Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-132

Atli Már Gylfason (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Guðmundi Spartakur Ómarssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður) og til réttargæslu Útgáfufélaginu Stundinni ehf. (enginn)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Ómerk ummæli
  • Stjórnarskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 15. apríl 2019 leitar Atli Már Gylfason eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í málinu nr. 484/2018: Guðmundur Spartakus Ómarsson gegn Atla Má Gylfasyni og til réttargæslu Útgáfufélaginu Stundinni ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Guðmundur Spartakus Ómarsson tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um ómerkingu ummæla leyfisbeiðanda sem tilgreind eru í 30 liðum og birtust í tilteknum fjölmiðlum í desember 2016. Krafðist gagnaðili þess jafnframt að sér yrðu dæmdar miskabætur og að forsendur dómsins yrðu birtar í fjölmiðlum réttargæslustefnda. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila með vísan til þess að leyfisbeiðandi hafi ekki með ummælum sínum farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Landsréttur komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að með hluta ummælanna hafi leyfisbeiðandi borið gagnaðila sökum um alvarlegan og svívirðilegan glæp. Lægi ekkert fyrir um að gagnaðili hafi verið kærður fyrir ætlað brot, ákæra hafi verið gefin út eða dómur fallið. Þá var ekki talið að nokkur gögn eða upplýsingar styddu fullyrðingar leyfisbeiðanda, heldur hafi hann aðeins vísað til ónafngreinds heimildarmanns. Voru ummælin því ómerkt með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Landsréttur hafnaði á hinn bóginn kröfu um ómerkingu annarra ummæla með vísan til þess að þau hafi ýmist falið í sér endursögn ummæla sem fram hafi komið í öðrum fjölmiðlum eða leyfisbeiðandi hafi haft nægt tilefni til að setja fram þá gildisdóma sem í fullyrðingunum hafi falist. Leyfisbeiðanda var gert að greiða gagnaðila 1.200.000 krónur í miskabætur og var jafnframt tekin til greina krafa þess síðarnefnda um birtingu dómsins.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, annars vegar vegna trúverðugleika hans sem blaðamanns og hins vegar vegna þeirrar fjárhagslegu byrði sem honum var gert að sæta með dómi Landsréttar. Þá telur hann að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið tekin til greina aðalkrafa hans um frávísun málsins frá héraðsdómi. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um álitaefni varðandi heimildir fjölmiðla til að fjalla um rannsókn sakamála og byggja á frásögn ónafngreindra heimildarmanna. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.