanlegt í blóði. Þar sem engar sannanir styðja þessa tilgátu verður ekki á því byggt að X hafi verði gefið eitthvað lyf. Komið var fram undir morgun á laugardegi og ekki óeðlilegt að þreytu hafi verið farið að gæta. Hins vegar er upplýst með framburði X og vitna, gegn framburði ákærða, að hún drakk ekki áfengi þessa nótt. Rannsókn á blóðprufu úr henni sýndi ekkert áfengi í blóði.

                X ber að þegar hún rankar við sér eftir að dotta í sófanum hafi hún orðið vör við kynferðislega tilburði hjá ákærða. Hann hafi þá verið búinn að hneppa frá sér buxunum og hafi haldið utan um hana. Svo sem rakið hefur verið kvaðst hún hafa ætlað að fara í skyndi og heldur því fram að hann hafi hindrað för hennar, tekið hana inn í svefnherbergið, tekið hana úr fötunum og neytt aflsmunar við að hefja samfarir. Hún kveðst hafa veitt mótspyrnu, lamið til hans og hrópað á hann að hætta. Hún telur að henni hafi tekist að ýta honum af sér og hlaupa fram í forstofu, þar sem hann hafi aftur hindrað að hún færi út, en hún hafi snúið frá og hlaupið út um aðrar dyr á íbúðinni og á leiðinni skellt á hann millidyrum. Þessi atburðarás getur vel samræmst því andlega ástandi sem X var í á leiðinni heim og þar á eftir samkvæmt framburði vitna, og því að hún fer út og alla leið heim á nærbuxum og bol einum fata.

X hringdi strax og hún kom út úr húsinu í vin sinn, vitnið C, og sagði honum að henni hefði verið nauðgað. Hefur hún og lýst atburðarásinni ítarlega í þrígang svo skráð hafi verið: fyrir lögreglu, á bráðamóttöku og fyrir dómi og hefur verið samræmi í framburði hennar. Það er mat dómsins að framburður X hafi verið staðfastur og sé í heild trúverðugur. Dóminum þykir sannað með framburði vitna, E, móður X, D, G, F, læknanna Kristbjargar og Önnu og lögreglumannsins Guðbrands Jóhanns, og ákærða sjálfs, að X hafi verið verulega miður sín er hún kom frá heimili ákærða að morgni 18. ágúst 2001 og þykir ástand hennar ekki verða skýrt öðruvísi en að hún hafi orðið þar fyrir alvarlegu áfalli. Slæmur draumur eða afturhvarf frá vilja til samfara þykja ekki geta skýrt það hugarástand sem vitnin lýsa. Samkvæmt læknisskoðun bar X ekki merki um áverka eftir atburðinn, en eymsli komu fram síðar um kvöldið eins og staðfest er með læknisvottorði Kristbjargar Sigurðardóttur, þykir þetta styðja lýsingu X á atburðarásinni. Dómurinn hefur skoðað föt þau sem X var í og haldlögð voru af lögreglu. Voru ytri buxur heilar, hnappagat rúmt, rennilás heill, en sokkabuxur með götum og lykkjufalli. Þykja ekki verða dregnar neinar sérstakar ályktanir af ástandi fatanna.

                Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Hann kannast við að hafa byrjað samfarir en heldur því fram að það hafi verið með vilja og samþykki X. Hann kveðst síðan hafa orðið var við að afstaða hennar breyttist og hafa þá hætt. Hann heldur því fram að þau hafi síðan bæði dottað en skyndilega hafi X eins og vaknað upp í móðursýkiskasti og rokið fáklædd á dyr án þess að hann fengi nokkuð að gert eða fengið nokkurn botn í orsök þessa.

Framburður ákærða hefur ekki verið fyllilega staðfastur, en hann neitaði í fyrstu hjá lögreglu kynferðislegum samskiptum við stúlkuna. Má líta á það sem varnarviðbrögð, en hann bar fyrir dómi að hann hefði gert sér grein fyrir því um morguninn að einhverjir eftirmálar yrðu af samskiptum þeirra. Ákærði staðfestir í stórum dráttum frásögn X um brottför hennar úr íbúðinni, en kveðst hafa reynt að hindra hana í að fara því hann vildi reyna að róa hana og fá skýringu á háttsemi hennar. Ákærði ber einnig að hann hafi áttað sig á að hún vildi ekki samfarir, en taldi að þar hefði verið um afturhvarf hennar að ræða. Frásögn hans um að þau hafi síðan bæði sofnað og hann hafi vaknað við að hún vaknaði í móðursýkiskasti þykir dóminum vera fjarstæðukennd í ljósi viðbragða X og ástands hennar. Ákærði andmælir framburði lögreglu um að hann hafi verið illa áttaður og segist muna þessa atburðarás vel. Upplýst er að hann á við áfengisvandamál að stríða en hafði þarna látið freistast til að neyta áfengis. Samkvæmt rannsókn á blóð- og þvagsýni sem tekin voru klukkan 9.30 þennan morgun mældist áfengismagn í blóði hans, að teknu tilliti til vikmarka, 1.00‰ og í þvagi 1.90‰. Hann hefur að eigin sögn áður komist í vandræði vegna áfengisneyslu og komist í óminnisástand við neyslu sterkra drykkja, en ekki bjórs. Ekki er tilefni til að rengja þá fullyrðingu ákærða að hann hafi þessa nótt aðallega drukkið bjór. Má engu að síður vera ljóst að þar var um talsvert magn að ræða og að hvers konar áfengisneysla brenglar dómgreind viðkomandi og minni. Þykir mega leggja til grundvallar framburð lögreglu og skýrslur um að ákærði hafi verið illa áttaður þegar hann var vakinn. Um nokkur önnur atriði er framburður ákærða ekki í samræmi við vætti annarra, svo sem um drykkju X, mannamót á heimili hans á miðvikudeginum og fimmtudeginum á undan og frágang útihurðar. Af öllu þessu verður framburði ákærða og mati hans á atburðarásinni, þar sem þau X eru tvö ein til frásagnar, ekki gefið eins mikið vægi og framburði hennar.

Þegar allt þetta sem hér hefur verið rakið er virt í ljósi þess að X bar sannanlega öll merki þess að hafa orðið fyrir verulegu áfalli í húsi ákærða þennan morgun, þar sem þau voru tvö ein, þykir ekki varhugavert að leggja framburð hennar um málsatvik til grundvallar niðurstöðu málsins. Þegar haft er í huga að hún er unglingur, nýorðin 17 ára, en ákærði er fullorðinn maður, 29 ára gamall, talsvert drukkinn, stærri og sterkari, er það mat dómsins að ekki sé til staðar neinn vafi á því, að ákærði hafi þarna neytt aflsmunar til að ná fram vilja sínum. Þó að lögð sé jafnframt til grundvallar sú fullyrðing hans, að hann hafi síðan hætt samförum, þá var brotið þegar fullframið. Ákærði er því fundinn sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og er réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.

Refsiákvörðun

Ákærði er fæddur í febrúar 1972. Eftir að hann náði 18 ára aldri hefur honum fjórum sinnum verið gerð refsing vegna ölvunaraksturs, þar af tvisvar í 60 daga refsivist, síðast í marsmánuði árið 2000 og árið 1997 var hann dæmdur í 45 daga varðhald fyrir líkamsárás og áfengislagabrot.

Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði hafði mikla yfirburði vegna aldurs- og aflsmunar, sem hann neytti til að byrja samfarir við unglingsstúlku og bendir allt til þess að ásetningur hans til þess að eiga við hana kynmök hafi mótast fyrr um kvöldið. Hins vegar þykir mega leggja til grundvallar að hann hafi áttað sig á óvilja X og horfið frá hinni refsiverðu háttsemi. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.

Skaðabótakrafa

Réttargæslumaður krefst miskabóta og greiðslu útlagðs kostnaðar til handa X. Er miskabótakrafan byggð á því að ákærði hafi meitt X með framkomu sinni og hafi hún orðið fyrir alvarlegum andlegum og félagslegum áverka. Hún hafi verið niðurlægð og vanvirt af sér miklu eldri manni sem hafi nýtt sér aðstöðu sína á ógeðfelldan hátt. Eftir atburðinn hafi hún fundið fyrir tilfinningalegum dofa og samskipti við kærasta orðið verri. Hún þjáist af svefntruflunum, sé viðkvæmari í lund og eigi við miklar skapsveiflur að stríða. Hún haldi sig meira heima við en áður.

Vitnið Guðrún Árnadóttir starfsmaður félagsþjónustunnar bar að líðan X væri frekar slæm og andlegt ójafnvægi hefði versnað eftir atburðinn. Taldi hún hana þurfa meiri aðstoð en hún hefði fengið. Er upplýst að X fór nýlega í tíu daga meðferð á Vog til þess að fá hjálp við að styrkja sig tilfinningalega, en ekki af því að hún hefði byrjað að neyta áfengis aftur. Móðir hennar kvað hana vera mjög illa farna. Unglingarnir sem báru vitni í málinu töldu sig ekki hafa merkt að X hefði einangrað sig félagslega eftir atburðinn og að hún væri sjálfri sér lík. Ekkert þeirra virðist þó umgangast hana mikið í dag. Öll báru að hún hefði ekki viljað tala mikið um atburðinn og þau hefðu ekki gengið á hana. Af framburði þeirra, læknisins á Z og starfsmanns félagsþjónustunnar, er ljóst að X ber ekki tilfinningar sínar á torg. Hún hefur þrisvar komið í endurkomu á slysadeild [...], síðast 7. mars sl. Af skýrslum þar um og vætti læknisins er hún að jafna sig á atburðinum, en enn gætir þó áhrifa hans. Eðli málsins samkvæmt er hætt við að svo verði um langa framtíð.

Með vísan til niðurstöðu í refsiþætti máls þessa og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þykir ákærði með háttsemi sinni hafa valdið X miska og vera skaðabótaskyldur gagnvart henni. Bætur til hennar eru ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. ágúst 2001 til 16. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig skal ákærði greiða skjalfestan útlagðan kostnað hennar 4.500 krónur, og 100.000 krónur vegna réttargæsluþóknunar skipaðs talsmanns hennar, Berglindar Svavarsdóttur héraðsdómslögmanns.

Fallist er á það með verjanda að ekki hafi verið tilefni til að afla veðurvottorðs. Ákærði skal greiða allan sakarkostnað að frádregnum 5.162 krónum vegna þessa vottorðs. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, ákvarðast 250.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði J. Friðjónsdóttur saksóknara.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Guðmundur Magnús Elíasson, skal sæta fangelsi í 2 ár.

Ákærði skal greiða X 604.500 krónur í skaðabætur með vöxtum frá 18. ágúst 2001, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 til 16. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 100.000 krónur vegna réttargæsluþóknunar skipaðs talsmanns hennar, Berglindar Svavarsdóttur héraðsdómslögmanns.

                Ákærði skal greiða allan sakarkostnað að frádregnum 5.162 krónum en meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.

                                                                                Hjördís Hákonardóttir.

                                                                                Ólafur Ólafsson

                                                                                Ólöf Pétursdóttir