Hæstiréttur íslands

Mál nr. 765/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Neyðarvörn

Reifun

X var sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að systur sinni A með nánar tilgreindum afleiðingum. Með vísan til læknisvottorðs sem lá fyrir í málinu var ekki talið að viðbrögð X hefðu helgast af neyðarvörn sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga.Við ákvörðun refsingar var litið til 3. mgr. 70. gr. fyrrnefndra laga og refsing X ákveðin fangelsi í 60 daga en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi leitaði brotaþoli á slysa- og bráðadeild Landspítalans 12. janúar 2016, en þá voru liðnir tveir dagar frá þeim atvikum sem málið er sprottið af. Í læknisvottorði 15. mars sama ár, sem ritað var af sérfræðingi á deildinni, kom fram að tveir marblettir á stærð við fingurgóma hefðu sést á báðum upphandleggjum brotaþola. Einnig hefði verið rauður blettur undir vinstra kjálkabarði, um 2x3 cm að stærð, sem líktist nuddsári. Þá hefðu verið þreifieymsli í vöðvum beggja vegna hryggsúlu á hálsi, yfir herðavöðvum og í vöðvum beggja vegna hryggsúlu niður eftir efri hluta brjósthryggjar. Í niðurlagi vottorðsins kom fram að áverkar brotaþola gætu samrýmst því að gripið hefði verið harkalega um upphandleggi hennar og einnig gæti nuddsár á höku samrýmst frásögn hennar um að hún hefði verið tekin hálstaki aftan frá. Læknirinn, sem ritaði vottorðið, gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti þetta álit sitt. Að þessu virtu verður ekki talið að viðbrögð ákærða í umrætt sinn hafi getað helgast af neyðarvörn, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

Þegar brotið var framið var ákærði búsettur á heimili brotaþola, en hún er systir hans. Við ákvörðun refsingar ber því að líta til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 511.745 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Hauksonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2016.

                Mál þetta, sem dómtekið var 17. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 9. ágúst 2016 á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 10. janúar 2016, á þáverandi dvalarstað að [...] í Reykjavík, veist að systur sinni A, gripið um báða upphandleggi hennar og í beinu framhaldi tekið um háls hennar og hert að þar til að hann missti takið, síðan komið aftan að henni og gripið aftur um háls hennar og hert að, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut marbletti á báðum upphandleggjum, rauðan blett undir vinstra kjálkabarð, þreyfieymsli í vöðvum beggja vegna við hryggsúlu og þreyfieymsli yfir herðavöðvum. 

                Er þetta talið varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Þriðjudaginn 19. janúar 2016 mætti brotaþoli á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur bróður sínum, ákærða í máli þessu, fyrir líkamsárás. Við það tækifæri greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði, með leyfi brotaþola, flutt inn til brotaþola að [...] í Reykjavík 1. janúar 2016. Hefði verið um millibilsástand að ræða á meðan ákærði væri að leita sér að eigin húsnæði. Það hefði orðið að samkomulagi að ákærði og kona hans myndu aðstoða brotaþola með greiðslu á húsaleigu. Á þeim tíma er atvik urðu hafi ósætti verið á milli brotaþola og systur hennar B. Sunnudaginn 10. janúar 2016 hafi þetta verið rætt á heimili brotaþola en systir hennar hafi komið á heimilið. Er þær systur hafi verið að ræða saman hafi ákærði ítrekað gripið inn í og svarað fyrir hönd B. Hafi brotaþoli spurt hann að því hvort hann væri allt í einu orðinn lögfræðingur. Ákærði hafi brugðist illa við og orðið reiður. Hafi brotaþoli á endanum orðið reið og sagt ákærða að hann væri ekki lengur velkominn inn á heimilið. Þau hafi rætt saman og ró komist á.

Er brotaþoli hafi verið á leið niður á neðri hæð íbúðarinnar hafi hún sagt ákærða að hann þyrfti ekki að greiða henni lengur leigu. Ákærði hafi orðið mjög reiður og gripið um báða handleggi hennar. Brotaþoli hafi reynt að losa sig en ákærði þá gripið um háls hennar og hert að. Eiginkona ákærða og systir brotaþola, B, hafi komið að og reynt að losa um hendur ákærða. Brotaþoli hafi losnað og systir brotaþola sagt henni að fara í burtu. Áður en brotaþoli komst á brott hafi ákærði komið aftan að henni og gripið um háls hennar með vinstri handlegg og hert að. Hafi hann sveigt hana aftur á bak en hún hafi fengið hjálp til að losna frá honum og komist inn í eldhús þar sem hún hafi reynt að finna eitthvað til að verja sig með. Hún hafi ekkert fundið. Ákærði hafi ekki komist að brotaþola eftir þetta þar sem eiginkona hans og systur brotaþola hafi varnað því. Brotaþoli hafi leitað á slysadeild 12. janúar 2016. Þá hafi komið í ljós áverkar er hún hafi fengið við atlöguna.

Sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 15. mars 2016 ritað læknisvottorð, vegna komu brotaþola á slysadeild, 12. janúar 2016. Í vottorðinu kemur meðal annars fram að brotaþoli hafi kvartað yfir stífleika í aftanverðum hálsi. Á báðum upphandleggjum sæjust marblettir á stærð við fingurgóma. Tveir væru á hvorum upphandlegg. Einnig sæist rauður blettur undir vinstra kjálkabarði sem líktist nuddsári, og væri hann 2x3 cm að stærð. Þreyfieymsli væru í vöðvum beggja vegna hryggjarsúlu á hálsi. Eins væru þreyfieymsli yfir herðavöðvum, sem og í vöðvum beggja vegna hryggsúlu niður eftir efri hluta brjósthryggjar. Samrýmdust áverkar því að gripið hefði verið harkalega um upphandleggi brotaþola. Eins gæti nuddsár á höku samrýmst því að hún hefði verið tekin hálstaki aftanfrá.

Ákærði hefur skýrt svo frá að umrætt sinn hafi hann verið heima á þáverandi dvalarstað sínum að [...] í Reykjavík, þar sem brotaþoli hafi átt heimili. Hafi ákærði, ásamt fjölskyldu sinni, leigt aðstöðu af brotaþola. Systur ákærða hafi átt í deilum og ekki rætt saman. Ákærði hafi reynt að fá þær til að sættast. Að kvöldi 10. janúar 2016 hafi ákærði komið heim og þau hjónin ætlað að fá sér kvöldmat saman. Brotaþoli hafi verið mjög reið þetta kvöld en hún og systir hennar C hafi náð að ræða saman. Það hafi gengið vel allt þar til brotaþoli reiddist aftur og nú við ákærða. Ákærða hafi brugðið, en hann hafi talið sig vera að stilla til friðar og m.a. fyrir brotaþola. Hún hafi móðgað ákærða og ákærði látið hana vita að hann þyldi ekki slíka framkomu. Hún hafi ekki látið sér segjast svo hann hafi staðið upp frá borðum og spurt brotaþola hvað hún vildi gera við sig. Brotaþoli hafi slegið ákærða og reynt að bíta hann þannig að ákærði hafi þurft að halda um báðar hendur hennar til að hún meiddi hann ekki. Hún hafi reynt að ná í hár hans, en ekki tekist það. Hann hafi komið aftan að henni og haldið um báðar hendur hennar aftan frá. Dóttir brotaþola hafi komið og spurt hvað verið væri að gera við hana. Ákærði hafi sleppt henni og brotaþoli farið í eldhúsið þar sem hún hafi reynt að finna hníf til að ráðast á ákærða með. Kvaðst ákærði hafa spurt brotaþola að því hvort hún ætlaði að drepa hann. Í framhaldi þessa hafi brotaþoli farið á brott. Ákærði kvaðst ekki hafa gripið um háls hennar, svo sem honum væri gefið að sök. Hann kvað áverka á höndum hennar sennilega til komna er hann hafi haldið henni.

Brotaþoli hefur greint svo frá að hún og systur hennar hafi verið ósáttar. Hafi þær ekki rætt mikið saman. Umræddan dag hafi staðan verið óbreytt og einhver systirin farið að gráta. Ákærði hafi farið að skipta sér af og tekið málstað einnar systurinnar,B. Á einhverjum tímapunkti hafi brotaþoli spurt ákærða hvort hann væri lögfræðingur líka, en hann hafi svarað öllum spurningum er beinst hafi að B. Ákærði hafi hrópað á brotaþola og sagt að hann ætlaði að lemja hana. Hann hafi beint fingrum að augum hennar eins og hann ætlaði að stinga fingri í þau og hafi hún slegið á fingur hans. Brotaþoli hafi í framhaldi ætlað að fara niður á neðri hæð íbúðarinnar en ákærði áfram verið að tala við hana. Ákærði hafi farið inn í setustofu og brotaþoli verið fyrir aftan hann. Hún hafi sagt að hann skyldi ekki greiða sér neina húsaleigu, þar sem hann ætti að flytja út. Ákærði hafi komið aftan að brotaþola og gripið um báðar hendur hennar. Hún hafi reynt að losa sig. Ákærði hafi í tvígang tekið brotaþola hálstaki. Í annað skiptið hafi ákærði verið fyrir aftan brotaþola og haldið um handleggi hennar þvert yfir brjóstið og um háls. Í síðara skiptið hafi ákærði notað aðra höndina er hann hafi tekið brotaþola hálstaki. Systur brotaþola hafi komið að og reynt að losa hana úr höndum ákærða. Allir hafi verið í miklu uppnámi og systur brotaþola grátið. Brotaþoli hafi hlaupið inn í eldhús til að reyna að finna eitthvað til að verjast ákærða með en ekkert fundið. Úr þessu hafi ástandið róast. Brotaþoli kvaðst við árás ákærða hafa hlotið áverka á hálsi og af þeim ástæðum hafi hún leitað á slysadeild.

B, systir brotaþola, hefur greint svo frá að systir hennar og brotaþola,C, hafi komið heim til þeirra að [...], sunnudaginn 10. janúar 2016. Ósætti hafi verið á milli systranna og ákærði reynt að miðla málum. Ákærði hafi rætt við C og brotaþoli verið á neðri hæð íbúðarinnar á meðan. Brotaþoli hafi komið upp án þess að ákærði yrði þess var og heyrt tal ákærða og orðið mjög reið.B hafi orðið leið vegna alls þessa og farið í burtu. Ákærði, brotaþoli og C hafi öskrað hvert á annað. B hafi verið aðeins frá er hún hafi séð brotaþola ýta í ákærða. Ákærði hafi reynt að verjast brotaþola og í því skyni tekið utan um hana aftanfrá. Hafi hann tekið um axlir hennar til að halda henni. Brotaþoli hafi losnað og farið inn í eldhús í leit að hnífi, en verið stöðvuð áður en voði hlytist af.

C, systir brotaþola, bar á þann veg að deilur hafa verið í gangi innan fjölskyldunnar. Umrætt sinn hafi atvik þróast á þann veg að ákærði hafi reynt að pota í augu brotaþola. Brotaþoli hafi slegið á hendur ákærða. Ákærði hafi þá komið aftan að henni og tekið hana hálstaki einu sinni. Henni hafi tekist að losna og C og eiginkona ákærða haldið þeim sundur. Brotaþoli hafi ætlað inn í eldhúsi til að ná í hníf en henni hafi verið vörnuð för þangað inn.

Eiginkona ákærða bar á þann veg að ákærði hafi reynt að sætta systur sínar. Umrætt sinn hafi ákærði verið að borða. Brotaþoli hafi hrist stól ákærða. Hann hafi staðið á fætur og spurt brotaþola hvað hún vildi og hvort hún vildi meiða hann. Í framhaldi hafi brotaþoli slegið á báðar hendur ákærða. Hún hafi einnig slegið ákærða á annan vangann. Hann hafi reynt að taka um hendur hennar og sagt henni að hætta. Brotaþoli hafi meðal annars hótað að drepa ákærða. Ákærði hafi í upphafi haldið um handleggi brotaþola en hún snúið sig út úr takinu. Ákærði hafi þá verið kominn fyrir aftan brotaþola og haldið utan um hana. Brotaþoli hafi farið fram í eldhús til að ná í hníf. Ein systir brotaþola hafi varnað henni för. Systur brotaþola hafi gengið á milli til að reyna að sætta aðila.

Dóttir brotaþola hefur skýrt svo frá að brotaþoli og systur hennar hafi verið að rífast. Dóttirin hafi verið á neðri hæð íbúðarinnar en aðrir á efri hæð. Er dóttirin hafi komið upp hafi hún séð ákærða við að kyrkja brotaþola. Systur brotaþola hafi verið grátandi og hrópað á hann að sleppa brotaþola. Hafi hann verið með handleggi um háls hennar og verið fyrir aftan hana. Hann hafi haldið um báða handleggi hennar aftanfrá, í kross yfir brjóst hennar. Systur brotaþola hafi náð að losa tak hans. Næsta dag hafi hún verið með verki í líkamanum vegna átakanna og leitað á slysadeild á þriðjudeginum á eftir.

Sérfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi greindi frá því að brotaþoli hafi greint frá því að hún hafi verið tekin hálstaki aftanfrá. Hafi áverkar er brotaþoli hafi greinst með getað samrýmst þeirri frásögn hennar. Blettur á höku hafi getað komið til við nudd vegna hálstaks.

Niðurstaða:

Ákærða er gefin að sök líkamsárás sunnudaginn 10. janúar 2016, á þáverandi dvalarstað sínum í Reykjavík, með því að hafa gripið um báða upphandleggi brotaþola og í kjölfarið tekið um háls hennar og hert að þar til hann missti takið, en síðan komið aftan að henni og gripið um háls hennar og hert að. Er háttsemi ákærða talin varða við 217. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði neitar sök. Hefur hann viðurkennt að hafa gripið um handleggi brotaþola er hún hafi veist að honum. Hann hafi ekki tekið brotaþola hálstaki og hert að, svo sem honum sé gefið að sök. Ákærði kveður ekki útilokað að brotaþoli hafi fengið áverka þá er í ákæru greinir við það að hann hafi haldið henni. Það hafi hann gert til að brotaþoli myndi ekki veita honum áverka. 

Brotaþoli og tvær systur hennar og ákærða komu fyrir dóminn og greindu frá atvikum. Þá komu fyrir dóminn dóttir brotaþola og eiginkona ákærða. Skiptast framburðir vitna nokkuð í tvö horn. Þannig bera eiginkona ákærða og systirin B að ákærði hafi verið að verjast árás brotaþola. Hafi hann einungis haldið um hendur brotaþola til að verjast henni. Brotaþoli, systir hennar C og dóttir brotaþola bera hins vegar um að ákærði hafi ráðist á brotþola, komið aftan að henni og gripið um hendur hennar aftanfrá með því að krossleggja hendur hennar yfir brjóst hennar. Brotaþoli hefur á hinn bóginn greint frá því að ákærði hafi í tvígang tekið hana hálstaki.

Brotaþoli greindist með þá áverka er í ákæru greinir við komu á slysadeild tveimur dögum eftir atvikið. Við það tækifæri greindist brotaþoli með marbletti á báðum upphandleggjum, rauðan blett undir vinstra kjálkabarði, þreyfieymsli í vöðvum beggja vegna hryggsúlu og þreyfieymsli yfir herðavöðvum. Læknir er bar um læknisvottorð vegna brotaþola taldi þessa áverka geta komið heim og saman við að hún hafi verið tekin hálstaki aftanfrá. 

Framburðir ákærða og vitna eru ekki fyllilega skýrir um einstaka þætti í atburðarásinni. Fyrir liggur þó að ákærði greip um báða handleggi brotaþola umrætt kvöld og er komið fram að hann hafi þá staðið fyrir aftan brotaþola. Ekki er hins vegar óyggjandi að ákærði hafi tekið um háls brotaþola, svo sem honum er gefið að sök. Virðist öllu fremur sem ákærði hafi að einhverju leyti þrengt að öndun brotaþola með því að standa fyrir aftan hana, halda um báða handleggi hennar og þrýsta þeim að brjósti hennar. Brotaþoli fékk áverka í kjölfar þessara atvika sem í ákæru er lýst. Sú háttsemi ákærða sem fyrir liggur og lýst er hér að framan fól í sér líkamsárás, sem felld verður undir 217. gr. laga nr. 19/1940. Að þessu virtu verður ákærði sakfeldur samkvæmt ákæru.

                Ákærði er fæddur í október 1970. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Með hliðsjón af háttsemi ákærða er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, sem í ljósi sakaferils þykir unnt að skilorðsbinda með þeim hætti er í dómsorði greinir.  

                 Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem nánar greinir í dómsorði.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði 465.660 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 429.660 krónur.