Hæstiréttur íslands

Mál nr. 367/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


Mánudaginn 7

 

Mánudaginn 7. júlí 2008.

Nr. 367/2008.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Úrskurður Héraðsdóms felldur úr gildi.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. júlí 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. ágúst 2008 kl. 16.00.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að honum verði bönnuð för í sveitarfélagið [...]. Að því frágengnu er þess krafist að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en sóknaraðili krefst.

Varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 3. apríl 2008, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en með dómi Hæstaréttar 19. maí 2008 var fallist á að gæsluvarðhald yfir honum væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ákæra var gefin út á hendur honum 30. júní 2008 þar sem honum eru gefin að sök kynferðisbrot gagnvart sjö stúlkum sem fæddar eru á tímabilinu 1994 til 1998. Með ákærunni, sem hefur að geyma 22 ákæruliði, eru ætluð brot heimfærð til ákvæða 2. mgr. 200. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr., 1. og 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá lýtur einn ákæruliður að vörslum myndefnis en það brot er talið varða við 4. mgr. 210. gr. sömu laga.

Samkvæmt 4. tölulið ákærunnar er varnaraðila gefið að sök að hafa í nokkur skipti haft samræði eða önnur kynferðismök við stjúpdóttur sína og eru þessi ætluðu brot hans talin varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga sem geta að gildandi lögum varðað fangelsi allt að 12 og 16 árum, sbr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 61/2007. Samkvæmt eldri lögum vörðuðu slík brot allt að 10 eða 12 ára fangelsi, sbr. 3. gr. og 4. gr. laga nr. 40/2003, sbr. áður 9. og 10. gr. laga nr. 40/1992. Samkvæmt framansögðu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um að ætluð brot varnaraðila geti að lögum varðað 10 ára fangelsi.

Af gögnum málsins er nægilega fram komið að sterkur grunur sé um að varnaraðili hafi framið slík brot gagnvart stjúpdóttur sinni sem honum eru gefin að sök í 4. tölulið ákæru. Með hliðsjón af eðli þessara ætluðu brota eru uppfyllt skilyrði þess að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og krafa sóknaraðila tekin til greina.

Dómsorð:

         Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

       Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. ágúst 2008 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. júlí 2008.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi frá mánudeginum 7. júlí nk. kl. 16.00 allt til þess er dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. ágúst nk. kl. 16.00.

Ákæra var gefin út á hendur ákærða 30. júní 2008 og var málið þingfest fyrr í dag.

Ákærði krefst þess aðallega að kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður styttri tími.

Krafan er reist á því að vegna alvarleika sakarefnisins sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þess tíma er dómur gengur í máli hans.

Mál þetta hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu um skeið og hefur ákærði setið í gæsluvarðhaldi frá 3. apríl 2008. Síðast var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald 14. maí sl. á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti 19. maí 2008 en gæsluvarðhaldstími styttur.  Ákæran, sem nú hefur verið gefin út, er í 22 liðum. Í 5 tilvikum er ákærða gefin að sök brot gegn 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í einu tilviki brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga en að öðru leyti gegn 209. gr. almennra hegningarlaga.

Þau brot sem ákærða eru gefin að sök í ákæru þykja ekki þess eðlis að fyrir hendi séu skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mál nr. 19/1991 til þess að honum verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Kröfu ríkissaksóknara í málinu er því hafnað.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu ríkissaksóknara um að ákærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi.