Hæstiréttur íslands

Mál nr. 600/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 25

 

Miðvikudaginn 25. nóvember 2009.

Nr. 600/2009.

DekaBank Deutsche Girozentrale Luxembourg S.A.

DZ Bank AG Deutsche Zentral-Genossenschaftsbank, Frankfurt am Main

HSH Nordbank AG, Copenhagen Branch

National Bank of Egypt (UK) Limited

Raiffeisen Zentralbank Österreich Aktiengesellschaft

Salzburger Landes-Hypothekenbank Aktiengesellschaft

Sparebanken Øst og

Sumitomo Mitsui Banking Corporation Europe Limited

(Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

gegn

Seðlabanka Íslands

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

D o.fl. stefndu SÍ og kröfðust þess að viðurkenndur yrði réttur þeirra til skaðabóta úr hendi SÍ vegna þess tjóns sem ákvörðun SÍ um að hafna SPRON um lausafjárstuðning hefði leitt til fyrir þá. Var málinu vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Þá var talið að ekki hafi verið lögð fram grundvallargögn og talið brotið gegn 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 þar sem mikill fjöldi skjala hafi verið lagður fram á ensku án íslenskrar þýðingar. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að það hafi verið ágalli á málatilbúnaði D o.fl. að ekki hafi verið sinnt áskilnaði a. og b. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um rétta tilgreiningu á þeim, en þetta valdi þó ekki frávísun málsins. Þá verði þess ekki krafist að íslensk þýðing fylgi öllum skjölum sem lögð séu fram á erlendum tungumálum, sbr. 3. mgr. 10. gr. laganna. Hins vegar var málið talið vanreifað um stöðu hvers stefnanda í málinu, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ekki var talið að reifun D o.fl. á grundvelli skaðabótaábyrgðar gæti ein og sér leitt til frávísunar málsins. Fram kom að ekki væri gerð grein fyrir því hvert ætla mætti að væri tjón hvers fyrir sig né hvernig það væri til komið og hvernig tengsl þess væru við atvik máls. D o.fl. hafi í stefnu hvorki leitt líkur að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni, né lýst í hverju tjónið fælist. Úr þessum annmörkum verði ekki bætt undir rekstri málsins, enda miðist varnir í héraði við málið eins og það væri við þingfestingu þess. Málatilbúnaður D o.fl. um ætlaða lögvarða hagsmuni þeirra væri því ekki í samræmi við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og var því þegar af þeirra ástæðu staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2009, þar sem máli sóknaraðila og fleiri á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál þetta var höfðað í héraði af 27 aðilum og kemur fram í heiti þeirra, að um sé að ræða erlenda banka, auk þess sem það er tekið fram í stefnu. Fjórir stefnenda féllu frá málshöfðun af sinni hálfu undir rekstri málsins í héraði. Sóknaraðilar málsins eru átta úr hópi þeirra 23 sem ráku málið í héraði.

Fallist er á með héraðsdómi að það hafi verið ágalli á málatilbúnaði stefnenda að ekki var sinnt áskilnaði a. og b. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um rétta tilgreiningu á stefnendum og hver væri til fyrirsvars fyrir hvern og einn þeirra, sbr. og 4. mgr. 17. gr. laganna. Sóknaraðilar kveðast hafa leitast við að bæta úr þessum ágalla og ætlað að leggja fram upplýsingar um þessi atriði í upphafi þinghalds 23. september 2009 er málið skyldi flutt munnlega um frávísunarkröfu varnaraðila. Kveða sóknaraðilar að þeim hafi verið meinuð framlagning gagnanna. Sóknaraðilar gátu látið bóka yfirlýsingu um þessa synjun, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 91/1991. Um þetta er þó ekkert bókað af hálfu héraðsdómara í þingbók. Verður ekki lagt til grundvallar að stefnendum hafi verið meinuð framlagning gagnanna fyrir héraðsdómi. Sóknaraðilar hafa sent Hæstarétti þessi gögn með kæru eins og heimilt er samkvæmt 2. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991. Veldur þessi ágalli ekki frávísun málsins.

Fallist er á niðurstöðu í hinum kærða úrskurði um áhrif þess annmarka á stefnu, sem fólst í að kennitala og heimilisfang fyrirsvarsmanns varnaraðila var ekki rétt tilgreint.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hafa stefnendur í héraði lagt fram 18 skjöl á erlendu tungumáli, án þess að íslensk þýðing fylgdi. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að þingmálið sé íslenska. Til samræmis við það er mælt fyrir um í 3. mgr. sömu greinar að skjali á erlendu tungumáli skuli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku ,,að því leyti sem byggt er á efni þess í máli nema dómari telji sér fært að þýða það.“ Verður þess því ekki krafist að öllum skjölum sem lögð eru fram á erlendum málum fylgi íslensk þýðing og teljist þýðing nauðsynleg er rétt að þýða þann hluta skjals, sem málatilbúnaður er reistur á eða sérstaklega er vísað til.

Í hinum kærða úrskurði er greint frá því að sóknaraðilar og aðrir stefnendur málsins í héraði séu meðal fjármálafyrirtækja, sem átt hafi aðild að lánasamningum við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. Lánasamningar þeir, sem stefnendur eru aðilar að, voru ekki lagðir fram í héraði, en lagt fram blað með upplýsingum um þrjá lánasamninga og lánveitendur samkvæmt þeim. Sóknaraðilar hafa lagt fyrir Hæstarétt þrjá lánasamninga og tvo samninga um breytingar á þeim. Í lánasamningunum eru ýmsar takmarkanir á heimildum einstakra lánveitenda, sem eru aðilar að þeim, til þess að gera ráðstafanir tengdar samningunum á eigin spýtur. Þótt ekki sé loku fyrir það skotið, að einstakir lánveitendur í slíkum lánasamningum geti sótt kröfu til viðurkenningar á skaðabótaskyldu utan samninga ber að gera grein fyrir stöðu hvers stefnanda í máli eins og þessu og skýra hvers vegna slíkar takmarkanir í lánasamningum eigi ekki við um hann. Málið er vanreifað um þetta atriði, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Málið er höfðað til viðurkenningar á rétti sóknaraðila og annarra stefnenda í héraði til skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna tjóns, sem ákvörðun hans 20. mars 2009 um að hafna Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. um lausafjárstuðning hafi haft í för með sér fyrir þá. Í stefnu eru atvik máls reifuð ítarlega og að því búnu fjallað um hver hafi verið grundvöllur þeirrar ákvörðunar varnaraðila að synja Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. um lausafjárstuðning. Í framhaldi af því segir að krafan um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila sé reist á því að ákvörðun hans hafi verið ,,tekin og útfærð á saknæman og ólögmætan hátt“ og þar með valdið stefnendum málsins tjóni, sem varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á. Því næst er reifað að ástæður þess að ákvörðunin hafi verið saknæm og ólögmæt séu þær, að varnaraðili hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína áður en ákvörðunin var tekin, hann hafi brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að ganga lengra með ákvörðuninni en nauðsyn bar til, hann hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína, ákvörðunin hafi verið ósanngjörn og ómálefnanleg í garð sóknaraðila og falið í sér brot á jafnræðisreglu íslensks réttar. Þá kveðast þeir hafa haft réttmætar væntingar sem ekki hafi gengið eftir vegna ákvörðunar varnaraðila. Reifun sóknaraðila á grundvelli skaðabótaábyrgðar getur ein og sér ekki leitt til frávísunar málsins.

Um tjón sóknaraðila segir í stefnu: ,,Hin saknæma og ólögmæta ákvörðun ... hefur valdið stefnendum umtalsverðu tjóni ... þótt umfang tjónsins sé ekki hægt að sannreyna að svo stöddu. Þrátt fyrir að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins væri felld úr gildi eins og krafist hefur verið í öðru dómsmáli ... hefur umtalsvert tjón orðið á verðmæti eigna SPRON og mögulegum framtíðarrekstri vegna yfirfærslu viðskiptavina SPRON í aðra fjármálastofnun án greiðslu til SPRON og ráðstöfun eigna að öðru leyti sem leitt hefur til verulegs tjóns á vörumerkinu ,,SPRON“. Ekki þarf að velkjast í vafa um að orsakatengsl eru á milli hinnar saknæmu og ólögmætu ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins og þeirra afleiðinga að mun minni eignir munu standa til fullnustu kröfum stefnenda.“ Sóknaraðilar hafa í kæru til Hæstaréttar leiðrétt tilvísun til Fjármálaeftirlitsins í þessari umfjöllun þannig að átt sé við varnaraðila. Frekari grein er hvorki gerð fyrir því hvert ætla megi að sé tjón hvers stefnenda í héraði né hvernig það er til komið og tengist hinni ætluðu saknæmu og ólögmætu ákvörðun varnaraðila.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.

Eins og fram er komið er ekki að því vikið með skýrum hætti í stefnu í hverju hið ætlaða tjón felist. Ekki er heldur gerð grein fyrir því hvernig hver og einn af stefnendum málsins hafi orðið fyrir tjóni og hvernig tengsl þess séu við atvik máls. Sóknaraðilar hafa því í stefnu hvorki leitt líkur að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni, né lýst í hverju tjónið felist. Úr þessum annmörkum verður ekki bætt undir rekstri máls, enda miðast varnir í héraði við málið eins og það var við þingfestingu þess. Málatilbúnaður sóknaraðila um ætlaða lögvarða hagsmuni hans er því ekki í samræmi við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og verður þegar af þessari ástæðu fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærður úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, DekaBank Deutsche Girozentrale Luxembourg S.A., DZ Bank AG Deutsche Zentral-Genossenschaftsbank Frankfurt am Main, HSH Nordbank AG Copenhagen Branch, National Bank of Egypt (UK) Limited, Raiffeisen Zentralbank Österreich Aktiengesellschaft, Salzburger Landes-Hypothekenbank Aktiengesellschaft, Sparebanken Øst og Sumitomo Mitsui Banking Corporation Europe Limited, greiði óskipt varnaraðila, Seðlabanka Íslands, 300.000 krónur kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2009.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 23. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af BAWAG P.S.K. Bank für Arbeit und Wirtschaft und Österreichische Postsparkasse Aktiengesellschaft, Georg Coch Platz 2, 1018 Vín, Austurríki; Bayerische Landesbank, Brienner Straße 18, 80333 München, Þýskalandi; Cathay United Bank 1F., No.7, Songren Rd. Taipei, Taívan; Commerzbank AG, Kaiserplatz D-60311, Frankfurt, Þýskalandi; Commerzbank International S.A., 25, rue Edward Steichen L-2540, Lúxemborg; DekaBank Deutsche Girozentrale Luxembourg S.A., 38, avenue John F. Kennedy, 1855 Lúxemborg, Lúxemborg; Dresdner Bank AG, Niederlassung Luxembourg 6A, route de Trèves, L-2633 Senningerberg, Lúxemborg; DZ Bank AG Deutsche Zentral-Genossenschaftsbank Frankfurt am Main, Platz der Republik, D- 60265 Frankfurt am Main, Þýskalandi; Erste Europäische Pfandbrief- und Kommunalkreditbank Aktiengesellschaft in Luxembourg, Lúxemborg 25, rue Edward Steichen L-2540 Lúxemborg; Eurohypo AG, Helfmann-Park  5, D - 65760 Eschborn, Þýskalandi; HSH Nordbank AG, Copenhagen Branch, Kalvebod Brygge 39-41, DK - 1560 Kaupmannahöfn V, Danmörku; Hypo Alpe-Adria-Bank International AG, Alpen-Adria-Platz 1, A-9020 Klagenfurt am Wörthersee, Austurríki; Landesbank Baden-Württemberg, Am Hauptbahnhof 2, 70173 Stuttgart, Þýskalandi; Landesbank Baden-Württemberg, London branch, 201 Bishopsgate, London EC2M 3UN, Bretlandi; Landesbank Saar, Luxembourg Branch 3, rue Jean Monnet, L-2180 Lúxemborg; National Bank of Egypt (UK) Limited, Trafalgar House 11, Waterloo Place, London SW1Y 4AU, Bretlandi; Raiffeisenlandesbank Kaernten Rechenzentrum und Revisionsverband, reg. Gen.m.b.H., Raiffeisenplatz 1, 9020 Klagenfurt, Austurríki; Raiffeisenlandesbank Niederösterreich-Wien AG, Friedrich-Wilhelm-Raiffeisenplatz 1, 1020 Wien, Austurríki; Raiffeisenverband Salzburg reg.Gen.m.b.H., Schwarzstrasse 13-15, 5024 Salzburg, Austurríki; Raiffeisen Zentralbank Österreich Aktiengesellschaft, Am Stadtpark 9, A-1030 Vín, Austurríki; Salzburger Landes-Hypothekenbank Aktiengesellschaft, Residenzplatz 7, 5020 Salzburg, Austurríki; Sparebanken Øst, Bragernes Torg 2, Postboks 54, 3001 Drammen, Noregi; Sumitomo Mitsui Banking Corporation Europe Limited, 99 Queen Victoria Street, London EC4V 4EH, Bretlandi á hendur Seðlabanka Íslands, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík með stefnu birtri 24. apríl 2009.

Dómkröfur

Stefnendur gera hver fyrir sig þá dómkröfu gegn stefnda, að viðurkenndur verði réttur stefnenda til skaðabóta úr hendi stefnda, Seðlabanka Íslands, vegna þess tjóns sem ákvörðun stefnda, Seðlabanka Íslands, hinn 20. mars 2009, um að hafna Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. um lausafjárstuðning hefur leitt til fyrir stefnendur.

Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

                Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði alfarið sýknaður af kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnenda.

                Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnendur hafna frávísunarkröfu stefnda og krefjast málskostnaður úr hendi hans.

 Ágreiningsefni

                Stefnendur telja sig hafa lánað SPRON fé. Þegar halla tók undan fæti hjá SPRON hafi verið samræður á milli málsaðila um að treysta rekstrargrundvöll SPRON. Þeim samræðum hafi verið slitið og fékk SPRON ekki þann lausafjárstuðning sem óskað var eftir. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 var vald hluthafafundar SPRON tekið yfir og skilanefnd stofnuð. SPRON sé nú í slitameðferð og telja stefnendur sig hafa orðið fyrir tjóni. 

Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun

Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu. Hver og ein málsástæða nægi til frávísunar málsins.

Um aðildarhæfi. Í stefnu eru nöfn stefnenda tilgreind og taldir upp 27 aðilar. Ekkert liggur hins vegar fyrir um hverjir þessir aðilar eru, eðli þeirra, nánara inntak og uppbyggingu. Þá eru engin gögn lögð fram af hálfu stefnenda sem sanna deili á stefnendum. Er því engan veginn hægt, af málatilbúnaði stefnenda, að ráða hvort aðilar þessir séu félög, stofnanir eða annars konar aðilar sem sjálfstætt geta átt réttindi og borið skyldur að íslenskum lögum, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er því ósannað að hver og einn stefnenda geti notið aðildarhæfis fyrir dómstólum hér á landi. Með vísan til þess verður að vísa máli þessu frá dómi.

Um fyrirsvar til sóknar. Fyrirsvarsmenn stefnenda eru ekki tilgreindir í stefnu, eins og ber að gera samkvæmt fortakslausu ákvæði b liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Er því engin leið að átta sig á hver er til þess bær af hálfu stefnenda og í þeirra nafni að ráðstafa þeim hagsmunum sem málsóknin lýtur að. Veldur þessi annmarki á málatilbúnaði stefnenda því að vísa verður málinu frá dómi.

Um fyrirsvar til varnar. Í málinu gera stefnendur kröfu um að viðurkennd verði bótaskylda stefnda, Seðlabanka Íslands, vegna meints tjóns sem stefnendur halda fram að þeir hafi orðið fyrir vegna nánar tilgreindrar ákvörðunar stefnda. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands ber ríkissjóður ábyrgð á öllum skuldbindingum stefnda. Með vísan til þess, og þess að krafa stefnenda lýtur að viðurkenningu á greiðsluskyldu úr ríkissjóði í formi skaðabóta, ber að beina málsókn sem þessari að fjármálaráðherra sem fyrirsvarsmanni en hann fer með málefni ríkissjóðs. Fyrirsvar málsins til varnar er því rangt. Leiðir það til þess að vísa ber málinu frá dómi.

Um vanreifun. Stefnendur hafa höfðað mál þetta á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð. Óhjákvæmilegt skilyrði slíkrar málsóknar er þó að stefnendur sýni fram á saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda, að þeir hafi beðið tjón og hvert tjónið sé, þ.e. í hverju það sé fólgið þótt ákvörðun bótafjárhæðar sé látin bíða, og á hvern hátt það hafi orsakast af þeim atvikum sem eru talin hafa valdið bótaábyrgð.

Stefnendur hafa í engu fullnægt framangreindum lágmarkskröfum. Þeir útskýra með engum hætti í stefnu hvort, og þá hvaða tjóni, þeir telja sig hafa orðið fyrir, og hvernig það tjón sé að rekja til atriða sem stefndi ber ábyrgð á. Stefnendur halda því fram að þeir séu kröfuhafar SPRON en leggja með engum hætti fram gögn sem sýna fram á það, hvorki undirritaða lánasamninga né nokkuð annað. Þá liggur fyrir að jafnvel þótt stefnendum tækist að sýna fram á að þeir væru kröfuhafar SPRON liggur ekkert fyrir um hvort, og þá með hvaða hætti, þeir, sem kröfuhafar, hafa beðið tjón af atvikum sem stefndi bæri ábyrgð á. Þannig er ljóst að samskipti þau sem liggja fyrir í málinu beindust að SPRON en ekki kröfuhöfum þess, hluthöfum eða öðrum sem hagsmuna eiga að gæta. Vegna þessara annmarka er stefnda gert ómögulegt að taka til varna.

Loks, og hvað sem öðru líður, liggur ekkert fyrir um það hvað kemur upp í kröfur stefnenda við skila- og slitameðferð SPRON og að hvað marki stefnendur njóta trygginga fyrir sínum kröfum.

Með vísan til framangreinds hafa stefnendur í engu sýnt fram á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af máli þessu, að þeir hafi orðið fyrir tjóni og hvert tjónið sé, þ.e. í hverju það sé fólgið, og á hvern hátt það hafi orsakast af þeim atvikum sem valda bótaábyrgð stefnda. Samkvæmt því er stefnendum ekki fært að gera viðurkenningarkröfu þá sem þeir gera um skaðabótaskyldu á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og verður að vísa henni frá dómi og þar með málinu í heild vegna vanreifunar.

Um að málatilbúnaður stefnenda fari í bága við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Fyrir liggur að misræmi er milli tilgreiningar aðila á fyrirliggjandi skjölum í málinu og stefnu. Þannig hefur verið lagt fram dskj. 3 sem stefnendur skýra í skjalaskrá sem „[s]krá yfir kröfur stefnenda á hendur SPRON“. Sé það skjal hins vegar skoðað kemur í ljós að tilgreindir aðilar þar eru mun fleiri en sem nemur stefnendum málsins. Þannig eru aðilar tilgreindir sem kröfuhafar á umræddu skjali en þeir eru engu að síður ekki aðilar dómsmálsins. Athygli skal enn fremur vakin á því að stefnendur hafa ekki lagt neina lánasamninga eða tengd skjöl fram í málinu.

Þá er enn fremur bent á að af gögnum málsins að dæma virðast stefnendur þátttakendur í þremur mismunandi sambankalánum. Þegar um slíkt er að ræða er einn aðili, svokallaður umboðsaðili (e. Agent), iðulega valinn úr hópnum til að gæta hagsmuna hinna og koma fram fyrir þeirra hönd. Ýmsar undantekningar eru frá þessu en til þess að vita nákvæmlega hvort stefnendur hafi ekki afsalað sér fyrirsvari krafna sinna til síns umboðsaðila (Agent) hefðu stefnendur þurft að leggja fram lánasamninga sína ásamt gögnum frá umboðsaðilanum (Agent). Þá er einnig mjög algengt að kröfur sem þessar gangi kaupum og sölum milli fjármálafyrirtækja. Hér er því enn eitt atriðið sem undirstrikar að engin gögn liggja frammi um það hvort stefnendur hafi einhverra hagsmuna að gæta í málinu.

Með vísan til framangreinds er málatilbúnaður stefnenda mjög óskýr og óglöggur. Fer hann klárlega í bága við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Ber því að vísa málinu frá dómi af þeim sökum.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun

                Stefnendur mótmæla því að þeir hafi ekki aðildarhæfi í málinu. Stefnendur eru alþjóðlegar fjármálastofnanir sem hafa lánað SPRON verulegar fjárhæðir. Það liggja fyrir opinberar upplýsingar um stefnendur. Á dskj. 5 kemur fram stimpill og undirritun hvers stefnanda sem sýnir fram á tilvist hans. Stefnendur halda því fram að þeir geti átt réttindi og borið skyldur hér á landi og mótmæla því að frekari kröfur séu gerðar til þeirra en íslenskra aðila.

                Varðandi fyrirsvar til sóknar taka stefnendur fram að undirritun þeirra liggur fyrir á dskj. 5. Stefnendur muni líka leggja fram frekari gögn er sýni fram á fyrirsvar þeirra. Þá halda stefnendur því fram að í framkvæmd sé þess ekki krafist að fyrirsvarsmenn aðila séu tilgreindir.

                Stefnendur halda því fram að Seðlabanki Íslands sé réttur aðili að málinu. Um sjálfstæða stofnun er að ræða og dómafordæmi liggi fyrir um aðild bankans að dómsmálum.

                Stefnendur hafna því að málið sé vanreifað. Á bls. 14-16 í stefnu er fjallað um saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda. Þá liggi fyrir fjöldi dómskjala um tilraunir stefnenda til að bjarga SPRON. Tjónið telja stefnendur augljóst. SPRON hafi farið í gjaldþrot í framhaldi af ákvörðun stefnda og því hafi möguleikar stefnenda á því að fá lán sín endurgreidd skerst verulega. Varðandi tjónið taka stefnendur fram að þeir hyggist dómkveðja matsmenn í máli sínu gegn Fjármálaeftirlitnu og íslenska ríkinu, þ.e. héraðsdómsmálið nr. E-5274/2009, til þess að sanna tjónið. Stefnendur benda á að gríðarlega mikil samskipti hafi verið milli stýrihóps stefnenda, starfsmanna Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins þannig að stefnendur hafi verið fullgildir aðilar að ákvörðuninni, enda stærstu lánveitendur SPRON. Stefnendur vísa til dskj. 33 máli sínu til stuðnings. Þá vísa stefnendur til dóma Hæstaréttar í málum nr. 88/2005 og 166/1999.

                Stefnendur hafna því að málatilbúnaður þeirra sé ekki skýr og glöggur. Á dskj. 3 sé að finna yfirlit yfir lán sem stefnendur stóðu að til SPRON, en stefnendur segjast munu leggja fram lánasamninga síðar. Stefnendur taka fram að krafa hvers og eins lánveitanda sé sérstæð og óháð öðrum kröfum og kröfurnar hafi ekki verið framseldar til umboðsaðila.

Forsendur og niðurstaða

                Í 80. gr. laga um meðferð einkamála eru tilgreind þau atriði sem eiga að vera í stefnu og þau ber að greina svo glöggt sem verða má.

Samkvæmt b lið 80. gr. ber að geta nafna fyrirsvarsmanna aðila, stöðu þeirra og heimilis eða dvalarstaðar. Stefnendur eru tuttugu og þrjár bankastofnanir og er fyrirsvarsmanna þeirra í engu getið og er það í andstöðu við nefnda lagatilvísun. Þá er kennitala og heimilisfang fyrirsvarsmanns stefnda ekki rétt, en með því að mætt var og tekið til varnar kemur það ekki að sök.

Samkvæmt d lið 80. gr. er kveðið á um að kröfugerð stefnenda þurfi að koma fram í stefnu með tilteknum hætti. Stefnendur gera kröfu hver fyrir sig, að viðurkenndur verði réttur stefnenda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem ákvörðun stefnda, Seðlabanka Íslands, hinn 20. mars 2009, um að neita Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. um lausafjárstuðning, hefur leitt til fyrir stefnendur. Kröfu þessa byggja stefnendur á 2. mgr. 25. gr. eml. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar er mál um kröfu sem þessa tækt til efnisdóms, ef afmarkað er nægilega hver þau atvik séu, sem geti leitt af sér kröfu um skaðabætur þeim til handa er málið höfðar og í hverju tjón hans geti verið fólgið, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í málunum nr. 2/2009 og 182/2005. Fyrra skilyrði er fullnægt með því að tilgreind er neitun stefnda hinn 20. mars 2009 um lausafjárstuðning. Hins vegar hafa stefnendur ekki gert grein fyrir því í hverju tjón þeirra er fólgið. Hér er því um vanreifun að ræða.

Þótt stefnendur hafi í dómkröfu sinni tilgreint tjónsatburðinn þá skortir í stefnu að þeir sýni fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni í málinu. Samkvæmt gögnum málsins er ekkert samningssamband á milli stefnenda og stefnda. Stefnendur segjast vera kröfuhafar SPRON, án þess að lánasamningar hafi verið lagðir fram, og án þess að SPRON hafi fengið þann lausafjárstuðning sem þeir óskuðu eftir. Að beiðni stjórnar SPRON tók Fjármálaeftirlitið SPRON yfir. Í ljósi þessa verða stefnendur að gera fullnægjandi grein fyrir þeim lögvörðu hagsmunum sem þeir telja sig eiga í málinu. Það hafa þeir ekki gert og er því um vanreifun að ræða.

Samkvæmt e lið 80. gr. eml. verður málatilbúnaðurinn að vera skýr og glöggur svo ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé. Í upphafi voru stefnendur tuttugu og sjö en fjórir þeirra hafa fallið frá málssókninni. Á dskj. 3 er listi yfir mun fleiri kröfuhafa SPRON. Þeir eru þó ekki allir aðilar að málinu. Ekkert er að þessu vikið í stefnu og skortir því á skýrleika málsins. Þá hafa lánasamningar ekki verið lagðir fram í málinu en ætla má að um grundvallarskjöl sé að ræða.

Með stefnu var lagður fram fjöldinn allur af skjölum á ensku, án íslenskrar þýðingar, þ.e. dskj. 3, 5, 7, 9, 10, 12, 13, 14, 17, 18, 21, 25, 33, 35, 36, 37, 38 og 39. Með þessum fjölda dómskjala er freklega brotið gegn 1. mgr. 10. gr. eml., þ.e. að þingmálið sé íslenska. Skapar þessi framlagning einnig ójafnræði með aðilum og getur torveldað eðlilegar varnir í málinu. Allt þetta gerir það að verkum að málatilbúnaður stefnenda er ekki skýr og glöggur og í andstöðu við e lið 80. gr. eml.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. eml. er aðili að dómsmáli hver sá er getur átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Einungis liggur fyrir nafn og heimili stefnenda, en í engu er gerð grein fyrir stefnendum að öðru leyti. Hér er um erlenda aðila að ræða sem nauðsyn ber til að gera frekari grein fyrir. Því er vanreifað af hálfu stefnenda að þeir uppfylli skilyrði 16. gr. eml.

Stefndi heldur því fram að stefnendur hefðu átt að beina málssókn þessari að íslenska ríkinu, en ekki stefnda, Seðlabanka Íslands. Varnir byggðar á aðildarskorti leiða til sýknu, sé fallist á þær, sbr. 2. mgr. 16. gr. eml.

Þegar á allt framangreint er litið er máli þessu vísað frá dómi. Með vísan til 2. mgr. 130. gr. eml. ber stefnendum að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 kr.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Málinu er vísað frá dómi.

Stefnendur greiði stefnda, 500.000 kr. í málskostnað.