Hæstiréttur íslands

Mál nr. 489/1998


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Þjófnaður
  • Reynslulausn
  • Stefnubirting


Fimmtudaginn 25

Fimmtudaginn 25. mars 1999.

Nr. 489/1998.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Gísla Frey Njálssyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

Óskari Þór Gunnlaugssyni og

(Brynjar Níelsson hrl.)

Sigurjóni Péturssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Þjófnaður. Reynslulausn. Stefnubirting.

Ó var ákærður og sakfelldur fyrir innflutning, sölu og vörslu á fíkniefnum og þjófnað Var hann dæmdur til fangelsisrefsingar og upptöku efnanna. G var ákærður og sakfelldur fyrir þjófnað og var hann dæmdur til fangelsisrefsingar og greiðslu skaðabóta. S var ákærður fyrir þjófnað, fíkniefnabrot og akstur án ökuréttar. Áfrýjunarstefna í málinu hafði verið birt honum í Lögbirtingablaðinu og var það talið heimilt. Var hann sakfelldur fyrir hluta þjófnaðarbrotanna og akstur án ökuréttar og dæmdur til fangelsisrefsingar og greiðslu skaðabóta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu Gísla Freys Njálssonar og Óskars Þórs Gunnlaugssonar um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds að því er þá báða og ákærða Sigurjón Pétursson varðar. Krefst ákæruvaldið þess að refsing allra þessara ákærðu verði þyngd.

Ákærði Gísli krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta. Þá dragist gæsluvarðhald, er hann sætti í átta daga, frá refsingu.

Ákærði Óskar krefst þess að refsing hans verði milduð.

Ákærði Sigurjón krefst þess aðallega að hans þætti í málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að refsing verði milduð, en að því frágengnu að héraðsdómur verði staðfestur.

Með héraðsdómi voru sex menn dæmdir til refsingar fyrir margvísleg brot, en þrír þeirra una dómi. Með áfrýjun leita aðrir dómfelldir og ákæruvaldið nú einungis eftir endurskoðun á þeirri refsingu, sem ákærðu var gerð með héraðsdómi, en sætta sig við úrlausn hans um sakfellingu samkvæmt einstökum liðum í ákærum.

I.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða Gísla. Er fyrri sakaferill hans þar réttilega rakinn utan þess að ekki er getið dóms Héraðsdóms Reykjaness 3. apríl 1998, þar sem ákærða var gerð sekt fyrir fíkniefnabrot. Verður jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ekki séu efni til að skilorðsbinda refsinguna eða hluta hennar.

Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur hvað varðar ákærða Gísla. Skal hann greiða áfrýjunarkostnað, eins og nánar segir í dómsorði.

II.

Við ákvörðun refsingar ákærða Óskars verður meðal annars litið til þess, að brot hans samkvæmt ákæru 24. mars 1998 fólust einkum í því að flytja inn verulegt magn af LSD. Er því broti og öðrum fíkniefnabrotum hans, sem ákært er fyrir, réttilega lýst í héraðsdómi. Með meðferð sinni á LSD og marihuana hefur ákærði unnið til refsingar samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980 og 1. gr. laga nr. 13/1985. Með háttsemi sinni, sem greinir í 3. lið III. kafla ákæru 24. mars 1998, hefur ákærði brotið gegn sömu ákvæðum, sbr. og 5. mgr. 5. gr. fyrstnefndu laganna. Með meðferð sinni á amfetamíni hefur ákærði brotið ákvæði 2. mgr. 2. gr. sömu laga, sbr. einnig 2. gr. og 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna, eins og henni var breytt með 2. gr. reglugerðar nr. 177/1986. Við ákvörðun refsingar verður jafnframt að líta til þess að verulegur hluti þeirra muna, sem stolið var í innbroti að Fannafold 121 í Reykjavík, kom í leitirnar að nýju. Þá hefur hann játað brot sín og fyrri sakaferill hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar nú. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, þykir refsing ákærða Óskars hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Verður fallist á með héraðsdómi að ekki séu efni til að skilorðsbinda refsingu eða hluta hennar.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku gagnvart ákærða Óskari og skyldu hans til að greiða sakarkostnað skulu vera óröskuð. Honum verður gert að greiða áfrýjunarkostnað, eins og greinir í dómsorði.

III.

Eftir áfrýjun málsins fékk ríkissaksóknari birt dómsorð héraðsdóms yfir ákærða Sigurjóni í Lögbirtingablaði, þar eð ekki tókst að birta honum dóminn vegna dvalar hans á óþekktum stað erlendis. Var um leið birt áfrýjunarstefna í málinu. Reisir þessi ákærði aðalkröfu sína á því að óheimilt hafi verið að birta áfrýjunarstefnu með þessum hætti. Samkvæmt lögjöfnun frá 2. mgr. 20. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður að teljast heimilt að birta í Lögbirtingablaði áfrýjunarstefnu í opinberu máli. Verður því ekki fallist á aðalkröfu ákærða.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að því er varðar ákærða Sigurjón. Kostnaður af áfrýjun gagnvart honum verður lagður á ríkissjóð, sbr. 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður hvað varðar ákærðu, Gísla Frey Njálsson og Sigurjón Pétursson.

Ákærði, Óskar Þór Gunnlaugsson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Frá refsivist hans dragist 18 daga gæsluvarðhald. Ákvæði héraðsdóms um upptöku muna ákærða Óskars og greiðslu hans á sakarkostnaði skulu vera óröskuð.

Ákærði, Gísli Freyr Njálsson, greiði þriðjung áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 25.000 krónur, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Ákærði, Óskar Þór Gunnlaugsson, greiði þriðjung áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 25.000 krónur, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda sín fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Málsvarnarlaun Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Sigurjóns Péturssonar fyrir Hæstarétti, 50.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 1998.

                Árið 1998, fimmtudaginn 2. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: S-334/1998: Ákæruvaldið gegn Gísla Frey Njálssyni, H, Óskari Þór Gunnlaugssyni, SA, Sigurjóni Péturssyni og R, en málið var dómtekið 12. júní sl.

                Málið er höfðað með ákæru útgefinni 24 mars 1998 á hendur:     

                "E,          

                kt. [...],   

                Gísla Frey Njálssyni, Kríuhólum 2,   

                kt. 230373-4349,   

                H,           

                kt. [...],   

                Óskari Þór Gunnlaugssyni, Bankastræti 14,    

                kt. 180676-3179,   

                SA

                kt. [...],                   

                Sigurjóni Péturssyni, Blönduhlíð 2, 

                kt. 110464-4289,   

                öllum til heimilis í Reykjavík,

fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík á árinu 1997, nema annars sé getið:

I. Ákærðu Óskari Þór og SA er gefið að sök að hafa í apríl staðið að því í sameiningu að flytja frá Hollandi hingað til lands í ágóðaskyni 400 skammta af LSD (pappírsmiða með lýsergíði) og selja allt að 90 skammta af efninu. Samkvæmt ráðagerðum ákærðu annaðist ákærði Óskar Þór kaup efnisins í Hollandi og sendi það hingað til lands í tveimur póstsendingum á heimilisföng í Reykjavík, sem ákærði SA hafði látið honum í té í þessu skyni og hafði hann jafnframt sent ákærða Óskari Þór peninga til Hollands til kaupanna. Ákærði SA sótti aðra póstsendinguna er hún var komin á áfangastað og voru 90 skammtar af LSD í henni sem ákærðu skiptu með sér þannig að ákærði SA fékk 60 skammta og ákærði Óskar Þór 30 skammta. Ákærðu seldu megnið af efninu, en póstsending sem hafði að geyma 310 skammta var haldlögð af lögreglu áður en hún komst í hendur ákærðu. (Mál nr. 10-1997-3662)

Telst þetta varða við 2.gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana-og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9.gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985, og 2. gr., sbr. 10. gr., reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986.

                II.Ákærða SA er gefið að sök [...],

Teljast þessi brot ákærða varða við framangreind lagaákvæði um ávana- og fíkniefni og ákvæði reglugerðar nr. 16, 1986, sbr. reglugerð nr. 177, 1986 og auglýsingu nr. 84, 1986, að því er varðar meðferð ákærða á amfetamíni.

III. Ákærða Óskari Þór er gefið að sök:

1. Að hafa, að kvöldi mánudagsins 6. janúar, haft 0,1 g af amfetamíni og 0,6 g af marihuana í vörslum sínum á þáverandi heimili sínu að Tryggvagötu 6, en lögreglan fann efnin við húsleit og lagði hald á þau. (Mál nr. 10-1997-547)

2. Fimmtudaginn 15. maí, haft í fórum sínum 0,3 g af amfetamíni, er lögreglan hafði afskipti af honum við Vitastíg 11, og jafnframt að hafa sama dag haft í vörslum sínum á sama stað 7,8 g af amfetamíni, en lögreglan fann efnin og lagði hald á þau. (Mál nr. 10-1997-6362)

Teljast þessi brot ákærða varða við þau ákvæði laga, reglugerða og auglýsingar, sem greinir í II. lið.

3. Sama dag og á sama stað gert tilraun til fíkniefnalagabrots, með því að hafa haft í vörslum sínum 7 pappaferninga, sem ákærði taldi innihalda 7 skammta af LSD, en reyndust við rannsókn Rannsóknastofu í lyfjafræði ekki innihalda þekkt ávana- og fíkniefni, en lögreglan fann pappaferningana við húsleit og lagði hald á þá. (Mál nr. 10-1997-6263)

Telst þetta varða við framangreind ákvæði laga um ávana- og fíkniefni og reglugerðar nr. 16, 1986, sbr. 20.gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

IV. Ákærðu Gísla Frey, H, SA og Sigurjóni er gefinn að sök þjófnaður með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 31. janúar, stolið í anddyri Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð, hraðbanka að verðmæti um kr. 1.800.000 sem hafði að geyma 3.388.000 krónur í reiðufé. (Mál nr. 10-1998-2476)

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

V. Ákærða Sigurjóni er gefið að sök:

1. Að hafa, aðfaranótt mánudagsins 30. júní 1997, brotist inn í verslunina Straumnes, Vesturbergi 76, og stolið seðlaveski með enskum pundum að verðmæti um krónur 80.000 og rofið þar peningaskáp og stolið úr honum 700 – 800 þúsund krónum og tékkum. (Mál nr. 10-1997-11027)

2. Aðfaranótt laugardagsins 8. nóvember, stolið seðlaveski með 350 dönskum krónum og 5.500 íslenskum krónum á hótelherbergi á Grand Hóteli við Sigtún. (Mál nr. 10-1997-19755)

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

3. Fimmtudaginn 18. desember haft í fórum sínum 0,7 g af hassi í fangamóttöku lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. (Mál nr. 10-1997-22623)

Telst þetta varða við framangreind ákvæði laga um ávana- og fíkniefni og reglugerðar nr. 16, 1986.

4. Sunnudaginn 4. janúar 1998, ekið bifreiðinni GM-995 án ökuréttar um götur borgarinnar uns lögregla stöðvaði akstur hans á Ásvallagötu. (Mál nr. 10-1998-794)

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987.

VI. Ákærðu E og Sigurjóni er gefinn að sök þjófnaður með því að hafa, þriðjudaginn 11. nóvember, stolið fatnaði og ýmsum munum að verðmæti samtals um kr. 90.000 á Landsspítalanum við Eiríksgötu. (Mál nr. 10-1997-20005)

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

VII. Ákærðu E er gefið að sök [...],

VIII. Dómkröfur:

Þess er krafist, að ákærðu verði dæmd til refsingar og að framangreind fíkniefni, 310 skammtar af LSD, 8.6 g af amfetamíni, 19.5 g af hassi og 7.9 g af marihuana, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6.mgr. 5.gr. laga nr. 65, 1974 og 2.mgr. 10.gr. reglugerðar nr. 16, 1986.

Þess er jafnframt krafist samkvæmt 7. mgr. 5.gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986, að ákærði Óskar Þór sæti upptöku á pesola grammavog sem lögreglan fann og lagði hald á 15. maí 1997 við húsleit að Vitastíg 11, Reykjavík.

[...],

Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta:

Bótakrafa er varðar ákærðu Gísla Frey, H, SA og Sigurjón: Sigríður Logadóttir, hdl., f.h. Búnaðarbanka Íslands hf., Hafnarstræti 8, Reykjavík, kr. 380.441 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 12. febrúar til greiðsludags.

Bótakröfur er varða ákærðu E og Sigurjón:

Guðni Arnar Guðnason, kt. 240172-4969, kr.36.000.

Haukur Þór Þorvarðarson, kt. 030977-5809, kr. 20.000.

Agnes Þórólfsdóttir, kt. 100859-3789, kr. 21.000.

Jóna Haraldsdóttir, kt. 111050-3179, kr. 2.000.

[...],

Bótakrafa er varðar ákærða Sigurjón:

Jón Egilsson, hdl., fyrir hönd Heiðars Viðhjálmssonar, kt. 160148-3229, kr. 1.130.000 ásamt dráttarvöxtum frá 30. júní 1997."

                Annað mál var höfðað á með ákæru útgefinni 5. maí sl. á hendur:

                „HS,

                kt. [...],                   

                Óskari Þór Gunnlaugssyni, Bankastræti 14,

                kennitala 180676-3179

                og          

                R,           

                kt. [...],                                   

                öllum til heimilis í Reykjavík,

fyrir eftirgreind brot á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni framin í febrúar 1998:

I. Ákærðu Óskari Þór og R er gefið að sök að hafa, miðvikudaginn 25. febrúar, brotist í félagi inn í einbýlishúsið nr. 33 við Hálsasel í Reykjavík og stolið þar munum alls að verðmæti um kr. 1.110.000 svo sem myndbandstæki, 2 fjarstýringum fyrir myndbandstæki, myndavél, geislaspilara, hljómmagnara, 2 töskum, kvenúri, vasatölvu, erlendum gjaldeyri, að verðmæti alls um kr. 70.000, og silfurborðbúnaði, svo sem matarbúnaði fyrir tólf auk desertskeiða, sósuskeiða og ávaxtaskeiða, kaffibúnaði fyrir fjórtán auk ýmissa fylgihluta, ýmsum fylgihlutum svo sem tertuspöðum og sultuskeiðum, skartgripum svo sem gullarmbandi, 3 gullkeðjum, 2 pörum af gulleyrnalokkum, 2 gullúrum, 5 gullhringum, 2 pörum af gullermahnöppum, 2 pörum af silfurermahnöppum, og fleiri gömlum silfurmunum.

II. Ákærðu HS, Óskari Þór og R er gefið að sök að hafa, að morgni fimmtudagsins 26. febrúar, staðið að því í félagi að brjótast inn í einbýlishúsið nr. 121 við Fannafold í Reykjavík og stela, 3 hljómmögnurum, útvarpsmagnara, geislaspilara, segulbandstæki, sjónvarpstæki, 3 myndbandstækjum, silfurboxi, samtals að verðmæti um kr. 500.000 og 42.000 krónum í reiðufé.

III. Ákærða R er gefið að sök [...],

Telst háttsemin samkvæmt ákæruliðum I – III.1 varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

[...],

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar. [...],

Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta:

Bótakrafa er varðar ákærðu Óskar Þór og R:

Karl Sigurhjartarson, kt. 121241- 4399, kr. 1.114.134.

Bótakrafa er varðar ákærðu H, Óskar Þór og R:

Kári Jón Halldórsson, kt. 120652-6979, kr. 215.990."

                Málflutningi vegna ákærunnar frá 5. maí lauk 8. júní sl. og var málið þá dómtekið, en málflutningi vegna ákærunnar frá 24. mars lauk 12. júní sl. og var sá hluti málsins þá dómtekinn.

                Undir rekstri hvors máls fyrir sig voru skilin frá og dæmd sérstaklega mál E og dómur kveðinn upp í máli hennar 5. júní sl. og mál HS og dómur í hennar máli kveðinn upp 27. maí sl.

                Málin voru sameinuð eftir dómtöku.

                Verjandi ákærða Óskars Þórs krefst þess vegna beggja ákæruskjalanna að ákærði hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa og komi til refsivistar að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar að fullri dagatölu. Þess er krafist að skaðabótakrafa Karls Sigurhjartarsonar verði vísað frá dómi. Þá er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins.

                Verjandi ákærða Gísla krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist verði dæmd skilorðsbundin, ef dæmd verður. Komi til afplánunar refsivistar ákærða Gísla er þess krafist að gæsluvarðhald hans komi til frádráttar að fullri dagatölu. Þess er krafist að skaðabótakröfum á hendur Gísla og fleirum verði vísað frá dómi. Krafist er réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins.

                Verjandi ákærða H krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Refsivist ef dæmd verður verði skilorðsbundin og að gæsluvarðhaldsvist ákærða Halldórs komi að fullri dagatölu til frádráttar dæmdri refsivist. Þess er krafist að skaðabótakröfu á hendur ákærða H og fleirum verði vísað frá dómi, en til vara var skaðabótakröfunni andmælt sem of hárri og vaxtafæti jafnframt mótmælt. Þá er krafist réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins.

[...],

                Verjandi ákærða Sigurjóns krefst sýknu af 1., 2., og 3. tölulið V. kafla ákæru frá 24. mars sl. og jafnframt af VI. kafla sömu ákæru. Að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að með reynslulausn ákærða Sigurjóns verði farið sem skilorðsdóm. Þess er krafist að öllum skaðabótakröfum á hendur ákærða Sigurjóni og eftir atvikum fleirum verði vísað frá dómi. Komi til refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar með fullri dagatölu. Þess er krafist að sakarkostnaður verði að mestu leyti lagður á ríkissjóð, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun að mati dómsins.

[...],

                Ákæruefni málsins eru úr sitt hvorri áttinni og þykir af þeim sökum ekki unnt að gera í samfelldu, en í stuttu máli grein fyrir málavöxtum í upphafi heldur víkja að því við hvern kafla ákærunnar eftir því sem ástæða þykir.

                Vegna ákæruliða sem játaðir hafa verið er skírskotað til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

                Ákæra 24. mars 1998

                I. Samkvæmt greinargerð lögreglunnar er upphaf máls þessa það að 14. apríl 1997 kom kona að máli við tollvörð hér í borg og afhenti bréf sem síðar kom í ljós að innihélt 310 skammta af LSD, en sendingin hafði verið stíluð á nafn, sem ekki var til á tilgreindu heimilisfangi. Í greinargerð lögreglunnar segir síðan að nokkru áður hefðu borist upplýsingar þess efnis að ákærðu stæðu sameiginlega að innflutningi á LSD hingað til lands. Leiddi þetta til handtöku ákærða Óskars Þórs 15. maí 1997 og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldinu. Framburður ákærða Óskars Þórs hjá lögreglunni var breytilegur, en hann viðurkenndi að lokum að hafa staðið að innflutningi á LSD til landsins ásamt meðákærða SA sem neitar sök.

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði Óskar Þór hefur borið fyrir dóminum að lýsing í þessum ákærulið sé rétt, utan að þáttur meðákærða SA sé sá einn að hann hafi sótt þá 90 skammta af efninu, sem lýst er í ákærunni, og þeim hluta efnisins hafi ákærðu skipt með sér til helminga, en ekkert hafi verið selt af efninu. Ákærði kvað engan sérstakan undirbúning hafa verið að þessari ferð og ekkert samráð hefði verið við meðákærða vegna ferðarinnar. Hann hefði verið á leið til Hollands og dottið í hug að senda hingað til lands 2 bréf með fíkniefnum. Hann kvaðst fljótt hafa orðið peningalaus ytra og þá beðið meðákærða að senda sér peninga út, en þeir peningar hefðu ekki verið notaðir til fíkniefnakaupa. Ákærði hefði greint meðákærða frá því að hann hefði sent tvær sendingar með LSD til landsins, en fyrirfram hefði meðákærði ekki vitað af fíkniefnakaupunum. Ákærði greindi meðákærða frá því hvert sendingarnar bárust og bað hann um að sækja efnið, en þeir hafi ætlað að skipta efninu jafnt á milli sín. Ákærði kvaðst fyrir utanförina hafa verið búinn að ákveða hvert hann ætlaði að senda bréfin. Við skýrslutökur hjá lögreglunni lýsti ákærði Óskar Þór hlut meðákærða SA á þann hátt, sem ákært er út af. Um ástæður breytts framburðar kvaðst ákærði á þeim tíma hafa þurft einhvern til að skella skuldinni á og því hafa spunnið upp sögu um þátttöku meðákærða, en lögreglan hefði stöðugt spurt um hann við skýrslutöku. Þá kvað hann persónulegar ástæður vera fyrir því að hann blandaði meðákærða í málið og vildi hann ekki greina frá því hverjar þessar ástæður væru. Er ákærði Óskar Þór var yfirheyrður fyrir dómi 16. maí 1997 vegna kröfu um gæsluvarðhald lýsti hann því að meðákærði SA hefði tekið við bréfinu er innihélt 90 skammta af LSD og honum hefði einnig verið ætlað bréfið sem innihélt 310 skammta af LSD. Hann var ekki spurður nánar út í málsatvik við þessa dómsyfirheyrslu.

                Ákærði SA neitar sök. Hann kvaðst alfarið vísa framburði meðákærða á bug um þátt sinn í málinu. Hann kvaðst að beiðni meðákærða hafa sent honum peninga til Amsterdam, en ekki vitað til hvers þeir peningar voru notaðir, en ákærði kvaðst hafa innheimt þessa peninga hér á landi fyrir meðákærða, aðallega hjá einum aðila.

[...],

                III.1. og III.2. Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að þessir ákæruliðir væru réttir og er skírskotað til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

                III.3. Ákærði kvað þennan ákærulið réttan, en kvaðst ekki hafa talið efnið hafa verið LSD, en hann hafi talið svo vera er hann fékk efnið í hendur. Síðar hafi komið í ljós að svo var ekki, en ákærði kvaðst hafa komist að þessu með því að neyta efnisins. Ákærði kvaðst þekkja til áhrifa af neyslu LSD og þannig hafa áttað sig á því að efnið var ekki LSD.

                Vitnið Kristinn Sigurðsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu þá er hann ritaði 15. maí 1997 um húsleit á heimili ákærða og að efni hafi þá verið tekið úr vörslum hans.

                IV. Upp úr kl. níu að morgni laugardagsins 31. janúar sl. er einn starfsmanna Kennaraháskólans kom í skólann veitti hann því athygli að hraðbanki sem staðsettur var í suðuranddyri skólans var horfinn. Starfsmaðurinn lýsti því fyrir lögreglunni að sér hafi fundist þetta grunsamlegt og því haft samband við húsvörð sem kom á vettvang og tilkynnti lögreglu um hvarf hraðbankans. Eftir þetta hóst umfangsmikil lögreglurannsókn sem leiddi m.a. til handtöku ákæðru og voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins. Hraðbankinn og innihald hans komst til skila.

                Verður nú rakinn framburður ákærðu fyrir dómi en engin vitni voru leidd vegna þessa ákæruliðar.

                Ákærði Gísli játar aðild sína að þjófnaði hraðbankans. Hann kvað aðdragandann þann að þeir meðákærði SA hafi þetta kvöld verið á rúntinum er meðákærði Sigurjón hefði hringt og beðið þá um að koma við hjá sér. Eftir stutta stund hafi þeir farið saman akandi að Kennaraháskólanum og allir fjórir hafi verið með í för. Þeir hafi síðan haldið aftur heim til meðákærða Sigurjóns og þar hefði verið búið að taka til verkfæri, sem nota átti við þjófnaðinn, en meðákærði Sigurjón hefði einnig verið búinn að koma bifreið þeirri, sem flytja átti peningaskápinn í, fyrir þarna nærri vettvangi. Meðákærði Sigurjón hefði verið upphafsmaður þessa þjófnaðar og í ljós hefði komið að hann var búinn að huga að þessu áður. Er ákærðu komu á staðinn hafi anddyri Kennaraháskólans verið opnað með debetkorti ákærða. Ákærði Sigurjón hafi séð um að aftengja bankann, en meðákærða SA hafi ekki litist á blikuna og horfið af vettvangi. Hann hafi engan þátt tekið í þessu og ekki heldur tekið þátt í undirbúningi og ekki átt að fá ágóðahlut. Meðákærði SA hafi komið að meðan á þjófnaðinum stóð og reynt að fá ákærða með sér á brott. Bankinn hefði síðan verið losaður og honum rennt upp í sendiferðabíl og þetta hefði tekið um 20 mínútur. Meðákærði Sigurjón hefði síðan ekið bifreiðinni á brott og lagt við Stýrimannaskólann. Ákveðið var að hittast síðar og ræða framhaldið, en fjármununum átti að skipta jafnt, að því er ákærði taldi. Allir ákærðu hefðu síðan hist á Hótel Loftleiðum að morgni næsta dags, þar sem ræða átti framhaldið og meðákærðu Sigurjón og H hafi ætlað að sjá um að opna peningaskápinn.

                Ákærði SA neitar sök. Hann kvaðst einungis í stutta stund hafa orðið vitni að atburðum, sem hér er ákært út af. Ákærði kvaðst hafa komið að þarna sem verið var að nema hraðbankann á brott og hefði ákærði verið að reyna að fá meðákærða Gísla ofan af því að taka þátt í þessu. Eftir það hefði ákærði yfirgefið vettvang. Meðákærðu hefðu allir þrír verið á vettvangi er þetta átti sér stað. Ákærði kvað aðdraganda þess að hann kom á vettvang þann að Sigurjón hefði hringt í sig og beðið sig um að koma að Kennaraháskólanum. En þangað hefði ákærði farið kvöldinu áður ásamt meðákærðu Sigurjóni og Gísla, sem þar fóru úr bílnum, og kvaðst ákærði hafa talið þá ætla að brjótast þar inn. Ákærði kvaðst áður hafa heyrt á heimili meðákærða Sigurjóns að eitthvað stæði til, en ekki vitað hvað það var. Daginn eftir kveðst ákærði hafa ekið meðákærða Gísla á Hótel Loftleiðir til fundar við meðákærðu.

                Ákærði H játar aðild sína að þjófnaðinum. Hann kveðst hafa lagst inn í þessa atburðarrás og verið fenginn til að keyra bifreið fyrir meðákærða Sigurjón. Um sama leyti hefði hann komist að því hvað stóð til, en ákærði kvaðst hafa verið heimilislaus á þessum tíma og fengið inni hjá meðákærða Sigurjóni. Áður en haldið var að Kennaraháskólanum höfðu allir ákærðu hist og allir fjórir haldið að Kennaraháskólanum. Hann kvað alla ákærðu hafa tekið þátt í því að færa peningakassa út í sendiferðabílinn, utan ákærði kvaðst ekki klár á því hvort meðákærði SA tók þátt í þessu. Hann kvað meðákærða SA hafa komið stutta stund á staðinn og ekki geta fullyrt hvort hann tók þátt í þjófnaðinum. Ákærði kvað meðákærða Sigurjón hafa verið upphafsmann þessa þjófnaðar, en ekkert hefði verið ákveðið um skiptingu innihalds hraðbankans. Þeir hafi síðan mælt sér mót á Hótel Loftleiðum daginn eftir til að ræða framhaldið.

                Ákærði Sigurjón kvað háttsemi sinni rétt lýst í þessum kafla ákærunnar. Hann kvað alla ákærðu hafa rætt um það á föstudeginum að þeir ætluðu að gera eitthvað til að verða sér úti um peninga. Á þeirri stundu hefði ekki verið tekin ákvörðun um að stela hraðbankanum. Þeir hafi þá ákveðið að hittast aftur daginn eftir við Kennaraháskólann. En ákærði kvaðst hafa verið frumkvöðull að þessu og átt hugmyndina og lýsti hann sig ábyrgan fyrir skipulagi þessa þjófnaðar. Hann kvaðst minna að þeir hefðu farið að Kennaraháskólanum á tveimur bílum og opnað anddyri skólans með debetkorti í eigu meðákærða Gísla. Á vettvangi hefði ákærði eða meðákærði H tekið hraðbankann úr sambandi. Ákærði hefði síðan losað hraðbankann og í sameiningu hefðu þeir komið honum fyrir í bíl, sem flutti hann á brott og bifreiðin með hraðbankanum í verið skilin eftir við Sjómannaskólann. Ákærðu hefðu ákveðið að hittast daginn eftir og hafi orðið úr að þeir hittust á Hótel Loftleiðum, þar sem fyrirhugað var að ræða áframhaldið. Hann kvaðst ekki muna hvort rætt hefði verið hvernig þýfinu skyldi skipt, en hann kvaðst lítið muna eftir fundinum á Hótel Loftleiðum. Ákærði kvað meðákærða SA hafa verið handan götunnar meðan hraðbankanum var stolið og hafi hann fylgst með því sem fram fór. En hann hafi komið og aðstoðað er eftir var leitað, þegar það kom í ljós að þeir þrír sem þarna voru gátu ekki komið hraðbankanum upp í bílinn. Ákærði kvað þátt meðákærðu í þessum þjófnaði lítinn, því hann væri upphafsmaður og skipuleggjandi, svo sem rakið var. Síðar í yfirheyrslunni kvaðst ákærði ekki geta fullyrt hvort meðákærði SA hefði átt þátt í þjófnaðinum eða vitað um hann. Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði tekið til verkfæri, sem nota átti til að losa um hraðbankann, enda kvaðst ákærði hafa talið þá hugmynd að stela hraðbankanum betri en t.d. vopnað rán. En aðrar hugmyndir hefði borið á góma milli ákærðu. Fyrir dóminum var farið yfir framburð ákærða hjá lögreglunni og er ekki ástæða til að rekja hann allan hér, en minni ákærða um atburði og smáatriði er ótraust, enda bar ákærði um ótraust minni sökum mikillar óreglu á þessum tíma. Ákærði kvað minni sitt um atburðarrás að mestu leyti takmarkast við sinn eigin þátt í málinu, en ekki annarra. Hann greindi m.a. frá því hjá lögreglunni og staðfesti fyrir dóminum að meðákærðu Gísli og SA hefðu ætlað að taka hraðbankann og opna á verkstæði hjá nafngreindum manni uppi á Höfða.

                V.1. Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 30. júní 1997 var tilkynnt innbrot í verslunina Straumnes þann dag. Á vettvangi fann lögreglan verkfæri, sem notuð voru við að brjóta upp peningaskáp, og verslunareigandinn greindi lögreglunni frá því að stolið hefði verið þeim verðmætum, sem lýst er í þessum ákærulið. Þá er í lögregluskýrslunni vikið að því að nafngreindur aðili, þekktur af afbrotum, kunni að hafa haft lykil að versluninni og vera valdur að þjófnaðinum. Lögreglan yfirheyrði ekki þennan mann.

                Hákon Sigurjónsson lögreglufulltrúi ritar skýrslu, sem dags. er 12. september 1997, þar sem segir að auk verkfæranna sem fundust á vettvangi hafi fundist vindlingastubbur, sem sendur var til rannsóknar hjá Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði. Hákon kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína. Hann greindi frá því að starfsfólk verslunarinnar Straumness hafi fundið vindlingastubbinn er það var að hreinsa til eftir innbrotið, en lögreglan hefði ekki fundið hann er vettvangur var rannsakaður. Hákon kvaðst síðan hafa sótt vindlingastubbinn og fært í geymslu lögreglu. Í gögnum málsins kemur fram að sýnið var sent Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði í innsigluðu umslagi dags. 1. ágúst 1997. Hákon kvað sig minna að einhver rannsóknaraðila hefði rofið innsiglið á umslaginu, sem hann hafi sett vindlingastubbinn í, strax þann 30. júní 1997. Hákon hafi síðan lokað umslaginu á ný og innsiglað áður en það var sent Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði, en ekkert var í umslaginu annað en vindlingastubburinn. Engin skýring er fram komin um það í hvaða skyni innsiglið var rofið. Tekið var blóðsýni úr ákærða og það rannsakað og borið saman við sýni er fundust á vindlingastubbnum, rannsókn var gerð á Rettmedisinsk Institutt, Universitetet í Oslo. Í lokaniðurstöðu Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði, sem dags. er 9. janúar 1998, segir svo: „Samkvæmt framanskráðu samrýmast rannsóknarniðurstöðurnar því að Sigurjón Pétursson hafi reykt sígarettuna, sem fannst á brotavettvangi í máli þessu. Í niðurstöðunni, sem undirrituð er af Bente Mevåg, Overingeniör og Britt Eriksen, Avd.ing. segir að tíðni þess að fyrirfinnist samsætur svo sem rannsóknin leiddi í ljós á sígarettunni væru miklu minni en 1/1 000 000 í Noregi og þykja ekki efni til að draga í efa að hlutfallið sé svipað hérlendis.”

                Ákærði neitar sök samkvæmt þessum kafla ákærunnar. Hann kvaðst á þessum tíma hafa verslað nokkuð í versluninni Straumnesi, en ekki vita hvernig vindlingastubbur, sem DNA rannsókn gefur til kynna að ákærði hafi reykt, fannst í rými í versluninni, svo sem gögn málsins sýna. Ákærði kvaðst aldrei hafa farið inn í rýmið, þar sem vindlingastubburinn fannst.

                Vitnið Sigurður Benjamínsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn. Hann staðfesti skýrslu sem hann ritaði eftir húsleit á heimili ákærða og ÓL hinn 9. júlí 1997. Í skýrslunni segir að leitin hafi verið gerð vegna gruns um að ÓL og Sigurjón ættu hlut að máli í innbroti í verslunina Straumnes, en Sigurjón væri þekktur af því að opna peningaskápa á þann hátt sem gert var í versluninni. Sigurður staðfesti að við leitina hefði fundist uppdráttur, sem talinn var geta verið af versluninni Straumnesi og útskýrði Sigurður rissið fyrir dóminum með hliðsjón af teikningu af versluninni.

                Vitnið Heiðar Magnús Sigurðsson kaupmaður kom fyrir dóminn og útskýrði skjöl, sem sýna áttu helgarsölu verslunarinnar Straumnes. Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð hans frekar.

                Vitnið Linda Gústafsdóttir kom fyrir dóminn og staðfesti að hafa hinn 27. júní 1997 gefið út tékka að fjárhæð 2.500 krónur til að greiða fyrir vöru í versluninni Straumnesi. Tékkinn átti að geymast til mánaðarmóta júní-júlí. Samkvæmt lögregluskýrslu tekinni af ÓL notaði hún tékka þennan í Skaftárskála á Kirkjubæjarklaustri hinn 5. ágúst sl., en tékkann kvaðst hún hafa fengið í hendur hjá ónafngreindum manni í lok júní 1997. Hún kvaðst ekkert vita um innbrotið í verslunina Straumnes.

                Ákærði var einnig yfirheyrður hjá lögreglunni 6. ágúst sl. um tékka þennan og kvaðst hann ekkert um hann vita og ekki hafa verið samferða ÓL deginum áður er hún var stödd á Kirkjubæjarklaustri og notaði tékkann.

                V.2. Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Hann kvaðst hafa verið staddur á hótelinu á þessum tíma ásamt fleira fólki, en mikill straumur fólks hafi verið þar um nóttina og ákærði sofnað og vaknað um morguninn er lögreglan kom á staðinn. Engin vitni hafa verið leidd vegna þessa ákæruliðar.

                V.3. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst ekki hafa haft efnið sem fannst á gólfi fangamóttökunnar í sínum vörslum, en muna er fangaverðir tóku efnið upp af gólfinu og sagt ákærða eiga það.

                Vitnið Elín Agnes Kristínardóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti því er hún varð vitni að því er ákærði fór með höndina í hægri buxnavasa og fleygði á gólfið brúnu efni sem lögreglan síðan fann og lýst er í þessum ákærulið. Öruggt sé að efnið hafi verið frá ákærða komið.

                Vitnið Kristján Helgi Þráinsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti því er ákærði var færður í fangamóttöku 18. desember sl. og hann hefði þá fleygt á gólfið efni sem lögreglan lagði hald á og taldi hassmola, eins og lýst er í þessum ákærulið. Efnið sem lögreglan fann hefði verið frá ákærða.

                V.4. Ákærði kvað þennan ákærulið réttan.

                VI. Lögreglu var tilkynnt um þjófnað verðmæta á Landspítala 11. nóvember sl. Gefin var lýsing á karli og konu, sem sést hefði til á spítalanum með tösku meðferðis. Síðar sama dag barst lögreglunni tilkynning um að sést hefði til karls og konu í garði hússins nr. 7 við Fjölnesveg. Þar fann lögreglan hluta þýfis af Landspítalanum og einnig debetkort ákærða Sigurjóns og ýmis gögn er tengdust ákærðu E.

                Ákærði neitar sök. Hann kvaðst telja það sem fannst tilheyra E, en ekki sér. Hann kvaðst muna eftir því að hafa farið inn í húsnæði Landspítalans til að hringja, en eftir það hefði E horfið með töskuna. Í henni hefðu verið munir sem ákærði átti. Hjá lögreglunni kvaðst ákærði enga skýringu geta gefið á því hvers vegna debetkort hans hefði fundist í töskunni, sem fannst við Fjölnesveg 7, en hann hefði týnt kortinu í nóvembermánuði. Meðákærða E játaði fyrir dóminum að hafa gerst sek um þá háttsemi, sem hér er ákært út af. En hennar þáttur í málinu var skilinn frá. Hún neitaði að svara spurningum um meintan þátt meðákærða. E var yfirheyrð hjá lögreglunni vegna þessa máls og lýsti hún því þá að bæði ákærðu hefðu farið á Landspítalann þennan dag og haft tvær ferðatöskur meðferðis. Í töskunum var fatnaður ákærðu, en þau höfðu ekki fastan samastað á þessum tíma, að hennar sögn. Þau hefðu stolið verðmætunum af spítalanum og skilið aðra töskuna eftir við hús við Fjölnisveg.

                Ákæra 5. maí 1998

                I. Ákærði Óskar Þór bar í fyrstu fyrir dóminum á þann veg að hann hefði verið einn að verki er hann braust inn í Hálsasel 33 og stal þeim verðmætum, sem í þessum kafla ákærunnar greinir. Hann kvað framburð sinn hjá lögreglunni ekki eiga við nein rök að styðjast um þátttöku meðákærða R í þessum þjófnaði. Síðar í réttarhaldinu breytti ákærði framburði sínum og kvaðst hafa greint satt og rétt frá hjá lögreglunni um þennan sameiginlega þjófnað ákærðu, þar sem þeim verðmætum var stolið, sem ákært er út af. Ákærði staðfesti fyrir dóminum lögregluskýrslu, þar sem fram kemur að meðákærði R hefði ekið að húsi í Breiðholti og lagt bifreið sinni skammt frá leikskóla. Meðákærði hefði síðan spennt upp glugga á húsinu og ákærði komið síðan inn um aðaldyr eftir að hafa hringt dyrabjöllu. Þeir hefðu tekið til þýfið og borið út í bíl og flutt í geymslu hjá HS. Hann lýsti því er meðákærði skipti gjaldeyri úr innbrotinu í banka.

                Ákærði R neitar sök. Hann kvað framburð meðákærða um aðild sína að þessu máli rangan. Ákærði kvaðst hafa skipt erlendum gjaldeyri fyrir meðákærða Óskar Þór, en í fyrstu hafi ákærði ekki viljað greina frá því hjá lögreglunni til að verða ekki bendlaður í málið. Hann kvaðst ekki vita hvaðan þessi gjaldeyrir var, en kvað meðákærða Óskar oft fara til útlanda og gjaldeyririnn gæti verið úr slíkri ferð.

                II. Ákærða HS kvað háttsemi allra þriggja ákærðu rétt lýst í þessum ákærulið. Þau þrjú hafi farið saman akandi að Fannafold 121. Meðákærði R hefði vísað leiðina að þessu húsi, en ferðin í Breiðholtið hefði upphaflega verið farin til að útvega fíkniefni. Hún og meðákærði Óskar hefðu beðið í bifreiðinni meðan meðákærði R fór inn í húsið, en Óskar var þá sofandi. Áður hefði meðákærði R athugað hvort einhver væri heima í húsinu. Eftir að hann komst að því að svo var ekki hefði hann sent ákærðu og Óskar í burtu og sagst hringja síðar í þau, sem hann hefði gert, og hann þá sagt að hann væri inni í Fannafold 121 og búinn að taka til þau verðmæti sem stolið var. Eftir símtalið hefði ákærða ekið að húsinu og meðákærðu fært verðmætin úr anddyrinu og í bifreiðina, sem ekið var á brott. Hún lýsti því að hún hefði séð meðákærða R með seðlabúnt í bifreiðinni skömmu áður en lögreglan stöðvaði bifreiðina. Peningarnir hefðu verið úr innbrotinu og R haft orð á því að honum hefði þótt sanngjarnt að hann fengi þessa peninga einn, því hann hefði einn farið inn í húsið. Ákærði Óskar Þór hagaði framburði sínum varðandi þennan ákærulið í fyrstu á sama veg og lýst var í I. kafla ákærunnar að framan um meintan þátt ákærða R. Hann breytti síðan framburði sínum og kvað háttsemi ákærðu rétt lýst í þessum ákærulið. Hann staðfesti lögregluskýrslur þar sem hann lýsti atburðum efnislega samhljóða meðákærðu HS, en hennar framburður var rakinn að framan. Ekki þykir þörf á því að rekja framburð ákærða frekar hér varðandi þennan ákærulið.

                Ákærði R neitar sök og vísar framburði meðákærðu á bug sem röngum og telur að þau séu að reyna að hlífa einhverjum öðrum með því að bendla ákærða við málið.

[...],

Niðurstöður

                Ákæra 24. mars 1998

                I. Framburður ákærða Óskars Þórs er mjög óstöðugur um þennan lið ákærunnar. Lokaframburður hans um þátt meðákærða SA er sá ,,að hann hafi sótt bréfið með 90 skömmtum af LSD og fengið í sinn hlut helming efnisins, en hann hafi átt að sækja hina sendinguna, sem innihélt 310 skammta af samskonar efni. Ákærði hefði að öðru leyti verið einn að verki. Ákærði SA hefur ávallt staðfastlega neitað sök. Ákærði SA sendi ákærða Óskari Þór peninga til Hollands. Þeir eru sammála um það að þeir fjármunir tengist ekki sakarefni þessu og að mati dómsins verður sakfelling ekki reist á þessu eins og sönnunaraðstöðinni er háttað að öðru leyti.

                Meðal gagna málsins er óvenjumikill fjöldi upplýsingaskýrsla lögreglu, þar sem greint er frá ónafngreindum upplýsingaaðilum lögreglu. Í skýrslunum segir frá „aðila sem áður hefur gefið upplýsingar sem reynst hafa með öllu réttar”. Upplýsingar hafi borist frá „aðila sem ekki vildi láta nafns síns getið”. Upplýsingar frá „aðila sem þekkir vel til á fíkniefnamarkaðinum”. Upplýsingar hafi borist ÁFD „frá aðila sem óskaði nafnleyndar”. Ónafngreindur maður „mjög áreiðanlegur upplýsingaaðili hafi haft samband við lögreglu” o.s.frv. Í þessum skýrslum er lýst að öðru leyti upplýsingum um meint fíkniefnamisferli ákærðu á þeim tíma, sem hér um ræðir. Skýrslur þessar kunna að hafa eitthvert gildi á rannsóknarstigi máls, en þær hafa hins vegar ekkert sönnunargildi eins og hér stendur á og er þeim hafnað sem sönnunargögnum. Dómurinn telur framlagningu slíkra skjala af hálfu ákæruvaldsins þýðingarlausa að óbreyttum lögum og réttarframkvæmd um sönnun í opinberum málum.

                Með vísan til alls ofanritaðs telur dómurinn ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða SA, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er ákært út af og er hann því sýknaður.

                Sannað er með skýlausri játningu Óskars Þórs, sem studd er gögnum málsins, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið, utan ósannað er að ákærði Óskar Þór hafi selt megnið af þeim 30 skömmtum af LSD, sem hann fékk í sinn hlut úr 90 skammta sendingunni. Hann er því sýknaður af þeim hluta þessa ákæruliðar.

                Ákærða Óskari Þór verður refsað fyrir brot gegn þeim lagaákvæðum, sem lýst er í ákærunni. En dómurinn telur brot ákærða svo alvarlegt að réttara hefði verið að heimfæra það undir 173. gr. a almennra hegningarlaga.

[...],

                III.1 og III.2. Með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem lýst er í þessum ákæruliðum.

                III.3. Ákærði hafði í fórum sínum efni, sem hann taldi LSD, en við rannsókn efnanna kom í ljós að svo var ekki.

                Dómurinn telur með þessu sannað að ákærði hafi með þessu gerst sekur um tilraunaverknað eins og lýst er í þessum ákærulið.

                Brot ákærðu í II. og III. kafla ákærunnar eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

                IV. Samkvæmt upplýsingum, sem fram koma í bréfi lögfræðings Búnaðarbanka Íslands hf., er verðmæti hraðbankans 1,8 milljónir króna og í bankanum voru 3.388.000 krónur í reiðufé er bankanum var stolið. Dómurinn telur samkvæmt þessu nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir um verðmæti hraðbankans, en sumir verjenda ákærðu andmæltu því að verðmæti bankans væri 1,8 milljónir króna.

                Ákærðu Gísli Freyr, H og Sigurjón hafa allir játað skýlaust sakarefnið samkvæmt þessum ákærulið og telur dómurinn samkvæmt því sannað, með vísan til játningar þeirra og gagna málsins, að þessir ákærðu hafi gerst sekir um þessa háttsemi og varða brot þeirra við 244. gr. almennra hegningarlaga, eins og í ákærunni greinir. Ákærði SA neitar sök. Ákærði Gísli kvað ákærða SA ekki hafa átt hlut að máli. Ákærði H kvaðst ekki geta fullyrt um það hvort ákærði SA hefði tekið þátt í þjófnaðinum.

                Framburður ákærða Sigurjóns er óstöðugur um ætlaðan hlut SA í þjófnaðinum, en bar þó að hann gæti ekki fullyrt hvort ákærði SA ætti hlut að máli. Vísað er að öðru leyti til framburða ákærðu er raktir voru að framan.

                Með vísan til alls þessa og eindreginni neitun ákærða SA er ósannað að hann hafi tekið þátt í þessum þjófnaði eins og lýst er í ákærunni og er hann því sýknaður.

                V.1. Dómurinn telur sannað með þeim vísindarannsóknum, sem lýst var að framan, að ákærði reykti vindling þann, sem rannsakaður var.

                Í lögregluskýrslu frá 12. september 1997 segir að vettvangur hafi verið ljósmyndaður og leitað hafi verið að fingraförum án árangurs og tók lögreglan í sínar verkfæri til rannsóknar. Þá hafi fundist sígarettustubbur undir einangrun sem engin í versluninni kannaðist við og að ekki eigi að reykja á þessu svæði eins og segir í lögregluskýrslunni. Vitnið Hákon Sigurjónsson lýsti því fyrir dóminum að síðar sama dag hafi verið hringt úr Straumnesi og greint frá því að starfsfólk verslunarinnar hefði fundið sígarettustubbinn en ekki lögreglan er vettvangur var rannsakaður. Ekki kemur nægilega í ljós hvar vindlingastubburinn fannst og ekki hefur verið merkt á ljósmyndir eða önnur gögn málsins hvar hann var, en ákærði hefur borið að hann hafi iðulega verslað í Straumnesi. Ekki var tekin lögregluskýrsla af aðilum þeim er fundu vindlinginn og óskaði ákæruvaldið ekki eftir að þessi vitni yrðu leidd undir aðalmeðferð málsins. Lögreglan sótti vindlingastubbinn í verslunina 30. júní 1997 og færði í geymslu í innsigluðu, lokuðu umslagi. Í ágústmánuði var vindlingastubburinn sendur til rannsóknar eftir að hafa verið innsiglaður í umslagi 1. ágúst. En þá hafði einhver rannsóknaraðila, sem ekki er vitað hver er, rofið innsiglið í þágu rannsóknar málsins. En fyrir liggur að ekkert var í umslaginu utan vindlingurinn, svo sem vitnið Hákon Sigurjónsson bar fyrir dóminum. Ekkert liggur fyrir um það í hvaða skyni innsiglið var rofið og hvernig það gat tengst rannsókn málsins.

                Dómurinn telur að gera verði strangar kröfur um vörslu sýna og sönnunargagna. Verður að vera unnt að rekja óslitið alla meðferð þeirra frá upphafi. Þessir starfshættir eru alkunna við meðferð sýna, svo sem blóðsýna. Ekkert liggur fyrir um hver fann vindlinginn og hvar nákvæmlega, en svo sem rakið var bar ákærði að hafa iðulega verslað í Straumnesi. Samkvæmt því er ekki loku fyrir það skotið að hann hafi þá skilið vindlinginn eftir í versluninni.

                Riss það sem getið var um að framan og vitnið Sigurður Benjamínsson kvað hugsanlegt að sýndi uppdrátt af versluninni Straumnesi þykir svo óskýrt að útilokað sé að slá nokkru föstu um það hvað þar er á ferð. Það skjal þykir því ekkert sönnunargildi hafa í málinu. Önnur þau sönnunargögn er ákæruvaldið hefur fært fram þykja ekki til þess fallin að ráða úrslitum.

                Þegar allt ofanritað er virt, og sérstaklega annmarkar á vörslum vindlingastubbsins, telur dómurinn að hafna verði því að vindlingurinn sé fullgilt sönnunargagn í máli þessu og er því ósannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi framið þá háttsemi, sem hér er ákært út af, og ber að sýkna hann.

                V.2. Engin vitni eða önnur sönnunargögn hafa verið færð fram af hálfu ákæruvaldsins vegna þessa ákæruliðar. Gegn eindreginni neitun ákærða er ekki sannað að hann hafi stolið seðlaveskinu og ber því að sýkna hann.

                V.3. Ákærði neitar sök. Dómurinn telur sannað, með vitnisburði Elínar Agnesar Kristínardóttur og Kristjáns Helga Þráinssonar, að ákærði henti frá sér efni því sem fannst í fangamóttökunni. Í frumskýrslu lögreglunnar um þetta segir að efnið hafi verið ætlað fíkniefni og var það sent tæknideild lögreglunnar með sérstakri rannsóknarbeiðni, þar sem þess var óskað að efnið yrði efnagreint og vegið. Samkvæmt efnaskrá tæknideildarinnar vó efnið 0,7 g, en í niðurstöðu segir að efnið hafi gefið jákvæða svörun sem amfetamín. Efnið var ekki sent Rannsóknarstofu í lyfjafræði til rannsóknar. Vegna alls ofanritaðs þykir of mikil óvissa um það hvers konar efni var um að ræða og þá hvort um fíkniefni var að ræða og ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

                V.4. Sannað er með skýlausri játningu ákærða að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem hér er ákært út af, og er brotið rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

                VI. Enginn þeirra aðila, sem lýstu því fyrir lögreglu að hafa séð til ferða karls og konu á spítalanum þennan dag, voru fengin til þess að bera kennsl á fólkið, en ákærði Sigurjón hefur ávallt neitað sök. Ákærðu voru sambýlisfólk á þessum tíma og því ekki loku fyrir það skotið að það skýri tilvist debetkorts ákærða í töskunni. Gegn eindreginni neitun ákærða Sigurjóns er ósannað að hann hafi verið á ferð með ákærðu E þennan dag er mununum var stolið og er hann því sýknaður.

                Ákæra 5. maí 1998

                I. Eins og rakið var að framan er framburður ákærða Óskars Þórs mjög óstöðugur um þennan ákærulið og hefur hann ýmist borið um að meðákærði R hafi átt hlut að máli eða ekki. Ekkert annað en óstöðugur framburður Óskars Þórs styður beint þátttöku ákærða R í broti því sem hér er ákært út af. Gegn eindreginni neitun ákærða R er ekki nægilega sannað að hann hafi átt hlut að máli og ber að sýkna hann. Sannað er með skýlausri játningu Óskars Þórs að hann hafi framið þá háttsemi, sem honum er gefið að sök, en verðmæti þýfisins hafa eigendur áætlað m.a. eftir verðskrá frá gullsmið. Þjófnaðarandlagið var því mikið, þótt ekki sé hægt að slá neinu endanlega föstu um það.

                II. Sannað er með skýlausri og efnislega samhljóða játningu ákærðu HS og Óskars Þórs, sem studd er öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða R, að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem hér er ákært út af.

[...],

                Brot ákærða samkvæmt ákærunni 5. maí 1998 eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

                Brot ákærðu Gísla Freys, H og Sigurjóns, sem lýst er í IV. kafla ákærunnar frá 24. mars sl., eru stórfelld og unnu þeir verkið í sameiningu og er það virt til þyngingar við ákvörðun refsingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

                Brot ákærða Óskars Þórs sem lýst er í I. kafla ákærunnar frá 24. mars sl. er stórfellt fíkniefnabrot.

                Ákærði Gísli Freyr gekkst undir lögreglustjórasátt fyrir fíkniefnabrot á árinu 1992 og þá gekkst hann undir viðurlagaákvörðun á árinu 1994 fyrir eignaspjöll. Í júní 1997 hlaut hann 30.000 króna sektardóm fyrir fíkniefnabrot.

                Refsing ákærða Gísla þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 12 mánuði. Brot ákærða er of stórfellt til að skilorðsbinding refsingarinnar komi til álita. Frá refsingunni skal draga 8 daga daga gæsluvarðhald ákærða.

[...]

                Ákærði Óskar Þór gekkst undir lögreglustjórasátt á árinu 1994 fyrir umferðarlagabrot. Brot hans eru stórfelld og þykir skilorðsbinding refsingar ekki koma til álita. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár, en frá refsivistinni komi 18 daga gæsluvarðhald ákærða.

                [...]

                Ákærði Sigurjón hefur frá árinu 1981 hlotið 14 refsidóma fyrir umferðarlagabrot, tollalagabrot, fíkniefnabrot, þjófnað, skjalafals, fjársvik og nytjastuld. Þá hefur hann frá árinu 1981 gengist undir 12 dómsáttir fyrir ýmiss konar afbrot, oft fyrir fíkniefnabrot, og eina lögreglustjórasátt fyrir umferðarlagabrot í janúar á þessu ári. Ákærði Sigurjón hlaut reynslulausn í tvö ár þann 18. maí 1997 á eftirstöðvum 240 daga refsivistar. Með brotum sínum, sem hann er nú sakfelldur fyrir, hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber nú að taka hana upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 1. mgr. 42. gr., sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 77. gr. sömu laga.

                Refsing ákærða Sigurjóns sem var frumkvöðull þjófnaðar hraðbankans er ákvörðuð með hliðsjón sakaferferli hans og 71., 72. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár og 6 mánuði, en til frádráttar refsingunni komi komi 14 daga gæsluvarðhald hans.

                [...]

                Vegna frádráttar gæsluvarðhalds er í öllum tilvikum vísað til 76. gr. almennra hegningarlaga.

                Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 skulu upptæk til ríkissjóðs 310 skammtar af LSD, 8,6 g af amfetamíni, 19,5 g af hassi, 7,9 g af marihuana og 34,9 g af kannabis.

                Ákærði Óskar Þór sæti upptöku á pesola grammavog.

                [...]

                Vegna upptöku á hendur ákærða Óskari Þór og SA er vísað til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

                Ákærðu Gísli Freyr, H og Sigurjón bera ábyrgð á skemmdum, sem unnar voru á hraðbankanum, en samkvæmt reikningi nam viðgerðarkostnaður 380.441 krónu. Þessir ákærðu eru dæmdir óskipt til að greiða Búnaðarbanka Íslands hf. þá fjárhæð auk vaxta eins og greinir í dómsorði.

                Ákærði Sigurjón er sýknaður af ákærulið V.1 og ber því að vísa skaðabótakröfu Jóns Egilssonar hdl. fyrir hönd Heiðars Vilhjálmssonar frá dómi.

                Bótakröfur á hendur ákærðu Sigurjóni og E var vísað frá dómi í máli E vegna samaðildar þeirra og verða því ekki dæmdar í máli þessu.

                Bótakrafa Karls Sigurhjartarsonar á hendur ákærðu Óskari Þór og R er að hluta, að því er best verður séð, reist á áætluðu verðmæti muna er stolið var og áætluðum skemmdum. Gegn andmælum ákærðu þykir krafa þessi ódómtæk og ber að vísa henni frá dómi.

                Bótakröfu Kára Jóns Halldórssonar var vísað frá dómi í máli HS, sem dæmt var sérstaklega. Bótakröfunni var vísað frá vegna samaðildar HS, Óskars Þórs og R og verður því ekki dæmd í þessu máli.

                Ákærðu greiði óskipt 200.000 krónur í saksóknarlaun í ríkissjóð, en Guðjón Magnússon fulltrúi flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

                Kostnaður vegna DNA rannsóknar greiðist úr ríkissjóði.

                Ákærði Óskar Þór greiði 172.608 krónur vegna efnagreininga fíkniefna sem fundust í fórum hans.

                Ákærði Gísli Freyr greiði verjanda sínum, Sigurði Georgssyni hrl., 250.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.

                [...]

                Ákærði Óskar Þór greiði verjanda sínum, Pétri Erni Sverrissyni hdl., 250.000 krónur í málsvarnarlaun.

                [...]

                Ákærði Sigurjón greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl., 1/3 hluta 250.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlauna á mót 2/3 hlutum, er greiðist úr ríkissjóði.

                [...]

                Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt

Dómsorð:

                Ákærði, Gísli Freyr Njálsson, sæti fangelsi í 12 mánuði. Frá refsivist hans dragist 8 daga gæsluvarðhald.

                [...]

                Ákærði, Óskar Þór Gunnlaugsson, sæti fangelsi í 2 ár. Frá refsivist hans dragist 18 daga gæsluvarðhald.

                [...]

                Ákærði, Sigurjón Pétursson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Frá refsivist hans dragist 14 daga gæsluvarðhald.

                [...]

                Upptækir til ríkissjóðs skulu 310 skammtar af LSD, 8,6 g af amfetamíni, 19,5 g af hassi, 7,9 g af marihuana og 34,9 g af kannabis.

                Ákærði Óskar Þór sæti upptöku á pesola grammavog.

                [...]

                Ákærðu Gísli Freyr, H og Sigurjón, greiði Búnaðarbanka Íslands hf. óskipt 380.441 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. febrúar 1998 til greiðsludags.

                Skaðabótakröfu Jóns Egilssonar hdl., f.h. Heiðars Vilhjálmssonar er vísað frá dómi.

                Skaðabótakröfu Karls Sigurhjartarsonar er vísað frá dómi.

                Ákærðu greiði óskipt 200.000 krónur í saksóknarlaun í ríkissjóð.

                Kostnaður vegna DNA rannsóknar greiðist úr ríkissjóði.

                Ákærði Óskar Þór greiði 172.608 krónur vegna rannsóknar efna sem fundust í hans fórum.

                Ákærði Gísli Freyr greiði verjanda sínum, Sigurði Georgssyni hrl., 250.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.

                [...]

                Ákærði Óskar Þór greiði verjanda sínum, Pétri Erni Sverrissyni hdl., 250.000 krónur í málsvarnarlaun.

                [...]

                Ákærði Sigurjón greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl., 1/3 hluta 250.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlauna á mót 2/3 hlutum er greiðist úr ríkissjóði.

                [...]

                Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt.